Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 233. máls.

Þskj. 236  —  233. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „10%“ í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: 12%.


2. gr.

    Við 51. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Lífeyrissjóði, skv. 1. málsl., er þó heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr.


3. gr.

    Á eftir 1. málsl. 54. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Lífeyrissjóði, skv. 1. málsl., er þó heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr.


4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Nú er í gildandi kjarasamningi kveðið á um að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera 10% og skal þá heimilt að miða áfram við hlutfallstöluna 10% í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga þessara þar til nýr kjarasamningur öðlast gildi.


II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 1. og 3. málsl. 4. mgr. 13. gr. laganna kemur: 8%.


6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 3. mgr. kemur: 8%.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „10%“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: 12%.


7. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 3. mgr. 25. gr. laganna kemur: 8%.


8. gr.

    2. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
    Sé staða eða starfi sjóðfélagans lagður niður á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld í sama hlutfalli og heildariðgjöld hvers sjóðfélaga eru á hverjum tíma. Iðgjöld skulu miðuð við þau laun er sjóðfélagi hafði er staða hans var lögð niður en iðgjaldsstofninn skal breytast í samræmi við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 24. gr.


III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga,
með síðari breytingum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 3. mgr. kemur: 8%.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „10%“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: 12%.


10. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 3. mgr. 9. gr. laganna kemur: 8%.


11. gr.

    2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Sé staða eða starfi sjóðfélagans lagður niður á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld í sama hlutfalli og heildariðgjöld hvers sjóðfélaga eru á hverjum tíma. Iðgjöld skulu miðuð við þau laun er sjóðfélagi hafði er staða hans var lögð niður en iðgjaldsstofninn skal breytast í samræmi við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 3. mgr. 8. gr.


IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda,
með síðari breytingum.

12. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Iðgjald til sjóðsins skal að lágmarki nema 12% af iðgjaldsstofni, sbr. 2. mgr., sem skiptist þannig að launþegi greiðir 4% en launagreiðandi að lágmarki 8%.


V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, með síðari breytingum.
13. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „6%“ í 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: 8%.


14. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „10%“ og hlutfallstölunnar „4%“ í 1. og 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: 12%; og: 8%.

VI. KAFLI
Gildistaka.
15. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvíþættar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og fleiri lögum um lífeyrissjóði. Annars vegar er lögð til breyting á lagaumhverfi lífeyrissjóða þess eðlis að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað til samræmis við það sem samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði, eða úr 10% í 12%. Hins vegar er lögð til breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem varðar möguleika lífeyrissjóða sem njóta, eða nutu, bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka til að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. þeirra laga.
    Í I. kafla frumvarpsins er að finna tillögur um breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem fela í sér hækkun á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða úr 10% í 12%. Til að raska ekki gildandi kjarasamningum er jafnframt lagt til bráðabirgðaákvæði við lögin um að þar sem kveðið er á um að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli vera 10% í núgildandi kjarasamningi skuli heimilt að miða áfram við hlutfallstöluna 10% í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna þar til nýr kjarasamningur öðlast gildi.
    Í II.–V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á sérlögum um einstaka lífeyrissjóði til samræmis við þá hækkun á lágmarksiðgjaldi sem fjallað er um í I. kafla frumvarpsins. Snúa þær að því að hækka hlutföll þartilgreindra lagagreina til samræmis. Auk þess er lagt til að framangreind hækkun á lágmarksiðgjaldinu taki einnig til þeirra sjóðfélaga sem óska eftir að greiða áfram iðgjald eftir að starf þeirra eða staða er lögð niður.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.Um 1. gr.


