Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 343. máls.

Þskj. 372  —  343. mál.










93. og 94.

Alþjóðavinnumálaþingið í Genf

2005 og 2006








Skýrsla félagsmálaráðherra
Magnúsar Stefánssonar
til Alþingis


















Félagsmálaráðuneytið
nóvember 2006






    

EFNISYFIRLIT



1.             Inngangur
     5

2.             93. Alþjóðavinnumálaþingið 2005
     7

             2.1.     Skipulag og þátttaka
      7

             2.2.     Fjármál
     8

             2.3.     Almennar umræður
     8

             2.4.     Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla
     9

              2.5.     Nefnd um aðbúnað og öryggi sjómanna á fiskiskipum
   12

              2.6.     Nefnd um vinnuvernd
   13

              2.7.     Almennar umræður um atvinnuleysi ungs fólks
   14

              2.8.     Kosning stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar
   15

3.             94. Alþjóðavinnumálaþingið 2006
   15

              3.1.     Skipulag og þátttaka
   15

              3.2.     Framvinda þingsins
   16

              3.3.     Tillaga að alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna
   16

              3.4.     Afgreiðsla
   18

4.             Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Búdapest 2005
   18



Fylgiskjöl:
     I.
     Samþykkt nr. 186, um vinnuskilyrði farmanna
   20

     II.
     Skipan stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar 2005–2008
  107

     III.
     Niðurstöður 7. Evrópuþings ILO samþykktar í Búdapest í Ungverjalandi 2005
  110

     IV.
     Ræða félagsmálaráðherra á 7. Evrópuþingi ILO
  116

     V.      Skýrsla um starf nefndar um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
        og framkvæmd á félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 2005
  118







Skýrsla

félagsmálaráðherra, Magnúsar Stefánssonar, til Alþingis
um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO)
sem haldin voru á árunum 2005 og 2006.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. INNGANGUR

    Samkvæmt 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) ber að leggja samþykktir gerðar á Alþjóðavinnumálaþinginu fyrir löggjafarsamkomu hlutaðeigandi aðildarríkis innan árs og eigi síðar en 18 mánuðum frá lokum þingsins. Frá því aðild Íslands að ILO var samþykkt 19. október 1945 á 27. Alþjóðavinnumálaþinginu í París hefur þetta verið gert með skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis. Í skýrslunni eru birtar alþjóðasamþykktir og tilmæli sem hafa verið afgreidd á þingunum.
    Að þessu sinni er í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis gerð grein fyrir tveimur Alþjóðavinnumálaþingum. Hið fyrra, 93. í röðinni, var háð í Genf dagana 31. maí til 16. júní 2005. Einnig er fjallað um aukaþing, 94. Alþjóðavinnumálaþingið, sem haldið var 6.–23. febrúar 2006. Þingið var helgað málefnum farmanna. Slík aukaþing hafa verið haldin að jafnaði með 10 ára millibili. Loks er fjallað stuttlega um Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem haldið var 14.–18. febrúar 2005.
    Á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu fór fram síðari umræða um tillögu að nýrri alþjóðasamþykkt og tilmælum um vinnuskilyrði sjómanna um borð í fiskiskipum. Mikil ágreiningur var um gildissvið samþykktarinnar sem endurspeglaði mismunandi byggingarlag skipa í Asíu og Evrópu. Um tíma leit út fyrir að tekist hefði að jafna þann ágreining sem uppi var með því að láta ákvæði samþykktarinnar taka til fiskiskipa sem eru lengri en 24 metrar eða 175 mælingatonn eða stærri. Mikilvægar fiskveiðiþjóðir í Asíu, þar á meðal Japanir, lýstu því yfir að þessi málamiðlunartillaga kæmi ekki til móts við hagsmuni þeirra. Niðurstaða þingsins varð nokkuð söguleg þar sem einungis vantaði eitt atkvæði til að samþykktin fengi tilskilinn stuðning til að ná fram að ganga. Að fenginni þessari niðurstaðu samþykkti þingið tilmæli til stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um að málið verði tekið að nýju á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins árið 2007. Til skýringar skal þess getið að í umræddri tillögu að alþjóðasamþykkt er m.a. kveðið á um ábyrgð útgerðarmanns, skipstjóra og sjómanna á fiskiskipum, enn fremur um mönnun og hvíldartíma, fyrirkomulag á greiðslu launa, aðbúnað og fæði, heilsugæslu, vinnuvernd, tryggingar og um vernd vegna atvinnutengdra sjúkdóma, slysa eða dauða. Í viðaukum við samþykktina er m.a. að finna tilmæli um form ráðningarsamninga.
    Almenn umræða um efni nýrrar alþjóðasamþykktar um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum fór fram á 93. þinginu. Samkomulag náðist um gerð rammasamþykktar sem hefur að markmiði að auðvelda þróunarríkjum að bæta smám saman aðbúnað og auka öryggi á vinnustöðum. Drög að samþykktinni verða til síðari umræðu á Alþjóðvinnumálaþinginu að ári.
    Fram kom í máli margra þingfulltrúa að mikið atvinnuleysi ungs fólks veldur víða miklum áhyggjum. Þingið samþykkti áætlun fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina um aðgerðir til að stuðla að fjölgun atvinnutækifæra fyrir ungt fólk. Á það var lögð áhersla að áætlunin yrði að vera skýr og markviss þar sem byggt væri á menntun og stuðningi við rétt ungs fólks í samræmi við alþjóðasamþykktir ILO og tækniaðstoð stofnunarinnar.
    Mikilvægur þáttur í starfi Alþjóðavinnumálaþingsins er umfjöllun um skýrslu sérfræðinganefndar stofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta sem fjalla um réttindi og skyldur í atvinnulífinu. Í undantekningartilvikum er heilum þingfundi nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta varið í umræðu um ástand í einstökum ríkjum. Þetta gerðist á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu þegar fjallað var um meint brot Burma (Myanmar) á alþjóðasamþykktum um afnám nauðungarvinnu. Þingið hvatti stjórnarnefnd ILO og aðildarríkja ILO til að grípa til harðari aðgerða gegn herforingjastjórninni í landinu. Einnig voru fordæmd viðvarandi brot stjórnarinnar á alþjóðasamþykktum um félaga- og samningafrelsi. Þingnefnd Alþjóðavinnumálaþingsins um framkvæmd alþjóðasamþykkta fór einnig yfir slæmt ástand þessara mála í Hvíta-Rússlandi. Nefndin samþykkti tilmæli til stjórnarnefndar ILO um að senda sendinefnd til að aðstoða stjórnvöld við að koma á umbótum en einnig til að leggja mat á aðgerðir stjórnvalda til að koma til móts við gagnrýni sem áður hafði komið fram.
    Þingið kaus fulltrúa úr röðum ríkisstjórna, atvinnurekenda og samtaka launafólks til setu í stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til næstu þriggja ára. Í stjórnarnefndinni sitja 56 aðalfulltrúar (28 fulltrúar ríkisstjórna, 14 fulltrúar atvinnurekenda og 14 fulltrúar launafólks). Auk þess sitja fundi stjórnarnefndarinnar 66 varafulltrúar (28 fulltrúar ríkisstjórna, 19 fulltrúar atvinnurekenda og 19 fulltrúar launafólks).
    Á aukaalþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var í febrúar 2006 var afgreidd alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna. Samþykktin verður ein fjögurra grundvallarsamþykkta sem fjalla um málefni á sviði siglinga. Hinar þrjár eru samþykktir Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) um menntun, þjálfun, vaktstöður og skírteini sjómanna (STCW), um öryggi mannslífa á höfunum (SOLAS) og um varnir gegn mengun hafsins (MARPOL). Með samþykktinni fer Alþjóðavinnumálastofnunin inn á nýjar brautir að því er varðar framsetningu alþjóðlegra reglna á sviði vinnuréttar og vinnuverndar. Í fyrsta skipti er að finna í sömu samþykktinni skuldbindandi ákvæði auk reglna sem eru leiðbeinandi fyrir aðildarríki. Um er að ræða tímamótasamþykkt á vettvangi ILO.
    Alþjóðasamþykktin um vinnuskilyrði farmanna hefur að geyma ákvæði um lágmarksréttindi að því er varðar aldur farmanna, vinnutíma, hvíldartíma, aðbúnað, fæði, vistarverur og hollustuhætti um borð í skipum öðrum en fiskiskipum. Ítarleg ákvæði eru um skyldur fánaríkja og hafnarríkja hvað varðar skoðun og eftirlit með starfsskilyrðum og lífskjörum farmanna um borð. Unnið var að smíði alþjóðasamþykktarinnar í tæp fimm ár. Drög að henni voru til umfjöllunar á fjölmörgum undirbúningsfundum. Samþykktinni er ætlað að leysa af hólmi 68 alþjóðasamþykktir um málefni farmanna sem hafa verið afgreiddar á Alþjóðavinnumálaþingum. Sú elsta er frá árinu 1920. Þótt Alþjóðavinnumálaþingið hafi afgreitt samþykktina einróma gengur hún ekki í gildi fyrr en 30 aðildarríki, sem samanlagt hafa 33 af hundraði skipaflota heims miðað við brúttótonnatölu, hafa fullgilt hana. Um er að ræða umfangs- og efnismikla samþykkt sem er til umfjöllunar hjá stjórnvöldum siglingamála og hagsmunasamtökum útgerðarmanna og sjómanna. Þar af leiðandi er lagt til að fullgildingu Íslands á samþykktinni verði frestað þar til niðurstaða þeirrar umfjöllunar liggur fyrir.
    Sjöunda Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var haldið í febrúar 2005 í Búdapest í Ungverjalandi. Að jafnaði eru slík þing haldin á fjögurra ára fresti. Fimmtíu og tvö aðildarríki í Evrópu og Mið-Asíu áttu rétt á að senda fulltrúa til Evrópuþingsins og nýttu 50 þann rétt. Þetta var í annað skiptið sem íslensk sendinefnd tók þátt í þinginu. Helstu viðfangsefni þingsins voru samráð stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins, bætt stjórnsýsla og aukin efnahagssamvinna ríkja Evrópu og Mið-Asíu. Einnig var fjallað um nýlega skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um áhrif alþjóðavæðingar á framvindu félags- og vinnumála, atvinnumál ungs fólks og stöðu miðaldra og eldri starfsmanna á vinnumarkaðnum.


2. 93. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 2005
2.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA

    Alþjóðavinnumálaþingið, hið 93. í röðinni, var háð dagana 31. maí til 16. júní 2005 í Genf í Sviss. Stór hluti þingsins fór fram í Þjóðabandalagshöllinni en fundir nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta voru haldnir í byggingu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Þingfulltrúar hafa sjaldan verið fleiri en í þetta skiptið. Samtals tóku þátt í þinginu um 4000 þingfulltrúar atvinnurekenda, launafólks og ríkisstjórna frá 178 aðildarríkjum. Þingforseti var kosinn Basim Khalil Alsalim, vinnumálaráðherra Jórdanínu. Varaforsetar voru eftirtaldir: Andrew J. Finley úr röðum fulltrúa atvinnurekenda í Kanada, Hilda Anderson, fulltrúi launafólks í Kanada, og Galo Chriboga Zambrano vinnumálaráðherra Ekvador, úr röðum ríkisstjórnarfulltrúa.
    Fulltrúar Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu voru: Frá félagsmálaráðuneyti: Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri og Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins. Frá utanríkisráðuneyti: Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra og Ingibjörg Davíðsdóttir sendiráðunautur. Frá samgönguráðuneyti: Sverrir Konráðsson sérfræðingur. Fulltrúi atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Varamaður hennar var Jón H. Magnússon, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Fulltrúi launafólks: Magnús Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambands Íslands. Varamenn hans voru Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, og Ísleifur Tómasson, starfsmaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
    Á dagskrá þingsins voru eftirtalin málefni:
     1.      Skýrslur forstjóra og stjórnarnefndar.
     2.      Fjárhags- og framkvæmdaáætlun.
     3.      Framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla.
     4.      Öryggi og hollustuhættir í atvinnulífinu.
     5.      Vinnuskilyrði fiskimanna.
     6.      Atvinnumál ungs fólks.
     7.      Kjör stjórnarnefndar ILO til þriggja ára.
     8.      Kjörbréf.
    Daginn fyrir setningu þingsins voru haldnir fundir hópanna þriggja sem eiga fulltrúa á þinginu, þ.e. ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks. Á fundunum var gengið frá tilnefningum fulltrúa til setu í nefndum. Samþykkt var stofnun eftirtalinna þingnefnda: fjárhagsnefndar, nefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla, nefndar um vinnuvernd, nefndar um vinnuskilyrði fiskimanna, nefndar um vinnumál ungs fólks, kjörbréfanefndar og nefndar um framvindu þingsins.
    Sú hefð hefur skapast í áranna rás að forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf býður sérstaklega til þingsins gestum sem þykja brautryðjendur á sviði félags- og vinnumála. Að þessu sinni voru heiðursgestir Alþjóðavinnumálaþingsins og forstjóra ILO, Juvan Somavia, forseti Nigeríu, Olusegum Obasanjo, og forseti Alsír, Abdelaziz Bouteflika.
    Forseti Nígeríu gerði m.a. að umtalsefni á allsherjarþingi vinnumálaþingsins þörfina fyrir að byggja upp „hina nýju Afríku“ sem hann tók síðar upp á leiðtogafundi öflugustu iðnríkja veraldar sem haldinn var í Edinborg.
    Nýleg skýrsla alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um félagslegar afleiðingar alþjóðavæðingar var hins vegar stefið í ávarpi forseta Alsír. Í því lagði hann áherslu á nauðsyn þess að gæta að félagslegu öryggi þegar samruni og alþjóðavæðing fyrirtækja og efnahagslífs væri annars vegar.

2.2. FJÁRMÁL


    Fjárhagsnefnd Alþjóðavinnumálaþingsins fjallar um fjármál Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Hún er eina nefndin þar sem aðgangur er takmarkaður við fulltrúa ríkisstjórna. Í nefndinni er oft tekist hart á um fjárhagsáætlun stofnunarinnar. Oftast er það forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar eða fulltrúi hans og bandaríski fulltrúinn sem takast á en Bandaríkin greiða um fjórðung árgjalda aðildarríkjanna til stofnunarinnar. Formaður og talsmaður nefndarinnar gagnvart allsherjarþinginu var kosinn J.J. Elmiger, sendiherra Sviss gagnvart alþjóðastofnunum í Genf. Burayzat frá Jórdanínu var kosinn varaformaður. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf, Juan Somavia, fylgdi fjárshags- og starfsáætluninni úr hlaði í nefndinni. Í ræðu hans kom fram að í fjárhags- og starfsáætlun næstu tveggja ára verði lögð áhersla að fylgja eftir og efla áætlunina um mannsæmandi störf. Hún verði kjarninn í starfi stofnunarinnar. Áætlunin móti þjónustu ILO við einstök aðildarríki. Áætlunin um mannsæmandi starf byggi á eftirfarandi: áhrifum alþjóðavæðingar á vinnumarkaðinn, aðgerðum gegn fátækt, jafnrétti kynjanna, þríhliða samstarfinu og framkvæmd alþjóðasamþykkta. Að þessu sinni sveif andi sáttfýsi yfir vötnunum og lítið var um hefðbundin átök í nefndinni. Niðurstaða fjárhagsnefndarinnar var að leggja til við allsherjarþingið að raunhækkun útgjalda ILO verði 1,1 % á tveggja ára tímabilinu 2006–2007 eða 94.310.000 Bandaríkjadalir en það samsvarar 742. 887.500 svissneskum frönkum. Hlutdeild Íslands í heildarárgjöldum aðildarríkjanna er 0,034 hundraðshlutar eða 126.291 svissneskur franki.

2.3. ALMENNAR UMRÆÐUR


    Almennar umræður á allsherjarþingi Alþjóðavinnumálaþingsins fjölluðu um skýrslu forstjórans, Juvan Somavia, um alþjóðlega samstöðu um aðgerðir gegn nauðungarvinnu. Versta myndin sem við blasir nú á tímum af því taginu er mansal og ólöglegt smygl á konum og börnum landa á milli. Markmiðið er að gera þessa óhamingjusömu einstaklinga að kynlífsþrælum í myrkrakompum glæpahringja. Í umræðum á vinnumálaþinginu kom fram hjá fjöldamörgum ræðumönnum að hér er um að ræða þann hóp í samfélaginu sem stendur veikustum fótum og brýnast er að liðsinna. Skiptar skoðanir voru á því hvort þetta væri afleiðingin af alþjóðavæðingu efnahags- og atvinnulífsins. Sumir töldu að þessi tegund nauðungarvinnu væri hvorki ný né afleiðing af alþjóðavæðingunni. Aðrir kváðu þessa nýju mynd nauðungarvinnu, einkum þá sem tengdist mansali, vera kjarnann í því sem kallað væri „alþjóðavæðing þrælahalds“.
    Fram kom hjá forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að honum þótti nokkuð vanta upp á að raunveruleg skoðanaskipti ættu sér stað á þinginu um þetta málefni en hann taldi umræðurnar engu síður hafa verið gagnlegan undirbúning fyrir aðgerðir og leiðtogafund um þetta málefni sem fyrirhugað er að halda á árinu 2006. Ræðumenn hafi verið þokkalega sammála um að rætur nauðungarvinnu væru margvíslegar; tíðast væri fátækt, atvinnuleysi og mismunun um að kenna. Hér væri um að ræða sameiginlegt vandamál þróunarríkja og þróaðra ríkja. Samstarf upprunalands mansals og þess sem er ákvörðunarstaður er mjög þýðingarmikið. Aðgerðir ríkja eins Brasilíu, Pakistans, Japans, Afganistans og Malaví væru árangursrík tæki til að takast á við vandann. Hér hafi vilji stjórnvalda afgerðandi þýðingu en samtök aðila vinnumarkaðarins gegni einnig mikilvægu hlutverki.

2.4. FRAMKVÆMD ALÞJÓÐASAMÞYKKTA OG TILMÆLA


    Mikilvægasta nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins er án efa nefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tillagna. Nefndin er jafnframt sú fjölmennasta. Samtals sátu fundi nefndarinnar 205 þingfulltrúar (125 fulltrúar ríkisstjórna, 10 fulltrúar atvinnurekenda og 70 fulltrúar launafólks). Áheyrnarfulltrúar voru samtals 249 (8 fulltrúar ríkisstjórna, 77 fulltrúar atvinnurekenda og 164 fulltrúar launafólks). Að auki áttu fulltrúar 34 alþjóðasamtaka áheyrnaraðild að nefndinni. Nefndin hélt fundi í fundarsal stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og var oft þröngt ekki síst þegar tala fundargesta fór yfir fjórða hundraðið. Formaður nefndarinnar var kosinn Sérgio Paixao Pardo, fulltrúi ríkisstjórnar Brasilíu. Varaformenn voru Edward Potter, fulltrúi bandarískra atvinnurekenda og Luc Cortebeek, fulltrúi launafólks í Belgíu. Edward Potter hefur um skeið verið varamaður Alfred Wisskirchen sem gengdi varaformennsku í nefndinni 22 ár af þeim 35 árum sem hann sótti Alþjóðavinnumálaþingið. Alfred Wisskirchen, sem er farinn á eftirlaun, var heiðraður af fulltrúum vinnumálaþingsins og þökkuð hlutlægni, réttsýni og áhugi sem hann hefur sýnt störfum þingsins á umliðnum áratugum. Þeir sem tjáðu sig voru sammála um að það skarð sem hefur myndast við brotthvarf Alfred Wisskirchen verði vandfyllt.
    Önnur tímamót áttu sér stað í þingnefndinni. Jean Claud Cavalier, sem um nokkurra ára skeið hefur verið skrifstofustjóri deildar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar sem fjallar um framkvæmd alþjóðasamþykkta, tók við öðru starfi á vegum ILO nokkru fyrir setningu vinnumálaþingsins. Við starfi hans tók Cleopatra Doumbia-Henry. Hún hefur lengi starfað á alþjóðavinnumálaskrifstofunni, m.a. í þeirri deild sem fjallar um málefni farmanna.
    Starf nefndarinnar tók ekki miklum breytingum frá því sem verið hefur undanfarin ár og áratugi. Ein mikilvæg undantekning varð á sem tengist Íslandi eins og síðar er rakið. Nefndarstarfið hefst með almennum umræðum um yfirlitskafla í skýrslu sérfræðinga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd alþjóðasamþykkta og tilmæla. Í þessum hluta er fjallað um skil aðildarríkjanna á skýrslum um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Það hefur verið áhyggjuefni að nokkuð hefur vantað upp á að skýrsluskilin hafi verið fullnægjandi. Enn fremur hefur gengið verr að fá skýrslurnar fyrir tilskilin tímamörk. Þetta hefur áhrif á starf sérfræðinganefndarinnar. Nefndin getur ekki sinnt störfum sínum með eðlilegum hætti ef ekki liggja til grundvallar skýrslur frá aðildarríkjunum um framkvæmd þeirra á fullgiltum alþjóðasamþykktum. Einnig er fjallað í þessum hluta um viðbrögð við athugasemdum og ábendingum sem sérfræðinganefndin setur fram. Þegar á heildina er litið taka aðildarríkin tillit til þessara ábendinga. Ef framkvæmd er ábótavant er brugðist við og gerð bragarbót.
    Stærsti hluti starfstíma nefndarinnar um þingtímann snýst um umræður um framkvæmd einstakra aðildarríkja á alþjóðasamþykktum. Í umræðunum er stuðst við umfangsmikla skýrslu sérfræðinganefndarinnar til Alþjóðavinnumálaþingsins. Í skýrslunni er fjallað um mun fleiri mál en kostur er að taka til umfjöllunar á þinginu. Þar af leiðandi vinnur nefndin eftir málaskrá sem fulltrúar aðila vinnumarkaðarins leggja sameiginlega til að verði tekin til athugunar og umræðu í nefndinni. Umfjöllun um þessa skrá hefur breyst í tímans rás og málafjöldinn aukist ár frá ári. Þetta hefur kallað á breytt vinnulag. Á seinni árum hefur verið greint á milli brota á alþjóðasamþykktum og mála sem tengjast ýmiss konar vanrækslu aðildarríkja varðandi skýrslugjöf eða kynningu á nýjum alþjóðasamþykktum Alþjóðavinnumálaþingsins fyrir löggjafarsamkomu hlutaðeigndi aðildarríkis. Á 93. þinginu var fjallað um málefni 25 aðildarríkja sem lutu að framkvæmd alþjóðasamþykkta.
    Eitt af því sem skapaði þessu vinnumálaþingi sérstöðu var að hálfum þingdegi var varið í umfjöllun um aðstæður í einu aðildarríki og framkvæmd þess á alþjóðasamþykktum um nauðungarvinnu. Hér er um að ræða Burma. Heita má að það teljist til undantekninga að slíkt gerist. Hins vegar eru aðstæður í þessu ríki taldar það alvarlegar að þær kalli á hörð viðbrögð alþjóðasamfélagsins.
    Í skýrslu sem þessari er ekki hægt að gera ítarlega grein fyrir umræðum um öll mál sem tekin voru á dagskrá nefndarinnar. Einungis er hægt að draga fram þau sem án efa má telja mjög alvarleg. Önnur mál sem telja má alvarleg er framkvæmd Máritaníu á samþykkt nr. 29, um nauðungarvinnu, brot Simbabve á samþykkt um samningafrelsi og framkvæmd Venesúela á samþykkt um félagafrelsi.
    Á 92. Alþjóðavinnumálaþinginu 2004 var í fyrsta skipti fjallað í þingnefndinni um framkvæmd Íslands á alþjóðsamþykktum ILO. Tilefnið var kæra Alþýðusambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands vegna setningar laga til lausnar kjaradeilu útgerðarmanna og sjómanna á árinu 2001. Í framhaldi af umfjöllun um málið í nefndinni kom upp ágreiningur um niðurstöðu þingnefndarinnar. Orsakir hans voru raktar til mismunandi orðalags í fundargerð þingnefndarinnar og endanlegri niðurstöðu eins og hún birtist í tíðindum frá þinginu. Að frumkvæði fulltrúa ríkisstjórnar Íslands á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu 2005 voru haldnir fundir með hlutaðeigandi aðilum, bæði starfsmönnum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar sem og talsmönnum fulltrúa atvinnurekenda og launafólks í þingnefndinni, um framkvæmd alþjóðasamþykkta þar sem farið var yfir þennan ágreining og ástæður hans. Niðurstaða þessara funda var bréf sem sent var félagsmálaráðherra þar sem íslensk stjórnvöld voru beðin afsökunar á þeim skaða sem umræddur misskilningur hefði valdið. Í framhaldinu var verklagi þingnefndarinnar breytt þannig að eftirleiðis á að vera tryggt að hliðstæðar aðstæður komi ekki aftur upp. Þess skal getið að skýrsla félagsmálaráðherra um 92. Alþjóðavinnumálaþingið hefur að geyma endanlegar niðurstöður í þessu tiltekna máli.

Burma.


    Málefni Burma hafa verið reglulega til umfjöllunar á vettvangi Alþjóðavinnumálaþingsins undanfarin ár. Rótin eru lög sem veita sveitar- og borgarstjórnum og raunar öðrum stjórnvöldum víðtækar heimildir til að kveðja fólk til vinnu. Ákvæði þessarar löggjafar hafa um áratugaskeið verið misnotuð, einkum af herforingjastjórninni sem hefur setið að völdum í landinu. Árið 1996 var Alþjóðavinnumálastofnuninni send kæra á grundvelli 26. gr. stofnunarinnar. Í henni var herforingjastjórnin kærð fyrir brot á ákvæðum samþykkta ILO, einkum samþykktar nr. 29, um afnám nauðungarvinnu. Í framhaldi af kærunni samþykkti stjórnarnefnd stofnunarinnar að senda rannsóknarnefnd til landsins. Hún skilaði ítarlegri skýrslu um ástand mála. Sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar tók skýrsluna til umfjöllunar og hefur frá þessum tíma fylgst náið með þróuninni í landinu. Nefndin hefur árlega í skýrslu sinni til Alþjóðavinnumálaþingsins gert ástandið í Burma að umfjöllunarefni og margítrekað óskir um úrbætur. Nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins hefur tekið undir óskir sérfræðinganefndarinnar. Í umræðum um þetta mál hafa fulltrúar ríkisstjórnar Burma annaðhvort vísað á bug ásökunum um brot á alþjóðasamþykktum eða lofað bót og betrun. Efndir á gefnum loforðum hafa engar orðið og ástandið í landinu hefur farið sífellt versnandi. Ljóst er að þolinmæði Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og þingfulltrúa á Alþjóðavinnumálaþinginu er þrotin. Ákveðið var að taka málefni þess til umfjöllunar á sérstökum þingfundi. Fulltrúi Lúxemborgar hafði orð fyrir aðildarríkjum Evrópusambandsins og nokkrum öðrum vestrænum ríkjum í umræðunum. Í ræðu hans var dregið fram hversu ástandið er orðið alvarlegt í landinu og að stjórnvöld skelli skollaeyrum við öllum óskum um umbætur og afnám þeirrar nauðungarvinnu sem viðgengst í landinu. Ræður fulltrúa Ástralíu, Bandaríkjanna og Kanada voru í sama anda. Hins vegar kvað við nokkuð annan tón í ræðu fulltrúa Indónesíu sem mælti fyrir mun fulltrúa aðildarríkja að Sambandi ríkja Suðaustur-Asíu (ASEAN). Í henni kom fram að ríkisstjórn Burma hafi sýnt vilja til samstarfs. Fulltrúar nokkurra ríkja studdu málatilbúnað fulltrúa ríkisstjórnar Indónesíu. Í þeim hópi voru fulltrúar Kúbu, Hvíta- Rússlands, Kína, Japans og Rússlands sem öll eru aðildarríki að ASEAN. Ekki kom fram í ræðum annarra ræðumanna að þeir hafi komið auga á þennan samstarfsvilja. Rétt er að geta þess að árið 1997 var Burma veitt aðild að ASEAN þrátt fyrir að lagt hafi verið að aðildarríkjum þess að halda herforingjastjórninni utan dyra.
    Nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins samþykkti ítarlega ályktun í máli Burma. Þar er lögð áhersla á að aðstæður í landinu hafi verið alvarlegar um margra ára skeið. Nefndin mælti með því að niðurstöðurnar yrðu sendar ríkisstjórnum og samtökum atvinnurekenda og launafólks. Hún hvetur til þess að efnahags- og félagsmálanefnd Sameinuðu þjóðanna taki málið á dagskrá. Skorað er á hlutaðeigandi aðila að taka saman skýrslu um öll samskipti sín við herforingjastjórnina í Burma og senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni þannig að stjórnarnefndin hafi heildarmynd af þeim á fundi sínum í nóvember 2005. Í ályktuninni er því beint til stjórnvalda í Burma að þau verndi einstaklinga sem leggi fram kærur um nauðungarvinnu og taki þessar kærur alvarlega. Enn fremur að þau tryggi eðlilega starfsemi skrifstofu ILO í landinu og að starfsmenn fái dvalarleyfi og njóti frelsis til að ferðast um landið.

Kólumbía.


    Nefndin fjallaði enn einu sinni um brot Kólumbíu á ákvæðum alþjóðasamþykktar nr. 87, um félagafrelsi. Umfjöllun um þetta málefni er orðin fastur liður á dagskrá þingnefndarinnar. Svo virðist sem stjórnvöldum reynist erfitt að breyta aðstæðum í landinu þannig að þær séu í samræmi við ákvæði samþykktarinnar. Þingnefndin samþykkti umfangsmiklar niðurstöður í málinu þar sem látnar eru í ljós áhyggjur af ástandinu einkum þeim skilyrðum sem samtök launafólks búa við í Kólumbíu. Í ályktuninni kemur fram að nefndin veitir athygli upplýsingum um að stjórnvöld í Kólumbíu hafi boðið sendinefnd frá Alþjóðavinnumálastofnuninni að koma til landsins í því skyni að ræða framkvæmdina á samþykkt nr. 87 ásamt því að kynna sér aðstoð stofnunarinnar við landið. Gert er ráð fyrir að formaður nefndar ILO um félagafrelsi verði formaður sendinefndarinnar.

Hvíta-Rússland.


    Framkvæmd Hvíta-Rússlands á alþjóðasamþykkt nr. 87, um félagafrelsi, var tekin til umræðu í nefndinni. Í skýrslu sérfræðinganefndarinnar er dregin upp dökk mynd af ástandi mála í landinu. Skýrslan hefur að geyma hvassa gagnrýni sérfræðinganna á viðvarandi og alvarlegum brotum á rétti fólks til að stofna félög til að berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum. Svo virðist sem erfiðlega gangi að segja skilið við fyrri tíma þegar félagasamtök, ekki síst stéttarfélög launafólk, voru hluti af kerfi ríkjandi afla í Ráðstjórnarríkjunum. Sú spurning var ofarlega í hugum þeirra sem fylgdust með umræðum hvort í raun væru þær aðstæður fyrir hendi í landinu sem geri stéttarfélögum kleift að starfa. Svo virðist sem virðing fyrir lögum og rétti sé mjög takmörkuð. Flestir sem tjáðu sig gagnrýndu ástandið og hvöttu fulltrúa ríkisstjórnar Hvíta-Rússlands, sem var aðstoðarvinnumálaráðherrann, til að beita sér fyrir umbótum. Ekki voru allir sama sinnis. Þann hóp fylltu fulltrúar Kúbu, Burma, Rússlands og Kína. Niðurstaða nefndarinnar var sú að láta í ljós þungar áhyggjur yfir því að engin tilraun er gerð til að hrinda í framkvæmd ákvæðum samþykktar nr. 87. Hún kvað nauðsynlegt að ríkisstjórnin tæki á móti nefnd á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og farið yrði yfir stöðuna og þess freistað að leita lausna á þeim alvarlegu vandamálum sem við er etja. Nefndin samþykkti að þessa máls yrði getið í þeim hluta skýrslu hennar til allsherjarþings Alþjóðavinnumálaþingsins sem fjallar um sérstaklega gróf og alvarleg brot á samþykktum stofnunarinnar. Það þótti nokkuð kaldhæðnislegt að fulltrúi ríkisstjórnar Hvíta- Rússlands var kosinn til setu í stjórnarnefnd ILO kjörtímabilið 2005–2008.

Súdan.


    Ástandið í Súdan er árlegt tilefni til umfjöllunar í þingnefndinni um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Það er framkvæmd stjórnvalda á samþykkt nr. 29, um afnám nauðungarvinnu, sem er ástæðan. Í landinu eru ríkjandi aðstæður sem um margt minna á þrælahald. Konum og börnum er rænt og þau þvinguð til ýmiss konar þjónustustarfa fyrir ríkjandi valdhafa. Grundvallarmannréttindi eru fótumtroðin. Þetta ógnarástand hefur verið viðvarandi um lengri tíma. Það er einkenni á talsmönnum ríkisstjórna af sama tagi og þeirri súdönsku að halda langar innihaldslausar ræður þar sem púðri er eytt í að dásama ástandið og fordæma gróusögur alþjóðasamfélagsins um hlutaðeigandi land. Hins vegar er sjaldnast komið að kjarna málsins. Það reynir á þolrifin að hlýða á slíkar ræður. Á þinginu varð ekki breyting á þessum ræðustíl fulltrúa ríkisstjórnar Súdan. Ræðumenn sem tókum þátt í umræðum um málið gerðu að umtalsefni friðarsamning sem var undirritaður árið 2005 og létu í ljósi von um að með honum sköpuðust aðstæður til að bæta ástandið og hrinda að fullu í framkvæmd ákvæðum samþykktar 29 og afnema með öllu ríkjandi nauðungarvinnu í landinu. Niðurstaða nefndarinnar endurspeglaði þessi viðhorf ræðumanna. Einnig var samþykkt að fela Alþjóðavinnumálastofnuninni að fylgjast grannt með framvindu mála og gera úttekt á ástandinu sem lögð yrði fyrir stjórnarnefndina.
    Ekki er hægt að draga fjöður yfir það að margháttuð vandamál hafa steðjað að stjórnvöldum og borgurum í Súdan í marga áratugi. Á árunum 1962 til 1972 ríkti borgarastyrjöld á milli Norður- og Suður-Súdan. Ný borgarastyrjöld braust út árið 1983 þegar þáverandi forseti hugðist taka upp annað réttarkerfi sem byggðist á trúarritum íslam. Eftir linnulausar skærur voru teknar upp viðræður um friðarsamninga árið 2001 sem eins og áður segir lauk með undirritun friðarsamninga í janúar 2005. Það er talið að um fjórar milljónir manna séu á vergangi í landinu. Upplýsingar benda til þess að um 200 þúsund manns hafi snúið heim frá nágrannalöndunum og 500 þúsund manns til viðbótar fyrir árslok 2005. Það er risavaxið verkefni fyrir veikburða samfélag að takast á við slíkt vandamál og fjöldamörg önnur sem snerta uppbyggingu á stofnunum sem eru forsenda þess að nútímasamfélag fái þrifist.

2.5. NEFND UM AÐBÚNAÐ OG ÖRYGGI SJÓMANNA Á FISKISKIPUM


    Á Alþjóðavinnumálaþinginu fór fram önnur umræða um vinnuskilyrði sjómanna á fiskiskipum. Fulltrúi ríkisstjórnar Portúgal, F. Ribeiro Lopes, var endurkjörinn formaður nefndarinnar. Varaformenn voru kosnir R. Karikari Anang, fulltrúi atvinnurekenda í Gana, og P. Sand Mortensen, fulltrúi launafólks í Danmörku. Nefndin valdi G. Boumbopoulos, fulltrúa ríkisstjórnar Grikklands, sem talsmann sinn gagnvart allsherjarþingi vinnumálaþingsins. Á fyrsta fundi nefndarinnar tóku þátt í starfi hennar 54 fulltrúar ríkisstjórna, 21 fulltrúi atvinnurekenda og 48 fulltrúar launafólks. Fulltrúar Íslands í nefndinni voru Sverrir Konráðsson frá Siglingastofnun, Jón H. Magnússon, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, og Sævar Gunnarsson, forseti Sjómannasambands Íslands. Nefnd hélt samtals 16 fundi yfir þingtímann.
    Verkefni nefndarinnar var að ræða drög að alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði fiskimanna. Að hluta til var markmiðið að safna saman í eina samþykkt ákvæðum sem snerta starfsumhverfi fiskimanna, jafnframt að ný samþykkt á þessu sviði taki betur mið af breytingum sem hafa átt sér stað í atvinnugreininni.
    Það kom fljótt í ljós að djúpstæður ágreiningur var á meðal fulltrúa í nefndinni til einstakra atriða. Það mikilvægasta laut að ákvæðum um lágmarkskröfur sem gera skyldi til vistarvera farmanna, stærðar skipa sem samþykktin tæki til og almannatrygginga. Mikil vinna var lögð í að ná samkomulagi um reglur um umreikning á lengd skipa í burðargetu eftir tonnum til að endurspegla ólíkt byggingarlag í Asíu og Evrópu. Þótt niðurstaða nefndarinnar fengi yfirgnæfandi stuðning fékk tillagan að nýrri alþjóðasamþykkt um þetta efni ekki tilskilið atkvæðamagn á allsherjarþinginu til að ná fram að ganga. Ástæðan er reglur um lágmarksstuðning við tillögur að alþjóðasamþykktum og tilmælum. Samkvæmt reglunum þurftu 297 fulltrúar að lágmarki að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Þar til viðbótar þurfti tillagan að hljóta stuðning tveggja þriðju hluta greiddra atkvæða eða 290. Tillagan að samþykkt hlaut 289 atkvæði og náði því ekki fram að ganga. Tillaga að tilmælum náði hins vegar fram að ganga þar sem báðum framangreindum skilyrðum var fullnægt. Það er hins vegar ljóst að tilmæli án samþykktar eru gagnslaus. Þar af leiðandi samþykkti allsherjarþingið tillögu um að málefnið verði sett að nýju á dagskrá 96. Alþjóðavinnumálaþingsins sem haldið verður sumarið 2007.

2.6. NEFND UM VINNUVERND


    Á 91. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2003 var í fyrsta skipti ákveðið að gera tilraun með að setja nýja tegund af alþjóðasamþykkt sem mundi hvetja aðildarríkin til markvissra umbóta á hlutaðeigandi sviði eða í hlutaðeigandi starfsgrein. Það var ákveðið að taka fyrst fyrir vinnuvernd. Þetta var ákveðið með hliðsjón af neikvæðum áhrifum alþjóðavæðingar á virðingu fyrir heilsusamlegu vinnuumhverfi. Ákveðið var að setja málefnið á dagskrá 93. Alþjóðavinnumálaþingsins. Það var undirbúið af alþjóðavinnumálaskrifstofunni á venjulegan hátt með því að aðildarríkjunum var send árið 2004 spurningaskrá til útfyllingar. Jafnframt voru send drög að alþjóðasamþykkt og tillögu um þetta efni. Drögin þjónuðu því hlutverki að vera grundvöllur umræðu á komandi vinnumálaþingi. Á 93. Alþjóðavinnumálaþinginu var stofnuð nefnd um málefnið. A. Békés, fulltrúi ríkisstjórnar Ungverjalands, var kosinn formaður nefndarinnar. Varaformenn voru kosnir C. Lötter, fulltrúi atvinnurekenda í Suður- Afríku, og P. Seminario, fulltrúi launafólks í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í starfi nefndarinnar tóku þátt 73 fulltrúar ríkisstjórna, 47 fulltrúar atvinnurekenda og 71 fulltrúi launafólks. Fulltrúi Íslands í nefndinni var Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins. Nefndin hélt samtals 11 fundi. Aðildarríki Evrópusambandsins höfðu náið samráð sín í milli og héldu fjölmarga samráðs- og undirbúningsfundi. EFTA/EES-ríkin þáðu boð um að taka þátt í fundunum. Góð samstaða var á milli Evrópusambandsríkjanna og þeirra EFTA-ríkja sem eru skuldbundin af samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ástæðan var m.a. sú að öll ríkin fylgja rammatilskipun ESB um öryggi og hollustu á vinnustöðum og tillaga alþjóðavinnumálaskrifstofunnar að gerð um málefnið var í stórum dráttum í hátt við tilskipunina.
    Starf nefndarinnar hófst á ræðu fulltrúa alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf. Í henni kom fram að á hverju ári væru skráðar 270 milljónir vinnuslysa í heiminum, samtals létu tvær milljónir manna lífið af þeirra völdum og 160 milljónir manna hefðu beðið varanlegan skaða. Mælt á fjárhagslegan mælikvarða jafngildir þetta fjögurra prósenta samdrætti á vergri þjóðarframleiðslu. Hér væri því um umtalsverðar fjárhæðir að ræða en að auki bættust við þjáningar og miski einstaklinga og fjölskyldna þeirra.
    Nefndin þurfti snemma á starfstímanum að taka afstöðu til þess á hvaða formi tillaga nefndarinnar yrði. Um það var ágreiningur meðal þingfulltrúa. Fulltrúar launafólks og hluti fulltrúa ríkisstjórna var því fylgjandi að nefndin legði til að Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi almennt orðaða samþykkt ásamt ítarlegum tilmælum. Þessu voru fulltrúar atvinnurekenda andvígir og nokkur hluti fulltrúa ríkisstjórna sem frekar kusu gerð sem ekki væri jafnskuldbindandi og alþjóðasamþykkt. Kosning leiddi í ljós að meiri hlutinn var fylgjandi samþykkt og tilmælum, þ.e. einkum fulltrúar ríkisstjórna frá ríkjum í Afríku og Evrópu sem studdu málstað fulltrúa launafólks og lögðu því lið að þingið afgreiddi samþykkt og tilmæli um vinnuvernd.
    Kjarni samþykktarinnar felst í því að aðildarríki, sem fullgildir hana, skuldbindur sig til þess markvisst að bæta vinnuumhverfi og auka öryggi á vinnustöðum með áætlunum um vinnuvernd á landsvísu. Áætlunina skal semja í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins á grunni rannsókna og gera hlutaðeigandi betur meðvitaða um gildi forvarna að því er varðar öryggi og hollustu á vinnustaðnum. Enn fremur skal koma upp skipulagi einnig á landsvísu sem beri ábyrgð á framkvæmd vinnuverndarreglna. Í áætluninni skal setja viðmið og birta reglulega opinberlega hagtölur um framkvæmd áætlunarinnar. Tryggja skal samræmi við aðrar tengdar áætlanir.
    Talsmenn launafólks í nefndinni lögðu áherslu á að efnisgreinar hefðu raunverulegt og skuldbindandi inntak og voru því andvígir að stefnt yrði að almennt orðaðri rammasamþykkt. Atvinnurekendur voru á annarri skoðun og hvöttu til afgreiðslu á almennri samþykkt sem væri þannig orðuð að þróunarríkjum yrði unnt að fullgilda hana. Þar væri mest þörf á umbótum. Ef markið væri sett of hátt mundi það fæla fyrst og fremst þessi ríki frá fullgildingu. Flestir fulltrúar ríkisstjórna tóku undir sjónarmið fulltrúa atvinnurekenda að þessu leyti og varð það niðurstaða nefndarinnar.
    Fulltrúar launafólks voru óánægðir með niðurstöðuna af fyrri umræðunni um þetta málefni á vinnumálaþinginu vegna þess að ekki var að þeirra mati að finna í niðurstöðunum efnislegar kröfur um öryggi og hollustu á vinnustöðum. Fulltrúar flestra ríkisstjórna, sem tóku þátt í starfi nefndarinnar, töldu árangurinn skapa góðan grundvöll fyrir seinni umfjöllun um málið sem fer fram á Alþjóðavinnumálaþinginu sumarið 2006.

2.7. ALMENNAR UMRÆÐUR UM ATVINNULEYSI UNGS FÓLKS


    Atvinnuleysi ungs fólks er knýjandi vandamál víða um heim sem leiðir af sér beinan og óbeinan kostnað fyrir samfélagið. Augljósasta afleiðingin, bæði til lengri og skemmri tíma litið, er minni hagvöxtur. Þetta málefni var brotið til mergjar í einni af þingnefndum Alþjóðavinnumálaþingsins. Alþjóðavinnumálaskrifstofan hafði undirbúið umræður í nefndinni með skýrslu undir yfirskriftinni: Æska: Braut til mannsæmandi vinnu. Í skýrslunni eru settar fram tillögur um það hvernig megi auka hlut ungs fólks í atvinnulífinu. Markmiðið var að niðurstaða nefndarinnar gæti verið leiðbeinandi fyrir stefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins á þessu sviði.
    Fulltrúi ríkisstjórnar Alsír, Abdelmoumene, var kosinn formaður nefndarinnar. Varaformenn voru kosnir Andersen, fulltrúi atvinnurekenda, og Burrow, fulltrúi launafólks, báðir frá Ástralíu. Í starfi nefndarinnar tóku þátt 75 fulltrúar ríkisstjórna, 53 fulltrúar atvinnurekenda og 54 fulltrúar launafólks.
    Umræður í nefndinni snerust fyrst og fremst um það hvað skapi ungu fólki sérstöðu á vinnumarkaðinum og um þætti sem nauðsynlegt er að taka tillit til þegar mótuð er stefna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins varðandi mannsæmandi störf fyrir ungt fólk. Loks fjallaði nefndin um efnisatriði sem ættu erindi í stefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar varðandi atvinnu fyrir ungt fólk.
    Nefndin lauk starfi sínu með samningu tillögu til þingsályktunar sem var samþykkt einróma af allsherjarþinginu.

2.8. KOSNING STJÓRNARNEFNDAR


ALÞJÓÐAVINNUMÁLASKRIFSTOFUNNAR


    Stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar er kosin til þriggja ára í senn. Nefndin tekur allar meiri háttar ákvarðanir að því er varðar starfsemi ILO annarra en þeirra sem ráðið er til lykta á Alþjóðavinnumálaþinginu. Í henni eiga sæti 14 fulltrúar úr röðum fulltrúa atvinnurekenda og launafólks eða samtals 28 fulltrúar. Að auki sitja í nefndinni 28 kosnir fulltrúar ríkisstjórna og 10 fastafulltrúar helstu iðnríkja heimsins. Samkvæmt venju sitja í stjórnarnefndinni varamenn aðalfulltrúa annarra en þeirra sem eru fastafulltrúar. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki rétt til að greiða atkvæði. Á þinginu voru kosnir fulltrúar til setu í stjórnarnefndinni kjörtímabilið 2005–2008. Skrá yfir fulltrúana er að finna í fylgiskjali með þessari skýrslu.

3. 94. ALÞJÓÐAVINNUMÁLAÞINGIÐ 2006
3.1. SKIPULAG OG ÞÁTTTAKA

    94. Alþjóðavinnumálaþingið var haldið dagana 6. til 23. febrúar 2006 í Genf í Sviss. Stærsti hluti þingsins fór fram í höfuðstöðvum alþjóðavinnumálskrifstofunnar að undanteknum setningar- og lokaathöfnum sem haldnar voru í Þjóðabandalagshöllinni. Hér var um að ræða aukaþing sem var helgað málefnum farmanna. Þetta var í 12. skiptið sem þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) fjallaði sérstaklega um aðbúnað og vinnuskilyrði þeirra.
    Samtals tóku þátt í þinginu 1.135 fulltrúar ríkisstjórna, sjómanna og útgerðarmanna frá 106 af 178 aðildarríkum.
    Þingforseti var kosinn J. M. Schindler, fulltrúi ríkisstjórnar Frakklands. Varaþingforsetar voru kjörnir T. Teranishi, fulltrúi ríkisstjórnar Japans, D. Lindemann, fulltrúi útgerðarmanna í Þýskalandi, og B. Orell, fulltrúi sjómanna í Stóra-Bretlandi.
    Fulltrúar Íslands á Alþjóðavinnumálaþinginu voru: Frá félagsmálaráðuneyti: Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri. Frá samgönguráðuneytinu: Sverrir Konráðsson, sérfræðingur hjá Siglingastofnun. Frá utanríkisráðuneyti: Kristinn Árnason sendiherra og Einar Gunnarsson sendifulltrúi. Fulltrúi útgerðarmanna: Jón H. Magnússon, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins. Fulltrúi farmanna: Ægir Steinn Sveinþórsson.
    Á dagskrá þingsins var einungis eitt málefni; drög að nýrri alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna. Til undirbúnings umræðum á þinginu hafði alþjóðavinnumálaskrifstofan í Genf tekið saman skýrslur um meginviðfangsefni þingsins sem var að sameina í eina gerð allar eldri samþykktir Alþjóðavinnumálaþingsins um málefni farmanna á flutningaskipum. Einnig lá fyrir þinginu skýrsla forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar um þróunina í starfsgreininni.

3.2. FRAMVINDA ÞINGSINS


    Formleg þingsetning fór fram 7. febrúar 2006. Undirbúningsfundir voru haldnir 5. og 6. febrúar. Fulltrúar ríkisstjórna héldu fund 5. febrúar. Á þeim fundi var X. Zang frá Kína kosinn talsmaður og G. Smefjell frá Noregi varatalsmaður hópsins. Einnig fóru fram óformlegar umræður um helstu ágreiningsefni. Aðildarríki Evrópusambandins héldu einnig undirbúningsfund daginn fyrir þingsetningu. Auk fulltrúa frá umsóknarríkjunum Búlgaríu og Rúmeníu var fulltrúum EFTA/EES-ríkjanna Íslands og Noregs boðið að taka þátt í þeim fundi og öðrum samráðsfundum sem ESB-ríkin héldu í tengslum við þingið.

