Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 176. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 176  —  176. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um varðveislu Hólavallagarðs.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Sólveig Pétursdóttir, Össur Skarphéðinsson,
Jón Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson, Jóhanna Sigurðardóttir,
Ögmundur Jónasson, Magnús Þór Hafsteinsson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Mörður Árnason, Helgi Hjörvar,
Ágúst Ólafur Ágústsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að skipa nefnd til að vinna að því að tryggja varðveislu, uppbyggingu og kynningu á þeim umhverfis- og menningarsögulegu verðmætum sem eru fólgin í kirkjugarðinum við Suðurgötu, Hólavallagarði.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var fyrst flutt á 130. löggjafarþingi. Þá var hún ekki afgreidd úr nefnd en send til umsagnar og hefur verið tekið tillit til athugasemda í umsögnum sem allar voru mjög fylgjandi samþykkt hennar. Tillagan var lögð fram að nýju í örlítið breyttri mynd á 131. löggjafarþingi og aftur á 132. þingi. Árið 2005 var garðurinn ein af níu tilnefningum til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs. Vegna þessa ákváðu flutningsmenn að beina málinu nú til umhverfisráðherra í stað menntamálaráðherra áður. Umsögn um tilnefninguna er í fylgiskjali.

Kirkjugarðurinn.
    Kirkjugarðurinn við Suðurgötu, Hólavallagarður, er „stærsta og elsta minjasafn“ Reykjavíkur bendir Björn Th. Björnsson listfræðingur á í bók sinni Minningarmörk í Hólavallagarði.
    Garðurinn var aðalkirkjugarður Reykjavíkur frá árinu 1838 en árið 1932 var búið að úthluta öllum leiðum í garðinum og hafin ný úthlutun í Fossvogsgarði. Enn er þó jarðsett í frátekin leiði í Suðurgötugarði og er fyrirsjáanlegt að svo verði enn um sinn. Árið 2003 voru teknar 28 grafir í Hólavallagarði, þar af 27 duftgrafir. Reiknað er með að svipaður fjöldi grafa verði tekinn árlega næstu áratugi og þeim fari fjölgandi ef líkbrennsla eykst.
    Mikilvægt er að varðveita kirkjugarðinn fyrir komandi kynslóðir. Það er jafnframt þýðingarmikið fyrir sögu Íslands og menningu. Minningarmörkin segja sína sögu um þróun bæjarins og fólkið sem lifði þar og bjó fyrrum. Margir legsteinar hljóta að hafa kostað stórfé þegar þeir voru settir upp og sýna hvernig fyrri kynslóðir mátu minningu látinna. Hverfi minnismerkin hverfur einnig hluti sögunnar.
    Í janúar 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur deiliskipulag sem þróunarhópur Hólavallagarðs hafði látið vinna. Í því er gert ráð fyrir að Hólavallagarður njóti hverfisverndar skv. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og ákvæðum skipulagsreglugerðar, nr. 400/1998. Hverfisvernd er ekki formleg friðlýsing en hana ber að skoða sem viljayfirlýsingu borgaryfirvalda um að fara að öllu með gát sem umsjónaraðili garðsins. Með hverfisverndinni voru settar reglur um umgengni og þróun garðsins. Við undirbúning deiliskipulagsins var gerð úttekt á minningarmörkum í garðinum og úttekt á trjágróðri, en hvort tveggja er mikilvæg forsenda frekari friðunar.
    Í umsögn um málið bendir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður á að segja megi að garðurinn sé merkt „minjasafn“ þar sem saga okkar birtist í hnotskurn. Gildi Hólavallagarðs frá sjónarhóli þjóðminjavörslunnar felist ekki síst í þeirri heildarmynd sem þar er varðveitt með einstökum hætti í evrópsku samhengi. Þjóðminjasafnið muni leggja áherslu á nálægðina við hinn merka minjagarð. Nálægð garðsins muni gera Þjóðminjasafninu kleift að flétta slíkri miðlun inn í starfsemi sína og byggja þar á rannsóknum sínum.
