Þskj. 292 — 279. mál.
Frumvarp til laga
um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins
nr. 61/1997, með síðari breytingum.
(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.
2. gr.
1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá er sjóðnum heimilt að veita lán og ábyrgðir, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Í starfsemi sinni skal Nýsköpunarsjóður taka mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs.
3. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:a. 1. mgr. fellur brott.
b. Í stað orðsins „Sjóðnum“ í 2. mgr. kemur: Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins.
4. gr.
Við 2. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Engan skal þó skipa oftar en fimm sinnum í stjórnina.5. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:a. 5. tölul. orðast svo: Ákvarðanir um þátttöku sjóðsins í fjárfestingum, veitingu lána og ábyrgða, auk ákvarðana um tryggingar og kjör.
b. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins skal setja sér reglur um mat á fjárfestingartækifærum, auk umsókna um lán og ábyrgðir, sem ráðherra staðfestir.
Ákvarðanir Nýsköpunarsjóðs eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
6. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:a. Síðari málsliður 1. mgr. orðast svo: Stjórn sjóðsins getur veitt framkvæmdastjóra heimild til að taka ákvarðanir um fjárfestingar og veitingu lána og ábyrgða.
b. 2. mgr. orðast svo:
Nýsköpunarsjóði er heimilt að semja við aðra aðila um tiltekna þjónustu honum til handa.
7. gr.
7. gr. laganna orðast svo:Eigið fé Nýsköpunarsjóðs skal að lágmarki vera 3.000 millj. kr. Lágmarksfjárhæð þessi skal taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2007. Eigið fé, sem ekki er bundið í verkefnum skv. 1. mgr. 2. gr., skal ávaxtað samkvæmt fjárfestingarstefnu sem mælt er fyrir um í reglugerð. Nýsköpunarsjóður skal semja við aðila, sem hefur leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um vörslu og ávöxtun eigin fjár sem ekki er bundið í verkefnum skv. 1. mgr. 2. gr. Stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins setur nánari reglur um fjárfestingarstefnu, sem ráðherra staðfestir.
Nú nær eigið fé ekki lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. og skal þá ávaxta eigið fé samkvæmt fjárfestingarstefnu þar til lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. er náð.
8. gr.
Við 8. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:Nýsköpunarsjóði er heimilt að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum sem stunda fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, enda nemi eignarhlutur Nýsköpunarsjóðs minna en 50%. Leita skal samþykkis iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra fyrir þátttöku Nýsköpunarsjóðs í samlagssjóðum eða samlagshlutafélögum, sé hluta af söluandvirði Landssíma Íslands, sbr. lög nr. 133/2005, ráðstafað til að standa undir hlutdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í slíkum sjóðum.
Þegar ekki er talið mögulegt að mati stjórnar Nýsköpunarsjóðs að taka þátt í verkefni með hlutafjárkaupum er sjóðnum heimilt að veita lán til nýsköpunar- og sprotafyrirtækja með breytirétti í hlutafé eða með kauprétti hlutafjár. Þá er Nýsköpunarsjóði heimilt að veita ábyrgðir til þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn hefur þegar fjárfest í eða veitt lán, enda sé slík ábyrgðarveiting liður í sameiginlegri ákvörðun meðfjárfesta um slíka fjármögnun.
9. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:a. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Samhliða ákvörðunum um fjárfestingar, lán eða ábyrgðir skal ákveða framlög á afskriftareikninginn.
b. Í stað orðanna „eigið fé hans“ í síðari málslið 2. mgr. kemur: lágmarks eigið fé, sbr. 7. gr.
10. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:a. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nýsköpunarsjóði er heimilt að gera afleiðusamninga til að verjast gengisáhættu.
b. 2. mgr. fellur brott.
11. gr.
II. kafli laganna, Tryggingardeild útflutningslána, 11.–13. gr., fellur brott og breytist kafla- og greinatala samkvæmt því.12. gr.
Síðari málsliður 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Ársreikningi skal fylgja skrá yfir hlutafjárkaup Nýsköpunarsjóðs, þátttöku í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum, lán og ábyrgðir.13. gr.
15. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.14. gr.
19. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.15. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði 11. gr. þeirra taka gildi 1. ágúst 2007.Ákvæði til bráðabirgða.
