Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 57. máls.

Þskj. 57  —  57. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „56%“ í a-lið 1. mgr. kemur: 82%.
     b.      B-liður 1. mgr. fellur brott.
     c.      D-liður 1. mgr. fellur brott.
     d.      4. mgr. orðast svo:
             Sinfóníuhljómsveitin og Ríkisútvarpið skulu gera með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar.

2. gr.

    Í stað orðsins „Ríkisútvarpinu“ í 1. málsl. 4. gr. laganna kemur: menntamálaráðuneytinu.

3. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar er heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveður nánar um skipulag og hlutverk nefndarinnar.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt með það fyrir augum að fella niður ákvæði laga um þátttöku Ríkisútvarpsins í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það sama verði einnig gert um þátttöku Seltjarnarnesbæjar í rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar.
    Með lögum nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, var mælt fyrir um hvernig standa skyldi að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Skv. 1. mgr. 3. gr. laganna var mælt fyrir um greiðsluþátttöku eftirfarandi aðila og var hún svohljóðandi:

          Aðili                  Greiðsluþátttaka
     a.      Ríkissjóður     56%
     b.      Ríkisútvarpið     25%
     c.      Borgarsjóður Reykjavíkur     18%
     d.      Bæjarsjóður Seltjarnarness     1%
    Frumvarp þetta er liður í endurskipulagningu á rekstri Ríkisútvarpsins. Í menntamálaráðuneytinu hefur verið unnið að samningu frumvarps þar sem ráðgert er að breyta rekstri Ríkisútvarpsins þannig að hlutafélag verði stofnað og taki við rekstri þess. Vegna þess er með frumvarpi þessu ráðgert að fella úr gildi þá lagaskyldu sem felst í b-lið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1982, um Sinfóníuhljómsveit Íslands, að Ríkisútvarpið greiði sem nemur 25% af rekstri hljómsveitarinnar. Að teknu tilliti til þessarar breytingar er eðlilegt að Ríkisútvarpið eigi ekki lengur fulltrúa í stjórn hljómsveitarinnar og því er lagt til að menntamálaráðuneytið tilnefni mann í stjórn.
    Varðandi niðurfellingu á greiðsluþátttöku Seltjarnarnesbæjar í rekstri hljómsveitarinnar, sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir, hefur bæjarstjórn Seltjarnarness ítrekað móttmælt því að greiðsluþátttaka sveitarfélagsins í gildandi lögum standi óhögguð og óskað eftir því að lagabreyting verði gerð á þann veg að fella hana niður. Hefur bæjarstjórn bent á að þegar hún samþykkti aðild að rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar á árinu 1982 hafi verið gert ráð fyrir því að fleiri sveitarfélög en Reykjavík og Seltjarnarnes tækju þátt í rekstrinum, en svo hefði ekki orðið. Með frumvarpinu er orðið við þessum óskum Seltjarnarnesbæjar og því lagt til að d-liður 1. mgr. 3. gr. falli brott. Áfram er hins vegar gert ráð fyrir greiðsluþátttöku Reykjavíkurborgar í rekstri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, enda náin samvinna milli ríkisins og Reykjavíkurborgar á ýmsum sviðum menningarstarfsemi, svo sem vegna Listahátíðar í Reykjavík og nú síðast samstarfsverkefni ríkis og Reykjavíkurborgar um byggingu tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík þar sem m.a. hljómsveitin mun hafa aðstöðu.
    Með hliðsjón af framansögðu er með frumvarpi þessu lagt til að lagaskylda sú sem hvílt hefur á Ríkisútvarpinu og Seltjarnarnesbæ um þátttöku þeirra í rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitar Íslands verði felld niður og að framlag ríkissjóðs hækki sem nemur þessum framlögum úr 56% í 82%.
    Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að greiðsluþátttaka Ríkisútvarpsins í rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar falli niður er lögð til orðalagsbreyting á 4. mgr. 3. gr. laganna er varðar samning milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins um réttindi Ríkisútvarpsins til flutnings á tónlistarefni hljómsveitarinnar. Samkvæmt frumvarpinu verður ekki lengur um að ræða flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar „á móti framlagi útvarpsins“, eins og fram kemur í ákvæðinu, og er því lagt til að Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ríkisútvarpið hf. geri með sér samning um flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar til að tryggja áframhaldandi samstarf þeirra. Vilji er til þess af hálfu Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins að viðhalda samstarfi um flutning tónlistarefnis hljómsveitarinnar, og frekar að auka hann en draga úr.
    Jafnframt eru lagðar til breytingar á orðalagi 7. gr. laganna sem fjallar um sjö manna verkefnavalsnefnd hljómsveitarinnar. Samkvæmt gildandi lögum tilefnir Ríkisútvarpið einn í nefndina, en í ljósi frumvarps þessa þykir rétt að sá fulltrúi falli brott. Þar sem breyta þarf umræddu ákvæði hefur komið fram vilji af hálfu Sinfóníuhljómsveitarinnar um að breyta enn frekar orðalagi þess og einfalda það á þann veg sem hér er lagt til. Í stað þess að kveða á um skyldu til að velja verkefnavalsnefnd er lagt til að stjórn hljómsveitarinnar verði heimilt að skipa verkefnavalsnefnd um verkefni hljómsveitarinnar. Stjórnin ákveði nánar um skipulag og hlutverk nefndarinnar.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 36/1982,
um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

    Frumvarpið er lagt fram í tengslum við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið. Það felur í sér tillögu um að ríkissjóður beri 25% hlut Ríkisútvarpsins í rekstri hljómsveitarinnar og 1% hlut Seltjarnarnesbæjar. Jafnframt eru lagðar til breytingar á skipan stjórnar sem þessu tengjast. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að það auki útgjöld ríkisins um 123 m.kr. á ári miðast við forsendur í fjárlögum fyrir árið 2005 en um 138 m.kr. miðað við forsendur í fjárlagafrumvarpi 2006.