Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 302. máls.

Þskj. 317  —  302. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    121. gr. laganna orðast svo:
    Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félaga, sem falla undir 1. tölul., 2. tölul. eða 2. málsl. 4. tölul. 1. gr., vanrækja að semja ársreikning eða samstæðureikning er lög þessi kveða á um eða vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar, telst sú háttsemi vera meiri háttar brot gegn lögunum.
    Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félaga skv. 1. gr. rangfæra ársreikning, samstæðureikning eða einstaka hluta þeirra, byggja ekki samningu þeirra á niðurstöðu bókhalds eða láta rangar eða villandi skýringar fylgja, enda varði brotið ekki við 158. gr. almennra hegningarlaga, telst sú háttsemi vera meiri háttar brot gegn lögunum.
    Sama á við ef maður aðstoðar stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra félaga við þau brot sem lýst er í þessari grein eða stuðlar að þeim á annan hátt.

2. gr.

    Á eftir 1. mgr. 122. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félaga, sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr., vanrækja að semja ársreikning eða samstæðureikning er lög þessi kveða á um, telst sú háttsemi vera brot gegn lögum þessum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 126. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „skv. 1. mgr.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: sbr. þó 3. mgr.
     b.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á þau félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. og vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Við mat á því hvort félög falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. er ársreikningaskrá heimilt að nýta sér upplýsingar frá ríkisskattstjóra skv. 2. mgr. 117. gr. Þá er ársreikningaskrá heimilt að leggja sektir á félög sem falla undir 1. gr. laganna og vanrækja að leggja fram fullnægjandi upplýsingar eða skýringar með ársreikningi eða samstæðureikningi sem lagður hefur verið fram til opinberrar birtingar. Heimild ársreikningaskrár til að leggja á sektir samkvæmt þessari málsgrein er óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Sektarfjárhæðin nemur allt að 500.000 kr. og rennur í ríkissjóð. Sektin er aðfararhæf. Sektarákvörðun ársreikningaskrár er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992.
             Fjármálaráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd á sektarheimild ársreikningaskrár.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2006 eða síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, ber þeim félögum sem falla undir gildissvið laganna að semja og senda ársreikningaskrá ársreikning sinn til opinberrar birtingar innan nánar tilgreindra tímamarka en hlutverk ársreikningaskrár er m.a. að taka á móti, geyma og birta ársreikninga skilaskyldra félaga. Framangreindar reglur eru í samræmi við skuldbindingar okkar að Evrópurétti, sbr. tilskipun ráðsins 68/151/EBE, sbr. einnig tilskipun ráðsins 78/660/EBE.
    Þrátt fyrir skýra lagaskyldu um skil á ársreikningi er ávallt nokkur fjöldi félaga sem hvorki semur né skilar ársreikningum til ársreikningaskrár en samkvæmt núgildandi lögum um ársreikninga telst til meiri háttar brota sú háttsemi stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra félaga sem skilaskyld eru samkvæmt lögunum að láta undir höfuð leggjast að semja ársreikning eða samstæðureikning. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem miða að því að auka skil félaga á ársreikningum til ársreikningaskrár.
    Þegar upp kemur sú staða að ársreikningi er ekki skilað til ársreikningaskrár eru úrræði hennar til að bregðast við afar takmörkuð. Ársreikningaskrá getur einungis sent ítrekaðar áskoranir um skil á ársreikningi til stjórnar eða framkvæmdastjóra og ef þeim er ekki sinnt er eina úrræði ársreikningaskrár að vísa málinu til skattrannsóknarstjóra ríkisins. Skattrannsóknarstjóra ber að rannsaka hvað veldur því að ársreikningur félags er ekki lagður fram, sem leiðir til skýrslutöku hjá embættinu. Slík rannsókn getur verið nokkuð tímafrek þrátt fyrir að ástæða vanskila geti oft verið einföld.
    Reynslan sýnir að í flestum tilfellum er bókhaldsóreiða ástæða fyrir vanskilum á ársreikningi til ársreikningaskrár en þá hefur ársreikningur viðkomandi félags ekki verið saminn. Einnig eru í undantekningartilfellum félög sem kjósa að leggja ekki fram ársreikning þrátt fyrir að hann hafi verið saminn. Ef ársreikningur hefur ekki verið saminn og sendur ársreikningaskrá er úrræði skattrannsóknarstjóra að senda málið til ríkislögreglustjóra, ef slík vanræksla telst vera meiri háttar brot samkvæmt lögunum, en ef vanskil á ársreikningi til ársreikningaskrár eru tilkomin vegna annarra ástæðna má vísa málinu til yfirskattanefndar til sektarmeðferðar. Þessi úrræði eru seinfarin og hafa hingað til ekki haft tilætluð áhrif.
