Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 266. máls.

Þskj. 275  —  266. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert
eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að mynda varasjóð sem samsvarar rekstrarafgangi umfram áætlun. Eigið fé sem haldið hefur verið eftir skv. 1. málsl. skerðist ekki þótt síðar verði rekstrartap af starfseminni. Hámark eigin fjár sem heimilt er að halda eftir samkvæmt þessari málsgrein er 5% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs. Heimilt er að nýta viðkomandi sjóð til að fjármagna útgjöld umfram áætlanir vegna ófyrirséðra atvika.

2. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki skulu greiða 0,00667% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,382% af bókfærðum frumtryggingaiðgjöldum og 0,073% af bókfærðum fengnum endurtryggingaiðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr. Vegna söfnunarlíftrygginga greiðist þó eftirlitsgjald sem nemur 0,009% af nettómismun iðgjaldaskuldar að frádregnum hlut endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,147% af þeim iðgjöldum sem miðlað hefur verið á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 300.000 kr.
     4.      Verðbréfafyrirtæki skulu greiða 0,05% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr. Verðbréfamiðlanir skulu greiða 0,05% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf skulu greiða 0,01021% af eignum rekstrarfélags og viðkomandi sjóða samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     5.      Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,63% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     6.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,0083% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 525.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 840.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 1.470.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum króna til tuttugu og fimm milljarða króna, 2.740.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum króna til eitthundrað milljarða króna og 3.160.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við hreina eign til greiðslu lífeyris.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,86% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     8.      Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
     9.      Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal greiða 0,022% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr. Íbúðalánasjóður skal greiða 0,00203% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     10.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Þrátt fyrir 1. mgr. skal eftirlitsskyldur aðili, sem er að minnsta kosti að 9/ 10 hlutum í eigu annars eftirlitsskylds aðila, greiða 1/ 5 hluta eftirlitsgjalds, samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr., enda hafi móðurfélagið heimild til sömu starfsemi og dótturfélagið. Ákvæði þetta á þó ekki við um lágmarksgjald skv. 1. mgr.
    Eignarhaldsfélög á fjármálasviði, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög, blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi skulu greiða fastagjald sem nemur 600.000 kr.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

3. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Nú vill eftirlitsskyldur aðili ekki una ákvörðun um álagningu, gjaldstofn og útreikning eftirlitsgjalds, og ákvörðun um greiðslur fyrir sértækar aðgerðir, sbr. 7. gr., og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan eins mánaðar frá því að aðila var gerð grein fyrir álagningunni með bréfi Fjármálaeftirlitsins. Málshöfðun frestar ekki innheimtuaðgerðum Fjármálaeftirlitsins né heimildum til aðfarar vegna krafnanna. Ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins um álagningu eftirlitsgjalds verður ekki skotið til ráðherra.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 4. gr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að mynda varasjóð í samræmi við ákvæði 1. gr. verði rekstrarafgangur á árinu 2006 umfram áætlun.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum segir:
    „Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júní ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Áætlað álagt eftirlitsgjald á árinu 2006 er 435 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir 580 millj. kr. árið 2007 og nemur hækkunin 145 millj. kr. eða 33,2%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins árið 2006 er 410,5 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2007 verður 601,1 millj. kr. sem er hækkun um 190,6 millj. kr. eða 46,4%. Lægri hlutfallsleg aukning á eftirlitsgjaldinu en á rekstrarkostnaðinum skýrist annars vegar af hærra álögðu eftirlitsgjaldi á árinu 2006 en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir og hins vegar af áhrifum af yfirfærslu á eigin fé milli ára sem jafna þarf með eftirlitsgjaldi næsta árs. Af 190,6 millj. kr. heildaraukningu rekstrarkostnaðar milli þessara ára er aukning launakostnaðar 127 millj. kr. og aukning annars rekstrarkostnaðar um 63 millj. kr.
    Aukning launakostnaðar milli ára skýrist nánar af fyrirséðum samningsbundnum launahækkunum og áhrifum launahækkana í samræmi við áætlun ársins 2006 sem nema alls 29 millj. kr., 16,4 millj. kr. eru vegna fjölgunar starfsmanna að meðaltali úr 39,7 samkvæmt áætlun fyrir árið 2006 í 41,8 samkvæmt áætlun fyrir árið 2007, 25,9 millj. kr. skýrast af áætluðu svigrúmi til að bregðast við óvæntum útgjöldum og launaskriði vegna þenslu í launakostnaði á fjármálamarkaði, og 22,7 millj. kr. eru vegna samninga við starfsmenn um „kælitíma“ í 2–3 mánuði eftir starfslok hjá stofnuninni. Framangreindir liðir nema alls 93,9 millj. kr. Til viðbótar teljast með í hækkun launakostnaðar 33,4 millj. kr. sem er áætluð sérstök eingreiðsla á árinu 2007 vegna samkomulags um uppgjör skuldbindinga við Lífeyrissjóð bankamanna.
    Í 64 millj. kr. áætlaðri hækkun annars rekstrarkostnaðar milli áranna 2006 og 2007 er gert ráð fyrir 35,3 millj. kr. vegna kostnaðar við tölvubúnað og sérfræðiþjónustu vegna tölvumála, en áætlað er að gera umtalsvert átak í rafrænum gagnaskilum til stofnunarinnar og rafvæðingu ferla, auk evrópskra verkefna um upplýsingasamskipti. Þá eru alls 14,7 millj. kr. áætlaðar í tengslum við aukinn húsnæðiskostnað og kostnað við áætlaða flutninga stofnunarinnar í rúmbetra húsnæði þegar líða tekur á árið 2007.
    Með frumvarpi þessu eru birt sem fylgiskjöl gögn sem tilheyra rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007, auk kostnaðarumsagnar fjárlagadeildar fjármálaráðuneytis. Þau eru eftirfarandi í númeraröð:
     I.      Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2007, skv. 2. gr. l. nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     II.      Sérstök skýrsla, „Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár.“ Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2007.
     III.      Umsögn samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila „Um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007.“
     IV.      Bréf til viðskiptaráðherra um breytingar á rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007 (samkomulag við lífeyrissjóð bankamanna).
    Í þessum gögnum er að finna rekstrar- og tekjuáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2007 auk margvíslegra upplýsinga er varða verkefni og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins og varpa nánara ljósi á rekstrartölurnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Nýju ákvæði er ætlað að tryggja Fjármálaeftirlitinu rekstrarfjármögnun vegna lausafjárvanda sem kann að skapast vegna óvæntra útgjalda og tímamismunar á inngreiðslum og útgreiðslum á einhverjum tímabilum rekstrarársins.
    Miklum vexti, hraðri þróun og útrás á fjármálamörkuðum fylgir óhjákvæmilega aukin óvissa í rekstrarumfangi Fjármálaeftirlitsins en rekstraráætlun er lokið 6–18 mánuðum áður en útgjöld falla til. Fyrirvaralítið kann að reynast óhjákvæmilegt að kaupa utanaðkomandi sérfræðiaðstoð vegna eftirlitsúttekta, greiða kostnað vegna málarekstrar, eða framkvæma kostnaðarsamar eftirlitsaðgerðir erlendis í samstarfi við erlendar systurstofnanir vegna starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja. Í ýmsum tilvikum væri ekki unnt að gera viðkomandi fyrirtækjum reikning vegna þessa. Þörfin fyrir þessa sjóðsmyndun byggist á því að stofnuninni er ekki heimilt að mynda skuld á viðskiptareikningi sínum við Seðlabankann og telja verður óheppilegt að hún þurfi að sækja slíka fyrirgreiðslu til eftirlitsskylds aðila kæmi til lausafjárvanda vegna framangreinds. Ákvæðið felur í sér að uppsafnað eigið fé þannig myndað geti mest numið 5% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs.

Um 2. gr.

    Með frumvarpinu eru álagningarhlutföll fjármálafyrirtækja, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rekstrarfélaga, verðbréfafyrirtækja og verðbréfamiðlana, lækkuð, en álagningarhlutföll vátryggingafélaga, vátryggingamiðlana, lífeyrissjóða og annarra eftirlitsskyldra aðila hækkuð. Mismunur breytinga hvað þetta varðar skýrist af mismunandi þróun álagningarstofna einstakra flokka eftirlitsskyldra aðila. Í rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007 er hlutur lánastofnana, þ.e. viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja, auk lífeyrissjóða, nú aukinn lítillega í hlutfallslegri skiptingu eftirlitsgjalds milli stofnanaflokka.
    Hækkanir eru gerðar á lágmarks- og fastagjöldum samkvæmt frumvarpinu. Lágmarksgjöldum lánastofnana og vátryggingafélaga hefur ekki verið breytt frá því í ársbyrjun 2002. Þessi gjöld hafa ekki breyst í takt við aukið rekstrarumfang Fjármálaeftirlitsins og fer kostnaðarþátttaka þeirra eftirlitsskyldu aðila sem þau greiða því sífellt lækkandi. Gert er ráð fyrir nokkuð mismunandi hlutfallshækkun gjaldanna með hliðsjón af eðli viðkomandi starfsemi, tíma frá síðustu breytingu, og fyrri fjárhæð gjaldsins hvað lægstu fjárhæðir varðar. Lágmarksgjöld viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, rekstrarfélaga verðbréfasjóða, vátryggingafélaga og Íbúðalánasjóðs hækka samkvæmt frumvarpinu úr 400.000 kr. í 600.000 kr. Þá er lágmarksgjald á kauphallir og verðbréfamiðstöðvar hækkað úr 250.000 kr. í 350.000 kr., verðbréfamiðlanir úr 250.000 kr. í 350.000 kr. og lágmarksgjöld á vátryggingamiðlara úr 200.000 kr. í 300.000 kr. Þá hækka fastagjöld á innlánsdeildir samvinnufélaga úr 250.000 kr. í 300.000 kr. og fastagjöld á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og Tryggingarsjóð sparisjóða úr 150.000 kr. í 300.000 kr. Breytingar eru einnig gerðar á fastagjöldum lífeyrissjóða en þau varða innbyrðis skiptingu álagðs eftirlitsgjalds milli lífeyrissjóðanna, og byggjast á tilögum Landssamtaka lífeyrissjóða og óskum samtakanna um að þáttur fastagjaldanna í heildarálagningu á lífeyrissjóði nemi hverju sinni um 60% af heildarálagningunni á lífeyrissjóðina. Fastagjaldið á lífeyrissjóðina er eins og fyrr í fimm þrepum og er lægsta þrepið samkvæmt frumvarpinu nú 525.000 kr. en það hæsta 3.160.000 kr. en þessar fjárhæðir hafa verið 250.000 kr. og 1.500.000 kr.
    Fjórða málsgrein greinarinnar er ný. Í 97. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og 7. gr. laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi eru ákvæði um ýmsar tegundir eignarhaldsfélaga sem eiga það sameiginlegt að a.m.k. eitt dótturfélag er starfsleyfisskylt fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag. Eftirlit Fjármálaeftirlitsins með eignarhaldi og tengslum þessara eignarhaldsfélaga við dótturfélögin er hluti af viðvarandi eftirliti með viðkomandi fjármálastarfsemi, hvort sem er á fjármálasviði eða vátryggingasviði. Eðlilegt er því að slík félög taki þátt í kostnaði við starfsemi Fjármálaeftirlitsins og er talið hæfilegt að eftirlitsgjaldið verði fastagjald sem hverju sinni nemi sömu fjárhæð og lágmarksgjöld á fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög.

Um 3. gr.

    Með breytingu á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem samþykkt var á Alþingi 13. júní 2006 var starfsemi kærunefndar lögð niður. Heimildir til að bera ákvarðanir um álagningu eftirlitsgjalds undir nefndina, sem áður voru í þessari grein, falla því niður. Í staðinn er eftirlitsskyldum aðilum nú beint til dómststóla vilji þeir ekki una ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um álagningu gjaldsins. Talið er hæfilegt að kærufrestur sé 30 dagar frá því að gerð var grein fyrir álagningu eftirlitsgjalds eða leiðréttingu þess með bréfi.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæðinu er ætlað að tryggja heimild Fjármálaeftirlitsins til sjóðsmyndunar, sbr. 1. grein, miðað við afkomu ársins 2006.Fylgiskjal I.