    Samkvæmt 2. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, er lágmarksiðgjald til lífeyrissjóða a.m.k. 10% af iðgjaldsstofni. Hér er um lágmarksiðgjald að ræða og því heimilt að semja um hærra hlutfall. Í 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um hækkun á þessu lágmarksiðgjaldi úr 10% í 12%.
    Samið hefur verið samið um 2% hækkun á mótframlagi vinnuveitanda á almennum vinnumarkaði í tveimur áföngum, eða úr 6% í 7% frá og með 1. janúar 2005 og síðan úr 7% í 8% frá og með 1. janúar 2007. Þessi hækkun á lögbundnu lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóða, sem lögð er til hér er til samræmis við þær breytingar. Í frumvarpi sem lagt var fyrir 132. löggjafarþing var gert ráð fyrir að lágmarksiðgjaldið hækkaði fyrst í 11% 1. janúar 2006 og í 12% þann 1. janúar 2007. Þar sem það frumvarp varð ekki að lögum fyrir 1. janúar 2006, eins og að var stefnt, og æskilegt þykir að hækkanir á iðgjöldum komi til framkvæmda um áramót er lagt til að hækkun lágmarksiðgjaldsins miðist við 1. janúar 2007, og hækki þá í einu lagi í 12%.

Um 2. gr.

    Vísað er til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins. Samhengis vegna þykir rétt að sams konar ákvæði og lagt er til í 3. gr. frumvarpsins gildi um lífeyrissjóði sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka.

Um 3. gr.

    Með greininni er lagt til að lífeyrissjóði sem starfar í samræmi við staðfesta reglugerð samkvæmt lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, og nýtur bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags eða banka, eða naut slíkrar ábyrgðar 31. desember 1997, sé heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997. Samkvæmt núgildandi lögum eru slíkir lífeyrissjóðir undanþegnir 39. gr. laganna en sú grein kveður á um að leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur sé á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga, skv. 1. mgr. 39. gr., er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.
    Í ljós hefur komið að þegar 39., 51. og 54. gr. laganna eru lesnar saman þá virðist sem tilteknir lífeyrissjóðir eigi að halda sig innan þeirra marka sem sett eru í 2. mgr. 39. gr. laganna en sé hins vegar óheimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins þar sem slíkt stangist á við ákvæði 54. gr. laganna. M.ö.o. er viðkomandi lífeyrissjóði þá óheimilt að skerða réttindi þrátt fyrir að mismunur eigna og skuldbindinga sé umfram þau mörk sem fram koma í 2. mgr. 39. gr. Um nokkurs konar þversögn er því að ræða innan laganna. Þessi lagalega óvissa hefur haft ýmisleg vandkvæði í för með sér og er því með frumvarpi þessu lagt til að leyst verði úr þeirri óvissu og umræddum lífeyrissjóðum gert heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sínum í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að kveðið verði á um í bráðabirgðaákvæði við lögin að á meðan núgildandi kjarasamningar eru enn í gildi sé heimilt að miða lágmarksiðgjaldið við 10%, sé um það kveðið í viðkomandi kjarasamningi. Eftir það beri að miða lágmarksiðgjald við 12%. Er þetta lagt til með það fyrir augum að verði frumvarpið að lögum hafi það ekki bein áhrif á þá kjarasamninga sem í gildi eru við gildistöku frumvarpsins.

Um 5.–14. gr.

    Í 5.–13. gr. frumvarpsins er lögð til hækkun á mótframlagi á móti iðgjaldi sjóðfélaga í samræmi við 1. gr. Miða ákvæðin að því að 1. janúar 2007 verði mótframlag launagreiðanda hækkað úr 6% í 8%.
    Auk þess er í 12. gr. frumvarpsins lögð til orðalagsbreyting sem miðar að því að gera ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 155/1998, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum, efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Um 15. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum um lífeyrissjóði.
    Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Annars vegar er lagt til að lögfest verði hækkun á lágmarksiðgjaldi í lífeyrissjóði um 2%, úr 10% í 12%, sem verði komin að fullu til framkvæmda 1. janúar 2007, eins og almennt hefur verið samið um í kjarasamningum. Hins vegar er lögð til breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem varðar möguleika lífeyrissjóða sem njóta, eða nutu, bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka, til að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins í samræmi við ákvæði 2. mgr. 39. gr. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.