Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 274. máls.

Þskj. 283  —  274. mál.Frumvarp til laga

um Heyrnar- og talmeinastöð.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Starfrækja skal Heyrnar- og talmeinastöð undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

2. gr.

    Heyrnar- og talmeinastöð annast þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með heyrnar- og talmein. Hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvar er m.a.:
     1.      Að sjá um heyrnarmælingar, greiningu og meðferð á heyrnar- og talmeinum.
     2.      Að veita faglega ráðgjöf og annast þjálfun og endurhæfingu heyrnarlausra, heyrnarskertra og þeirra sem eru með heyrnar- og talmein.
     3.      Að sinna forvörnum á starfssviði sínu í samvinnu við aðrar stofnanir eftir því sem við á.
     4.      Að útvega hjálpartæki fyrir heyrnarskerta, heyrnarlausa og þá sem eru með heyrnar- og talmein og veita fræðslu og þjálfun í notkun þeirra. Stofnunin skal enn fremur sjá um viðhald og uppsetningu hjálpartækjanna.
     5.      Að stunda rannsóknir og sinna fræðslu á starfssviði sínu. Stofnunin skal safna upplýsingum um alla þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða eru með heyrnar- og talmein og öðrum tölfræðilegum upplýsingum sem nýtast við rannsóknar- og þróunarstörf. Um söfnun upplýsinga skal fara samkvæmt lögum um persónuvernd og reglum settum með stoð í þeim lögum og lögum um embætti landlæknis eftir því sem við á.

3. gr.

    Ráðherra skipar forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar til fimm ára í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og skulu þeir hafa viðeigandi menntun á starfssviði stofnunarinnar. Heimilt er að kveða nánar á um menntunarskilyrði starfsmanna í reglugerð.

4. gr.

    Við Heyrnar- og talmeinastöð skal vera fimm manna fagráð sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Fagráðið skal skipað þremur mönnum með menntun eða sérþekkingu á verksviði stofnunarinnar og tveimur fulltrúum notenda þjónustunnar. Fagráðið skal vera forstjóra til ráðuneytis um fagleg málefni og stefnumótun.

5. gr.

    Ráðherra skal setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við hjálpartæki vegna heyrnar- og talmeina að höfðu samráði við Heyrnar- og talmeinastöð.

6. gr

    Sjúkratryggður einstaklingur samkvæmt lögum um almannatryggingar skal greiða gjald fyrir þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar sem hér segir:
     1.      fyrir viðgerð á hjálpartækjum,
     2.      fyrir sérfræðilæknisþjónustu og rannsóknir samkvæmt ákvæðum laga um almannatryggingar, með síðari breytingum, og reglum settum með stoð í þeim lögum,
     3.      fyrir greiningu á máltruflun, komu vegna endurmats hjá talmeinafræðingi og aðrar talrannsóknir.
    Fyrir heyrnarrannsókn á vinnustað skal greiða gjald sem standa skal undir kostnaði stofnunarinnar við rannsóknina.
    Ráðherra setur reglugerð um gjaldtöku samkvæmt grein þessari að höfðu samráði við forstjóra og fagráð Heyrnar- og talmeinastöðvar. Skal gjaldskráin taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Heyrnar- og talmeinastöð innheimtir gjöld þessi.
    Þeir sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar skulu greiða gjald sem nemur kostnaði við veitta þjónustu í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, nema í gildi sé samningur um þjónustuna við það ríki sem þeir koma frá.

7. gr.

    Ráðherra er heimilt, í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, að fela öðrum aðilum með samningi að annast þá þjónustu sem greinir í 2. gr. eða hluta þeirrar þjónustu.