Fjármálaeftirlitið:

Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins
árið 2007, skv. 2. gr. l. nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar
við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


    Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, er viðskiptaráðherra hér með send rekstraráætlun fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2007. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júlí ár hvert gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Fjármálaeftirlitið hefur, í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar á árinu 2007. Átti Fjármálaeftirlitið fundi með nefndinni þann 1. júní s.l. þar sem kynnt voru drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum og drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu á árinu 2007. Samráðsnefndin skilaði drögum að skriflegu áliti til Fjármálaeftirlitsins um drögin að rekstraráætluninni þann 26. júní sl. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um álit nefndarinnar á stjórnarfundi þann 27. júní sl. og staðfesti meðfylgjandi rekstraráætlun. Samráðsnefndin skilaði síðan endanlegu áliti sínu á rekstraráætluninni þann 30. júní sem fylgir hjálagt með skýrslunni.
    Í skýrslu þessari er að finna stutta greinargerð um rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2005 og umfjöllun um rekstraráætlun vegna ársins 2006. Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir forsendum rekstraráætlunar stofnunarinnar fyrir árið 2007 og tillögum um álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2007.
    Skýrslunni fylgja einnig þrjár töflur þar sem gerð er grein fyrir rekstri Fjármálaeftirlitsins á árinu 2005 og samanburði við rekstraráætlun fyrir það ár (tafla 1), áætluðu rekstrarumfangi næsta árs og rekstri Fjármálaeftirlitsins á yfirstandandi ári (tafla 2) og áætlaðri álagningu eftirlitsgjalds miðað við áætlað rekstrarumfang 2007 (tafla 3). Ársreikningur Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2005 er einnig meðfylgjandi.

1. Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2005.
    Tekjur af eftirlitsgjaldi, sem eftirlitsskyldir aðilar greiða, námu á árinu 2005 299,9 m.kr. Ýmsar tekjur námu 5,5 m.kr. og fjármunatekjur nettó námu 4,8 m.kr. Rekstrargjöld, að meðtöldum eignakaupum, námu 329,2 m.kr. Tekjuafgangur samkvæmt rekstrarreikningi nam –19,0 m.kr. Eignir í árslok 2005 námu samtals um 8,7 m.kr. og skuldir 18,9 m.kr. þannig að eigið fé í árslok nam –10,1 m.kr. Við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir að eigið fé í árslok yrði 0 kr. Megin skýringin á 10,1 m.kr. fráviki er aukning á stöðugildum hjá eftirlitinu.
    Við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir tekjuhalla að fjárhæð 8,5 m.kr. til að jafna út áætlaða 8,5 m.kr. jákvæða stöðu eigin fjár í ársbyrjun 2005. Tekjuhallinn reyndist hins vegar verða –19,0 m.kr. eða 10,5 m.kr. hærri en áætlunin, sem skiptist í 15,1 m.kr. hærri rekstrargjöld og 4,6 m.kr. hærri tekjur. Helstu frávik rekstrargjalda frá áætluninni voru 11,3 m.kr. hærri laun og launatengd gjöld 1,1 m.kr. hærri gjöld vegna útgáfu, auglýsinga og prentunar, 1,0 m.kr. hærri ferðakostnaður erlendis, 0,9 m.kr. hærri sérfræðikostnaður og aðrir rekstrarliðir samtals hærri um 1,6 m.kr. Hækkun á launakostnaði skýrist m.a. af fjölgun stöðugilda frá því sem áætlunin gerði ráð fyrir. Meginskýringin á því er að eftir að áætlunin var staðfest þá samþykkti Alþingi lög. nr. 31/2005, um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, með síðari breytingum. Lög þessi höfðu í för með sér ráðningu tveggja starfsmanna sem ekki var gert ráð fyrir í áætluninni. Helstu frávik í tekjum voru að tekjur af eftirlitsgjaldi reyndust 1,9 m.kr. hærri en samkvæmt áætluninni sem skýrist af breytingum á starfsleyfum eftirlitsskyldra aðila, 1,8 m.kr. hærri nettó vaxtatekjur og 0,9 m.kr. hærri aðrar tekjur. Í töflu 1 er sýnd nánari sundurliðun á rekstrarliðum samkvæmt áætluninni annars vegar og rauntölum fyrir árið 2005 hins vegar.
    Um rekstur FME á árinu 2005 er að öðru leyti vísað til ársreiknings Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2005.

2. Rekstraráætlun vegna ársins 2006.
    Í tengslum við gerð rekstraráætlunar næsta árs hefur Fjármálaeftirlitið á hverju ári skoðað hvort ástæða sé til að endurskoða upphaflega rekstraráætlun yfirstandandi árs í því skyni að áætla eins nákvæmlega og kostur er stöðu í lok árs sem yfirfærist til næsta árs og hefur áhrif á ákvörðun um álagningarhlutföll þess árs. Með hliðsjón af bráðabirgða rekstraruppgjöri fyrir fyrstu fimm mánuði ársins sér Fjármálaeftirlitið ekki ástæðu til að endurskoða upphaflega áætlun um rekstrarkostnað fyrir árið 2006. Hins vegar reyndist álagt eftirlitsgjald, sem lagt var á í ársbyrjun 2006, verða 11,3 m.kr. hærra en áætlunin fyrir árið 2006 gerði ráð fyrir eða 435,4 m.kr. í stað 424,1 m.kr. Hærra eftirlitsgjald skýrist fyrst og fremst af áhrifum af samruna Burðaráss hf. við Landsbanka Íslands hf. annars vegar og Straum Fjárfestingarbanka hf. hins vegar á seinni hluta ársins 2005. Þá reyndist eigið fé sem yfirfærist í ársbyrjun 2006 frá fyrra ári 6,4 m.kr. hærra en gert var ráð fyrir í áætluninni eða –10,1 m.kr. í stað –16,6 m.kr. Eigið fé í árslok 2006 verður því samtals 17,7 m.kr. (11,3+6,4) í stað 0 kr. eins og upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.

3. Rekstraráætlun fyrir árið 2007.
    Í töflu 2 er sýnd rekstraráætlun fyrir árið 2007 í samanburði við rekstraráætlun fyrir árið 2006. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu forsendum hennar.

Launakostnaður.
    Fjöldi starfsmanna er ráðandi þáttur í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Af fjölda starfsmanna ráðast helstu rekstrarstærðir, þ.e. laun og launatengd gjöld, húsnæðisþörf og umfang tölvubúnaðar. Gert er ráð fyrir aukningu í meðalfjölda stöðugilda milli ára um 2,1 stöðugildi eða úr 39,7 í 41,8 og eru inni í þessum tölum einnig starfsmenn sem ráðnir eru tímabundið. Nánar er fjallað um rökin fyrir þessu í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).
    Í töflu 2 kemur fram að laun og launatengd gjöld eru áætluð 401,4 m.kr. árið 2007 samanborið við 307,5 m.kr. samkvæmt áætlun 2006. Hækkun launakostnaðar milli ára er því 93,9 m.kr. eða 30,5%. Nánari sundurgreining á hækkuninni er eftirfarandi: 1) fyrirséðar samningsbundnar launahækkanir og áhrif launahækkana í samræmi við áætlun 2006 reiknast vera 29 m.kr., 2) 16,4 m.kr. vegna fjölgunar starfsmanna eins og gerð er grein fyrir hér að ofan, og 3) 8% af launakostnaði, eða 25,9 m.kr., sem áætlað svigrúm til að bregðast við óvæntum útgjöldum og launaskriði vegna þenslu í launakostnaði á fjármálamarkaði, 4) 7% eða 22,7 m.kr. vegna samninga við starfsmenn um „kælitíma“ í 2 til 3 mánuði eftir starfslok hjá FME.
    Laun stjórnarmanna, sem eru hluti af ofangreindri heildartölu um laun og launatengd gjöld, eru ákveðin af ráðherra og eru þau áætluð óbreytt frá fyrra ári.

Rekstur á húsnæði.
    Húsaleiga byggir á föstum samningum sem bundnir eru vísitölu neysluverðs. Áætlun vegna rafmagns, hita og húsfélags er byggð á reynslu. Samtals kostnaður vegna þessara liða er áætlaður 24,9 m.kr. á árinu 2007 samanborið við 20,2 m.kr. samkvæmt áætlun fyrir árið 2006 eða hækkun um 23,3%. Hækkunin skýrist af því að eftirlitið hyggst flytja seinnihluta árs 2007 í hentugra húsnæði eins og fram kemur í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár). Fyrirvari er þó gerður um að viðunandi kjör náist um leigu á nýju húsnæði og aðgengilegt samkomulag við núverandi leigusala um lok gildandi leigusamnings stofnunarinnar.

Kostnaður vegna flutninga.
    Gert er ráð fyrir 10 m.kr. áætluðum kostnaði vegna flutninga í hentugra húsnæði á seinni hluta ársins 2007 sbr. einnig umfjöllun hér á undan.

Rekstur tölvubúnaðar.
    Gert er ráð fyrir að rekstur tölvubúnaðar og sérfræðiþjónusta vegna tölvumála hækki um 35,3 m.kr., eða um 107,6%, úr 32,8 m.kr. áætlun fyrir árið 2006 í 68,1 m.kr. á árinu 2007. Af 35,3 m.kr. hækkun eru 24 m.kr. eyrnamerktar rafrænum gagnaskilum og rafvæðingu ferla. Sjá nánar í kaflanum um nútímavæðingu í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár).

Ferðakostnaður, kostnaður vegna funda og þátttökugjöld vegna erlends samstarfs.
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður erlendis hækki um 25% milli ára og verði 17,5 m.kr. Gert er ráð fyrir 120 ferðum á næsta ári á móti rúmum 100 árið 2006. Aukningin skýrist af samstarfi eftirlita á evrópska efnahagssvæðinu og auknum umsvifum íslenskra viðskiptabanka erlendis, sbr. ennfremur umfjöllun um þessa þætti í fylgiskjali (Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár) Rétt er að nefna að ítarlegt yfirlit yfir erlent samstarf Fjármálaeftirlitsins er birt á heimasíðu þess.
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður vegna funda innanlands verði 2,0 m.kr. á árinu 2007 sem er hækkun upp á 200 þús. milli ára.
    Fjármálaeftirlitinu ber í nokkrum tilvikum að greiða þátttökugjöld í erlendu samstarfi. Hæstu þátttökugjöldin eru vegna þriggja samevrópskra nefnda þ.e. reksturs Samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlita, Committee of European Securities Regulators (CESR), Samstarfsnefndar Evrópskra vátryggingaeftirlita og lífeyrissjóðaeftirlita, Committee of European Insurance and Occupational Pension Supervisors (CEIOPS) og Samstarfsnefndar evrópskra bankaeftirlita, Committee of European Banking Supervisiors (CEBS). Starfsemi þessara nefnda er kostuð af þátttakendum í tilteknum stærðarhlutföllum. Þátttökugjöld vegna þessara þriggja nefnda eru áætluð 4,9 m.kr. Þá má nefna þátttökugjald í Alþjóðasamtökum vátryggingaeftirlita (IAIS) 0,6 m.kr. Samtals þátttökugjöld samkvæmt framangreindu eru 5,5 m.kr. af 6,0 m.kr. áætluðum þátttökugjöldum í heild vegna erlends samstarfs og funda erlendis á árinu 2007 og er um að ræða 1,5 m.kr. hækkun frá fyrra ári. Innifalið í þessum gjaldalið er jafnframt gert ráð fyrir erlendum námskeiðakostnaði.
    Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna funda innanlands lækki úr 1,4 m.kr. í 1,0 m.kr. eða um 0,4 m.kr. Lækkunin skýrist af óvenju háum áætluðum kostnaði Fjármálaeftirlitsins vegna funda í norrrænu samstarfi á árinu 2006 sem haldnir eru hér á landi á fimm ára fresti.

Eignakaup.
    Á liðinn eignakaup er færður kostnaður vegna kaupa á húsgögnum og tækjum og viðhaldi á innréttingum, tækjum og búnaði vegna skrifstofuhalds (tölvubúnaður undanskilinn). Þessi kostnaðarliður er áætlaður 4 m.kr. fyrir árið 2007 sem er það sama og árið á undan.

Ýmis gjöld og þjónusta.
    Gert er ráð fyrir að liðurinn hækki um 3,4 m.kr. Annars vegar 2,4 m.kr. vegna ADSL heimatengingar starfsmanna og er með því opnað fyrir mögluleika starfsmanna á að vinna heima og að komast í tölvupóst, dagbók og þess háttar utan starfsstöðvar. Hins vegar hækkar liðurinn um kr. 0,9 m.kr. vegna yfirtökunefndar en Fjármálaeftirlitið er einn af stofnaðilum nefndarinnar og borgar hluta af rekstrarkostnaði hennar.

Annar kostnaður.
    Samtala kostnaðarliða sem ekki hefur verið gerð grein fyrir hér á undan er áætluð 27,4 m.kr. á árinu 2007 samanborið við 22,3 m.kr. fyrir árið 2006 og nemur hækkunin 5,1 m.kr. eða 23%. Að hluta til stafar hækkunin á þessum kostnaðarliðum af áhrifum af fjölgun starfsmanna. Í þessu sambandi má nefna að samkvæmt símenntunarstefnu Fjármálaeftirlitsins er stefnt að því að kostnaður vegna símenntunar nemi 3% af launum og launatengdum gjöldum. Ekki er gert ráð fyrir sérgreindum lið vegna þessa heldur fellur þessi kostnaður undir liði 5, 6, 11, 15, 16 og 17.