Eigið fé vöruþróunar- og markaðsdeildar Nýsköpunarsjóðs skal teljast hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs, sbr. 7. gr. laganna.
Útboðnar einingar af söluandvirði hlutafjár í eigu ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. skulu leystar upp innan tíu ára eftir að þær eru boðnar út og telst andvirði þeirra til eigin fjár Nýsköpunarsjóðs.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
1. Almennt.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur gegnt veigamiklu hlutverki í fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja með því að vera einna fyrstur fjárfesta til að kaupa hluti í þeim. Með því hefur sjóðurinn reynt að bregðast við alvarlegum markaðsbresti í fjármögnun nýsköpunar, en verulegur skortur hefur verið á framboði fjármagns til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Sjóðurinn hefur þannig gegnt lykilhlutverki í umbreytingu tæknilegra lausna og annarrar nýrrar þekkingar í arðvænleg fyrirtæki. Þetta hlutverk sjóðsins er ein helsta forsenda tilvistar hans og nýlegrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að leggja aukið fjármagn til vaxtar og viðgangs hans.
Nýsköpunarsjóður er hluti af stærri heild, en hann er veigamikill þáttur í stuðningskerfi atvinnulífsins. Starfsemi hans þarf því að taka mið af heildstæðri stefnumótun um nýsköpun og atvinnuþróun. Í þessu felst m.a. að áherslur í starfsemi hans verði til þess að samfella sé á milli hans og annarra fjármögnunaraðila. Þannig þarf að tryggja samfellu við starfsemi Tækniþróunarsjóðs sem veitir styrki til þróunar nýsköpunarverkefna og einnig þarf að taka mið af starfsemi annarra framtaksfjárfesta sem gætu tekið við eignum sjóðsins þegar fyrirtækin hafa náð að tryggja sig betur í sessi.
Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun og frumvarpi til laga um breytingar á lögum um Vísinda- og tækniráð. Með því er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tengdur við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar. Einnig fær sjóðurinn tækifæri til að tengjast starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og nýta öflugan hóp sérfræðinga sem þar verður að finna. Við þetta breikkar faglegt bakland sjóðsins og geta hans til að meta tæknileg verkefni hverju sinni. Einnig gefst tækifæri til að nýta hvers konar stoðþjónustu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem mun leiða til almennrar hagræðingar.
Frumvarp til breytingar á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins var lagt fram á síðasta löggjafarþingi, en náði þá ekki fram að ganga. Frumvarp þetta er efnislega samhljóða því frumvarpi. Þó er nú lagt til að einungis þurfi að leita samþykkis iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra, hyggist Nýsköpunarsjóður fjárfesta í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum með fjármagni sem á rætur að rekja til söluandvirðis Landssíma Íslands, sbr. lög nr. 133/2005. Í öðrum tilvikum þurfi ekki samþykki ráðherranna. Einnig er nú lögð til sú breyting að brot gegn lögunum varði ekki refsingu.
2. Helstu breytingar.
Helstu breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu eru:
1. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun að meginstefnu til einungis taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn mun veita lán og ábyrgðir í tilteknum tilfellum, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Sjóðurinn mun ekki veita styrki eins og heimild er fyrir samkvæmt gildandi lögum. Kveðið er á um að Nýsköpunarsjóður skuli taka mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs í störfum sínum.
2. Kveðið er á um heimild til handa Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum, sbr. 5. gr. laga nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.
3. Kveðið er á um að ekki skuli skipa stjórnarmann til lengri tíma en fimm ára. Stjórnin skal setja sér reglur um sjónarmið við mat á fjárfestingartækifærum og umsóknum um lán og ábyrgðir sem ráðherra staðfestir. Áréttað er að ákvarðanir Nýsköpunarsjóðs séu endanlegar á stjórnsýslustigi.
4. Í frumvarpi þessu er lagt til að eigið fé Nýsköpunarsjóðs skuli að lágmarki vera 3.000 millj. kr., sem muni taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Eigið fé, sem ekki er bundið í fjárfestingarverkefnum eða lánum, skal ávaxta í samræmi við fjárfestingarstefnu sem kveðið verður á um í reglugerð og starfsreglum stjórnar. Skylda er lögð á Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að útvista ávöxtun framangreinds eigin fjár.