    Í skýrslu sem gerð var um minningarmörk í Hólavallagarði segir að á því leiki vart vafi að garðurinn sé með merkustu kirkjugörðum hérlendis og jafnvel þótt víðar væri leitað í Norður-Evrópu. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Fyrst ber að nefna að engin meiri háttar röskun hefur orðið á garðinum frá því að hann var vígður ef frá er talin lagning stígs gegnum garðinn frá Ljósvallagötu að Suðurgötu, en sú framkvæmd var nauðsynleg til að bæta aðkomu að garðinum. Garðurinn heldur því sínum upphaflega svip frá því að fyrst var grafið og þar til lokið var við síðustu stækkun hans í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar. Ólíkt því sem sjá má í eldri kirkjugörðum á Norðurlöndum hefur elsti hluti garðsins verið látinn algerlega óhreyfður, stígar ekki verið skipulagðir og engir hlutar hans sléttaðir til að koma fyrir bekkjum eða öðru slíku. Heildarsvip garðsins hefur því ekki verið raskað og gönguferð milli minningarmarka í garðinum er því sem ferð í tíma þar sem sjá má þróunina í gerð þeirra, auk þess sem garðurinn er heimild um list- og táknfræði, persónusögu og ættfræði og stefnur í byggingarlist, auk annars sem nefna mætti.
    Hólavallagarður er einnig mjög gróinn og mun vera þar að finna hátt á annað hundrað plantna, og er grasafræðin eitt af því sem full ástæða væri að rannsaka og þá gildi garðsins sem grasagarðs. Í deiliskipulagi fyrir garðinn segir um gróðurinn: „Hin röksemdin fyrir hverfisvernd garðsins er vegna gróðursins í garðinum. Trjárækt á Íslandi varð ekki almenn fyrr en eftir aldamótin 1900. Gróðursetning í garðinum hófst að marki á árunum milli stríða. Í elsta hluta garðsins eru tegundir sem eiga rætur sínar í tilraunum frá þeim tíma. Í öðrum hluta garðsins er að finna einkennandi gróður frá eftirstríðsárunum. Auk þess er í garðinum ákaflega fjölbreytilegur blómgróður sem á rætur sínar að rekja til heimilisgarða á síðustu öld.“
    Óli Valur Hansson, fyrrverandi garðyrkjuráðunautur, gerði úttekt á trjágróðri í garðinum árið 2000: „Á horni Suðurgötu og Hringbrautar er grenilundur sem er frá því 1951, elsti sitkagrenilundur í Vesturbænum. Hann ber að varðveita vegna þess að trén eru um margt einstök sem kvæmi. Þau lifðu t.d. af frostið 1963.“
    Annað sem gerir Hólavallagarð mjög merkan er að þar er að finna tiltölulega mikið af járnsteyptum minningarmörkum, aðallega krossum, auk fjölda járnsteyptra grindverka. Hlutfallslega eru mörg slík minningarmörk varðveitt hér á landi en erlendis hafa pottjárnskrossar og -girðingar oft farið forgörðum af ýmsum ástæðum og víða var öllu járni í kirkjugörðum safnað saman í styrjöldum og það brætt til hergagnagerðar.
    Fjölmörg grindverk úr smíðajárni eru einnig í garðinum og eru þau merk heimild um handverk og hönnun gömlu íslensku járnsmiðanna. Garðurinn er því merk söguleg heimild um ýmsar iðngreinar, svo sem járnsmíði. Í deiliskipulagi fyrir garðinn segir: „Önnur meginrökin fyrir því að lýsa garðinn hverfisverndaðan er að í garðinum hefur varðveist eitt merkasta og heillegasta safn af minningarmörkum á Íslandi og þó víðar væri leitað. Þau gefa mjög gott yfirlit um þróun stílbrigða og handbragðs sem nær yfir nærri 170 ára tímabil. Garðurinn hefur enn fremur verið skilgreindur sem eitt mesta útiminjasafn landsins. Einstök minnismerki eru auk þess mikilvæg sem sýnishorn handverks í evrópsku samhengi (járnkrossar og girðingar).“
    Á mörgum legsteinum frá því um miðbik síðustu aldar er að finna lágmyndir af þeim sem þar hvíla og eru margar þeirra eftir listamennina Einar Jónsson og Ríkarð Jónsson. Eru þessar lágmyndir því merkar heimildir um list þeirra.
    Ástand minningarmarkanna í Hólavallagarði er á heildina litið gott. Af öllum hinum mikla fjölda minningarmarka í garðinum eru örfá brotin eða stórskemmd. Mikill meiri hluti legsteinanna og járnkrossanna er í góðu ástandi. Það þarf að huga að því vernda og viðhalda garðinum svo að komandi kynslóðir fái notið þeirrar þjóðargersemar sem hann er.

Skipan nefndarinnar og verksvið.
    Flutningsmenn telja ekki óeðlilegt að í nefndinni sem skipuð yrði eigi sæti fulltrúar frá umhverfisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og samgönguráðuneyti, Þjóðminjasafni, Fornleifavernd ríkisins, Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma og Reykjavíkurborg, en ráðherra skipi formann. Einnig hefur Fornleifavernd bent á mikilvægi þess að fulltrúi með þekkingu á gróðurfari garðsins sitji í nefndinni.
