Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 232. máls.

Þskj. 235  —  232. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar
(viðurlagaákvæði).

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.
1. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist eftirfarandi málsliður: Þá er Fiskistofu heimilt, að fenginni umsögn hafnaryfirvalda á löndunarstað, að veita einstökum aðilum leyfi til að vigta afla, enda hafi hann áður verið veginn á hafnarvog.

2. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en tvær vikur og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en sex vikur og ekki lengur en eitt ár.
    Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.

3. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofa skal afturkalla leyfi aðila til vigtunar sjávarafla skv. 2. mgr. 6. gr. ef hann, fyrirsvarsmenn hans, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Hafi vigtunarleyfi aðila verið afturkallað skv. 1. mgr. skal ekki veita honum slíkt leyfi að nýju fyrr en 12 vikur eru liðnar frá afturköllun leyfis. Hafi ítrekað komið til afturköllunar á vigtunarleyfi aðila skal honum ekki veitt slíkt leyfi að nýju fyrr en 26 vikur eru liðnar frá því að leyfi var síðast afturkallað.
    Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi aðila skriflega áminningu.
    Brjóti aðili sem hefur vigtunarleyfi eða þeir sem í þágu hans starfa gegn ákvæðum III. kafla laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim þannig að bersýnilega leiði til þess að afli verði ranglega skráður skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfi hlutaðeigandi aðila. Hafi vigtunarleyfi aðila verið afturkallað samkvæmt þessari málsgrein skal honum ekki veitt slíkt leyfi að nýju fyrr en 26 vikur eru liðnar frá afturköllun, enda geri aðili þá í umsókn um leyfi fullnægjandi grein fyrir hvernig hann hyggst tryggja að framkvæmd vigtunar verði í samræmi við lög og reglur. Heimavigtunarleyfi, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 6. gr., skal þó ekki veitt aðila fyrr en eitt ár er liðið frá afturköllun fyrra leyfis.
    Hafi ítrekað komið til afturköllunar á vigtunarleyfi aðila skv. 4. mgr. skal ekki veita honum slíkt leyfi að nýju fyrr en tvö ár eru liðin frá því að leyfi var síðast afturkallað.

4. gr.

    19. gr. laganna orðast svo:
    Áminningar, sviptingar veiðileyfa og afturkallanir vigtunarleyfa, sem ákveðnar eru skv. 15. og 17. gr. laga þessara eða 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár.

5. gr.

    Í stað orðanna „skv. 17. og 19. gr. laga þessara“ í 3. málsl. 21. gr. laganna kemur: skv. 17. gr. laga þessara.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
6. gr.

    Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist eftirfarandi málsliður: Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni vegna vanskila á afladagbókum og skal leyfissvipting standa þar til skil hafa verið gerð eða skýringar hafa verið gefnar á ástæðum vanskila.

7. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Fiskistofa skal veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar verður skotið til sjávarútvegsráðuneytisins, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

III. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands,
með síðari breytingu.

8. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Við brot gegn 3.–5. gr. laga þessara er heimilt að gera upptæk þau veiðarfæri skips sem notuð hafa verið við hinar ólögmætu veiðar, þar með talda dragstrengi, svo og afla þess, enda sé sennilegt að aflinn hafi fengist með ólögmætum hætti. Sama gildir sé skip staðið að veiðum á svæðum þar sem veiðar hafa verið bannaðar með stoð í 1. mgr. 8. gr. og 9.–11. gr. Upptöku má framkvæma án tillits til þess hvort jafnframt er krafist refsingar.
    Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk skv. 1. mgr. er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis afla og veiðarfæra samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna.

9. gr.

    Orðið „öðrum“ í 1. málsl. 17. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    Í stað orðanna „3. mgr. 16. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna kemur: 2. mgr. 16. gr.

11. gr.

    20. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að gera ólögleg veiðarfæri upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum.

12. gr.