3.3. TILLAGA AÐ ALÞJÓÐASAMÞYKKT UM VINNUSKILYRÐI FARMANNA


    Áður er komið fram að þetta var í tólfta skiptið sem Alþjóðavinnumálaþingið var helgað málefnum sjómanna. Frá árinu 1920 hefur þingið afgreitt 37 alþjóðasamþykktir, eina bókun og ríflega 20 tilmæli. Við yfirferð kom í ljós að margar af eldri samþykktum og tilmælum á þessu sviði voru ekki í hátt við breytta tíma og aðrar kröfur sem gerðar eru til öryggis- og vinnuskilyrða. Margar þeirra höfðu ekki verið fullgiltar af nægilega mörgum ríkjum til að öðlast gildi.
    Undirbúningur fyrir þetta aukaalþjóðavinnumálaþing um málefni farmanna hafði staðið um alllangan tíma. Í janúar árið 2001 afgreiddi nefnd um málefni sjómanna tillögu um þörfina fyrir úttekt á gerðum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem sneru að sjómennsku með það að markmiði að efni þeirra yrði uppfært og samræmt og því komið í eina heildstæða og aðgengilega samþykkt. Á fundinum var einnig afgreidd tillaga um stofnun nefndar fulltrúa ríkisstjórna, sjómanna og útgerðarmanna til að undirbúa tillögu með þessu sniði sem yrði lögð fram til umræðu á sérfræðingafundum og síðan á Alþjóðavinnumálaþinginu. Nefndin hélt fjóra undirbúningsfundi; í desember 2001, október 2002, júlí 2003 og í janúar 2004.
    Með tillögunni að nýju alþjóðasamþykktinni var að ýmsu leyti farið inn á nýjar brautir. Eldri samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hafa byggst á aðfararorðum, meginmáli og niðurlagsákvæðum um fullgildingu, endurskoðun og uppsögn. Tillagan að samþykktinni skiptist í aðfararorð en í þrjá ólíka en þó innbyrðis tengda hluta: Efnisgreinar, reglur og kóða. Hann samanstendur af skuldbindandi (A) viðmiðunum og (B) leiðbeiningarreglum. Ríki sem fullgildir samþykktina er skuldbundið af ákvæðum í efnisgreinunum, reglum og A-hluta kóðanna, þ.e. af viðmiðunum. Einu skuldbindingarnar sem aðildarríki ber samkvæmt leiðbeiningarreglunum er að kanna að hvaða marki það vill eða treystir sér til að fara eftir þeim við framkvæmd á ákvæðum í efnisgreinum, reglum og viðmiðunum. Aðildarríki hefur þannig val um að grípa til annarra aðgerða en felast í leiðbeiningarreglunum til að hrinda í framkvæmd efnisgreinum, reglum og viðmiðunum svo fremi sem efni þeirra er virt. Aðildarríki sem kýs að fara aðrar leiðir við framkvæmdina þarf, ef nauðsyn krefur, að sýna fram á að hún gefi hliðstæða niðurstöðu og ef farið hefði verið eftir ákvæðum leiðbeiningarreglnanna. Nánar er fjallað um þetta efni í skýringum við reglur og kóðana. Þar kemur fram að texti samþykktarinnar verði sveigjanlegri á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að uppfylla kröfur í A-hluta á jafngildan hátt og þær eru skilgreindar í grein VI. Í öðru lagi eru notaðar almennar skilgreiningar í A-hlutanum sem skapa svigrúm til að taka tillit til séraðstæðna í hlutaðeigandi aðildarríki. Í þeim tilvikum er að finna leiðbeiningar um framkvæmd í B-hlutanum sem er óskuldbindandi.
    Reglur og kóða er að finna í fimm köflum:
    1. kafli. Lágmarkskröfur sem sjómenn þurfa að uppfylla til að mega vinna um borð í skipum.
    2. kafli: Skilyrði fyrir ráðningu.
    3. kafli: Vistarverur, tómstundaðastaða, matur og veitingarekstur.
    4. kafli: Heilsuvernd, læknishjálp, velferð og almannatryggingar.
    5. Fullnæging formskilyrða og framfylgd.
    Þessi uppbygging felur í sér veruleg frávik frá því sem tíðkast hefur í fyrri samþykktum og tilmælum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í nýju samþykktinni er að finna skuldbindandi ákvæði sem og ákvæði sem fela í sér leiðbeiningar eða ábendingar um framkvæmd. Af því leiðir að ekki er hægt í því tilviki sem hér um ræðir að styðjast við hefð við þýðingu á hugtökunum Regulations, Code, Standards og Guidelines. Niðurstaðan hefur orðið sú að nota reglur, kóða, viðmið og leiðbeiningarreglur. Þess skal getið að við samningu tillögunnar að samþykkt var stuðst við fyrirmyndir í gerðum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO).
    Þrátt fyrir umfangsmikla undirbúningsvinnu tókst ekki á síðustu undirbúningsfundunum að ná samstöðu um tillögu að texta alþjóðasamþykktar. Þetta átti við um nokkur grundvallaratriði eins og um gildistökuákvæðið. Þá höfðu atriði verið lögð hliðar meðan beðið var nýrrar alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði fiskimanna sem var á dagskrá Alþjóðavinnumálaþingsins sumarið 2005. Einnig komu fram breytingartillögur við þann tillögutexta sem fyrir lá. Oftast var um að ræða breytingar sem ekki höfðu náð fram að ganga á fyrri undirbúningsfundum, t.d. breytingar á orðskýringum sem flestir töldu afgreiddar. Samningaviðræður um gildistökuákvæðið og tillögur um orðskýringar voru mjög flóknar. Það sama átti við breytingartillögur sem samtals voru 115 – sumar mjög róttækar en aðrar minni háttar.
    Tillaga um aðfararorð samþykktarinnar, sem ekki er skuldbindandi, var samþykkt án breytinga. Þau vísa til þýðingarmestu samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og yfirlýsingarinnar frá árinu 1998 um grundvallarréttindi í atvinnulífinu. Einnig er vísað til þriggja samþykkta Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO). Þær eru um menntun, þjálfun, vaktstöður og skírteini sjómanna (STCW), um öryggi mannslífa á höfunum (SOLAS) og um varnir gegn mengun hafsins (MARPOL). Loks er vísað til hafréttarsamningsins Sameinuðu þjóðanna frá 1982, einkum 92. gr. um ábyrgð fánaríkis á vinnuaðstæðum um borð í skipum. Þessar alþjóðasamþykktir og samningar móta starfsumhverfi útgerðarmanna og farmanna annarra en þeirra sem eru á fiskiskipum. Í tillögu alþjóðavinnumálaskrifstofunnar fólst að hin nýja samþykktin kæmi í stað 68 eldri gerða sem áður höfðu verið afgreiddar af Alþjóðavinnumálaþingum frá og með árinu 1920.
    Ekki er rúm til að gera efni hinnar nýju samþykktar tæmandi skil á þessum vettvangi en þess í stað vísað til skýrslna sem gefnar voru út til undirbúnings umræðum á Alþjóðavinnumálaþinginu sem og þingtíðinda vinnumálaþingsins sem geyma ítarlegar upplýsingar um umræður og skýringar sérfræðinga alþjóðavinnumálaskrifstofunnar á ýmsum álitaefnum af lögfræðilegum toga. Hins vegar er ástæða til að fjalla um eitt atriði sem snertir gildistökuákvæði nýju samþykktarinnar í VIII. gr. Þar voru tvö álitaefni. Annað snerti fjölda fullgildinga og hversu hátt hlutfall af heildatonnafjölda skipa þurfi að standa á bak við fullgildingarnar þannig að alþjóðasamþykktin gangi í gildi. Hitt snýr að ákvæðum í greinum XIV og XV um breytingar á texta samþykkarinnar og kóðanna. Bæði þessi atriði kölluðu á langar samningaviðræður jafnt á formlegum sem óformlegum fundum.
    Í flestum alþjóðasamþykktum ILO er að finna ákvæði um að hlutaðeigandi samþykkt gangi í gildi þegar tvö aðildarríki hafa afhent forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar fullgildingarskjöl sín. Samþykktir stofnunarinnar sem taka til vinnuskilyrða til sjós eru undantekningar frá þessari reglu. Ströngustu regluna um þetta efni er að finna í alþjóðasamþykkt nr. 147, um lágmarkskröfur á kaupskipum. Þar er krafist að lágmarki fullgildingar 10 aðildarríkja með fjórðung af skipafjölda heimsins miðað við brúttótonnatölu. Fyrir þrýsting frá fulltrúum útgerðarmanna var þetta mark hækkað. Í nýju samþykktinni er miðað við fullgildingar 30 aðildarríkja og að undir þeirra fána sigli skip sem svari fyrir 33% af brúttótonnatölu í heiminum.
    Einnig að því er varðar breytingar á texta samþykktarinnar er markið sett hátt í grein XIV. Óopinber skýring er sú að aðildarríki Evrópusambandsins geti ekki ein staðið fyrir gildistöku samþykktarinnar né gert á henni breytingar. Forsenda þess að hægt sé að leggja fram tillögu um breytingar á kóða er að hún njóti stuðnings að lágmarki fimm aðildarríkja samþykktarinnar eða stuðnings fulltrúa sjómanna eða útgerðarmanna í sjómanna- og útgerðarnefndinni sem skal komið á laggirnar, sbr. grein XIII. Ákvæðin um breytingar eru nýmæli í samþykktum ILO.

3.4. AFGREIÐSLA


    Skýrsla nefndarinnar og lokatillaga að alþjóðasamþykkt var lögð fyrir allsherjarþingið til afgreiðslu 22. febrúar 2006. Daginn eftir var gengið til atkvæðagreiðslu um samþykktina í samræmi við ákvæði í þingsköpum Alþjóðavinnumálaþingsins. Niðurstaða kosninganna var sú að 314 fulltrúar greiddu atkvæði með en enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni. Fjórir fulltrúar sátu hjá. Fulltrúi Líbanon gaf þá skýringu á hjásetunni að slæmur efnahagur kæmi í veg fyrir fullgildingu. Skýring fulltrúa Venesúela var sú að ríkið væri ekki aðili að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna sem vísar er til í aðfararorðum samþykktarinnar.

    Samþykkt nr. 186, um vinnuskilyrði farmanna, er birt sem fylgiskjal I með þessari skýrslu.

4. EVRÓPUÞING ALÞJÓÐAVINNUMÁLASTOFNUNARINNAR Í BÚDAPEST


    Dagana 14.–18. febrúar 2005 var haldið 7. Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Að jafnaði eru slík þing haldin á fjögurra ára fresti. Þingið var haldið í Búdapest í Ungverjalandi. Fimmtíu og tvö aðildarríki í Evrópu og Mið-Asíu áttu rétt á að senda fulltrúa til Evrópuþingsins og nýttu 50 þann rétt. Samkvæmt stofnskrá ILO skulu fulltrúar ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks skipa sendinefndir aðildarríkjanna á þingum stofnunarinnar. Rúmlega 600 fulltrúar sátu þingið, þar af voru 30 ráðherrar vinnumála. Fjórir forsætisráðherrar tóku þátt í þinginu. Þeir voru Ferenc Gyurcsány, forsætisráðherra Ungverjalands, Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, en á þessum tíma var hann í forsæti ráðherranefndar Evrópusambandsins, Danial Akhmetow, forsætisráðherra Kazkhstan, og dr. Lawrence Gonzi, forsætisráðherra Möltu.
    Fulltrúar Íslands á þinginu voru Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, og Hrafnhildur Stefánsdóttir, lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins.
    Forseti þingsins var vinnumálaráðherra Ungverjalands, Gabor Csizmar.
    Helstu viðfangsefni þingsins voru samráð stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins, bætt stjórnsýsla og aukin efnahagssamvinna ríkja Evrópu og Mið-Asíu. Einnig var fjallað um nýlega skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um áhrif alþjóðavæðingar á framvindu félags- og vinnumála, atvinnumál ungs fólks og stöðu miðaldra og eldri starfsmanna á vinnumarkaðnum.
    Forsætisráðherra Ungverjalands, Ferenc Gyurcsány, setti þingið með stuttu ávarpi þar sem hann bauð gesti velkomna til þingsins og Ungverjalands. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf, Juvan Somavia, hélt ræðu á opnunarathöfninni. Í ræðunni lagði hann áherslu á að við ýmsa örðugleika væri að etja í evrópsku atvinnulífi og ekki væru til neinar klæðskerasaumaðar lausnir sem hentuðu öllum jafnvel. Somavia benti á fjögur svið sem hefðu afgerandi áhrif á stöðu og framtíð fólks í atvinnulífinu; tengslin á milli skóla og atvinnulífs, flutningur frá einu starfi til annars eða frá einu landi til annars og breytingar sem eldri starfsmenn standa frammi fyrir. Góðir stjórnarhættir og samræmd stefna á þessum fjórum sviðum getur ráðið úrslitum um framtíð fólks. Eitt atriði skiptir mestu máli fyrir virkri stjórnarstefnu á þessum sviðum, blómlegt atvinnulíf sem skapar nægilega mörg mannsæmandi störf þannig að allir sem vilja fái vinnu við hæfi. Í ræðu Somavia kom fram að nokkru fyrir þingsetninguna hafi komið út á vegum alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf skýrsla um þróun atvinnumála í heiminum. Í henni sé dregin upp dapurleg mynd af ástandinu. Þrátt fyrir miklar efnahagsframfarir í flestum ríkjum heimsins hafi verið viðvarandi atvinnuleysi. Samkvæmt skýrslunni hafi hagvöxtur í Evrópu og Asíu verið 3,5% en störfum einungis fjölgað um hálft prósent.
    Á þinginu var bryddað upp á ýmsum nýmælum til að stuðla að greiðari skoðanaskiptum á milli þingfulltrúa. Haldnar voru pallborðsumræður sem báru yfirskriftina: Munu viðræður aðila vinnumarkaðarins um félagslegar umbætur lifa af alþjóðavæðinguna. Einnig var haldinn sérstakur fundur helgaður framvindu jafnréttis kynjanna á vinnumarkaðnum.
    Þinginu lauk með samþykkt yfirlýsingar. Í henni er skorað á ríkisstjórnir að þær svari þörfum ungs launafólks í stefnu á landsvísu í vinnumálum. Alþjóðavinnumálastofnunin er hvött til að fylgja eftir þríhliða samráði um sveigjanleika í atvinnulífinu en jafnframt verði stuðlað að öryggi fyrir launafólk og fyrirtæki þannig að hægt verði að mæta aukinni samkeppni vegna alþjóðavæðingarinnar og sífellt ríkari nauðsynjar á að laga sig að breytilegum markaðsaðstæðum. Jafnframt er lög áhersla á að í alþjóðavæðingu efnahagslífsins felist ögrandi viðfangsefni fyrir aðildarríki ILO, fyrirtæki og launafólk í Evrópu og Mið-Asíu. Hvatt var til þess að sjónarmið yrðu samræmd þannig að hægt yrði að mæta þeim viðfangsefnum sem við blasa á sviði félags- og vinnumála á markvissan hátt innan þess ramma sem grundvallarsamþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar setja.
    Niðurstöður 7. Evrópuþings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru birt í fylgiskjali III með þessari skýrslu. Ræða sem flutt var á þinginu í nafni félagsmálaráðherra er birt í fylgiskjali IV.



Fylgiskjal I.


SAMÞYKKT UM VINNUSKILYRÐI FARMANNA, 2006



Inngangsorð.


    Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,
    er kom saman til 94. þingsetu sinnar í Genf hinn 7. febrúar 2006 eftir kvaðningu stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar, og
    hafði hug á að setja saman samræmt skjal sem inniheldur, að því marki sem unnt er, allar uppfærðar viðmiðanir gildandi alþjóðasamþykkta og -tilmæla um vinnuskilyrði farmanna auk grundvallarreglna sem er að finna í öðrum alþjóðavinnumálasamþykktum, einkum:
          samþykkt um nauðungarvinnu eða skylduvinnu, 1930 (nr. 29);
          samþykkt um félagafrelsi og verndun þess, 1948 (nr. 87);
          samþykkt um beitingu grundvallarreglna um réttinn til að stofna félög og semja sameiginlega, 1949 (nr. 98);
          samþykkt um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, 1951 (nr. 100);
          samþykkt um afnám nauðungarvinnu, 1957 (nr. 105);
          samþykkt um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfa, 1958 (nr. 111);
          samþykkt um lágmarksaldur, 1973 (nr. 138);
          samþykkt um barnavinnu í sinni verstu mynd, 1999 (nr. 182); og
    hafa í huga grundvallarumboð stofnunarinnar, sem er að stuðla að mannsæmandi vinnuskilyrðum, og
    minnast yfirlýsingar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um grundvallarviðmið og réttindi við vinnu, 1998, og
    minnast þess einnig að farmenn njóta verndar ákvæða annarra ILO-gerninga og hafa önnur réttindi sem sett eru á stofn sem grundvallarréttindi og frelsi allra einstaklinga, og
    að teknu tilliti til hnattræns eðlis skipaútgerðar þurfa farmenn sérstaka vernd, og
    hafa einnig í huga alþjóðaviðmiðanirnar um öryggi skipa, vernd einstaklinga og gæðastjórnun skipa í samþykktinni um öryggi mannslífa á hafinu, 1974, með síðari breytingum, samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972, með síðari breytingum, og í kröfum um menntun, þjálfun og hæfni í alþjóðasamþykktinni um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöður farmanna, 1978, með síðari breytingum, og
    minnast þess að hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna, 1982, kveður á um þann almenna lagaramma sem starfsemi á úthöfum og innhöfum þarf að lúta og hefur úrslitaþýðingu sem grundvöllur aðgerða og samstarfs á sviði siglinga og útvegs innan lands, svæðisbundið og hnattrænt og að nauðsynlegt sé að varðveita áreiðanleika hans, og
    minnast þess að í 94. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna, 1982, er kveðið á um skyldur fánaríkis, m.a. með tilliti til vinnuskilyrða, þjálfunar áhafna og félagslegra atriða um borð í skipum sem sigla undir fána þess, og
    minnast 8. mgr. 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem kveður á um að í engu tilviki skuli samþykkt þingsins á alþjóðasamþykkt eða tilmælum eða fullgilding aðildarríkis á neinni samþykkt teljast hafa áhrif á nokkur lög, úrskurði, venjur eða samninga starfsmanna sem í hlut eiga og sem tryggja þeim betri kjör en kveðið er á um í samþykktinni eða tilmælunum, og
    hafa einsett sér að þessi nýi gerningur sé þannig úr garði gerður að sem víðtækast samþykki sé tryggt meðal ríkisstjórna, útgerðarmanna og farmanna, sem vilja halda í heiðri grundvallarreglur um mannsæmandi vinnu, að auðvelt sé að breyta honum og að honum verði hrint í framkvæmd og framfylgt með markvissum hætti, og
    eftir að hafa ákveðið að samþykkja tilteknar tillögur þannig að slíkur gerningur verði að veruleika, sem er eina málið á dagskrá þingsins, og
    hafa ákveðið að þessar tillögur skuli birtast í formi alþjóðasamþykktar;
    samþykkja þennan tuttugasta og þriðja dag febrúarmánaðar árið tvö þúsund og sex eftirfarandi samþykkt, sem vísa má til með heitinu samþykkt um vinnuskilyrði farmanna, 2006.

Almennar skyldur.
I. gr.

    1. Hvert ríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skuldbindur sig til þess að hrinda ákvæðum hennar að fullu og öllu leyti í framkvæmd með þeim hætti sem segir í VI. gr. í því skyni að tryggja rétt allra farmanna til mannsæmandi vinnu.
    2. Aðildarríki skulu eiga með sér samstarf í þeim tilgangi að tryggja skilvirka framkvæmd og framfylgd þessarar samþykktar.

Skilgreiningar og gildissvið.
II. gr.

    1. Í þessari samþykkt, nema kveðið sé á um annað samkvæmt tilteknum ákvæðum, er merking eftirtalinna hugtaka sem hér segir:
     a)      lögbært stjórnvald er ráðherra, ráðuneyti eða annað stjórnvald sem hefur vald til að gefa út og framfylgja reglugerðum, reglum eða öðrum fyrirmælum sem hafa lagagildi hvað varðar viðfangsefni ákvæðanna sem um ræðir;
     b)      yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna er yfirlýsingin sem um getur í 4. mgr. reglu 5.1.3;
     c)      brúttótonnatala er sú brúttótonnatala sem er reiknuð í samræmi við reglur um mælingu skipa í 1. viðauka við alþjóðasamninginn um mælingar skipa frá 1969 eða síðari samninga sem kunna að hafa komið í stað hans; brúttótonnatalan fyrir skip sem bráðabirgðaáætlun um mælingar, sem samþykkt er af Alþjóðasiglingamálastofnuninni, tekur til verður brúttótonnatalan sem er að finna í athugasemdadálki alþjóðamælibréfsins (1969);
     d)      skírteini um vinnuskilyrði farmanna er skírteinið sem um getur í reglu 5.1.3;
     e)      með kröfum þessarar samþykktar vísast til krafnanna í þessum greinum, í reglunum og A-hluta kóða þessarar samþykktar;
     f)      farmaður er hver sá einstaklingur sem er starfandi, er ráðinn eða gegnir hvers kyns stöðu um borð í skipi sem þessi samþykkt nær til;
     g)      ráðningarsamningur farmanna felur í sér bæði samning um ráðningu og samning milli skipstjóra og farmanna um kaup og kjör;
     h)      fyrirtæki sem sinnir skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna er hver einstaklingur, félag, stofnun, umboðsskrifstofa eða önnur samtök í opinberum rekstri eða einkarekstri sem starfar við að skrá farmenn fyrir hönd útgerðarmanna eða ráða farmenn í störf hjá útgerðarmönnum;
     i)      skip er skip annað en það sem einungis er siglt á vatnaleiðum eða siglingaleiðum nærri eða í vari eða á svæðum þar sem reglur um siglingar í höfnum gilda;
     j)      útgerðarmaður er eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri, umboðsmaður eða skipamiðlari þurrleiguskipa (skipa án áhafna), sem hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins úr höndum eiganda, og sem hefur með því að takast þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem eru lagðar á útgerðarmenn í samræmi við þessa samþykkt burtséð frá því hvort einhverjar aðrar stofnanir eða einstaklingar uppfylli tilteknar skyldur eða ábyrgð fyrir hönd útgerðarmannsins.
    2. Nema annað sé sérstaklega tekið fram gildir þessi samþykkt um alla farmenn.
    3. Ef vafi leikur á því hvort einhverjir hópar manna skuli teljast farmenn í merkingu þessarar samþykktar skal úr því skorið af lögbæru stjórnvaldi í hverju aðildarríki, að höfðu samráði við samtök útgerðarmanna og farmanna sem hlut eiga að máli.
    4. Ef ekki er annað ákveðið tekur þessi samþykkt til allra skipa bæði í einkaeign og eigu hins opinbera, sem stunda að staðaldri einhverja arðbæra starfsemi, annarra en skipa sem stunda fiskveiðar eða aðra sambærilega starfsemi og skipa af frumstæðri gerð svo sem „dhows“ og „junks“.
    Þessi samþykkt gildir ekki um herskip eða aðstoðarskip sjóherja.
    5. Ef vafi leikur á því hvort þessi samþykkt gildi um skip eða tiltekinn flokk skipa skal lögbært stjórnvald í hverju aðildarríki skera úr um það, að höfðu samráði við samtök útgerðarmanna og farmanna sem hlut eiga að máli.
    6. Ef lögbært stjórnvald kemst að því að ekki sé skynsamlegt eða gerlegt á þeirri stundu að beita tilteknum ákvæðum kóðans sem um getur í 1. mgr. VI. gr. um skip eða tiltekna flokka skipa sem sigla undir fána aðildarríkisins skulu viðeigandi ákvæði kóðans ekki gilda að því leyti sem tekið er á viðfangsefninu með öðrum hætti í landslögum, reglugerðum, kjarasamningum eða með öðrum ráðstöfunum. Slíkan úrskurð má aðeins fella í samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna og aðeins að því er varðar skip undir 200 brúttótonnum sem eru ekki í millilandasiglingum.
    7. Sérhver ákvörðun sem aðildarríki tekur skv. 3., 5. eða 6. mgr. þessarar greinar skal tilkynnt til forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar sem skal tilkynna það til allra aðildarríkja stofnunarinnar.
    8. Sé ekki beint kveðið á um annað felur tilvísun til þessarar samþykktar einnig í sér tilvísun til reglnanna og kóðans.

Grundvallarréttindi og reglur.
III. gr.

    Hvert aðildarríki skal tryggja að í ákvæðum eigin laga og reglugerða séu virt, að því er varðar þessa samþykkt, grundvallarréttindi til:
     a)      félagafrelsis og virk viðurkenning á réttinum til aðildar að kjarasamningum;
     b)      afnáms hvers konar nauðungar- og skylduvinnu;
     c)      afnáms vinnu barna; og
     d)      afnáms misréttis með tilliti til atvinnu eða starfa.

Starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna.
IV. gr.

    1. Sérhver farmaður á rétt á öruggum og vernduðum vinnustað sem uppfyllir öryggiskröfur.
    2. Sérhver farmaður á rétt á sanngjörnum ráðningarskilmálum.
    3. Sérhver farmaður á rétt á mannsæmandi starfsskilyrðum og lífskjörum um borð í skipi.
    4. Sérhver farmaður á rétt á heilsuvernd, læknishjálp, ráðstöfunum um velferð og öðrum þáttum félagslegrar verndar.
    5. Hvert aðildarríki skal tryggja, innan marka lögsögu sinnar, að starfsréttindi og félagsleg réttindi farmanna sem kveðið er á um í framangreindum málsgreinum þessarar greinar séu framkvæmd í samræmi við kröfur þessarar samþykktar. Hrinda má slíku í framkvæmd með landslögum eða reglugerðum, með viðeigandi kjarasamningum, með öðrum ráðstöfunum eða samkvæmt venju, nema kveðið sé á um það með öðrum hætti í samþykktinni.

Fullnæging formskilyrða og framfylgd.
V. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki skal framkvæma og framfylgja lögum eða reglugerðum eða gera aðrar ráðstafanir sem það hefur samþykkt til að efna skuldbindingar sínar samkvæmt þessari samþykkt hvað varðar skip og farmenn í lögsögu sinni.
    2. Af þessum sökum skal hvert aðildarríki með skilvirkum hætti halda uppi lögsögu og eftirliti með skipum sem sigla undir fána þess með því að koma á kerfi til að tryggja að kröfur þessarar samþykktar séu uppfylltar, þar með talið reglulegar skoðanir, tilkynningar, eftirlit og málarekstur samkvæmt gildandi lögum.
    3. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að skip sem sigla undir fána þeirra séu með skírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna sem krafist er samkvæmt þessari samþykkt.
    4. Aðildarríki, annað en fánaríki, má í samræmi við þjóðarétt skoða skip sem þessi samþykkt nær til þegar það liggur í höfn þess til að meta hvort skipið uppfyllir kröfur þessarar samþykktar.
    5. Hvert aðildarríki skal á skilvirkan hátt fara með lögsögu sína og eftirlit með fyrirtækjum sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna, ef þau hafa staðfestu á yfirráðasvæði þess.
    6. Hvert aðildarríki skal leggja bann við því að brotið sé gegn kröfum þessarar samþykktar og skal, í samræmi við þjóðarétt, setja viðurlög eða krefjast þess að gerðar séu ráðstafanir til úrbóta samkvæmt landslögum sem nægja til að hafa varnaðaráhrif gegn slíkum brotum.
    7. Sérhvert aðildarríki skal framkvæma skyldur sínar samkvæmt þessari samþykkt þannig að tryggt sé að skip sem sigla undir fána ríkis sem hefur ekki fullgilt þessa samþykkt hljóti ekki hagstæðari meðhöndlun en skip sem sigla undir fána ríkja sem hafa fullgilt hana.

Reglur ásamt A- og B-hlutum kóðans.
VI. gr.

    1. Reglurnar og ákvæði A-hluta kóðans eru skuldbindandi. Ákvæði B-hluta kóðans eru ekki skuldbindandi.
    2. Hvert aðildarríki skuldbindur sig til að virða réttindi og grundvallarreglur þær sem mælt er fyrir um í reglunum og innleiða hverja reglu með þeim hætti sem mælt er fyrir um í samsvarandi ákvæðum A-hluta kóðans. Að auki skal aðildarríki íhuga alvarlega að innleiða skyldur sínar með þeim hætti sem kveðið er á um í B-hluta kóðans.
    3. Aðildarríki sem er ekki í stakk búið til að innleiða réttindi og grundvallarreglur með þeim hætti sem mælt er fyrir um í A-hluta kóðans má, nema annað sé sérstaklega tekið fram í þessari samþykkt, innleiða A-hluta með ákvæðum í lögum og reglugerðum eða öðrum ráðstöfunum sem eru mjög sambærilegar ákvæðum A-hluta.
    4. Að því er varðar 3. mgr. þessarar greinar eingöngu skal litið svo á að þau lög, reglugerðir, kjarasamningar eða aðrar ráðstafanir til innleiðingar séu mjög sambærileg, með skírskotun til þessarar samþykktar, ef aðildarríkið gengur úr skugga um að:
     a)      þær hafi áhrif í þá átt að ná fram almennum markmiðum og tilgangi ákvæða A-hluta kóðans sem um er að ræða; og
     b)      þær nái að framfylgja ákvæðum A-hluta kóðans sem um er að ræða.

Samráð við samtök útgerðarmanna og farmanna.
VII. gr.

    Aðildarríki má einungis heimila frávik, undanþágu eða sveigjanleika við beitingu þessarar samþykktar sem samkvæmt henni kallar á samráð samtaka útgerðarmanna og farmanna, ef samtök útgerðarmanna eða farmanna eru ekki fyrir hendi í aðildarríki, að höfðu samráði við nefndina sem um getur í XIII. gr.

Gildistaka.


VIII. gr.


    1. Formlegar fullgildingar á þessari samþykkt skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.
    2. Samþykkt þessi skal einungis vera bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem látið hafa forstjóra skrá fullgildingar sínar.
    3. Þessi samþykkt gengur í gildi tólf mánuðum eftir að skráðar hafa verið fullgildingar a.m.k. 30 aðildarríkja, sem samanlagt hafa 33 prósent af brúttótonnatölu skipaflota heims.
    4. Síðar gengur samþykktin í gildi að því er snertir hvert aðildarríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess hefur verið skráð.

Uppsögn.
IX. gr.

    1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að liðnum tíu árum frá fyrstu gildistöku hennar. Tilkynningu um uppsögn skal senda forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn öðlast ekki gildi fyrr en einu ári eftir skrásetningu hennar.
    2. Hvert það aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, réttinn til uppsagnar sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil, og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að loknu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.

Áhrif gildistöku.
X. gr.

    Samþykkt þessi er endurskoðun á eftirtöldum samþykktum:
    Samþykkt um ákvörðun lágmarksaldurs barna við sjómennsku, 1920 (nr. 7).
    Samþykkt um bætur fyrir vinnutjón af völdum skipbrots, 1920 (nr. 8).
    Samþykkt um ráðningu sjómanna í skiprúm, 1920 (nr. 9).
    Samþykkt um skylduskoðun læknis á börnum og unglingum við sjómennsku, 1921 (nr. 16).
    Samþykkt um skiprúmssamning sjómanna, 1926 (nr. 22).
    Samþykkt um heimsendingu sjómanna, 1926 (nr. 23).
    Samþykkt um lágmarkskröfur til hæfni skipstjóra og yfirmanna á kaupskipum, 1936 (nr. 53).
    Samþykkt um árlegt orlof með launum, 1936 (nr. 54).
    Samþykkt um ábyrgð útgerðarmanna á sjúkum og slösuðum sjófarendum, 1936 (nr. 55).
    Samþykkt um sjúkratryggingar sjómanna, 1936 (nr. 56).
    Samþykkt um vinnutíma á skipum og stærð áhafnar, 1936 (nr. 57).
    Samþykkt um lágmarksaldur barna við sjómennsku, 1936 (nr. 58).
    Samþykkt um fæði og þjónustu áhafna á skipum, 1946 (nr. 68).
    Samþykkt um útgáfu hæfnisskírteina fyrir matsveina á skipum, 1946 (nr. 69).
    Samþykkt um félagslegt öryggi sjómanna, 1946 (nr. 70).
    Samþykkt um orlof með launum fyrir farmenn, 1946 (nr. 72).
    Samþykkt um læknisskoðun farmanna, 1946 (nr. 73).
    Samþykkt um útgáfu atvinnuskírteina fyrir háseta, 1946 (nr. 74).
    Samþykkt um vistarverur farmanna, 1946, nr. 75).
    Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum, 1946 (nr. 76).
    Samþykkt um orlof með launum fyrir farmenn (endurskoðuð), 1949 (nr. 91).
    Samþykkt um vistarverur skipverja um borð í skipum (endurskoðuð), 1949, (nr. 92).
    Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum (endurskoðuð), 1949 (nr. 93).
    Samþykkt um vinnulaun, vinnutíma og mannafla á skipum (endurskoðuð), 1958 (nr. 109).
    Samþykkt um vistarverur skipverja (viðbótarákvæði), 1970 (nr. 133).
    Samþykkt um slysavarnir sjómanna, 1970 (nr. 134).
    Samþykkt um atvinnuöryggi farmanna, 1976 (nr. 145).
    Samþykkt um árlegt orlof farmanna, 1976 (nr. 146).
    Samþykkt um lágmarkskröfur á kaupskipum, 1976 (nr. 147).
    Bókun frá 1996 við samþykkt um lágmarkskröfur á kaupskipum, 1976 (nr. 147).
    Samþykkt um aðbúnað skipverja á hafi úti og í höfn, 1987 (nr. 163).
    Samþykkt um heilsuvernd og læknishjálp við skipverja, 1987 (nr. 164).
    Samþykkt um félagslegt öryggi skipverja (endurskoðuð), 1987 (nr. 165).
    Samþykkt um heimsendingu skipverja (endurskoðuð), 1987 (nr. 166).
    Samþykkt um vinnueftirlit í þágu farmanna, 1996 (nr. 178).
    Samþykkt um skráningu og ráðningu farmanna í skiprúm, 1996 (nr. 179).
    Samþykkt um vinnutíma farmanna og mönnun skipa, 1996 (nr. 180).

Starf vörsluaðila.
XI. gr.

    1. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skrásetningu allra fullgildinga, yfirlýsinga og uppsagna sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.
    2. Þegar skilyrðum 3. mgr. VIII. gr. er fullnægt skal forstjórinn vekja athygli aðildarríkjanna að stofnuninni á hvaða dag samþykktin öðlast gildi.

XII. gr.


    Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til skrásetningar skv. 102. gr. stofnskrár Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar, yfirlýsingar og uppsagnir sem skráðar eru samkvæmt þessari samþykkt.

Sérstök þríhliða nefnd.
XIII. gr.

    1. Stjórnarnefnd alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal hafa stöðugt eftirlit með framkvæmd þessarar samþykktar fyrir milligöngu nefndar sem hún kom á fót og skal hún hafa sérþekkingu á sviði viðmiðana um vinnuskilyrði farmanna.
    2. Hvað varðar mál sem fjallað er um samkvæmt þessari samþykkt skulu í nefndinni sitja tveir fulltrúar tilnefndir af ríkisstjórn hvers aðildarríkis sem hefur fullgilt þessa samþykkt og fulltrúar útgerða og farmanna sem stjórnarnefnd tilnefnir að höfðu samráði við siglingamálanefnd.
    3. Fulltrúar ríkisstjórna aðildarríkja sem hafa ekki enn fullgilt þessa samþykkt mega taka þátt starfi nefndarinnar en hafa ekki atkvæðisrétt í neinum málum sem fjallað er um samkvæmt þessari samþykkt. Stjórnarnefndin má bjóða öðrum stofnunum eða aðilum að eiga fulltrúa í nefndinni með stöðu áheyrnarfulltrúa.
    4. Atkvæði hvers fulltrúa útgerðarmanna og farmanna í nefndinni skulu vega þannig að tryggt sé að hópur útgerðarmanna og farmanna hafi helming atkvæðavægis á móti heildarfjölda fulltrúa ríkisstjórna sem eiga fulltrúa á viðkomandi fundi og hafa atkvæðisrétt.

Breytingar á þessari samþykkt.
XIV. gr.

    1. Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar má samþykkja breytingar á ákvæðum þessarar samþykktar innan ramma 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og reglna og málsmeðferðar stofnunarinnar um samþykkt samþykkta. Einnig má samþykkja breytingar á kóðanum eftir málsmeðferðinni í XV. gr.
    2. Hvað varðar aðildarríki sem létu skrá fullgildingar sínar á þessari samþykkt áður en breyting var samþykkt skal tilkynna þeim um texta breytinganna til samþykktar.
    3. Hvað varðar önnur aðildarríki að stofnuninni skal tilkynna þeim um texta samþykktarinnar, eins og honum var breytt, til fullgildingar í samræmi við 19. gr. stofnskrárinnar.
    4. Breyting telst hafa öðlast staðfestingu á þeim degi sem skráðar hafa verið fullgildingar á breytingunum eða samþykktinni með síðari breytingum, eftir atvikum, a.m.k. 30 aðildarríki sem samanlagt hafa 33 prósent af brúttórúmlestatölu skipaflota heims.
    5. Breyting sem samþykkt er innan ramma 19. gr. stofnsamþykktarinnar skulu því aðeins vera bindandi fyrir þau aðildarríki stofnunarinnar sem látið hafa forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skrá fullgildingar sínar.
    6. Að því er varðar aðildarríki sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar skal breyting öðlast gildi tólf mánuðum eftir dagsetningu staðfestingarinnar sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar eða tólf mánuðum eftir þann dag sem breytingin var skráð, eftir því hvor dagsetningin kemur síðar.
    7. Með fyrirvara um 9. mgr. þessarar greinar, að því er varðar aðildarríki sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar skal samþykktin með síðari breytingum öðlast gildi tólf mánuðum eftir dagsetningu staðfestingarinnar sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar eða tólf mánuðum eftir fullgildingu þeirra á samþykktinni, eftir því hvor dagsetningin kemur síðar.
    8. Að því er varðar þau aðildarríki sem hafa látið skrá fullgildingu sína á þessari samþykkt fyrir breytingu en hafa ekki fullgilt breytinguna skal þessi samþykkt vera áfram í gildi án viðkomandi breytingar.
    9. Hvert aðildarríki sem fær fullgildingu þessarar samþykktar skráða eftir að breyting er samþykkt en áður en dagsetningin sem um getur í 4. mgr. þessarar greinar má, í formi yfirlýsingar sem fylgir fullgildingarskjalinu, tilgreina að fullgilding þess tengist samþykktinni án viðkomandi breytingar. Ef fullgilding fer fram með slíkri yfirlýsingu skal samþykktin öðlast gildi hvað varðar viðkomandi aðildarríki tólf mánuðum eftir þann dag sem fullgildingin var skráð. Fylgi slík yfirlýsing ekki fullgildingarskjali eða ef fullgildingin er ekki skráð á þeim degi sem um getur í 4. mgr. eða síðar skal samþykktin öðlast gildi hvað varðar viðkomandi aðildarríki tólf mánuðum eftir þann dag sem fullgildingin var skráð og, við gildistöku hennar í samræmi við 7. mgr. þessarar greinar, skulu breytingarnar vera bindandi hvað varðar viðkomandi aðildarríki nema breytingin kveði á um annað.

Breytingar á kóðanum.
XV. gr.

    1. Breytingar á kóðanum má annaðhvort gera með málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í XIV. gr. eða, nema annað sé sérstaklega tekið fram, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í þessari grein.
    2. Ríkisstjórn hvers aðila að stofnuninni eða hópur fulltrúa útgerðarmanna eða hópur fulltrúa farmanna sem hafa verið skipaðir af nefndinni sem um getur í XIII. gr. mega gera tillögu að breytingu á kóðanum hjá forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Breyting sem ríkisstjórn gerir tillögu að skal hafa verið lögð fram eða studd af a.m.k. 5 ríkisstjórnum aðildarríkja sem hafa fullgilt samþykktina eða af hópum fulltrúa útgerðarmanna eða farmanna sem um getur í þessari málsgrein.
    3. Eftir að hafa sannreynt að tillaga að breytingu uppfylli kröfur 2. mgr. þessarar greinar skal forstjórinn án tafar tilkynna um slíka tillögu, ásamt hvers kyns athugasemdum eða uppástungum sem teljast viðeigandi, til allra aðildarríkja að stofnuninni með boði um að þau megi senda athugasemdir sínar eða uppástungur um tillöguna innan sex mánaða eða innan annarra tímamarka (sem mega ekki verða skemmri en þrír mánuðir) sem stjórnarnefndin mælir fyrir um.
    4. Í lok tímabilsins sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar skulu tillögurnar, ásamt samantekt um athugasemdum eða uppástungum sem gerðar kunna að vera samkvæmt þeirri málsgrein, sendar til nefndarinnar til umfjöllunar á fundi. Breyting skal teljast samþykkt af hálfu nefndarinnar ef:
     a)      a.m.k. helmingur ríkisstjórna aðildarríkja að samþykktinni á fulltrúa á fundinum þar sem tillögurnar eru til umfjöllunar; og
     b)      meirihluti a.m.k. tveggja þriðju hluta fulltrúa í nefndinni styður breytinguna; og
     c)      þessi meirihluti samanstendur af a.m.k. helmingi atkvæðavægis ríkisstjórna, helmingi atkvæðavægis útgerðarmanna og helmingi atkvæðavægis farmanna sem skráðir eru á fundinn þegar gengið er til atkvæða um tillöguna.
    5. Breytingar sem eru samþykktar í samræmi við 4. mgr. þessarar greinar skulu lagðar fram á næsta fundi allsherjarþingsins til samþykktar. Slíkt samþykki skal krefjast meirihluta tveggja þriðju hluta greiddra atkvæða viðstaddra sendifulltrúa. Náist þessi meirihluti ekki skal framlögðum tillögum vísað aftur til nefndarinnar til endurumfjöllunar sé það vilji nefndarinnar.
    6. Forstjórinn skal senda tilkynningu um breytingar, sem allsherjarþingið samþykkir, til hvers aðildarríkis sem lét skrá fullgildingu sína á þessari samþykkt áður en breyting var samþykkt af hálfu allsherjarþingsins. Þau aðildarríki sem um getur hér á eftir eru „fullgildingaraðildarríkin“. Í tilkynningunni skal vera tilvísun til þessarar greinar og mæla skal fyrir um frestinn til að koma á framfæri tilkynningu um hvers kyns málefnaágreining. Þessi frestur skal vera tvö ár frá tilkynningardeginum nema þingið hafi sett annan frest, á samþykktardeginum, sem skal vera a.m.k. eitt ár. Afrit af tilkynningunni skal sent til annarra aðildarríkja að stofnuninni þeim til upplýsingar.
    7. Breyting sem allsherjarþingið samþykkir telst samþykkt nema forstjóranum hafi borist formleg tilkynning, við lok frestsins sem mælt er fyrir um, um ágreining frá fleiri en 40 prósentum þeirra aðildarríkja sem hafa fullgilt samþykktina og sem samanlagt hafa a.m.k. 40 prósent af brúttórúmlestatölu skipaflota þeirra aðildarríkja sem hafa fullgilt samþykktina.
    8. Breyting sem telst samþykkt skal öðlast gildi þegar settur sex mánaða frestur er liðinn fyrir öll fullgildingaraðildarríki nema þau sem höfðu formlega lýst yfir ágreiningi í samræmi við 7. mgr. þessarar greinar og hafa enn ekki afturkallað yfirlýsingu um slíkan ágreining í samræmi við 11. mgr. Engu að síður:
     a)      má hvert fullgildingaraðildarríki senda forstjóranum tilkynningu fyrir settan frest þess efnis að það sé því aðeins bundið af breytingu eftir síðari flýtitilkynningu um staðfestingu þess; og
     b)      áður en breytingin öðlast gildi má hvert fullgildingaraðildarríki senda forstjóranum tilkynningu þess efnis að það muni ekki framfylgja þeirri breytingu í tiltekinn tíma;
    9. Breyting sem er háð tilkynningunni sem um getur í a-lið 8. mgr. þessarar greinar skal öðlast gildi að því er varðar aðildarríkið sem sendir inn slíka tilkynningu sex mánuðum eftir að aðildarríkið hefur tilkynnt forstjóranum um staðfestingu þess á breytingunni eða á þeim degi sem breytingin öðlast fyrst gildi, eftir því hvor dagsetningin kemur síðar.
    10. Fresturinn sem um getur í b-lið 8. mgr. þessarar greinar skal ekki vera lengri en eitt ár frá þeim degi sem breytingin öðlast gildi eða lengri en eitthvert annað tímabil sem ákveðið er af allsherjarþinginu á þeim tíma sem breytingin er samþykkt.
    11. Aðildarríki sem hefur formlega lýst yfir að uppi sé ágreiningur um breytingu má afturkalla slíkan ágreining hvenær sem er. Ef forstjóri fær í hendur slíka afturköllun eftir að breyting hefur öðlast gildi skal breytingin öðlast gildi fyrir aðildarríkið sex mánuðum eftir þann dag sem tilkynningin var skráð.
    12. Eftir að breyting hefur öðlast gildi má aðeins fullgilda samþykktina í sinni breyttu mynd.
    13. Að svo miklu leyti sem skírteini um vinnuskilyrði farmanna tengist málum sem falla undir breytingu á samþykktinni eftir að hún hefur öðlast gildi:
     a)      skal aðildarríki sem hefur viðurkennt þessa breytingu ekki vera skuldbundið til að veita réttindi samkvæmt samningnum að því er varðar skírteini um vinnuskilyrði farmanna sem gefið er út til skipa sem hafa rétt til að sigla undir fána annars aðildarríkis sem:
                  i)      skv. 7. mgr. þessarar greinar hefur formlega lýst yfir að uppi sé ágreiningur um breytingu og hefur ekki afturkallað slíkan ágreining; eða
                  ii)      hefur skv. a-lið 8. mgr. þessarar greinar tilkynnt um að staðfesting þess sé háð síðari flýtitilkynningu þess um staðfestingu og hafi ekki samþykkt breytinguna; og
     b)      aðildarríki sem hefur staðfest breytinguna skal veita réttindi samkvæmt samningnum að því er varðar skírteini um vinnuskilyrði farmanna sem var gefið út til skipa sem sigla undir fána annars aðildarríkis sem hefur sent inn tilkynningu skv. b-lið 8. mgr. þessarar greinar um að það muni ekki framfylgja þeirri breytingu fyrir þann frest sem tilgreindur er í samræmi við 10. mgr. þessarar greinar.

Fullgild tungumál.
XVI. gr.

    Enskur og franskur texti samþykktar þessarar er jafngildur.