Rekstrarkostnaður samtals.
    Samtala gjaldaliða án úrskurðarnefnda er áætluð 567,6 m.kr. á árinu 2007 samanborið við 410,5 m.kr. samkvæmt áætlun ársins 2006 eða 38,3% hækkun milli ára. Rétt er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði vegna Lífeyrissjóðs bankamanna en niðurstöður í óútkljáðu dómsmáli sjóðsins gegn Landsbanka Íslands hf. kynnu að hafa áhrif á Fjármálaeftirlitið.

Aðrar tekjur, vaxtatekjur.
    Fjármálaeftirlitið fær vexti af innstæðu á reikningi í Seðlabanka Íslands. Vaxtatekjurnar eru byggðar á áætlaðri meðalstöðu innstæðu m.v. álagningu sem miðast við drög að rekstraráætlun. Aðrar tekjur eru óverulegar eða um 0,4 m.kr. vegna yfirlestrar á útboðslýsingum félaga sem ekki eru skráð á Kauphöll Íslands hf. en um er að ræða tilfallandi tekjur sem óvarlegt er að reikna með í áætlun fyrir næsta ár. Fjármálaeftirlitið áskilur sér jafnframt rétt til að nýta heimildir í 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, og 3. mgr 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, til að innheimta sérstaklega útlagðan kostnað vegna umframeftirlits eða aðkeyptrar sérfræðiþjónustu vegna ákveðinna aðila. Er þar til dæmis haft í huga innleiðing á nýjum eiginfjárreglum.

4. Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2007.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 skal Fjármálaeftirlitið í skýrslu þessari leggja fram mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila. Þannig skal hliðsjón höfð af tímaskiptingunni á tilgreindu tímabili samhliða mati á þróun þessarar skiptingar fyrir líðandi ár og næsta fjárhagsár.
    Með tilvísun til framangreinds hefur Fjármálaeftirlitið athugað hvort tilefni sé til að leggja fram tillögur um breytingar á skiptingu eftirlitsgjaldsins á árinu 2007, sem breyst hefur fremur lítið á síðustu árum. Á árinu 2005 varð nokkur breyting á skiptingu vinnustunda hjá Fjármálaeftirlitinu milli eftirlitsskyldra aðila þar sem þáttur lánastofnana jókst í tæp 55% en hafði verið um 47% á árinu 2004. Með hliðsjón af því og áherslum á áframhaldandi aukið vægi eftirlits á lánamarkaði á árinu 2006 og áfram á árinu 2007 telur Fjármálaeftirlitið eðlilegt að leggja til að auka hlutdeild lánastofnana í álagningu eftirlitsgjalds á árinu 2007 nokkuð frá því sem var við álagningu eftirlitsgjalds fyrir árið 2006. Í töflu 3A, sem fylgir með skýrslunni, má sjá hvernig skipting eftirlitsgjaldsins er áætluð á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila með hliðsjón af nefndum breytingum og hvernig skipting gjaldsins var við álagningu á árinu 2006.
    Þá telur Fjármálaeftirlitið einnig tímabært að leggja til breytingar á lágmarks- og fastagjöldum. Lágmarksgjöldum lánastofnana og vátryggingafélaga hefur ekki verið breytt frá því í ársbyrjun 2002. Þessi gjöld hafa ekki breyst í takt við aukið rekstrarumfang Fjármálaeftirlitsins og fer kostnaðarþátttaka þeirra eftirlitsskyldu aðila sem þau greiða því sífellt lækkandi. Í breytingartillögunum er hins vegar gert ráð fyrir nokkuð mismunandi hlutfallshækkun gjaldanna með hliðsjón af eðli viðkomandi starfsemi, tíma frá síðustu breytingu, og fyrri fjárhæð gjaldsins hvað lægstu fjárhæðir varðar. Lagt er til að lágmarksgjöld viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, rekstrarfélaga verðbréfasjóða, vátryggingafélaga og Íbúðalánasjóðs verði hækkuð úr 400 þús.kr. í 600 þús.kr. Þá verði lágmarksgjald á kauphallir og verðbréfamiðstöðvar hækkað úr 250 þús.kr. í 350 þús.kr., verðbréfamiðlanir úr 250 þús.kr. í 350 þús.kr. og lágmarksgjöld á vátryggingamiðlara úr 200 þús.kr. í 300 þús.kr. Þá er lagt til að fastagjöld á innlánsdeildir samvinnufélaga hækki úr 250 þús.kr. í 300 þús.kr. og á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og Tryggingarsjóð sparisjóða úr 150 þús.kr. í 300 þús.kr. Tillögur um breytingar fastagjöldum lífeyrissjóða, sem varða innbyrðis skiptingu álagðs eftirlitsgjalds milli lífeyrissjóðanna, eru hins vegar ekki frágengnar þar sem Fjármálaeftirlitið bíður álits Landssamtaka lífeyrissjóða hvað það varðar. Tillögunum verður komið á framfræri við ráðuneytið þegar þær liggja fyrir sé tilefni til þess. Í töflu 3B sem fylgir með skýrslunni, er sýnt yfirlit yfir þróun þessara gjalda frá því að Fjármálaeftirlitið tók til starfa.
    Eins og fram kemur í rekstraráætluninni fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald á því ári verði 546,5 m.kr. samanborið við 435,4 m.kr. álagt eftirlitsgjald á árinu 2006 sem er 25,5% hækkun milli ára. Lægri hlutfallsleg aukning á eftirlitsgjaldinu en á rekstrarkostnaðinum skýrist annars vegar af hærra álögðu eftirlitsgjaldi á árinu 2006 en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir og hins vegar af áhrifum af yfirfærslu á eigin fé milli ára sem jafna þarf með eftirlitsgjaldi næsta árs. Í meðfylgjandi töflu 3A eru áætluð álagningarhlutföll vegna ársins 2007 sýnd með hliðsjón af rekstraráætluninni fyrir það ár.

5. Óvissuálag.
    Samhliða undirbúningi að tillögum til breytinga á álagningarhlutföllum í lögum nr. 99/1999, með áorðnum breytingum, til samræmis við ofangreinda rekstraráætlun fyrir árið 2007 telur Fjármálaeftirlitið nauðsynlegt að hugað verði að breytingum á sömu lögum til að tryggja stofnuninni rekstrarfjármögnun komi upp sú staða að hana skorti rekstrarfé vegna tímamismunar á inngreiðslum og útgreiðslum.

6. Uppfærsla á lögum nr. 99/1999 vegna breytingar á lögum nr. 87/1998.
    Með breytingu á lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sem samþykkt var á Alþingi þann 3.júní 2006 er fellt niður ákvæði um starfrækslu kærunefndar. Í 8. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er kveðið á um kæruleið til þessarar nefndar vegna ákvarðana um álagningu eftirlitsgjalds. Nauðsynlegt er að breyta þessu ákvæði til samræmis við breytinguna á fyrrnefndu lögunum.

Tafla 1: Rekstrarkostnaður ársins 2005.
(Í þús. kr.)


GJÖLD

Áætlun
2005

Rauntölur
2005

Mismunur
Rauntölur
í hlutfalli
af áætlun
Laun og launatengd gjöld 219.757 231.837 –12.080 5,5%
Stjórnarlaun 6.400 6.150 250 –3,9%
Gisti og íþróttastyrkur 2.000 1.469 531 26,6%
    Laun og launatengd gjöld samtals 228.157 239.456 –11.299 5,0%
Starfsmannaþj., kaffi, fundir 3.000 3.074 –74 2,5%
Endurm.kostnaður og skólakostnaður 2.400 2.602 –202 8,4%
Húsaleiga 17.850 17.366 484 –2,7%
Rafmagn, hiti, húsfélag 2.000 1.887 113 –5,7%
Símakostnaður 2.000 2.037 –37 1,9%
Útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. 2.750 3.864 –1.114 40,5%
Bækur og ritföng 2.900 3.260 –360 12,4%
Póstkostnaður 540 550 –10 1,9%
Rekstur tölvubúnaðar og sérfr. v. tölvumála 18.000 17.505 495 –2,8%
Sérfræðikostnaður 3.000 3.906 –906 30,2%
Ferðakostnaður erlendis 11.750 12.741 –991 8,4%
Ferðakostnaður innanlands 1.800 1.934 –134 7,4%
Þátttökugjöld funda erlendis 4.000 4.010 –10 0,2%
Kostnaður vegna funda hér á landi 350 835 –485 138,6%
Eignakaup 3.000 3.703 –703 23,4%
Öryggisgæsla 700 565 135 –19,3%
Ræsting, ræstingarvörur 3.000 3.025 –25 0,8%
Ýmis gjöld og þjónusta 2.300 2.276 24 1,0%
Gjöld alls 309.497 324.596 –15.099 4,9%
TEKJUR
Álagt eftirlitsgjald 2005 297.968 299.903 0,6%
Vaxtatekjur (netto) 3.000 4.783 59,4%
Aðrar tekjur 0 887
Tekjur alls 300.968 305.573 1,6%
Úrskurðarnefndir
Launakostnaður vegna úrskurðarnefnda 5.500 4.624 –15,9%
Aðrar tekjur úrskurðarnefnda 5.500 4.624 –15,9%
Tekjuafgangur –8.529 –19.023
Yfirfært frá fyrra ári 8.529 8.878
Eigið fé í árslok 0 –10.145


Tafla 2: Rekstrarkostnaður.
(Í þús. kr.)
Áætlun vegna 2006
1
Áætlun vegna 2007
2

Breyting %
D1 til D2
1 Laun og launatengd gjöld 298.800 392.025 31,2%
2 Íþrótta- og gististyrkur 2.300 3.000 30,4%
3 Stjórnarlaun 6.400 6.400 0,0%
4     Laun og launatengd gjöld samtals 307.500 401.425 30,5%
5 Starfsmannaþj., kaffi, fundir 3.400 3.800 11,8%
6 Endurm.kostnaður og skólakostnaður 2.800 3.700 32,1%
7 Húsaleiga 18.100 22.700 25,4%
8 Rafmagn, hiti, húsfélag 2.100 2.200 4,8%
9 Símakostnaður 2.100 2.500 19,0%
10 Útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. 3.000 4.000 33,3%
11 Bækur og ritföng 3.100 3.500 12,9%
12 Póstkostnaður 550 600 9,1%
13 Rekstur tölvub.,sérfr.þj. v. tölvumála
    og eignak. v. tölvumála
32.800 68.100 107,6%
14 Sérfræðikostnaður 3.000 4.000 33,3%
15 Ferðakostnaður erlendis 14.000 17.500 25,0%
16 Ferðakostnaður innanlands 1.800 2.000 11,1%
17 Þátttökugj. vegna erl. samstarfs og funda erlendis 4.500 6.000 33,3%
18 Kostnaður vegna funda innanlands 1.400 1.000 –28,6%
19 Eignakaup 4.000 4.000 0,0%
20 Öryggisgæsla 700 1.000 42,9%
21 Ræsting, ræstingarvörur 3.100 3.500 12,9%
22 Styrkur til starfsmannafélags 580 750 29,3%
23 Kostnaður vegna flutninga 0 10.000
24 Ýmis gjöld og þjónusta 1.950 5.400 176,9%
25     Önnur gjöld samtals 102.980 166.250 61,4%
26 Gjöld alls án úrskurðarnefnda 410.480 567.675 38,3%
Tekjur
27 Álagt eftirlisgj. m.v. breytingar á lögum
    nr. 99/1999
435.352 546.548 25,5%
28 Vaxtatekjur netto 3.000 3.000 0,0%
29 Aðrar tekjur 0 400
30 Tekjur alls án úrskurðarnefnda 438.352 549.948 25,5%
Úrskurðarnefndir
31 Launakostnaður vegna úrskurðarnefnda 6.000 6.000
32 Tekjur úrskurðarnefnda 6.000 6.000
33 Tekjuafgangur 27.872 –17.727
34 Yfirfært frá fyrra ári, áætlað –10.145 17.727
35 Eigið fé í árslok 17.727 0


Fylgiskjal II.


Fjármálaeftirlitið:

Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár.
Fylgiskjal með skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan
rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2007.


1. Inngangur.
    Samhliða rekstraráætlun sinni og greinargerð með henni leggur Fjármálaeftirlitið fram skýrslu um rekstur og starfsumhverfi sitt næstu ár, en efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis beindi þeim tilmælum til eftirlitsins á árinu 2001.

2. Áherslur í starfi fjármálaeftirlitsins og þróun markaðarins.
    Íslensk fjármálaþjónustufyrirtæki héldu áfram að stækka og auka hlutdeild erlendrar starfsemi á árinu 2005. Þannig jukust heildareignir viðskiptabankanna þriggja um rúmlega 80% á árinu en frá árinu 2002 hafa eignir þeirra á móðurfélagsgrunni tæplega fjórfaldast og 5,3 faldast á samstæðugrunni. Hrein eign lífeyrissjóða var í árslok 2005 um 1.200 milljarðar króna og jókst um 22% á árinu. Eignir vátryggingafélaga jukust um 34%. Þá jukust viðskipti með hlutabréf í kauphöll um 67%. Viðskipti með skuldabréf í kauphöll drógust hins vegar saman um 12%, sem skýrist m.a. af breytingum á húsnæðislánamarkaðnum.