    Á eftir 20. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Fiskistofa skal svipta skip leyfi, sem veitt hefur verið skv. 6. eða 7. gr. laga þessara, ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en tvær vikur og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en sex vikur og ekki lengur en eitt ár.
    Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.
    Áminningar og sviptingar veiðileyfa, sem ákveðnar eru samkvæmt þessari grein, skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár.
    Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar samkvæmt þessari grein verður skotið til sjávarútvegsráðuneytisins, enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands,
með síðari breytingu.

13. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Við brot gegn reglum, sem settar hafa verið skv. 2. málsl. 7. gr. laga þessara, er heimilt að gera upptæk þau veiðarfæri skips sem notuð hafa verið við hinar ólögmætu veiðar, þar með talda dragstrengi, svo og afla þess, enda sé sennilegt að aflinn hafi fengist með ólögmætum hætti. Upptöku má framkvæma án tillits til þess hvort jafnframt er krafist refsingar.
    Í stað þess að gera afla og veiðarfæri upptæk skv. 1. mgr. er heimilt að gera upptæka fjárhæð sem svarar til andvirðis afla og veiðarfæra samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna.

14. gr.

    Orðið „öðrum“ í 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna fellur brott.

15. gr.

    Í stað orðanna „3. mgr. 13. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: 2. mgr. 13. gr.

16. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að gera ólögleg veiðarfæri upptæk. Ólögleg eru þau veiðarfæri eða hluti veiðarfæra sem ekki eru í samræmi við þær reglur sem settar eru um veiðarfæri með stoð í lögum þessum.

V. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.
17. gr.

    1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
    Ólögmætur er sá sjávarafli sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur og afli sem 2. mgr. 7. gr. tekur til.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sjávarútvegsráðherra skipaði nefnd í janúarmánuði 2006 til þess að fara yfir viðurlagaákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, og gera eftir atvikum og að höfðu viðeigandi samráði við hagsmunaaðila tillögur um breytingar á þeim. Í nefndinni voru Árni Múli Jónasson aðstoðarfiskistofustjóri, Guðjón Þorbjörnsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Vísis hf., og Steinar Ingi Matthíasson, sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.
    Í skilabréfi og skýrslu, sem nefndin hefur skilað til sjávarútvegsáðherra, kemur fram að hún telji að viðurlagaúrræði þau sem nú eru í framangreindum lögum séu nægileg og hafi almennt reynst vel. Nefndin leggur þó til að nokkrar breytingar verði gerðar á viðurlagaákvæðum laganna og byggist frumvarp þetta að mestu á þeim tillögum. Eftirfarandi eru helstu breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu:
          Lagt er til að ákvæði um lágmark og hámark sekta vegna tiltekinna brota gegn lögum nr. 79/1997 og lögum nr. 151/1996 verði samræmd öðrum sektarákvæðum þeirra laga sem og sektarákvæðum laga nr. 116/2006 og laga nr. 57/1996 þannig að fyrstu brot gegn öllum ákvæðum allra þessara laga varði ekki neinni tiltekinni lágmarkssekt en 4.000.000 kr. sekt að hámarki en ítrekuð brot varði að lágmarki 400.000 kr. og að hámarki 8.000.000 kr. sekt.
          Lagt er til að í stað skyldu til að gera afla og/eða veiðarfæri upptæk vegna brota gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 79/1997 og laga nr. 151/1996 verði mælt fyrir um heimild til að ákveða upptöku í þessum tilvikum. Vegna breytinga sem orðið hafa á lögum og reglum varðandi stjórn fiskveiða og til samræmingar við upptökuákvæði laga nr. 79/1997 og laga nr. 151/1996 er einnig lögð til smávægileg breyting á lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.
          Lagt er til að við fyrsta minni háttar brot gegn ákvæðum laga nr. 57/1996 og laga nr. 116/2006 beri Fiskistofu að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu í stað þess að svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni eins og núgildandi reglur gera ráð fyrir. Samkvæmt frumvarpinu mundu ítrekuð slík brot hins vegar varða sviptingu veiðileyfis.
          Lagt er til að í lög nr. 79/1997 verði tekin ákvæði um áminningar og sviptingar sérveiðileyfa, sem veitt hafa verið samkvæmt lögunum, vegna brota gegn ákvæðum laganna eða reglna sem settar eru samkvæmt þeim.
          Lagt er til að við fyrsta minni háttar brot gegn reglum er varða vigtun sjávarafla verði vigtunarleyfi aðila ekki afturkallað, eins og núgildandi reglur gera ráð fyrir, heldur beri Fiskistofu í slíkum tilvikum að veita hlutaðeigandi aðila skriflega áminningu. Þá er gert ráð fyrir að komi til afturköllunar vigtunarleyfis geti hlutaðeigandi aðili ekki fengið slíkt leyfi að nýju fyrr en eftir tiltekinn tíma.
          Lagt er til að áminningar, veiðileyfissviptingar og afturkallanir vigtunarleyfa samkvæmt lögum nr. 57/1996, lögum nr. 116/2006 og lögum nr. 79/1997 verði látnar hafa ítrekunaráhrif í tvö ár.
          Lagt er til að felld verði úr lögum nr. 57/1996 heimild til að svipta uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla rekstrarleyfi vegna brota gegn reglum um vigtun sjávarafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að styrkari stoðum verði skotið undir reglur um veitingu og afturköllun svonefndra endurvigtunarleyfa með því að bæta við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 57/1996 ákvæði þess efnis að Fiskistofa geti, að fenginni umsögn hafnaryfirvalda, veitt einstökum aðilum leyfi til að endurvigta afla, þ.e. til að vigta afla á ný eftir að hann hefur verið veginn á hafnarvog.