SKÝRINGAR VIÐ REGLUR OG KÓÐA SAMÞYKKTARINNAR
UM VINNUSKILYRÐI FARMANNA

    1. Þessar skýringar, sem eru ekki hluti af samþykktinni um vinnuskilyrði farmanna, eru ætlaðar til almennrar leiðbeiningar um samþykktina.
    2. Samþykktin samanstendur af þremur mismunandi en tengdum hlutum, greinunum, reglunum og kóðanum.
    3. Í greinunum og reglunum er kveðið á um grundvallarréttindi og reglur og helstu skyldur aðildarríkja sem fullgilda samþykktina.
    Einungis er hægt að breyta greinunum og reglunum á allsherjarþingi innan ramma 19. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (sjá XIV. gr. samþykktarinnar).
    4. Kóðinn inniheldur nánari upplýsingar um framkvæmd reglnanna. Hann samanstendur af A-hluta (skuldbindandi viðmiðanir) og B-hluta (leiðbeiningar sem eru ekki skuldbindandi). Breyta má kóðanum með einfölduðu málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í XV. gr. af samþykkt.
    Þar sem kóðinn tengist ítarlegri framkvæmd þurfa breytingar á honum að vera innan almenns gildissviðs greinanna og reglnanna.
    5. Reglurnar og kóðanum er skipt í almenn svið í fimm köflum:
     1.     kafli: Lágmarkskröfur sem farmenn þurfa að uppfylla til að mega vinna um borð í skipum.
     2.     kafli: Skilyrði fyrir ráðningu
    3.     kafli: Vistarverur, tómstundaaðstaða, fæði og þjónusta áhafna
     4.     kafli: Heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd
     5.     kafli: Framkvæmd og framfylgd
    6. Hver kafli inniheldur flokk ákvæða sem tengjast tilteknum réttindum eða grundvallarreglu (eða ráðstafanir um framfylgd í 5. kafla) með tenginúmerum. Til dæmis inniheldur fyrsti flokkurinn í 1. kafla reglu 1.1, viðmiðun A1.1 og leiðbeiningar B1.1 (tengt lágmarksaldri).
    7. Þrjú markmið liggja að baki samþykktinni:
     a)      að mæla fyrir um afmörkuð réttindi og grundvallarreglur (í greinum hennar og reglum);
     b)      að heimila (með kóðanum) umtalsverðan sveigjanleika með hvaða hætti aðildarríki hrinda þessum réttindum og grundvallarreglum í framkvæmd; og
     c)      að tryggja (með 5. kafla) að farið sé í einu og öllu að þeim kröfum sem tryggja rétturinn og grundvallarreglurnar séu hafðar í heiðri og þeim framfylgt.
    8. Tvö meginsvið eru fyrir hendi hvað varðar sveigjanleika í framkvæmd: annars vegar getur aðildarríki – ef nauðsyn krefur (sjá 3. mgr. VI. gr.) – framfylgt ítarlegum kröfum í A-hluta kóðans með því að skírskota til ákvæða sem eru jafngild að verulegu leyti (samkvæmt skilgreiningu í 4. gr. VI. gr.).
    9. Annar möguleiki á sveigjanleika í framkvæmd er fenginn með því að setja fram skuldbindandi kröfur margra ákvæða A-hlutans með almennari hætti en ella þannig að um fleiri kosti er að ræða hvað varðar nákvæmar aðgerðir sem kveðið verður á um innan lands. Í slíkum tilvikum eru leiðbeiningar um framkvæmd gefnar í B-hluta kóðans sem er ekki skuldbindandi. Þannig geta aðildarríki sem hafa fullgilt þessa samþykkt gengið úr skugga um hvers konar aðgerðum búast mætti við af þeim samkvæmt samsvarandi almennum skyldum í A-hlutanum (auk aðgerða sem ekki væri endilega krafist). Samkvæmt viðmiðun A4.1 er þess t.d. krafist að í öllum skipum sé unnt að veita skjótan aðgang að nauðsynlegum lyfjum til greiningar og meðhöndlunar (b-liður 1. mgr.) og að „um boð sé lyfjakista“ (a-liður 4. mgr.). Það að þessari síðari kröfu sé fullnægt í góðri trú felur greinilega meira í sér en það að nauðsynlegt sé að hafa lyfjakistu um borð í hverju skipi. Nánar er kveðið á um við hvað er átt í samsvarandi leiðbeiningum B4.1.1 (4. mgr.) til að tryggja að innihald kistunnar sé varðveitt, notað og því viðhaldið með viðeigandi hætti.
    10. Aðildarríki sem hafa fullgilt þessa samþykkt eru ekki bundin af viðeigandi leiðbeiningum og, eins og fram kemur í ákvæðunum í 5. kafla um hafnarríkiseftirlit, tækju skoðanir aðeins til viðeigandi krafna þessarar samþykktar (greinanna, reglnanna og viðmiðananna í A-hluta). Samt sem áður skulu aðildarríki – skv. 2. mgr. VI. gr. – íhuga alvarlega að innleiða skyldur sínar skv. A-hluta kóðans með þeim hætti sem kveðið er á um í B-hluta kóðans. Ef aðildarríki ákveður, eftir að hafa skoðað viðkomandi leiðbeiningar, að kveða á um annars konar fyrirkomulag sem tryggir viðhlítandi varðveislu, notkun og viðhald innihalds lyfjakistunnar (svo dæmið hér að framan sé tekið) eins og kveðið er á um í viðmiðunum í A-hluta, þá er það ásættanlegt. Hins vegar með því að fylgja leiðbeiningunum sem kveðið er á um í B-hlutanum getur aðildarríkið sem í hlut á, ásamt stofnunum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem sjá um að meta framkvæmd vinnumálasamþykkta, fullvissað sig um, án frekari skoðunar, að fyrirkomulagið sem aðildarríkið hefur kveðið á um dugi til að hrinda í framkvæmd skyldum þess skv. A-hlutanum sem leiðbeiningarnar tengjast.

REGLUR OG KÓÐI

1. KAFLI – LÁGMARKSKRÖFUR SEM FARMENN ÞURFA AÐ UPPFYLLA
TIL AÐ MEGA VINNA UM BORÐ Í SKIPUM


Regla 1.1. – Lágmarksaldur.


Tilgangur: Að tryggja að enginn undir lögaldri vinni um borð í skipi.
    1. Enginn einstaklingur undir lágmarksaldri skal ráðinn til starfa eða starfa um borð í skipi.
    2. Lágmarksaldur þegar þessi samþykkt öðlast fyrst gildi er 16 ár.
    3. Krafist skal hærri lágmarksaldurs við þær aðstæður sem mælt er fyrir um í kóðanum.

Viðmiðun A1.1. – Lágmarksaldur.


    1. Bannað er að ráða einstakling sem ekki hefur náð 16 ára aldri til starfa um borð í skipi.
    2. Næturvinna farmanna sem ekki hafa náð 18 ára aldri skal vera bönnuð. Í þessari viðmiðun skal „nótt“ skilgreind í samræmi við landslög og landsvenju. Hún skal vara í minnst níu klukkustundir og hefst það tímabil ekki síðar en á miðnætti og endar ekki fyrr en kl. 5 að morgni.
    3. Lögbært stjórnvald getur veitt undanþágu frá því að uppfylla næturvinnutakmarkanirnar til hins ýtrasta þegar:
     a)      markviss þjálfun farmannsins að því er varðar fyrirframákveðin verkefni og áætlanir væri skert; eða
     b)      sérstakt eðli þeirra skyldna eða viðurkennd þjálfunaráætlun kalla á það að farmenn sem falla undir undanþáguna sinni skyldum að nóttu til og stjórnvaldið metur það svo, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, að vinnan muni ekki hafa skaðleg áhrif á heilsu og velferð þeirra.
    4. Ráðning eða störf farmanna sem ekki hafa náð 18 ára aldri skulu bönnuð ef líklegt er að vinnan stofni heilsu þeirra eða öryggi í hættu. Mælt skal fyrir um það hver þessi störf séu í landslögum og reglugerðum eða af hálfu lögbærra stjórnvalda, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, í samræmi við alþjóðleg viðmið sem við eiga.

Leiðbeiningar B1.1. – Lágmarksaldur.


    1. Þegar reglur eru settar um starfsskilyrði og lífskjör ættu aðildarríki að hafa sérstaklega í huga þarfir ungra einstaklinga undir 18 ára aldri.

Regla 1.2. – Læknisvottorð.


Tilgangur: Að tryggja að allir farmenn séu heilbrigðir svo þeir geti gegnt skyldum sínum á sjó.
    1. Farmenn skulu ekki starfa um borð í skipi nema þeir geti framvísað læknisvottorði þess efnis að þeir hafi heilsu til að gegna skyldum sínum.
    2. Aðeins má veita undanþágur samkvæmt fyrirmælum í kóðanum.

Viðmiðun A1.2. – Læknisvottorð.


    1. Lögbært stjórnvald skal krefjast þess, áður en vinna hefst um borð í skipi, að farmenn séu með gilt læknisvottorð til staðfestingar á því að þeir séu nægilega heilsuhraustir til að sinna þeim skyldum sem þeim ber á sjó.
    2. Í því skyni að tryggja að læknisvottorð endurspegli sannarlega heilbrigðisástand farmanna, með tilliti til þeirra skyldustarfa sem þeir eiga að gegna, skal lögbært stjórnvald, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, og með tilhlýðilegu tilliti til gildandi alþjóðlegra leiðbeininga sem um getur í B-hluta þessa kóða, mæla fyrir um hvers eðlis læknisskoðun og útgefið vottorð skuli vera.
    3. Þessi viðmiðun er með fyrirvara um alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, 1978, með síðari breytingum (STCW). Læknisvottorð sem gefið er út í samræmi við ákvæði STCW-samþykktarinnar skulu viðurkennd af lögbæru stjórnvaldi, að því er varðar reglu 1.2. Læknisvottorð sem uppfyllir þessar kröfur hvað innihald snertir, þegar í hlut eiga farmenn sem STCW-samþykktin nær ekki til, skal viðurkennd með sambærilegum hætti.
    4. Læknisvottorðið skal gefið út af viðeigandi hátt af lækni sem er til þess menntaður og hæfur eða, í því tilviki að einungis sé um sjónvottorð að ræða, af einstaklingi sem lögbært stjórnvald viðurkennir að sé hæfur til að gefa út slíkt vottorð. Læknar verða að vera algjörlega sjálfstæðir faglega og beita læknisfræðilegri dómgreind sinni við að framkvæma læknisskoðun sína.
    5. Farmönnum sem hefur verið neitað um vottorð eða hafa sætt því að hæfni þeirra til vinnu sé háð takmörkunum, einkum hvað snertir tíma, starfssvið eða farsvið, skal gefið tækifæri til að sæta annarri læknisskoðun af hálfu annars, sjálfstæðs læknis eða af hálfu sjálfstæðs, læknisfræðilegs úrskurðaraðila.
    6. Í hverju læknisvottorði skal einkum tilgreina:
     a)      heyrn og sjón farmannsins sem í hlut á og litskyggni ef farmaðurinn á að gegna stöðu þar sem það kann að hafa áhrif á hæfni hans til starfsins sem hann á að vinna ef litskyggni hans er ábótavant, séu algjörlega fullnægjandi; og
     b)      ef farmaðurinn sem í hlut á þjáist ekki af neinum sjúkdómi sem líkur eru til að versni við það að starfa á sjó eða valdi því að farmaðurinn sé óhæfur til slíkra starfa eða að hann stofni heilsu annarra einstaklinga um borð í hættu.
    7. Nema krafist sé styttri tímabils sökum sérstakra skyldustarfa sem farmanna sem í hlut á ber að inna af hendi eða þess sé krafist samkvæmt STCW-samþykktinni:
     a)      skal læknisvottorð gilda að hámarki í tvö ár nema farmaðurinn sé undir 18 ára að aldri, en þá skal gildistíminn vera eitt ár;
     b)      vottorð um litskyggni skal að hámarki gilda í sex ár.
    8. Í aðkallandi tilvikum má lögbært stjórnvald heimila farmanna að vinna án gilds læknisvottorðs þar til komið er í næstu viðkomuhöfn þar sem farmaðurinn getur útvegað sér læknisvottorð hjá lækni sem er til þess menntaður og hæfur, að því tilskildu að:
     a)      slík heimild má ekki gilda lengur en þrjá mánuði; og
     b)      farmaðurinn sem í hlut á sé handhafi læknisvottorðs sem er nýlega útrunnið.
    9. Ef gildistími vottorðs rennur út meðan á sjóferð stendur skal vottorðið halda gildi sínu þar til í næstu viðkomuhöfn þar sem farmaðurinn getur útvegað sér læknisvottorð hjá lækni sem er til þess menntaður og hæfur, að því tilskildu að tímabilið vari ekki lengur en þrjá mánuði.
    10. Læknisvottorð farmanna sem starfa um borð í skipum sem eru venjulega í millilandasiglingum skal að minnsta kosti vera á enska.

Leiðbeiningar B1.2. – Læknisvottorð.



Leiðbeiningar B1.2.1. – Alþjóðlegar leiðbeiningar.
    1. Lögbært stjórnvald, læknar, skoðunarmenn, útgerðarmenn, fulltrúar farmanna og allir aðrir einstaklingar sem hafa með heilbrigðisskoðanir væntanlegra farmanna og farmanna í starfi að gera ættu að fylgja leiðbeiningum ILO/WHO um framkvæmd læknisskoðanir fyrir farmanna áður en þeir fara á sjó og reglulegar heilbrigðisskoðanir, að meðtöldum öllum síðari útgáfum, og öllum öðrum gildandi alþjóðlegum leiðbeiningum gefnum út af Alþjóðavinnumálastofnuninni, Alþjóðasiglingamálastofnuninni eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Regla 1.3. – Menntun, þjálfun og hæfni.


Tilgangur: Til að tryggja að farmenn séu þjálfaðir og hæfir til að gegna skyldum sínum um borð í skipi:
    
1. Farmenn skulu ekki starfa um borð í skipi nema þeir hafi hlotið þjálfun, hlotið hæfnisskírteini þar að lútandi eða séu að öðru leyti hæfir til að gegna skyldum sínum.
    2. Farmönnum skal ekki heimilað að starfa um borð í skipi nema þeir hafi með fullnægjandi hætti lokið þjálfun í einstaklingsöryggi um borð í skipi.
    3. Menntun og útgáfa skírteina í samræmi við skuldbindandi gerðir sem samþykktar hafa verið af Alþjóðasiglingamálastofnuninni skulu teljast uppfylla kröfurnar í 1. og 2. mg. þessarar reglu.
    4. Aðildarríki sem var bundið af samþykkt um útgáfu atvinnuskírteina fyrir háseta, 1946 (nr. 74) þegar þessi samþykkt var fullgilt skal halda áfram að rækja skyldur samkvæmt þeirri samþykkt nema því aðeins og þar til skuldbindandi ákvæði sem taka til efnis hennar hafa verið samþykkt af Alþjóðasiglingamálastofnuninni og hafa öðlast gildi, eða þegar fimm ár eru liðin frá því þessi samþykkt hefur öðlast gildi í samræmi við 3. mgr. VIII. gr., eftir því hvor dagsetningin kemur fyrr.

Regla 1.4. – Skráning og ráðning.


Tilgangur: Til að tryggja að farmenn hafi aðgang að skilvirkum og lögvernduðu kerfi fyrir skráningar- og ráðningar farmanna.
    
1. Allir farmenn skulu hafa aðgang að skilvirku, fullnægjandi og áreiðanlegu kerfi til að finna störf um borð í skipi án kostnaðar fyrir farmanninn.
    2. Fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna og starfa í aðildarríki skulu fullnægja þeim viðmiðunum sem mælt er fyrir um í kóðanum.
    3. Hvert aðildarríki skal krefjast þess, að því er varðar farmenn sem starfa um borð í skipum sem sigla undir fána þess, að útgerðir sem nota fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna og eru staðsett í löndum eða á yfirráðasvæðum þar sem þessi samþykkt gildir ekki, tryggja að þessi fyrirtæki uppfylli kröfurnar sem mælt er fyrir um í kóðanum.

Viðmiðun A1.4. – Skráning og ráðning.


    1. Hvert aðildarríki sem starfrækir opinbera skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna skal tryggja að þjónustan sé starfrækt með kerfisbundnum hætti til að tryggja og halda á lofti starfsréttindum farmanna eins og kveðið er á um í þessari samþykkt.
    2. Þar sem á yfirráðasvæði aðildarríki eru starfrækt einkarekin fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu, og megintilgangur þeirra er að skrá og ráða umtalsverðan fjölda farmanna, skulu þau einungis starfa í samræmi við staðlað kerfi þar sem krafist er leyfis og vottunar eða annars forms lögverndunar. Þessu kerfi skal einungis komið á eða því breytt að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna. Ef vafi leikur á því hvort þessi samþykkt gildi um einkarekin fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu skal lögbært stjórnvald í hverju aðildarríki skera úr um það, að höfðu samráði við samtök útgerðarmanna og farmanna sem hlut eiga að máli. Ekki skal stuðlað að því að einkareknum fyrirtækjum sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna fjölgi um of. Ákvæði 2. mgr. þessarar viðmiðunar skulu einnig gilda – að svo miklu leyti sem lögbært stjórnvald metur viðeigandi, í samráði við hlutaðeigandi samtök farmanna og útgerðarmanna – um skráningar- og ráðningarþjónustu sem samtök farmanna á yfirráðasvæði aðildarríkis reka til að sjá skipum sem sigla undir fána aðildarríkis fyrir farmönnum sem eru ríkisborgarar í því aðildarríki. Þjónustan sem þessi málsgrein tekur til er sú sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
     a)      fyrirtækið sem sinnir skráningar- og ráðningarþjónustu er rekið samkvæmt kjarasamningi milli þeirra samtaka og útgerðarmanna;
     b)      bæði samtök farmanna og útgerðarmaðurinn eru með bækistöð á yfirráðasvæði aðildarríkis;
     c)      aðildarríki hefur ákvæði í landslögum eða reglugerðum eða málsmeðferð um að heimila eða leyfa skráningu kjarasamningsins sem heimilar starfrækslu fyrirtækis sem sinnir skráningar- og ráðningarþjónustuna; og
     d)      fyrirtækið sem sinnir skráningar- og ráðningarþjónustu er starfrækt með kerfisbundnum hætti til að tryggja og halda á lofti starfsréttindum farmanna sem eru sambærileg við þau sem kveðið er á um í 4. mgr. þessarar viðmiðunar.
    3. Ekkert í þessari viðmiðun eða reglu 1.4 skal teljast:
     a)      koma í veg fyrir að aðildarríki starfræki frjálsa, opinbera skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna með það að markmiði að mæta þörf farmanna og útgerðarmanna, hvort sem þjónustan er hluti af eða er samhæfð við opinbera ráðningarþjónustu fyrir alla starfsmenn og atvinnurekendur; eða
     b)      leggja skyldur á aðildarríki um að koma á fót kerfi til að starfrækja einkareknar skráningar- og ráðningarþjónustum farmanna á yfirráðasvæði þess.
    4. Aðildarríki sem kemur á kerfi sem um getur í 2. mgr. í þessari viðmiðun skal í lögum þess eða reglugerðum eða með öðrum ráðstöfunum að lágmarki:
     a)      banna fyrirtækjum sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna að beita ráðum, úrræðum eða skrám sem er ætlað að koma í veg fyrir eða fæla farmenn frá því að komast í störf sem þeir eru hæfir til að gegna;
     b)      krefjast þess að farmaðurinn þurfi ekki beint eða óbeint að greiða nein gjöld eða aðrar álögur fyrir skráningu eða ráðningu eða fyrir að veita honum vinnu, að öðru leyti en þann kostnað sem farmaður þarf að greiða fyrir lögbundið læknisvottorð í heimalandi sín, sjóferðabók í heimalandi sínu og vegabréf eða önnur sambærileg, persónuleg ferðaskjöl, þó að undanskildum kostnaði við vegabréfsáritanir sem útgerðarmaðurinn skal greiða; og
     c)      sjá til þess að fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna og starfa á yfirráðasvæði þess:
                  i)      haldi uppfærða skrá yfir alla farmenn sem eru skráðir eða ráðnir á þeirra vegum og að hún sé aðgengileg til skoðunar af hálfu lögbærra stjórnvalda;
                  ii)      tryggi að farmenn séu upplýstir um réttindi sín og skyldur samkvæmt ráðningarsamningum þeirra fyrir eða meðan á ráðningu stendur og að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að farmenn fái að skoða ráðningarsamninga sína áður en og eftir að þeir eru undirritaðir og að þeir fái afrit af samningunum;
                  iii)      staðfesta að farmenn sem eru skráðir eða ráðnir af þeim séu hæfir og séu handhafar þeirra skírteina sem krafist er til viðkomandi starfs og að ráðningarsamningar farmanna séu í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og þá kjarasamninga sem eru hluti af ráðningarsamningnum;
                  iv)      tryggja að, eins og við verður komið, að útgerðarmaðurinn hafi úrræði til að koma í veg fyrir að farmenn verði strandaglópar í erlendri höfn;
                  v)      skoði og sinni hvers kyns kvörtunum sem varða starfsemi þeirra og greini lögbæru stjórnvaldi frá hvers kyns af kvörtunum sem ekki hafa verið leiddar til lykta;
                  vi)      komi á verndarkerfi með tryggingu eða sambærilegum viðeigandi ráðstöfunum til að bæta farmönnum upp peningalegt tap sem þeir kunna að verða fyrir af völdum þess að skráningar- og ráðningarþjónusta eða hlutaðeigandi útgerðarmaður vanrækir að uppfylla skyldur sínar samkvæmt ráðningarsamningi farmanna.
    5. Lögbært stjórnvald skal hafa náið eftirlit með öllum fyrirtækjum sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna og starfa á yfirráðasvæðis viðkomandi aðildarríkis.
    Leyfi, skírteini eða sambærilegar heimildir til starfrækslu einkarekinnar þjónustu á yfirráðasvæðinu eru því aðeins veitt eða endurnýjuð að undangenginni staðfestingu á því að viðkomandi skráningar- og ráðningarþjónusta farmanna uppfylli kröfur landslaga og reglugerða.
    6. Lögbært stjórnvald skal tryggja að viðunnandi úrræði og málsmeðferð sé fyrir hendi til að rannsaka, ef þörf er á, kvartanir sem tengjast starfsemi fyrirtækja sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna, með þátttöku, eftir þörfum, fulltrúa útgerðarmanna og farmanna.
    7. Hvert aðildarríki, sem hefur fullgilt þessa samþykkt skal svo sem unnt er fræða þegna sína um hugsanleg vandamál í sambandi við skráningu á skip sem siglir undir fána ríkis sem ekki hefur fullgilt þessa samþykkt, þar til það hefur fullvissað sig um að fullnægt sé viðmiðunum sem jafnist á við þær sem gerðar eru í þessari samþykkt. Aðgerðir í þessu skyni sem ríki, er fullgilt hefur samþykktina, framkvæmir, skulu ekki vera í mótsögn við meginregluna um frjálsa flutninga launafólks, sem kveðið er á um í samningum, sem hin tvö hlutaðeigandi ríki kunna að vera aðilar að.
    8. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að eigendur skipa sem sigla undir fána þess og nýta sér fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna staðsett í löndum eða á yfirráðasvæðum þar sem þessi samþykkt gildir ekki, sjá til þess, eins og við verður komið, að þjónusta af þessu tagi uppfylli kröfur þessarar viðmiðunar.
    9. Ekkert í þessari viðmiðun skal teljast draga úr skyldum og ábyrgð útgerðarmanna eða aðildarríkis að því er varðar skip sem sigla undir fána þess.

Leiðbeiningar B1.4. – Skráning og ráðning.


Leiðbeiningar B1.4.1. – Skipulagning og starfsemi.
    1. Þegar skyldur skv. 1. mgr. viðmiðunar A1.4 eru uppfylltar ætti lögbært stjórnvald að íhuga:
     a)      að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma á skilvirku samstarfi milli fyrirtækja sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna, hvort sem þau eru á vegum hins opinbera eða í einkaeign;
     b)      þarfir á sviði siglinga bæði á landsvísu og alþjóðlega þegar innleiddar eru þjálfunaráætlanir fyrir farmenn sem eru hluti af áhöfn skipsins sem ber ábyrgð á siglingu skipsins og mengunarvarnaraðgerðum, með þátttöku útgerðarmanna, farmanna og hlutaðeigandi þjálfunarstofnana;
     c)      að gera viðeigandi ráðstafanir um samstarf hlutaðeigandi samtaka útgerðarmanna og farmanna að því er varðar skipulagningu og starfsemi opinberra fyrirtækja sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna, ef þau eru fyrir hendi;
     d)      að ákvarða, með tilhlýðilegu tilliti til rétts á einkalífi og nauðsynjar þess að vernda trúnað, hvernig unnið verður með persónuupplýsingar farmannsins af hálfu fyrirtækja sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna, þ.m.t. söfnun, geymsla, samsetning og sending slíkra upplýsinga til þriðju aðila;
     e)      að gera ráðstafanir til að safna og greina öll gögn sem máli skipta um vinnumarkað farmanna, þ.m.t. núverandi og fyrirsjáanlegt framboð af farmönnum sem starfa í áhöfn eftir aldri, kynferði, stöðu og hæfni ásamt kröfum greinarinnar, og að söfnun gagna um aldur eða kynferði verði einungis aðgengilegt til tölfræðilegra nota eða ef þau eru notað innan ramma áætlunar til að koma í veg fyrir mismunun af völdum aldurs eða kynferðis; að tryggja að starfslið sem sér um eftirlit með opinberum eða einkareknum fyrirtækjum sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna í áhöfn sem bera ábyrgð á öruggri siglinu og mengunarvörnum hafi fengið viðunandi þjálfun, þ.m.t. viðurkenndan siglingatíma og hafi viðeigandi þekkingu á siglingum, þ.m.t. viðeigandi alþjóðlegum siglingagerningum um þjálfun, skírteini og vinnuskilyrði farmanna;
     f)      að mæla fyrir um starfsviðmiðanir og samþykkja starfs- og siðareglur fyrir fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna; og
     g)      hafa eftirlit með útgáfu leyfis- skírteinisútgáfukerfa á grundvelli gæðaeftirlitskerfis.
    2. Við uppsetningu kerfisins sem um getur í 2. mgr. viðmiðunar A1.4 ætti hvert aðildarríki að íhuga að krefjast þess að fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna með starfsemi á yfirráðasvæði þess að þróa og viðhalda starfsvenjum sem hægt er að sannreyna. Í þessum starfsreglum fyrir einkarekin fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna og, að því leyti sem þau eiga við, opinber fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna ættu að taka á eftirfarandi málum:
     a)      læknisskoðunum, persónuskilríkjum farmanna og öðrum þeim atriðum sem kann að vera krafist af farmönnum til að fá starf;
     b)      halda, með tilhlýðilegu tilliti til friðhelgi einkalífs og nauðsynjar þess að vernda trúnað, heildstæða skrá yfir farmennina sem skráningar- og ráðningarkerfi þeirra nær til er ætti að fela í sér eftirfarandi, en ætti þó ekki að vera tæmandi upptalning:
             i)          hæfni farmannanna;
             ii)      skrá yfir ráðningar;
             iii)      persónulegar upplýsingar sem tengjast ráðningu; og
             iv)      læknisfræðilegar upplýsingar sem tengjast ráðningu;
     c)      halda uppfærðri skrá yfir skip sem fyrirtækin sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu útvegar farmenn og tryggja að fyrir hendi séu úrræði svo unnt sé að hafa sambandi við þjónustuna hvenær sem er sólarhrings í neyðartilvikum;
     d)      málsmeðferð til að tryggja að farmenn sæti ekki misnotkunar af hálfu fyrirtækis sem sinnir skráningar- og ráðningarþjónustu eða starfsliðs þeirra hvað varðar boð um ráðningu um borð í tilteknum skipum eða af hálfu tiltekinna félaga;
     e)      málsmeðferð til að koma í veg fyrir að upp komi sú staða að farmenn sæti misnotkunar sem stafar af fyrirframgreiðslu kostnaðar til að komast til skips eða annarra fjárhagslegra greiðslna milli útgerðarmanna og farmanna með milligöngu fyrirtækisins sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna;
     f)      tilgreina með skýrum hætti þann kostnað, sé hann fyrir hendi, sem farmanninum er ætlað að bera í tengslum við ráðninguna;
     g)      að tryggja að farmönnum sé greint frá hvers kyns tilteknum skilyrðum sem eiga við um starfið sem þeir eiga að gegna og um tiltekin markmið sem útgerðarmaðurinn hefur að leiðarljósi í tengslum við starf þeirra;
     h)      málsmeðferð í samræmi við grundvallarreglur um réttláta málsmeðferð þegar fjallað er um vanhæfni eða agavandamál sem samrýmast landslögum og venju og, eftir atvikum, kjarasamningum;
     i)      málsmeðferð til að tryggja, eins og við verður komið, að öll lögskyld skírteini og skjöl sem lögð eru fram við ráðningu séu uppfærð og hafi ekki verið fengin með sviksamlegum hætti og að ráðningarmeðmæli séu staðfest;
     j)      málsmeðferð til að tryggja að beiðnum um upplýsingar eða ráðgjöf af hálfu fjölskyldna farmanna á sjó sé sinnt af tillitssemi, með skjótum hætti og án kostnaðar; og
     k)      sannreyna að vinnuskilyrði um borð í skipum þangað sem ráða á farmenn séu í samræmi við gildandi kjarasamninga sem gerðir eru milli útgerðarmanna og hlutaðeignandi samtaka farmanna og hafa það að reglu að sjá einungis þeim útgerðarmönnum fyrir farmönnum sem bjóða upp á ráðningarskilmála í samræmi við gildandi lög, reglugerðir eða kjarasamninga.
    3. Íhuga ætti að hvetja til alþjóðlegrar samvinnu milli aðildarríkja og viðkomandi stofnana svo sem um:
     a)      kerfisbundna miðlun upplýsinga um svið siglinga og vinnumarkaðinn með gagnkvæmum, svæðisbundnum og marghliða hætti;
     b)      miðlun upplýsinga um löggjöf um vinnuskilyrði farmanna;
     c)      samræmingu stefnu, vinnuaðferða og löggjafar um aðferðir og löggjöf um skráningu og ráðningu farmanna;
     d)      endurbætur verklagsreglna og skilyrða um alþjóðlega skráningu og ráðningu farmanna; og
     e)      áætlanagerð m.t.t. vinnuafls, að teknu tilliti til framboðs og eftirspurnar á farmönnum og krafna á sviði siglinga.

2. KAFLI – SKILYRÐI FYRIR RÁÐNINGU



Regla 2.1. – Ráðningarsamningar farmanna.


Tilgangur: Til að tryggja sanngjarna ráðningarsamninga fyrir farmenn.
    1. Skilmálar og skilyrði um ráðningu farmanna skulu sett eða vísað skal til þeirra með skýrum, skriflegum og lagalega aðfararhæfum samningi og þau skulu vera í samræmi við viðmiðanirnar sem settar eru fram í kóðanum.
    2. Ráðningarsamningar farmanna skulu samþykktir af farmanninum við aðstæður þar sem tryggt er að farmaðurinn hafi tækifæri til að grandskoða og leita ráðgjafar um skilmála og skilyrði í samningnum og ganga óþvingað að þeim fyrir undirritun.
    3. Að því marki sem unnt er í samræmi við landslög eða venju í aðildarríki skulu ráðningarsamningar farmanna teljast fela í sér alla gildandi kjarasamninga.

Viðmiðun A2.1. – Ráðningarsamningar farmanna.


    1. Hvert aðildarríki skal samþykkja lög eða reglugerðir þar sem þess er krafist að skip sem sigla undir fána þess uppfylli eftirfarandi kröfur:
     a)      farmenn sem starfa á skipum sem sigla undir fána þess skulu hafa undir höndum ráðningarsamning sem er undirritaður af bæði farmanninum og útgerðarmanninum eða fulltrúa útgerðarmannsins (eða ef þeir eru ekki atvinnurekendur, sönnun þess að samningur sé við lýði eða annað fyrirkomulag) sem kveður á um mannsæmandi starfsskilyrði og lífskjör um borð í skipinu eins og krafist er samkvæmt þessari samþykkt;
     b)      farmenn sem undirrita ráðningarsamning farmanna skal veitt tækifæri á að grandskoða og leita ráðgjafar um samninginn áður en hann er undirritaður auk annarra úrræða sem eru nauðsynleg til að tryggja að þeir hafi gengið óþvingað að samningnum og haft nægilegan skilning á réttindum þeirra og skyldum;
     c)      útgerðarmaðurinn og farmaðurinn sem í hlut eiga skulu hvorir fyrir sig hafa undirritað frumrit af ráðningarsamningi farmanna;
     d)      grípa skal til ráðstafana til að tryggja að farmenn geti með auðveldum hætti fengið, um borð í skipinu, skýrar upplýsingar um skilmála ráðningar þeirra og að slíkar upplýsingar, þ.m.t. afrit af ráðningarsamningi farmanna sé einnig aðgengilegur til skoðunar af hálfu starfsmanna lögbærs stjórnvalds, þ.m.t. þeirra sem eru í væntanlegum viðkomuhöfnum; og
     e)      farmenn skulu fá í hendur skjal sem inniheldur færslu um ráðningu þeirra um borð í skipið.
    2. Ef kjarasamningur myndar allan eða hluta af ráðningarsamningi farmanna skal afrit af þeim samningi vera aðgengilegur um borð. Ef ráðningarsamningur farmanna og aðrir gildandi kjarasamningar eru ekki á ensku skal eftirfarandi einnig vera tiltækt á ensku (nema um borð í skipum sem eru einungis í innanlandssiglingum):
     a)      afrit af stöðluðu formi samnings; og
     b)      þeir hlutar kjarasamningsins þar sem krafist er hafnarríkiseftirlits samkvæmt reglu 5.2.
    3. Skjalið sem um getur í e-lið 1. mgr. í þessari viðmiðun skal ekki innihalda yfirlýsingu um gæði þeirrar vinnu sem farmaður innir af hendi eða um laun þeirra. Í landslögum skal kveða á um form skjalsins, þau atriði sem færa skal inn og hvernig þau skulu færð.
    4. Hvert aðildarríki skal samþykkja lög eða reglugerðir þar sem tilgreind eru þau atriði sem koma eiga fram í öllum ráðningarsamningum farmanna sem kveðið er á um í landslögum. Ráðningarsamningar farmanna skulu í öllum tilvikum fela í sér eftirfarandi atriði:
     a)      fullt nafn farmanns, fæðingardag eða aldur og fæðingarstað;
     b)      nafn og aðsetur útgerðarmannsins;
     c)      staður og dagur þegar ráðningarsamningur farmannsins gekk í gildi;
     d)      staða sem farmaður er ráðinn til að gegna;
     e)      launafjárhæð farmanns eða, eftir atvikum, regla sem notuð er til að reikna hana út;
     f)      fjárhæð greidds árlegs orlofs eða, eftir atvikum, regla sem notuð er til að reikna hana út;
     g)      samningslok og skilmálar þar að lútandi, þar með talið:
     h)      sé samningurinn ótímabundinn, skilyrðin sem heimila hvorum aðila fyrir sig að segja honum upp, ásamt tilskildum uppsagnarfresti, sem skal ekki vera styttri fyrir útgerðir en fyrir farmanninn;
                  ii)      sé gildistími samningsins til tiltekins tíma, gildislokadagur hans; og
                  iii)      taki samningurinn til einnar ferðar, ákvörðunarhöfn og sá tími sem þarf að líða eftir komu áður en afskrá skuli farmanninn;
     h)      greiðslur sem útgerðarmanna ber að inna af hendi til farmanns í tengslum við heilsuvernd og tryggingavernd;
     i)      réttur farmannsins til heimsendingar;
     j)      tilvísun til kjarasamningsins, ef við á; og
     k)      önnur atriði sem krafist kann að vera í landslögum.
    5. Hvert aðildarríki skal samþykja lög og reglugerðir þar sem kveðið er á um lágmarksuppsagnarfresti sem farmenn og útgerðarmenn geta sett um uppsögn ráðningarsamnings farmanna. Lengd þessa lágmarstíma skal ákveðin að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, en skal ekki vera styttri en sjö dagar.
    6. Uppsagnarfrestur má vera styttri en lágmarksfresturinn ef viðurkennt er í landslögum eða reglugerðum eða gildandi kjarasamningum að réttlætanlegt sé að ráðningarsamningi sé rift með styttri fyrirvara eða fyrirvaralaust.
    Þegar slík tilvik eru metin skal hvert aðildarríki tryggja að höfð sé til hliðsjónar þörf farmannsins fyrir að segja upp, án viðurlaga, ráðningarsamningnum með skemmri fyrirvara eða fyrirvaralaust sökum tilfinningalegra mála eða annarra aðkallandi ástæðna.

Leiðbeiningar B2.1. – Ráðningarsamningar farmanna.


Leiðbeiningar B2.1.1 – Skrá yfir ráðningar.
    1. Þegar ákvarða á hvaða atriði á að færa í skrána yfir ráðningar sem um getur í e-lið 1. mgr. viðmiðunar A2.1 ætti hvert aðildarríki að tryggja að skjalið innihaldi fullnægjandi upplýsingar, með þýðingu á ensku, til að auðveldara sé að fá vinnu annars staðar eða að uppfylla kröfur um siglingatíma til uppfærslu eða stöðuhækkunar. Sjóferðabók farmanna kann að uppfylla kröfurnar sem um getur í e-lið 1. mgr. þeirrar viðmiðunar.

Regla 2.2 – Laun.


Tilgangur: Til að tryggja að farmönnum sé greitt fyrir þjónustu sína.
    Allir farmenn skulu fá greitt reglulega fyrir vinnu sína og í fullu samræmi við ráðningarsamninga þeirra.

Viðmiðun A2.2 – Laun.


    1. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að ógreidd laun starfandi farmanna á skipum sem sigla undir fána þeirra séu greidd mánaðarlega hið minnsta og í samræmi við gildandi kjarasamninga.
    2. Farmenn skulu fá mánaðarlegt yfirlit yfir ógreidd laun þeirra og þær fjárhæðir sem hafa verið greiddar, þ.m.t. viðbótargreiðslur og gengisskráningu sem notuð er ef greitt hefur verið í mynt eða miðað við gengi sem er annað en það sem samið er um.
    3. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að útgerðarmenn geri ráðstafanir, eins og þær sem mælt er fyrir um í 4. mgr. þessarar viðmiðunar, til að gera farmönnum kleift að senda öll eða hluta launa sinna til fjölskyldna sinna, nánustu aðstandenda eða löglegra bótaþega.
    4. Ráðstafanir til að tryggja að farmenn geti sent laun sín til fjölskyldna sinna eru meðal annars:
     a)      kerfi til að gera farmönnum kleift, við upphaf ráðningar eða meðan á henni stendur, að senda, ef þeir óska þess, hluta af launum þeirra reglulega til fjölskyldna þeirra með bankamillifærslu eða svipuðum hætti; og
     b)      krafa þess efnis að greiðslurnar skuli sendar tímanlega og beint til einstaklings eða einstaklinga sem farmaðurinn tilnefnir.
    5. Gjald fyrir þjónustuna sem kveðið er á um í 3. og 4. mgr. þessarar viðmiðunar skal vera hóflegt og gengisskráning, nema kveðið sé á um annað, skal, í samræmi við landslög eða reglugerðir, miðast við gildandi gengi hverju sinni eða opinbert gengi og skal ekki vera farmanninum í óhag.
    6. Hvert aðildarríki sem samþykkir landslög eða reglugerðir um laun farmanna skal taka tilhlýðilegt tillit til leiðbeininganna sem kveðið er á um í B-hluta kóðans.

Leiðbeiningar B2.2. – Laun.


Leiðbeiningar B2.2.1. – Sérstakar skilgreiningar.
    1. Í þessum leiðbeiningum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a)      fullgildur farmaður er farmaður sem er talinn hæfur til að sinna skyldum sem krafist kann að vera af undirmönnum sem starfa í þilfarsdeild, aðrar en skyldur umsjónar- eða sérhæfðs undirmanns, eða sá sem er skilgreindur sem slíkur í landslögum, reglugerðum, samkvæmt venju eða í kjarasamningum;
     b)      grunnkaup eða -laun eru laun, hvernig svo sem þau eru samsett, fyrir venjulegan vinnutíma; í því felast þó ekki greiðslur fyrir yfirvinnu, bónusgreiðslur, launauppbót, greitt orlof eða önnur viðbótarlaun;
     c)      samsett laun eru laun sem fela í sér grunnlaun og aðrar launatengdar bætur; í samsettum launum kann að felast greiðsla fyrir alla unna yfirvinnutíma og allar launatengdar bætur, eða í þeim kunna einungis að felast tilteknar bætur í hlutasamsetningu;
     d)      vinnutími er tími sem farmönnum er skylt að vinna um borð í skipinu;
     e)      yfirvinnutími er tími sem unninn er umfram venjulegan vinnutíma.

Leiðbeiningar B2.2.2. – Útreikningar og greiðslur.
    1. Hvað varðar farmenn með laun sem fela í sér sérstök laun fyrir unna yfirvinnu:
     a)      hvað varðar launaútreikninga ætti venjulegur vinnutími á sjó og í höfn ekki að fara yfir átta klukkustundir á dag;
     b)      hvað varðar yfirvinnuútreikninga ætti að mæla fyrir um fjölda venjulegra vinnustunda á viku miðað við grunnlaun í landslögum eða reglugerðum ef þau eru ekki ákvörðuð í kjarasamningum en ættu ekki að fara yfir 48 klukkustundir á viku; kveðið kann að vera á um önnur kjör í kjarasamningum en þó ekki lakari kjör;
     c)      mæla ætti fyrir um launataxta eða -taxta fyrir yfirvinnu, sem ætti ekki að vera lægri en grunnkaupið eða -launin margfölduð með einum og einum fjórða fyrir hverja klukkustund í landslögum eða reglugerðum eða í kjarasamningum, ef við á; og
     d)      skipstjórinn, eða annar einstaklingur sem skipstjórinn felur það, skal halda skrá yfir færslur um alla unna yfirvinnu og skal hún samþykkt af farmanninum eigi sjaldnar en mánaðarlega.
    2. Hvað varðar farmenn með laun sem eru að hluta eða að öllu leyti samsett:
     a)      í ráðningarsamningi farmanna skal koma skýrt fram, eftir því sem við á, fjöldi þeirra vinnustunda sem ætlast er til að farmaðurinn skili fyrir laun sín og hvers kyns launauppbót sem hann kann að eiga rétt á til viðbótar samsettum launum og í hvaða tilvikum;
     b)      ef yfirvinna miðað við klukkustund er greidd fyrir unnar klukkustundir til viðbótar þeim sem felast í samsettu laununum ætti launataxtinn miðað við klukkustund ekki að vera lægri en margfeldi eins og eins fjórða grunntaxtans sem svarar til venjulegs vinnutíma samkvæmt skilgreiningu í 1. mgr. þessara leiðbeininga; sömu reglu ætti að beita við yfirvinnuklukkustundirnar sem felast í samsettu laununum;
     c)      laun fyrir þann hluta launanna sem eru að hluta eða að öllu leyti samsett laun fyrir venjulegan vinnutíma samkvæmt skilgreiningu í a-lið 1. mgr. þessara leiðbeininga ættu ekki að vera lægri en gildandi lágmarkslaun; og
     d)      hvað varðar farmenn með laun sem eru að hluta eða að öllu leyti samsett ætti að halda skrá yfir alla unna yfirvinnu og hún samþykkt eins og kveðið er á um í d-lið 1. mgr. þessara leiðbeininga.
    3. Í lögum eða reglugerðum hvers lands eða kjarasamningum má kveða á um að í stað greiðslna fyrir yfirvinnu eða vinnu sem fram fer á vikulegum hvíldardegi eða á almennum frídögum geti komið a.m.k. jafnlangur tími á frívakt eða í landi auk leyfis í stað launa eða hvers kyns annarrar greiðslu sem er látin þannig í té.
    4. Í ákvæðum landslaga og reglugerða sem samþykktar eru að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna eða, eftir atvikum, kjarasamninga ætti að hafa hliðsjón af eftirtöldum grundvallarreglum:
     a)      jöfn laun fyrir jafngilda vinnu ætti að eiga við um alla farmenn sem eru ráðnir á sama skip án mismununar á grunni kynþáttar, litar, kynferðis, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis eða félagslegs uppruna;
     b)      ráðningarsamningur farmanna sem kveður á um gildandi laun eða launataxta ætti að vera tiltækur um borð í skipinu; upplýsingar um launafjárhæðir eða -taxta ættu að vera aðgengilegar hverjum farmanni, annaðhvort með því að sjá farmanninum fyrir a.m.k. einu undirrituðu afriti af viðeigandi upplýsingum á tungumáli sem farmaðurinn skilur, eða með því að birta afrit af samningnum á stað sem er aðgengilegur farmönnum eða með öðrum viðeigandi hætti;
     c)      greiða ætti laun með löglegum greiðslumiðli; ef við á má greiða þau með bankamillifærslu, bankaávísun, póstávísun eða póstkröfu;
     d)      við ráðningarlok ætti að greiða öll áunnin laun án ónauðsynlegra tafa;
     e)      lögbært stjórnvald ætti að leggja hæfileg viðurlög við því, eða beita öðrum viðeigandi úrræðum, ef útgerðarmenn fresta með óviðeigandi hætti eða vanrækja að greiða öll áunninn laun;
     f)      greiða skal laun beint inn á bankareikning sem farmenn tilgreina nema farið sé fram á annað skriflega;
     g)      með fyrirvara um h-lið þessarar málsgreinar ætti útgerðarmaðurinn ekki að setja neinar skorður á frelsi farmanna til að ráðstafa launum sínum;
     h)      einungis ætti að heimila frádrátt frá launum ef:
                  i)      ef skýr ákvæði er að finna í landslögum, reglugerðum eða í gildandi kjarasamningi og ef farmaður hefur verið upplýstur, með þeim hætti sem lögbært stjórnvald telur heppilegast, um skilyrði fyrir slíkum frádrætti; og
                  ii)      ef heildarfrádrátturinn fer ekki yfir þau takmörk sem kunna að hafa verið sett í landslögum, reglugerðum eða kjarasamningum eða í dómum um slíkan frádrátt;
     i)      ekki ætti að draga frá launum farmanna í tengslum við það að taka starf eða halda vinnu;
     j)      banna ætti að beita farmenn öðrum fésektum en þeim sem heimild er fyrir í landslögum, reglugerðum, kjarasamningum eða með öðrum úrræðum;
     k)      lögbært stjórnvald ætti að hafa vald til þess að skoða vistir og þjónustu um borð í skipi til að tryggja að sanngjarnt og hóflegt verð sé í boði í þágu viðkomandi farmanna; og
     l)      að svo miklu leyti sem kröfur farmanna um laun eða aðrar útistandandi greiðslur fyrir störf þeirra eru ekki tryggðar í samræmi við ákvæðin í alþjóðasamþykkt um veðbönd og veðréttindi, 1993, ættu slíkar greiðslur að vera tryggðar í samræmi við samþykkt um verndun launakrafna starfsmanna við gjaldþrot atvinnurekenda, 1992 (nr. 173).
    5. Hvert aðildarríki ætti, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, að hafa yfir að ráða málsmeðferð til að rannsaka kvartanir í tengslum við mál sem fjallað er um í þessum leiðbeiningum.

Leiðbeiningar B2.2.3. – Lágmarkslaun.
    1. Með fyrirvara um grundvallarregluna um frjálsa karasamninga ætti hvert aðildarríki, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, að mæla fyrir um málsmeðferð til að ákveða lágmarkslaun farmanna. Hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna ættu að taka þátt í að viðhalda slíkri málsmeðferð.
    2. Þegar mælt er fyrir um slíka málsmeðferð og þegar lágmarkslaun eru ákveðin ætti að taka viðhlítandi tillit til alþjóðlegra viðmiðana um vinnuskilyrði og ákvörðun lágmarkslauna auk eftirtalinna grundvallarreglna:
     a)      m.t.t. fjárhæðar lágmarkslauna ætti að taka mið af eðli starfa á sjó, fjölda í áhöfn skipa og venjulegum vinnutíma farmanna; og
     b)      miða ætti fjárhæð lágmarkslauna við breytingar sem kunna að verða á framfærslukostnaði og á þörfum farmanna.
    3. Lögbært stjórnvald ætti að tryggja:
     a)      með eftirlits- og viðurlagakerfi að laun séu ekki lægri en sem nemur fasta taxtanum eða föstu töxtunum; og
     b)      að farmönnum sem hefur verið greitt miðað við taxta sem er lægri en lágmarkstaxtinn sé gert kleift að krefjast endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem vantaði upp á launin með ódýrri og skjótri réttarleið eða annarri málsmeðferð.

Leiðbeiningar B2.2.4. – Lágmarksgrunnlaun eða -fjárhæð launa til fullgildra farmanna.
    1. Grunnkaup eða -laun fyrir þjónustu fullgilds farmanns í almanaksmánuð eiga ekki að vera lægri en sú fjárhæð sem er ákveðin reglulega af hálfu siglingamálanefndar eða annarrar stofnunar í umboði stjórnarnefndar Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Að fenginni ákvörðun stjórnarnefndarinnar skal forstjóri tilkynna aðildarríkjum stofnunarinnar um endurskoðaða fjárhæð.
    2. Ekkert í þessum leiðbeiningum ætti að teljast brjóta í bága við ráðstafanir sem samið hefur verið um milli útgerðarmanna eða samtaka þeirra og samtaka farmanna með tilliti til skipan staðlaðra lágmarskilmála og -skilyrði um ráðningu, að því tilskildu að slíkir skilmálar og skilyrði séu viðurkennd af lögbæru stjórnvaldi.

Regla 2.3. – Vinnutími og hvíldartími.


Tilgangur: Að sjá til þess að vinnutími eða hvíldartími farmanna sé lögverndaður.
    1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að vinnutími eða hvíldartími farmanna sé lögverndaður.
    2. Hvert aðildarríki skal ákveða hámarksvinnutíma eða lágmarkshvíldartíma á tilteknu tímabili sem er í samræmi við ákvæðin í kóðanum.

Viðmiðun A2.3. – Vinnutími og hvíldartími.


