Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 84. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 84  —  84. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd.

Flm.: Halldór Blöndal, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason,


Sigurrós Þorgrímsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson.



    Alþingi beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún, í samráði við landsstjórnir Færeyja og Grænlands, móti sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2006 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 21. ágúst 2006 í Þórshöfn í Færeyjum. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið beinir þeim tilmælum til landstjórnar Færeyja, landstjórnar Grænlands og ríkisstjórnar Íslands að þær móti sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd sem svæði. Ráðið beinir þeim tilmælum til stjórnvalda landanna að hin sameiginlega stefna feli meðal annars í sér að sameiginleg markaðssetning Vestur-Norðurlanda sem ferðamannasvæðis verði efld. Vestnorræna ráðið mælist jafnframt til að stjórnir landanna geri áætlun um aukið samstarf um ferðamálamenntun á Vestur-Norðurlöndum.
    Á ferðamálaráðstefnu Vestnorræna ráðsins í Maniitsoq 6.–9. júní 2006 ríkti mikill einhugur meðal þátttakenda um að Vestur-Norðurlönd ættu eftir megni að vinna saman að því að auka fjölda ferðamanna í löndunum. Jafnframt var eining um að mikilvægt væri að skilgreina á hvaða sviðum ferðamála væri hagkvæmt fyrir löndin að vinna saman.
    Sameiginleg stefna vestnorrænu landanna í ferðamálum mun tryggja aukna athygli alþjóðlegra ferðamálafrömuða og stuðla að því að tryggja að markaðshlutdeild Vestur-Norðurlanda í ferðamálum minnki ekki heldur vaxi. Vestur-Norðurlönd geta boðið ferðamönnum upp á margs konar einstæða upplifun sem ekki er að finna annars staðar í heiminum, en nauðsynlegt er að Vestur-Norðurlönd komi því á framfæri við umheiminn hvað þau hafa að bjóða ferðamönnum framtíðarinnar.
    Vestnorræna ráðið álítur mikilvægt að einn liður í sameiginlegri vestnorrænni stefnu og markaðssetningu í ferðamálum verði samstarf um menntun starfsfólks í ferðaþjónustu, m.a. með því að gefa því kost á því að sækja sér menntun gegnum fjarkennslu. Ráðið álítur að slík samvinna tryggi starfsfólki í vestnorrænni ferðaþjónustu bestu skilyrði í daglegu starfi sem kostur er á.
    Löng hefð er fyrir samvinnu Vestur-Norðurlanda. Löndin geta haft hag af því að miðla hvert öðru af reynslu sinni í ferðaþjónustu. Ferðamannaþjónusta er að öllum líkindum sá markaður sem mun vaxa hvað hraðast á heimsvísu á 21. öld. Það er því afar mikilvægt að Vestur-Norðurlönd noti sér nú þegar þá kosti sem vinnast með samstarfi og verði reiðubúin að taka á móti stöðugt fleiri ferðamönnum í framtíðinni.“