Um 2. gr.


    Í 15. gr. laga nr. 57/1996, sbr. 24. gr. laga nr. 116/2006, er kveðið á um að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna. Það þýðir að ef Fiskistofa kemst að þeirri niðurstöðu að umræddir aðilar hafi brotið gegn ákvæðum laganna ber henni að svipta hlutaðeigandi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni og gildir það jafnvel þótt telja verði að um minni háttar brot sé að ræða.
    Ljóst er að svipting leyfis til veiða í atvinnuskyni, jafnvel þótt um lágmarkstíma sé að ræða, þ.e. tvær vikur, getur verið mjög íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi útgerð og þá sem í hennar þágu starfa. Með vísan til þess er hér lagt til að 15. gr. laga nr. 57/1996 og 24. gr. laga nr. 116/2006 verði breytt þannig að þar verði kveðið á um að þegar um minni háttar brot er að ræða og hlutaðeigandi útgerð hefur ekki áður gerst brotleg við ákvæði laganna eða reglur settar samkvæmt þeim skuli Fiskistofa bregðast við með öðrum og ekki eins íþyngjandi hætti, þ.e. með því að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot telst vera að ræða, í skilningi þessara lagaákvæða, er eðlilegt að litið verði m.a. til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnar og hvort það hefur verið framið af ásetningi eða gáleysi. Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram að brot gegn reglum varðandi veiðar, afla og aflaheimildir eru oft þannig að afar erfitt er að skera með óyggjandi hætti úr um hvort þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi. Það atriði eitt og sér getur því almennt ekki ráðið ákvörðun þess hvort brot telst vera minni háttar.
    Á hinn bóginn þykir eðlilegt að láta ítrekuð brot gegn umræddum lögum og reglum varða sviptingu veiðileyfis, enda þótt um minni háttar brot í skilningi laganna kunni að vera að ræða.

Um 3. gr.