    1. Í þessari viðmiðun er merking eftirtalinna hugtaka sem hér segir:
     a)      „vinnutími“: sá tími sem farmanni er skylt að vinna um borð;
     b)      „hvíldartími“: sá tími sem ekki telst til vinnutíma; þetta hugtak tekur ekki til þess þegar stutt hlé er gert á vinnu.
    2. Hvert aðildarríki skal, innan þeirra marka sem sett eru í 5. til 8. mgr. í þessari viðmiðun, annaðhvort fastsetja hámarksfjölda vinnustunda sem ekki má fara yfir á fyrirfram tilteknu tímabili eða lágmarkshvíldartíma sem veittur er á tilteknu tímabili.
    3. Hvert aðildarríki viðurkennir að viðmiðanir um venjulegan vinnutíma farmanna, eins og hjá öðrum starfsmönnum, skulu byggjast á átta klukkustunda vinnudegi með einum hvíldardegi á viku og hvíld á almennum frídögum. Þó skal þetta ekki koma í veg fyrir að aðildarríkið taki upp málsmeðferð til að leyfa eða skrá kjarasamning sem kveður á um venjulegan vinnutíma farmanna á grunni sem veitir ekki lakari kjör en þessi viðmiðun segir til um.
    4. Þegar innanlandsviðmiðanirnar eru ákveðnar skal hvert aðildarríki hafa til hliðsjónar hættuna sem ofþreyta farmanna hefur í för með sér, einkum gagnvart þeim sem gegna skyldum tengdum siglingaöryggi og öryggi og vernd skipsins.
    5. Mörk vinnu- eða hvíldartíma skulu vera sem hér segir:
     a)      hámarksvinnutími skal ekki vera lengri en:
                  i)      14 klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili; og
                  ii)      72 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili; eða
     b)      lágmarkshvíldartími skal ekki vera skemmri en:
                  i)      tíu klukkustundir á hverju 24 klukkustunda tímabili; og
                  ii)      77 klukkustundir á hverju sjö daga tímabili.
    6. Hvíldartíma má ekki skipta á fleiri en tvö tímabil og skal annað vara að lágmarki í 6 klst. og skal tímabilið milli tveggja hvíldartíma má ekki vera lengra en 14 klst.
    7. Nafnakall, eldvarnar- og björgunaræfingar, og æfingar sem mælt er fyrir um í landslögum og reglugerðum og í alþjóðlegum samningum, skulu fara fram með þeim hætti að hvíldartími raskist eins lítið og hægt er og þannig að þær valdi ekki ofþreytu.
    8. Þegar farmaður er á bakvakt, t. d. þegar vélarúm er ómannað, skal hann, ef venjulegum hvíldartíma er raskað með útkalli, fá samfellda viðbótarhvíld í staðinn.
    9. Ef hvorki kjarasamningar né gerðardómsúrskurður eru fyrir hendi eða ef lögbært stjórnvald telur að ákvæði kjarasamnings eða gerðardómsúrskurðar með tilliti til 7. eða 8. mgr. þessarar viðmiðunar séu ófullnægjandi getur lögbært stjórnvald sett ákvæði til að tryggja að viðkomandi farmenn fái næga hvíld.
    10. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að á aðgengilegum stað skuli vera tafla sem hefur að geyma upplýsingar um skipulag vinnutíma um borð og þar sem birt er að minnsta kosti fyrir hverja stöðu:
     a)      áætlun um vinnuskyldu á sjó og í höfnum; og
     b)      hámarksvinnutími eða lágmarkshvíldartími sem krafist er samkvæmt landslögum, reglugerðum eða gildandi kjarasamningum.
    11. Taflan, sem um getur í 10. mgr. í þessari viðmiðun, skal gefin út á stöðluðu eyðublaði á því tungumáli eða þeim tungumálum sem notað er/notuð eru við vinnu um borð og á ensku.
    12. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að færð sé skrá yfir daglegan vinnutíma farmanna eða daglegan hvíldartíma þeirra til að hægt sé að fylgjast með því að farið sé að ákvæðum 5. til 11. mgr. þessarar viðmiðunar. Færslurnar skulu vera á stöðluðu formi sem lögbært stjórnvald ákveður, að teknu tilliti til fyrirliggjandi leiðbeininga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eða á stöðluðu formi sem stofnunin útbýr. Þær skulu vera á því tungumáli sem krafist er skv. 11. mgr. þessarar viðmiðunar. Farmaðurinn skal fá afrit af þeim skráningum sem varða hann og skulu þær samþykktar af skipstjóranum, eða öðrum þeim sem skipstjórinn hefur veitt til þess umboð, og farmanninum.
    13. Ekkert í 5. og 6. mgr. þessarar viðmiðunar skal koma í veg fyrir að aðildarríki kveði á um í landslögum, reglugerðum eða málsmeðferð sem gera lögbæru stjórnvaldi kleift að leyfa eða skrá kjarasamninga sem veita undanþágur frá þeim takmörkunum sem settar eru. Slíkar undanþágur skulu, að því marki sem unnt er, vera í samræmi við ákvæði þessarar viðmiðunar en geta tekið mið af örari eða lengri fríum eða veitt uppbótarleyfi fyrir farmenn sem vinna á vöktum eða farmenn sem vinna um borð í skipum sem eru í stuttum ferðum.
    14. Ekkert í þessari viðmiðun skal teljast skerða rétt skipstjóra á skipi til að krefjast þess að farmaður vinni þá tíma án tafar sem nauðsynlegir eru sökum öryggis skipsins, einstaklinga um borð eða farms eða til að veita aðstoð öðrum skipum eða einstaklingum í sjávarháska. Samkvæmt því getur skipstjóri vikið frá skipulagi vinnu- eða hvíldartíma og krafist þess að farmaður vinni þann tíma sem nauðsynlegur er þar til ástandið er orðið eðlilegt aftur. Skipstjóri skal tryggja eins fljótt og auðið er eftir að ástandið er orðið eðlilegt aftur að farmaður, sem hefur sinnt störfum í fyrirfram ákveðnum hvíldartíma sínum, fái næga hvíld.

Leiðbeiningar B2.3. – Vinnutími og hvíldartími.


Leiðbeiningar B2.3.1. – Ungir farmenn.
    1. Eftirfarandi ákvæði ættu að gilda á sjó og í höfn um alla farmenn undir 18 ára aldri:
     a)      vinnutími ætti ekki að fara yfir átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku og aðeins ætti að vinna yfirvinnu sé það óhjákvæmilegt af öryggisástæðum;
     b)      nægur tími skal veittur til máltíða og tryggja ætti a.m.k. klukkustundarlangt hlé fyrir aðalmáltíð dagsins; og
     c)      heimila ætti 15 mínútna langt hlé eins fljótt og unnt er eftir tveggja klukkustundalanga samfellda vinnu.
    2. Í undantekningartilvikum þarf ekki að beita ákvæðum 1. mgr. í þessum leiðbeiningum ef:
     a)      þær eru óraunhæfar hvað varðar unga farmenn sem starfa í þilfars-, véla- eða þjónustudeild áhafna og er falið vaktskyldur eða starfa í skiptivaktakerfi; eða
     b)      markviss þjálfun ungra farmanna hvað varðar fyrirframákveðin verkefni og áætlanir væri skert;
    3. Skrá ætti slík undantekningartilvik ásamt þeim ástæðum sem liggja að baki og skulu færslurnar samþykktar af skipstjóra.
    4. Ákvæði 1. mgr. þessara leiðbeininga undanþiggja ekki unga farmenn frá þeirri almennu skyldu sem öllum farmönnum ber að rækja að vinna þegar neyðarástand ríkir eins og kveðið er á um í 14. mgr. viðmiðunar A2.3.

Regla 2.4. – Orlofsréttur.


Tilgangur: Að tryggja að farmenn fái nægilegt orlof.
    1. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að farmenn sem starfa um borð í skipum sem sigla undir fána þess fái árlegt orlof á launum undir viðeigandi kringumstæðum, í samræmi við ákvæðin í kóðanum.
    2. Farmönnum skal veitt landgönguleyfi þeim til heilsubótar og aukinnar velferð og í samræmi við starfskröfur sem fylgja stöðu þeirra.

Viðmiðun A2.4. – Orlofsréttur.


    1. Hvert aðildarríki skal samþykkja lög og reglugerðir sem mæla fyrir um lágmarksviðmiðanir um árlegt orlof farmanna sem starfa um borð í skipum sem sigla undir fána þess, að teknu nauðsynlegu tilliti til sérstakra þarfa farmanna að því er varðar slíkt orlof.
    2. Með fyrirvara um kjarasamninga, lög eða reglugerðir sem kveða á um viðeigandi reikniaðferðir sem taka mið af sérstökum þörfum farmanna í þessu tilliti skal rétturinn til árlegs orlofs á launum reiknaður á grundvelli 2,5 almanaksdaga hið minnsta fyrir mánuð í starfi. Lögbært stjórnvald eða viðeigandi stofnun í hverju landi skulu ákveða hvernig reikna á út starfsaldur. Rökstudd fjarvera úr vinnu skal ekki talin til árlegs orlofs.
    3. Hvers kyns samkomulag um að fella niður launað lágmarksorlof á ári hverju sem mælt er fyrir um í þessari viðmiðun, nema í þeim tilvikum sem lögbært stjórnvald mælir fyrir um slíkt, skal bannað.

Leiðbeiningar B2.4. – Orlofsréttur.


Leiðbeiningar B2.4.1. – Útreikningur réttar.
    1. Við aðstæður sem lögbært stjórnvald ákveður eða fyrir milligöngu viðeigandi stofnunar í hverju landi ætti að telja störf utan samningsbundins vinnutíma til hluta af starfstíma.
    2. Við aðstæður sem lögbært stjórnvald ákveður eða samkvæmt gildandi kjarasamningum, ber að telja fjarvistir frá vinnu til að sækja viðurkennd starfsmenntunarnámskeið eða fjarvistir af völdum veikinda eða meiðsla eða af völdum barnseignar, til starfstíma.
    3. Fjárhæð launa í árlegu orlofi ætti að miðast við venjuleg laun sem farmaðurinn fær og kveðið er á um í landslögum, reglugerðum eða í gildandi ráðningarsamningum farmanna. Hvað varðar farmenn sem eru ráðnir til styttri tíma en eins árs eða ef ráðningartengslum er rift ætti orlofsrétturinn að vera reiknaður út miðað við hlutfall.
    4. Eftirtalið ætti ekki að teljast til hluta árlegs orlofs á launum:
     a)      almennir eða venjubundnir frídagar sem eru viðurkenndir sem slíkir í fánaríkinu, hvort sem þeir falla á daga þegar árlegt orlof á launum stendur yfir eða ekki;
     b)      tímabil vanhæfis til vinnu af völdum veikinda eða meiðsla eða af völdum barnsburðar með skilyrðum sem lögbært stjórnvald ákveður eða veitt er með viðeigandi úrræðum í hverju landi;
     c)      tímabundið landgönguleyfi sem farmanni er veitt meðan ráðningarsamningur er í gildi; og
     d)      hvers kyns uppbótarleyfi með skilyrðum sem lögbært stjórnvald ákveður eða veitt er með viðeigandi úrræðum í hverju landi.

Leiðbeiningar B2.4.2. – Árlegt leyfi tekið.
    1. Tímabil úttektar árlegs orlofs ætti, nema því aðeins að það sé fastákveðið í reglugerðum, kjarasamningum eða gerðardómsúrskurðum eða með öðrum aðferðum sem eru í samræmi við innanlandsvenjur, skal ákveðið af hálfu útgerðarmanna, að höfðu samráði og, eftir því sem unnt er, að fengnu samþykki farmannanna sem í hlut eiga eða fulltrúa þeirra.
    2. Farmenn ættu að jafnaði að eiga rétt á að taka árlegt orlof á þeim stað sem þeir hafa umtalsverð tengsl við sem væri venjulega sami staðurinn og þeir hafa rétt á heimsendingu til. Ekki ætti að krefjast þess að farmenn taki árlegt, áunnið orlof án samþykkis þeirra á öðrum stað nema samkvæmt ákvæðum ráðningarsamnings farmanna eða landslaga eða reglugerða.
    3. Sé þess krafist að farmenn taki árlegt orlof á stað sem er annar en heimilaður er skv. 2. mgr. þessarar leiðbeiningar skulu þeir eiga rétt á ókeypis flutningi til staðarins þar sem þeir voru skráðir eða ráðnir eftir því hvor staðurinn er nær heimili þeirra; útgerðarmaðurinn ætti að greiða framfærslu og annan kostnað sem til fellur beint; ekki ætti að draga ferðatímann frá árlegu orlofi á launum sem farmaðurinn á rétt á.
    4. Farmaður í árlegu orlofi ætti einungis að kalla til starfa aftur ef um algjört neyðarástand er að ræða og með samþykki farmannsins.

Leiðbeiningar B2.4.3. – Skipting og uppsöfnun.
    1. Lögbært stjórnvald má ákveða, eða heimila má með viðeigandi úrræðum í hverju landi, skiptingu áunnins árlegs orlofs á launum í tvo hluta eða uppsöfnun slíks árlegs orlofs miðað við eitt ár með síðara orlofstímabili.
    2. Með fyrirvara um 1. mgr. leiðbeininga B2.4.3 og, nema kveðið sé á um annað í samningi sem gildir um útgerðarmanninn og farmanninn sem í hlut eiga, ætti árlegt orlof á launum sem mælt er með í þessum leiðbeiningum að vera órofið tímabil.

Leiðbeiningar B2.4.4. – Ungir farmenn.
    1. Íhuga ætti að grípa til sérstakra ráðstafana í tengslum við unga farmenn undir 18 ára aldri sem hafa starfað í sex mánuði eða í styttri tíma samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi farmanna án þess að fara í orlof á skipi í millilandasiglingum sem hefur ekki snúið til baka til búsetulands þeirra á þeim tíma og mun ekki snúa aftur næstu þrjá mánuði sjóferðarinnar. Slíkar ráðstafanir gætu verð heimsending þeirra þeim að kostnaðarlausu til þess staðar sem þeir voru ráðnir í upphafi í búsetulandi þeirra í því skyni að nýta áunnið frí sem stofnaðist meðan á sjóferðinni stóð.

Regla 2.5. – Heimsending.


Tilgangur: Að tryggja að farmenn geti snúið heim.
    1. Farmenn eiga rétt á að vera sendir til síns heima sér að kostnaðarlausu við þær aðstæður og með þeim skilyrðum sem tilgreint er í kóðanum.
    2. Hvert aðildarríki skal krefjast þess skip sem sigla undir fána þess leggi fram fjárhagslega tryggingu til að sjá til þess að farmenn njóti viðeigandi heimsendingar í samræmi við kóðann.

Viðmiðun A2.5. – Heimsending.


    1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að farmenn um borð í skipum sem sigla undir fána þess eigi rétt á heimsendingu í eftirtöldum tilvikum:
     a)      ef ráðningarsamningur farmanna fellur úr gildi á meðan þeir eru um borð;
     b)      þegar ráðningarsamningi farmanna er rift:
                  i)      af hálfu útgerðarmannsins; eða
                  ii)      af hálfu farmannsins ef gild ástæða liggur að baki; og ennfremur
     c)      þegar farmenn geta ekki lengur gegnt skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi sínum eða ef ekki er hægt að ætlast til þess að þeir gegni þeim sökum sérstakra kringumstæðna.
    2. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að í lögum þess, reglugerðum, eða með öðrum aðgerðum, eða í kjarasamningum séu viðeigandi ákvæði sem mæla fyrir um:
     a)      þær kringumstæður þegar farmenn eiga rétt á heimsendingu í samræmi við b- og c-lið 1. mgr. þessarar viðmiðunar;
     b)      það hámarksstarfstímabil um borð í skipi sem veitir farmanni rétt til heimsendingar og að slíkt tímabil sé styttra en tólf mánuðir; og
     c)      nákvæmir skilmálar um skyldur útgerðarmanns í tengslum við heimsendingu, þ.m.t. um ákvörðunarstað heimsendingar, flutningsmáta, innifalda kostnaðarliði og aðrar ráðstafanir sem útgerðarmanni ber að gera;
    3. Hvert aðildarríki skal leggja bann við því að útgerðarmenn krefjist þess að farmenn greiði heimsendingu fyrirfram við upphaf ráðningar þeirra og einnig við því að kostnaður við heimsendingar verði dreginn af launum farmanns eða öðrum réttindum sem honum ber nema í því tilviki að farmaðurinn verði uppvís að því, í samræmi við landslög, reglugerðir, aðrar ráðstafanir eða gildandi kjarasamninga, að brjóta alvarlega gegn skyldum farmannsins í starfi.
    4. Landslög og reglugerðir skulu ekki hafa áhrif á rétt útgerðarmanna til að krefjast endurgreiðslu heimsendingarkostnaðar samkvæmt samningsbundnu fyrirkomulagi við þriðja aðila.
    5. Vanræki útgerðarmaður að gera viðhlítandi ráðstafanir til að mæta kostnaði við heimsendingu farmanna sem eiga rétt á heimsendingu:
     a)      skal lögbært stjórnvald aðildarríkis, sem er fánaríki skipsins, gera ráðstafanir um heimsendingu farmanna sem í hlut eiga; vanræki það að gera það má ríkið þaðan sem senda á farmennina heim eða ríkið sem farmennirnir eru ríkisborgarar í gera ráðstafanir um heimsendingu þeirra og krefja aðildarríkið, sem er fánaríki skipsins, um endurgreiðslu tilfallins kostnaðar;
     b)      aðildarríki sem er fánaríki skipsins skal geta krafið útgerðarmanninn um kostnað sem fellur til við heimsendingu farmanna;
     c)      farmennirnir skulu í engu tilviki krafðir um heimsendingarkostnað nema í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 3. mgr. þessarar viðmiðunar.
    6. Að teknu tilliti til gildandi alþjóðlegra gerninga, þ.m.t. alþjóðasamþykktar um kyrrsetningu skipa, 1999, má aðildarríki sem hefur greitt kostnað af heimsendingu samkvæmt þessum kóða, leggja farbann á skip eða fara fram á að farbann verði lagt á skip útgerðarmannsins sem málið varðar þar til endurgreiðsla hefur farið fram í samræmi við a-lið 5. mgr. þessarar viðmiðunar.
    7. Hvert aðildarríki skal greiða fyrir heimsendingu farmanna sem starfa á skipum sem koma til hafna þeirra, sigla um landhelgi þess eða innsævi auk þess að greiða fyrir afleysingu þeirra.
    8. Aðildarríki skal gæta þess sérstaklega að réttur sérhvers farmanns til heimsendingar verði ekki brotinn sökum fjárhagslegrar stöðu útgerðarmanns eða sökum þess að útgerðarmaður getur ekki eða vill ekki að farmaður verði leystur af.
    9. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að skip sem sigla undir fána þess hafi tiltækt um borð og aðgengilegt farmönnum afrit á viðeigandi tungumáli af gildandi innanlandsreglum um heimsendingu.

Leiðbeiningar B2.5. – Heimsending.


Leiðbeiningar B2.5.1. – Réttur.
    1. Farmenn ættu að eiga rétt á heimsendingu:
     a)      í þeim tilvikum sem lýst er í a-lið 1. mgr. viðmiðunar A2.5, þegar uppsagnarfresturinn sem er gefinn í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings farmanna er liðinn;
     b)      í þeim tilvikum sem lýst er í b- og c-lið 1. mgr. viðmiðunar A2.5:
                  i)      ef um er að ræða veikindi, meiðsli eða sjúkdóm sem veldur því að heimsending er nauðsynleg þegar viðkomandi getur ferðast af heilsufarsástæðum;
                  ii)      við skipbrot;
                  iii)      ef útgerðarmaður getur ekki staðið við lagalegar eða samningsbundnar skuldbindingar sínar sem atvinnurekandi farmannanna af völdum gjaldþrots, sölu á skipi, breytingar á skráningu skips eða annarra svipaðra ástæðna;
                  iv)      ef skip er á leið til stríðssvæðis, samkvæmt skilgreiningu í landslögum, reglugerðum eða ráðningarsamningum farmanna, sem farmaðurinn vill ekki fara til; og
                  v)      verði ráðningarslit eða rof á ráðningu í samræmi við gerðardómsúrskurð eða kjarasamning, eða ráðningarslit af öðrum álíka orsökum.
    2. Við ákvörðun hámarksstarfstímabils um borð í skipi og farmaður á rétt á heimsendingu að því loknu í samræmi við þennan kóða ætti að taka tillit til þátta sem hafa áhrif á vinnuumhverfi farmannsins. Hvert aðildarríki ætti þegar unnt er að leitast við að stytta slík tímabil í ljósi tæknibreytinga og -þróunar og gæti notið leiðsagnar af tilmælum sem gerðar hafa verið um málið af hálfu siglingamálanefndar.
    3. Sá kostnaður sem útgerðarmanni ber að greiða í tengslum við heimsendingu samkvæmt viðmiðun A2.5 skal a.m.k. fela í sér eftirfarandi:
     a)      ferðalag til áfangastaðar sem er valinn til heimsendingar í samræmi við 6. mgr. þessara leiðbeininga;
     b)      fæði og húsnæði frá þeirri stundu sem farmennirnir fara frá borði og þar til þeir koma til ákvörðunarstaðar heimsendingar;
     c)      laun og dagpeninga frá þeirri stundu sem farmennirnir fara frá borði og þar til þeir koma til ákvörðunarstaðar heimsendingar, ef kveðið er á um slíkt í landslögum, reglugerðum eða kjarasamningum;
     d)      flutningur 30 kg. af persónulegum farangri farmanna til ákvörðunarstaðar heimsendingar; og
     e)      læknismeðferð ef nauðsyn krefur þar til farmennirnir eru nægilega heilsuhraustir til að ferðast til ákvörðunarstaðar heimsendingar.
    4. Tími sem fer í að bíða eftir heimsendingu og ferðatími heimsendingar skal ekki dreginn frá orlofi á launum sem farmenn hafa unnið sér inn.
    5. Gera ætti útgerðarmönnum skylt að halda áfram að bera kostnað af heimsendingu þar til farmenn sem í hlut eiga eru komnir til áfangastaðar sem mælt er fyrir um í þessum kóða eða fá hentugt starf um borð í skipi sem er á leið til eins þessara áfangastaða.
    6. Hvert aðildarríki ætti að krefjast þess að útgerðarmenn taki ábyrgð á tilhögun heimsendingar eftir viðeigandi og skjótum leiðum. Venjulegur flutningsmáti ætti að vera flug. Aðildarríki ætti að mæla fyrir um áfangastaði sem senda má farmanna til. Þau lönd sem ætla mætti að farmenn hefðu mikil tengsl við ættu að vera meðal áfangastaðanna, þar með talið:
     a)      staðurinn þar sem farmaðurinn samþykkti ráðninguna;
     b)      staðurinn sem kveðið er á um í kjarasamningi;
     c)      búsetuland farmannsins; eða
     d)      annar staður sem báðir aðilar koma sér saman um við ráðningu.
    7. Farmenn ættu að eiga rétt á að velja úr hópi þeirra áfangastaða sem mælt er fyrir um þann stað sem þeir óska eftir að vera sendir til.
    8. Rétturinn til heimsendingar kann að falla úr gildi ef farmennirnir sem um er að ræða nýta sér hann ekki innan hæfilegra tímamarka sem skilgreina á í landslögum, reglugerðum eða kjarasamningum.

Leiðbeiningar B2.5.2. – Framkvæmd af hálfu aðildarríkja.
    1. Veita ætti farmanni sem er vegalaus í erlendri höfn og bíður heimsendingar alla mögulega aðstoð og ef töf verður á heimsendingu farmannsins ætti lögbært stjórnvald í erlendu höfninni að sjá til þess að ræðismaður eða fulltrúi fánaríkisins og ríkisins sem farmaðurinn er með ríkisfang eða aðsetur í, eftir því sem við á, séu þegar upplýstir um málið.
    2. Hvert aðildarríki ætti að hafa í huga hvort nægilega vel sé séð fyrir því:
     a)      að farmenn sem eru ráðnir til starfa um borð í skipum sem sigla undir fána erlends ríkis geti snúið til baka, ef þeir eru settir í land í erlendri höfn af ástæðum sem þeir eru ekki ábyrgir fyrir:
                  i)      til hafnarinnar þar sem farmaðurinn sem í hlut á var ráðinn; eða
                  ii)      til hafnar í heimalandi farmannsins eða landsins sem farmaðurinn tilheyrir, eftir því sem við á; eða
                  iii)      til annarrar hafnar sem farmaðurinn og skipstjórinn eða útgerðarmaðurinn koma sér saman um að fengnu samþykki lögbærs stjórnvalds eða samkvæmt viðeigandi verndarráðstöfunum;
     b)      að læknishjálp farmanna sem starfa á skipi sem siglir undir fána erlends ríkis og eru settir í land í erlendri höfn í kjölfar veikinda eða meiðsla sem orðið hafa við störf í þágu skipsins og eru ekki af ásetningi þeirra.
    3. Ef í ljós kemur, eftir að ungir farmenn sem ekki hafa náð 18 ára aldri hafa verið í starfi í a.m.k. fjóra mánuði í sinni fyrstu ferð milli landa, að lífið til sjós hentar þeim ekki ætti að gefa þeim kost á heimsendingu þeim að kostnaðarlausu frá fyrstu hentugu höfninni sem skipið kemur til þar sem fyrir hendi er þjónusta ræðismanns fánaríkisins eða ríkisins sem farmaðurinn á ríkisfang í eða hefur búsetu. Tilkynning um slíka heimsendingu, þar sem ástæða hennar er gefin, skal send til þess stjórnvald sem gaf út skjalið sem gerði unga farmanninum sem í hlut á kleift að hefja störf til sjós.

Regla 2.6. – Bætur til farmanna ef skip tapast eða ferst.


Tilgangur: Að tryggja að farmenn fá bætur þegar skip tapast eða ferst.
    1. Farmenn eiga rétt á fullnægjandi bótum við meiðsli, missi eða atvinnumissi sem verður við það að skip tapast eða ferst.

Viðmiðun A2.6. – Bætur til farmanna ef skip tapast eða ferst.


    1. Hvert aðildarríki skal setja reglur sem tryggja að í hverju því tilviki sem skip tapast eða ferst greiði útgerðarmaðurinn hverjum farmanni um borð bætur sökum atvinnumissis í kjölfar þess að skip tapast eða ferst.
    2. Reglurnar sem um getur í 1. mgr. þessarar viðmiðunar skulu ekki hafa áhrif á annan rétt sem farmaður kann að hafa samkvæmt landslögum aðildarríkisins sem í hlut á að því er varðar missi eða meiðsl af völdum þess að skip tapast eða ferst.

Leiðbeiningar B2.6. – Bætur til farmanna ef skip tapast eða ferst.


Leiðbeiningar B2.6.1. – Útreikningar á bótum sökum atvinnumissis.
    1. Greiða ætti bætur sökum atvinnumissis af völdum þess að skip tapast eða ferst fyrir þá daga sem farmaðurinn er í raun án atvinnu á sama taxta og launin sem greidd eru samkvæmt ráðningarsamningnum en takmarka má heildarbæturnar sem koma eiga í hlut hvers farmanns við tveggja mánaða laun.
    2. Hvert aðildarríki ætti sjá til þess að farmenn hafa sömu lagaúrræði til endurkröfu slíkra bóta eins og þeir hafa til endurkröfu launa í vanskilum sem þeir hafa unnið fyrir í störfum sínum.

Regla 2.7. – Mönnun.


Tilgangur: Að tryggja að farmenn starfi um borð í skipum sem hafa nægt starfslið svo starfrækja megi það með öryggi, skilvirkni og vernd að leiðarljósi.
    
Hvert aðildarríki skal krefjast þess að öll skip sem sigla undir fána þess hafi nægilegan fjölda farmanna í áhöfn til að tryggja að skip séu starfrækt með öruggum og skilvirkum hætti og með tilhlýðilegri vernd við allar aðstæður að teknu tilliti til ofþreytu farmanna og sérstaks eðlis sjóferðarinnar og aðstæðna.

Viðmiðun A2.7. – Mönnun.


    1. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að öll skip sem sigla undir fána þess hafi nægilegan fjölda farmanna um borð til að tryggja að skipin séu starfrækt með öruggum og skilvirkum hætti og með tilhlýðilegri vernd. Hvert skip skal mannað með áhöfn sem er fullnægjandi með tilliti til stærðar og hæfni svo tryggja megi öryggi og vernd skipsins og starfsliðs þess við allar rekstrarlegar aðstæður í samræmi við öryggisskírteini um lágmarksmönnun eða sambærilegt skjal sem lögbært stjórnvald gefur út og að uppfylla viðmiðanir þessarar samþykktar.
    2. Þegar mönnun er ákveðin, viðurkennd eða henni breytt skal lögbært stjórnvald taka tillit til þarfarinnar á að forðast eða draga úr, að svo miklu leyti sem unnt er, óhóflegum vinnutíma, og til að tryggja fullnægjandi hvíld og draga úr hættu á ofþreytu, auk grundvallarreglna í gildandi alþjóðagerningum (einkum á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar) um mönnun.
    3. Þegar mönnun er ákveðin skal lögbært stjórnvald taka tillit til allra krafna sem eru í reglu 3.2 og viðmiðun A3.2 um fæði og þjónustu áhafna.

Leiðbeiningar B2.7. – Mönnun.


Leiðbeiningar B2.7.1. – Lausn ágreiningsmála.
    1. Hvert aðildarríki ætti að hafa yfir að ráða, eða fullvissa sig um að skilvirk úrræði séu fyrir hendi til að rannsaka og leysa ágreiningsmál sem tengjast kvörtunum um mönnun skipa.
    2. Fulltrúar samtaka farmanna og útgerðarmanna ættu að eiga hlut að máli þegar gripið er til slíkra úrræða, með eða án annarra einstaklinga eða stjórnvalda.

Regla 2.8. – Auknir möguleikar á starfsframa og fagkunnáttu


auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða.


Tilgangur: Að stuðla að auknum möguleikum á starfsframa og bættri fagkunnáttu farmanna og fjölgun atvinnutækifæra.
    
Hvert aðildarríki skal móta stefnu sem stuðlar að því að fá fólk til starfa á sviði siglinga og hvetur til starfsframa og bættrar fagkunnáttu auk fjölgunar atvinnutækifæra farmanna sem eru heimilisfastir á yfirráðasvæði þess.

Viðmiðun A2.8. – Auknir möguleikar á starfsframa og fagkunnáttu


auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða.


    1. Hvert aðildarríki skal móta stefnu sem miðar að því að hvetja til starfsframa og bættrar fagkunnáttu auk fjölgunar atvinnutækifæra farmanna í því skyni að sjá fyrir stöðugum og hæfum mannafla á sviði siglinga.
    2. Markmiðið með stefnumótuninni sem um getur í 1. mgr. þessarar viðmiðunar skal vera að hjálpa farmönnum að auka reynslu sína og hæfni og fjölga atvinnutækifærum sínum.
    3. Hvert aðildarríki skal, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök farmanna og útgerðarmanna, setja skýr markmið um starfsleiðsögn, menntun og þjálfun farmanna sem gegna skyldum um borð sem tengjast aðallega öruggum rekstri og siglingu skipsins, þ.m.t. viðvarandi þjálfun.

Leiðbeiningar B2.8. – Auknir möguleikar á starfsframa og fagkunnáttu


auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða.


Leiðbeiningar B2.8.1 – Ráðstafanir til að auka möguleika á starfsframa og fagkunnáttu auk fjölgunar atvinnutækifæra sem standa farmönnum til boða.
    1. Ráðstafanir til að ná þeim markmiðum sem koma fram í viðmiðun A2.8 gætu verið eftirtaldar:
     a)      samningar, sem kveða á um þróun starfsframa og starfsþjálfunar, við útgerðarmann eða samtök útgerðarmanna; eða
     b)      ráðstafanir til frekari starfstækifæra með því að koma á fót og viðhalda flokkaskiptum skrám yfir hæfa farmanna; eða
     c)      kynning á tækifærum, bæði um borð og í landi, til frekari þjálfunar og menntunar farmanna svo fyrir hendi séu kostir til að aukinnar starfsþjálfunar og starfshæfni til að tryggja og halda mannsæmandi starfi, auka starfsmöguleika einstaklingsins og mæta breytingum á tækni vinnumarkaði á sviði siglinga.
    2. Hvert aðildarríki ætti, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök farmanna og útgerðarmanna, að setja skýr markmið um starfsleiðsögn, menntun og þjálfun þeirra farmanna sem eru hluti áhafnarinnar sem gegnir skyldum við öruggan rekstur og siglingu skipsins, þ.m.t. viðvarandi þjálfun.

Leiðbeiningar B2.8.2. – Skrá yfir farmenn.
    1. Þar sem skrár eru notaðar til að ráða farmenn til starfa ættu þær að hafa að geyma upplýsingar um alla starfsflokka farmanna með þeim hætti sem ákveðið er í landslögum, samkvæmt venju eða í kjarasamningi.
    2. Farmenn sem eru skráðir á slíkar skrár ættu að ganga fyrir um ráðning í störf á sjó.
    3. Farmönnum sem eru skráðir á slíkar skrár ætti að vera gert skylt að vera til reiðu til starfa með þeim hætti sem ákveðið er í landslögum, samkvæmt venju eða í kjarasamningi.
    4. Að því marki sem landslög eða reglugerðir heimila ætti að endurskoða reglulega fjölda farmanna á slíkum skrám til að ná fram markmiðum um fjölda miðað við þá þörf sem er fyrir hendi á sviði siglinga.
    5. Þegar nauðsynlegt er að fækka farmönnum á slíkum skrám ætti að grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að draga úr skaðlegum áhrifum á farmenn, að teknu tilliti til efnahagslegra og félagslegra aðstæðna í viðkomandi landi.

3. KAFLI – VISTARVERUR OG TÓMSTUNDAAÐSTAÐA,
FÆÐI OG ÞJÓNUSTA ÁHAFNA


Regla 3.1. – Vistarverur og tómstundaaðstaða.


Tilgangur: Að tryggja að farmenn hafi aðgang að mannsæmandi vistarverum og tómstundaaðstöðu um borð.
    1. Hvert aðildarríki skal tryggja að í skipum, sem sigla undir fána þess, hafi farmenn, sem annaðhvort starfa eða búa um borð eða hvorttveggja, aðgang að mannsæmandi vistarverum og tómstundaaðstöðu sem samræmist því markmiði að stuðla að betri heilsu og vellíðan farmanna.
    2. Kröfur í kóðanum um framkvæmd þessarar reglu, sem varða smíði skips og búnað, gilda einungis um skip sem eru smíðuð á þeim degi eða eftir þann dag sem þessi samþykkt öðlast gildi fyrir hlutaðeigandi aðildarríki. Hvað varðar skip sem eru smíðuð fyrir þennan dag skulu kröfurnar, sem tengjast smíði skips og búnaði þess og kveðið er á um í samþykkt um vistarverur skipverja um borð í skipum (endurskoðuð) 1949 (nr. 92) og samþykkt um vistarverur skipverja (viðbótarákvæði) 1970 (nr. 133), gilda áfram að svo miklu leyti sem þær giltu fyrir framangreindan dag samkvæmt lögum eða venju í hlutaðeigandi aðildarríki.
    3. Nema annað sé sérstaklega tekið fram, skal sérhver krafa samkvæmt breytingu á kóðanum, sem snertir vistarverur og tómstundaaðstöðu farmanna, einungis gilda um skip sem eru smíðuð þegar eða eftir að breytingin öðlast gildi fyrir hlutaðeigandi aðildarríki.

Viðmiðun A3.1. – Vistarverur og tómstundaaðstaða.
    1. Hvert aðildarríki skal samþykkja lög og reglur þar sem þess er krafist að skip sem sigla undir fána þess:
     a)      uppfylli lágmarksviðmiðanir til að tryggja að vistarverur farmanna, sem starfa eða búa um borð eða hvorttveggja, séu öruggar, mannsæmandi og í samræmi við viðeigandi ákvæði þessarar viðmiðunar; og
     b)      séu skoðuð til að tryggja, í upphafi og ætíð síðan, að þessum viðmiðunum sé fylgt.
    2. Þegar lög og reglur um framkvæmd þessarar viðmiðunar eru samin og þeim beitt skal lögbært stjórnvald, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök farmanna og útgerðarmanna:
     a)      taka tillit til reglu 4.3 og tengdra ákvæða kóðans um heilsuvernd, öryggi og slysavarnir í ljósi sérstakra þarfa farmanna, sem búa og starfa um borð í skipi, og
     b)      taka tilhlýðilegt tillit til leiðbeininganna í B-hluta kóðans.
    3. Skoðanirnar, sem krafist er samkvæmt reglu 5.1.4, skulu fara fram þegar:
     a)      skip er skráð eða endurskráð; eða
     b)      þegar gerðar hafa verið töluverðar breytingar á vistarverum farmanna í skipi.
    4. Lögbært stjórnvald skal leggja sérstaka áherslu á að tryggja framkvæmd krafna samþykktarinnar sem varða:
     a)      stærð klefa og annarra vistarvera;
     b)      hitun og loftræstingu;
     c)      hávaða og titring og aðra umhverfisþætti;
     d)      hreinlætisaðstöðu;
     e)      lýsingu; og
     f)      sjúkrarými.
    5. Lögbært stjórnvald hvers aðildarríkis skal krefjast þess að skip, sem siglir undir fána þess, uppfylli lágmarkskröfur um vistarverur og tómstundaaðstöðu um borð sem settar eru fram í 6.–17. mgr. þessarar viðmiðunar.
    6. Að því er varðar almennar kröfur um vistarverur:
     a)      skal lofthæð vera fullnægjandi í öllum vistarverum farmanna; lágmarkslofthæð í öllum vistarverum farmanna, þar sem nauðsynlegt er að unnt sé að hreyfa sig á frjálsan og óþvingaðan hátt, skal ekki vera undir 203 sentímetrum; lögbært stjórnvald má leyfa skerta lofthæð í hvers kyns rými eða hluta rýmis í vistarverum þar sem tryggt er að slík skerðing lofthæðar:
                  i)      sé réttmæt; og
                  ii)      hafi ekki í för með sér óþægindi fyrir farmenn;
     b)      skulu vistarverur vera einangraðar á viðeigandi hátt;
     c)      skulu svefnklefar, í skipum öðrum en farþegaskipum samkvæmt skilgreiningu í e- og f-lið 2. reglu alþjóðasamþykktar um öryggi mannslífa á hafinu, 1974, með síðari breytingum („SOLAS-samþykktin“), vera fyrir ofan hleðslulínu miðskipa eða afturá nema í undantekningartilvikum þegar stærð, gerð eða fyrirhuguð þjónusta skipsins veldur því að allir aðrir staðir eru óhentugir en í því tilviki mega svefnklefar vera í framhluta skipsins en í engum tilvikum fyrir framan árekstrarþil;
     d)      má lögbært stjórnvald, að því tilskildu að tilhögun lýsingar og loftræstingar sé fullnægjandi, leyfa að svefnklefar séu staðsettir fyrir neðan hleðslulínu í farþegaskipum og sérstökum skipum, sem eru smíðuð í samræmi við kóða IMO um öryggi skipa til sérstakra nota, sem Alþjóðasiglingamálastofnunin samþykkti 1983 ásamt síðari útgáfum (hér á eftir nefnd „skip til sérstakra nota“), en í engum tilvikum skulu þeir staðsettir fyrir neðan vinnuganga;
     e)      skal ekki vera opið beint inn í svefnklefa frá farmrými og vélarúmi eða frá eldhúsum, geymslum, þurrkherbergjum eða frá sameiginlegri hreinlætisaðstöðu; sá hluti þils sem aðskilur slík rými frá svefnklefum og ytri þiljum skal vera vandlega smíðaður úr stáli eða öðru viðurkenndu efni og vera vatns- og gasþéttur;
     f)      skulu efni, sem eru notuð til að smíða innri þil, veggklæðningu og klæðningu, gólf og samskeyti, vera hentug til þeirra nota og stuðla að heilsusamlegu umhverfi;
     g)      skal lýsing vera viðeigandi og séð skal fyrir fullnægjandi frárennsli; og
     h)      skulu vistarverur og tómstunda- og þjónusta áhafna uppfylla kröfur í reglu 4.3 og tengdum greinum í kóðanum um heilsuvernd, öryggi og slysavarnir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að farmenn eigi á hættu að verða fyrir álagi af völdum hættulegs hávaða og titrings og annarra umhverfisþátta og kemískra efna um borð og farmönnum um borð skal boðið upp á viðunandi starfs- og dvalarumhverfi.
    7. Að því er varðar loftræstingu og hitun:
     a)      skulu svefnklefar og borðsalir vera nægilega vel loftræstir;
     b)      skulu vera loftræstikerfi í vistarverum farmanna, aðskildum loftskeytaklefa og miðlægum stjórnklefa vélarúms í skipum nema í skipum sem eru í reglulegum ferðum í tempruðu loftslagi þar sem það reynist ekki nauðsynlegt;
     c)      skal loftræsting í hvers kyns hreinlætisaðstöðu tengd út undir bert loft og vera aðskilin frá öllum öðrum hlutum vistarveranna; og
     d)      skal séð til þess að viðeigandi hitakerfi tryggi að nægur hiti sé um borð nema í skipum sem sigla eingöngu í hitabeltisloftslagi.
    8. Að því er varðar kröfur um lýsingu, með fyrirvara um sérstaka tilhögun sem leyfð er í farþegaskipum, skulu vistarverur og borðsalir njóta dagsbirtu og hafa fullnægjandi gervilýsingu.
    9. Þegar krafist er svefnvistarvera um borð í skipum gilda eftirfarandi kröfur um svefnklefa:
     a)      í skipum öðrum en farþegaskipum skal hver farmaður hafa einkasvefnklefa; ef um er að ræða skip, sem eru undir 3.000 brúttótonnum eða skip til sérstakra nota, má lögbært stjórnvald veita undanþágu frá þessari kröfu, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna;
     b)      aðskildir svefnklefar skulu vera fyrir karla og konur;
     c)      svefnklefar skulu vera af fullnægjandi stærð og útbúnir á viðeigandi hátt til að tryggja viðunandi þægindi og auðvelda þrif;
     d)      hver farmaður skal, í öllum tilvikum, hafa einkahvílu;
     e)      innra mál hvílu skal vera a.m.k. 198 sentímetrar að lengd og 80 sentímetrar að breidd;
     f)      gólfflötur í svefnklefum farmanna með einni hvílu skal ekki vera undir: i) 4,5 m² í skipum sem eru undir 3.000 brúttótonnum; ii) 5,5 m² í skipum sem eru 3.000 brúttótonn eða stærri en undir 10.000 brúttótonnum; iii) 7 m² í skipum sem eru 10.000 brúttótonn eða stærri;
     g)      lögbært stjórnvald má þó heimila minni gólfflöt í því skyni að sjá fyrir svefnklefum með einni hvílu í skipum undir 3.000 brúttótonnum, farþegaskipum og skipum til sérstakra nota;
     h)      ekki fleiri en tveir farmenn mega deila einum svefnklefa í skipum undir 3.000 brúttótonnum nema í farþegaskipum og skipum til sérstakra nota; í slíkum svefnklefum skal gólfflötur ekki vera undir 7 m²;
     i)      gólfflötur í svefnklefum farmanna, sem sinna skyldum skipstjórnarmanna í farþegaskipum og skipum til sérstakra nota, skal ekki vera undir:
              i)      7,5 m² í klefum sem tveir einstaklingar deila;
              ii)      11,5 m² í klefum sem þrír einstaklingar deila;
              iii)      14,5 m² í klefum sem fjórir einstaklingar deila;
     j)      gólfflötur svefnklefa í skipum til sérstakra nota, sem fleiri en fjórir einstaklingar mega deila, skal ekki vera undir 3,6 m² fyrir hvern einstakling;
     k)      í skipum, öðrum en farþegaskipum og skipum til sérstakra nota, skal gólfflötur fyrir hvern einstakling í svefnklefum farmanna, sem sinna skyldum skipstjórnarmanna, þar sem ekki er einkasetustofa eða dagstofa, ekki vera undir:
                  i)      7,5 m² í skipum undir 3.000 brúttótonnum;
                  ii)      8,5 m² í skipum sem eru 3.000 brúttótonn að stærð eða stærri en undir 10.000 brúttótonnum;
                  iii)      10 m² í skipum sem eru 10.000 brúttótonn að stærð eða stærri;
     l)      í farþegaskipum og skipum til sérstakra nota skal gólfflötur fyrir farmenn sem sinna skyldum yfirmanna, þar sem ekki er einkasetustofa eða dagstofa, ekki vera undir 7,5 m² á mann fyrir lægra setta yfirmenn og ekki undir 8,5 m² fyrir hærra setta yfirmenn; lægra settir yfirmenn teljast vera á rekstrarsviði og hærra settir yfirmenn á stjórnunarsviði;
     m)      skipstjóri, yfirvélstjóri og yfirstýrimaður skulu auk svefnklefa hafa samliggjandi setustofu, dagstofu eða sambærilegt viðbótarrými; lögbært stjórnvald má veita skipum, sem eru undir 3.000 brúttótonnum, undanþágu frá þessari kröfu, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna;
     n)      húsgögn hvers farmanns skulu samanstanda af rúmgóðum fataskáp (a.m.k. 475 lítrar) ásamt skúffu eða samsvarandi rými sem er a.m.k. 56 lítrar; ef skúffan er felld inn í fataskápinn skal samanlagt rými fataskápsins vera a.m.k. 500 lítrar; í honum skal vera hilla og farmaðurinn skal geta læst honum til að vernda persónulegar eigur sínar;
     o)      í hverjum svefnklefa skal vera borð eða skrifborð, sem má vera gólffast, felliborð eða útdregið borð, ásamt þægilegri sætisaðstöðu, eftir þörfum.
    10. Að því er varðar kröfur um borðsali:
     a)      skulu þeir vera í hæfilegri fjarlægð frá svefnklefum og eins nálægt eldhúsi og gerlegt er; lögbært stjórnvald má veita skipum undir 3.000 brúttótonnum undanþágu frá þessari kröfu, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna; og
     b)      skulu þeir vera af fullnægjandi stærð, búnir þægindum og viðeigandi húsgögnum og innréttingum (þ.m.t. viðvarandi drykkjaraðstöðu), að teknu tilliti til fjölda þeirra farmanna sem kunna að nota þá á hverjum tíma; gera skal ráðstafanir til að útbúa aðgreinda eða sameiginlega borðsalsaðstöðu, eftir því sem við á.
    11. Að því er varðar kröfur um hreinlætisaðstöðu:
     a)      skulu allir farmenn hafa hentugan aðgang að hreinlætisaðstöðu um borð þar sem uppfylltar eru lágmarksviðmiðanir um heilbrigðis- og hollustuhætti og viðunandi kröfur um þægindi með aðskildri hreinlætisaðstöðu fyrir karla og konur;
     b)      skal vera greiður aðgangur að hreinlætisaðstöðu frá stjórnpallinum og vélarúminu eða hún staðsett nálægt miðlægum stjórnklefa vélarúms; lögbært stjórnvald má veita skipi undir 3.000 brúttótonnum undanþágu frá þessari kröfu, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna;
     c)      skulu í öllum skipum vera á hentugum stað a.m.k. eitt vatnssalerni, ein handlaug og eitt baðkar eða sturta eða hvorttveggja fyrir hverja sex einstaklinga eða færri sem hafa ekki einkaaðstöðu;
     d)      skal í hverjum svefnklefa um borð í skipum öðrum en farþegaskipum vera handlaug með heitu og köldu, rennandi ferskvatni nema þar sem þannig handlaug er til staðar í viðkomandi einkabaðherbergi;
     e)      má lögbært stjórnvald, að því er varðar farþegaskip sem að öllu jöfnu eru í ferðum sem vara skemur en fjórar klukkustundir í senn, huga að sérstöku fyrirkomulagi eða fækka nauðsynlegri hreinlætisaðstöðu; og
     f)      skal vera heitt og kalt, rennandi ferskvatn á öllum þvottastöðum.
    12. Að því er varðar kröfur um sjúkrarými skulu skip, sem hafa a.m.k. 15 manns í áhöfn og eru í ferðum sem vara lengur en þrjá daga í senn, hafa aðgreind sjúkrarými sem eingöngu skulu vera til læknisnota; lögbært stjórnvald má slaka á þessari kröfu fyrir strandferðaskip; til að unnt sé að samþykkja sjúkrarými um borð skal lögbært stjórnvald tryggja að greiður aðgangur sé að rýminu í öllum veðrum, að öllum sjúklingum sé séð fyrir þægilegum vistarverum og þeim sinnt tafarlaust og á viðeigandi hátt.
    13. Þvottaaðstaða, sem er vel staðsett og búin tækjum, skal vera fyrir hendi.
    14. Á opnum þilförum allra skipa skal vera eitt eða fleiri rými, sem farmenn á frívakt hafa aðgang að, og skal flatarmál þeirra miðast við stærð skipsins og fjölda farmanna um borð.
    15. Á öllum skipum skulu vera aðskildar skrifstofur eða hefðbundin skrifstofa til nota fyrir farmenn sem starfa á þilfari eða í vélarúmi; lögbært stjórnvald má veita skipum undir 3.000 brúttótonnum undanþágu frá þessari kröfu, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna.
    16. Skip, sem eru reglulega í ferðum til hafna þar sem moskítóflugan er landlæg, skulu hafa viðeigandi búnað eftir því sem lögbært stjórnvald krefst.
    17. Um borð skal vera tómstundaaðstaða, þægindi og þjónusta í þágu allra farmanna með hliðsjón af reglu 4.3 og tengdum ákvæðum kóðans um heilsuvernd, öryggi og slysavarnir eins og þau hafa verið aðlöguð til að uppfylla þarfir farmanna sem búa og starfa um borð í skipum.
    18. Lögbært stjórnvald skal krefjast þess að skipstjórinn eða undirmenn hans hafi reglulegt eftirlit með því að vistarverur farmanna séu hreinar, íbúðarhæfar svo mannsæmandi sé og þeim vel við haldið. Skrá skal niðurstöður slíks eftirlits og skulu þær liggja frammi til skoðunar.
    19. Ef um er að ræða skip þar sem nauðsynlegt er að taka tillit, án mismununar, til hagsmuna farmanna, að því er varðar mismunandi og sérstök trúarbrögð og félagslega siði, má lögbært stjórnvald, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, leyfa töluverð frávik frá þessari viðmiðun, að því tilskildu að slík frávik hafi ekki í för með sér að öll aðstaða verði ekki óhagkvæmari en ef þessari viðmiðun hefði verið beitt.
    20. Hvert aðildarríki má, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, veita skipi undir 200 brúttótonnum undanþágu, þar sem það þykir réttmætt, að teknu tilliti til stærðar skipsins og fjölda einstaklinga um borð í tengslum við kröfurnar í eftirfarandi ákvæðum þessarar viðmiðunar:
     a)      b-liðar 7. mgr., d-liðar 11. mgr. og 13. mgr.; og
     b)      f-, h- til l-liðar 9. mgr. að því er varðar gólfflöt eingöngu.
    21. Einungis má veita undanþágur frá kröfum þessarar viðmiðunar þar sem þær eru sérstaklega heimilaðar í þessari viðmiðun og aðeins við tilteknar aðstæður þar sem hægt er að réttlæta slíkar undanþágur með gildum rökum og með það í huga að vernda heilsu og öryggi farmanna.