5. Ákvæði um tryggingardeild útflutnings, sem verið hefur sérstök deild innan Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, eru felld úr gildi. Í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að tryggingardeild útflutnings verði vistuð innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
6. Vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er lögð niður. Eigið fé hennar verður hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs, sbr. ákvæði til bráðabirgða.
7. Kveðið er á um heimild til handa Nýsköpunarsjóði að gera afleiðusamninga til að verjast gengisáhættu.
8. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið muni ekki hafa eftirlit með framkvæmd laganna, eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Talið er fullnægjandi að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með reikningum sjóðsins og hvernig hún ver eignum sínum.
9. Lagt er til að ákvæði um refsinæmi brota gegn lögunum verði fellt brott.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Þar sem lagt er til að tryggingardeild útflutnings flytjist til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands er gert ráð fyrir að tilvísun í 1. gr. til II. kafla laganna falli niður. Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins verði áfram sjálfstæð stofnun, sem gerir það að verkum að ákvarðanir Nýsköpunarsjóðs eru ekki kæranlegar til ráðuneytisins. Hins vegar verður Nýsköpunarsjóður, sem stofnun í eigu ríkisins sem grundvölluð er á lögum, að fylgja stjórnsýslulögum við framkvæmd laganna, eins og við á.
Um 2. gr.
Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði takmarkað við fjárfestingar, þ.e. beinar fjárfestingar í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum, og óbeinar í gegnum samlagssjóði og samlagshlutafélög. Einnig sé Nýsköpunarsjóði heimilt að veita lán og ábyrgðir í tilteknum tilfellum, sbr. 8. gr. frumvarpsins.
Með sprotafyrirtækjum er átt við fyrirtæki með innan við 50 starfsmenn og ársveltu innan við 500 millj. kr. sem byggir starfsemi sína á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi og ver meira en 10% af veltu í viðurkennda rannsókna- og þróunarstarfsemi, sbr. athugasemdir með 5. gr. frumvarps til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Einnig er tekið fram að Nýsköpunarsjóður skuli taka mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs.
Um 3. gr.
Þar sem kveðið er á um heimildir Nýsköpunarsjóðs til að veita lán og ábyrgðir í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að 1. mgr. 3. gr. verði felld brott.
Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.
Um 4. gr.
Telja verður æskilegt að nokkur endurnýjun verði í stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og er í greininni lagt til að stjórnarmenn verði að hámarki skipaðir fimm sinnum í stjórn sjóðsins.
Um 5. gr.
Ákvæði a-liðar leiðir af þeirri breytingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu að Nýsköpunarsjóður veiti ekki styrki.
Í ákvæði b-liðar er gert ráð fyrir að stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins setji sér reglur um sjónarmið við mat á fjárfestingartækifærum, og veitingu lána og ábyrgða, sem ráðherra staðfesti. Telja verður eðlilegt að skýrar reglur liggi fyrir um hvernig meta beri fjárfestingartækifæri og umsóknir um lán og ábyrgðir, t. d. hvaða upplýsingar eigi að liggja fyrir við mat, hvernig matið fer fram, hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar o.s.frv.
Þá er áréttað að ákvarðanir Nýsköpunarsjóðs séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Ákvarðanir sjóðsins um í hvaða fyrirtækjum skal fjárfest eru því ekki kæranlegar til ráðuneytisins. Telja verður að regla þessi leiði af ákvæðum 1. gr. um að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sé sjálfstæð stofnun. Hins vegar er talið rétt að árétta þennan skilning í þessari grein.
Um 6. gr.
Tillögur sem felast í a-lið greinarinnar leiða af þeirri tillögu að Nýsköpunarsjóður veiti ekki styrki.
Í b-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að heimilt sé að útvista verkefnum. Til dæmis kæmi til greina að Nýsköpunarmiðstöð Íslands tæki að sér afmörkuð verkefni fyrir Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sbr. frumvarp um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
Um 7. gr.
Í ákvæði þessu er mælt fyrir um lágmarks eigið fé Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Einungis megi ávaxta eigið fé, sem ekki er bundið í verkefnum skv. 1. mgr. 2. gr., í samræmi við fjárfestingarstefnu sem ráðherra mælir fyrir um í reglugerð. Stjórn sjóðsins setji síðan frekari reglur um útfærslu á þeirri fjárfestingarstefnu. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar og þar sem ekki er gert ráð fyrir að Nýsköpunarsjóður hafi marga starfsmenn er mælt fyrir um að útvista skuli fjárvörslu eigin fjár, sem ekki er bundið í verkefnum skv. 2. gr. laganna.