    Með frumvarpinu er lagðar til tvær breytingar. Sú fyrri snýr að því að gera greinarmun eftir stærð félagsins á alvöru þess að semja ekki eða skila ekki ársreikningi. Samkvæmt frumvarpinu teljast slík brot stjórnarmanna og framkvæmdastjóra stærri félaga, sem falla undir 1. tölul., 2. tölul. og 2. málsl. 4. tölul. 1. gr. laganna, áfram til meiri háttar brota en lagt er til að sams konar brot stjórnarmanna og framkvæmdastjóra minni félaga, sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr., teljist ekki til meiri háttar brota en varði engu að síður viðurlögum. Með þessari aðgreiningu munu umrædd brot stjórnarmanna og framkvæmdastjóra minni félaga varða sektum sem heimilt er að leggja á félögin. Leiddar eru líkur að því að þessar breytingar geri það að verkum að rannsókn mála og álagning viðurlaga verði skilvirkari.
    Síðari breytingin sem felst í frumvarpinu er að ársreikningaskrá verði veitt heimild til að leggja sektir á félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. sem vanrækja að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Gert er ráð fyrir því að ársreikningaskrá hafi heimild til þess að nýta sér upplýsingar um félögin samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 90/2003. Ástæðan fyrir þessu er að gera ársreikningaskrá kleift að meta hvort einhver rekstur er í viðkomandi félögum, sem og ákvarða hvort félögin teljast til stærri eða minni félaga í skilningi ársreikningalaga. Eins er lagt til að ársreikningaskrá geti lagt sektir á öll félög sem ekki skila fullnægjandi upplýsingum eða skýringum með ársreikningi eða samstæðureikningi. Gert er ráð fyrir því að þessi heimild ársreikningaskrár sé óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans, þ.e. hlutlæg ábyrgð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr., sem kemur í stað 1. tölul. 1. mgr. 121. gr. laganna, kemur fram að sú háttsemi stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra félaga sem falla undir 1. tölul., 2. tölul. eða 2. málsl. 4. tölul. 1. gr. laganna að láta undir höfuð leggjast að semja ársreikning eða samstæðureikning teljist ætíð meiri háttar brot gegn lögunum, eins og er í núgildandi 1. tölul. greinarinnar hvað þessi félög varðar. Sama gildir varðandi þessi félög ef þau skila ekki ársreikningi til opinberrar birtingar skv. 109. gr. Þau félög sem hér um ræðir eru hlutafélög sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, svo og dótturfélög sem eru innifalin í samstæðureikningsskilum þeirra. Einnig eru um að ræða hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög, samvinnufélög og samvinnusambönd og gagnkvæm vátrygginga- og ábyrgðarfélög ef félögin fara fram úr tvennum af eftirfarandi stærðarmörkum tvö ár í röð: a. eignir nema 230.000.000 kr., b. rekstrartekjur nema 460.000.000 kr., c. fjöldi ársverka á reikningsári er 50. Enn fremur er um að ræða sameignarfélög og önnur félög með ótakmarkaðri ábyrgð félagsaðila, svo og samlagsfélög, enda skráð í firmaskrá, ef félögin fara fram úr framangreindum stærðarmörkum.
    Í 2. mgr. er aðeins breyting á framsetningu 2. tölul. 1. mgr. 121. gr. laganna vegna framangreindra breytinga á 1. mgr. Sú háttsemi stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra félaga sem falla undir 1. gr. laganna sem felst í því að rangfæra ársreikning, samstæðureikning eða einstaka hluta þeirra, byggja ekki samningu þeirra á niðurstöðu bókhalds eða láta rangar eða villandi skýringar fylgja telst vera meiri háttar brot gegn lögunum, enda varði brotið ekki við 158. gr. almennra hegningarlaga.
    3. mgr. er nú 2. mgr. 121. gr. laganna.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að bæta nýrri málsgrein við 122. gr. laganna sem felur það í sér að ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar félaga sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. láta undir höfuð leggjast að semja ársreikning eða samstæðureikning, teljist sú háttsemi vera brot gegn lögum þessum en er nú meiri háttar brot skv. 1. tölul. 121. gr. sem breytt er með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins í brot sem beita má fésektum við. Ákvæðið tekur meðal annars til hlutafélaga, einkahlutafélaga og samvinnufélaga sem eru undir stæðamörkum 2. tölul. 1. gr. laganna og teljast til minni félaga og sameignarfélaga í eigu annarra skilaskyldra félaga.