Leiðbeiningar B3.1. – Vistarverur og tómstundaaðstaða.


Leiðbeiningar B3.1.1. – Hönnun og smíði.
    1. Ytri þil svefnklefa og borðsala ættu að vera nægilega vel einangruð. Allar vélareisnir og öll þil sem liggja að eldhúsum og öðrum rýmum þar sem hiti myndast og þar sem hitaáhrifa kann að gæta í samliggjandi vistarverum eða göngum ættu að vera nægilega vel einangruð. Einnig skal gera ráðstafanir til að koma fyrir vörn gegn hitaáhrifum frá eim- og/eða hitavatnslögnum.
    2. Svefnklefar, borðsalir, tómstundasalir og gangar innan vistarvera ættu að vera nægilega vel einangraðir til að koma í veg fyrir slaga eða of mikinn hita.
    3. Yfirborð þilja og neðra byrðis þilfara ætti að vera úr efni sem auðvelt er að þrífa. Smíði þeirra ætti ekki að vera með þeim hætti að líklegt sé að þau hýsi meindýr.
    4. Yfirborð þilja og neðra byrðis þilfara í svefnklefum og borðsölum ætti að vera þannig að auðvelt sé að þrífa það, vera ljóst á lit og með slitsterkri áferð sem er ekki eitruð.
    5. Þilför allra vistarvera farmanna ættu að vera úr viðurkenndu efni og smíðuð með viðurkenndum hætti, yfirborð þeirra vatnshelt, með hálkuvörn og úr efni sem auðvelt er að halda hreinu.
    6. Þar sem gólfefni er samsett ættu hliðarsamskeytin að vera þannig að ekki geti myndast sprungur.

Leiðbeiningar B3.1.2. – Loftræsting.
    1. Loftræstikerfi fyrir svefnklefa og borðsali ætti að vera þannig stillt að gæði loftsins viðhaldist og tryggt sé að hreyfing lofts sé fullnægjandi við hvers kyns veður- og loftlagsskilyrði.
    2. Loftjöfnunarkerfi, hvort sem um er að ræða miðstýrða eða sjálfstæða einingu, ætti að vera þannig hannað:
     a)      að það viðhaldi fullnægjandi hita- og rakastigi miðað við loftið úti, tryggi fullnægjandi loftskipti í öllum loftjöfnunarrýmum, taki tillit til sérstakra eiginleika aðgerða á hafi úti og þannig úr garði gert að ekki myndist of mikill hávaði eða titringur; og
     b)      að auðvelt sé að þrífa það og sótthreinsa til að hefta eða hafa stjórn á útbreiðslu sjúkdóma.
    3. Orka ætti ætíð að vera tiltæk til að starfrækja loftjöfnunarkerfi og annan hjálparbúnað fyrir loftræstikerfi, sem krafist er samkvæmt framangreindum málsgreinum þessara leiðbeininga, þegar farmenn búa eða starfa um borð og ef aðstæður krefjast þess. Ekki þarf þó að framleiða þessa orku í neyðarorkugjafa.

Leiðbeiningar B3.1.3. – Hitun.
    1. Kerfi til að hita upp svefnklefa farmanna ætti ætíð að vera í gangi þegar farmenn búa eða starfa um borð og aðstæður krefjast notkunar þess.
    2. Í öllum skipum, þar sem krafist er hitunarkerfis, ætti hitagjafinn að vera heitt vatn, heitt loft, rafmagn, gufa eða sambærilegt. Samt sem áður ætti ekki að nota gufu til að hita upp vistarverur áhafnar. Hitunarkerfið ætti að geta viðhaldið viðunandi hita í vistarverum farmanna við þau veður- og loftlagsskilyrði sem líklegt er að ríki þar sem skipið er í ferðum. Lögbært stjórnvald ætti að mæla fyrir um gildandi viðmiðun.
    3. Koma ætti ofnum og öðrum hitunarbúnaði þannig fyrir, og verja hann ef nauðsyn krefur, að hann hafi ekki í för með sér eldsvoða, hættu eða óþægindi fyrir farmenn.

Leiðbeiningar B3.1.4. – Lýsing.
    1. Í öllum skipum ætti að vera rafmagnsljós í vistarverum farmanna. Ef ekki er um að ræða tvo sjálfstæða raforkugjafa til lýsingar ætti að sjá fyrir viðbótarlýsingu með vel smíðuðum lömpum eða neyðarlýsingarbúnaði.
    2. Í svefnklefum ættu að vera rafmagnsleslampar við höfðagafl hverrar hvílu.
    3. Lögbært stjórnvald ætti að ákveða viðeigandi viðmiðanir fyrir náttúrulega lýsingu og gervilýsingu.

Leiðbeiningar B3.1.5. – Svefnklefar.
    1. Tilhögun hvíla um borð ætti að vera fullnægjandi þannig að það fari eins vel um farmennina og mögulegt er og hvern þann sem kann að vera í fylgd með þeim.
    2. Ef stærð skipsins, starfsemi þess og hönnun gerir það réttmætt og hagkvæmt ætti að skipuleggja og hanna svefnklefa með einkabaðherbergi, þ.m.t. vatnssalerni, til að farmenn búi við viðunandi þægindi og þrifnað.
    3. Ef mögulegt er, ætti að koma því þannig fyrir að svefnklefar dagmanna og næturvaktmanna séu aðgreindir og að engir farmenn sem standa einungis dagvakt deili klefa með farmönnum sem standa næturvaktir.
    4. Ef um er að ræða farmenn, sem gegna stöðu lágt setts yfirmanns, ættu ekki fleiri en tveir einstaklingar að deila svefnklefa.
    5. Ef því verður við komið, ætti að huga að því að stækka aðstöðuna, sem um getur í m-lið 9. mgr. í viðmiðun A3.1, þannig að hún taki einnig til fyrsta vélstjóra.
    6. Rými, sem hvílur, skápar, kommóður og sæti taka upp, ætti að vera innifalið í mælingu gólfflatarins. Ekki ætti að telja með lítil og óreglulega löguð rými, sem eru ekki veruleg viðbót við rými til frjálslegra athafna, og þar sem ekki er unnt að koma fyrir húsgögnum.
    7. Hvílur ættu ekki að vera í meira en tveggja hæða kojum; ef hvílum er komið fyrir meðfram skipshliðinni ætti einungis að vera ein hæð þar sem kýrauga er fyrir ofan hvílu.
    8. Fjarlægð neðri hvílu frá þilfari ætti ekki að vera meiri en 30 sentímetrar; efri hvíla ætti að vera u.þ.b. miðja vegu milli botns neðri hvílu og neðri hliðar þilfarsbita.
    9. Burðargrind hvílu og fjalar, ef einhver er, skal vera úr viðurkenndu, hörðu og sléttu efni, sem er ekki ryðgjarnt eða líklegt til að hýsa meindýr. 10. Ef hvíla er smíðuð úr rörlaga grind skal hún vera algjörlega þétt og án gata sem meindýr gætu átt greiða leið um.
    11. Í hverri hvílu skal vera þægileg dýna með bólstruðum botni eða samsett bólstruð dýna, þ.m.t. gormabotn eða springdýna. Dýnan og bólstrunarefnið ættu að vera úr viðurkenndu efni. Ekki ætti að nota tróð sem líklegt má telja að hýsi meindýr.
    12. Ef hvíla er staðsett fyrir ofan aðra hvílu ætti botn efri hvílunnar, sem er undir botndýnunni eða gormabotninum, að vera rykþéttur.
    13. Húsgögn ættu að vera úr sléttu, hörðu smíðaefni sem verpist ekki eða tærist auðveldlega.
    14. Í svefnklefum ættu að vera gluggatjöld eða annað sambærilegt fyrir kýraugum.
    15. Í svefnklefum ætti einnig að vera spegill, lítill skápur fyrir snyrtivörur, bókahilla og nægilega margir fatasnagar.

Leiðbeiningar B3.1.6. – Borðsalir.
    1. Borðsalir mega annaðhvort vera sameiginlegir eða aðskildir. Taka ætti þessa ákvörðun, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, og að fengnu samþykki lögbærs stjórnvalds. Taka ætti tillit til þátta eins og stærð skipsins og mismunandi menningarlegra, trúarlegra og félagslegra þarfa farmanna.
    2. Ef sjá á farmönnum fyrir aðskildri borðsalsaðstöðu ætti hún einnig að vera fyrir:
     a)      skipstjóra og yfirmenn; og
     b)      lágt setta yfirmenn og aðra farmenn.
    3. Á skipum öðrum en farþegaskipum ætti gólffötur borðsala farmanna að vera a.m.k. 1,5 m² á hvern einstakling af fyrirhuguðu sætaframboði.
    4. Í öllum skipum ættu að vera borð og viðeigandi sæti, föst eða hreyfanleg, í borðsölum, sem nægja fyrir þann fjölda farmanna sem líklegt má telja að noti þau hverju sinni.
    5. Eftirfarandi skal ætíð vera til staðar þegar farmenn eru um borð:
     a)      kæliskápur, sem koma ætti fyrir á hentugum stað og sem er nógu stór fyrir þann fjölda einstaklinga sem notar borðsalinn eða borðsalina;
     b)      aðstaða fyrir heita drykki; og
     c)      aðstaða fyrir kalda drykki.
    6. Þar sem býtibúr eru ekki aðgengileg frá matsölum ætti að sjá fyrir fullnægjandi skápum fyrir borðbúnað og viðeigandi uppþvottaaðstöðu.
    7. Yfirborð borða og sæta ætti að vera úr rakaþolnu efni.

Leiðbeiningar B3.1.7. – Hreinlætisaðstaða.
    1. Handlaugar og baðkör ættu að vera af fullnægjandi stærð og smíðuð úr viðurkenndu efni með slétt yfirborð sem ekki er líklegt til að springa, flagna eða tærast.
    2. Öll vatnssalerni ættu að vera með viðurkenndu sniði og með fullnægjandi vatnsstreymi eða með öðrum viðeigandi búnaði til niðurskolunar, t.d. með lofti, og skulu þau ætíð vera tiltækileg og með sjálfstæðri stýringu.
    3. Hreinlætisaðstaða, sem er ætluð fleiri en einum einstaklingi, ætti að uppfylla eftirfarandi:
     a)      gólf ættu að vera úr slitsterku, rakaþolnu efni og hafa fullnægjandi frárennsli;
     b)      þil ættu að vera úr stáli eða öðru viðurkenndu efni sem er vatnsþétt í allt að 23 sentímetra hæð miðað við þilfarsbrún;
     c)      aðstaðan ætti að vera vel upplýst, hituð og loftræst;
     d)      vatnssalerni ættu að vera í hentugri fjarlægð frá svefnklefum og þvottarými en aðskilin frá þeim án beins aðgangs frá svefnklefum eða gangi milli svefnklefa og vatnssalerna þar sem ekki er um að ræða neinn annan aðgang; þessi krafa gildir ekki þegar vatnssalerni er staðsett í rými á milli tveggja svefnklefa þar sem ekki búa fleiri en fjórir farmenn; og
     e)      ef fleiri en eitt vatnssalerni eru í rými ættu þau að vera nægilega afskermuð til að tryggja næði.
    4. Þvottaaðstaða, sem farmönnum er séð fyrir, ætti að vera búin:
     a)      þvottavélum;
     b)      þurrkurum eða nægilega hituðum og loftræstum þurrkrýmum; og
     c)      straujárnum og straubrettum eða jafngildi þeirra.

Leiðbeiningar B3.1.8. – Sjúkrarými.
    1. Sjúkrarými ætti að vera þannig hannað að auðvelt sé að veita læknisfræðileg ráð og skyndihjálp og þannig úr garði gert að unnt sé að hefta útbreiðslu smitsjúkdóma.
    2. Tilhögun inngangs, hvíla, lýsingar, loftræstingar, hitunar og vatnsveitu ætti að tryggja þægindi og auðvelda meðferð þeirra sem þar dvelja.
    3. Lögbært stjórnvald ætti að mæla fyrir um fjölda nauðsynlegra sjúkrahvílna.
    4. Sjá ætti þeim, sem dvelja í sjúkrarými, fyrir sérstakri hreinlætisaðstöðu, annaðhvort sem hluta af rýminu eða mjög nálægt því. Slík hreinlætisaðstaða ætti a.m.k. að vera búin vatnssalerni, einni handlaug og einu baðkari eða sturtu.

Leiðbeiningar B3.1.9. – Önnur aðstaða.
    Ef um er að ræða aðskilda aðstöðu fyrir starfslið véladeildar til að skipta um föt ætti hún að vera:
     a)      staðsett utan vélarúmsins en með greiðan aðgang að því; og
     b)      búin einkafataskápum og baðkörum eða sturtum eða hvorutveggja ásamt handlaugum með heitu og köldu, rennandi ferskvatni.

Leiðbeiningar B3.1.10. – Sængurfatnaður, borðbúnaður og ýmis ákvæði.
    1. Hvert aðildarríki ætti að íhuga að beita eftirfarandi grundvallarreglum:
     a)      útgerðarmenn ættu að láta öllum farmönnum í té hreinan sængurfatnað og borðbúnað til nota um borð þegar þeir eru í þjónustu skipsins og þessir farmenn ættu að ábyrgjast að skila honum þegar skipstjórinn tilgreinir svo og þegar þeir hverfa úr þjónustu skipsins;
     b)      sængurfatnaður ætti að vera af miklum gæðum og diskar, bollar og annar borðbúnaður ætti að vera úr viðurkenndu efni sem auðvelt er að hreinsa; og
     c)      útgerðarmaður ætti að láta öllum farmönnum í té handklæði, sápu og salernispappír.

Leiðbeiningar B3.1.11. – Tómstundaaðstaða, póstur og tilhögun skipsheimsókna.
    1. Skoða ætti tómstundaaðstöðu og -þjónustu reglulega til að tryggja að hún sé viðeigandi í ljósi breytinga sem verða á þörfum farmanna, sem stafa af tækni- og rekstrarlegum þáttum, ásamt annarri þróun í útgerð.
    2. Í aðstöðu til tómstundaiðkunar ætti a.m.k. að vera bókaskápur ásamt aðstöðu til lestrar, skrifta og þar sem því verður við komið, leikja.
    3. Lögbært stjórnvald ætti við skipulagningu tómstundaaðstöðu að huga að því að sjá fyrir kaffistofu.
    4. Einnig ætti að huga að því að sjá farmönnum fyrir eftirfarandi þeim að kostnaðarlausu, þar sem því verður við komið:
     a)      herbergi til tóbaksreykinga;
     b)      aðstöðu til að horfa á sjónvarp og ná útvarpssendingum;
     c)      aðstöðu til að sýna kvikmyndir sem eru nægilega margar fyrir alla sjóferðina og skipti höfð á þeim með reglulegu millibili ef þörf krefur;
     d)      íþróttabúnaði, þ.m.t. þjálfunarbúnaður, borð- og þilfarsleikir;
     e)      sundaðstöðu, ef mögulegt er;
     f)      bókasafni með starfstengdum bókum ásamt öðrum bókum þar sem bókakostur ætti að nægja alla sjóferðina og skipt er um hann með reglulegu millibili;
     g)      aðstöðu til handiðnar;
     h)      rafbúnaði, eins og útvarpstækjum, sjónvarpstækjum, myndbandstækjum, DVD-spilara og geisladiskaspilara, einkatölvu og hugbúnaði ásamt snælduhljóðrita og -spilara;
     i)      eftir því sem við á, baraðstöðu um borð fyrir farmenn nema það stríði gegn þjóðlegum, trúarlegum eða félagslegum siðvenjum; og
     j)      góðu aðgengi að símafjarskiptum frá skipi til lands og tölvupóst- og Netaðgangi þar sem hvers kyns gjöld fyrir notkun þessarar þjónustu eru sanngjörn, ef tök eru á.
    5. Sjá ætti til þess með öllum tiltækum ráðum að póstsendingar farmanna séu eins ábyggilegar og hraðar og frekast verður unnt. Einnig ætti að kanna hvort komast megi hjá því að farmenn þurfi að borga aukaburðargjald þegar breyta þarf utanáskrift á bréfi af orsökum sem eru þeim óviðráðanlegar.
    6. Gera ætti ráðstafanir til að sjá til þess, með fyrirvara um gildandi landslög, þjóðarétt eða reglugerðir og sé það mögulegt og réttmætt, að farmönnum verði með skjótum hætti veitt leyfi til að fá heimsóknir maka, skyldmenna og vina um borð þegar skipið er í höfn. Slíkar ráðstafanir skulu uppfylla kröfur um öryggisheimildir.
    7. Huga skal að þeim möguleika að leyfa mökum farmanna að ferðast með þeim um borð öðru hverju, þar sem það er gerlegt og raunhæft. Umræddir makar ættu að hafa fullnægjandi tryggingar gegn slysum og sjúkdómum; útgerðarmenn ættu að veita farmanni alla þá aðstoð sem mögulegt er til að koma á slíkum tryggingum.

Leiðbeiningar B3.1.12. – Að fyrirbyggja hávaða og titring.
    1. Vistarverur og aðstaða fyrir tómstundir og þjónustu áhafna ætti að vera staðsett eins langt og mögulegt er frá vélum, stýrisbúnaði, þilfarsvindum, loftræsti-, hitunar- og loftjöfnunarbúnaði ásamt öðrum háværum véla- og tækjabúnaði.
    2. Nota ætti hljóðeðlisfræðilega einangrun eða önnur viðeigandi hljóðgleypandi efni við smíði og frágang þilja, þilfara og gólfa innan hljóðmyndandi rýma ásamt sjálflokandi, hljóðeinangrandi hurðum sem loka dyrum að vélarýmum. 3. Vélarúm og önnur vélarými ættu að vera útbúin, þar sem því verður við komið, með hljóðeinangrandi miðlægum stjórnklefum vélarúms fyrir starfslið vélarúms. Einangra ætti vinnurými eins og verkstæði, eftir því sem tök eru á, frá almennum hávaða vélarúms og gera ætti ráðstafanir til að draga úr hávaða við rekstur véla.
    4. Mörk fyrir hávaðastig vinnurýmis og vistarvera ættu að vera í samræmi við alþjóðlegar starfsvenjur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um álagsstig, þ.m.t. þau mörk sem tilgreind eru í ritinu „Umhverfisþættir á vinnustöðum, 2001“ og, þar sem við á, sérstaka vernd sem Alþjóðasiglingamálastofnunin leggur til og með öllum síðari breytingum og viðbótarskjölum fyrir viðunandi hávaðamörk um borð í skipum.
    5. Vistarverur, tómstunda- eða þjónustuaðstaða áhafna ætti ekki að vera útsett fyrir mikinn hávaða.

Regla 3.2. – Fæði og þjónusta áhafna.


Tilgangur: Að tryggt sé að farmenn hafi aðgang að gæðamatvælum og -drykkjarvatni sem kveðið er á um í reglum um hollustuhætti.
    1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að skip, sem sigla undir fána þess, hafi um borð og að þar sé borinn fram matur og drykkjarvatn af fullnægjandi gæðum, næringarinnihaldi og magni þannig að uppfylltar séu nægilega vel kröfur sem gerðar eru um borð í skipinu, að teknu tilliti til mismunandi þátta sem snerta menningu og trúarbrögð.
    2. Farmenn um borð í skipi ættu að eiga rétt á fæði þeim að kostnaðarlausu á ráðningartímabilinu.
    3. Farmenn, sem eru ráðnir sem matsveinar og bera ábyrgð á matargerð, þurfa að hafa hlotið menntun og þjálfun og uppfylla hæfnisskilyrði til að gegna starfi sínu um borð í skipi.

Viðmiðun A3.2. – Fæði og þjónusta áhafna.


    1. Hvert aðildarríki skal samþykkja lög og reglugerðir eða aðrar ráðstafanir til að kveða á um lágmarksviðmiðanir um magn og gæði fæðis og drykkjarvatns og viðmiðanir um þjónustu áhafna sem gilda um málsverði fyrir farmenn um borð í skipum, sem sigla undir fána þess, auk þess sem það skal bjóða upp á menntun til að kynna og hrinda í framkvæmd þeim viðmiðum sem um getur í þessari málsgrein.
    2. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að skip, sem sigla undir fána þess, uppfylli eftirfarandi lágmarksviðmiðanir:
     a)      birgðir af matvælum og drykkjarvatni skulu vera hæfilegar, að því er varðar magn, næringargildi, gæði og fjölbreytni, með hliðsjón af fjölda farmanna um borð, trúarlegra þarfa þeirra og menningarlegra siðvenja sem snerta matvæli og lengd og eðli sjóferðarinnar;
     b)      skipulag og búnaður veitingarekstrardeildar skal vera þannig að unnt sé að sjá farmönnum fyrir fullnægjandi, fjölbreyttum og næringarríkum máltíðum sem eru tilreiddar og framreiddar við heilnæmar aðstæður; og
     c)      starfslið við þjónustu áhafna skal hafa hlotið viðunandi þjálfun eða fyrirmæli um starf sitt.
    3. Útgerðarmenn skulu sjá til þess að farmenn, sem hafa verið ráðnir til að gegna starfi matsveina á skipi, hafi viðeigandi menntun og hæfi og teljist færir um að sinna starfinu í samræmi við kröfur sem mælt er fyrir um í lögum og reglugerðum viðkomandi aðildarríkis.
    4. Kröfur skv. 3. mgr. þessarar viðmiðunar skulu fela í sér námskeið sem lögbært stjórnvald hefur samþykkt eða viðurkennt og sem tekur til hagnýtrar matreiðslu, hreinlætis starfsmanna og meðhöndlun matvæla, geymslu matvæla, eftirlits með birgðum, umhverfisverndar og heilbrigðis og öryggis við þjónustu áhafna.
    5. Lögbært stjórnvald má ekki krefjast þess að um borð í skipi, þar sem mælt er fyrir um 10 eða færri í áhöfn eftir eðli og stærð áhafnarinnar eða tegund viðskipta, sé menntaður og hæfur matsveinn en hver sá sem vinnur við matseld í eldhúsi skal hafa hlotið þjálfun og leiðbeiningar um hreinlæti starfsmanna og meðhöndlun matvæla ásamt meðferð og geymslu matvæla um borð í skipi.
    6. Við aðstæður þar sem brýn nauðsyn krefur má lögbært stjórnvald veita undanþágu sem heimilar matsveini, sem ekki hefur tilskilda menntun og hæfi, að starfa um borð í tilteknu skipi í takmarkaðan tíma þar til komið er til næstu viðkomuhafnar sem hentar eða í tiltekinn tíma, sem er ekki lengri en einn mánuður, að því tilskildu að einstaklingurinn, sem fær undanþáguna, geti sinnt lausu stöðunni með fullnægjandi hætti að mati stjórnvalda.
    7. Í samræmi við málsmeðferð um fullnægingu formskilyrða skv. 5. kafla skal lögbært stjórnvald fara fram á að skipstjórinn eða aðrir undir hans stjórn hafi reglubundið, skjalfest eftirlit með:
     a)      birgðum af matvælum og drykkjarvatni;
     b)      öllu rými og búnaði til geymslu og meðhöndlunar matvæla og drykkjarvatns; og
     c)      eldhúsi og öðrum búnaði fyrir tilreiðslu og framreiðslu máltíða.
    8. Enginn farmaður undir 18 ára aldri skal ráðinn til starfa eða vinna sem matsveinn á skipi.

Leiðbeiningar B3.2. – Fæði og þjónusta áhafna.


Leiðbeiningar B3.2.1. – Eftirlit, menntun, rannsókn og útgáfa.
    1. Lögbært stjórnvald ætti, í samvinnu við aðrar viðeigandi stofnanir og samtök, að safna nýjustu upplýsingum um næringarfræði og aðferðir við að kaupa, geyma, varðveita, elda og framreiða mat með sérstakri tilvísun til krafna um þjónustu áhafna um borð í skipi. Þessi gögn þurfa að vera aðgengileg, ókeypis eða á viðráðanlegu verði fyrir framleiðendur og höndlara matvæla og búnaðar, skipstjóra, þernur og matsveina auk samtaka útgerðarmanna og farmanna sem hlut eiga að máli. Nota ætti viðeigandi útgáfuefni í þessu skyni, svo sem handbækur, bæklinga, veggspjöld, kort eða auglýsingar í viðskiptatímaritum.
    2. Lögbært stjórnvald ætti að gefa út tilmæli um að forðast sóun matvæla, stuðla að viðeigandi hreinlæti og tryggja eins góða og þægilega vinnutilhögun og unnt er.
    3. Lögbært stjórnvald ætti, í samvinnu við viðkomandi skrifstofur og stofnanir, að semja fræðsluefni og útbúa upplýsingar til notkunar um borð sem snerta aðferðir til að sjá fyrir fullnægjandi matvælabirgðum og þjónustu áhafna.
    4. Lögbært stjórnvald ætti að hafa nána samvinnu við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna og við stjórnvöld, sem fást við matvæla- og heilbrigðismál innan lands og í héraði, og mega, ef nauðsyn krefur, nýta sér þjónustu slíkra stjórnvalda.

Leiðbeiningar B3.2.2. – Matsveinar.
    1. Farmenn ættu því aðeins að teljast hæfir sem matsveinar á skipum ef þeir hafa:
     a)      að baki lágmarkssiglingatíma að kröfu lögbærs stjórnvalds og mætti vera breytilegur með hliðsjón af menntun þeirra og hæfi eða reynslu;
     b)      staðist próf sem lögbært stjórnvald mælir fyrir um eða staðist sambærilegt próf að loknu viðurkenndu námskeiði fyrir matsveina.
    2. Annaðhvort lögbært stjórnvald eða viðurkenndur skóli fyrir matsveina undir stjórn þess má halda prófið, sem mælt er fyrir um, og gefa út skírteini milliliðalaust.
    3. Lögbært stjórnvald ætti að kveða á um viðurkenningu, eftir því sem við á, á skírteinum um menntun og hæfi matsveina á skipum sem önnur aðildarríki, sem hafa staðfest þessa samþykkt eða samþykkt um útgáfu hæfnisskírteina fyrir matsveina á skipum frá 1946 (nr. 69), hafa staðfest eða annar viðurkenndur aðili.

4. KAFLI – HEILSUVERND, LÆKNISHJÁLP,
VELFERÐ OG TRYGGINGAVERND


Regla 4.1. – Læknishjálp um borð í skipi og í landi.


Tilgangur: Að vernda heilsu farmanna og tryggja skjótan aðgang þeirra að læknishjálp um borð í skipi og í landi.
    1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að öllum farmönnum um borð í skipum sem sigla undir fána þess séu tryggðar fullnægjandi ráðstafanir til heilsuverndar og að þeir hafi aðgang að skjótri og fullnægjandi læknishjálp á meðan þeir starfa um borð.
    2. Verndin og hjálpin skv. 1. málsgrein þessarar reglu skal, að meginreglu, vera veitt farmönnunum að kostnaðarlausu.
    3. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að farmenn um borð í skipum á yfirráðasvæði þess sem þurfa á tafarlausri læknishjálp að halda fá aðgang að sjúkraaðstöðu í landi.
    4. Kröfurnar sem mælt er fyrir um í kóðanum um heilsuvernd og læknishjálp um borð fela í sér viðmiðanir um ráðstafanir sem miða að því að veita farmönnum heilsuvernd og læknishjálp sem líkasta þeirri sem gengur og gerist í landi.

Viðmiðun A4.1. – Læknishjálp um borð í skipi og í landi.


    1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að ráðstafanir um heilsuvernd og læknishjálp (þ.m.t. nauðsynlega tannvernd) fyrir farmenn sem starfa um borð í skipi sem siglir undir fána þess séu teknar upp og að þær:
     a)      tryggi að um farmenn gildi almenn ákvæði um heilsuvernd og læknishjálp sem máli skipta fyrir skyldur þeirra auk sérstakra ákvæða um störf um borð í skipi; b) tryggi að farmenn njóti heilsuverndar og sjúkrahjálpar sem er sem líkustu þeirri sem starfsmenn í landi njóta almennt, þ.m.t. skjótur aðgangur að nauðsynlegum lyfjum, læknisáhöldum og sjúkraaðstöðu til að greina og meðhöndla og að læknisfræðilegum upplýsingum og sérfræðiþekkingu;
     b)      veiti farmönnum rétt til þess í viðkomuhöfn að fara án tafar til læknis eða tannlæknis með tilskilda menntun og hæfi, eftir því sem við verður komið;
     c)      tryggi, að svo miklu leyti sem það samræmist landslögum og venju í aðildarríki, að læknis- og heilsuverndarþjónusta sé veitt farmönnum þeim að kostnaðarlausu á meðan þeir eru um borð í skipi eða í erlendri höfn; og
     d)      takmarkist ekki við meðferð sjúkra eða slasaðra farmanna heldur feli í sér fyrirbyggjandi ráðstafanir svo sem heilsueflingu og menntun á sviði heilbrigðismála.
    2. Lögbært stjórnvald skal taka upp staðlað skýrslueyðublað sem skipstjóri og viðkomandi heilsugæslustarfsmaður um borð eða í landi notar. Form og innihald þess, ef það er útfyllt, skal vera háð trúnaðarkvöð og aðeins skal nota það greiða fyrir meðferð farmanna.
    3. Hvert aðildarríki skal setja lög og reglugerðir þar sem kveðið er á um kröfur um sjúkrarými og rými til að sinna læknishjálp og um lækningatæki og þjálfun á skipum sem sigla undir fána þeirra.
    4. Í landslögum og reglugerðum skal að lágmarki kveðið á um eftirfarandi kröfur:
     a)      öll skip skulu hafa um borð lyfjakistu, lækningatæki og lækningabók, en mæla skal fyrir um innihald þeirra og það vera háð reglulegu eftirliti lögbærs stjórnvalds; kröfur sem gerðar eru innan lands skulu taka tillit til tegundar skipsins, fjölda einstaklinga um borð og eðlis sjóferðar, ákvörðunarstaðar og lengdar sjóferða auk viðkomandi tilmæla innan lands um heilbrigðisviðmiðanir;
     b)      skip með fleiri en 100 einstaklinga um borð og stunda millilandasiglingar sem vara lengur en þrjá daga skulu hafa lækni um borð sem er til þess menntaður og hæfur veita læknishjálp; í landslögum eða reglugerðum skal einnig tilgreina hvaða önnur skip skulu hafa lækni um borð, meðal annars að teknu tilliti til þátta eins og lengdar, eðlis og aðstæðna sjóferðar og fjölda farmanna borð;
     c)      skipum sem hafa ekki lækni um borð skal annað hvort gert skylt að hafa um borð a.m.k. einn farmann sem er falið að veita læknishjálp og gefa lyf sem hluti af reglulegu starfi sínu eða a.m.k. einn farmann sem er hæfur til þess að veita skyndihjálp; einstaklingar sem falið er að veita læknishjálp um borð og eru ekki læknar skulu hafa lokið með fullnægjandi hætti menntun og þjálfun í læknishjálp sem uppfyllir kröfur alþjóðasamþykktar um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW); farmenn sem eru tilnefndir til að veita skyndihjálp skulu hafa lokið með fullnægjandi hætti þjálfun í hjálp í viðlögum sem uppfyllir kröfur STCW; tilgreina skal í landslögum eða reglugerðum það þjálfunarstig sem er viðurkennt, meðal annars að teknu tilliti til þátta eins og lengdar, eðlis og aðstæðna sjóferðar og fjölda farmanna borð; og
     d)      lögbært stjórnvald skal tryggja með hjálp fyrirframskipulagðs kerfis að læknisfræðileg aðstoð með hjálp almennra fjarskipta eða gervihnattafjarskipta sé tiltæk skipum á sjó, þ.m.t. að sérfræðiaðstoð sé tiltæk allan sólarhringinn; læknisfræðileg aðstoð, þ.m.t. framsending læknisfræðilegra skeyta með hjálp almennra fjarskipta eða gervihnattafjarskipta milli skipa og þeirra aðila í landi sem veita aðstoðina, skal vera tiltæk burtséð frá því undir hvaða fána þeir sigla.

Leiðbeiningar B4.1. – Læknishjálp um borð í skipi og í landi.


Leiðbeiningar B4.1.1. – Læknishjálp veitt.
    1. Við mat á umfangi læknisfræðilegrar þjálfunar sem veita á um borð í skipum sem þurfa ekki að hafa lækni um borð ætti lögbært stjórnvald að krefjast þess að:
     a)      skip sem geta að öllu jöfnu leitað læknishjálpar hæfs starfsliðs og komist til sjúkraaðstöðu innan átta klukkustuna ættu að hafa tilgreint a.m.k. einn farmann sem hefur hlotið viðurkennda þjálfun í skyndihjálp sem krafist er samkvæmt STCW, sem gerir þessum einstaklingum kleift að grípa strax til skilvirkra aðgerða ef slys eða veikindi verða um borð í skipi og nýta læknisfræðileg aðstoð með hjálp almennra fjarskipta eða gervihnattafjarskipta; og
     b)      um borð í öllum öðrum ætti að tilnefna a.m.k. einn farmann sem hefur hlotið viðurkennda þjálfun í skyndihjálp sem krafist er samkvæmt STCW 1978, þ.m.t. starfsþjálfun og þjálfun í björgun mannslífa svo sem meðferð sem felur í sér inndælingu í æð, sem gerir þeim einstaklingum sem málið varðar kleift að taka þátt samræmdum áætlunum um læknisaðstoð til skipa á sjó og að veita sjúkum eða slösuðum fullnægjandi læknishjálp á meðan þeir dvelja um borð.
    2. Starfsþjálfunin sem um getur í 1. mgr. þessara leiðbeininga ætti að byggjast á efni í nýjustu útgáfum ritanna Alþjóðleg læknisráðgjöf fyrir skip (International Medical Guide for Ships), Leiðarvísir um hjálp í skyndihjálp til notkunar í slysatilvikum þar sem hættulegur varningur á í hlut (Medical First Aid Guide for Use in Accidents Involving Dangerous Goods), Leiðbeiningarrit um þjálfun sjómanna (Document for Guidance – An International Maritime Training Guide) og læknisfræðilegi hluti Alþjóðamerkjabókarinnar (International Code of Signals) auk annarra álíka innanlandsrita.
    3. Einstaklingarnir sem um getur í 1 mgr. þessara leiðbeininga og aðrir farmenn sem lögbært stjórnvald kann að krefjast ættu, á u.þ.b. fimm ára fresti, að sitja endurmenntunarnámskeið til að gera þeim kleift að viðhalda og auka við þekkingu sína og færni og tileinka sér nýja tækni.
    4. Ábyrgir einstaklingar sem tilnefndir eru af lögbæru stjórnvaldi ættu að halda við og skoða lyfjakistuna og innihald hennar, ásamt lækningatækjum og lækningabók sem eru um borð, með reglulegu millibili og ekki sjaldnar en á tólf mánaða fresti og skulu þeir tryggja að merkingar, fyrningardagsetningar og geymsluaðstæður allra lyfja og leiðbeiningar um notkun þeirra séu athugaðar og virkni allra tækja prófuð eftir þörfum. Við útgáfu eða endurskoðun lækningabókar skipsins sem notuð er innan lands og þegar innihald sjúkrakassa og læknisáhöld eru ákveðin ætti lögbært stjórnvald að hafa til hliðsjónar alþjóðleg tilmæli á þessu sviði, þ.m.t. nýjustu útgáfur ritanna Alþjóðleg læknisráðgjöf fyrir skip og aðra leiðarvísa sem um getur í 2. mgr. þessara leiðbeininga.
    5. Hafi farmur, sem er flokkaður hættulegur, ekki verið tilgreindur í nýjustu útgáfu Leiðarvísis í skyndihjálp til notkunar í slysatilvikum þar sem hættulegur varningur á í hlut, ætti sjá til þess að nauðsynlegar upplýsingar um eðli efnanna, áhættan sem þeim fylgir, nauðsynlegar persónuhlífar, viðkomandi læknisaðgerðir og sértækt móteitur sé tiltækt farmönnunum. Slíkt sértækt móteitur og persónuhlífar ættu að ætíð að vera um borð þegar slíkur hættulegur farmur er fluttur. Þessar upplýsingar ættu að vera hluti af stefnumótun og áætlanagerð skipsins um heilsuvernd og öryggi sem lýst er í reglu 4.3 og tengdum ákvæðum í kóðanum.
    6. Öll skip ættu að hafa um borð uppfærða heildarskrá yfir fjarskiptastöðvar sem geta gegnt hlutverki sem milliliðir læknisfræðilegrar aðstoðar; og, ef þau eru búin gervihnattafjarskiptakerfi, ættu þau að hafa um borð uppfærða heildarskrá yfir jarðstöðvar á landi sem geta gegnt hlutverki sem milliliðir læknisfræðilegrar aðstoðar; Farmenn sem hafa með höndum ábyrgð á læknishjálp eða skyndihjálp um borð ættu að fá leiðsögn í notkun lækningabókar skipsins og læknisfræðilega hluta Alþjóðamerkjabókarinnar svo þeir geti betur gert sér grein fyrir þeim upplýsingum sem leiðbeinandi læknir þarf á að halda og þeim ráðum sem gefin eru.

Leiðbeiningar B4.1.2. – Eyðublað fyrir læknisskýrslu.
    Staðlað eyðublað fyrir læknaskýrslu farmanna, sem krafist er skv. A-hluta þessa kóða, ætti að hanna þannig að það auðveldi sendingu læknisfræðilegra og tengdra upplýsinga um einstaka farmenn milli skips og lands ef um er að ræða sjúkdóm eða meiðsl.

Leiðbeiningar B4.1.3. – Læknishjálp í landi.
    1. Sjúkraaðstaða í landi til að meðhöndla farmenn ætti að vera fullnægjandi svo hún þjóni sínu hlutverki. Læknar, tannlæknar og annað hjúkrunarlið ætti að búa yfir nægilegri menntun og hæfi.
    2. Gera ætti ráðstafanir til að tryggja að farmenn í höfn fái:
     a)      meðhöndlun á göngudeild ef um sjúkdóm eða meiðsl er að ræða;
     b)      að leggjast inn á sjúkrahús ef nauðsyn krefur; og
     c)      meðhöndlun tannlæknis, sérstaklega ef um bráðatilvik er að ræða.
    3. Gera ætti viðhlítandi ráðstafanir til að greiða fyrir meðferð farmanna sem þjást af sjúkdómum. Farmenn ættu ekki síst að hafa skjótan aðgang að heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum í landi, án erfiðleika, óháð þjóðerni eða trúarbrögðum, og þegar því verður við komið ætti að búa svo um hnútana að tryggt sé að, ef nauðsyn krefur, að meðferð verði haldið áfram til viðbótar þeim læknisúrræðum sem þeim stendur til boða.

Leiðbeiningar B4.1.4. – Læknisaðstoð til annarra skipa og alþjóðleg samvinna.
    1. Hvert aðildarríki ætti að íhuga alvarlega að taka þátt í alþjóðasamstarfi á sviði aðstoðar, áætlana og rannsókna á sviði heilsuverndar og læknishjálpar. Slíkt samstarf gæti falist í því að:
     a)      að þróa og samhæfa leitar- og björgunarstarf og sjá fyrir skjótri læknishjálp og brottflutningi á sjó fyrir þá sem eru alvarlega sjúkir eða slasaðir um borð í skipum, t.d. með hjálp kerfa reglulegrar tilkynningar um staðarákvörðun skipa, samræmingarstöðva um björgunarstörf og neyðarþjónusta þyrla, í samræmi við alþjóðasamþykkt um leit og björgun á sjó, 1979, með síðari breytingum og Alþjóðlegu handbókina um leit og björgun í lofti og á sjó (IAMSAR);
     b)      nýta með sem bestum hætti öll skip sem hafa lækni um borð og staðsetja þau skip á sjó sem geta séð fyrir sjúkrahúsaðstöðu eða leit og björgun;
     c)      setja saman og viðhalda alþjóðlega skrá yfir lækna og aðstöðu til læknishjálpar sem er aðgengileg um allan heim og til að veita farmönnum neyðarlæknishjálp;
     d)      flytja farmenn í land til neyðarmeðhöndlunar;
     e)      senda farmenn sem hafa verið lagðir inn á sjúkrahús erlendis heim eins fljótt og auðið er, að höfðu samráði við læknana sem bera ábyrgð í viðkomandi tilfelli og að teknu tilliti til óska og þarfa farmannsins;
     f)      sjá farmönnum fyrir persónulegri aðstoð við heimsendingu, að höfðu samráði við læknana sem bera ábyrgð í viðkomandi tilfelli og að teknu tilliti til óska og þarfa farmannsins;
     g)      að leitast við að setja upp heilsugæslustöðvar fyrir farmenn í því skyni að:
                  i)      standa fyrir rannsóknum á heilbrigði, læknismeðhöndlun og heilsugæslu í forvarnarskyni fyrir farmenn; og
                  ii)      að þjálfa starfslið læknaþjónustu og heilsugæslu í læknisfræði sjómanna;
     h)      safna saman og leggja mat á hagtölur um vinnuslys, sjúkdóma og dauðsföll farmanna og samþætta og samræma hagtölurnar við innanlandskerfi sem kunna að vera fyrir hendi um hagtölur um vinnuslys og sjúkdóma sem ná yfir aðra flokka starfsmanna;
     i)      skipuleggja alþjóðleg skipti á tækniupplýsingum, þjálfunarefni og starfsliði, auk alþjóðlegra námskeiða, málstofa og vinnuhópa;
     j)      sjá öllum farmönnum fyrir sérstakri heilbrigðis- og læknisþjónustu í landi í læknis- og forvarnarskyni eða veita þeim aðgengi að almennri heilbrigðis-, læknis- og endurhæfingarþjónustu; og
     k)      gera ráðstafanir um heimsendingu líkamsleifa eða ösku látinni farmanna, í samræmi við óskir nánustu aðstandenda eins fljótt og auðið er.
    2. Alþjóðleg samvinna á sviði heilsuverndar og læknishjálpar fyrir farmenn ætti að byggjast á gagnkvæmum eða marghliða samningum eða samráði aðildarríkja.

Leiðbeiningar B4.1.5. – Nánustu aðstandendur farmanna.
    Hvert aðildarríki ætti að gera ráðstafanir til að tryggja viðhlítandi og næga læknishjálp fyrir nánustu aðstandendur farmanna þar til þróuð hefur verið læknisþjónusta sem næði til starfsmanna almennt og nánustu aðstandenda þeirra þar sem slík þjónusta er ekki fyrir hendi og tilkynna ætti alþjóðavinnumálaskrifstofunni um þær ráðstafanir sem gripið er til í þessum efnum.

Regla 4.2. – Ábyrgð útgerðarmanns.


Tilgangur: Að tryggja að farmenn njóti verndar gegn fjárhagslegum áföllum af völdum veikinda, meiðsla eða dauðsfalla sem kunna að verða í tengslum við ráðningu þeirra.
    
1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að ráðstafanir, í samræmi við kóðann, séu gerðar um borð í skipum sem sigla undir fána þeirra til að veita farmönnum sem starfa um borð í skipunum efnislega aðstoð og stuðning af hálfu útgerðarmannsins hvað varðar fjárhagslegar afleiðingar veikinda, meiðsla eða dauðsfalls sem verður á meðan þeir starfa samkvæmt ráðningarsamningi farmanna eða verða af völdum ráðningar samkvæmt slíkum samningi.
    2. Þessi regla hefur ekki áhrif á önnur lagaúrræði sem farmaðurinn kann að leita.

Viðmiðun A4.2. – Ábyrgð útgerðarmanna.


    1. Hvert aðildarríki skal samþykkja lög og reglugerðir þar sem krafist er að útgerðarmenn skipa sem sigla undir fána þess beri ábyrgð á heilsuvernd og læknishjálp allra farmanna sem starfa um borð í skipunum í samræmi við eftirfarandi lágmarksviðmiðanir:
     a)      útgerðarmenn skulu bera ábyrgð á kostnaði sem fellur til ef farmenn sem starfa um borð í skipum þeirra veikjast eða slasast á því tímabili sem þeir hefja störf og þar til þeir teljast komnir aftur til síns heima eða sem fellur til af völdum ráðningar þeirra milli þessara dagsetninga;
     b)      útgerðarmenn skulu leggja fram fjárhagslega tryggingu til að tryggja launagreiðslur ef farmenn látast eða verða fyrir langtímafötlun af völdum vinnuslyss, veikinda eða hættu eins og kveðið er á um í landslögum, ráðningarsamningi farmanna eða kjarasamningi;
     c)      útgerðarmenn skulu vera í ábyrgð fyrir kostnaði við læknishjálp, þ.m.t. læknismeðhöndlun og útvegun nauðsynlegra lyfja og tækja til læknismeðferðar, og fæði og húsnæði fjarri heimilis þar til sjúkur eða slasaður farmaður hefur náð bata eða þar til lýst hefur verið yfir að veikindi eða vanhæfi séu varanleg; og
     d)      útgerðarmenn skulu bera ábyrgð á að greiða jarðarfararkostnað ef dauðsfall verður um borð eða í landi á meðan á ráðningu stendur.
    2. Í landslögum eða reglugerðum má takmarka ábyrgð útgerðarmanns fyrir greiðslu kostnaðar við læknishjálp og fæði og húsnæði við tímabil sem skal ekki vera styttra en 16 vikur frá því að slys verður eða veikindi hefjast.
    3. Ef veikindi eða slys veldur vanhæfi til starfa skal útgerðarmaður bera ábyrgð á:
     a)      að greiða full laun á meðan veikur eða slasaður farmaður dvelur um borð í skipi eða er skilinn eftir á yfirráðasvæði ríkis annars en aðildarríkis; og
     b)      að greiða laun að öllu leyti eða hluta til samkvæmt fyrirmælum í landslögum eða reglugerðum eða eins og kveðið er á um í kjarasamningum frá þeim tíma sem farmenn hafa verið sendir til síns heima eða eru komnir í land og þar til þeir hafa hlotið bata eða (ef það er fyrr) þar til þeir eiga rétt á fyrirframgreiðslu reiðufjár samkvæmt löggjöf aðildarríkisins sem í hlut á.
    4. Í landslögum eða reglugerðum má takmarka ábyrgð útgerðarmanns fyrir greiðslu launa að öllu leyti eða hluta til farmanns sem er ekki lengur um borð við tímabil sem skal ekki vera styttra en 16 vikur frá því að slys verður eða veikindi hefjast.
    5. Samkvæmt landslögum eða reglugerðum má undanskilja útgerðarmann frá ábyrgð að því er varðar:
     a)      slys sem verða með öðrum hætti en í þjónustu við skipið;
     b)      slys eða veikindi sökum vísvitandi misferlis hins sjúka, slasaða eða látna farmanns; og
     c)      veikindi eða heilsubrest sem er leynt af ásetningi við ráðningu.
    6. Að því marki sem opinber stjórnvöld axla slíka ábyrgð mega landslög eða reglugerðir kveða svo á að útgerðarmaður sé undanþeginn þeirri kvöð að vera ábyrgur fyrir kostnaði við læknishjálp og fæði og húsnæði og jarðarför.
    7. Útgerðarmenn eða fulltrúar þeirra skulu gera ráðstafanir til að vernda eignir sem sjúkir, slasaðir eða látnir farmenn skilja eftir um borð og skila þeim til þeirra eða til nánustu aðstandenda þeirra.

Leiðbeiningar B4.2. – Ábyrgð útgerðarmanns.


    1. Greiðsla fullra launa sem krafist er skv. a-lið 3. mgr. viðmiðunar A4.2 má vera án bónusgreiðslna.
    2. Kveða má á um í landslögum eða reglugerðum að útgerðarmenn skuli hætta að vera í ábyrgð fyrir greiðslu kostnaðar sjúks eða slasaðs farmanns frá þeim tíma sem sá farmaður getur gert kröfu um sjúkrabætur samkvæmt skyldusjúkratryggingu, skylduslysatryggingu eða bætur starfsmanna í slysatilvikum.
    3. Kveða má á um í landslögum eða reglugerðum að jarðarfararkostnaður sem útgerðarmaður greiðir verði endurgreiddur af hálfu tryggingastofnunar í þeim tilvikum að jarðarfararbætur koma til greiðslu hvað varðar látinn farmann samkvæmt lögum eða reglugerðum sem tengjast tryggingavernd eða bótum starfsmanna.