Þrátt fyrir ákvæði um fjárfestingarstefnu og ákvæði 9. gr. um rekstraráætlun er mögulegt að ávöxtun eigin fjár verði neikvæð. Því er mælt fyrir um að verði eigið fé minna en þrír milljarðar skuli ávaxta eigið fé samkvæmt fjárfestingarstefnu þar til lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. er náð. Í slíkum tilfellum getur sjóðurinn því ekki tekið þátt í verkefnum skv. 1. mgr. 2. gr. laganna, fyrr en lágmarksfjárhæð eigin fjár er náð.
Um 8. gr.
Með 5. gr. laga nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., var kveðið á um að Nýsköpunarsjóður skyldi fá 1.500 millj. kr. viðbótarframlag á árunum 2007–2009 til að standa undir hlutdeild sinni í stofnun nýrra samlagssjóða með lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum, enda nemi eignarhlutur annarra en Nýsköpunarsjóðs í slíkum sjóði a.m.k. 50%. Er ákvæðinu ætlað að skjóta stoðum undir slíka starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fái samþykki iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra til að fjárfesta í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum þegar til þess er nýtt hluti af söluandvirði Landssíma Íslands hf., sbr. lög nr. 133/2005. Í öðrum tilvikum þurfi ekki samþykki ráðherranna.
Þá er mælt fyrir um heimildir Nýsköpunarsjóðs til að veita lán með breytirétti í hlutafé og lán með kauprétti hlutafjár og ábyrgðir. Gert er ráð fyrir að meginstarfsemi Nýsköpunarsjóðs verði að fjárfesta í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Í tilteknum afmörkuðum tilfellum verði þó heimilt að veita lán og ábyrgðir. Er stofnuninni einungis heimilt að veita lán með breytirétti í hlutafé eða með kauprétti hlutafjár. Einnig er ábyrgðarveiting háð þeim takmörkunum að hún sé til aðila sem þegar eru viðskiptavinir stofnunarinnar og að hún sé liður í sameiginlegri ákvörðun meðfjárfesta um slíka fjármögnun.
Um 9. gr.
Þær breytingar sem gert er ráð fyrir í a-lið ákvæðisins leiða af þeirri tillögu að starfsemi Nýsköpunarsjóðs verði takmörkuð við fjárfestingar, ábyrgðir og lán.
Ákvæði b-liðar ákvæðisins er í samræmi við þær breytingar sem gert er ráð fyrir í 7. gr. frumvarpsins, þ.e. að lágmarksfjárhæð eigin fjár verði þrír milljarðar króna.
Um 10. gr.
Í a-lið ákvæðisins er gert ráð fyrir að Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins verði heimilt að gera afleiðusamninga til að verjast gengisáhættu. Sá möguleiki er fyrir hendi að í tengslum við ávöxtun eigin fjár og þátttöku í fjárfestingum verði talið skynsamlegt að verja sjóðinn fyrir gengisáhættu með afleiðusamningum. Því er gerð tillaga um að Nýsköpunarsjóður hafi slíka heimild.
Í b-lið ákvæðisins er gert ráð fyrir að 2. mgr. 10. gr. verði felld brott. Talið er að ákvæðið sé óþarft þar sem samkvæmt frumvarpinu er mælt fyrir um heimild Nýsköpunarsjóðs til að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum í 8. gr.
Um 11. gr.
Ákvæðið mun hafa þær afleiðingar, ef að lögum verður, að tryggingardeild útflutnings flytjist frá Nýsköpunarsjóði. Í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að starfsemi tryggingardeildar útflutnings verði vistuð innan þeirrar stofnunar.
Um 12. gr.
Tillagan leiðir af þeirri breytingu sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu að Nýsköpunarsjóður veiti ekki styrki.
Um 13. gr.