8. gr.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu. Á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til laga um Heyrnar-, tal- og sjónstöð en með frumvarpinu var gert ráð fyrir að Heyrnar- og talmeinastöð og Sjónstöð yrðu sameinaðar. Eins og kunnugt er náði frumvarpið ekki fram að ganga í þinginu. Núgildandi ákvæði laga um Heyrnar- og talmeinastöð eru í lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, sbr. 37. gr. a. og 37. gr. b. Við endurskoðun þeirra laga nú, sbr. fyrirliggjandi frumvarp til laga um heilbrigðisþjónustu, þykir hins vegar ekki fara vel á því að hafa svo ítarleg ákvæði sem hér um ræðir um eina heilbrigðisstofnun í löggjöf sem ætlað er að vera rammalöggjöf um skipulag heilbrigðisþjónustu. Er því lagt til að efnisákvæði laganna um Heyrnar- og talmeinastöð verði tekin upp í sérlög um stofnunina. Slík sérlög voru í gildi fram til ársins 2001, sbr. lög nr. 35/1980, um Heyrnar- og talmeinastöð, en þá voru ákvæði þeirra felld inn í lög um heilbrigðisþjónustu. Felur frumvarpið því í sér afturhvarf til þess fyrirkomulags.
    Engar efnislegar breytingar eru gerðar á starfsgrundvelli eða hlutverki Heyrnar- og talmeinastöðvar í frumvarpinu og eru ákvæði um gjaldtöku jafnframt óbreytt. Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að ákvæði núgildandi laga um útgáfu rekstrarleyfa til annarra sem veita þjónustu á sama sviði og Heyrnar- og talmeinastöð verði felld niður. Er breytingin í samræmi við niðurfellingu ákvæða um útgáfu rekstrarleyfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, sbr. frumvarp til þeirra laga. Hins vegar er gert ráð fyrir að landlæknir taki út og staðfesti, á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu, að aðilar sem hyggjast veita þjónustu á þessu sviði uppfylli faglegar kröfur. Þá er ráðherra veitt heimild til fela öðrum aðilum með samningum, í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, að annast þá þjónustu sem greinir í 2. gr. frumvarpsins eða hluta hennar. Um samningsheimild ráðherra er fjallað nánar í umfjöllun um 7. gr. frumvarpsins hér að neðan

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skal starfrækja Heyrnar- og talmeinastöð undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

Um 2. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er það hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvar að annast þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og þá sem eru með heyrnar- og talmein. Er hlutverk stofnunarinnar nánar skilgreint í fimm liðum og er hlutverkalýsingin efnislega óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 3. gr.

    Samkvæmt 3. gr. skipar ráðherra forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar til fimm ára í senn í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu. Er hér vísað til 9. gr. frumvarps til laga um heilbrigðisþjónustu en þar kemur m.a. fram að hæfni umsækjenda um stöðu forstjóra heilbrigðisstofnunar skuli metin af sérstakri nefnd sem ráðherra skipar og er ráðherra óheimilt að skipa aðra í slíkar stöður en þá sem nefndin hefur metið hæfa. Þykir eðlilegt að sömu reglur gildi að þessu leyti um umsækjendur um stöðu forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar og um umsækjendur um stöðu forstjóra annarra heilbrigðisstofnana.