Regla 4.3. – Heilsuvernd, öryggi og slysavarnir.


Tilgangur: Að vinnuumhverfi farmanna um borð í skipum stuðli að vinnu- og heilsuvernd.
    
1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að farmenn um borð í skipum sem sigla undir fána þess njóti heilsuverndar í starfi og búi, starfi og þjálfi um borð í skipi í öruggu og heilnæmu umhverfi.
    2. Hvert aðildarríki skal, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna og að teknu tilliti til gildandi kóða, leiðbeininga og viðmiðana samkvæmt tilmælum alþjóðastofnana, stjórnvalda innan lands og stofnana á sviði siglinga, þróa og koma á framfæri leiðbeiningum innan lands um stjórnun vinnu- og heilsuverndar um borð í skipum sem sigla undir fána þess.
    3. Hvert aðildarríki skal samþykkja lög og reglugerðir og aðrar ráðstafanir sem taka á málum sem tilgreind eru í kóðanum, að teknu tilliti til viðeigandi alþjóðlegra gerninga, og setja viðmiðanir um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir um borð í skipum sem sigla undir fána þess.

Viðmiðun A4.3. – Heilsuvernd, öryggi og slysavarnir.


    1. Lög, reglugerðir og aðrar ráðstafanir sem samþykkja á í samræmi við 3. mgr. reglu 4.3 skulu kveða á um eftirtalin viðfangsefni:
     a)      samþykkt og skilvirk framkvæmd og kynning á stefnumótum og áætlunum um vinnu- og heilsuvernd um borð í skipum sem sigla undir fána aðildarríkisins, þ.m.t. áhættumat auk þjálfunar og leiðsagnar farmanna;
     b)      skynsamlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir vinnuslys, meiðsli og sjúkdóma um borð í skipi, þ.m.t. ráðstafanir til að draga úr og koma í veg fyrir hættu á skaðlegu álagi af völdum umhverfisþátta og kemískra efna auk hættu á meiðslum eða sjúkdómum sem gæti stafað af notkun búnaðar og vélbúnaður um borð í skipum;
     c)      áætlanir um borð til að koma í veg fyrir vinnuslys, meiðsl og sjúkdóma og til að gera stöðugar úrbætur á sviði öryggis á vinnustað og heilsuverndar með þátttöku fulltrúa farmanna og allra annarra einstaklinga sem hafa áhuga á framkvæmd þeirra, að teknu tilliti til forvarnarráðstafana, þ.m.t. tæknilegt og hönnunarlegt eftirlit, skipti á vinnuferlum og verklagsreglum fyrir sameiginleg og einstaklingsbundin verkefni og notkun persónuhlífa; og
     d)      kröfur um skoðanir, tilkynningar og úrbætur á óöruggum aðstæðum og um rannsóknir og tilkynningar um vinnuslys sem verða um borð.
    2. Í ákvæðunum sem um getur í 1. mgr. þessarar viðmiðunar skal:
     a)      taka mið af viðeigandi alþjóðlegum gerningum sem taka til öryggis á vinnustað og heilsuverndar almennt og til sérstakrar áhættu og taka á öllum málum sem tengjast verndun gegn vinnuslysum, meiðslum og sjúkdómum sem kunna að eiga við um störf farmanna og einkum þau sem tengjast starfi farmannsins sérstaklega;
     b)      tilgreina skyldu sem útgerðarmönnum, farmönnum og öðrum sem málið varðar ber til að fara eftir gildandi viðmiðunum og stefnu skipsins og áætlun á sviði öryggis á vinnustað og heilbrigðismála með sérstakri áherslu á öryggi og heilbrigði farmanna undir 18 ára aldri;
     c)      tilgreina skyldu sem skipstjóra eða einstaklingi sem skipstjóri tilnefnir, eða beggja, til að axla sérstaka ábyrgð á að framkvæma og fara eftir stefnu skipsins og áætlun á sviði öryggis og heilbrigðismála; og
     d)      tilgreina heimildir farmanna um borð í skipinu sem hafa verið skipaðir eða kosnir öryggisfulltrúar til að sækja fundi öryggisnefndar skipsins. Slík nefnd skal sett á stofn um borð í skipi þar sem eru fimm eða fleiri farmenn.
    3. Gera skal reglulega úttekt á lögum, reglugerðum og öðrum ráðstöfunum sem um getur í 3. mgr. reglu 4.3 í samráði við fulltrúa samtaka útgerðarmanna og farmanna og, ef þörf krefur, endurskoða til að taka mið af tæknibreytingum í því skyni að auðvelda stöðugar úrbætur á stefnu og áætlunum á sviði öryggis á vinnustað og heilbrigðismála og að bjóða upp á öruggt vinnuumhverfi fyrir farmenn um borð í skipum sem sigla undir fána aðildarríkisins.
    4. Ef farið er að kröfum gildandi alþjóðlegra gerninga um viðunandi stig útsetningar fyrir hættu á vinnustað um borð í skipum og um þróun og framkvæmd stefnu og áætlana á sviði öryggis á vinnustað og heilbrigðismála um borð í skipum skal það teljast uppfylla kröfur þessarar samþykktar.
    5. Lögbært stjórnvald skal sjá til þess að:
     a)      tilkynna vinnuslys, meiðsli og sjúkdóma með viðunandi hætti, að teknu tilliti til leiðbeininga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um tilkynningu og skráningu vinnuslysa og sjúkdóma;
     b)      haldnar séu hagskýrslur um slík slys og sjúkdóma, þær greindar og birtar og, eftir því sem við á, þeim fylgt eftir með rannsóknum á almennri leitni og á þeim hættum sem í ljós koma; og
     c)      vinnuslys séu rannsökuð.
    6. Tilkynningar og rannsóknir á öryggismálum á vinnustað og heilbrigðismálum skulu þannig úr garði gerðar að tryggt sé að persónuupplýsingar farmanna njóti verndar og tekið skal mið af leiðbeiningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í þeim efnum.
    7. Lögbært stjórnvald skal hafa samvinnu við samtök útgerðarmanna og farmanna um ráðstafanir til að beina athygli allra farmanna að upplýsingum um tilteknar hættur um borð í skipum, til að mynda með því að setja upp opinberar tilkynningar með viðeigandi fyrirmælum.
    8. Lögbært stjórnvald skal krefjast þess að útgerðarmenn sem láta fara fram áhættumat með tilliti til stjórnunar á öryggi og heilbrigði á vinnustað vísi til viðeigandi hagskýrslna frá skipum þeirra og úr almennum hagskýrslum sem lögbær stjórnvöld leggja fram.

Leiðbeiningar B4.3. – Heilsuvernd, öryggi og slysavarnir.


Leiðbeiningar B4.3.1. – Ákvæði um vinnuslys, meiðsl og sjúkdóma.
    1. Í ákvæðunum sem krafist er samkvæmt viðmiðun A4.3 ætti að hafa hliðsjón af starfsvenjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) um slysavarnir um borð í skipum á hafi úti og í höfnum, 1996 ásamt síðari útgáfum og öðrum tengdum viðmiðunum og leiðbeiningum ILO og öðrum alþjóðlegum viðmiðunum og starfsvenjum um öryggi á vinnustað og heilsuvernd, þ.m.t. stig áraunar sem þau kunna að leiða í ljós.
    2. Lögbært stjórnvald ætti að tryggja að í leiðbeiningum innan lands um stjórnun málefna á sviði öryggis á vinnustað og heilsuverndar sé einkum fjallað um eftirtalin mál:
     a)      almenn grundvallarákvæði;
     b)      hönnunarleg einkenni skipsins, þ.m.t. aðgengi og áhætta tengd asbesti;
     c)      vélbúnað;
     d)      áhrif sem mjög lágur eða hár hiti hvers kyns yfirborðsflata sem farmenn kunna að vera í snertingu við;
     e)      áhrif hávaða á vinnustað og í vistarverum skipa;
     f)      áhrif titrings á vinnustað og í vistarverum skipa;
     g)      áhrif umhverfisþátta, annarra en þeirra sem um getur í e- og f-lið, á vinnustað og í vistarverum skipa, þ.m.t. tóbaksreykur;
     h)      sérstakar öryggisráðstafanir á þilfari og neðan þilja;
     i)      lestunar- og losunarbúnað;
     j)      brunavarnir og slökkvistörf;
     k)      akkeri, keðjur og taugar;
     l)      hættulegan farm og kjölfestu;
     m)      persónuhlífar fyrir farmenn; n) vinnu í lokuðu rými;
     n)      líkamleg og andleg áhrif ofþreytu;
     o)      áhrif þess að vera háður lyfjum og áfengi;
     p)      vernd gegn HIV/AIDS og forvarnir; og
     q)      viðbrögð í neyðar -og slysatilvikum.
    3. Við mat á þeirri hættu og útsetningu sem um getur í 2 mgr. leiðbeininga B4.3.1 ætti að hafa hliðsjón af áhrifum líkamlegra hollustuhátta á vinnustöðum (þ.m.t. handvirk meðhöndlun þungra hluta, hávaði og titringur), áhrif kemískra efna og líffræðilegra þátta á hollustuhætti á vinnustöðum, áhrif andlegra þátta á hollustuhætti á vinnustöðum auk líkamlegra og andlegra áhrifa af völdum ofþreytu og vinnuslysa. Þegar gripið er til nauðsynlegra ráðstafana skulu fyrirbyggjandi ráðstafanir vera í fyrirrúmi þar sem m.a. sú aðgerð að sporna gegn hættu við upptök, laga starfið að einstaklingnum, einkum við hönnun vinnustaða og að skipta á hættulegum fyrir hættulausa eða hættulitla, hefur forgang umfram notkun persónuhlífa fyrir farmenn.
    4. Til viðbótar ætti lögbært stjórnvald að tryggja að tekið sé mið af forsendum heilbrigðis og öryggis, einkum hvað varðar eftirtalin svið:
     a)      viðbrögð í neyðar- og slysatilvikum;
     b)      áhrif þess að vera háður lyfjum og áfengi; og
     c)      vernd gegn HIV/AIDS og forvarnir.

Leiðbeiningar B4.3.2. – Álag af völdum hávaða.
    1. Lögbært stjórnvald, í tengslum við lögbærar alþjóðlegar stofnanir og fulltrúa samtaka farmanna og útgerðarmanna sem málið varðar, ættu að grandskoða vandann sem tengist hávaða um borð í skipum með það að markmiði að auka vernd farmanna, að því marki sem gerlegt er, gegn meinlegum áhrifum hávaða.
    2. Skoðunin sem um getur í 1. mgr. þessara leiðbeininga ætti að taka mið af meinlegum áhrifum álags af völdum mikils hávaða á heyrn, heilsu og vellíðan farmanna og þeim ráðstöfunum sem mæla á fyrir um eða mæla með til að draga úr hávaða um borð til verndar farmönnum. Þær ráðstafanir sem verða skoðaðar ættu að felast í eftirfarandi:
     a)      að fræða farmenn um þá hættu sem það hefur í för með sér fyrir heyrn og heilsu að vera undir langvarandi álagi af völdum mikils hávaða og um notkun varnartækja og -búnaðar gegn hávaða;
     b)      að farmönnum verði séð fyrir viðurkenndum eyrnahlífum; og
     c)      að meta áhættu og draga úr útsetningu fyrir hávaða í öllum vistarverum, tómstunda- og þjónustuaðstöðu áhafna auk vélarúms og öðrum vélarýmum.

Leiðbeiningar B4.3.3. – Álag af völdum titrings.
    1. Lögbært stjórnvald, í tengslum við lögbærar alþjóðlegar stofnanir og fulltrúa samtaka farmanna og útgerðarmanna sem málið varðar, og að teknu tilliti til viðeigandi alþjóðlegra viðmiðana, eftir því sem við á, ættu að grandskoða vandann sem tengist hávaða um borð í skipum með það að markmiði að auka vernd farmanna, að því marki sem gerlegt er, gegn slæmum áhrifum hávaða.
    2. Skoðunin sem um getur í 1. mgr. þessarar viðmiðunar ætti að ná til álags af völdum mikils titrings á heilsu og vellíðan farmanna og þeirra ráðstafana sem mæla á fyrir um eða mæla með til að draga úr titringi um borð í skipum til verndar farmönnum. Þær ráðstafanir sem verða skoðaðar ættu að felast í eftirfarandi:
     a)      að fræða farmenn um þá hættu sem langvarandi álag af völdum titrings hefur á heilsu manna;
     b)      að farmönnum verði séð fyrir viðurkenndum persónuhlífum; og
     c)      að meta áhættu og draga úr álagi af völdum titrings í öllum vistarverum, tómstunda- og þjónustuaðstöðu áhafna með því að samþykkja ráðstafanir í samræmi við leiðbeiningar sem kveðið er á um í starfsvenjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem nefnast „Umhverfisþættir á vinnustöðum, 2001“ með öllum síðari breytingum, að teknu tilliti til mismun titrings á þessum svæðum og á vinnustað.

Leiðbeiningar B4.3.4. – Skyldur útgerðarmanna.
    1. Þeim skyldum sem kunna að vera lagðar á útgerðarmanninn um að leggja til hlífðarbúnað eða annar slysavarnabúnaður ættu almennt að fylgja ákvæði þar sem krafist er að farmenn noti hann auk krafna um að farmenn geri viðeigandi ráðstafanir um slysavarnir og heilsuvernd.
    2. Einnig ætti að taka mið af 7. og 11. gr. samþykktar um öryggisbúnað véla, 1963 (nr. 119) og hliðstæð ákvæði í tilmælum um öryggisbúnað véla, 1963 (118) en samkvæmt þeim er atvinnurekandanum skylt að tryggja að farið sé að kröfum um að viðeigandi hlífar séu á vélbúnaði og að komið sé í veg fyrir að hann sé notaður án viðeigandi hlífa auk þess sem starfsmanninum er skylt að nota hvorki vélbúnað þar sem hlífar eru ekki á sínum stað né að taka úr sambandi þær hlífar sem eru fyrir hendi.

Leiðbeiningar B4.3.5. – Skýrslugerð og söfnun hagskýrslna.
    1. Skrá ætti öll vinnuslys, meiðsli í starfi og atvinnusjúkdóma svo unnt sé að rannsaka þá og safna ítarlegum hagtölum um þá, greina og birta, að teknu tilliti til verndar persónuupplýsinga um farmennina sem í hlut eiga. Skýrslur ættu ekki að takmarkast við dauðsföll eða slys tengd skipinu.
    2. Í hagskýrslunum sem um getur í 1. mgr. þessara leiðbeininga B4.3.5 ætti að tilgreina fjöldann, eðli, ástæður og áhrif vinnuslysa, meiðsla í starfi og atvinnusjúkdóma þar sem skýrt kemur fram, ef við á, deild um borð í skipi, tegund slyss og hvort það gerðist á hafi úti eða í höfn.
    3. Hvert aðildarríki ætti að taka tilhlýðilegt tillit til alþjóðlegra kerfa eða líkana um skráningu slysa á farmönnum sem kann að hafa verið komið á fót af hálfu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Leiðbeiningar B4.3.6. – Rannsókn.


    1. Lögbært stjórnvald ætti að standa fyrir rannsóknum á orsökum og aðstæðum allra vinnuslysa, meiðsla í starfi og atvinnusjúkdóma sem orsaka manntjón eða alvarleg slys á fólki auk annarra mála sem kunna að vera tilgreind í landslögum eða reglugerðum.
    2. Huga ætti að því að eftirtalið verði tekið til rannsóknar:
     a)      vinnuumhverfi svo sem yfirborðsfletir vinnustaða, fyrirkomulag vélbúnaðar, aðgengi, lýsing og vinnuaðferðir;
     b)      tíðni vinnuslysa, meiðsla í starfi og atvinnusjúkdóma í mismunandi aldurshópum;
     c)      sérstök lífeðlisfræðileg eða sálfræðing vandamál sem skapast við aðstæður um borð í skipi;
     d)      vandamál af völdum líkamlegs álags um borð í skipi, einkum af völdum aukins vinnuálags;
     e)      vandamál af völdum og áhrif tækniþróunar og áhrifa hennar á samsetningu áhafna; og
     f)      vandamál af völdum hvers kyns mannlegra mistaka.

Leiðbeiningar B4.3.7. – Verndar- og forvarnaráætlanir innan lands.
    1. Í því skyni að fyrir hendi sé tryggur grunnur ráðstafana til að stuðla að öryggi á vinnustað, heilsuvernd, slysavörnum og vörnum gegn meiðslum og sjúkdómum sem stafa af hættu tengdri farmennsku ætti að standa að rannsóknum á almennri þróun og á þeim hættum sem hagskýrslur leiða í ljós.
    2. Skipuleggja ætti framkvæmd verndar- og fyrirbyggjandi áætlanir til að stuðla að auknu öryggi á vinnustað og heilsuvernd með þeim hætti að lögbært stjórnvald, útgerðarmenn og farmenn eða fulltrúar þeirra og aðrar viðeigandi stofnanir gegni virku hlutverki, þ.m.t. með því að standa að upplýsingafundum, fræðslu um borð um stig hámarksútsetningar á umhverfisþáttum á vinnustað sem kunna að vera skaðlegir og aðrar hættur eða niðurstöður kerfisbundins áhættumats. Skipa ætti nefndir, sérstaka vinnuhópa og skipsnefndir innan lands og staðbundið á sviði öryggis á vinnustað, heilsuverndar og slysavarna með fulltrúum frá samtökum útgerðarmanna og farmanna sem í hlut eiga.
    3. Ef slík starfsemi fer fram á vettvangi félags ætti að hafa í huga að farmenn eigi fulltrúa í öryggisnefnd um borð í skipum útgerðarmanns.

Leiðbeiningar B4.3.8. – Viðfangsefni verndar- og forvarnaráætlana.
    1. Huga ætti að því að eftirtalið verði á starfssviði nefnda og annarra stofnana sem um getur í 2. mgr. leiðbeininga B4.3.7:
     a)      gerð leiðbeininga innan lands og stefnumótun um að setja á fót stjórnkerfi um öryggi á vinnustað og heilsuvernd og um ákvæði, reglur og handbækur um slysavarnir;
     b)      skipulagning þjálfunar og áætlana um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir;
     c)      skipulagning auglýsingaherferða um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir, þ.m.t. kvikmyndir, veggspjöld, tilkynningar og kynningarrit; og
     d)      dreifing ritaðs efnis og upplýsinga um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir í því skyni að koma því til farmanna um borð í skipum.
    2. Þeir sem sjá um að útbúa texta um ráðstafanir til öryggis á vinnustað, heilsuverndar og slysavarna eða tilmæli um venjur ættu að hafa til hliðsjónar viðkomandi ákvæði eða tilmæli sem viðeigandi stjórnvöld eða stofnanir innan lands eða alþjóðastofnanir hafa samþykkt.
    3. Við áætlanagerð um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir ætti hvert aðildarríki að taka tilhlýðilegt tillit til starfsvenja um öryggi og heilsa farmanna sem Alþjóðavinnumálastofnunin kann að hafa gefið út.

Leiðbeiningar B4.3.9. – Fyrirmæli um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og vernd gegn vinnuslysum.
    1. Endurskoða ætti reglulega námsefni þjálfunarinnar sem um getur í a-lið 1. mgr. viðmiðunar A4.3 og færa það til nútímahorfs í ljósi þróunar sem orðið hefur á gerðum og stærðum skipa og á búnaði, auk breytinga á mönnunarvenjum, þjóðerni, tungumáli og skipulagi vinnu um borð í skipum.
    2. Standa ætti að staðaldri fyrir kynningarstarfi um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir. Slíkt kynningarstarf gæti verið með eftirfarandi sniði:
     a)      hljóð- og myndefni á sviði menntunar, svo sem kvikmyndir, til nota í starfsþjálfunarmiðstöðvum fyrir farmenn og ef unnt er til sýningar um borð í skipum;
     b)      uppsetning veggspjalda um borð skipum;
     c)      birting greina í tímaritum sem farmenn lesa um hættur sem fylgja farmennsku og um ráðstafanir um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir; og
     d)      sérstakt átak með því að nota ýmsa kynningarmiðla til þess að fræða farmenn, þ.m.t. um öruggar vinnuaðferðir.
    3. Kynningarstarfsemin sem um getur í 2. mgr. þessara leiðbeininga ætti að vera sniðin með tilliti til mismunandi þjóðernis, ólíkra tungumála og menningu farmanna um borð í skipum.

Leiðbeiningar B.3.10. – Menntun ungra farmanna um öryggi og heilbrigði.
    1. Í reglugerðum um öryggi og heilsu ætti að vísa til hvers kyns almennra ákvæða um læknisskoðanir fyrir ráðningu og á ráðningartímanum og um slysavarnir og heilsuvernd í starfi sem kunna að gilda um störf farmanna. Í slíkum reglugerðum ætti að kveða á um ráðstafanir sem munu draga úr starfstengdri hættu sem ungir farmenn standa frammi fyrir þegar þeir gegna skyldustörfum sínum.
    2. Tilgreina ætti í reglugerðunum takmarkanir ungra farmanna, án viðeigandi eftirlits og leiðbeininga, til að sinna tilteknum störfum sem fela í sér sérstaka hættu á slysum, skaðleg áhrif á heilsu þeirra eða líkamlegan þroska eða krefjast sérstaks þroskastigs, reynslu og færni nema í því tilviki að lögbært stjórnvald hafi staðfest að ungur farmaður hafi til að bera hæfilega fagkunnáttu. Þegar ákveðið er hvaða störf eigi að takmarka í reglugerð gæti lögbært stjórnvald haft í huga störf í tengslum við:
     a)      að lyfta, hreyfa til eða bera þungar byrðar eða hluti;
     b)      að fara inn í katla, tanka eða þurrrými;
     c)      álag af völdum hávaða og titrings;
     d)      stjórn lyftibúnaðar og annarra aflvéla og -tækja, eða vinna við merkjagjafir til þeirra sem stjórna slíkum búnaði;
     e)      meðhöndlun landfesta, dráttartóga, eða akkerisbúnaðar;
     f)      meðhöndlun reiðabúnaðar;
     g)      vinnu í möstrum eða á þilfari í illviðri;
     h)      næturvaktir;
     i)      viðhald rafbúnaðar;
     j)      álag af völdum efna sem kunna að vera skaðleg eða skaðlegra áhrifavalda svo sem hættulegra eða eitraðra efna og jónandi geislun;
     k)      hreinsun vélbúnaðar fyrir þjónustu áhafna; og
     l)      meðhöndlun eða stjórn á skipsbátum.
    3. Lögbært stjórnvald eða viðeigandi stofnun ætti að grípa til raunhæfra ráðstafana til að beina athygli ungra farmanna að upplýsingum um slysavarnir og heilsuvernd þeirra um borð í skipum. Slíkar ráðstafanir gætu falist í viðunandi fræðslu á námskeiðum, opinberri kynningu á slysavörnum ætlaðri fyrir unga einstaklinga og fagleg fræðsla og yfirumsjón með ungum farmönnum.
    4. Menntun og þjálfun ungra farmanna, bæði í landi og um borð í skipum, ætti að fela í sér leiðbeiningar um skaðleg áhrif misnotkunar áfengis og fíkniefna og annarra hættulegra efna á heilsu þeirra og velferð auk áhættu og varúðar tengdri HIV/AIDS og öðrum athöfnum sem geta verið hættulegar heilsu manna.

Leiðbeiningar B.3.11. – Alþjóðleg samvinna.


    1. Aðildarríki ættu með innbyrðis samstarfi að leitast við að ná sem mestu samræmi í aðgerðum sínum, með hjálp viðeigandi milliríkjastofnana og annarra alþjóðastofnana, um að stuðla að öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavörnum.
    2. Við gerð áætlana til kynningar á öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavörnum samkvæmt viðmiðun A4.3 ætti hvert aðildarríki að hafa hliðsjón af viðeigandi starfsvenjum sem Alþjóðavinnumálastofnunin gefur út auk viðeigandi viðmiðana alþjóðastofnana.
    3. Aðildarríki ættu að hafa hliðsjón af því hvort þörf er á alþjóðlegri samvinnu um samfellda kynningu á starfsemi í tengslum við öryggi á vinnustað, heilsuvernd og varnir gegn vinnuslysum. Slík samvinna gæti verið í formi:
     a)      gagnkvæms eða marghliða fyrirkomulags um samræmi í viðmiðunum og ráðstöfunum um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir;
     b)      upplýsingaskipta um tilteknar hættur sem farmenn standa frammi fyrir og um aðferðir til að stuðla að öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavörnum;
     c)      aðstoðar við að prófa búnað og skoðanir samkvæmt innanlandsreglum fánaríkisins;
     d)      samstars um undirbúning og dreifingu ákvæða, reglna, eða handbóka um öryggi á vinnustað, heilsuvernd og slysavarnir;
     e)      samstarfs um gerð og notkun þjálfunargagna; og
     f)      sameiginlegrar aðstöðu eða gagnkvæmrar aðstoðar við þjálfun farmanna á sviði öryggis á vinnustað, heilsuverndar, slysavarna og öruggra vinnuaðferða.

Regla 4.4.– Aðgangur að velferðarmiðstöðvum í landi.


Tilgangur: Að tryggja að farmenn sem starfa um borð skipum hafi aðgang að miðstöðvum og þjónustu í landi til að tryggja heilbrigði þeirra og velferð.
    1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að greiður aðgangur sé að velferðarmiðstöðvum í landi. Aðildarríkið skal einnig stuðla að því að settar verði á laggir velferðarmiðstöðvar, svo sem tilgreint er í kóðanum, í tilgreindum höfnum til að sjá farmönnum á skipum sem eru í höfnum þess fyrir aðgangi að fullnægjandi velferðaraðstöðu.
    2. Í kóðanum er mælt fyrir um ábyrgð hvers aðildarríkis að því er varðar miðstöðvar í landi, svo sem velferðar-, menningar-, tómstunda- og upplýsingamiðstöðvar og -þjónustu.

Viðmiðun A4.4. – Aðgangur að velferðarmiðstöðvum í landi.


    1. Hvert aðildarríki skal krefjast þess, þar sem velferðarmiðstöðvar eru á yfirráðasvæði þess, að þær séu tiltækar öllum farmönnum, óháð þjóðerni, kynþætti, hörundslit kynferði, trúarskoðunum, stjórnmálaskoðunum eða félagslegum uppruna og óháð fánaríki skipsins þar sem þeir eru ráðnir eða gegna starfi.
    2. Hvert aðildarríki skal stuðla að því að settar verði á laggir velferðarmiðstöðvar í hentugum höfnum landsins og ákveða, að höfðu samráði við hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna, hvaða hafnir eiga að teljast hentugar.
    3. Hvert aðildarríki skal hvetja til þess að settar séu á laggir velferðarráð sem skulu skoða velferðarmiðstöðvar reglulega til að tryggja að þær séu hentugar í ljósi breytinga á þörfum farmanna af völdum þróunar í tækni, rekstri og annarri þróun á sviði skipaútgerðar.

Leiðbeiningar B4.4. – Aðgangur að velferðarmiðstöðvum í landi.


Leiðbeiningar B4.4.1. – Skyldur aðildarríkja.
    1. Hvert aðildarríki ætti:
     a)      að gera ráðstafanir til þess að séð verði fyrir velferðarmiðstöðvum og -þjónustu í nægum mæli í tilgreindum viðkomuhöfnum og að farmenn njóti nægilegrar verndar þegar þeir gegna starfi sínu; og
     b)      að taka mið af sérstökum þörfum farmanna þegar gripið er til þessara ráðstafana, einkum þegar dvalið er í erlendum ríkjum og þegar farið er inn á stríðssvæði, með tilliti til öryggis þeirra, heilbrigði og athafna í frítíma.
    2. Ráðstafanir um eftirlit með velferðarmiðstöðvum og -þjónustu ættu að fela í sér þátttöku fulltrúa hlutaðeigandi samtaka útgerðarmanna og farmanna.
    3. Hvert aðildarríki ætti að gera ráðstafanir til að hraða ókeypis dreifingu um borð í skipum, hjá miðlægum birgjum og velferðarstofnunum á efni á sviði velferðamála svo sem kvikmyndum, bókum, fréttablöðum og íþróttabúnaði til nota fyrir farmenn um borð í skipum þeirra og í velferðarmiðstöðvum í landi.
    4. Aðildarríki ættu að eiga með sér samstarf við að stuðla að velferð farmanna á sjó og í höfnum. Slíkt samstarf ætti að fela í sér eftirfarandi:
     a)      samráð lögbærra stjórnvalda sem miða að því að sjá fyrir og bæta velferðarmiðstöðvar og -þjónustu, bæði í höfn og um borð í skipum;
     b)      samkomulag um að samnýta aðstöðu og mannafla og sjá sameiginlega fyrir velferðarmiðstöðvum í stærri höfnum til að forðast óþarfa tvíverknað;
     c)      að skipuleggja alþjóðlegar íþróttakeppnir og hvetja farmenn til íþróttaiðkunar; og
     d)      að skipuleggja alþjóðlegar málstofur um málefnið velferð farmanna á hafi úti og í höfn.

Leiðbeiningar B4.4.2 – Velferðarmiðstöðvar og -þjónusta í höfnum.
    1. Hvert aðildarríki ætti að sjá fyrir eða tryggja að séð verði fyrir þeim velferðarmiðstöðvum og -þjónustu sem kann að vera krafist í viðeigandi höfnum í landinu.
    2. Einn eða fleiri af eftirtöldum aðilum ættu að sjá fyrir velferðarmiðstöðvum og -þjónustu í samræmi við aðstæður innan lands og venju:
     a)      opinberir aðilar;
     b)      hlutaðeigandi samtök útgerðarmanna og farmanna samkvæmt kjarasamningum eða annarri tilhögun sem samkomulag er um; og
     c)      sjálfboðaliðasamtök.
    3. Koma ætti upp eða þróa nauðsynlega velferðar- og tómstundaaðstöðu í höfnum. Hún ætti að felast í eftirtöldu
     a)      funda- og tómstundaherbergjum eftir þörfum;
     b)      aðstöðu til íþróttaiðkana og önnur aðstaða, þ.m.t. keppnisaðstaða;
     c)      menntunaraðstaða; og
     d)      eftir því sem við á, aðstaða til helgihalds og persónulegrar ráðgjafar.
    4. Sjá má fyrir þessari aðstöðu með því að veita farmönnum aðgang að aðstöðu fyrir almennari notkun.
    5. Ef stór hópur farmanna af ólíku þjóðerni þarf á aðstöðu svo sem hótelum, klúbbum og íþróttaaðstöðu að halda í tiltekinni höfn ættu lögbær stjórnvöld eða stofnanir í heimaríkjum og fánaríkjum farmannanna, auk hlutaðeigandi alþjóðlegra samtaka, að leita ráða og eiga samstarf við lögbær stjórnvöld og stofnanir í landinu þar sem höfnin er staðsett og hver við aðra með það að markmiði að samnýta aðstöðu og mannafla og til að forðast óþarfa tvíverknað.
    6. Hótel eða gistiheimili sem henta farmönnum ættu að vera aðgengileg þar sem þörf er fyrir þau; í þeim ætti að vera aðstaða sem er sambærileg við það sem gerist á góðum hótelum og ætti þegar það er hægt að vera fjarri næsta nágrenni hafnarsvæðisins. Umsjón slíkra hótela eða gistiheimila ætti að vera með viðunandi hætti, verð sem krafist er ætti að vera sanngjarnt og, ef nauðsyn krefur og unnt er, ætti að sjá til þess að fjölskyldur farmanna fái gistingu.
    7. Þessi aðstaða ætti að vera opin öllum farmönnum, óháð þjóðerni, kynþætti, hörundslit, kynferði, trúarskoðunum, stjórnmálaskoðunum eða félagslegum uppruna og óháð fánaríki skipsins þar sem þeir eru ráðnir eða gegna starfi Án þess að brjóta á nokkurn hátt í bága við þessa meginreglu kann að vera nauðsynlegt í tilteknum höfnum að bjóða upp á margs konar aðstöðu, sambærilega að gæðum en lagaða að siðum og þörfum ólíkra hópa farmanna.
    8. Gera ætti ráðstafanir til að tryggja, eftir því sem þörf krefur, að einstaklingar með sérfræðikunnáttu séu starfandi í fullu starfi í velferðarmiðstöðvum og -þjónustu farmanna til viðbótar starfsmönnum sem kunna að starfa þar í sjálfboðavinnu.

Leiðbeiningar B4.4.3. – Velferðarráð.
    1. Setja ætti á stofn velferðarráð á vettvangi hafna, á svæðis- og landsvísu, eftir því sem við á. Starfssvið þeirra ætti m.a. að felast í: a) að hafa eftirlit með því hvort velferðarmiðstöðvar sem fyrir eru séu viðunandi og kanna hvort þörf sé á viðbótaraðstöðu eða hætta starfsemi í aðstöðu sem er vannýtt; og b) að aðstoða og leiðbeina þeim sem hafa með það að gera að sjá fyrir velferðarmiðstöðvum og tryggja samræmingu á milli þeirra.
    2. Meðal þeirra sem sitja í velferðarráðum ættu að vera fulltrúar samtaka farmanna og útgerðarmanna, lögbærra stjórnvalda og, eftir því sem við á, sjálfboðaliðasamtaka og félagsþjónustu.
    3. Ræðismenn siglingaþjóða og fulltrúar erlendra velferðarstofnana á staðnum ættu, eftir því sem þörf er á og í samræmi við landslög og reglugerðir, að tengjast störfum velferðarráða hafna, innan svæðis og á landsvísu.

Leiðbeiningar B4.4.4. – Fjármögnun velferðaraðstöðu.
    1. Gera skal kleift að styðja velferðarmiðstöðvar í höfnum fjárhagslega í samræmi við aðstæður og venju innan lands í samræmi við eitt eða fleira af eftirtöldu:
     a)      með styrkjum úr opinberum sjóðum;
     b)      með sköttum eða öðrum sérgjöldum aðila í sjóflutningum;
     c)      með frjálsum framlögum útgerðarmanna, farmanna eða samtaka þeirra; og
     d)      með frjálsum framlögum frá öðrum aðilum.
    2. Ef lagðir eru á velferðarskattar, gjöld og sérgjöld ætti einungis að nota þau í þeim tilgangi sem þeirra er aflað.

Leiðbeiningar B4.4.5. – Upplýsingamiðlun og ráðstafanir til fyrirgreiðslu.
    1. Miðla ætti upplýsingum meðal farmanna um aðstöðu sem er almenningi opin í viðkomuhöfnum, einkum samgöngu-, velferðar-, skemmti- og menntunaraðstöðu auk staða til tilbeiðslu til viðbótar aðstöðu sem farmönnum er sérstaklega séð fyrir.
    2. Viðunandi samgöngur á hóflegu verði ætti að standa til boða á tímum sem eru innan skynsamlegra marka í því skyni að gera farmönnum kleift að ná til þéttbýlissvæða frá hentugum stöðum innan hafnarsvæðisins.
    3. Lögbær stjórnvöld ættu að gera allar hæfilegar ráðstafanir til að kynna útgerðarmönnum og farmönnum sem koma í höfn sérstök lög og siði sem kynnu að stofna frelsi þeirra í hættu ef brotið er gegn þeim.
    4. Lögbær stjórnvöld ættu að sjá til þess að hafnarsvæði og vegir til þeirra séu búin nægilegri lýsingu, vegvísum og að þar sé regluleg varsla til verndar farmönnum.

Leiðbeiningar B4.4.6. – Farmenn í erlendri höfn.
    1. Til verndar farmönnum í erlendum höfnum ættu að vera úrræði til að greiða fyrir:
     a)      aðgengi að ræðismönnum ríkja þar sem þeir eru með ríkisfang eða búsetu; og
     b)      virku samstarfi milli ræðismanna og stjórnvalda í héraði eða á landsvísu.
    2. Mál farmanna sem sæta farbanni í erlendri höfn ætti að taka fyrir með skjótum og lögbundnum hætti og með viðeigandi ræðisvernd.
    3. Hvenær sem farmaður sætir farbanns af hvaða ástæðu sem er á yfirráðasvæði aðildarríkis ætti lögbært stjórnvald, óski farmaður þess, að tilkynna það þegar til fánaríkisins og ríkisins þar sem farmaðurinn er með ríkisfang. Lögbært stjórnvald ætti að tilkynna farmanninum strax um rétt hans til slíkrar óskar. Ríkið þar sem farmaðurinn er með ríkisfang ætti þegar að tilkynna nánustu aðstandendum farmannsins um málavexti. Aðildarríki ætti að heimila ræðiserindrekum þessara ríkja að fá þegar að hitta farmanninn og heimsækja hann reglulega eftir það á meðan hann sætir kyrrsetningu.
    4. Hvert aðildarríki ætti að grípa til ráðstafana, hvenær sem þörf krefur, til að tryggja öryggi farmanna gegn árásum og öðru ólöglegu athæfi á meðan skip eru í landhelgi þeirra og einkum á aðkomuleiðum til hafna.
    5. Allt kapp ætti að leggja á að þeir sem bera ábyrgð á hafnarsvæðum og um borð í skipi heimili farmönnum landgönguleyfi eins fljótt og auðið er eftir að skip kemur til hafnar.

Regla 4.5. – Tryggingavernd.


Tilgangur: Að tryggja að gripið sé til ráðstafana með það að markmiði að veita farmönnum aðgengi að tryggingavernd.
    
1. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að allir farmenn og, að svo miklu leyti sem kveðið er á um slíkt í landslögum, nánustu aðstandendur þeirra hafi aðgang að tryggingavernd í samræmi við kóðann en þó með fyrirvara um hvers kyns hagstæðari skilyrði sem um getur í 8. mgr. 19. gr. stofnskrárinnar.
    2. Hvert aðildarríki skuldbindur sig til að grípa til ráðstafana, í samræmi við aðstæður innan lands, hvert um sig eða í samvinnu á alþjóðavettvangi, til að sjá farmönnum fyrir æ víðtækri tryggingavernd.
    3. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að farmenn sem heyra undir löggjöf þess um tryggingavernd og, að svo miklu leyti sem kveðið er á um slíkt í landslögum þess, nánustu skyldmenni þeirra eiga rétt á bótum úr tryggingaverndarkerfi sem veitir ekki lakari kjör en hafnarverkamenn í landi njóta.

Viðmiðun A4.5. – Tryggingavernd.


    1. Þeir flokkar sem skoða á með það að markmiði að ná smám saman æ víðtækri tryggingavernd samkvæmt reglu 4.5 eru: læknishjálp, sjúkrabætur, atvinnuleysisbætur, ellilífeyrisbætur, vinnuslysabætur, fjölskyldubætur, mæðralaun, örorkubætur og bætur til skipbrotsmanna til viðbótar verndinni sem kveðið er á samkvæmt reglum 4.1 um læknishjálp og 4.2 um ábyrgð útgerðarmanns og samkvæmt öðrum köflum þessarar samþykktar.
    2. Á þeirri stundu sem samþykktin er samþykkt skal verndin sem hver aðili skal veita í samræmi við 1. mgr. reglu 4.5 ná til a.m.k. þriggja af þeim níu bótaflokkum sem taldir eru upp í 1. mgr. þessarar viðmiðunar.
    3. Hvert aðildarríki skal gera ráðstafanir með tilliti til aðstæðna innan lands til að veita alla þá tryggingavernd sem um getur í 1. mgr. þessarar viðmiðunar til allra farmanna sem eiga venjulega aðsetur á yfirráðasvæði þess. Til að mynda mætti uppfylla þessa skyldu með viðeigandi gagnkvæmum eða marghliða samningum eða kerfum sem byggjast á framlagi. Sú vernd sem þannig fæst skal ekki fela í sér lakari kjör en sú sem hafnarverkamenn sem hafa aðsetur á yfirráðasvæði þeirra njóta.
    4. Þrátt fyrir framsal ábyrgðar skv. 3 mgr. þessarar viðmiðunar mega aðildarríki setja, á grunni gagnkvæmra og marghliða samninga og á grunni ákvæða sem samþykkt eru innan ramma svæðisstofnana um efnahagslega samvinnu, aðrar reglur sem varða þá löggjöf um tryggingavernd sem farmenn heyra undir.
    5. Skyldur hvers aðildarríkis að því er varðar farmenn um borð í skipum sem sigla undir fána þess skulu fela í sér þær sem kveðið er á um í reglu 4.1 og 4.2 og tengd ákvæði kóðans, auk þeirra sem felast í almennum skyldum þess að þjóðarétti.
    6. Hvert aðildarríki skal taka til athugunar hinar ýmsu leiðir þar sem farmenn fá sambærilegar bætur, í samræmi við landslög og venju, ef þeir njóta ekki nægilegrar verndar samkvæmt flokkunum sem um getur í 1. mgr. þessarar viðmiðunar.
    7. Kveða má á um verndina skv. 1. mgr. reglu 4.5, eftir því sem við á, í lögum, reglugerðum, tryggingum á frjálsum markaði, eða í kjarasamningum eða í samsetningu þessa þátta.
    8. Að svo miklu leyti sem það samræmist landslögum og venju í aðildarríkjum skulu þau vinna saman fyrir tilverknað gagnkvæms eða marghliða samkomulags eða annars fyrirkomulags til að tryggja að réttindi á grunni tryggingaverndar sem veitt eru á grunni iðgjaldsskyldra eða iðgjaldsfrjálsra tryggingaverndarreglna sem allir farmenn njóta góðs af eða eru í þann mund að fá án tillits til aðseturs.
    9. Hvert aðildarríki skal koma á sanngjarnri og skilvirkri málsmeðferð til lausnar deilumálum.
    10. Á þeim tíma sem samþykktin er fullgilt skal hvert aðildarríki tilgreina þá bótaflokka sem verndin nær til í samræmi við 2. mgr. þessarar viðmiðunar. Aðildarríkið skal í framhaldi af því tilkynna forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar hvenær það veitir tryggingavernd sem nær til eins eða fleiri bótaflokka sem tilgreindir eru í 1. mgr. þessarar viðmiðunar. Forstjórinn skal halda skrá yfir þessar upplýsingar og hafa hana tiltæka öllum hagsmunaaðilar.
    11. Skýrslur til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skv. 22. gr. stofnskrárinnar skulu einnig fela í sér upplýsingar um þær ráðstafanir sem teknar eru í samræmi við 2. mgr. reglu 4.5 um að færa verndina út til annarra bótaflokka.

Leiðbeiningar B4.5. – Tryggingavernd.


    1. Sú vernd sem ber að veita á þeim tíma sem samþykktin er fullgilt í samræmi við 2. mgr. viðmiðunar A4.5 ætti a.m.k. að taka til flokkanna um læknishjálp, sjúkrabætur og vinnuslysabætur.
    2. Við þær aðstæður sem um getur í 6. mgr. viðmiðunar A4.5 má sjá fyrir sambærilegum bótum með tryggingum, gagnkvæmu eða marghliða samkomulagi eða öðrum skilvirkum aðferðum með hliðsjón af ákvæðum viðeigandi kjarasamninga. Ef slíkar ráðstafanir eru samþykktar ætti að upplýsa farmenn sem njóta góðs af þeim með hvaða hætti séð verður fyrir hinum ýmsu bótaflokkum tryggingaverndar.
    3. Ef fleiri en ein innanlandslöggjöf sem nær til tryggingaverndar á við um farmenn ættu aðildarríkin sem í hlut eiga að vinna saman í því skyni að ákvarða með gagnkvæmu samkomulagi hvaða löggjöld eigi að gilda, að teknu tilliti til atriða eins og tegunda og stigs verndar samkvæmt þeirri löggjöf sem er hagstæðari farmanninum sem í hlut á og hann vill frekar njóta góðs af.
    4. Málsmeðferðin sem á að koma á skv. 9. mgr. viðmiðunar A4.5 ætti að vera þannig úr garði gerð að hún taki til allra deilna sem tengjast kröfum farmannanna sem í hlut eiga án tillits til þess með hvaða hætti verndin er veitt.
    5. Hvert aðildarríki, þar sem eigin ríkisborgarar, ríkisborgarar annarra ríkja eða hvorutveggja starfa um borð í skipum sem sigla undir fána þess, ætti að veita þá tryggingavernd sem kveðið er á um í samþykktinni eftir því sem við á og endurskoða reglulega þá þætti tryggingarverndar sem tilgreindir eru í 1. mgr. viðmiðunar A4.5 með það í huga að tilgreina viðbótarbótaflokka sem kynnu að henta farmönnunum sem í hlut eiga.
    6. Í ráðningarsamningi farmanna ætti að koma fram hvernig útgerðarmaður sér farmönnum fyrir hinum ýmsu bótaflokkum tryggingaverndar auk annarra viðeigandi upplýsinga sem útgerðarmaður hefur yfir að ráða svo sem lögboðinn frádráttur af launum farmanna og framlag útgerðarmanns sem má koma til í samræmi við kröfur tilgreindra aðila sem hafa til þess heimild samkvæmt viðeigandi tryggingaverndarkerfum.
    7. Aðildarríki, sem er fánaríki skipsins, ætti á skilvirkan hátt að fara með lögsögu sína á sviði félagslegra mála, fullvissa sig um að skyldur útgerðarmanna hvað varðar tryggingavernd séu uppfylltar, þ.m.t. að það framlag sem þeim ber sé greitt til tryggingaverndarkerfa.

5. KAFLI – SKYLDUR UM FRAMKVÆMD OG FRAMFYLGD


    1. Í reglum þessa kafla er kveðið á um ábyrgð hvers aðildarríkis á að sá réttur og þær grundvallarreglur sem mælt er fyrir um í greinum þessarar samþykktar, auk þeirra tilteknu skyldna sem kveðið er á um í 1., 2., 3. og 4. kafla hennar, séu hafðar í heiðri og þeim framfylgt.
    2. Ákvæði 3. og 4. mgr. Í VI. gr., sem heimila framkvæmd A-hluta kóðans með skírskotun til ákvæða sem eru sambærileg að verulegu leyti, gilda ekki um A-hluta kóðans í þessum kafla.
    3. Í samræmi við 2. mgr. VI. gr. skal hvert aðildarríki hrinda í framkvæmd skyldum sínum samkvæmt reglunum með þeim hætti sem segir í samsvarandi viðmiðum í A-hluta kóðans og með tilhlýðilegu tilliti til leiðbeininganna í B-hluta kóðans.
    4. Ákvæðum þessa kafla skal hrint í framkvæmd með það í huga að farmenn og útgerðarmenn, eins og allir aðrir einstaklingar, eru jafnir fyrir lögunum, eiga rétt á jafnri lagavernd og skulu ekki sæta mismunun í aðgengi þeirra að dómstólum, dómum eða öðrum úrræðum til að leysa deilumál. Með ákvæðum þessa kafla verður ekki skorið úr um lögsögu eða réttarvettvang.

Regla 5.1. – Skyldur fánaríkisins.


Tilgangur: Að tryggja að hvert aðildarríki hrindi í framkvæmd skyldum sínum samkvæmt þessari samþykkt að því er varðar skip sem sigla undir fána þess.
Regla 5.1.1. – Almennar grundvallarreglur.
    1. Hverju aðildarríki er skylt að tryggja að skyldum þess samkvæmt þessari samþykkt sé hrint í framkvæmd um borð í hverju skipi sem siglir undir fána þess.
    2. Hvert aðildarríki skal tryggja að skilvirku kerfi sé komið á um skoðanir og vottun á vinnuskilyrðum í samræmi við reglu 5.1.3 og 5.1.4 og tryggja að starfsskilyrði og lífskjör farmanna um borð í skipum sem sigla undir fána þess séu og verði í samræmi við viðmiðanir þessarar samþykktar.
    3. Þegar komið er á skilvirku kerfi fyrir skoðanir og vottun á vinnuskilyrðum farmanna getur aðildarríki, eftir því sem við á, heimilað opinberum stofnunum eða öðrum stofnunum (þ.m.t. frá öðrum aðildarríkjum ef hið síðarnefnda samþykkir það) sem þau viðurkenna að séu hæfar og óháðar að framkvæma skoðanirnar og gefa út skírteini eða sinna hvoru tveggja. Í öllum tilvikum skal aðildarríki bera fulla ábyrgð á að skoða og votta starfsskilyrði og lífskjör farmanna sem í hlut eiga um borð í skipum sem sigla undir fána þess.
    4. Skírteini um vinnuskilyrði farmanna, ásamt yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, skulu teljast full sönnun þess að skip hafi verið skoðað á viðeigandi hátt af hálfu aðildarríkis, sem er fánaríki skipsins, og að kröfur þessarar samþykktar um starfsskilyrði og lífskjör farmannanna hafa verið uppfylltar að því leyti sem vottað er.
    5. Upplýsingar um kerfið sem um getur í 2. mgr. þessarar reglu, þ.m.t. þá aðferð sem beitt er til að meta skilvirkni þess, skulu felast í skýrslum aðildarríkis til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skv. 22. gr. stofnskrárinnar.