2.1 Lánamarkaður.
    Lánamarkaður hefur einkennst af mikilli útlánaaukningu, hárri arðsemi og aukinni alþjóðavæðingu. Alþjóðavæðingin hefur bæði komið fram í aukinni starfsemi viðskiptabankanna erlendis og í aukinni umræðu og greiningum erlendra aðila á stöðu þeirra.
    Eiginfjárstaða viðskiptabanka og stærstu sparisjóða er sterk og hafa þeir allir staðist álagspróf FME. Fjármögnun viðskiptabankanna er að stærstum hluta háð erlendum lánsfjármörkuðum sem er einn stærsti áhættuþátturinn í rekstri þeirra.
    Áherslur í starfi Fjármálaeftirlitsins á undanförnu ári hafa snúið að því að takmarka áhættu á áföllum með athugunum á innra eftirliti, áhættustýringu, eiginfjárstöðu og stórum áhættuskuldbindingum. Jafnframt hafa athuganir verið gerðar á útlánaáhættu, markaðsverðbréfaáhættu, fastvaxtaáhættu og framkvæmd lausafjárstýringar. Samhliða þessu hafa mál er snúa að eftirliti með virkum eignarhlutum, starfsháttum stjórna (s.s. við útlánaákvarðanir) og þátttöku fjármálafyrirtækja í atvinnustarfsemi verið ofarlega á baugi.
    Á næstu árum má ætla að þau verkefni sem talin hafa verið upp að framan muni áfram vega þungt í starfi eftirlitsins, bæði með úttektum og upplýsingasöfnun. Til viðbótar mun innleiðing á Basel II eiginfjárreglum taka umtalsverðan tíma.
    Ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðujuverka , sem samþykkt voru á Alþingi þann 2. júní 2006, leggja auknar skyldur á Fjármálaeftirlitið auk þess sem æskilegt er vegna alþjóðlegra skuldbindinga að leggja meiri áherslu á þennan málaflokk. Er ljóst að eftirlitið mun þurfa á nýju stöðugildi að halda vegna þessa á árinu 2007. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið koma þessi sjónarmið einnig fram.
    Frekari mannaflaþörf á þessu sviði fyrir árið 2008 mun ráðast af þróun í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Að undanförnu hafa verið opnuð 7 ný útibú í 5 löndum og ef svo heldur fram sem horfir þarf líklegast að bæta við einu stöðugildi vegna þessa enda ber Fjármálaeftirlitið ábyrgð á eftirliti með útibúum íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis.

2.2 Lífeyrismarkaður.
    Áherslur í eftirliti með lífeyrissjóðum hefur snúið að athugunum á fjárfestingum, fjárfestingarstefnum og skuldbindingum einstakra sjóða auk þess sem gerðar eru heildarúttektir á starfseminni.
    Fjármálaeftirlitið fær til umsagnar tillögur að breytingum á samþykktum sjóðanna, svo sem vegna breytinga á réttindakerfum og vegna sameininga, og var vinna slíkra verkefna umtalsverð á síðasta ári. Má búast við að svo verði áfram á þessu ári og næsta.
    Unnið er að gæða- og áhættuflokkunarkerfi fyrir lífeyrissjóðina sem nýtt verður til að forgangsraða sjóðum í eftirliti og öðlast betri yfirsýn yfir áhættur sjóðanna.
    Auk þessara verkefna verður á næstu árum stefnt að því að auka áherslu á eftirlit með umgjörð rekstrar lífeyrissjóðanna s.s. innra eftirliti og áhættustýringu.
    Með sameiningum lífeyrissjóða verða til færri en stærri öflugir sjóðir. Jafnframt hafa fjárfestingarheimildir verið rýmkaðar og aukinn hluti fjárfestinga er í erlendum verðbréfum. Rekstur stórra sjóða og rýmkaðar fjárfestingarheimildir kalla á aukna ábyrgð stjórnenda, auknar kröfur um innra eftirlit og áhættustýringu og aukna þekkingu starfsfólks. Jafnframt eykst kerfislæg áhætta vegna einstakra sjóða.
    Þrjú og hálft stöðugildi sinna eftirliti á þessu sviði. Miðað við reynsluna er mögulegt að gera fjárfestinga- eða heildarúttekt á hverjum sjóði á 6 ára fresti en eingöngu heildarúttektir á 15 ára fresti. Slíkt er vart viðunandi og í framhaldi af gerð gæða- og áhættumatskerfis verður metin mannaflaþörf vegna þessa eftirlits.

2.3 Vátryggingamarkaður.
    Ný lög um vátryggingasamninga gengu í gildi í ársbyrjun 2006 og um vátryggingamiðlara í maí 2005. Fjármálaeftirlitið hefur lagt áherslu á það að eyða óvissu um túlkun á ákvæðum laganna og að framkvæmd þeirra sé í góðu horfi, s.s. að vátryggingaskilmálar séu í samræmi við lögin.
    Fjármálaeftirlitið heimsækir vátryggingafélög og vátryggingamiðlara reglulega. Í heimsóknum til vátryggingafélaga að undanförnu hefur m.a. verið fjallað um skipurit, fjárhagsstöðu, álagspróf, áhættustýringu, gagnaskil, iðgjaldagrundvöll, lög um vátryggingarsamninga, lög um miðlun vátrygginga og lög um peningaþvætti og Solvency II. Að undanförnu hefur og verið unnið við athugun á framkvæmd vátryggingamiðlara á lögum um miðlun vátrygginga.
    Á þessu sviði er einnig fylgst með framkvæmd reglna um virka eignarhluti og þátttöku í atvinnustarfsemi eins og á lánasviði.
    Sett hafa verið leiðbeinandi tilmæli um áhættustýringu og álagspróf sem mun koma til framkvæmda á árinu 2007. Má vænta að nokkur vinna fari í framkvæmd þess og frekari þróun á því ári. Tengt þessu er aðkoma Fjármálaeftirlitsins að vinnu á Evrópuvettvangi við gerð svokallaðrar Solvency II tilskipunar um gjaldþol vátryggingafélaga, sem eftirlitsskyldir aðilar á þessu sviði verða varir við vegna áhrifagreininga á ýmsum útfærslum á tillögum (quantitative impact studies).

2.4 Verðbréfamarkaður.
    Umfangsmiklar breytingar urðu á verðbréfaviðskiptalöggjöfinni á miðju ári 2005 og hefur kynning, túlkanir og beiting á reglunum einkennt starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Áhersla hefur verið lögð á að formreglum á markaði sé fylgt, að rannsaka tilkynningar frá Kauphöll og öðrum aðilum um hugsanleg brot og þar sem óvissa hefur ríkt um túlkun, að setja fram skoðanir til að eyða óvissu og beina framkvæmdinni í æskilegan farveg. Samhliða þessu hefur Fjármálaeftirlitið hafið birtingu ákvarðana er snúa að verðbréfamarkaðnum í samræmi við gagnsæisstefnu þess og nýja heimild í lögunum.
    Framundan eru frekari breytingar á löggjöf með innleiðingu nýrra tilskipana s.s. um gegnsæi upplýsinga (transparency) og um markaði með fjármálagerninga („Markets in financial instruments“) (MIFID).
    Fjármálaeftirlitið telur mikilvægt, einkum í framhaldi af innleiðingu MIFID tilskipunarinnar, að auka áherslu á frumkvæðiseftirlit og vettvangsathuganir hjá útgefendum verðbréfa auk staðlaðra eftirlitsaðgerða í tengslum við tiltekna atburði á verðbréfamarkaði. Í því skyni gerir eftirlitið ráð fyrir því að á árinu 2008 muni þurfa a.m.k. tvö ný stöðugildi á þessu sviði. Auk þess þarf að meta á árinu vinnuálag vegna móttöku og staðfestingar á útboðslýsingum ásamt tilkynningum til lögbærra yfirvalda um staðfestar lýsingar (Evrópupassa) auk verkefna vegna gegnsæistilskipunarinnar.
    Verðbréfa- og fjárfestingasjóðir starfa samkvæmt lögum nr. 30/2003 og hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með fjárfestingum, eignastöðu og áhættustýringu þessara sjóða auk úttekta á starfsemi rekstrarfélaga verðbréfasjóða. Fjármálaeftirlitið staðfestir sjóði og hefur eftirlit með markaðssetningu á þjónustu þeirra. Í dag er rúmlega eitt stöðugildi sem sinnir þessu eftirliti.

2.5 Almennt.
    Að síðustu er rétt að geta þess að ýmis verkefni eru sameiginleg fyrir hina ýmsu markaði þar sem samlegðaráhrif í starfseminni koma fram. Má þar sem dæmi nefna:
     *      Framkvæmd á hæfismati stjórnenda eftirlitsskyldra aðila.
     *      Viðbúnaðaráætlun vegna áfalla í fjármálakerfinu.
     *      Framkvæmd eftirlits með peningaþvætti.
     *      Framkvæmd eftirlits með upplýsingatækni.

3. Stefnumótun, nútímavæðing og alþjóðavæðing Fjármálaeftirlitsins.
    Til að skerpa áherslur, forgangsraða verkefnum og auka skilvirkni hefur Fjármálaeftirlitið sett niður stefnumótun til næstu ára. Stefnumótunin er unnin í formi stefnumiðaðs árangursmats (Balanced Scorecard) og er unnið að innleiðingu þess á árinu 2006. Jafnframt hefur verið unnið að upplýsingatæknistefnu til þriggja ára og verklagi vegna aðkomu Fjármálaeftirlitsins að alþjóðlegri starfsemi íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja.

3.1 Stefnumótun.
    Fjármálaeftirlitið lítur á það sem meginhlutverk sitt að stuðla að traustri fjármálastarfsemi, en í því felst að undirstöður fjármálamarkaðar séu tryggar og starfsemi heilbrigð og í samræmi við lög.
    Fjármálaeftirlitið telur að öflugur fjármálamarkaður sé þjóðfélagslega mikilvægur og að á næstu árum megi búast við örum breytingum, frekari vexti og aukinni alþjóðavæðingu. Fjármálaeftirlitið vill hafa jákvæð áhrif á þróun markaðarins og stuðla að traustri fjármálastarfsemi. Til þess þarf skýra stefnu, skilvirka innri ferla, hæft starfsfólk og fyrirmyndar upplýsingarkerfi. Fjármálaeftirlitið ætlar sér:
     *      Að vera mótandi og stuðla að traustri fjármálastarfsemi.
     *      Að vera þekkt fyrir fagmennsku, áreiðanleika og árangur.
     *      Að njóta virðingar og trausts.
     *      Að vera góður og eftirsóknarverður vinnustaður.
     *      Að gera gagnaskil og bréfaskipti við eftirlitsskylda aðila rafræn.

    Stefnumiðað árangursmat er ekki eingöngu mælikerfi heldur einnig stjórnunarkerfi sem auðveldar fyrirtækjum og stofnunum að setja fram stefnumótun og framtíðarsýn og tengja hana beint við daglega starfsemi. Fjármálaeftirlitið hefur skilgreint 15 markmið sem unnið verður að á næstu árum og skilgreint 1–2 mælikvarða til að meta hvort að það nær árangri í starfsemi sinni. Settar voru af stað tíu meginaðgerðir í verkáætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2006 til þess að ná settum markmiðum. Markmið og mælikvarðar verða endurskoðuð í lok árs 2006 eftir „prófun“. Frá og með lokum ársins 2007 verða birtar niðurstöður árangursmælinga. Markmiðin koma fram í stefnukorti Fjármálaeftirlitsins.

Mynd 1 – Stefnukort FME.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3.2 Nútímavæðing.
    Þekkingarstarfsemi byggir á söfnun og greiningu upplýsinga, og síðan ákvarðanatöku í kjölfar þess. Góð upplýsingakerfi geta bæði hraðað og bætt ákvarðanatöku og þar með aukið skilvirkni og árangur í starfseminni. Með öflugum upplýsingakerfum er einnig auðveldara að viðhalda þekkingu innan stofnunar óháð mannabreytingum og jafnframt tryggja samkvæmni í ákvarðanatöku með góðri yfirsýn yfir fordæmi.
    Fjármálaeftirlitið telur mikilvægt að upplýsingakerfi þess séu ávallt til fyrirmyndar og stuðli að því að sett markmið náist á skilvirkan hátt. Í því augnamiði hefur Fjármálaeftirlitið sett sér sérstaka upplýsingatæknistefnu til þriggja ára. Helstu atriði þeirrar stefnu eru eftirfarandi:
     *      Öll samskipti við eftirlitsskylda aðila verði rafræn.
     *      Úrvinnslukerfi verði fyrir hendi sem vinni frumgreiningu á upplýsingum og geri viðvart um frávik (early warning).
     *      Gagnagrunnar og málaskráningarkerfi séu samhæfð og tryggi auðvelda geymslu, úrvinnslu og notkun upplýsinga.
     *      Öryggi upplýsinga sé tryggt og eftirlitið fái vottun skv. ISO 27001.
     *      Vefumsjónarbúnaður og heimasíða styðji við öfluga og markvissa upplýsingamiðlun, þess vegna í mismunandi víddum, þ.e. á innra neti (innan stofnunar), á ytra neti (skilgreind vefsvæði fyrir einstaka eftirlitsskylda aðila eða systurstofnanir) og interneti (almenningur).
     *      Hugbúnaður og vélbúnaður uppfylli þarfir hvers tíma.
     *      Eftirlitið geti uppfyllt alþjóðlegar skuldbindingar um upplýsingasamskipti.