    Leyfi til að vigta sjávarafla geta skipt miklu fyrir rekstur fiskvinnslustöðva og fiskmarkaða. Afturköllun slíkra leyfa getur því verið afar íþyngjandi fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga. Það er því nauðsynlegt að reglur varðandi afturköllun vigtunarleyfa, svo sem um það hvenær aðili sem misst hefur leyfi getur fengið það að nýju, séu skýrar og samræmdar.
    Í þessu sambandi þarf þó einnig að líta til þess að vigtunarleyfishafa er treyst til að annast mjög mikilvægan þátt í fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem einstakar útgerðir og fiskiskip hafa takmarkaðar aflaheimildir. Því er sanngjarnt og eðlilegt að þær kröfur séu gerðar til leyfishafa að þeir sýni í verki að þeir séu traustsins verðir. Þá þarf og að hafa í huga að í mörgum tilvikum eiga og/eða gera vigtunarleyfishafar út þau fiskiskip sem landa þeim afla sem þeir vigta, og í öðrum tilvikum, svo sem þegar um fiskmarkaði er að ræða, annast þeir vigtun á afla mjög margra skipa og báta. Þá þarf ekki að fjölyrða um að sú hætta er fyrir hendi að menn freistist til að brjóta og fara á svig við reglur um vigtun og skráningu sjávarafla, einkum þegar um kvótabundnar tegundir er að ræða. Í ljósi alls þessa er nauðsynlegt að hafa reglur um afturköllun vigtunarleyfa þannig að þær veiti þeim sem ábyrgð bera á vigtun afla nægilegt aðhald. Þá er eðlilegt og sanngjarnt að harðar sé tekið á brotum, sem bersýnilega leiða til að afli verði ranglega skráður, en brotum þar sem vikið hefur verið frá reglum að einhverju leyti án þess þó að það leiði bersýnilega til rangskráningar á afla.
    Í 17. gr. laga nr. 57/1996 er mælt fyrir um að Fiskistofa skuli afturkalla leyfi til vigtunar ef hlutaðeigandi aðili, fyrirsvarsmenn hans, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn reglum sem gilda um vigtun sjávarafla. Fiskistofu er því ekki heimilt að bregðast við slíkum brotum með öðrum og vægari hætti, svo sem með því að veita hlutaðeigandi leyfishafa áminningu. Af því leiðir að fyrsta minni háttar brot aðila gegn vigtunarreglum varðar afturköllun vigtunarleyfis, jafnvel þótt ekki verði séð að það hafi getað leitt til rangskráningar á afla. Í slíkum tilvikum hlýtur afturköllun vigtunarleyfis að teljast nokkuð hörð viðurlög þegar haft er í huga hve miklir hagsmunir geta hér verið í húfi eins og fyrr var nefnt.
    Með vísan til framangreinds er hér lagt til að ákvæðum 17. gr. verði breytt þannig að við fyrsta minni háttar brot, sem ekki leiðir bersýnilega til rangskráningar á afla, skuli Fiskistofa ekki afturkalla vigtunarleyfi hlutaðeigandi aðila heldur veita honum skriflega áminningu. Við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot telst vera að ræða er eðlilegt að litið verði m.a. til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnar og hvort það hefur verið framið af ásetningi eða gáleysi. Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram að brot gegn reglum um vigtun og skráningu sjávarafla eru oft þannig að afar erfitt er að skera með óyggjandi hætti úr um hvort þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi. Það atriði eitt og sér getur því almennt ekki ráðið ákvörðun þess hvort brot telst vera minni háttar.
    Samkvæmt tillögu þeirri sem hér er gerð um breytingu á 17. gr. laganna er hins vegar gert ráð fyrir að ef brot leiðir bersýnilega til rangskráningar á afla skuli vigtunarleyfi hlutaðeigandi aðila afturkallað án undanfarandi áminningar.