Viðmiðun A5.1.1. – Almennar grundvallarreglur.
    1. Hvert aðildarríki skal setja skýr markmið og viðmiðanir um stjórn skoðunar og vottunarkerfa sinna auk viðunandi, almennrar málsmeðferðar um mat á því að hvaða marki þessum markmiðum og viðmiðum sé náð.
    2. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að afrit af þessari samþykkt sé tiltækt um borð í öllum skipum sem sigla undir fána þess.

Leiðbeiningar B5.1.1. – Almennar grundvallarreglur.
    1. Lögbært stjórnvald ætti að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma á skilvirku samstarfi milli opinberra stofnana og annarra fyrirtækja, sem um getur í reglu 5.1.1 og 5.1.2, sem láta sig varða starfsskilyrði og lífskjör farmanna.
    2. Til að tryggja betur samstarf milli skoðunarmanna og útgerðarmanna, farmanna og stofnana hvers og eins og í því skyni að viðhalda og bæta starfsskilyrði og lífskjör farmanna ættu lögbær stjórnvöld að ráðfæra sig reglulega við fulltrúa slíkra stofnana um hvernig best sé að ná þessum markmiðum. Lögbær stjórnvöld ættu að mæla fyrir um hvernig hátta eigi slíku samstarfi, að höfðu samráði við samtök útgerðarmanna og farmanna.

Regla 5.1.2. – Starfsleyfi viðurkenndra stofnana.
    1. Opinberu stofnanirnar eða aðrar stofnanir sem um getur í 3. mgr. reglu 5.1.1 (viðurkenndar stofnanir) skulu hafa hlotið viðurkenningu af hálfu lögbæra stjórnvaldsins þess efnis að þær uppfylli kröfurnar í kóðanum um hæfni og sjálfstæði. Skoðunar- og vottunarstörfin sem viðurkenndu stofnununum kann að vera heimilað að framkvæma skulu vera innan þess verkefnasviðs sem sérstaklega er krafist í kóðanum að lögbæra stjórnvalda eða viðurkennd stofnun hafi með höndum.
    2. Skýrslurnar sem um getur í 5. mgr. reglu 5.1.1 skulu fela í sér upplýsingar um allar viðurkenndar stofnanir, hversu víðtækar heimildir þeirra eru og þær ráðstafanir sem aðildarríkið gerir til að tryggja að þau störf sem heimildirnar ná til séu innt af hendi með ítarlegum og skilvirkum hætti.

Viðmiðun A5.1.2. – Starfsleyfi viðurkenndra stofnana.
    1. Að því er snertir viðurkenninguna skv. 1. mgr. reglu 5.1.2 skal lögbæra stjórnvaldið kanna hæfni og sjálfstæði stofnunarinnar sem í hlut á og meta hvort stofnunin hafi sýnt fram á, að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna þeim störfum sem veitt starfsleyfi nær til, að stofnunin:
     a)      búi yfir nægilegri sérþekkingu um viðeigandi svið þessarar samþykktar og nægilegri þekkingu á rekstri skipa, þar með talið lágmarkskröfum fyrir farmenn til að mega vinna um borð í skipum, skilyrðum fyrir ráðningu, vistarverur, tómstundaaðstöðu, afþreyingu, fæði og þjónustu áhafna, heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd;
     b)      sé í stakk búin til að viðhalda og endurnýja sérfræðiþekkingu starfsmanna sinna;
     c)      hafi nægilega þekkingu á kröfum þessarar samþykktar auk gildandi landslaga, reglugerða og viðeigandi þjóðréttarlegum gerningum; og
     d)      að stærð hennar, uppbygging, reynsla og geta sé í réttu hlutfalli við tegund og umfang starfsleyfis hennar.
    2. Hvers kyns heimildir sem veittar eru að því er varðar skoðanir skulu hið minnsta veita viðurkenndu stofnuninni vald til að krefjast þess að ráðið sé bót á ágöllum sem hún finnur á starfsskilyrðum og lífskjörum farmanna og framkvæmi skoðanir í þessu tilliti að beiðni hafnarríkis.
    3. Hvert aðildarríki skal koma á fót:
     a)      kerfi til að tryggja að vinna framkvæmd af viðurkenndum stofnunum sé fullnægjandi sem felur í sér upplýsingar um öll gildandi landslög, reglugerðir og alþjóðlega gerninga sem málið varðar; og
     b)      málsmeðferð um tengsl við slíkar stofnanir og eftirlit með þeim.
    4. Hvert aðildarríki skal senda alþjóðavinnumálaskrifstofunni gildandi skrá yfir allar viðurkenndar stofnanir sem það hefur heimilað að starfa í sínu umboði og það skal halda þessari skrá við. Í skránni skal tilgreina þau starfssvið sem viðurkenndu stofnanirnar hafa fengið heimild til að sinna. Skrifstofan skal gera skrána aðgengilega öllum.

Leiðbeiningar B5.1.2. – Starfsleyfi viðurkenndra stofnana.
    1. Stofnunin sem vill fá viðurkenningu ætti að sýna fram á tæknilega og stjórnunarlega hæfni og getu til að tryggja að unnt sé að veita skjóta þjónustu af fullnægjandi gæðum.
    2. Við mat á getu stofnunar ætti lögbært stjórnvald að ákvarða hvort stofnunin:
     a)      hafi yfir að ráða nægu starfsliði á tækni-, stjórnunar- og stoðsviði;
     b)      hafi yfir að ráða nægilega hæfu fagstarfsliði til að veita þá þjónustu sem krafist er og að landfræðileg dreifing hennar sé fullnægjandi;
     c)      hafi sýnt fram á að hún geti veitt skjóta þjónustu af fullnægjandi gæðum; og
     d)      sé sjálfstæð og áreiðanleg í starfsemi sinni.
    3. Lögbæra stjórnvaldið ætti að gera skriflegan samning við þær stofnanir sem það viðurkennir með starfsleyfi í huga. Samningurinn ætti að fela í sér eftirtalda þætti:
     a)      gildissvið;
     b)      tilgang;
     c)      almenn skilyrði;
     d)      framkvæmd þeirra starfssviða sem starfsleyfi nær til;
     e)      lagagrunn þeirra starfssviða sem starfsleyfi nær til;
     f)      skýrslugjöf til lögbærs stjórnvalds;
     g)      lýsingu á starfsleyfinu frá lögbæra stjórnvaldinu til viðurkenndu stofnunarinnar; og
     h)      eftirlit lögbæra stjórnvaldsins með starfsemi sem það felur viðurkenndu stofnuninni.
    4. Hvert aðildarríki ætti að krefjast þess að viðurkenndar stofnanir setji á laggir kerfi til að viðhalda hæfni þess starfsliðs sem það ræður sem skoðunarmenn til að tryggja að þekkingu þess og sérfræðikunnáttu sé tímanlega haldið við.
    5. Hvert aðildarríki ætti að krefjast þess að viðurkenndar stofnanir haldi skrár yfir þá þjónustu sem þær veita þannig að þær geti sýnt fram á að þær hafi náð að uppfylla kröfur um tilskildar viðmiðanir á þeim sviðum sem þjónusta þeirra nær til.
    6. Þegar verklagsreglum um eftirlit sem um getur í b-lið 3. mgr. viðmiðunar A5.1.2 er komið á fót ætti hvert aðildarríki hafa til hliðsjónar leiðbeiningar um veitingu starfsleyfa til stofnana sem starfa í umboði stjórnvalda og samþykktar voru á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Regla 5.1.3. – Skírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna.
    1. Þessi regla gildir um skip sem eru:
     a)      500 brúttótonn eða stærri í millilandasiglingum; og
     b)      500 brúttótonn eða stærri og sigla undir fána aðildarríkis sem siglir frá höfn eða milli hafna annars ríkis.
Í þessari reglugerð merkir hugtakið „millilandasigling“ sjóferð frá landi til hafnar utan þess lands.
    2. Þessi regla gildir einnig um hvert skip sem siglir undir fána aðildarríkis og tekur ekki til 1. mgr. þessarar reglu, að ósk útgerðarmanns við aðildarríkið.
    3. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að skip sem sigla undir fána þess hafi tiltækt vinnuskírteini farmanna sem vottar að starfsskilyrði og lífskjör farmanna á skipinu, þar með talið ráðstafanir um viðvarandi framfylgd samkvæmt yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna sem um getur í 4. mgr. þessarar reglu, hafi verið skoðað og sé í samræmi við landslög, reglugerðir og aðrar ráðstafanir til framkvæmdar þessari samþykkt.
    4. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að skip sem sigla undir fána þess hafi tiltæka yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna þar sem fram koma þær kröfur innan lands sem hrinda þessari samþykkt í framkvæmd að því er varðar starfsskilyrði og lífskjör farmanna og mælt er fyrir um þær ráðstafanir sem samþykktar eru af hálfu útgerðarmanns til að tryggja að kröfur um borð í skipinu eða skipunum sem um ræðir séu uppfylltar.
    5. Skírteini um vinnuskilyrði farmanna og samræmisyfirlýsing um vinnuskilyrði farmanna skulu vera í samræmi við fyrirmyndina sem mælt er fyrir um í kóðanum.
    6. Hafi lögbært stjórnvald aðildarríkis eða viðurkennd stofnun með tilskilið starfsleyfi í þessum tilgangi gengið úr skugga um með skoðun að skip sem siglir undir fána aðildarríkisins samræmist og haldi áfram að samræmast viðmiðunum þessarar samþykktar skal það gefa út eða endurnýja og hafa aðgengilega öllum færslu sem tekur til skírteinis um vinnuskilyrði farmanna.
    7. Ítarlegar kröfur um skírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, þ.m.t. skrá yfir þau atriði sem skoða skal og viðurkenna eru að finna í A-hluta kóðans.

Viðmiðun A5.1.3. – Skírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna.
    1. Skírteini um vinnuskilyrði farmanna skal gefið út til skips af lögbæru stjórnvaldi eða viðurkenndri stofnun, sem hefur viðeigandi heimildir í þessu skyni, með gildistíma sem skal ekki vera lengri en fimm ár. Í viðbæti A5-I er að finna skrá yfir þau atriði sem skoða skal og sannreyna að fullnægi landslögum, reglugerðum eða séu í samræmi við aðrar ráðstafanir sem hrinda í framkvæmd kröfum þessarar samþykktar um starfsskilyrði og lífskjör farmanna um borð í skipum áður en hægt verður að gefa út skírteini um vinnuskilyrði farmanna.
    2. Gildi skírteinis um vinnuskilyrði farmanna skal vera háð milliskoðun af hálfu lögbærs stjórnvalds eða viðurkenndrar stofnunar, sem hefur viðeigandi heimildir í þessu skyni, til að tryggja að stöðugt sé farið eftir innanlandskröfum sem hrinda þessari samþykkt í framkvæmd. Ef einungis ein milliskoðun er framkvæmd og gildistími skírteinisins er fimm ár skal hún fara fram milli annarrar og þriðju árlegu dagsetninganna á skírteininu. Umfang og yfirgrip milliskoðunar skal vera jafnt skoðun til endurnýjunar skírteinisins. Skírteinið skal áritað að lokinni fullnægjandi milliskoðun.
    3. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. þessarar viðmiðunar, þegar endurnýjunarskoðun er lokið innan þriggja mánaða áður en gildandi skírteini um vinnuskilyrði farmanna rennur út, tekur hið nýja skírteini um vinnuskilyrði farmanna gildi á þeim degi er endurnýjunarskoðun lýkur og gildir í fimm ár hið lengsta frá þeim degi er eldra skírteinið fellur úr gildi.
    4. Þegar endurnýjunarskoðun er lokið meira en þremur mánuðum fyrir gildislokadag gildandi skírteinis um vinnuskilyrði farmanna skal hið nýja skírteini um vinnuskilyrði farmanna gilda til tiltekins dags innan fimm ára frá þeim degi sem endurnýjunarsannprófun lýkur.
    5. Gefa má út skírteini um vinnuskilyrði farmanna til bráðabirgða:
     a)      fyrir nýtt skip við afhendingu;
     b)      þegar skip skiptir um fána; eða
     c)      þegar útgerðarmaður tekur á sig ábyrgð á rekstri skips sem er útgerðarmanninum nýtt.
    6. Lögbært stjórnvald eða viðurkennd stofnun sem hefur viðeigandi heimildir í þessu skyni má gefa út bráðabirgðaskírteini um vinnuskilyrði farmanna með gildistíma sem er ekki lengri en sex mánuðir.
    7. Einungis má gefa út bráðabirgðaskírteini um vinnuskilyrði farmanna að fenginni staðfestingu á því að:
     a)      skipið hafi verið skoðað, að svo miklu leyti sem sanngjarnt og gerlegt er, með tilliti til atriða sem skráð eru í viðbæti A5-I, að fenginni staðfestingu á atriðum skv. b-, c- og d-lið þessarar málsgreinar;
     b)      útgerðarmaðurinn hafi sýnt fram á við lögbært stjórnvald eða viðurkennda stofnun að um borð í skipinu hafi verið gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að fullnægja þessari samþykkt;
     c)      skipstjórinn kunni skil á kröfum þessarar samþykktar og skyldum um framkvæmd; og
     d)      upplýsingar sem máli skipta hafi verið sendar til lögbærs stjórnvalds eða viðurkenndrar stofnunar svo unnt sé að gefa út yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna.
    8. Framkvæma skal ítarlega skoðun í samræmi við 1. mgr. þessarar viðmiðunar áður en bráðabirgðaskírteinið fellur úr gildi svo unnt sé að gefa út skírteini um vinnuskilyrði farmanna til heils gildistíma. Ekki má gefa út frekari bráðabirgðaskírteini eftir fyrstu sex mánuðina sem um getur í 6. mgr. þessarar viðmiðunar. Ekki er nauðsynlegt að gefa út yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna til jafnlengdar gildistíma bráðabirgðaskírteinisins.
    9. Skírteini um vinnuskilyrði farmanna, bráðabirgðaskírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna skulu á því formi sem sýnt er í viðbæti A5-II.
    10. Yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna skal fylgja skírteini um vinnuskilyrði farmanna. Henni skal skipt í tvo hluta:
     a)      Lögbært stjórnvald skal fylla út I. hluta og skal það:
                  i)      skrá þau atriði sem skoða á í samræmi við 1. mgr. þessarar viðmiðunar,
                  ii)      tilgreina þær innanlandskröfur sem fela í sér viðeigandi ákvæði þessarar samþykktar með tilvísun til viðeigandi lagaákvæða og, eftir því sem þurfa þykir, hnitmiðaðar upplýsingar um helstu innanlandskröfur,
                  iii)      vísa til þeirra krafna sem eiga sérstaklega við tilteknar gerðir skipa samkvæmt landslögum,
                  iv)      færa inn þau ákvæði sem teljast jafngild að verulegu leyti skv. 3. mgr. VI. gr.; og
                  v)      tilgreina með skýrum hætti hvers kyns undanþágur sem lögbært stjórnvald veitir svo sem kveðið er á um í 3. kafla, og
     b)      II. kafli skal fylltur út af útgerðarmanninum sem skal tilgreina þær ráðstafanir sem samþykktar eru til að tryggja að farið verði áfram eftir innanlandskröfum milli skoðana og ráðstafanirnar sem eru fyrirhugaðar eru til að tryggja viðvarandi umbætur. Lögbært stjórnvald, eða viðurkennd stofnun, sem hefur viðeigandi heimildir í þessu skyni, skal votta II. hluta og skal gefa út yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna.
    11. Niðurstöður allra síðari skoðana eða annarra sannprófana sem gerðar eru að því er varðar viðkomandi skip og allir umtalsverðir ágallar sem finnast við slíkar sannprófanir skulu skráðar ásamt dagsetningu þegar bætt var úr ágöllunum. Þessi skrá skal, ásamt enskri þýðingu ef hún er ekki á ensku, í samræmi við landslög eða reglugerðir, vera tilgreind í eða fylgja yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna eða gerð aðgengileg farmönnum, skoðunarmönnum fánaríkja, viðurkenndum eftirlitsmönnum hafnaríkja og fulltrúum útgerðarmanna og farmanna með einhverjum öðrum hætti.
    12. Gilt skírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, ásamt enskri þýðingu ef það er ekki á ensku, skal vera um borð í skipinu og afrit af því skal hengt upp á áberandi stað um borð þar sem farmenn hafa aðgang að því. Afrit skal vera aðgengilegt í samræmi við landslög og reglugerðir að kröfu farmanna, skoðunarmanna fánaríkja, viðurkenndra eftirlitsmanna hafnaríkja og fulltrúa útgerðarmanna og farmanna.
    13. Krafan um enska þýðingu á 11. og 12. mgr. í þessari viðmiðun á ekki við um skip sem eru ekki í millilandasiglingum.
    14. Skírteini sem gefið er út skv. 1. eða 5. mgr. þessarar viðmiðunar er úr gildi fallið ef eitthvert eftirtalinna tilvika koma upp:
     a)      ef viðeigandi skoðanir eru ekki framkvæmdar innan þess tíma sem tilgreindur er í 2. mgr. þessarar viðmiðunar;
     b)      ef skírteinið er ekki áritað í samræmi við 2. mgr. þessarar viðmiðunar;
     c)      þegar skip skiptir um fána;
     d)      þegar útgerðarmaður hættir að bera ábyrgð á rekstri skipsins; og
     e)      ef verulegar breytingar hafa verið gerðar á burðarvirki eða búnaðinum sem fjallað er um í 3. kafla.
    15. Í þeim tilvikum sem um getur c-, d- og e-lið 14. mgr. þessarar viðmiðunar skal einungis gefa út nýtt skírteini þegar lögbært stjórnvald eða viðurkennd stofnun sem gefur út nýja skírteinið hefur gengið úr skugga um að skipið uppfylli kröfur þessarar viðmiðunar.
    16. Lögbært stjórnvald eða viðurkenndar stofnanir sem hafa viðeigandi heimildir í þessu skyni skulu afturkalla skírteini um vinnuskilyrði farmanna ef sannað þykir að hlutaðeigandi skip uppfyllir ekki ákvæði þessarar samþykktar og úrbætur hafa ekki verið gerðar.
    17. Þegar fjallað er um það hvort afturkalla eigi skírteini um vinnuskilyrði farmanna í samræmi við 16. mgr. þessarar viðmiðunar skal lögbært stjórnvald eða viðurkennd stofnun hafa hliðsjón af því hve alvarlegur ágallinn er eða hve oft hann hefur komið fram.

Leiðbeiningar B5.1.3. – Skírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna.
    
1. Greinargerðin um innanlandskröfur í I. hluta yfirlýsingarinnar um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna ætti að innihalda eða henni ætti að fylgja tilvísun til lagaákvæða tengdum starfsskilyrðum og lífskjörum farmanna hvað varðar atriðin sem talin eru upp í viðbæti A5-I. Ef innanlandslöggjöf fylgir nákvæmlega kröfunum sem mælt er fyrir um í þessari samþykkt gæti tilvísun verið nægileg. Ef ákvæði samþykktarinnar er hrint í framkvæmd með skírskotun til ákvæða sem eru verulega jafngild, svo sem kveðið er á um í 3. mgr. IV. greinar, ætti að vekja athygli á þessu ákvæði og einnig ætti að leggja fram gagnorðaða útskýringu. Ef undanþága er veitt af hálfu lögbærs stjórnvalds eins og kveðið er á um í 3. hluta ætti að tilgreina viðeigandi ákvæði með skýrum hætti.
    2. Þær ráðstafanir sem um getur í II. kafla yfirlýsingar um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, sem útgerðarmaður útbýr, ættu einkum að taka til þeirra tilvika þar sem staðfest er að stöðugt sé farið að innanlandskröfum, þeirra einstaklinga sem bera ábyrgð á staðfestingunni, færslurnar sem á að skrá, auk málsmeðferðarinnar sem fara á eftir ef í ljós kemur að ekki er farið að kröfunum. Snið II. kafla getur verið margvísilegt. Í honum er hægt að vísa til annarra viðamikilla skjala sem ná til stefnumótunar og málsmeðferðar í tengslum við aðra þætti siglinga, t.d. skjala sem krafist er samkvæmt alþjóðakóða um öryggisstjórnun (ISM) eða upplýsinganna sem krafist er skv. 5. reglu kafla XI-1 í SOLAS-samþykktinni sem tengist ferilskrá skipsins.
    3. Ráðstafanirnar til að tryggja að stöðugt sé farið að kröfunum ættu að fela í sér almennar, alþjóðlegar kröfur fyrir útgerðarmanninn og skipstjórann svo þeir geti fengið upplýsingar um nýjustu tækniframfarir og vísindalegar uppgötvanir um hönnun vinnustaða, að teknu tilliti til þeirrar hættu sem felst í starfi farmanna og í því skyni að upplýsa fulltrúa farmanna um slíkt og tryggja með því betri vernd sem nær til starfsskilyrða og lífskjara farmanna.
    4. Yfirlýsingin um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna ætti fyrst og fremst að vera rituð á skýru máli til að hjálpa öllum sem málið varðar, svo sem skoðunarmönnum fánaríkja og viðurkenndum eftirlitsmönnum í fánaríkjum og farmönnum að kanna hvort kröfur séu uppfylltar með fullnægjandi hætti.
    5. Dæmi um þá tegund upplýsinga sem gætu verið í yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna er að finna í viðbæti B5-I.
    6. Ef skip skiptir um fána eins og vísað er til í c-lið 14. mgr. viðmiðunar A5.1.3 og þar sem bæði ríkin sem í hlut eiga hafa fullgilt þessa samþykkt ætti aðilinn, sem heimilaði skipinu áður að sigla undir fána sínum, að senda lögbæra stjórnvaldi hins aðildarríkisins afrit af skírteininu um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsingunni um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna sem er um borð í skipinu við fyrsta tækifæri áður en skipt er um fána, ef við á, afrit af viðkomandi skoðunarskýrslum ef lögbæra stjórnvaldið óskar þess innan þriggja mánaða eftir að skipt hefur verið um fána.

Regla 5.1.4. – Skoðun og framfylgd.
    1. Hvert aðildarríki skal staðfesta, með skilvirku og samræmdu kerfi reglubundinna skoðana, eftirlits og annarra eftirlitsráðstafana, að skip sem sigla undir fána þess uppfylli ákvæði þessarar samþykktar eins og henni er hrint í framkvæmd í landslögum og reglugerðum.
    2. Nákvæmar kröfur um skoðunar- og framfylgdarkerfið sem um getur í 1. mgr. þessarar reglu eru tilgreindar í A-hluta kóðans.

Viðmiðun A5.1.4. – Skoðun og framfylgd.
    1. Hvert aðildarríki skal reka kerfi til skoðunar á aðbúnaði farmanna um borð í skipum sem sigla undir fána þess sem skal fela í sér að staðfest er hvort þær ráðstafanir tengdar starfsskilyrðum og lífskjörum sem greint er frá í yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, ef við á, séu gerðar og hvort þeim kröfum sem kveðið er á um í þessari samþykkt sé fullnægt.
    2. Lögbært stjórnvald skal tilnefna nægilegan fjölda hæfra skoðunarmanna til að rækja skyldur þess skv. 1. mgr. þessarar viðmiðunar. Ef viðurkenndum stofnunum hefur verið heimilað að framkvæma skoðanir skal aðildarríkið krefjast þess að starfslið sem framkvæmir skoðanir sé hæft til að gegna þessum skyldum og skal sjá þeim fyrir nægilegu lagalegu valdi til að sinna skyldum sínum.
    3. Kveða skal á um með fullnægjandi hætti svo tryggt sé að skoðunarmenn hafi hlotið þjálfun, búi yfir hæfni, hafi til þess umboð, vald, stöðu og sjálfstæði sem er nauðsynleg eða æskileg til að þeir geti sinnt staðfestingunni og tryggt að farið sé eftir þeim kröfum sem gerðar eru skv. 1. mgr. þessarar viðmiðunar.
    4. Slíkar skoðanir skulu fara fram með viðeigandi millibili sem krafist er samkvæmt viðmiðun A5.1.3.Millibilið skal aldrei vera lengra en þrjú ár.
    5. Ef aðildarríki berst kvörtun, sem að þess mati er ekki augljóslega tilefnislaus, eða fær sannanir fyrir því að skip sem siglir undir fána þess fer ekki að þeim kröfum sem kveðið er á um í þessari samþykkt eða ef alvarlegir annmarkar eru á framkvæmd þeirra ráðstafana sem tilgreindar eru í yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna skal aðildarríkið grípa til þeirra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að rannsaka málið og tryggja að bætt verði úr hvers kyns ágöllum sem í ljós kunna að koma.
    6. Hvert aðildarríki skal kveða á um með fullnægjandi hætti og gera ráðstafanir um framfylgd þeirra svo tryggt sé að skoðunarmenn hafi stöðu og skilyrði til þjónustu svo ekki fari milli mála að þeir séu óháðir ríkisstjórnarskiptum og ytri áhrifum.
    7. Skoðunarmönnum, sem fengið hafa í hendur skýrar leiðbeiningar um þau verkefni sem sinna á og viðeigandi skilríki, skal veitt umboð:
     a)      til að fara um borð í skip sem siglir undir fána aðildarríkisins
     b)      til að framkvæma hvers kyns athugun, prófraun eða eftirgrennslan sem þeir kunna að telja nauðsynlegar til að fullvissa sig um að farið sé strangt eftir viðmiðununum; og
     c)      til að krefjast þess að bætt sé úr hvers kyns ágöllum og, ef þeir hafa ástæðu til að ætla að ágallarnir feli í sér alvarleg brot á kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. réttindum farmanna) eða skapi umtalsverða hættu hvað varðar öryggi, heilbrigði eða vernd farmanna, að banna skipi að halda úr höfn þar til nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar.
    8. Hvers kyns aðgerðir sem gripið er til skv. c-lið 7. mgr. þessarar viðmiðunar skulu verða háð réttinum á að áfrýja til dómstóla eða stjórnvalds.
    9. Skoðunarmenn skulu hafa ákvörðunarrétt til ráðgjafar í stað þess að hrinda af stað eða mæla með aðgerðum ef ekki er um að ræða skýrt brot á kröfum þessarar samþykktar sem stofnar öryggi, heilbrigði eða vernd farmannanna sem í hlut eiga í hættu og ef ekki er um fyrri brot af sama toga að ræða.
    10. Skoðunarmenn skulu meðhöndla sem trúnaðarmál öll tilvik óánægju eða umkvartana um hættu eða ágalla í tengslum við starfsskilyrði og lífskjör farmanna eða brot á lögum og reglugerðum og gefa aldrei í skyn við útgerðarmanninn, fulltrúa hans eða rekstraraðila skipsins að skoðun hafi farið fram af völdum slíkrar óánægju eða umkvörtunar.
    11. Skoðunarmönnum skal ekki falið að sinna skyldum sem kynnu, sökum fjölda og eðlis þeirra, að trufla markvissa skoðun eða skerða umboð þeirra eða hlutleysi gagnvart útgerðarmönnum, farmönnum eða öðrum hagsmunaaðilum. Skoðunarmönnum skal einkum:
     a)      bannað að hafa beina eða óbeina hagsmuni af hvers kyns starfsemi sem þeir eru fengnir til að skoða; og
     b)      bannað að uppljóstra, jafnvel eftir að hafa hætt starfsemi, atvinnuleyndarmáli eða trúnaðarmáli um vinnuferli eða upplýsingar af persónulegum toga sem kunna að verða þeim ljósar í starfi, að viðurlögðum hæfilegum refsingum eða ráðstöfunum ef agabrot eiga sér stað.
    12. Skoðunarmenn skulu fram skýrslu um hverja skoðun til lögbærra stjórnvalda. Afhenda skal skipstjóra skipsins eitt eintak af skýrslunni á ensku eða á vinnutungumáli skipsins og annað eintak skal hengt upp á tilkynningatöflu skipsins til upplýsingar fyrir farmennina og það sent til trúnaðarmanna þeirra ef þess er óskað.
    13. Lögbært stjórnvald skal halda skýrslur um skoðanir á skilyrðum sem farmönnum eru búin um borð í skipum sem sigla undir fána þeirra. Það skal birta ársskýrslu um skoðunarstörf innan skynsamlegra tímamarka eftir áramót og í öllu falli innan sex mánaða.
    14. Ef fram fer rannsókn í kjölfar meiriháttar atviks skal leggja skýrsluna fram við lögbært stjórnvald eins fljótt og unnt er en ekki síðar en mánuði eftir að rannsókn lýkur.
    15. Þegar skoðun er framkvæmd eða þegar ráðstafanir eru gerðar samkvæmt þessari viðmiðun skal forðast eftir fremsta megni að kyrrsetja eða tefja skip á ótilhlýðilegan hátt.
    16. Greiða skal bætur í samræmi við landslög og reglugerðir fyrir tap eða tjón sem hlýst af völdum óréttmætrar framkvæmdar valds hans sem skoðunarmanns. Sönnunarbyrði í hverju máli skal hvíla á þeim sem leggur fram kvörtun.
    17. Hvert aðildarríki skal kveða á um og beita hæfilegum viðurlögum og öðrum ráðstöfunum til úrbóta ef farið er gegn kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. gegn réttindum farmanna) og við því að hindra skoðunarmenn í að gegna skyldum sínum.

Leiðbeiningar B5.1.4. – Skoðun og framfylgd.
    1. Lögbært stjórnvald og önnur þjónusta eða stjórnvald sem hefur að öllu leyti eða að hluta til með að gera að skoða starfsskilyrði og lífskjör farmanna ætti að hafa nauðsynleg tilföng til að inna af hendi starf sitt. Einkum ætti að sjá til þess: a) að hvert aðildarríki geri nauðsynlegar ráðstafanir svo kalla megi til hæfa tæknisérfræðinga og aðra sérfræðinga, ef nauðsyn krefur, til að aðstoða skoðunarmenn við störf sín; og b) að skoðunarmenn fái til afnota hentugar starfstöðvar, búnað og farartæki svo þeir geti leyst störf sín af hendi með fullnægjandi hætti.
    2. Lögbært stjórnvald ætti að móta stefnu um að fullnægja formskilyrðum og um eftirlit til að tryggja samræmi og leiðbeina með öðrum hætti um skoðun og framfylgd sem tengist þessari samþykkt. Sjá ætti öllum skoðunarmönnum og viðeigandi löggæslumönnum fyrir afriti af þessari stefnu og hún ætti að vera aðgengileg almenningi, útgerðarmönnum og farmönnum.
    3. Lögbært stjórnvald ætti að koma á fót einfaldri málsmeðferð til að gera því kleift að taka á móti trúnaðarupplýsingum um hugsanleg brot gegn kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. gegn réttindum farmanna) lagðar fram af hálfu farmanna eða fulltrúa þeirra og heimila skoðunarmönnum að rannsaka slík mál fljótt, þ.m.t.:
     a)      gera skipstjórum, farmönnum eða fulltrúum farmanna kleift að óska eftir skoðun þegar þeir telja það nauðsynlegt; og
     b)      sjá útgerðarmönnum, farmönnum og stofnunum sem í hlut eiga fyrir tæknilegum upplýsingum og ráðgjöf um hvernig megi með sem skilvirkustum hætti uppfylla kröfur þessarar samþykktar og að stöðugar úrbætur verði á aðbúnaði farmanna um borð í skipum.
    4. Skoðunarmenn ættu að hafa hlotið ítarlega þjálfun og vera nægilega margir þannig að tryggt sé að þeir framfylgi skyldum sínum með markvissum hætti og með tilhlýðilegu tillit til:
     a)      mikilvægis þeirra skyldna sem skoðunarmenn gegna, einkum hvað varðar fjölda, tegundir og stærðir skipa sem sæta skoðun og þau fjölmörgu og flóknu lagaákvæði sem þarf að framfylgja;
     b)      þeirra úrræða sem eru skoðunarmönnum tiltæk; og
     c)      þeirra skilyrða sem þurfa að liggja að baki skoðunum svo þær gegni tilgangi sínum.
    5. Með fyrirvara um skilyrði um ráðningu til opinberrar þjónustu sem mælt kann að vera fyrir um í landslögum og reglugerðum ættu skoðunarmenn að hafa menntun og hæfi til starfans og ef unnt er ættu þeir að hafa að baki menntun á sviði sjómennsku og reynslu sem farmenn. Þeir ættu að hafa nægilega þekkingu á starfsskilyrðum og lífskjörum farmanna og á enskri tungu.
    6. Gera ætti ráðstafanir til að sjá skoðunarmönnum fyrir viðeigandi frekari þjálfun á meðan þeir eru í starfi.
    7. Allir skoðunarmenn ættu að góðan skilning á því við hvaða aðstæður skoðunar ættu að fara fram við, umfangi skoðana við hinar ýmsu aðstæður sem um getur í almennum reglum um skoðunaraðferðir.
    8. Skoðunarmenn sem fá viðhlítandi skilríki samkvæmt landslögum ættu að lágmarki að hafa vald til þess að:
     a)      fara óhindrað og fyrirvaralaust um borð í skip; þó ættu skoðunarmenn, áður en skipaskoðunin hefst, að tilkynna skipstjóranum eða öðrum einstaklingi sem er í forsvari og, ef við á, farmönnunum um nærveru sína;
     b)      leggja spurningar fyrir skipstjórann, farmanninn, annan einstakling eða fulltrúa útgerðarmanns um öll mál sem tengjast gildi krafna samkvæmt lögum og reglugerðum, í návist vitna sem óskað kann að hafa verið eftir;
     c)      krefjast að lagðar verði fram hvers kyns bækur, skipsdagbækur, skrár, skírteini eða önnur skjöl eða upplýsingar sem tengjast beint atriðum sem eru skoðunarskyld í því skyni að staðfesta hvort farið sé eftir landslögum og reglugerðum sem hrinda þessari samþykkt í framkvæmd;
     d)      framfylgja því að settar séu upp tilkynningar sem krafist er samkvæmt landslögum og reglugerðum sem hrinda þessari samþykkt í framkvæmd;
     e)      taka eða fjarlægja til greiningar sýni af varningi, farmi, drykkjarvatni, vistum og efnum sem eru notuð eða meðhöndluð;
     f)      vekja athygli, í kjölfar skoðunar, útgerðarmannsins eða skipstjóra á ágöllum sem kunna að hafa áhrif á heilsu og öryggi þeirra sem eru um boð í skipi;
     g)      gera lögbæru stjórnvaldi viðvart og, ef við á, viðurkenndri stofnun um alla ágalla eða misnotkun sem ekki er sérstaklega kveðið á um í gildandi lögum eða reglugerðum og leggja fram tillögur til þeirra um hvernig bæta megi lögin og reglugerðirnar; og
     h)      tilkynna lögbæru stjórnvaldi um hvers kyns vinnuslys eða atvinnusjúkdóma sem hrjá farmenn í þeim tilvikum og með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögum og reglugerðum.
    9. Þegar sýni, sem um getur í e-lið 8. mgr. þessara leiðbeininga eru tekin eða fjarlægð ætti að tilkynna útgerðarmanninum eða fulltrúa útgerðarmannsins og, ef við á, farmanninum eða þeir ættu að vera viðstaddir þegar sýnið er tekið eða fjarlægt. Skoðunarmaðurinn ætti að skrá magn slíks sýnis með viðeigandi hætti.
    10. Ársskýrsla sem lögbært stjórnvald hvers aðildarríkis gefur út í tengslum við skip sem sigla undir fána aðildarríkis ætti að innihalda:
     a)      skrá yfir gildandi lög og reglugerðir sem tengjast starfsskilyrðum og lífskjörum farmanna og allar breytingar sem hafa öðlast gildi á árinu;
     b)      upplýsingar um skipulag skoðunarkerfisins;
     c)      hagtölur um skip eða önnur athafnasvæði sem kunna að sæta skoðun og skip og önnur athafnasvæði sem eru skoðuð í raun;
     d)      hagtölur um alla farmenn sem lúta lögum og reglugerðum þess;
     e)      hagtölur um brot á löggjöf, viðurlög sem beitt er og farbann sem lagt er á skip; og
     f)      hagtölur um tilkynnt vinnuslys og atvinnusjúkdóma farmanna.

Regla 5.1.5. – Málsmeðferð um kvartanir um borð.
    1. Hvert aðildarríki skal krefjast þess að um borð í skipum sem sigla undir fána þess sé fyrir hendi sanngjörn, skilvirk og skjót tilhögun um meðhöndlun kvartana um meint brot gegn kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. gegn réttindum farmanna).
    2. Hvert aðildarríki skal banna og refsa fyrir hvers kyns áreitni fyrir að leggja inn kvörtun.
    3. Ákvæði þessarar reglu og tengdra hluta kóðans eru með fyrirvara um rétt farmanna til að rétta hlut sinn með hvers kyns lagaúrræðum sem farmaðurinn telur viðeigandi.

Viðmiðun A5.1.5. – Málsmeðferð um kvartanir um borð.
    1. Með fyrirvara um víðara gildissvið sem kann að vera kveðið á um í landslögum eða reglugerðum eða kjarasamningum, mega farmenn láta reyna á málsmeðferð um að leggja fram kvartanir tengdar hvers kyns málum um meint brot gegn kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. gegn réttindum farmanna).
    2. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að í lögum þess eða reglugerðum sé viðeigandi málsmeðferð um kvartanir um borð í því skyni að fullnægja kröfum skv. reglu 5.1.5. Með slíkri málsmeðferð skal leitast við að sinna kvörtunum sem fyrst í ferlinu. Farmenn skulu þó í öllum tilvikum hafa rétt á að leggja fram kvörtun beint til skipstjóra og, telji þeir það nauðsynlegt, til viðkomandi, utanaðkomandi stjórnvalda.
    3. Í málsmeðferð um kvartanir um borð skal m.a. felast réttur farmannsins til að njóta fylgdar eða að annar aðili komi fram fyrir hans hönd meðan kvörtunarferlið stendur yfir auk verndar til að koma í veg fyrir áreitni fyrir að leggja inn kvörtun. Hugtakið „áreitni“ nær til hvers kyns meinlegs verknaðar sem einstaklingur fremur gegn farmanni fyrir að leggja fram kvörtun sem er ekki augljóslega tilefnislaus eða gerð af meinfýsni.
    4. Auk afrits af ráðningarsamningi farmanna skulu allir farmenn fá í hendur afrit af gildandi málsmeðferðarreglum um kvartanir um borð í skipinu. Í því skulu felast tengiupplýsingar fyrir lögbært stjórnvald í fánaríkinu og, ef það er annað, í búsetulandi farmannsins og nafn einstaklings eða einstaklinga um borð í skipinu sem geta í trúnaði veitt farmanninum hlutlausa ráðgjöf um kvörtun þeirra og aðstoðað þá með öðrum hætti við að fylgja kvörtunarmálsmeðferðinni sem er þeim tiltæk um borð í skipinu.

Leiðbeiningar B5.1.5. – Málsmeðferð um kvartanir um borð.
    1. Með fyrirvara um viðeigandi ákvæði í gildandi kjarasamningi ætti lögbært stjórnvald, að höfðu nánu samráði við samtök útgerðarmanna og farmanna, að semja fyrirmynd að sanngjarnri, skjótri og velskjalfestri málsmeðferð um meðhöndlun kvartana um borð fyrir öll skip sem sigla undir fána aðildarríkisins. Þegar þessi málsmeðferð er í þróun ætti að hafa eftirfarandi atriði í huga:
     a)      margar kvartanir kunna að tengjast sérstaklega þeim einstaklingum sem beina á kvörtuninni til eða jafnvel skipstjóra skipsins. Í öllum tilvikum ættu farmenn einnig að geta kvartað beint til skipstjórans og til utanaðkomandi aðila; og
     b)      svo forðast megi vanda tengdan því að farmenn, sem leggja fram kvörtun um mál samkvæmt þessari samþykkt, verði fyrir áreitni ætti málsmeðferðin að hvetja til þess að tilnefndur sé einstaklingur um borð sem getur ráðlagt farmönnum um þá málsmeðferð sem er þeim tiltæk og, ef farmaðurinn sem kvartar óskar eftir því, sækir hvers kyns fundi eða yfirheyrslur um efni kvörtunarinnar.
    2. Málsmeðferðin sem ræddar eru meðan á samráðsferlinu sem um getur í 1. mgr. þessara leiðbeininga ætti a.m.k. að fela í sér eftirfarandi:
     a)      beina ætti kvörtunum til yfirmanns deildar farmannsins sem leggur fram kvörtun eða til æðsta yfirmanns farmannsins;
     b)      yfirmaður deildar eða æðsti yfirmaður ættu því næst að reyna að leysa málið innan settra tímamarka sem eru í samræmi við alvarleika málanna sem um ræðir;
     c)      geti yfirmaður deildar eða æðsti yfirmaður ekki leyst úr kvörtuninni þannig að farmanninum líki má hinn síðarnefndi vísa því til skipstjórans sem ætti að meðhöndla málið sjálfur;
     d)      farmenn ættu ávallt að eiga rétt á að annar farmaður að eign vali fylgi þeim eða sé fulltrúi þeirra um borð í skipinu sem um er að ræða;
     e)      skrá ætti allar kvartanir og málalyktir þeirra og farmaðurinn sem í hlut á ætti að fá afrit af færslunni í hendur;
     f)      ef ekki er unnt að leiða kvörtun til lykta um borð ætti að vísa málinu í land til útgerðarmannsins sem ætti að fá hæfilegan frest til að leysa það, ef við á, í samráði við farmennina sem í hlut eiga eða aðra einstaklinga sem þeir kunna að tilnefna sem fulltrúa sína; og
     g)      í öllum tilvikum ættu farmenn að eiga rétt á að leggja fram kvartanir sínar beint við skipstjóra, útgerðarmann og lögbær stjórnvöld.

Regla 5.1.6. – Sjóslys.
    1. Hvert aðildarríki skal standa fyrir opinberri rannsókn á öllum alvarlegum sjóslysum, sem hafa meiðsl eða manntjón í för með sér, þar sem skip sem siglir undir fána þess á í hlut. Lokaskýrsla um rannsókn skal venjulega birt opinberlega. 2. Aðildarríki skulu eiga með sér samvinnu til að greiða fyrir rannsókn á alvarlegum sjóslysum sem um getur í 1. mgr. þessarar reglu.

Viðmiðun B5.1.6. – Sjóslys .

(Engin ákvæði.)



Leiðbeiningar B5.1.6. – Sjóslys.

(Engin ákvæði.)



Regla 5.2. – Hafnarríkisskyldur.


Tilgangur: Að gera hverju aðildarríki kleift að hrinda í framkvæmd skyldum sínum samkvæmt þessari samþykkt um alþjóðlega samvinnu við að hrinda í framkvæmd og framfylgja viðmiðunum samþykktarinnar um erlend skip.
Regla 5.2.1. – Skoðanir í höfn.
    1. Hvert erlent skip sem kemur til hafnar í aðildarríki í eðlilegum erindagerðum eða af tæknilegum orsökum getur sætt skoðun í samræmi við 4. mgr. V. gr. í því skyni að kanna hvort farið sé að kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. um réttindi farmanna) sem varða starfsskilyrði og lífskjör farmanna um borð í skipinu.
    2. Hvert aðildarríki skal viðurkenna skírteinið um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna samkvæmt reglu 5.1.3 sem full sönnun fyrir því að kröfum þessarar samþykktar sé fullnægt (þ.m.t. um réttindi farmanna). Samkvæmt því skulu skoðanirnar takmarkast við úttekt á skírteininu og yfirlýsingunni nema við þær aðstæður sem tilgreindar eru í kóðanum.
    3. Viðurkenndir eftirlitsmenn skulu framkvæma skoðanir í höfnum í samræmi við ákvæði kóðans og aðrar gildandi alþjóðlegar reglur sem taka til hafnarríkisskoðana í aðildarríki. Allar slíkar skoðanir skulu takmarkast við að staðfesta hvort skoðunaratriðið sé í samræmi við viðeigandi kröfur sem mælt er fyrir um í greinum og reglum þessarar samþykktar og í A-hluta kóðans.
    4. Skoðanir sem fara mega fram í samræmi við þessa reglu skulu byggjast á skilvirku hafnarríkisskoðunar- og eftirlitskerfi til að leitast við að tryggja að starfsskilyrði og lífskjör farmanna um borð í skipum sem koma til hafnar í hlutaðeigandi aðildarríki séu í samræmi við kröfur þessarar samþykktar (þ.m.t. um réttindi farmanna).
    5. Upplýsingar um kerfið sem um getur í 4. mgr. þessarar reglu, þ.m.t. þá aðferð sem beitt er til að meta skilvirkni þess, skulu felast í skýrslu aðildarríkis til alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skv. 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Viðmiðun A.2.1. – Skoðanir í höfn.
    1. Ef viðurkenndur eftirlitsmaður, sem kemur um borð til að framkvæma skoðun og biður um að fá að sjá, ef við á, skírteini um vinnuskilyrði farmanna og yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, kemst að því að:
     a)      umbeðin skjöl eru ekki lögð fram, eru ekki haldin, eru fölsk eða ef þau skjöl sem eru lögð fram innihalda ekki þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt þessari samþykkt eða eru að öðru leyti ógild; eða
     b)      ef gild ástæða er til að ætla að starfsskilyrði og lífskjör um borð í skipinu séu ekki í samræmi við kröfur þessarar samþykktar; eða
     c)      rökstudd ástæða er til að ætla að skipið hafi skipt um fána í því skyni að forðast að uppfylla kröfur þessarar samþykktar; eða
     d)      ef kvartanir liggja fyrir þar sem gefið er í skyn að tiltekin starfsskilyrði og lífskjör séu ekki í samræmi við kröfur þessarar samþykktar;
má framkvæma nákvæmari skoðun í því skyni að komast að raun um hvernig starfsskilyrðum og lífskjörum um borð í skipinu sé háttað. Slíkar skoðanir skulu í öllu falli fara fram ef starfsskilyrði og lífskjör sem talið er að sé ábótavant kunni að stofna öryggi, heilsu eða vernd farmanna í hættu eða ef viðurkenndur eftirlitsmaður hefur ástæðu til að ætla að hvers kyns ágallar kunni að fela í sér alvarlegt brot á kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. gegn réttindum farmanna).
    2. Ef erlent skip er skoðað ítarlega í höfn aðildarríkis af hálfu viðurkenndra eftirlitsmanna við þær aðstæður sem greinir í a-, b- eða c-lið 1. mgr. þessarar viðmiðunar skulu þær að meginreglu ná til þeirra atriða sem talin eru upp í viðbæti A5-III.
    3. Ef um er að ræða kvörtun skv. 1. mgr. þessarar viðmiðunar skal skoðunin almennt takmarkast við atriði innan marka kvörtunarinnar, jafnvel þótt kvörtun, eða rannsókn á henni, kunni að fela í sér gilda ástæðu til að framkvæma nákvæma skoðun í samræmi við b-lið 1. mgr. þessarar viðmiðunar. Að því er tekur til d-liðar 1. mgr. þessarar viðmiðunar er með „kæru“ átt við upplýsingar frá farmanni, fagaðila, félagi, stéttarfélagi eða hverjum þeim, sem hefur hagsmuna að gæta í sambandi við öryggi skipsins þar á meðal varðandi öryggi og heilbrigði áhafnar þess.
    4. Ef nákvæmari skoðunar leiðir í ljós að starfsskilyrði og lífskjör um borð í skipinu eru ekki í samræmi við kröfur þessarar samþykktar skal viðurkenndur eftirlitsmaður þegar vekja athygli skipstjóra skipsins á ágöllunum og hvenær ráða eigi bót á þeim í síðasta lagi. Telji viðurkenndur eftirlitsmaður að slíkir ágallar séu verulegir eða tengist kvörtun sem lögð er fram í samræmi við 3. mgr. þessarar viðmiðunar skal viðurkenndur eftirlitsmaður vekja athygli á ágöllunum við viðkomandi samtök farmanna og útgerðarmanna í aðildarríki þar sem skoðunin fer fram og mega:
     a)      tilkynna fulltrúa fánaríkisins um það,
     b)      veita lögbærum stjórnvöldum í næstu viðkomuhöfn upplýsingar sem máli skipta.
    5. Aðildarríkið þar sem skoðunin fer fram skal eiga rétt á að senda afrit af skýrslu eftirlitsmannsins, en henni þurfa að fylgja öll svör sem kunna að hafa borist innan fyrirskipaða frestsins frá lögbæru stjórnvaldi fánaríkisins, til forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar með aðgerðir í huga sem kunna að teljast viðeigandi og ráðlegar til að tryggja að haldin sé skrá yfir slíkar upplýsingar og þeim komið á framfæri við aðila sem kynnu að hafa áhuga á að nýta sér viðeigandi málskotsúrræði.
    6. Ef skipið uppfyllir ekki kröfur þessarar samþykktar í kjölfar nákvæmari skoðunar viðurkennds eftirlitsmanns og:
     a)      aðstæður um borð eru augljóslega hættulegar öryggi, heilbrigði eða vernd farmanna; eða
     b)      frávikið felur í sér alvarlegt eða endurtekið brot á kröfum þessar samþykktar (þ.m.t. á réttindum farmanna);
skal viðurkenndur eftirlitsmaður gera ráðstafanir til að tryggja að skipið haldi ekki til hafs fyrr en ráðin hefur verið bót á frávikunum sem falla innan marka a- eða b-liðar þessarar málsgreinar eða þar til viðurkenndi eftirlitsmaðurinn hefur samþykkt aðgerðaáætlun um að ráða bót á slíkum frávikum og hefur fullvissað sig um að áætlunin verði framkvæmd með skjótum hætti. Ef komið er í veg fyrir að skipið sigli skal viðurkenndur eftirlitsmaður þegar tilkynna fánaríkinu um það og bjóða fulltrúa fánaríkisins til að vera viðstaddur, ef unnt er, með ósk um að fánaríkið svari innan tilskilins frests. Viðurkenndi eftirlitsmaðurinn skal einnig þegar upplýsa viðkomandi samtök útgerðarmanna og farmanna í hafnarríkinu þar sem skoðunin fór fram.
    7. Hvert aðildarríki skal sjá til þess að viðurkenndir eftirlitsmenn fái leiðbeiningar af þeim toga sem lýst er í B-hluta kóðans hvað varðar þær aðstæður sem réttlæta að lagt sé farbann á skip skv. 6. mgr. þessarar viðmiðunar.
    8. Hvert aðildarríki skal, við innleiðingu skyldna sinna samkvæmt þessari viðmiðun, forðast eftir fremsta megni að kyrrsetja eða tefja skip á ótilhlýðilegan hátt. Ef skip er þannig kyrrsett eða það tafið á ótilhlýðilegan skal greiða bætur vegna taps eða tjóns sem af því hlýst. Sönnunarbyrði í hverju máli skal hvíla á þeim sem leggur fram kvörtun.

