Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.

Þskj. 93  —  93. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga
um álbræðslu á Grundartanga, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Í stað orðanna „Norðurál hf.“ í 2. og 4. málsl. 1. mgr. 1. gr. laganna kemur: Norðurál ehf.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      B-liður 1. tölul. fellur brott.
     b.      Við bætist nýr töluliður sem orðast svo: Félagið skal undanþegið breytingum sem kunna að verða á ákvæðum um frádrátt vaxtakostnaðar í lögum um tekjuskatt eftir undirritun samninga skv. 1. gr.

3. gr.

    Fyrirsögn 9. gr. laganna orðast svo: Innflutningur.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 62/1997 var iðnaðarráðherra veitt heimild til að gera samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um álver á Grundartanga. Eftir viðræður íslenskra stjórnvalda og fulltrúa Norðuráls hf. var ljóst að þörf var á tvenns konar breytingum á lögunum, annars vegar ákveðnum breytingum vegna ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í tengslum við stækkun álvers Norðuráls hf., og hins vegar lögðu fulltrúar Norðuráls hf. til breytingar á samningi sínum við ríkið sem kynnu að fela í sér breytingar á lögunum.
    Með ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA 1. júní 2005, vegna eftirgjafar á sköttum og öðrum gjöldum í þágu álvers Norðuráls ehf. á Grundartanga, kom fram að stofnunin teldi að íslenskum stjórnvöldum bæri að grípa til viðeigandi aðgerða til að gæta þess að samningar við Norðurál ehf. fælu ekki í sér óeðlilega mismunun á ríkisstyrkjum til aðila. Stofnunin taldi að breytinga væri þörf bæði á fjárfestingasamningi íslenskra stjórnvalda og Norðuráls ehf. sem og á lögum nr. 62/1997. Tilgangur frumvarps þessa er að verða við tilmælum stofnunarinnar í framangreindri ákvörðun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með hlutabréfakaupum Century Aluminum Company á 100% hlut Columbia Ventures Corporation í Norðuráli hf. 28. mars 2004 urðu til Nordural Holdings I ehf. og Nordural Holdings II ehf., sem bæði eru dótturfélög Century Aluminum Company og að fullu í eigu þess. Hluthafar í Norðuráli hf. samþykktu 31. ágúst 2004 að breyta Norðuráli hf. úr hlutafélagi í einkahlutafélag, Norðurál ehf., frá og með 1. september 2004. Með greininni er heiti fyrirtækisins í lögunum breytt í samræmi við þessa breytingu á formi þess, þ.e. úr hlutafélagi í einkahlutafélag.

Um 2. gr.

    Í samræmi við ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 1. júní 2005 er lagt til að fella brott svohljóðandi ákvæði b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. gildandi laga: „Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og A-liðar 2. gr., 6. tölul. 5. gr., sbr. og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal 5% tekjuskattur lagður á arð sem greiddur er hluthöfum í félögunum að því tilskildu að þeir séu búsettir í OECD-ríki og að 25% af hlutafé í félaginu séu í eigu hluthafans á skattári fyrir greiðslu arðs“.
    Enn fremur er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði um að félagið skuli undanþegið breytingum sem kunna að verða á lagaákvæðum um frádrátt vaxtakostnaðar frá undiritun samninga skv. 1. gr laganna. Með breytingu þessari eru lögin samræmd öðrum lögum og samningum sem gerðir voru um álverksmiðju í Reyðarfirði, en sambærilegt ákvæði er að finna í 11. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði, nr. 12/2003.
    Þegar fulltrúar íslenskra stjórnvalda undirrituðu samninga við Norðurál og Columbia Ventures voru í gildi lög nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ákvæði núgildandi laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, eru efnislega samhljóða ákvæðum þeirra að því er varðar frádrátt vaxtakostnaðar.

Um 3. gr.

    Lagt er til að fyrirsögn 9. gr. laganna verði breytt í „Innflutningur“ og að tilvísun til útflutnings verði þar með felld brott. Er breyting þessi til samræmis við efnislegt inntak ákvæðisins.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 62/1997,
um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga.

    Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um breytingar vegna tekjuskatts á arði og frádráttar vegna vaxtagjalda.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og óveraleg áhrif á tekjur til hækkunar.