    Í 17. gr. laga nr. 57/1996 er ekki mælt fyrir um hvenær aðili geti fengið vigtunarleyfi að nýju hafi vigtunarleyfi hans verið afturkallað. Augljóst er hins vegar að aðili getur haft af því verulega hagsmuni að réttarstaða hans að þessu leyti sé skýr til að hann geti metið hana og tekið ákvarðanir samkvæmt því, til að mynda um hvort hann vill una afturköllun leyfis eða freista þess að fá henni hnekkt með stjórnsýslukæru eða málshöfðun. Því er hér lagt til að í 17. gr. laganna verði kveðið á um hvenær aðili geti vænst þess að fá vigtunarleyfi að nýju hafi leyfi hans verið afturkallað, enda sé þá fullnægt öðrum skilyrðum fyrir leyfisveitingu.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 17. gr. laga nr. 57/1996 geta vigtunarleyfishafar, hvort heldur um fiskvinnslustöðvar eða fiskmarkaði er að ræða, misst vigtunarleyfi vegna brota gegn reglum um vigtun sjávarafla. Í 19. gr. laganna er síðan ákvæði þess efnis að sjávarútvegsráðuneytinu sé heimilt, að fengnum tillögum Fiskistofu, að svipta uppboðsmarkað fyrir sjávarafla rekstrarleyfi, samkvæmt lögum um það efni, ef markaður eða þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna varðandi vigtun sjávarafla eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Hvorki í lögum nr. 57/1996 né í öðrum lögum er að finna sambærilegt ákvæði varðandi fiskvinnslustöðvar, enda er rekstur þeirra ekki háður sérstökum rekstrarleyfum. Ekki verður séð að málefnaleg rök eða nauðsyn réttlæti að þessi munur sé gerður á fiskmörkuðum og fiskvinnslustöðvum að þessu leyti. Hér er því lagt til að umrætt ákvæði í 19. gr. laga nr. 57/1996 um sviptingu rekstrarleyfa uppboðsmarkaða vegna brota gegn reglum um vigtun sjávarafla verði fellt úr lögunum.
    Þá er lagt til að í stað umrædds ákvæðis í 19. gr. komi ákvæði um að áminningar, veiðileyfissviptingar og afturkallanir vigtunarleyfa skuli hafa ítrekunaráhrif í tvö.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er kveðið á um að skipstjórnarmenn skipa, sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, skuli halda sérstakar afladagbækur. Samkvæmt heimild í því sama lagaákvæði hefur sjávarútvegsráðherra sett reglugerð þar sem m.a. er mælt fyrir um að í afladagbækur skuli skrá tilteknar upplýsingar varðandi veiðar og afla og skila bókunum með tilteknum og reglubundnum hætti til Fiskistofu. Í reglugerðinni er jafnframt kveðið á um að upplýsingar sem skráðar eru í afladagbækur skuli „nýtast í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnun, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu og til annarra verkefna er varða stjórnun fiskveiða“. Réttilega færðar afladagbækur og söfnun þeirra hljóta að teljast vera mikilvægur liður í þeirri upplýsingaöflun sem nauðsynleg er til að stjórnvöld geti tekið skynsamlegar ákvarðanir varðandi nýtingu fiskistofna. Því er það málefnaleg og sanngjörn krafa að þeir sem hafa leyfi til að stunda veiðar í atvinnuskyni færi réttar upplýsingar í afladagbækur og skili þeim í samræmi við settar reglur. Þó að flestir fari að þeim reglum sýnir reynslan að nauðsynlegt er að hafa virkt úrræði til að knýja vanskilamenn til að gera skil. Skv. 15. gr. laga nr. 57/1996 skal veiðileyfissvipting sem ákveðin er á grundvelli þeirra laga standa um tiltekinn tíma og ekki skemur en tvær vikur. Þrátt fyrir það hefur framkvæmdin hjá Fiskistofu verið sú að hafi skip verið svipt veiðileyfi vegna vanskila á afladagbókum hefur því verið veitt leyfi að nýju þegar skil hafa verið gerð, jafnvel þótt veiðileyfissvipting hafi þá staðið skemur en tvær vikur. Hér er lagt til að lagagrundvöllur undir þessari framkvæmd verði styrktur með því að kveða á um að vegna vanskila á afladagbókum skuli hlutaðeigandi skip svipt veiðileyfi þar til skil hafa verið gerð eða skýringar verið gefnar á ástæðum vanskila. Gert er ráð fyrir því að leyfissviptingu skuli þegar aflétt hafi verið bætt úr vanskilum og á það einnig við hafi komið fram skýringar á ástæðum vanskila, svo sem að afladagbók hafi glatast. Í þessu sambandi er þó rétt að taka skýrt fram að skýringar sem gefnar kunna að vera á vanskilum geta verið þess efnis eða eðlis að rétt sé að um mál verði fjallað sem brotamál. Þá er rétt að benda á að samkvæmt þeirri tillögu sem hér er gerð um breytingu á 17. gr. getur veiðileyfissvipting staðið lengur en í tvær vikur ef skil eru ekki gerð eða skýringar gefnar innan þess tíma.