Um 4. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skipar ráðherra fimm manna fagráð við Heyrnar- og talmeinastöð sem skal vera forstjóra til ráðuneytis um fagleg málefni stofnunarinnar og stefnumótun innan hennar. Fagráðið skal skipað þremur mönnum með menntun eða sérþekkingu á verksviði stofnunarinnar og tveimur fulltrúum notenda þjónustunnar. Ákvæðið er óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 5. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu skal ráðherra setja reglugerð um þátttöku ríkisins í kostnaði við hjálpartæki vegna heyrnar- og talmeina að höfðu samráði við Heyrnar- og talmeinastöð. Ákvæðið er óbreytt frá núgildandi lögum og felur fyrst og fremst í sér heimild til handa ráðherra til að setja reglugerð um greiðsluþátttöku ríkisins í kostnaði vegna hjálpartækja sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar. Ákvæðið felur þó jafnframt í sér heimild til handa ráðherra til að ákveða greiðsluþátttöku vegna hjálpartækja sem einstaklingar kaupa hjá einkaaðilum. Slík ákvörðun um greiðsluþátttöku getur verið byggð á samningi ráðherra við einkaaðila skv. 7. gr. frumvarpsins, um að þeir taki að sér útvegun niðurgreiddra hjálpartækja, eða falið í sér einhliða ákvörðun ráðherra um styrkveitingar til þeirra sem kjósa að kaupa hjálpartæki hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöð enda uppfylli þeir almenn skilyrði um greiðsluþátttöku í hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð útvegar.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um heimildir til gjaldtöku vegna þjónustu sem Heyrnar- og talmeinastöð veitir. Eins og fram er komið eru gjaldtökuheimildirnar óbreyttar frá núgildandi lögum að öðru leyti en því að tekið er fram að þeir sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og þiggja þjónustu stofnunarinnar skuli greiða gjald sem nemur kostnaði við veitingu hennar, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, nema í gildi sé samningur um þjónustuna við það ríki sem þeir koma frá. Er þetta í samræmi við það sem almennt gildir um gjaldtöku fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er ósjúkratryggðum einstaklingum hér á landi.

7. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt, í samræmi við ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu, að fela öðrum aðilum en Heyrnar- og talmeinastöð að annast þá þjónustu sem greinir í 2. gr. eða hluta þeirrar þjónustu með samningum. Með tilvísun til ákvæða laga um heilbrigðisþjónustu er fyrst og fremst vísað til ákvæða VII. kafla í frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu þar sem kveðið er á um heimildir ráðherra til að gera samninga um heilbrigðisþjónustu. Um samningsheimildir ráðherra er ítarlega fjallað í frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu og er vísað til þess sem þar segir. Þá gilda ákvæði VI. kafla frumvarps til laga um heilbrigðisþjónustu, þar sem fjallað er um faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu og staðfestingu landlæknis á því að þær séu uppfylltar, um þá sem hyggjast veita heyrnarlausum, heyrnarskertum og þeim sem eru með heyrnar- og talmein þjónustu með sama hætti og um aðra rekstraraðila heilbrigðisþjónustu. Er ráðherra óheimilt að fela öðrum en þeim sem uppfylla framangreindar kröfur, með samningi, að annast þá þjónustu sem greinir í 2. gr. eða hluta hennar.

Um 8. gr.

    Með ákvæðinu er ráðherra veitt almenn heimild til að kveða nánar á um framkvæmd laganna í reglugerð.

Um 9. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júlí 2007 en þá er jafnframt gert ráð fyrir að ný lög um heilbrigðisþjónustu taki gildi, sbr. fyrirliggjandi frumvarp þess efnis. Við gildistöku nýrra heilbrigðisþjónustulaga falla lög nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, niður og þar með núgildandi ákvæði laga um Heyrnar- og talmeinastöð.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Heyrnar- og talmeinastöð.

    Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu. Við endurskoðun þess frumvarps komu fram sjónarmiðum að ekki færi vel á því að hafa ítarleg efnisákvæði einnar heilbrigðisstofnunar í löggjöf sem ætti að vera rammalöggjöf um skipulag heilbrigðisþjónustu. Er því lagt til að efnisákvæði gildandi laga um heilbrigðisþjónustu varðandi Heyrnar- og talmeinastöð verði tekin upp í sérlög um stofnunina. Hvorki eru gerðar breytingar á starfsgrundvelli og hlutverki Heyrnar- og talmeinastöðvar né ákvæðum um gjaldtöku breytt. Hins vegar er gert ráð fyrir að felld verði niður ákvæði gildandi laga um útgáfu rekstrarleyfa til annarra sem veita þjónustu á sama sviði og Heyrnar- og talmeinastöð. Er breytingin í samræmi við hliðstæð efnisatriði í frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu um niðurfellingu ákvæða um útgáfu rekstrarleyfa.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.