    Lykilmarkmiðið í stefnumörkun Fjármálaeftirlitsins er að öll samskipti við eftirlitsskylda aðila verði rafræn og að rafvæðing verði almennt aukin í starfsemi eftirlitsins.
    Á hverju ári safnar Fjármálaeftirlitið um 3500 skýrslueintökum frá eftirlitsskyldum aðilum um ýmsa þætti í rekstri þeirra. Markmiðið er almennt eftirlit með ýmsum reglum og greining á hugsanlegum veikleikum í starfsemi þeirra (sjá nánar viðauka við skýrslu þessa). Skýrslurnar berast ýmist á pappír eða með tölvupósti og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins sjá um villuleit og að færa gögnin í gagnagrunna, þar sem þeir hafa verið hannaðir.
    Það mun spara mikla vinnu, auka skilvirkin eftirlits og jafnframt leiða til hagræðingar hjá eftirlitsskyldum aðilum að gera öll slík skil rafræn. Með því er átt við að gögn frá eftirlitsskyldum aðilum verði villuleituð sjálfvirkt áður en mótttaka er samþykkt og gögnin fari sjálfkrafa í gagnagrunn. Auk þessa ætlar Fjármálaeftirlitið að búa yfir úrvinnslukerfi sem vinnur vélrænt frumgreiningar úr þeim gögnum sem skilað er frá eftirlitsskyldum aðilum. Slíkt myndi gera úrvinnslu skjótvirkari og eftirlit markvissara.
    Fjármálaeftirlitið hefur kynnt verkefnið um rafræn skil fyrir rýnihópi eftirlitsskyldra aðila sem lét í ljós milkla ánægju með verkefnið Telur hópurinn að rafræn gagnaskil muni tvímælalaust einnig auka skilvirkni hjá eftirlitsskyldum aðilum hvað þetta varðar. Fram hefur komið ósk frá eftirlitsskyldum aðilum að tryggja betur öryggi þeirra gagna sem þeir senda til Fjármálaeftirlitsins og er þetta m.a. liður í því. Nú þegar er byrjað frumherjaverkefni („pilot“) sem miðar að rafrænum skilum á innherjalistum.
    Fjármálaeftirlitið stefnir að því að ljúka vinnu við gerð gagnagrunna fyrir starfsemina, koma á rafrænum skilum og úrvinnslu á árunum 2007 og 2008. Með aukinni notkun upplýsingatækni má ná umtalsverðri hagræðingu í rekstri en slíkt krefst fjárfestingarkostnaðar í upphafi. Má segja að stefna Fjármálaeftirlitsins sé í góðu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, „Auðlindir í allra þágu“.
    Verkefnið um rafræn skil er einnig mikilvægt í ljósi alþjóðavæðingar íslenskra fjármálafyrirtækja, en ýmsir aðilar, s.s. erlendar systurstofnanir Fjármálaeftirlitsins, Evrópusamtök eftirlita, alþjóðlegar stofnanir (s.s. IMF og FATF) og matsfyrirtæki fara í auknum mæli fram á ýmsar tölfræðilegar upplýsingar og greiningar.
    Að síðustu má nefna að nú þegar liggja fyrir formlegar kröfur í Evróputilskipunum um rafræn upplýsingasamskipti á milli eftirlitsaðila og má vænta þess að slíkt muni aukast (sjá t.d. yfirlýsingu Ráðherraráðs Evrópusambandsins þann 5. maí 2006). Í því sambandi er rétt að vekja athygli á vinnu við MIFID tilskipunina en hún gerir ráð fyrir því að eftirlitsaðilar í aðildarríkjum EES skiptist á upplýsingum um verðbréfaviðskipti (transaction reporting). Fjármálaeftirlitið þarf að koma á tilkynningakerfi sem safnar upplýsingum um fjármálagerninga á Íslandi sem nánar er kveðið á um í 25. gr. MIFID. Eftirlitsskyldum aðilum ber að láta Fjármálaeftirlitinu þessar upplýsingar í té daglega. Fjármálaeftilitið mun miðla þeim færslum sem snerta aðila sem eru undir eftirliti annarra fjármálaeftirlita innan EES til viðeigandi eftirlita í gegnum sameiginlegt kerfi til gagnaskipta sem CESR (samtök verðbréfaeftirlita) mun sjá um að reka.
    Undirbúningsvinna er hafin vegna slíks tilkynningakerfis (Transaction Reporting) sem taka verður upp við innleiðingu MIFID. Fjármálaeftirlitinu hefur verið boðin þátttaka í samvinnu um kerfi með eftirlitum á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum, Verið er að skoða þann kost og er ljóst að það muni leiða til sparnaðar ef af verður. Lögð er áhersla á að notendaskil við tilkynningakerfi verði eins hjá framannefndum aðilum, til að auðvelda þeim eftirlitsskyldum aðilum sem starfa á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum að skila sams konar gögnum til allra eftirlita. Með kerfinu mun Fjármálaeftirlitið fá kost á að útbúa öflugt rafrænt eftirlitskerfi og hefur Fjármálaeftirlitið kynnt hugmyndir í þá veru. Vinnuhópur hefur verið settur á laggirnar með þátttöku Kauphallar, Verðbréfaskráningar og fulltrúa frá viðskiptabönkum. Þá hefur verið samið við upplýsingatækniráðgjafa.
    Á árinu 2005 voru sett leiðbeinandi tilmæli um rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila. Þá ber Fjármálaeftirlitinu að fylgjast með því að greiðslu- og uppgjörskerfi eftirlitsskyldra aðila séu fullnægjandi. Nauðsynlegt er að fylgja þessu eftir með reglulegum könnunum á öryggi upplýsinga- og greiðslukerfa.
    Nú eru tvö stöðugildi við upplýsingatæknimál hjá Fjármálaeftirlitinu sem er ekki nægjanlegt miðað við núverandi stöðu. Með aukinni áherslu á upplýsingatækni í starfsemi eftirlitsins er bráðnauðsynlegt að bæta við stöðugildi á þessu sviði og þá einkum vegna vefmála og gagnagrunna.

3.3 Alþjóðavæðing.
    Íslensku viðskiptabankarnir hafa á síðustu árum breyst úr innlendum innlánsstofnunum í alþjóðleg fjármálafyrirtæki sem bjóða þróaða fjármálaþjónustu. Í árslok 2005 námu eignir erlendra dótturfélaga bankanna samtals 2.448 ma.kr. eða 45% af 5.418 ma.kr. heildareignum bankanna á samtæðugrunni. Tekjur bankanna af starfsemi erlendis voru 50% af heildartekjum á seinni hluta ársins 2005 samanborið við 25% á árinu 2003. Þessi hlutföll munu væntanlega hækka enn frekar í nánustu framtíð.

Mynd 2.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meginstarfsemi íslensku bankanna erlendis er í dótturfélögum og útibúum í 8 löndum. Frá því að síðasta sambærileg skýrsla var skrifuð hafa dótturfélög banka bæst við í tveimur nýjum löndum (Frakklandi og Írlandi) og einnig 7 ný útibú í 5 löndum. Þessu til viðbótar hafa íslensku vátryggingafélögin hafið útrás með kaupum á hlut í erlendum vátryggingafélögum eða í formi náinnar samvinnu við erlenda vátryggjendur.

Heildareignir erlendra dótturfyrirtækja viðskiptabankanna í árslok 2005.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Aukin alþjóðavæðing íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja og aukið Evrópusamstarf eftirlitsaðila hafa kallað á umtalsverða aukningu í erlendum samskiptum Fjármálaeftirlitsins. Sú starfsemi er í meginatriðum þríþætt.
    Í fyrsta lagi á Fjármálaeftirlitið í samskiptum við systurstofnanir í þeim löndum sem íslensku fyrirtækin eru með starfsemi. Fjármálaeftirlitið sem eftirlitsaðili með útibúum og á samstæðugrundvelli (þ.e. fyrir móður- og dótturfélög) hefur skyldum að gegna sem erlendir samstarfsaðilar treysta á að sé sinnt með trúverðugum hætti. Hér er um að ræða upplýsingasamskipti og eftirlitsheimsóknir.
    Í öðru lagi tekur Fjármálaeftirlitið þátt í norrænu- og Evrópusamstarfi eftirlitsaðila með fjármálaþjónustu. Á þessum vettvangi er m.a. unnið að leiðbeinandi reglusetningu fyrir fjármálaþjónustufyrirtæki og unnið að samræmingu eftirlitsframkvæmdar, s.s. vegna upplýsingaskipta og þjálfunar starfsfólks. Hefur Ráðherraráð Evrópusambandsins ítrekað mikilvægi einsleitrar framkvæmdar Evrópureglna og samvinnu eftirlitsstjórnvalda til þess að ná megi ávinningi innri markaðarins í fjármálaþjónustu (fundur 5. maí 2006).
    Í þriðja lagi hafa beiðnir um upplýsingagjöf um íslenska fjármálamarkaðinn aukist mikið frá ýmsum erlendum aðilum, s.s. matsfyrirtækjum og greiningardeildum. Að auki má nefna heimsóknir frá alþjóðlegum stofnunum s.s. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) og Framkvæmdahópi um aðgerðir gegn peningaþvætti (FATF). Þannig má nefna að frá ársbyrjun og til 1. júní 2006 höfðu fulltrúar yfir 30 erlendra aðila átt fundi með Fjármálaeftirlitinu eða samtals um 100 manns.