Um 7. gr.


    Í 24. gr. laga 116/2006 segir að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir brot á lögunum eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Hér er lagt til að þessi vísun til umgengnislaga verði óbreytt en jafnframt verði kveðið á um að það sama eigi við um veitingu áminninga vegna brota gegn lögunum. Þá er í greininni áréttað að sama regla gildi um kærur ákvarðana Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar og gildir um kærur á slíkum ákvörðunum samkvæmt lögum um umgengni um nytjastofna sjávar.

Um 8. gr.


    Með lögum nr. 22/2005 var gerð breyting á ákvæðum um lágmarkssektir í lögum nr. 116/2006 (þá nr. 38/1990), lögum nr. 57/1996, lögum nr. 79/1997 og lögum nr. 151/1196. Eftir þá breytingu er ekkert sektarlágmark við fyrstu brot gegn ákvæðum laga nr. 116/2006 og laga nr. 57/1996 og gildir það sama um tiltekin brot gegn ákvæðum laga nr. 79/1997 og laga nr. 151/1996.
    Með lögum nr. 22/2005 var hins vegar ekki breytt þeim sektarákvæðum sem er að finna í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997 og í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 151/1996 en samkvæmt þeim ákvæðum varða brot gegn tilteknum ákvæðum þessara laga 600.000 kr. sekt að lágmarki og 6.000.000 kr. að hámarki og gildir það hvort sem um fyrsta eða ítrekað brot er að ræða.
    Með breytingum þeim sem í frumvarpinu er lagt til að verði gerðar á 16. og 17. gr. laga nr. 79/1997 og 13. og 14. gr. laga nr. 151/1996 verða umrædd sektarákvæði þeirra laga samræmd öðrum sektarákvæðum laganna sem og sektarákvæðum laga nr. 57/1996 og laga nr. 116/2006 þannig að við fyrstu brot gegn öllum ákvæðum þessara laga verður engin tiltekin lágmarkssekt en 4.000.000 kr. sekt að hámarki en ítrekuð brot varða að lágmarki 400.000 kr. og að hámarki 8.000.000 kr. sekt.
    Í 16. og 20. gr. laga nr. 79/1997 og í 13. gr. og 17. gr. laga nr. 151/1996 er kveðið á um að við brot gegn tilteknum ákvæðum laganna skuli gera afla og/eða veiðarfæri skips upptæk. Af orðalagi umræddra ákvæða leiðir að falli tilvik undir þau ber að gera afla og/eða veiðarfæri skips upptæk og gildir það jafnvel þótt telja verði að um minni háttar brot sé að ræða.
    Ýmsar tegundir veiðarfæra kosta mjög mikla peninga. Upptaka þeirra getur því komið mjög við hagsmuni hlutaðeigandi útgerða og jafnvel verið þeim þungbærari en viðurlög sem dómstólar og/eða stjórnvöld kunna að beita vegna sömu mála. Þegar um minni háttar brot er að ræða getur upptakan því leitt til þess að ekki verði eðlilegt samræmi með alvarleika brots og þeim fjárhagslegu afleiðingum sem brotið hefur fyrir hlutaðeigandi útgerð. Hér er því lagt til að umræddum upptökuákvæðum í lögum nr. 79/1997 og lögum nr. 151/1996 verði breytt þannig að í stað skyldu til að gera afla og/eða veiðarfæri upptæk verði heimild fyrir dómstóla til að ákveða upptöku. Þrátt fyrir breytingu þessa verður að gera ráð fyrir að ólögmætur afli og/eða ólögmæt veiðarfæri verði almennt gerð upptæk ef skilyrði eru til þess en ákæruvaldi og dómstólum verður ætlað að meta þetta í hverju einstöku tilviki og gætu því ákveðið, ef rétt og sanngjarnt sýndist, að beita upptökuákvæðunum ekki.