Lagt er til í greininni að 15. gr. laganna falli brott. Verði frumvarp þetta að lögum mun Fjármálaeftirlitið ekki hafa eftirlit með Nýsköpunarsjóði eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Í frumvarpi til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, sem varð að lögum nr. 61/1997, var kveðið á um að Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefði eftirlit með starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Í athugasemdum við 15. gr. sagði í frumvarpinu: „Starfsemi sjóðsins byggist á nákvæmu mati á afskriftum, en skv. 9. gr. frumvarpsins skal varðveita eigið fé hans. Bankaeftirlitið býr yfir þekkingu á slíku mati. Jafnframt eru ýmsir þættir í starfsemi og stjórnun sjóðsins sambærilegir starfsemi þeirra stofnana sem bankaeftirlitið hefur eftirlit með.“ Framangreind rök fyrir eftirliti bankaeftirlitsins á sínum tíma eiga ekki við í ljósi breytinga í frumvarpi þessu á hlutverki sjóðsins sem verður hér eftir einungis heimilt að veita lán og ábyrgðir í tilteknum tilfellum. Starfsemi Nýsköpunarsjóðs er að mörgu leyti ólík annarri starfsemi sem fellur undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Auk þess reynir ekki á neytendavernd eða fjármálastöðugleika með sama hætti og í eftirliti með fjármálafyrirtækjum.
Afnám 15. gr. núgildandi laga ásamt því að heimild sjóðsins til lánveitinga verður takmörkuð við undantekningartilvik leiðir af sér að Nýsköpunarsjóður fellur ekki lengur undir eftirlitsskyldu Fjármálaeftirlitsins heldur verður eftirlits- og endurskoðunarskylda Ríkisendurskoðunar talin fullnægjandi, sbr. 2. mgr. 14. gr. núgildandi laga. Verði frumvarpið að lögum mun aðeins Ríkisendurskoðun hafa eftirlit með Nýsköpunarsjóði. Það byggist á því að Ríkisendurskoðun þarf að leggja mat á þá liði sem fram kom í ársreikningi og þær matsaðferðir sem notaðar eru í reikningsskilunum, þar með taldar afskriftir sem um er getið í 9. gr. núgildandi laga.
Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, skal fjárhagsendurskoðun stofnunarinnar miða að því að reikningar séu í samræmi við heimildir laga, lögmæt fyrirmæli, starfsvenjur og samninga um rekstrarverkefni. Undir hlutverk Ríkisendurskoðunar fellur því m.a. að kanna hvort reikningar Nýsköpunarsjóðs séu í samræmi við ákvæði þessara laga, reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra og reglur sem stjórn sjóðsins setur. Undir störf Ríkisendurskoðunar fellur því m.a. að kanna hvort ávöxtun eigin fjár, mat á afskriftum og þátttaka í fjárfestingarverkefnum sé í samræmi við lög og reglur.
Um 14. gr.
Í 19. gr. gildandi laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins er kveðið á um að brot gegn lögunum varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við samkvæmt öðrum lögum. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er opinber stofnun, sem lýtur eftirliti Ríkisendurskoðunar. Ekki hefur tíðkast að kveða sérstaklega á um refsinæmi við brotum gegn lögum sem kveða á um starfsemi ríkisstofnanna, en almenn hegningarlög geta átt við um starfsemi innan þeirra. Í ljósi þessa er lagt til að 19. gr. gildandi laga verði felld á brott.
Um 15. gr.
Þar sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun að þau lög taki gildi 1. ágúst 2007 er lagt til að ákvæði sem miðar að því að fella brott kafla laganna um tryggingardeild útflutnings taki gildi 1. ágúst 2007. Að öðru leyti taki lögin gildi við birtingu. Gefur það Nýsköpunarsjóði tækifæri til að nýta strax þær heimildir sem kveðið er á um í frumvarpi þessu.
Um ákvæði til bráðabirgða.
Í 3. mgr. 7. gr. gildandi laga um Nýsköpunarsjóð er kveðið á um vöruþróunar- og markaðsdeild. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að sú deild falli niður og eigið fé hennar teljist hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs. Einnig er með frumvarpi þessu gert ráð fyrir að stofnsjóður Nýsköpunarsjóðs teljist til eigin fjár hans. Í gildandi lögum er mælt fyrir um að útboðnar einingar skv. 2. mgr. 7. gr. skuli leystar upp innan tíu ára eftir að þær voru boðnar út og andvirðið renni til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. Slíkt hefur enn ekki átt sér stað. Því er mælt fyrir um að slíkar einingar skuli teljast til eigin fjár Nýsköpunarsjóðs.
Fylgiskjal.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð
atvinnulífsins nr. 61/1997, með síðari breytingum.