4. Starfsfólkið er grunnur öflugs eftirlits.
    Forsenda þess að Fjármálaeftirlitið geti sinnt hlutverki sínu á trúverðugan hátt er að stofnunin búi yfir reynslu, þekkingu og nægum mannafla til að takast á við þau margbreytilegu og flóknu mál sem upp koma á fjármálamarkaði. Fjármálaeftirlitið hefur átt því láni að fagna að búa yfir hæfu starfsfólki til að takast á við umrædd verkefni, en ströng hæfnisskilyrði við nýráðningar og öflug símenntunarstefna gegna þar lykilhlutverki.
    Fjármálaeftirlitið hefur fundið fyrir því í meiri mæli en áður að starfsfólk þess er eftirsóknarvert vegna þekkingar sinnar og hæfni. Þannig hafa eftirlitsskyldir aðilar, aðilar sem þjónusta þá eða eigendur þeirra og fjárfestingarfélög sóst eftir starfskröftum þess. Það má reyndar telja ágætis mælikvarða á hæfni starfsfólks Fjármálaeftirlitsins og einnig má halda því fram að mannabreytingar geti verið af hinu góða á meðan þær eru ekki of örar eða of miklar á skömmun tíma.
    Á síðustu 12 mánuðum hafa um 21% háskólamenntaðra sérfræðinga horfið til starfa hjá þeim aðilum sem nefndir eru hér að ofan, en tímafrekt hefur reynst að manna á fullnægjandi hátt lausar stöður. Sé litið á meðalstarfstíma þeirra starfsmanna sem hafa ráðið sig til Fjármálaeftirlitsins eftir 1 janúar 2000 (fyrsta starfsár eftirlitsins var 1999) kemur í ljós að meðalstarfstími þeirra sem annars vegar hafa látið af störfum eða hins vegar eru enn við störf er um tvö og hálft ár.
    Halda má því fram að hröð starfsmannavelta hjá Fjármálaeftirlitinu hafi ýmsa ókosti s.s.
     *      Ýmsan beinan og óbeinan kostnað, s.s. viðtöl, auglýsingar og þjálfun starfsmanna vegna nýráðninga.
     *      Óbeinan kostnað vegna minni framleiðni þegar td. reynsla, þekking og tengsl starfsmanna tapast og áður en nýr starfsmaður er að fullu þjálfaður.
     *      Eftirlitsskyldir aðilar geta haft áhrif á skilvirkni í starfi Fjármálaeftirlitsins með því að laða til sín starfsfólk.
     *      Gagnrýni kann að koma upp frá keppinautum þeirra fjármálafyritækja sem ráða til sín starfsmenn Fjármálaeftirlitsins um að of skammur tími líði milli starfa eða frá því að þeir hætta hjá eftirlitinu.
    Af „burtfarar“viðtölum við starfsmenn sem hafa látið af störfum má ætla að laun hafi ráðið mestu um að starfstilboðum var tekið og virðast um 25–40% betri kjör vera í boði (án bónusa). Í því sambandi má nefna að David Ulrich, virtur sérfræðingur í mannauðsstjórnun, hefur haldið því fram að þegar munur á launum og tilboði nær 25% þá verði tilboðinu tekið (sbr. ráðstefna á vegum HR þann 2. mars 2006: „The HR value proposition“).
    Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hafa mikil samskipti við sérfræðinga á vegum eftirlitsskyldra aðila. Þessir aðilar eru því eðlilegur viðmiðunarhópur varðandi kröfur um hæfni og jafnframt laun. Ekki er hægt að ætlast til að viðmiðun um gæði starfsfólks sé lakari hjá eftirlitsaðilanum en þeim sem hafa á eftirlit með.
    Á undanförnum árum hefur átt sér umtalsvert launaskrið á vinnumarkaði, ekki síst hjá sérfræðingum fjármálafyrirtækja. Má sem dæmi nefna að samkvæmt skýrslu Háskólans í Reykjavík fyrir Samtök banka og verðbréfafyrirtæki hækkuðu meðallaun í viðskiptabönkunum þremur um 52% á milli áranna 2002 og 2004 en á sama tíma hækkuðu meðallaun hjá Fjármálaeftirlitinu um 15%. Samanburður á áætluðum meðallaunum sérfræðinga hjá Fjármálaeftirlitinu og viðskiptabankanna þriggja sem gerður var af starfsmannafélagi Fjármálaeftirlitsins bendir til þess að munurinn sé nú á milli 15–50%.
    Ef meðallaunakostnaður á stöðugildi hjá Kauphöll Íslands og Fjármálaeftirlitinu er borinn saman sést að launakostnaður Fjármálaeftirlitsins hefur á síðustu þremur árum verið 7,3–8,5% lægri á stöðugildi.
    Rétt er að hafa í huga að launakjör eru ekki eina atriðið sem skiptir máli til að halda starfsfólki og þættir eins og áhugaverð og fjölbreytt verkefni, góður starfsandi og góð vinnuaðstaða eru mikilvæg. Þó ber að hafa í huga að starfsmannavelta í fyrirtækjum og stofnunum er nauðsynleg til að tryggja endurnýjun. Þess vegna er mikilvægt fyrir stjórnendur að geta stýrt starfsmannaveltunni. Þeir þurfa að geta tryggt að hún sé hæfilega mikil og jákvæð fyrir starfsemina. Hefur mikið verið lagt í það að sinna þessum þáttum með innra skipulagi, starfsmannastefnu og reglulegum mælingum í samræmi við þau markmið sem sett eru í stefnumörkun Fjármálaeftirlitsins.
    Með hliðsjón af framansögðu er mikilvægt að Fjármálaeftirlitið verði samkeppnishæft um starfsfólk og dregið verði úr starfsmannaveltu. Það er lagt til að þessu verði mætt á tvennan hátt. Annars vegar að Fjármálaeftirlitið fái svigrúm til þess að mæta almennri launaþróun, einkum í fjármálageiranum er nemi um 8% af heildarlaunum. Hins vegar að Fjármálaeftirlitið fái svigrúm er nemi um 7% af heildarlaunum til að gera samninga um 2–3 mánaða ólaunaðan „kælitíma“ þegar þeir láti af störfum hjá eftirlitinu.

5. Húsnæðismál.
    Fjármálaeftirlitið þarf að búa við viðunandi húsnæðisaðstöðu fyrir starfsemi sína. Þróun í margskonar samskiptum vegna starfseminnar síðustu misserin, ekki síst við erlenda aðila, hefur enn aukið þörfina fyrir frambærilegt húsnæði.
    Við blasir að húsnæði Fjármálaeftirlitsins er fullnýtt og reyndar þegar orðið þröngt um ýmsa sameiginlega aðstöðu. Stærstur hluti þess var tekinn á leigu snemma á árinu 1999 þegar reksturinn var í mótun og þarfir voru óljósar hvað aðstöðuna snertir. Fljótlega kom líka í ljós að verulega skorti á einkum varðandi ýmsa sameiginlega aðstöðu og aðstöðu til fundarhalda. Á því var ráðin nokkur bót seint á árinu 2001 með leigu á viðbótarhæð í húsinu og þriðjungsstækkun. Þróun eftirlitsstarfseminnar frá þeim tíma hefur hins vegar reynst hröð og nú þrengir enn að, bæði vegna fjölgunar starfsfólks síðustu árin og einnig hafa þarfir starfseminnar breyst í takt við tímann. Þannig er aðstaða fyrir fundi, ýmsa sameiginlega þjónustu og móttöku gesta ekki lengur fullnægjandi og geymsluaðstaða af skornum skammti. Tíminn hefur einnig leitt í ljós að æskilegt er að tryggja ytra öryggi starfseminnar betur en nú þar sem húsvarsla er í lágmarki í núverandi húsnæði.
    Útlit og aðkoma að húsnæði Fjármálaeftirlitsins skiptir ótvírætt meira máli en áður, en rekstrarleg hagkvæmissjónarmið fyrri ára hafa kannski sett of mikið mark á þá mynd. Mikil og hröð aukning, sem ekki sér fyrir endann á, hefur t.d. orðið á heimsóknum fulltrúa erlendra fjármálafyrirtækja, matsfyrirtækja og alþjóðastofnana til landsins til að kynna sér innlenda fjármálastarfsemi. Þessir aðilar leggja langflestir leið sína til Fjármáleftirlitsins og er því mikilvægt að aðstaða stofnunarinnar sé til fyrirmyndar.
    Húsnæði Fjármálaeftirlitsins er nú á þremur hæðum, alls um 1.300 m 2, að meðtalinni sameign, og er ársleigan um 18 m.kr. á gildandi verðlagi. Leigutími rennur út í febrúar 2011 en samkomulag þarf við leigusala til að losna undan samingnum komi til flutnings stofnunarinnar. Ljóst er að leiguverðið er hagkvæmt og sambærilegt leiguverð býðst tæplega í nýju húsnæði. Í rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2007 hefur verið gert ráð fyrir að komið geti til flutnings hennar í byrjun september 2007. Þá verði flutt í húsnæði sem verði allt að 30% stærra en það sem nú er til umráða. Ætla má að húsaleiga, ef af þessu verður, hækki um 5,4 m.kr. á árinu 2007 en geti síðan allt að því tvöfaldast á ársgrundvelli miðað við leiguverð í núverandi húsnæði og lauslega athugun á leiguverðum sem nú eru í boði. Formleg húsnæðisleit er ekki hafin en núverandi leigusala hafa verið kynntar hugmyndir um húsnæðisbreytingar. Benda verður einnig á að komi til flutnings kallar það á margvísleg útgjöld vegna húsbúnaðar og annars búnaðar sem óhjákvæmilega þarf að endurnýja fyrir nýja aðstöðu. Þessa liði er erfitt að áætla í núverandi stöðu en í rekstraráætlun fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir 10 m.kr. vegna slíkra liða.

6. Stöðugildi, hagræðing og kostnaður vegna verðbréfamarkaðar.
    Á síðustu rúmlega tíu árum, eða frá 1995 til 2006, hefur stöðugildum/ársverkum í opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi fjölgað úr tæplega 32 í tæplega 40, sbr. ennfremur mynd 3. Á því tímabili hafa stöðugildi fæst orðið um 24 árið 1999, en þá fækkun má að mestu rekja til óvissu í aðdraganda að stofnun Fjármálaeftirlitsins. Rétt er að hafa í huga að í upphafi þessa tímabils var eftirlit með lífeyrissjóðum takmarkað. Það sama má segja um eftirlit með verðbréfamarkaði og alþjóðavæðing bankanna var ekki hafin. Af því leiðir að hlutfall ársverka af heildarumfangi eftirlits og stærðar fjármagnsmarkaðar er mun minna nú en var í upphafi þessa tímabils.

Mynd 3.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á umræddu tímabili hafa verkefni eftirlits stóraukist í takt við aukna alþjóðavæðingu íslensks fjármálamarkaðar, vöxt á fjármálamarkaði og auknar áhættur þessu samfara. Vöxtur rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins hefur ekki haldist í hendur við aukin verkefni og vöxt eftirlitsskyldra aðila. Á mynd 4 er að finna samanburð á vexti í álagningarstofnum helstu flokka eftirlitsskyldra aðila við þróun rekstrarkostnaðar hjá Fjármálaeftirlitinu. Það athugist að álagningarstofnar miðast við tölur úr ársreikningum eftirlitsskyldra aðila 2 árum fyrir álagningarár.

Mynd 4.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þróun í álagningarstofnum annars vegar og rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins samkvæmt mynd 4 endurspeglast síðan í þróun á álagningarhlutföllum sbr. mynd 5. Þar kemur fram að veruleg lækkun hefur orðið á álagningarhlutfalli á lánastofnanir og er það áætlað á árinu 2007 einungis 33% af því sem það var á árinu 1999. Álagningarhlutfall á lífeyrissjóði á árinu 2007 er áætlað 74% af því sem það var í byrjun tímabilsins. Áætlað álagningarhlutfall á vátryggingafélög fyrir árið 2006 í samanburði við fyrri ár sker sig talsvert úr framangreindri þróun sem skýrist af því að álagningarstofn fyrir vátryggingafélög hefur lítið hækkað undanfarin ár samtímis því sem gert er ráð fyrir talsverðri hækkun í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins.

Mynd 5.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Auknu umfangi í eftirliti hefur að miklu leyti verið mætt með aukinni skilvirkni í starfseminni en til þess að svo megi verða áfram er mikilvægt að auka nýtingu upplýsingatækninnar. Fjármálaeftirlitið mun verða vakandi fyrir hagræðingarmöguleikum í starfsmannahaldi bæði með endurskoðun verkefna og nýtingu tímabundinna/sumarstarfsmanna við ákveðin verkefni. Jafnframt áskilur eftirlitið sér rétt til þess að krefjast sérstaklega greiðslu fyrir ákveðin verkefni, sbr. 7 gr. laga nr. 99/1999 og 3. mgr. 9 gr. laga nr. 87/1988.
    Verkefni Fjármálaeftirlitsins sem tengjast almennu utanumhaldi um starfsemi á verðbréfamarkaði, starfsemi kauphallaraðila og viðskiptum skráðra félaga á markaði hafa farið vaxandi á undanförnum misserum. Vilji hefur verið til að reyna að aðgreina þann tíma eða kostnað sem fylgir þessum verkefnum og jafnframt þátt einstakra markaðsaðila bæði vegna almenns utanumhalds um verkefnin og einnig vegna sjónarmiða er lúta að kostnaðarþátttöku. Sundurgreining í þessa veru er hins vegar ekki auðveld. Mörg stærstu verkefnin þessu tengd eru almenns eðlis, s.s. markaðsvakt, almennt eftirlit með innherjaviðskiptum og reglukynningar svo eitthvað sé nefnt. Kostnaðarþátttöku markaðsaðila í þessari vinnu er þó að einhverju leyti misskipt. Eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki eru ekki öll kauphallaraðilar og mörg skráð félög í kauphöll eru heldur ekki eftirlitsskyldir aðilar og taka því engan þátt í rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins. Smávægileg undantekning á þessu er gjaldtaka fyrir yfirferð á útboðslýsingum óskráðra félaga.
    Gerð var tilraun til að aðgreina tímafjölda sem fór í eftirlit með kauphallaraðilum og skráðum félögum á árinu 2005. Niðurstaðan af grófri könnun var að um 5000 vinnustundir eða 10% af heildarvinnustundafjölda á árinu og janfgildi um 3,5 stöðugilda voru nýtt í þessi verkefni. Gert er ráð fyrir að á árinu 2007 fari fram áframhaldandi athugun og greining þessara mála og skoðun á mögulegri aðkomu skráðra félaga að þátttöku í kostnaði, m.a. samhliða vinnu við MIFID tilskipunina og tilkynningarskyldukerfið.

