Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 53. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 53  —  53. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.


Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir,
Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,
Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      3. mgr. A-liðar orðast svo:
             Barnabætur skulu árlega nema 56.096 kr. með öllum börnum yngri en 10 ára á tekjuárinu.
     b.      3. málsl. 4. mgr. A-liðar orðast svo: Barnabætur samkvæmt þessari málsgrein skerðast í jöfnu hlutfalli við tekjuskattsstofn umfram 3.000.000 kr. hjá hjónum og umfram 1.500.000 kr. hjá einstæðu foreldri.

2. gr.

    B-liður 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 2007 en a-liður 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008.

Greinargerð.


    Tilgangur þessa frumvarps er að bæta verulega barnabótakerfið með því að draga verulega úr þeirri gífurlegu skerðingu sem er til staðar en tekjutengdar barnabætur skerðast nú við um 77 þús. kr. tekjur hjá einstæðu foreldri og um 155 þús. kr. samanlagðar tekjur hjóna eða sambúðaraðila. Auk þess er hér stigið veigamikið skref í því að hækka aldursmörk ótekjutengdra barnabóta sem nú eru einungis greiddar að 7 ára aldri barns.
    Á umliðnum áratug hafa barnabætur verið skertar verulega. Varla er lengur hægt að kalla þær barnabætur og væri nær sanni að kalla þær láglaunabætur. Á árinu 2003 fengu um 11,3% einstæðra foreldra óskertar barnabætur en aðeins um 3% hjóna. Hlutur ótekjutengdra barnabóta af heildargreiðslum, sem allir foreldrar barna fá óháð tekjum, var um 56% á árinu 1995 þegar núverandi ríkisstjórn tók við en var kominn niður í um 20% á árinu 2005. Á árinu 1995 voru greiddar ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri en nú eru þær einungis greiddar til barna að 7 ára aldri. Barnabætur skerðast nú við um 77 þús. kr. mánaðartekjur hjá einstæðu foreldri, sem er langt undir lágmarkslaunum, og hjá hjónum skerðast barnabætur við um 155 þús. kr. mánaðartekjur.
    Á árinu 2005 var varið um 1 milljarði kr. lægri fjárhæð að raungildi til barnabóta en á árinu 1995 þegar þessi ríkisstjórn tók við. Jafnvel þótt að um 2,4 milljörðum kr. hærri fjárhæð verði varið til barnabóta á árinu 2006 og 2007 eins og áformað er þá hafa barnabæturnar engu að síður lækkað verulega að raungildi frá því að núverandi stjórnarflokkar komust til valda.
    Á föstu verðlagi voru útgjöld til barnabóta tæpir 6,5 milljarðar kr. á árinu 1995 en á þessu ári eru útgjöld til barnabóta tæpir 6 milljarðar kr. Sem hlutfall af landsframleiðslu voru útgjöld til barnabóta um 1% á árinu 1995 en voru komin niður í um 0,5% á árinu 2005.
    Á árinu 2007 hefur ríkisstjórnin ákveðið, í tengslum við kjarasamninga fyrr á þessu ári, að draga nokkuð úr tekjutengingu bóta og skerðingarmörkum þeirra. Engu að síður er miðað við mjög lágar tekjur hjá þeim sem fá óskertar bætur. Í stað þess að skerðing á barnabótum byrji við 77 þús. kr. mánaðartekjur hjá einstæðu foreldri verður miðað við 92 þús. kr. eftir breytinguna á næsta ári. Hjá hjónum verður miðað við að skerðing á barnabótum byrji við 185 þús. kr. mánaðartekjur í stað 155 þús. kr. nú. Í kjarasamningunum náði verkalýðshreyfingin því einnig fram að aldursviðmið tekjutengdra barnabóta verða hækkuð úr 16 í 18 ára aldur.