Um 3. gr.


    Í a-lið er um tilvísun til nýrrar málsgreinar, sbr. b-lið.
    Í b-lið er lagt til að lögfest verði það nýmæli að ársreikningaskrá verði veitt heimild til þess að leggja sektir á félög sem falla undir 3. tölul. eða 1. málsl. 4. tölul. 1. gr. laganna vegna vanskila þeirra á ársreikningi til ársreikningaskrár. Skiptir ekki máli hvort reikningurinn hefur verið saminn eða ekki. Þetta ákvæði nær einnig til framlagðra ársreikninga og samstæðureikninga allra félaga hafi þeir ekki að geyma þær upplýsingar og skýringar er lög þessi kveða á um, m.a. með því að lagðir hafi verið fram samandregnir ársreikningar og samstæðureikningar. Heimild ársreikningaskrár til að leggja á sekt nær því til brota sem varða við 1. tölul. 122. gr. laganna, samanber fyrirmæli X. kafla. Lagt er til að ársreikningaskrá geti í þessu skyni leitað upplýsinga hjá ríkisskattstjóra varðandi stærðarmörk félaga. sbr. 2. mgr. 117. gr. laganna, sem heimilar ársreikningaskrá að sannreyna að félagið uppfylli kröfur um stærðarmörk til að mega leggja fram samandregna ársreikninga. Um er að ræða sektargreiðslu allt að fjárhæð 500.000 kr. og er sú sekt aðfararhæf. Ákvörðun ársreikningaskrár um að leggja á sekt og/eða fjárhæð hennar má gjaldandi kæra til yfirskattanefndar.
    Sektarheimild þessi er ekki bundin við sök fyrirsvarsmanna og ekki er gert skilyrði að fyrirsvarsmanni sé jafnframt gerð refsing vegna brotsins. Sé grunur uppi um meiri háttar brot gegn lögunum er ekki gert ráð fyrir því að ársreikningaskrá beiti sektarheimild sinni, heldur vísi þeim málum til skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Um 4. gr.


    Lagt er til að lögin taki til ársreikninga sem samdir eru fyrir rekstrarár sem hefst á árinu 2006. Gildir heimildin því vegna vanskila ársreikninga á árinu 2007 vegna rekstrarárs 2006 og síðar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga.


    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar. Fyrri breytingin er skilgreining á hversu alvarlegt það er eftir stærð fyrirtækja að semja ekki eða skila ekki ársreikningi. Í annan stað er lögð fram breyting er veitir ársreikningaskrá heimild til að leggja sektir á fyrirtæki sem vanrækja skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar. Sektir geta numið allt að 500 þús. kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.