7. Niðurstöður.
    Á tiltölulega stuttum tíma hefur stærð og efnahagsleg áhrif íslensks fjármálamarkaðar aukist gríðarlega. Stærstu fjármálafyrirtækin eru orðin alþjóðleg fyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi, vátryggingafélögin eru byrjuð að líta til starfsemi utan landssteinanna og sífellt stærri hluti af eignum lífeyrissjóðanna er ávaxtaður erlendis. Hefur þessi þróun vakið bæði jákvæða og neikvæða athygli erlendis.
    Aukið umfang og flóknari starfsemi eftirlitsskyldra aðila hefur óhjákvæmilega áhrif hjá Fjármálaeftirlitinu sem uppfylla þarf kröfur sem gerðar eru til þess í íslenskri löggjöf, í alþjóðlegri samvinnu og vegna fyrirspurna erlendra aðila sem vilja meta stöðu einstakra fyrirtækja eða íslenska fjármálamarkaðarins.
    Rekstraráætlun fyrir árið 2006 gerði ráð fyrir nokkurri hækkun á rekstrarútgjöldum Fjármálaeftirlitsins sem fyrst og fremst skýrðist af þörf fyrir fjölgun starfsfólks í ljósi lagabreytinga og aukins umfangs eftirlitsskyldra aðila.
    Við gerð rekstaráætlunar fyrir árið 2007 hefur komið í ljós að enn er þörf á að hækka rekstrarútgjöld til að mæta auknum kröfum til eftirlitsins. Skýrist það fyrst og fremst af eftirfarandi:
     1.      Nauðsynlegt er að bæta við tveimur föstum stöðugildum. Annars vegar vegna breytinga á lögum og skuldbindingum á alþjóðavettvangi hvað varðar peningaþvætti og hins vegar til að mæta þörfum á sviði upplýsingatækni, bæði fyrir innri starfsemi og vegna úttekta á starfsemi eftirlitsskyldra aðila.
     2.      Mikilvægt er að minnka starfsmannaveltu og gera Fjármálaeftirlitið samkeppnishæfara um starfsfólk. Því er lögð til 15% hækkun til annars vegar að mæta launaskriði á almennum markaði (einkum í fjármálageiranum) og hins vegar til að gera samninga við starfsmenn um ólaunaðan „kælitíma“ í 2–3 mánuði er þeir láta af störfum hjá eftirlitinu.
     3.      Fjármálaeftirlitið hyggst auka skilvirkni í eftirliti og í samskiptum við eftirlitsskylda aðila með aukinni notkun upplýsingatækninnar. Janframt eru fyrirsjáanlegar kröfur á alþjóðavettvangi um rafræna upplýsingamiðlun. Á árinu 2007 mun Fjármálaeftirlitið vinna að því að öll gagnaskil eftirlitsskyldra aðila verði rafræn á árinu 2008. Jafnframt hyggst eftirlitið koma sér upp úrvinnslukerfi til að frumgreina upplýsingar úr þeim gögnum sem skilað er frá eftirlitsskyldum aðilum auk annarra breytinga á upplýsingatæknikerfi sem þessu fylgir. Ljóst er að hér er um verulega aukningu í kostnaði á einu ári að ræða sem líta verður á sem fjárfestingakostnað, en kostnaður þessi ætti að lækka strax á árinu 2008.
     4.      Húsnæði Fjármálaeftirlitsins er orðið of lítið og óhentugt eins og rakið er í skýrslu þessari. Eftirlitið hyggst því leita sér að nýju húsnæði með það að markmiði að flytja á haustdögum 2007, en það er þó háð ýmsum óvissuþáttum s.s. að hentugt húsnæði finnist á viðunandi kjörum og að eftirlitið geti losnað úr núverandi leigusamningi án verulegs aukakostnaðar.

    Ef litið er fram til ársins 2008 má að öllu óbreyttu búast við einhverri fjárfestingu vegna upplýsingatækni en þó í verulega minni mæli en á árinu 2007. Einnig er ljóst að ef breyting verður á húsnæði mun leigukostnaður hækka eins og getið er að framan. Jafnframt má gera ráð fyrir því að þörf verði á a.m.k. þremur nýjum stöðugildum, vegna eftirlits með verðbréfamarkaði og lífeyrissjóðum eins og rakið er í skýrslunni. Fyrirvara verður einnig að setja um þróun í umsvifum fyrirtækja á lánamarkaði og vátryggingamarkaði einkum erlendis.
    Öflugt Fjármálaeftirlit eru samgæði sem nýtast öllum markaðnum og er til þess fallið að tryggja trúverðugleika og samkeppnishæfni íslenskra fjárfesta og efnahagslífs erlendis. Fjármálaeftirlitið verður því að vera í stakk búið, hvort heldur er með tilliti til starfsmanna, upplýsingatæknikerfis, húsnæðis eða annarra atriða til að geta staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þess bæði af innlendum og erlendum aðilum.


Viðauki.

Fjöldi skýrslna sem eftirlitsskyldum aðilum
ber að skila árlega til Fjármálaeftirlitsins.
1
Fjármálafyrirtæki: Fjöldi skýrslna
    Lánastofnanir (38)2 1.925
    Verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir (9) 202
    Rekstrarfélög verðbréfasjóða (6) 5513
Lífeyrissjóðir (45) 5744
Vátryggingafélög (12) 1445
Vátryggingamiðlarar (8) 16
Ýmsir aðilar (8) 54
Samtals 3.466
1    Skýrslur og gögn sem bundið er í lögum eða reglum að beri að skila FME reglulega. Skilatíðni einstakra skýrslna er mismunandi eða allt frá mánaðarlegum skilum til skila einu sinni á ári. Yfilit yfir skýrslurnar eru birt á vefsíðunni www.fme.is
2    Svigatölur sýna fjölda eftirlitsskyldra aðila í maí 2006.
3    Meðtalin eru skýsluskil einstakra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða og sjóðsdeilda.
4    Meðtaldar skýrslur fyrir einstakar fjárhagslega aðskildar deildir í ákveðnum tilvikum.
5    Í nokkrum tilvikum eru aðgreind skjöl talin sem ein skýrsla.

Helstu skýrslur sem ber að skila til FME (heildaryfirlit er birt á www.fme.is).
Fjármálafyrirtæki (eftir því sem við á):
     *      Ársskýrsla; skýrsla vegna ársreiknings; árshlutauppgjör.
     *      Eiginfjárskýrsla.
     *      Stórar áhættuskuldbindingar.
     *      Útlán og vanskil.
     *      Fyrirgreiðsla við venslaða aðila.
     *      Viðskipti við tengda aðila.
     *      Kröfur/skuldir við erlenda aðila sundurliðaðar eftir löndum.
     *      Skýrsla endurskoðanda um endurskoðun ársreiknings.
     *      Yfirlit yfir starfsemi skv. 21 og 22. gr. l. nr. 161/2002.
     *      Yfirlit yfir fastvaxtaáhættu.
     *      Yfirlit yfir útlán með veði í íbúðarhúsnæði.
     *      Yfirlit yfir útlán með veði í hlutabréfum og öðrum verðbréfum.
     *      Verðbréfasjóðir, sérstaklega:
                  –      Ársfjórðungsl. efnahagsyfirlit verðbréfasjóðs.
                  –      Sundurliðun fjárfestinga verðbréfasjóðs.

Lífeyrissjóðir:
     *      Ársskýrsla.
     *      Úttekt á ávöxtun einstakra eignasafna.
     *      Skýrsla um árlega tryggingarfræðilega athugun.
     *      Skýrsla um sundurliðun fjárfestinga lífeyrissjóðs.
     *      Fjárfestingarstefna.
     *      Endurskoðunarskýrsla vegna ársreiknings.

Vátryggingarfélög:
     *      Ársreikningur, fundargerð aðalfundar og endurskoðunarskýrsla.
     *      Eyðublöð til skýringar á efnahagsreikningi.
     *      Eignir til jöfnunar vátryggingaskuld.
     *      Sundurliðun rekstrarreiknings eftir vátryggingagreinum.
     *      Skýrsla um gjaldþol, aðlagað gjaldþol og lágmarksgjaldþol.
     *      Aldursgreining tjóna og tjónaskuldar.
     *      Áhættumælingar- og áhættustýringaraðferðir.Fylgiskjal III.


Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila:

Um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007.


    Meðfylgjandi er álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, sbr. 2. mgr. 2. gr. l. nr. 99/1999 og 4. gr. rgl. nr. 562/2001, við rekstraráætlun FME fyrir árið 2007 og skýrslu FME til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað, en endanleg áætlun og skýrsla um hana voru send nefndinni þann 28. júní sl.

Rekstur ársins 2006.
     1.      Samráðsnefnd hefur undanfarin ár í áliti sínu fjallað sérstaklega um rekstur líðandi árs, með tilliti til þess hálfsársuppgjörs sem þá hefur legið fyrir frá FME. Þar sem álitsferlið hefur nú verið fært frá ágúst fram í júní er ekki kostur á því að þessu sinni. Hins vegar er mikilvægt að FME haldi nefndinni upplýstri um rekstrarþróunina þegar milliuppgjör liggja fyrir, sérstaklega ef stefnir í verulega hækkun einstakra liða.

Áætlaður rekstur 2007.
     2.      Í rekstraráætlun fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir 31% hækkun launakostnaðar, eða um 93,2 millj. kr. Í skýringum kemur fram að hækkunin liggi í almennri launahækkun núverandi starfsmanna og fjölgun stöðugilda um 2,1. Samráðsnefnd vill byrja á að vekja athygli á að þessi mikla hækkun kemur beint í kjölfar 29% hækkunar milli áranna 2005 og 2006 (sem var 5,5% umfram þá áætlun sem FME kynnti fyrir samráðsnefnd) og 19% milli áranna 2004 og 2005. Ljóst er að launaþátturinn er lang veigamestur í kostnaði af rekstri FME. Samráðsnefndin hefur ekki nægilegar forsendur til að leggja mat á hvort fjölgun stöðugilda sé réttlætanleg. Hins vegar telur nefndin þörf á að ræða nánar þá almennu hækkun á launum sem ráðgerð er í áætluninni. Nefndin telur miklu skipta að FME sé í stakk búið að halda í lykilsérfræðinga, þannig að starfsmannavelta lykilfólks sé ekki of hröð. Að mati samráðsnefndar eiga þannig ráðgerðar launahækkanir að beinast að framangreindum lykilsérfræðingum en í þeim hópi er mest hreyfing á starfsmönnum FME. Nefndin telur ekki þörf á sérstökum almennum launahækkunum allra starfsmanna FME umfram það sem þegar hefur verið samið um af stéttarfélögum. Nefndin ítrekar einnig ábendingu sína frá fyrri árum um að FME hafi heimild til að kaupa sérfræðiaðstoð utanfrá, sbr. umfjöllun um þriggja ára áætlun hér á eftir.
     3.      Gert er ráð fyrir 107% (35,3 millj. kr.) hækkun á kostnaði við upplýsingatækni, sem er rökstudd með vísun til rafvæðingar ferla. Samráðsnefndin gerir ekki athugasemdir við áform um frekari tæknivæðingu eftirlitsins, enda gerir nefndin ráð fyrir að slíkar breytingar spari bæði FME og eftirlitsskyldum aðilum bæði tíma og fjármuni. Hins vegar er mikilvægt að leitast við að innleiða þær lausnir sem telja verður að hagkvæmastar séu. Í þeim efnum má benda á að FME hefur áður fengið ábendingar um það frá eftirlitsskyldum aðilum að hægt sé að nota núverandi viðskiptakerfi (Saxess) til þeirrar upplýsingagjafar sem hin nýja MIFID tilskipun gerir kröfur um.
     4.      Þá gerir rekstraráætlun ráð fyrir 10 millj. kr. framlagi vegna flutninga FME í annað húsnæði árið 2007. Samráðsnefndin telur þetta lága fjárhæð, raunhæfara sé að ráðgera að beinn og óbeinn kostnaður vegna flutninga nemi ca. 25.000 kr. á fermetra Sérstaklega þarf að gera ráð fyrir kostnaðarsamri lagnavinnu í nýju húsnæði auk þess sem erfitt getur reynst að standa gegn fjölbreytilegum óskum um búnað.sem ávallt koma upp í tengslum við flutninga. Því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður við flutning á starfsemi geti orðið stórum hærri en þær 10 milljónir sem koma fram í áætlun FME. Í ljósi þess telur samráðsnefndin mikilvægt að fyrst verði fullkannað hvort ekki sé hægt að leysa húsnæðismálin með fullnægjandi hætti á Suðurlandsbraut 32. Benda má á að skv. upplýsingum FME hefur hver starfsmaður yfir að ráða um 38 fermetrum samanborið við 15 fermetra pr./starfsmann eða minna hjá mörgum af stærstu eftirlitsskyldu aðilunum. Ef niðurstaðan verður sú að ekki verði hægt að leysa húsnæðismál FME til framtíðar í núverandi húseign leggur samráðsnefndin áherslu á að fá að fylgjast með þróun mála, enda mikilvægt að gætt verði eðlilegs aðhalds ef til flutninga kemur. FME þarf að hafa yfir að ráða öflugu starfsfólki og húsakynnum sem henta þeirri starfsemi sem eftirlitinu er ætlað að stunda. Hagnýt sjónarmið hljóta þar ávallt að koma framar ytri ásýnd og íburði.

