Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 69. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 69  —  69. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

Flm.: Halldór Blöndal, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason,


Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi skorar á ríkisstjórnina, í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að gera með sér samkomulag um að löndin skiptist á ræðismönnum. Löndin eru hvött til að koma sér upp sameiginlegum ræðismannsskrifstofum.


Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2006 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 21. ágúst 2006 í Þórshöfn í Færeyjum. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að gera með sér samkomulag um að löndin skiptist á ræðismönnum. Löndin eru hvött til að koma sér upp sameiginlegum ræðismannsskrifstofum.

Rökstuðningur.
    Löng hefð er fyrir jákvæðu og víðtæku samstarfi vestnorrænna þjóða. Þær eru næstu og nánustu nágrannar og hafa öldum saman átt með sér náin og góð vináttu- og nágrannatengsl. Jafnframt hefur verið nokkuð algengt að íbúar hafi flust milli landanna, starfað þar og búið.
    Tengsl og samstarf landanna vex stöðugt að umfangi og vilji er í löndunum til að styrkja það enn frekar. Vestnorræna ráðið hefur árum saman unnið að því að efla tengslin og auka samstarf milli stjórnvalda landanna, íbúanna, atvinnulífs og vinnumarkaðar.
    Ríki stofna oft ræðismannsskrifstofur og sendiráð í löndum sem þau tengjast nánum böndum, hafa víðtækt samstarf og/eða viðskipti við. Vestnorræna ráðið álítur að til þess að efla sík tengsl sé afar mikilvægt að löndin komi á fót launuðum ræðismannsskrifstofum, sem hafi diplómatíska stöðu, eða viðskiptafulltrúum hvert í annars löndum. Það mun auðvelda fólki að flytja milli landanna og starfa þar. Sömuleiðis mundi það efla möguleika vestnorræns atvinnulífs til að efla starfsemi sína landanna á milli. Síðast en ekki síst yrði það liður í að tryggja borgurum Vestur-Norðurlanda réttindi og hagsmuni ef þeir flytjast milli landanna.
    Vestnorræna ráðið álítur það eðlilegt framhald langrar og jákvæðrar hefðar vestnorrænnar samvinnu að löndin stofni ræðismannsskrifstofur með diplómatíska stöðu hvert í annars löndum og hvetur því stjórnir landanna til að semja um stofnun ræðismannsskrifstofa með diplómatíska stöðu.“