    Brýnt er að við breytingar á barnabótakerfinu verði sett í forgang að rýmka skerðingarhlutföllin mun meira en áform ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir. Í þessu frumvarpi er lagt til að skerðingarmörkin verði miðuð við lágmarkstekjutryggingu í dagvinnu. Óskertar barnabætur yrðu þá greiddar einstæðum foreldrum með tekjur að 125 þús. kr. á mánuði eða 1,5 millj. kr. í árstekjur. Hjón með tekjur að 250 þús. kr. á mánuði eða 3 millj. kr. í árstekjur fengju einnig óskertar barnabætur. Með þessari breytingu mundu um 31,3% einstæðra foreldra og um 10,5% hjóna fá óskertar bætur af heildarfjölda þeirra sem fá barnabætur. Það yrði til þess að einstæðum foreldrum og hjónum sem fá óskertar barnabætur fjölgaði um 2.000 í hvorum hópi og að fjöldi barna sem óskertar barnabætur næðu til yrði um 4.700.
     Með þessu frumvarpi er einnig stigið fyrsta skrefið í að hækka aldursviðmið sem lagt er til grundvallar greiðslu ótekjutengdra barnabóta. Nú eru ótekjutengdar barnabætur greiddar með börnum frá 0–6 ára aldurs en þær falla niður við 7 ára aldur barns. Lagt er til að ótekjutengdar barnabætur greiðist einnig með börnum 7–9 ára eða að 10 ára aldri barns, sem er áfangi á þeirri leið að hækka enn frekar ótekjutengdar barnabætur. Þegar miðað var við að ótekjutengdar barnabætur næðu til allra barna að 7 ára aldri var miðað við leikskólaaldur og þá til að mæta kostnaði af leikskóladvöl eða dagvistun. Rökin fyrir því að breyta þessu nú er að börn í a.m.k. fyrstu þremur bekkjum grunnskóla eru oft í dagvistun í skólanum eftir að námi lýkur á daginn og er kostnaðurinn við það auk heitrar máltíðar um 20.000 kr. á mánuði, nokkuð mismunandi þó eftir sveitarfélögum.
    Nú eru greiddar ótekjutengdar barnabætur með 29.575 börnum 0–6 ára eða að 7 ára aldri. Með þeirri breytingu að hækka aldursviðmiðið og bæta við börnum frá 7–9 ára eða að 10 ára aldri yrði greitt með 42.567 börnum eða um 13.000 fleiri en nú er. Heildarkostnaður við þær breytingar sem hér eru lagðar til eru um 1,6 milljarða kr.
    Í flestum löndum miðast greiðslur barnabóta við 18 ára aldurinn. Í tengslum við síðustu kjarasamninga gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu um að aldursviðmið vegna tekjutengdra barnabóta yrði hækkað úr 16 ára aldri í 18 ára. Ríkisstjórnin hefur ekki viljað fallast á að hreyfa við aldursviðmiði varðandi ótekjutengdar barnabætur, enda er Ísland eitt fárra landa sem ekki greiða öllum barnabætur að 18 ára aldri barna.
    Ástæða er til að fara nokkrum orðum um stöðu barnabóta í öðrum löndum, en í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns þessa frumvarps á árinu 2000 kom eftirfarandi í ljós:
     Danmörk:
    Barnabætur eru hvorki tekjutengdar né skattskyldar og greiðast með öllum börnum að 18 ára aldri.
    Noregur:
    Barnabætur eru skattfrjálsar og án tekjutengingar og greiðast með öllum börnum 16 ára og yngri.
     Svíþjóð:
    Barnabætur greiðast vegna allra barna 16 ára og yngri. Barnabætur til barnmargra fjölskyldna eru hærri þegar börnin eru orðin þrjú eða fleiri. Þær eru skattfrjálsar og án tekjutengingar.
     Finnland:
    Barnabætur greiðast með börnum til 17 ára aldurs og fer fjárhæð bótanna eftir fjölda barna í hverri fjölskyldu. Bæturnar eru skattfrjálsar og án tekjutengingar.
    Í aðildarríkjum OECD eru barnabætur án tekjutengingar í öllum löndum nema í Ástralíu, Grikklandi, Ítalíu, Kanada, Portúgal og á Spáni auk Íslands. Aldursmörkin eru 16 eða 18 ár og er skiptingin nokkuð jöfn. Í einu landi eru aldursmörkin 17 ár.
    Eins og sést af framangreindu yfirliti er Ísland langt á eftir flestum þeim þjóðum sem við berum okkur saman við í að styrkja barnafjölskyldur með sómasamlegum greiðslum barnabóta.
    Með þessu frumvarpi er stigið veigamikið skref í þá átt að bæta barnabótakerfið og bæta stöðu og kjör barnafjölskyldna sem er veigamikill þáttur í því velferðarkerfi sem jafnaðarmenn vilja búa landsmönnum.