    Verkefni nefndarinnar skal vera að gera tillögur um hvernig best megi varðveita einstakt menningarsögulegt yfirbragð garðsins vegna minningarmarka, heildarmyndar hans og ræktunarsögu svo að hann fái að lifa sem minjasafn fyrir komandi kynslóðir. Henni ber að líta til annarra landa um verndun og nýtingu gamalla sögulegra kirkjugarða í ljósi þess að þessi garður er elsti óspillti kirkjugarður í Norður-Evrópu og jafnvel Evrópu allri. Margvíslegar úttektir hafa verið unnar á ýmsum þáttum garðsins á vegum Þjóðminjasafns Íslands, skipulagsnefndar kirkjugarða (nú kirkjugarðaráðs), Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, Fornleifaverndar ríkisins, þróunarnefndar Hólavallagarðs og jafnvel fleiri, svo sem á gróðri, járnverki og minningarmörkum, auk þess sem gert hefur verið kort. Rétt er að nefndin kynni sér og nýti framangreind gögn í vinnu sinni.
    Nefndin skal gera tillögur að breytingum á lögum sem garðinn varða í ljósi verndunar hans, þó svo að hann sé enn í notkun og geti verið áfram um einhver ár eða áratugi, svo sem undir duftker. Einnig skal nefndin gera tillögur að lagabreytingum, m.a. í þá veru að hægt verði að friða garðinn og aðra gamla merka garða, t.d. Alþingishússgarðinn. Samkvæmt íslenskum lögum er unnt að friða gömul hús en ekki er að finna skýra heimild um friðun garða. Þó er ekki loku fyrir það skotið að unnt sé að friðlýsa kirkjugarða. Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins kemur fram að þrátt fyrir að ekki sé vísað sérstaklega til garða í þjóðminjalögum, nr. 107/2001, þá veiti lögin svigrúm til að friðlýsa slíka garða og bendir á að þeir geti fallið undir minjar „sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: a. búsetulandslag … h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið … Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar,“ sbr. 9. og 11. gr. laganna. Þá er rétt að benda á að í lögunum er að finna skýra heimild til að friðlýsa minningarmörk í kirkjugörðum, sbr. 21. gr. laganna. Á meðan grafið er í kirkjugarð er hann ekki verndaður og leiði má slétta 75 árum eftir að gröf var tekin, eins og lög eru nú. Til var merkur garður í miðri höfuðborginni, Víkurgarður, en hann er að mestu glataður. Því er mikilvægt að grípa til lagasetningar og aðgerða á meðan Hólavallagarður er enn í svo upprunalegu horfi.
    Nefndin meti hvort ástæða er til að breyta lögum um minjar eins og garðinn í ljósi fyrirkomulags í öðrum löndum, en kirkjugarðar hér á landi sem grafið er í eru á ábyrgð og undir stjórn viðkomandi kirkjugarðsstjórnar. Í sumum nágrannalöndum heyra sögufrægir kirkjugarðar undir stjórn menningararfs, svo sem í Danmörku, eða undir lög um þjóðararf, eins og í Bretlandi (National Heritage Act). Í Noregi heyra slíkir garðar undir lög um menningarminjar og eru undir yfirstjórn umhverfisráðuneytisins þar.
    Huga þarf að því hvernig garðurinn getur nýst sem grasagarður fyrir almenning til að njóta fjölbreytileikans og námsmenn til að læra um flóru landsins. Í garðinum eru ljóslifandi dæmi um fjölbreytilegt handverk, steinsmíði, myndhögg, járnsmíði og fleiri list- og iðngreinar. Nefndin geri tillögur um það hvernig hægt er að varðveita, kynna og kenna námsmönnum sögu og eðli þessara greina og hvernig hægt væri að gera kynnisferðir í garðinn að lið í list- og iðnnámi. Sama á við um söguna sem hefur víða skírskotun í garðinum og ætti nefndin að gera tillögur um hvernig gera mætti garðinn hluta af sögukennslu og bókmenntafræðslu. Í garðinum er hinsta hvíla marga þjóðskálda, stjórnmálamanna, embættismanna, presta og biskupa, listamanna og fleiri sögufrægra manna.
    Einnig ber að huga að nýtingu garðsins sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn eins og gert er víða erlendis þar sem gamlir og sögulegir kirkjugarðar draga til sín þúsundir ferðamanna árlega. Það eru mörg dæmi um kynningarferðir undir mismunandi formerkjum og ljóst að áhuga skortir ekki hjá Íslendingum eins og sýndi sig þegar Þjóðminjasafnið bauð upp á kynnisferðir um garðinn. Fornleifavernd ríkisins hefur einnig veitt hópum leiðsögn um garðinn, t.d. yfirmönnum erlendra kirkjugarða. Vegna þess hve garðurinn er einstakur er ekki ólíklegt að hann hafi einnig aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Í ljósi þess hve sérstæður Hólavallagarður er í Evrópu ætti að huga að því að fá hann viðurkenndan sem „Evrópuminjar“ (e. European Heritage Program).
