Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 78. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 78  —  78. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um kennslu vestnorrænnar menningar í grunnskólum.

Flm.: Halldór Blöndal, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason,


Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi ályktar, með hliðsjón af ályktun Vestnorræna ráðsins á ársfundi 2006, að skora á ríkisstjórn Íslands, í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, að tekin verði upp kennsla í grunnskólum landsins um sögu, þjóðfélagsgerð, menningu og tungumál vestnorrænna nágrannaþjóða.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 5/2006 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 21. ágúst 2006 í Þórshöfn í Færeyjum. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að tekin verði upp kennsla í grunnskólum um sögu, þjóðfélagsgerð, menningu og tungumál vestnorrænna nágrannalanda og verði kennslan fastur liður í námskrá á mismunandi og viðeigandi aldursstigum. Löndin eru hvött til að útbúa sameiginlegt kennsluefni á öllum málunum þremur í þessum tilgangi.

Rökstuðningur.
    Ísland, Færeyjar og Grænland mynda Vestur-Norðurlönd og eiga þau margt sameiginlegt, bæði frá náttúrunnar hendi og hvað varðar sögu, menningu og þjóðfélagsgerð. En jafnframt hefur hvert land og þjóð eigið tungumál, eigin menningu, eigin sögu og eigin framtíðartækifæri.
    Þó að við séum næstu nágrannar og Vestur-Norðurlönd hafi möguleika á að þróa öflugt samstarf á svæðinu, lærum við tiltölulega lítið um nágrannalönd okkar og íbúa þeirra í grunnskóla. Í færeyskum grunnskóla er kannski minnst á Ísland og Grænland á einu aldursstigi og ef kennarar og skólar taka ekki vestnorrænu nágrannalöndin fyrir sem sérstakt þema lenda þau utangarðs í kennslu í grunnskóla. Það ætti að vera vandalítið að taka upp viðeigandi kennslu á mismunandi aldursstigum um sögu, menningu og þjóðfélagsgerð vestnorrænna nágranna okkar og flétta sameiginlega sögu okkar inn í.
    Á tungumálasviðinu eiga Íslendingar og Færeyingar að minnsta kosti að geta lært að skilja og lesa mál hinna vandræðalaust. Einnig ætti að vera hægt að kenna þeim grundvallaratriðin í uppbyggingu grænlensku og sögulega þróun tungumáls inúíta. Fordómar og viljaleysi eiga efalaust mestan þátt í því ef Íslendingar og Færeyingar kunna ekki svo mikið sem fáein orð og setningar á grænlensku.
    Ein besta fjárfesting sem yfirvöld geta gert til að styrkja vestnorræna samvinnu er að kenna strax í grunnskóla um þjóðfélagsgerð landanna.“