Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 179, 133. löggjafarþing 027. mál: réttur nefndar til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.
Lög nr. 127 9. október 2006.

Lög um rétt nefndar samkvæmt ályktun Alþingis til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.


1. gr.

     Nefnd, sem skipuð var af forsætisráðherra 22. júní 2006 á grundvelli ályktunar Alþingis frá 3. júní 2006, um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál, skal hafa frjálsan aðgang að öllum gögnum í vörslum stjórnvalda sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 til þess að gera tillögu um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að þeim.
     Þrátt fyrir lögmælta þagnarskyldu er öllum opinberum starfsmönnum skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands á árunum 1945–1991. Hið sama gildir um opinbera starfsmenn sem látið hafa af störfum.
     Nefndarmenn og starfsmaður nefndarinnar skv. 1. mgr. eru bundnir þagnarskyldu um viðkvæmar einkalífsupplýsingar sem þeir komast að í starfi sínu á vegum nefndarinnar. Hið sama gildir um upplýsingar um öryggismál Íslands sem varða enn þá virka öryggis- eða varnarhagsmuni Íslands.
      Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um störf nefndarinnar.
     Formaður nefndarinnar, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, skal á starfstíma hennar gera forseta Alþingis og formönnum þingflokka grein fyrir framvindu verksins, sbr. síðari málsgrein ályktunar Alþingis frá 3. júní 2006.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 4. október 2006.