Rekstraráætlun til þriggja ára.
     5.      Á undanförnum árum hefur fylgt skýrslu Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra nokkur samantekt FME um áætlað rekstrarumfang næstu þrjú árin. Er svo einnig að þessu sinni. Í þeirri áætlun er eðlilega mestu rými varið til að ræða stærstu kostnaðarþætti FME, starfsmanna- og launamál auk húsnæðismála. Um þau atriði skal vísað til 2. og 4. töluliða þessarar álitsgerðar samráðsnefndar. Almennt má segja um þessa þriggja ára áætlun, að FME virðist hafa mótað ákveðna stefnu varðandi meginhlutverk sitt. Jafnframt virðist FME hafa skilgreint mælikvarða, til að meta, hvort FME sé að ná árangri í starfsemi sinni. Samráðsnefndin fagnar þessu. Á hinn bóginn er þessi þriggja ára áætlun því sama marki brennd og hinar fyrri, að þar er út frá því gengið að stöðugt þurfi að fjölga starfsmönnum FME. Þessi afstaða FME hefur jafnan verið innbyggð í þessar þriggja ára áætlanir. Á fyrsta starfsári FME, sem var árið 1999, voru stöðugildin 24. Á þessu ári verða þau 40, á árinu 2007 verða þau 42 og árinu 2008 er enn boðuð fjölgun um a.m.k. þrjú stöðugildi. Gangi það eftir, verður fjöldi stöðugilda FME þá orðinn 45. Eðli máls samkvæmt endurspeglast þessi starfsmannafjölgun í hratt vaxandi kostnaðarumfangi eftirlitsins, eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


        Samráðsnefndin telur slíka þróun kostnaðar hjá FME ekki vera óumbreytanlegt lögmál, heldur verði stjórnendur FME að gæta fyllsta aðhalds í rekstrinum eins og ætlast er til hjá öðrum sambærilegum stofnunum
             Þessi áætlaða þróun rímar heldur ekki við eftirfarandi staðhæfingu í þriggja ára áætlun FME þar sem segir: „Fjármáleftirlitið mun verða vakandi fyrir hagræðingarmöguleikum í starfsmannahaldi bæði með endurskoðun verkefna og nýtingu tímabundinna/sumarstarfsmanna við ákveðin verkefni. Jafnframt áskilur eftirlitið sér rétt til þess að krefjast sérstaklega greiðslu fyrir ákveðin verkefni, sbr. 7. gr. laga nr. 99/1999 og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1988“ Hér hefur FME mótað í orð meginsjónarmið samráðsnefndar frá upphafi nema að því leyti, að FME þarf ekki að áskilja sér rétt til sérstakra greiðslna, sá réttur er nú þegar skýlaus samkvæmt lögum.

Skipting eftirlitsgjaldsins.
     6.      Í töflu 3 kemur fram áætlun um skiptingu eftirlitsgjaldsins. Mjög mikilvægt er að tímaskipting starfa FME milli einstakra hópa eftirlitsskyldra aðila sé sem skýrust, svo kostnaðarskipting greiðist í réttum hlutföllum. Samráðsnefndin hefur ár eftir ár bent FME á heimildir þess skv. 7. gr. laganna, þ.e. til að láta einstaka aðila greiða fyrir umframeftirlit þegar óvenju mikill tími fer í einstaka aðila af sérstökum ástæðum.
             Samráðsnefndin fékk á fundi með FME þann 1. júní afhent minnisblað um skiptingu tíma eftirlitsins eftir vinnu við einstakar greinar eftirlitsskyldra aðila. Áður hafði nefndin fengið sams konar minnisblað í hendur 19. ágúst 2005. Slík samantekt varpar ljósi á raunverulegan tímafjölda sem eftirlitið eyðir í einstaka aðila. Nefndin saknar reyndar þess að jafnstór eftirlitsskyldur aðili og Íbúðalánasjóður sé ekki tilgreindur sérstaklega, heldur hafður undir liðnum ýmsir aðilar.
             Úttekt á tímaskiptingu nær til þriggja síðastliðinna ára, en jafnframt er birt hlutfallsleg skipting eftirlitsgjaldsins milli sömu aðila fyrir árin 2005 og 2006. Samráðsnefndin hefur frá upphafi lagt áherslu á að álagningarhlutfall á einstaka flokka eftirlitsskyldra aðila endurspegli þær vinnustundir sem fara í eftirlit með viðkomandi flokkum. Samstaða hefur verið um að í þeim efnum sé ekki skynsamlegt að horfa einungis til eins árs aftur í tímann, heldur horfa til einhverra ára aftur í tímann, nema sérstakar málefnalegar ástæður kalli á annað. Nú þegar fyrir liggur slík samantekt með meðaltalstölum síðustu þriggja ára, er eðlilegt að til þeirra sé horft við skiptingu eftirlitsgjaldsins við ákvörðun og álagningu þess, enda skýtur 2. málsl. 2. gr. laga nr. 99/1999 ótvírætt stoðum undir þetta viðhorf samráðsnefndar. Þrjú ár eru raunhæfur viðmiðunartími á sama hátt og Alþingi hefur farið þess á leit að FME hafi á hverjum tíma fyrirliggjandi áætlað umfang rekstrarins til næstu þriggja ára. Í rekstraráætlun ársins 2007 má þó greina aðra afstöðu FME í þessu efnum þar sem boðuð er hækkun á tiltekinn flokk eftirlitsskyldra aðila (lánamarkað) umfram þriggja ára meðaltal þar sem síðastliðið ár hafi þar verið nokkuð hærra í tímafjölda þess flokks en árin tvö á undan.
     7.      Samráðsnefndin vill að lokum enn og aftur árétta mikilvægi þess að sem fyrst verði farið að huga að því að ríkið greiði fyrir þá þætti í starfsemi FME sem hafa ekki með hefðbundið eftirlit að gera. Er þar jafnt átt við vinnu vegna setningar löggjafar og önnur þau verkefni sem FME er falið og hafa ekkert með eiginlega eftirlitsstarfsemi að gera. Vísast nánar til umsagnar samráðsnefndar frá síðasta ári í þessu efni.

Reykjavík 30. júní 2006,
f.h. samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila,


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Guðjón Rúnarsson
formaður
Fylgiskjal IV.


Fjármálaeftirlitið:

Bréf til viðskiptaráðherra um breytingar á rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins
fyrir árið 2007 (samkomulag við lífeyrissjóð bankamanna).

(28. júlí 2006.)


Breytingar á rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2007.
    Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að gera breytingu á rekstaráætlun sinni fyrir árið 2007, en gerð var grein fyrir áætluninni með bréfi og skýrslu til viðskiptaráðherra, dags. 30. júní sl.
    Í nefndri skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2007 er að finna eftirgreinda ábendingu (bls. 5. undir liðnum „Rekstarkostnaður samtals“): „Rétt er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði vegna Lífeyrissjóðs bankamanna en niðurstöður í óútkljáðu dómsmáli sjóðsins gegn Landsbanka Íslands hf. kynnu að hafa áhrif á Fjármálaeftirlitið.“
    Forsaga málsins er í stuttu máli sú að Lífeyrissjóður bankamanna, hlutfallsdeild, stefndi Landsbanka Íslands hf. og íslenska ríkinu þann 30. júní 2005 með þeirri meginkröfu að bakábyrgð Landsbankans og til vara ríkisins hafi aldrei fallið niður en samkvæmt breytingum á reglugerð sjóðsins sem tóku gildi í árbyrjun 1998 var slík ábyrgð ekki lengur til staðar. Ýmsar forsendur í rekstri sjóðsdeildarinnar hafa síðan þróast á nokkuð annan hátt en gert var ráð fyrir við afnám þessarar ábyrgðar, einkum hækkun launa, með þeim afleiðingum að skuldbindingar sjóðsdeildarinnar umfram eignir í árslok 2005 voru verulegar eða ríflega 10% halli hvað það varðar.
    Unnið hefur verið að því að ná sátt varandi málefni lífeyrissjóðsins á undanförnum vikum. Formleg sáttargjörð liggur ekki enn fyrir en samkomulag er um viljayfirlýsingu til lausnar málsins að hálfu þeirra aðila sem að lífeyrissjóðnum standa sem þegar hefur verið kynnt viðskipta- og fjármálaráðuneyti og ríkisendurskoðun. Þess er vænst að gengið verði frá formlegu samkomulagi síðar í haust.
    Nokkrir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins greiða til hlutfallsdeildar Lífeyrissjóðs bankamanna. Miðað við forsendur væntanlegrar sáttargerðar verður hlutur Fjármálaeftirlitsins til greiðslu í lífeyrissjóðinn 33,4 milljónir króna. Þar til viðbótar kann síðar að koma krafa um ákveðinn hlut í rekstrarkostnaði sjóðsdeildarinnar en sú fjárhæð verður þó væntanlega óveruleg.
    Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur fjallað um framangreint mál og er niðurstaðan sú að rétt sé að taka upp áðurgerða rekstaráætlun Fjármálaeftirlisins fyrir árið 2007 og bæta þar við sérstökum kostnaðarlið „Samkomulag vegna Lífeyrissjóðs bankamanna“ að fjárhæð 33.4 m.kr. með samsvarandi breytingu á heildarniðurstöðutölu áætlunarinnar og tekjuáætlun ársins. Meðfylgjandi eru því endurgerðar töflur 2 og 3A, sem eru fylgiskjöl með skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2007.
    Framangreindar breytingar á rekstraráætlun Fjármáleftirlitsins hafa verið kynntar fyrir formanni og varaformanni samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila en fyrirhugað er að funda með nefndinni í ágúst nk.

Virðingarfyllst,
FJÁRMÁLAEFTIRLITIÐ
Jónas Fr. Jónsson
Kristbjörn Bjarnason


Rekstraráætlun FME     
(Í þús. kr.)
Rekstrarkostnaður: Áætlun vegna 2006
1
Áætlun vegna 2007
2
Breyting % D1 til D2
1 Laun og launatengd gjöld 298.800 392.025 31,2%
2 Samkomulag vegna Lífeyrissjóðs bankamanna 0 33.400
3 Íþrótta- og gististyrkur 2.300 3.000 30,4%
4 Stjórnarlaun 6.400 6.400 0,0%
5     Laun og launatengd gjöld samtals 307.500 434.825 41,4%
6 Starfsmannaþj., kaffi, fundir 3.400 3.800 11,8%
7 Endurm.kostnaður og skólakostnaður 2.800 3.700 32,1%
8 Húsaleiga 18.100 22.700 25,4%
9 Rafmagn, hiti, húsfélag 2.100 2.200 4,8%
10 Símakostnaður 2.100 2.500 19,0%
11 Útgáfa, auglýsingar, prentun o.fl. 3.000 4.000 33,3%
12 Bækur og ritföng 3.100 3.500 12,9%
13 Póstkostnaður 550 600 9,1%
14 Rekstur tölvub.,sérfr.þj. v. tölvumála
    og eignk. v. tölvumála
32.800 68.100 107,6%
15 Sérfræðikostnaður 3.000 4.000 33,3%
16 Ferðakostnaður erlendis 14.000 17.500 25,0%
17 Ferðakostnaður innanlands 1.800 2.000 11,1%
18 Þátttökugj. vegna erl. samstarfs og funda erlendis 4.500 6.000 33,3%
19 Kostnaður vegna funda innanlands 1.400 1.000 –28,6%
20 Eignakaup 4.000 4.000 0,0%
21 Öryggisgæsla 700 1.000 42,9%
22 Ræsting, ræstingarvörur 3.100 3.500 12,9%
23 Styrkur til starfsmannafélags 580 750 29,3%
24 Kostnaður vegna flutninga 0 10.000
25 Ýmis gjöld og þjónusta 1.950 5.400 176,9%
26     Önnur gjöld samtals 102.980 166.250 61,4%
27 Gjöld alls án úrskurðarnefnda 410.480 601.075 46,4%
Tekjur
28 Álagt eftirlisgj. m.v. breytingar á lögum
    nr. 99/1999
435.352 579.948 33,2%
29 Vaxtatekjur netto 3.000 3.000 0,0%
30 Aðrar tekjur 0 400
31 Tekjur alls án úrskurðarnefnda 438.352 583.348 33,1%
32 Úrskurðarnefndir
33 Launakostnaðaur vegna úrskurðarnefnda 6.000 6.000
34 Tekjur úrskurðarnefnda 6.000 6.000
35 Tekjuafgangur 27.872 –17.727
36 Yfirfært frá fyrra ári, áætlað –10.145 17.727
37 Eigið fé í árslok 17.727 0

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999,
um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að kveða á um álagningarstofna eftirlitsskyldra fjármálastofnana. Ár hvert skal Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitskyldra aðila skila viðskiptaráðherra skýrslu um umfang og útgjöld eftirlitsins. Með frumvarpinu eru álagningarhlutföll fjármálafyrirtækja lækkuð, en álagningarhlutföll vátryggingafélaga, vátryggingamiðlana, lífeyrissjóða og annarra eftirlitsskyldra aðila hækkuð. Þá eru hækkanir gerðar á lágmarks- og fastagjöldum samkvæmt frumvarpinu. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald á árinu 2006 verði samtals 435 m.kr. en 580 m.kr. á næsta ári. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessi ári nemur 411 m.kr. en 607 m.kr. á því næsta, sem er um 48% hækkun. Hækkun á rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins felst fyrst og fremst í auknum launakostnaði, bæði vegna fjölgunar starfsmanna og hærri launa. Einnig er gert ráð fyrir 33 m.kr. greiðslu vegna samkomulags við Lífeyrissjóð bankamanna. Mismunurinn á áætluðum tekjum og gjöldum árið 2007 greiðist af uppsöfnuðum tekjuafgangi stofnunarinnar ásamt sértekjum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.