Um 9. gr.


    Hér vísast til þess sem segir um sektarákvæði í skýringum við 8. gr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Hér vísast til þess sem segir um upptökuákvæði í skýringum við 8. gr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 12. gr.


    Í 6. og 7. gr. laga nr. 79/1997 er að finna ákvæði varðandi leyfi til svonefndra sérveiða, svo sem til grásleppuveiða og til veiða með dragnót. Í þeim lögum er hins vegar ekki kveðið á um sviptingu sérveiðileyfa hafi við nýtingu þeirra verið brotið gegn ákvæðum laganna. Eðlilegt er hins vegar að gera þá kröfu til leyfishafa að hann nýti leyfið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 79/1997 og reglur sem hafa verið settar samkvæmt þeim. Hér er því lagt til að í lög nr. 79/1997 verði sett skýr ákvæði um að skip skuli svipt sérveiðileyfi hafi verið brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum sem settar hafa verið samkvæmt þeim. Þá er lagt til að um sviptingar sérveiðileyfa gildi reglur samhljóða þeim sem lagðar eru til í 2. gr. frumvarpsins varðandi áminningar og sviptingar leyfa til veiða í atvinnuskyni vegna brota gegn lögum nr. 57/1996 og lögum nr. 116/2006.

Um 13. gr.


    Hér vísast til þess sem segir um sektar- og upptökuákvæði í skýringum við 8. gr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Hér vísast til þess sem segir um sektarákvæði í skýringum við 8. gr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 16. gr.

    Hér vísast til þess sem segir um upptökuákvæði í skýringum við 8. gr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 17. gr.


    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, er í sjö töluliðum skilgreindur sá afli sem telst ólögmætur í skilningi laganna og leiðir því til álagningar gjalds samkvæmt ákvæðum þeirra. Vegna breytinga sem orðið hafa á lögum og reglum varðandi stjórn fiskveiða eiga 1. og 3. tölul. ekki lengur við. Tilvik þau sem falla undir 4., 5. og 6. tölul. falla hins vegar einnig undir upptökuákvæði laga nr. 79/1997 og laga nr. 151/1996 en í frumvarpinu eru lagðar til tilteknar breytingar á þeim ákvæðum eins og nánar er lýst í skýringum við 7. gr. frumvarpsins. Með vísan til þessa er hér lagt til að 1. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992 verði breytt þannig að ólögmætur, í skilningi þeirra laga, teljist aðeins sá afli sem er nú skilgreindur í 1. og 7. tölulið, þ.e. afli sem er umfram það aflamark sem veiðiskip hefur og afli sem 2. mgr. 7. gr. laganna tekur til.

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum
á sviði fiskveiðistjórnar (viðurlagaákvæði).

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á viðurlagaákvæðum nokkurra laga er varða stjórn fiskveiða og eru viðurlög ýmist hert eða milduð.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Áhrif á tekjur eru óveruleg og munu að einhverju leyti ráðast af dómaframkvæmd.