    Hólavallagarður er undir yfirumsjón Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma sem höfðu frumkvæði að stofnun þróunarnefndar Hólavallagarðs árið 1999. Hún hefur það verkefni að varðveita sem best þau menningarverðmæti sem í garðinum eru. Þróunarnefndin er skipuð fulltrúum frá Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma, Fornleifavernd ríkisins, Reykjavíkurborg og kirkjugarðaráði og er til ráðgjafar við að móta verndarstefnu í garðinum. Mikilvægt er að nefndin sem skipuð yrði vinni samhliða og í góðu samstarfi við þróunarnefnd Hólavallagarðs og að fjármagn verði tryggt svo að unnt verði að setja kraft í þá vinnu sem nauðsynleg er til að Hólavallagarður standi undir nafni sem einn af merkustu kirkjugörðum í Norður-Evrópu.
    Vel væri við hæfi að samþykkja tillögu sem þessa nú þegar 100 ár eru liðin frá upphafi heimastjórnar í ljósi þess sögulega mikilvægis sem garðurinn gegnir, en þar hvíla ýmsir af helstu baráttumönnum og sjálfstæðishetjum Íslendinga, svo sem Jón Sigurðsson forseti og Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, auk ýmissa annarra frammámanna þjóðarinnar.
    Í greinargerð þessari er m.a. stuðst við skýrsluna „Hólavallagarður, kirkjugarðurinn við Suðurgötu: Skráning og rannsókn minningarmarka“ sem kom út í röð rannsóknarskýrslna Þjóðminjasafns árið 2002, eftir Gunnar Bollason, rit Björns Th. Björnssonar „Minningarmörk í Hólavallagarði“, ýmsar greinar úr Bautasteini, riti Kirkjugarðasambands Íslands, og fundargerðir og fleiri gögn sem garðinn varða.



Fylgiskjal.

Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP):

Umsögn um Hólavallagarð í tilnefningu hans
til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2005.


    Hólavallakirkjugarður er stærsti íslenski kirkjugarðurinn frá 19. öld og sá næststærsti sem KGRP hefur umsjón með. Kirkjugarðurinn er einstakt dæmi um fjölbreytni í minnismerkjum og þróun stíltegunda í kirkjugörðum í gegnum tíðina. Í garðinum er meðal annars að finna einn elsta nýklassíska uppreista grafstein sem til er, en hann var gerður af Íslendingi sem hafði farið utan til Danmerkur að læra steinsmíði. Fjöldi danskra steinsmiða komu til Íslands til að kenna fag sitt, en sá sem þekktastur var, var Julius Andreas Schau, sem var einn af upphafsmönnum steinsmíði á Íslandi. Mikill fjöldi verka hans og lærisveina hans eru enn til í kirkjugörðum og oft eru afsteypur af lágmyndum Bertils Thorvaldsens á þessum steinum. KGRP hefur verið í samstarfi við danska kirkjugarða meðal annars við að láta gera nýjar afsteypur af lágmyndunum sem nýttar eru við viðgerðir á grafsteinum í garðinum. Minnismerkin í garðinum eru þannig oft annaðhvort verk þekktra norrænna listamanna og iðnaðarmanna eða minnismerki með lágmyndum listamannanna. Árið 1998 var skipuð þróunarnefnd um kirkjugarðinn, sem styður varðveislu garðsins og sér um viðgerðir og breytingar í garðinum. Fulltrúi KGRP situr í nefndinni og átti KGRP því sinn hlut í því að árið 2001 skráði Þjóðminjasafn Íslands öll minnismerki kirkjugarðsins sem voru eitthundrað ára eða eldri. Árið 2004 gerðu nokkrir grunnskólar í Reykjavík samning við KGRP um að kirkjugarðurinn yrði svæðisskógur nemenda og kennara. Um tvö hundruð tegundir trjáa, runna og fjölærra plantna eru í kirkjugarðinum og er hann elsti varðveitti skógarlundurinn í Reykjavík. KGRP hefur tekist vel til við að varðveita og gera við garðinn. Allt miðar starf KGRP að því að opna augu borgaranna fyrir þessari perlu í hjarta höfðuborgar Íslands og að vekja athygli á mikilvægi garðsins.