Leiðbeiningar B5.2.1. – Skoðanir í höfn.
    1. Lögbært stjórnvald ætti að móta stefnu um skoðanir fyrir viðurkennda eftirlitsmenn sem sjá um að framkvæma skoðanir samkvæmt reglu 5.2.1. Markmiðið með stefnunni ætti að vera að tryggja samræmi og að vera til leiðbeiningar við skoðanir og framfylgd sem tengjast kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. réttindi farmanna). Útvega ætti öllum viðurkenndum eftirlitsmönnum afrit af þessari stefnu og hún ætti að vera tiltæk almenningi, útgerðarmönnum og farmönnum.
    2. Við stefnumörkum í tengslum við þær aðstæður sem gefa tilefni til að heimila að farbann verði lagt á skipið skv. 6. mgr. viðmiðunar A5.2.1 ætti lögbært stjórnvald að íhuga, með tilliti til brotanna sem um getur í b-lið 6. mgr. viðmiðunar A5.2.1, hvort alvarleikinn gæti stafað af eðli þess vanbúnaður sem um er að ræða. Þetta ætti sérstaklega við ef um er að ræða brot á grundvallarréttindum og -reglum eða starfsréttindum og félagslegum réttindum farmanna skv. III. og IV. gr. Til að mynda ætti að líta svo á að ráðning einstaklings undir aldri sé alvarlegt brot jafnvel þótt aðeins einn slíkur einstaklingur sé um borð. Í öðrum tilvikum ætti að hafa hliðsjón af fjölda hinna ýmsu ágalla sem koma í ljós við tiltekna skoðun: til dæmis gætu þurft að koma til nokkur ágallatilvik sem tengjast vistarverum eða fæði og þjónustu áhafna sem ógna öryggi eða heilbrigði áður en talið er að þau feli í sér alvarlegt brot.
    3. Aðildarríki ættu að eiga með sér eins mikið samstarf og auðið er við að fara eftir leiðbeiningum samþykktum á alþjóðavettvangi um stefnumótum á sviði skoðana, einkum þær sem tengjast aðstæðum sem kalla á að skip verði kyrrsett.

Regla 5.2.2. – Málsmeðferð um kvartanir farmanns í landi.
    Hvert aðildarríki skal sjá til þess að farmenn á skipum sem koma til hafnar á yfirráðasvæði aðildarríkis sem gefa í skyn að brotið sé gegn kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. gegn réttindum farmanna) eigi rétt á að leggja inn kvartanir í því skyni að þeir geti rétt hlut sinn með skjótum og hagnýtum hætti.

Viðmiðun A5.2.2. – Málsmeðferð um kvartanir farmanns í landi.
    1. Kvörtun farmanns má koma til viðurkennds eftirlitsmanns í höfninni sem skip farmannsins á viðdvöl þar sem gefið er í skyn að brotið sé gegn kröfum þessarar samþykktar (þ.m.t. gegn réttindum farmanna). Í slíkum tilvikum ætti viðurkenndur eftirlitsmaður að sjá um að fram fari frumrannsókn málsins.
    2. Eftir því sem við á, með tilliti til eðlis kvörtunarinnar, skal frumrannsóknin fela í sér að metið verði hvort málsmeðferð um kvartanir um borð sem kveðið er á um í reglu 5.1.5 hafi verið könnuð. Viðurkenndi eftirlitsmaðurinn má einnig sjá um að fram fari ítarlegri rannsókn í samræmi við viðmiðun A5.2.1.
    3. Viðurkenndur eftirlitsmaður skal, eftir því sem við á, leitast við að fundin verði lausn á kvörtun um borð í skipinu.
    4. Í því tilviki að rannsóknin, eða rannsóknin sem kveðið er á um samkvæmt þessari viðmiðun, leiði í ljós frávik sem fellur undir gildissvið 6. mgr. viðmiðunar A5.2.1 skal beita ákvæðum þeirrar málsgreinar.
    5. Ef ákvæði 4. mgr. þessarar viðmiðunar eiga ekki við, og ef ekki hefur verið leyst úr kvörtuninni um borð í skipinu, skal viðurkenndi eftirlitsmaðurinn þegar tilkynna fánaríkinu um það og leita, innan fyrirskipaðs frests, ráða og gera áætlun um aðgerðir til úrbóta.
    6. Ef ekki hefur verið leyst úr kvörtuninni eftir að gripið hefur verið til aðgerðanna skv. 5. mgr. þessarar viðmiðunar skal hafnarríkið senda afrit af skýrslu viðurkennda eftirlitsmannsins til forstjórans. Skýrslunni þurfa að fylgja öll svör sem kunna að hafa borist innan fyrirskipaða frestsins frá lögbæru stjórnvaldi fánaríkisins. Viðkomandi samtök útgerðarmanna og farmanna í hafnarríkinu skulu upplýst með svipuðum hætti. Auk þess skal hafnarríkið senda forstjóranum reglulega hagskýrslur og gögn um þær kvartanir sem hefur verið leyst úr. Kveðið er á um báðar þessar innsendingar í því skyni að á grunni þeirra aðgerða sem kunna að teljast viðeigandi og ráðlegar sé haldin skrá yfir slíkar upplýsingar og þeim komið á framfæri við aðila, þ.m.t. við samtök útgerðarmanna og farmanna, sem kynnu að hafa áhuga á að nýta sér viðeigandi málskotsúrræði.
    7. Gera ætti viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé með kvartanir farmanna sem trúnaðarmál.

Leiðbeiningar B5.2.2. – Málsmeðferð um kvartanir farmanns í landi.
    1. Sinni viðurkenndur eftirlitsmaður kvörtun sem um getur í viðmiðun A5.2.2 ætti eftirlitsmaðurinn fyrst að kanna hvort kvörtunin sé almenns eðlis og varði alla farmenn um borð í skipinu, hóp þeirra eða hvort hún tengist aðeins einstöku máli farmannsins sem í hlut á.
    2. Ef kvörtun er almenns eðlis ætti að íhuga hvort fara ætti fram ítarlegri skoðun í samræmi við viðmiðun A5.2.1.
    3. Ef kvörtunin tengist einstöku máli ætti að fara fram rannsókn á niðurstöðum málsmeðferðar um kvartanir um borð til lausnar á kvörtuninni sem um ræðir. Ef slík málsmeðferð hefur ekki verið reynd ætti viðurkenndi eftirlitsmaðurinn að leggja til að sá sem kvartar nýti sér þá málsmeðferð sem í boði er. Góðar ástæður ættu að vera fyrir því að taka til athugunar kvörtun áður en hvers kyns málsmeðferð um kvartanir um borð hefur verið könnuð. Í því kann að felast að ekki sé fyrir hendi innri málsmeðferð, ótilhlýðileg töf á henni eða ótti þess sem kvartar um refsiaðgerðir gegn honum fyrir að leggja inn kvörtun.
    4. Við rannsókn á kvörtun ætti viðurkenndur eftirlitsmaður að veita skipstjóra, útgerðarmanna og öðrum einstaklingi sem kann að tengjast kvörtuninni viðeigandi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
    5. Sýni fánaríki fram á, sem svar við tilkynningunni frá hafnarríkinu í samræmi við 5. mgr. viðmiðunar A5.2.2 þess efnis að það muni meðhöndla málið, að það hafi yfir að ráða skilvirkri málsmeðferð í þessu skyni og að það hafi lagt fram fullnægjandi aðgerðaáætlun má viðurkenndi eftirlitsmaðurinn láta af frekari aðild að kvörtuninni.

Regla 5.3. – Skyldur í tengslum við útvegun vinnuafls.


Tilgangur: Að tryggja að hvert aðildarríki hrindi í framkvæmd skyldum sínum samkvæmt þessari samþykkt að því er varðar skráningu og ráðningu og félagslega vernd farmanna þeirra.
    
1. Með fyrirvara um grundvallarregluna um að hvert aðildarríki beri ábyrgð á starfsskilyrðum og lífskjörum farmanna um borð í skipum, sem sigla undir fána þeirra, ber aðildarríkið einnig ábyrgð á að tryggja að kröfum þessarar samþykktar sé hrint í framkvæmd að því er varðar skráningu og ráðningu farmanna auk tryggingaverndar farmanna, sem eru ríkisborgarar þeirra eða eru búsettir eða heimilisfastir, með öðrum hætti á yfirráðasvæði þess, að svo miklu leyti sem kveðið er á um slíka ábyrgð í þessari samþykkt.
    2. Nákvæmar kröfur um framkvæmd 1. mgr. þessarar reglu eru að finna í kóðanum.
    3. Hvert aðildarríki skal koma á fót skilvirku skoðunar- og eftirlitskerfi til að framfylgja ábyrgð sinni við að leggja til vinnuafl samkvæmt þessari samþykkt.
    4. Upplýsingar um kerfið sem um getur í 3. mgr. þessarar reglu, þ.m.t. þá aðferð sem beitt er til að meta skilvirkni þess, skulu felast í skýrslum aðildarríkis skv. 22. gr. stofnskrárinnar.

Viðmiðun B5.3. – Skyldur í tengslum við útvegun vinnuafls.


    1. Hvert aðildarríki skal framfylgja kröfum þessarar samþykktar sem gildir um starfsemi og rekstur skráningar- og ráðningarþjónustu farmanna með staðfestu á yfirráðasvæði þess á grundvelli skoðunarkerfis og vöktunar og málsmeðferðar fyrir dómi fyrir brot á leyfisveitingu og aðrar kröfur um rekstur sem kveðið er á um í viðmiðun A1.4.

Leiðbeiningar B5.3. – Skyldur í tengslum við útvegun vinnuafls.


    Krefjast ætti þess að einkarekin skráningar- og ráðningarþjónusta farmanna með staðfestu á yfirráðasvæði aðildarríkis, sem tryggir þjónustu farmanns í þágu útgerðarmanns hvar sem þeir eru staddir, axli ábyrgð á að tryggja að útgerðarmenn fari eftir skilmálum þeirra í ráðningarsamningum sem gerðir eru við farmenn.



Viðbætir A5-I.
    Starfsskilyrði og lífskjör farmanna, sem skulu sæta skoðun og vera samþykkt af hálfu fánaríkisins áður en vottað er að skip sé í samræmi við viðmiðun 1. mgr. A5.1.3:
    Lágmarksaldur.
    Læknisvottorð.
    Hæfniskröfur til farmanna.
    Ráðningarsamningar farmanna.
    Notkun fyrirtækja með starfsleyfi eða vottaða starfsemi sem sinna skráningu og ráðningu.
    Vinnu- eða hvíldartími.
    Mönnun skipsins.
    Vistarverur.
    Tómstundaaðstaða um borð.
    Fæði og þjónusta áhafna.
    Heilsuvernd, öryggi og slysavarnir.
    Læknishjálp um borð.
    Málsmeðferð um kvartanir um borð.
    Greiðsla launa.



Viðbætir A5-II.

Skírteini um vinnuskilyrði farmanna.
(Athugasemd: Yfirlýsing um samræmi við reglur
um vinnuskilyrði farmanna skal fest við þetta skírteini.)
Gefið út samkvæmt ákvæðum V. gr. og 5. kafla
samþykktar um vinnuskilyrði farmanna, 2006
(sem vísað er til hér á eftir sem „samþykktin“),
í umboði ríkisstjórnar:


………………………………….......................................................................………..
(fullt opinbert heiti á ríkinu sem er fánaríki skipsins)
af .....................................................................................................................................
(fullt opinbert heiti og aðsetur lögbærs einstaklings eða stofnunar með viðeigandi heimildir samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar)

Upplýsingar um skipið



Nafn skips
Númer eða einkennisstafir
Heimahöfn
Skráningardagur
Brúttótonnatala 1
IMO-númer
Gerð skips
Nafn og aðsetur útgerðarmanns 2

samkvæmt skilgreiningu í j-lið 1. mgr. II. gr. samþykktarinnar)

    Það vottast hér með:
     1.      Að þetta skip hafi verið skoðað og að það hafi verið staðfest að það uppfylli skilyrði samþykktarinnar og ákvæða viðfestrar yfirlýsingar um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna.
     2.      Að starfsskilyrði og lífskjör farmanna sem tilgreind eru í viðbæti A5-I í samþykktinni töldust samræmast ofangreindum innanlandreglum landsins sem hrinda samþykktinni í framkvæmd. Yfirlit yfir þessar innanlandskröfur er að finna í yfirlýsingu um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, I. Hluta.
    Þetta skírteini gildir til ...................... með fyrirvara um skoðanir í samræmi við viðmiðanir A5.1.3 og A5.1.4 í samþykktinni. Þetta skírteini er einungis gilt þegar yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna, sem er gefin út í ......................................... þann ........................................... er viðfest.

    Dagsetningin þegar skoðun, sem þetta skírteini byggist á, lauk .................................
    Gefið út í ...................................................... hinn.........................................................

    Undirskrift viðurkennds eftirlitsmanns sem gefur út skírteinið

    (Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið, eftir því sem við á)

    Áritun um lögskylda milliskoðun og allar viðbótarskoðanir (ef þörf krefur)

    Það staðfestist hér með að skipið sætti skoðun í samræmi við viðmiðun A5.1.3 og A5.1.4 í samþykktinni og að starfsskilyrði og lífskjör farmanna sem talin eru upp í viðbæti A5-I í samþykktinni töldust vera í samræmi við ofangreindar innanlandskröfur landsins sem hrindir samþykktinni í framkvæmd.

    Milliskoðun:

    Undirskrift .......................
    (útfyllt milli (undirskrift viðurkennds eftirlitsmanns)
    annarrar og þriðju árlegu dagsetninganna)
    Staður .............................
    Dags. ..............................

    (Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið, eftir því sem við á)

    Viðbótaráritanir (ef þörf krefur)

    Það staðfestist hér með að skipið sætti viðbótarskoðun í þeim tilgangi að sannreyna að skipið uppfyllti áfram innanlandsreglurnar sem hrinda samþykktinni í framkvæmd, eins og krafist er skv. 3. mgr. viðmiðunar A3.1 í samþykktinni (endurskráning eða veruleg breyting á vistarverum) eða af öðrum ástæðum.

    Viðbótarskoðun:

    Undirskrift (ef þörf krefur) .....................................
    (undirskrift viðurkennds eftirlitsmanns)
    Staður........................
    Dags. ........................
    (Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið, eftir því sem við á)

    Viðbótarskoðun:

    Undirskrift (ef þörf krefur) .............................................
    (undirskrift viðurkennds eftirlitsmanns)
    Staður ...........................
    Dags. ............................
    (Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið, eftir því sem við á)

    Viðbótarskoðun:

    Undirskrift(ef þörf krefur) (undirskrift viðurkennds eftirlitsmanns)

    Staður .........................
    Dags. ..........................

    (Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið, eftir því sem við á)


Samþykkt um vinnuskilyrði farmanna, 2006.


    

Yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna. – I. hluti.



(Athugasemd: Þessi yfirlýsing skal fest við skírteini skipsins
um vinnuskilyrði farmanna)

Gefið út í umboð: ..................................................... (setjið inn nafn lögbærs
stjórnvalds samkvæmt skilgreiningu í a-lið 1. mgr. II. gr. samþykktarinnar)


    Með tilliti til ákvæða samþykktar um vinnuskilyrði farmanna, 2006, er eftirtöldu skipi:

Nafn skips IMO-númer Brúttótonnatala

viðhaldið í samræmi við viðmiðun A5.1.3 samþykktarinnar.

    Undirritaður lýsir því yfir, fyrir hönd ofangreinds lögbærs stjórnvalds, að:
     a)      ákvæði samþykktar um vinnuskilyrði farmanna koma að fullu fram í þeim innanlandsreglum sem vísað er til hér á eftir;
     b)      þessar innanlandsreglur er að finna í þeim innanlandsákvæðum sem vísað er til hér á eftir; skýringar á efni þessara ákvæða eru tilgreindar ef nauðsyn krefur;
     c)      upplýsingar um hvers kyns ákvæði sem teljast verulega jafngild skv. 3. og 4. mgr. VI. gr. sé lagt fram <samkvæmt tilsvarandi kröfum innan lands sem eru tilgreindar í hlutanum hér á eftir> <í hlutanum sem kveðið er á um í þessum tilgangi hér á eftir> (strikið út fullyrðinguna sem á ekki við);
     d)      hvers kyns undanþágur sem lögbært stjórnvald veitir í samræmi við 3. hluta séu tilgreindar með skýrum hætti í þeim kafla sem kveðið er á um í þessum tilgangi hér á eftir; og
     e)      einnig sé vísað sé til hvers kyns sérkrafna um skipstegund samkvæmt landslögum samkvæmt viðkomandi kröfum.
     1.      Lágmarksaldur (regla 1.1)
     2.      Læknisvottorð (regla 1.2)
     3.      Hæfniskröfur til farmanna (regla 1.3)
     4.      Ráðningarsamningar farmanna (regla 2.1)
     5.      Notkun fyrirtækja með starfsleyfi og vottaða starfsemi sem sinna skráningu og ráðningu 1.4)
     6.      Vinnu- eða hvíldartími (regla 2.3)
     7.      Mönnun skipsins (regla 2.7)
     8.      Vistarverur (regla 3.1)
     9.      Tómstundaaðstaða um borð (regla 3.1)
     10.      Fæði og þjónusta áhafna (regla 3.2)
     11.      Heilsuvernd, öryggi og slysavarnir (regla 4.3)
     12.      Læknishjálp um borð (regla 4.1)
     13.      Málsmeðferð um kvartanir um borð (regla 5.1.5)
     14.      Greiðsla launa (regla 2.2)

    Nafn: ...........................................................
    Kafli: ..........................................
    Undirskrift: .................................
    Staður: ........................................
    Dags.: .........................................

(Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið, eftir því sem við á)



Ákvæði sem teljast jafngild að verulegu leyti


(Athugasemd: Strikið út fullyrðinguna sem á ekki við)



    Eftirtalin ákvæði, sem eru jafngild að verulegu leyti, eins og kveðið er á um skv. 3. og 4. mgr. VI. gr. samþykktarinnar, nema ef getið er um þau hér á undan, eru tilgreind (færið inn lýsingu ef við á)
............................................................................................................................................. .......................................................................................................................................

    Engin jafngildi hafa verið veitt

    Nafn: ....................................
    Kafli: ...................................
    Undirskrift: ..........................
    Staður: .................................
    Dags: ....................................


Yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna. – II. hluti.


Ráðstafanir sem teknar eru upp til að tryggja
að ætíð sé farið að reglum milli skoðana.


    Útgerðarmaðurinn, sem tilgreindur er í skírteini um vinnuskilyrði farmanna, hefur sett fram eftirfarandi ráðstafanir til að tryggja að ætíð sé farið að reglum milli skoðana:

     (Tilgreinið hér á eftir þær ráðstafanir sem útgerðarmaður gefur upp til að tryggja að hvert kröfur um hvert atriði í I. hluta séu uppfylltar.)

1. Lágmarksaldur (regla 1.1)
................................................................................................................................
2. Læknisvottorð (regla 1.2)
................................................................................................................................
3. Hæfniskröfur til farmanna (regla 1.3)
................................................................................................................................
4. Ráðningarsamningar farmanna (regla 2.1)
................................................................................................................................
5. Notkun fyrirtækja með starfsleyfi sem sinna skráningu og ráðningu (regla 1.4)
................................................................................................................................
6. Vinnu- eða hvíldartími (regla 2.3)
................................................................................................................................
7. Mönnun skipsins (regla 2.7)
................................................................................................................................
8. Vistarverur (regla 3.1)
................................................................................................................................
9. Tómstundaaðstaða um borð (regla 3.1)
................................................................................................................................
10. Fæði og þjónusta áhafna (regla 3.2)
................................................................................................................................
11. Heilsuvernd, öryggi og slysavarnir (regla 4.3)
................................................................................................................................
12. Læknishjálp um borð (regla 4.1)
................................................................................................................................
13. Málsmeðferð um kvartanir um borð (regla 5.1.5)
................................................................................................................................
14. Greiðsla launa (regla 2.2)
...............................................................................................................................


    Ég votta hér með að framangreindar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja að farið sé eftir kröfunum sem taldar eru upp í I. hluta á milli skoðana.

    Nafn útgerðarmanns 3 : ...........................................................
    Aðsetur félags: ......................................
    Nafn lögbærs undirritunaraðila: ...........................................
    Titill: ..........................................
    Undirskrift lögbærs undirritunaraðila: ........................................
    Dags. ...................................
    (Innsigli eða stimpill útgerðarmannsins)

    Framangreindar ráðstafanir hafa verið yfirfarnar af <tilgreina nafn lögbærs stjórnvalds eða viðurkenndrar stofnunar> og, að lokinni skoðun skipsins, hefur það komist að því að tilganginum sem lýst er í b-lið 10. mgr. viðmiðunar A5.1.3 sé náð, en hann felur í sér ráðstafanir til að tryggja, í upphafi og ætíð síðan, að farið sé að kröfunum sem kveðið er á um í I. hluta þessarar yfirlýsingar.

    Nafn:
    Kafli:
    Aðsetur útgerðarfélags:
    Undirskrift:
    Staður:
    (Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið)

Bráðabirgðaskírteini um vinnuskilyrði farmanna.


    Gefið út samkvæmt ákvæðum V. gr. og 5. kafla samþykktar um vinnuskilyrði farmanna, 2006 (sem vísað er til hér á eftir sem „samþykktin“) í umboði ríkisstjórnar:
…………………………………………..
(fullt opinbert heiti á ríkinu sem er fánaríki skipsins)
af .............................
(fullt opinbert heiti og aðsetur lögbærs einstaklings eða stofnunar með viðeigandi heimildir samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar)
    Upplýsingar um skipið
    Nafn skips
    Númer eða einkennisstafir
    Heimahöfn
    Skráningardagur
    Brúttótonnatala 4
    IMO-númer
    Gerð skips
    Nafn og aðsetur útgerðarmannsins 5

    Það vottast hér með, að því er varðar 7. mgr. viðmiðunar A5.1.3 í samþykktinni, að:
     a)      skipið hafi verið skoðað, að svo miklu leyti sem skynsamlegt og gerlegt er, með tilliti til atriðanna sem skráð eru í viðbæti A5-I í samþykktinni, að teknu tilliti til staðfestingar á atriðum skv. b-, c- og d-lið hér á eftir;
     b)      útgerðarmaðurinn hafi sýnt fram á við lögbært stjórnvald eða viðurkennda stofnun að um borð í skipinu hafi verið gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að fullnægja þessari samþykkt;
     c)      skipstjórinn kunni skil á kröfum þessarar samþykktar og skyldum um framkvæmd;
     d)      upplýsingar sem máli skipta hafi verið sendar til lögbærs stjórnvalds eða viðurkenndrar stofnunar svo unnt sé að gefa út um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna.

    Þetta skírteini gildir til ................................. með fyrirvara um skoðanir í samræmi við viðmiðun A5.1.3 og A5.1.4.

    Dagsetningin þegar skoðuninni sem um getur í a-lið lauk var ........................................

    Gefið út í ........................... þann .............................

    Undirskrift viðurkennds eftirlitsmanns
    sem gefur út bráðabirgðaskírteinið ......................................................................
    (Innsigli eða stimpill stjórnvaldsins sem gefur út skírteinið, eftir því sem við á)



Viðbætir A5-III.

    Almenn svið sem sæta nákvæmri skoðun viðurkennds eftirlitsmanns í höfn aðildarríkisins sem framkvæmir hafnarríkisskoðunina samkvæmt viðmiðun A5.2.1.

    Lágmarksaldur
    Læknisvottorð
    Hæfniskröfur til farmanna
    Ráðningarsamningar farmanna
    Notkun fyrirtækja með starfsleyfi og vottaða starfsemi sem sinna skráningu og ráðningu
    Vinnu- eða hvíldartími
    Mönnun skipsins
    Vistarverur
    Tómstundaaðstaða um borð
    Fæði og þjónusta áhafna
    Heilsuvernd, öryggi og slysavarnir
    Læknishjálp um borð
    Málsmeðferð um kvartanir um borð
    Greiðsla launa


Viðbætir B5-I. – Sýnishorn innanlandsyfirlýsingar.

Sjá 5. mgr. leiðbeininga B5.1.3.

Samþykkt um vinnuskilyrði farmanna, 2006

Yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna – I. hluti

(Athugasemd: Hún skal fest við skírteini skipsins um vinnuskilyrði farmanna)

Gefið út í umboði: Ráðuneyti sjóflutninga í Xxxxxx


    Með tilliti til ákvæða samþykktar um vinnuskilyrði farmanna, 2006, er eftirtöldu skipi:

Nafn skips IMO-númer Brúttótonnatala
M.S. 123445 1.000

viðhaldið í samræmi við viðmiðun A5.1.3 samþykktarinnar.

    Undirritaður lýsir því yfir, fyrir hönd ofangreinds lögbærs stjórnvalds, að:
     a)      ákvæði samþykktar um vinnuskilyrði farmanna koma að fullu fram í þeim innanlandsreglum sem vísað er til hér á eftir;
     b)      þessar innanlandsreglur er að finna í þeim innanlandsákvæðum sem vísað er til hér á eftir; skýringar á efni þessara ákvæða eru tilgreindar ef nauðsyn krefur;
     c)      upplýsingar um hvers kyns ákvæði sem teljast verulega jafngild skv. 3. og 4. mgr. VI. gr. sé lagt fram <samkvæmt tilsvarandi kröfum innan lands sem eru tilgreindar í hlutanum hér á eftir> <í hlutanum sem kveðið er á um í þessum tilgangi hér á eftir> ( strikið út fullyrðinguna sem á ekki við);
     d)      hvers kyns undanþágur sem lögbært stjórnvald veitir í samræmi við 3. hluta séu tilgreindar með skýrum hætti í þeim kafla sem kveðið er á um í þessum tilgangi hér á eftir; og
     e)      einnig sé vísað sé til hvers kyns sérkrafna um skipstegund samkvæmt landslögum samkvæmt viðkomandi kröfum.

1. Lágmarksaldur (regla 1.1)
    Siglingalög nr. 123 frá 1905, með síðari breytingum („lög“), X. KAFLI; Reglugerð um siglingar („reglur“), 2006, reglur 1111–1222.
    Lágmarksaldurinn er sá sem um getur í samþykktinni.
    „Nótt“ merkir 9 að kvöldi til 6 að morgni nema ráðuneyti sjóflutninga („ráðuneytið“) samþykki annað tímabil.
    Dæmi um hættulega vinnu sem er aðeins ætluð 18 ára og eldri eru talin upp í viðfastri áætlun A. Ef um er að ræða flutningaskip má enginn undir 18 ára aldri starfa á svæðum sem merkt eru á teikningu af skipinu (sem er fest við þessa yfirlýsingu) sem „hættulegt svæði“.

2. Læknisvottorð (regla 1.2)
     Lög, XI. kafli; Reglugerðir, reglur 1223–1233.
    Læknisvottorð skal uppfylla kröfur STCW-samþykktarinnar, eftir því sem við á; í öðrum tilvikum er kröfum STCW-samþykktarinnar beitt með nauðsynlegri aðlögun.
    Hæfir sjóntækjafræðingar sem eru á skrá ráðuneytisins mega gefa út skírteini um sjón.
    Læknisskoðanir eru samkvæmt Leiðbeiningum ILO/IMO/WHO sem um getur í leiðbeiningum B1.2.1.

.............................................................................................................................................

.......................................................................................................................................


Yfirlýsing um samræmi við reglur um vinnuskilyrði farmanna. – II. hluti.

Ráðstafanir sem teknar eru upp til að tryggja
að ætíð sé farið að reglum milli skoðana.


    Útgerðarmaðurinn, sem tilgreindur er í skírteini um vinnuskilyrði farmanna, hefur sett fram eftirfarandi ráðstafanir til að tryggja að ætíð sé farið að reglum milli skoðana:

    (Tilgreinið hér á eftir þær ráðstafanir sem útgerðarmaður gefur upp til að tryggja að hvert kröfur um hvert atriði í I. hluta séu uppfylltar.)

1. Lágmarksaldur (regla 1.1).
Fæðingardagur farmanns er tilgreindur andspænis nafni hans/hennar á áhafnaskrá.
Skipstjóri eða yfirmaður sem kemur fram fyrir hans eða hennar hönd fer yfir skrána í upphafi hverrar sjóferðar („lögbær starfsmaður“) sem skráir dagsetningu slíkrar staðfestingar.
Hver farmaður undir 18 ára aldri fær, við ráðningu, orðsendingu sem bannar honum/henni að stunda næturvinnu eða vinnu sem skráð er hættuleg (sjá 1. undirkafla I. hluta hér á eftir) og alla aðra hættulega vinnu auk þess sem honum/henni er gert að leita ráðgjafar hjá lögbærum starfsmanni í vafatilvikum. Afrit af orðsendingunni ásamt undirskrift farmannsins undir „móttekið og lesið“ og dagsetning undirskriftar er varðveitt hjá lögbærum starfsmanni.

2. Læknisvottorð (regla 1.2).
Læknisvottorðin eru varðveitt sem trúnaðarmál hjá lögbærum starfsmanni ásamt skránni sem lögbær starfsmaður ber ábyrgð á og þar sem hver farmaður um borð er tilgreindur: starfssvið farmannsins, dagsetning gildandi læknisvottorðs (-vottorða) og heilbrigðisástand sem tilgreint er á umræddu vottorði.
Ef vafi leikur á því hvort farmaðurinn sé nægilega heilbrigður til að starfa á tilteknu starfssviði eða starfssviðum ráðfærir lögbær starfsmaður sig við lækni farmannsins eða annan hæfan lækni og skráir helstu niðurstöður læknisins, nafns hans og símanúmers og dagsetningar samtalsins.

........................................................................................................................................

........................................................................................................................................






Fylgiskjal II.


Skipan stjórnarnefndar alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kjörtímabilið 2005–2008.

Fulltrúar ríkisstjórna.

     Fastafulltrúar sem eru tilnefndir af eftirtöldum tíu aðaliðnaðaríkjum:
    Bandaríkin
    Brasilía
    Frakkland
    Indland
    Ítalía
    Japan
    Kína
    Rússland
    Sambandslýðveldið Þýskaland
    Stóra-Bretland
     Aðildarríki sem eru kjörin til að nefna aðalfulltrúa:
    Bangladess
    Egyptaland
    Gínea
    Kongó
    Kólumbía
    Máritíus
    Nígería
    Kanada
    Panama
    Pólland
    Sádi-Arabía
    Síle
    Suður-Kórea
    Súrínam
    Svasíland
    Tæland
    Tyrkland
    Ungverjaland
     Aðildarríki sem eru kjörin til að tilnefna varafulltrúa:
    Alsír
    Argentína
    Austurríki
    Eþíópía
    Filippseyjar
    Finnland
    Fílabeinsströndin
    Indónesía
    Íran
    Jórdanía
    Kostaríka
    Króatía
    Kúba
    Malasía
    Mexíkó
    Mið-Afríkulýðveldið
    Mongólía
    Namibía
    Pakistan
    Perú
    Senegal
    Slóvakía
    Spánn
    Suður-Afríka
    Svíþjóð
    Sýrland
    Úganda
    Úkraína

Fulltrúar atvinnurekenda.


     Aðalfulltrúar:
    J. Aka Anghui (Fílabeinsströndin)
    I.P. Anand (Indland)
    A.S. Dahlan (Sádi-Arabía)
    J. De Regil Gómez Muriel (Mexíkó)
    F. Díaz Garaycoa (Ekvador)
    D.A. France (Bretland)
    E. Hoff (Noregur)
    A. Katz (Bandaríkin)
    J.-J. Oechslin (Frakkland)
    M.A. Ould Sidi Mohamed (Máritanía)
    T.D. Owuor (Kenía)
    T. Suzuki (Japan)
    A.K. Tan (Filippseyjar)
    R. Thüsing (Þýskaland)
     Varafulltrúar:
    Aboughae-Obame (Gabon)
    P.I. Beye (Senegal)
    J.W. Botha (Suður-Afríka)
    N.H. Cho (Kórea)
    A.J. Donato (Brasilía)
    W. Durling (Panama)
    D. Funes de Rioja (Argentína)
    I.C. Imoisili (Nígería)
    A. Jeetun (Máritíus)
    V.P. Kolmogorov (Rússland)
    J.M. Lacasa (Spánn)
    J. Lawson (Kanada)
    S. Marshall (Nýja-Sjáland)
    A. M´Kaissi (Túnís)
    B. Noakes (Ástralía)
    B. Robinson (Jamaíka)
    L. Sasso Mazzufferi (Ítalía)
    A.W. Tabani (Pakistan)
    J. van Holm (Belgía)

Fulltrúar launafólks.


    Aðalfulltrúar:
    B. Brett (Bretland)
    U. Edström (Svíþjóð)
    U. Engelen-Kefer (Þýskaland)
    R. Falbr (Tékkland)
    C. Gray (Bandaríkin)
    S. Ito (Japan)
    Kikongi Di Mwinsa (Saír)
    W. Mansfield (Ástralía)
    S. Mookherjee (Indland)
    J.-C. Parrot (Kanada)
    F. Ramírez León (Venesúela)
    I. Sahbani (Túnis)
    S. Sanchez Madariaga (Mexíkó)
    G. Sibanda (Simbabve)
     Varafulltrúar:
    E. Abou-Rizki (Líbanon)
    C.A. Agyei (Gana)
    K. Ahmed (Pakistan)
    C. Angco (Filippseyjar)
    A. Baldassini (Argentína)
    M. Blondel (Frakkland)
    Y. Kara (Ísrael)
    A. Lettieri (Ítalía)
    I. Mayaki (Níger)
    D. Mokgalo (Suður-Afríka)
    B.P. Mpangala (Tansanía)
    P. O´Donovan (Írland)
    M. Rozas (Síle)
    M.V. Shmakov (Rússland)
    L. Sombes (Kamerún)
    P. Sundaram (Srí Lanka)
    C.L. Trotman (Barbadoseyjar)
    T. Wójcik (Pólland)
    R. Zainal (Malasía)

Fylgiskjal III.


Niðurstöður sjöunda Evrópuþings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
samþykktar í Búdapest í Ungverjalandi 18. febrúar 2005.


     1.      Þátttakendur í sjöunda Evrópuþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar tóku með áhuga við skýrslu framkvæmdastjóra um störf stofnunarinnar 2001–2004: Samvinna í umhverfi í mótun (I. bindi) og Að ráða við nýjar aðstæður: Stjórn í þágu mannsæmandi vinnu (II. bindi).
     2.      Fulltrúar þökkuðu ríkisstjórn Ungverjalands fyrir að halda fundinn í Búdapest og ríkisstjórn Luxemborgar, sem var í forsæti fyrir Evrópubandalagið (ESB) á fyrra árshelmingi 2005, fyrir að gera þingið að lið í starfi sínu á vegum ESB. Fulltrúarnir voru afar ánægðir með fundarstaðinn og gestrisni hinna ungversku þátttakenda.
     3.      Aðildarríkin og samtök atvinnurekenda og launafólks sem fulltrúa áttu á fundinum veittu athygli þeim mörgu sviðum þar sem skoðanir þeirra fóru saman, og urðu ásátt um eftirfarandi niðurstöður:

Að stuðla að viðræðum í þágu sameiginlegrar framtíðar:
Hlutverk Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Evrópu og Mið-Asíu.


     4.      Evrópuþing Alþjóða vinnumálstofnunarinnar er eina svæðisbundna stofnanasvið sem til er, þar sem aðildarríki ESB, lönd þau sem Samningur um stöðugleika í Suðaustur- Evrópu taka til, Bandalag óháðra ríkja og Evrópuráðið mætast með þríhliða tilhögun til að fjalla um sameiginleg hagsmunamál í heimi vinnunnar. Evrópa í austri og vestri og mið-Asía eru í öllum sínum margbreytileika bundin landfræðilega og sögulega, og með sameiginlegum gildum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ríkisstjórnir og samtök atvinnurekenda og launafólks eru á einu máli um að starfa saman með viðræðum og samvinnu til að stuðla að sameiginlegri framtíð í lýðræði, efnahagslegri velsæld og félagslegu réttlæti.
     5.      Þátttakendur Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um allt svæðið hafa í mörgum grundvallaratriðum sömu framtíðarsýn hvað varðar Evrópu og Mið-Asíu. Meðal þeirra eru vöxtur og bætt samkeppnsstaða, fleiri og betri störf, félagsleg samstaða, jöfnuður og sanngirni, og virðing fyrir grundvallaratriðum og réttindum við vinnu. Með samvinnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við aðildarríki ESB, stöðugleikasamningsins, bandalagsins og framkvæmdanefndar ESB ber að treysta félagslega og efnahagslega stefnu sem veitir tækifæri og vernd í nýjum samsetningum og krefst einstaklningsbundinnar og sameiginlegrar ábyrgðar, þegar vinna manna og lífshlaup breytist með afgerandi hætti.
     6.      Þátttaka forsætisráðherra Ungverjalands, Kasakstan, Luxemborgar og Möltu, vinnu- og félagsmálastjóra ESB og fjölda vinnumálaráðherra staðfestir enn grundvallarmikilvægi raunverulegrar félagslegrar viðræðu við að mæta kröfum hnattvæðingarinnar.

Félagsleg þýðing svæðisbundinnar og hnattrænnar
efnahagslegrar samþættingar.


     7.      Hnattvæðing og hröð efnahagsleg samþætting gerir sameiginlegar kröfur til ríkja, fyrirtækja og launafólks í Evrópu og mið-Asíu. Aukin efnahagsleg samkeppni og hreyfanleiki fjármagns og fyrirtækja kunna að hraða efnahagslegum vexti og samþættingu. Hnattvæðing kann einnig að valda félagslegum kostnaði í formi endurskipulagningar á atvinnugreinum og fyrirtækjum, sem leitt getur til þess að störf tapist, til atvinnuleysis, aukins ójöfnuðar og öryggisleysis.
     8.      Fjörmikil samkeppnishagkerfi þarfnast aðstæðna sem styðja opinbera fjárfestingu, fjárfestingar einkaaðila og uppbyggingu fyrirtækja, svo að virk atvinnusköpun geti tryggt stöðuga framsókn til fullrar og arðsamrar atvinnu. Raunveruleg félagsleg viðræða og það að gera mannsæmandi vinnu að markmiði um allan heim eru hin nauðsynlegu tæki til að koma á réttlátri hnattvæðingu sem veitir tækifæri öllum til handa.
     9.      Skýrsla Heimsnefndar um félagslega þætti hnattvæðingar: „Sanngjörn hnattvæðing: Að skapa tækifæri fyrir alla“ er gagnleg hvatning til viðræðna innan landa, og svæða og alþjóðlega, um mannsæmandi vinnu um allan heim sem takmark. Hinir þríhliða þátttakendur á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á Evrópu- og Mið-Asíusvæðinu hafa sameiginlega sýn á nauðsyn meiri samkvæmni í að marka bæði heima fyrir, innan einstakra svæða og hvarvetna um heim stefnu á sviði efnahagsmála, félagsmála, fjármála og viðskipta í þágu mannsæmandi vinnu er byggist á grundvallarreglum og réttindum við vinnu, atvinnuþáttöku, félagslegri vernd, og félagslegum viðræðum.
     10.      Fundurinn fagnar ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem þess er farið á leit við aðalritara að tekið verði tillit til tilmæla heimsnefndarinnar við væntanlega endurskoðun á þúsaldarþróunarmarkmiðum. Alþjóðavinnumálastofnunin, 6 allmargar aðrar alþjóðastofnanir og ESB eru í góðri aðstöðu til að fjalla nánar um þær aðferðir til aðkomu sem heimsnefndin hefur minnst á.
     11.      Hið gagnlega starfssamband milli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og stofnana ESB getur orðið til að styðja efnanhagslega og félagslega stefnu í fjölhliða kerfi og til að móta þróunarsamvinnu til að stuðla að mannsæmandi vinnu á svæðinu og hvarvetna um heim.

Samvinna austurs og vesturs í þágu mannsæmandi vinnu.



     12.      Í þágu mannsæmandi vinnu ber ríkisstjórnum að vinna að meira samræmi milli þeirrar viðskipta- og fjármálastefnu og þeirrar vinnu- og félagsmálastefnu sem þær fylgja innan Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans, Alþjóða viðskiptastofnunarinnar og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Efla ber samráð milli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans, stjórnvalda innan lands og landssamtaka atvinnurekenda og launafólks. Alþjóðavinnumálastofnuninni ber að halda áfram náinni samvinnu við Bretton Woods- stofnanir sínar í samræmi við umboð hverrar þeirra um sig.
     13.      Alþjóðavinnumálastofnuninni ber að styðja áfram samvinnu milli mið-Asíu, austur- og vestur-Evrópu, og hinna ýmsu svæðisbundnu undirhópa. Stofnuninni ber að styrkja sambönd sín við ríki sem aðstoð veita og við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að sjá fyrir tæknilegri samvinnu í þágu mannsæmandi atvinnustefnu í löndum sem slíkrar aðstoðar óska. Náið samráð ber að hafa við samtök atvinnurekenda og launafólks í þeim löndum sem aðstoðina veita og þeim sem þiggja hana.
     14.      Gera þarf meira til að auka meðvitund og þekkingu almennings á svæðinu um Alþjóðavinnumálastofnunina, gildi hennar, kröfur varðandi vinnu og stefnumið.

Landsstjórn og stofnanir lýðræðisins.



     15.      Góð landsstjórn, efnahagslegar og félagslegar framfarir og barátta gegn spillingu hvíla á lýðræðislegum stofnunum sem leiða réttmæti sitt til frjálsra fulltrúakosninga, virkrar félagslegrar umræðu, grundvallarreglna og réttinda við vinnu, og réttaröryggis.

Umskipti í ævi og starfi.



     16.      Umboð Alþjóðavinnumálastofnunarinnar tekur til meginbreytinga í lífi fólks og starfi. Eftirfarandi fjórir þættir voru ræddir á fundinum.

Rétt byrjun.



     17.      Góð og víðfeðm menntun er grundvöllur starfsævinnar. Í mörgum löndum á svæðinu eru umskiptin frá skóla til starfs ungu fólki erfið. Mælt er með því að gerðar séu heildstæðar ráðstafanir til að auðvelda atvinnuþátttöku í upphafi, þar sem saman fara þjóðhagsleg stefna og sérstakar rástafanir sem beinast bæði að framboði og eftirspurn og magni jafnt sem eðli atvinnuþátttöku ungmenna. Stuðla ber einnig að varanlegri aðlögun innan vinnumarkaðarins. Iðnnámssamningar og önnur tilhögun þar sem tengt er saman nám og starf getur haft mikla þýðingu fyrir atvinnumöguleika ungs fólks. Þess er sérstaklega óskað að stjórnvöld, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, beini athygli sinni að þörfum ungs fólks þegar hugað er að atvinnumálum innan lands. Alþjóðavinnumálastofnuninni ber að hvetja til þess að skiptst sé á upplýsingum um hvernig tilhögun til að meta og viðurkenna áður fengna reynslu, hæfileika og nám hefur reynst. Fagna ber hinu nýja samstarfi milli Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar innan vébanda Samtaka um atvinnuþáttöku ungmenna. Hvatt er til þess að lönd gangi í samtökin.

Að ná jöfnuði milli sveigjanleika og öryggis.



     18.      Fyrirtæki standa nú andspænis aukinni samkeppni vegna hnattvæðingar og aðlögunar að mörkuðum sem taka örum breytingum. Stefna sveigjanleika og öryggis í þágu fyrirtækja og launafólks, þar sem boðið er upp á ný tækifæri til að verða eftirsóknarverðari á vinnumarkaði og bæta aðstoð við atvinnuleit, fjárhagslegan stuðning og félagslega vernd, hefur gefið góða raun í nokkrum löndum. Þríhliða viðræður innan ramma víðfeðmari stefnu í efnahagsmálum, sameiginlegar kjarasamningaviðræður og virðing fyrir löggjöf um verkalýðsmál eru mikilvægustu atriðin til að ná fram jafnvægi milli sveigjanleika og öryggis. Alþjóðavinnumálastofnuninn er hvött til að leita þríhliða samráðs um sveigjanleika og öryggi og greiða fyrir því að skipst sé á góðum verklagsháttum, um leið og viðurkennt er að í hverju tilviki ber að taka tillit til samhengis.

Tilflutningur á vinnuafli milli landa.



     19.      Athygli hefur verið beint að auknu mikilvægi tilflutnings á vinnuafli innan svæðisins. Sú tilhögun, tvíhliða, svæðisbundin og alþjóðleg, sem nú er fyrir hendi, virðist ekki nægja til að tryggja að höfð sé stjórn á tilflutningi á vinnuafli þannig að gætt sé réttinda fólks sem löglega flyst milli landa. Ákvörðun 92. fundar Alþjóðlegu vinnumálaráðstefnunnar 2004, þar sem mælst var til þess að þríhliða þátttakendur „komi á fót marghliða en óskuldbindandi tilhögun til að huga að tilflutningi vinnuafls þar sem tekið er tillit til ástands á vinnumarkaði í hverju landi“ á einkar vel við um lönd Evrópu og mið-Asíu. Landsbundin stefna varðandi tilflutning á vinnuafli sem byggð er upp í þríhliða samráði ætti að tryggja meðferð án mismununar, í takt við viðeigandi alþjóðlegar kröfur í verkalýðsmálum. Um leið ber Alþjóðavinnumálastofnuninni að auðvelda skipti á góðri vinnutilhögun við að vernda réttindi fólks í millilandaflutningum og vinna gegn gegn verslun með konur, karla og börn sem vinnuafl og gegn ólöglegri vinnu, og berjast gegn kynþáttahyggju, útlendingahatri og mismunun.

Öryggi á elliárum.



     20.      Lengri mannsævi og aðrar lýðfræðilegar breytingar, og þróun í atvinnumálum, gera nýjar kröfur til ellilífeyriskerfa flestra landa á svæðinu. Félagslegar umræður verða að fara fram um stefnuvalkosti varðandi félagslega tilhögun til að greiða eftirlaun til frambúðar. Til að stuðla að því að þessar kröfur verði uppfylltar er mælst til að Alþjóðavinnumálastofnunin veiti þátttakendum á svæðinu tæknilega aðstoð og greiði fyrir því að skiptst sé á reynslu um uppbyggingu og rekstur lífeyriskerfa.

Góðir stjórnarhættir í heimi vinnunnar.


Grundvallarreglur um vinnu og réttindi við vinnu
og alþjóðasamþykktir um vinnu.


     21.      Full samstaða er um að fylgja til hlítar grundvallarreglum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttindi við vinnu hvað snertir rétt til að stofna félög og viðurkenningu í raun á rétti til að semja sameiginlega, útrýmingu á barnavinnu og nauðungarvinnu, og jafnrétti til tækifæra og meðferðar í vinnu og starfi. Evrópu- og mið-Asíusvæðið er nú að verða fyrst til að ná fram fullgildingu allra grundvallarsamþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á svæðinu í heild. Þau aðildarríki sem ekki hafa enn gert það eru hvött til að ljúka fullgildingu hinna átta viðeigandi samþykkta tímanlega fyrir 10 ára afmæli Yfirlýsingarinnar um grundvallarreglur og réttindi við vinnu.
     22.      Full framkvæmd þeirra samþykkta að lögum og í raun um allt Evrópu- og Mið-Asíu- svæðið, og reyndar um heim allan, er nauðsynlegur þáttur í sanngjarnri hnattvæðingu. Mælst er til þess að Alþjóðavinnumálastofnunin hvetji til og aðstoði með virkum hætti við að grundvallarreglum um vinnu og réttindum við vinnu, og alþjóðasamþykktum um vinnu, verði komið að fullu til framkvæmda um allan heim.
     23.      Framkvæmd alþjóðasamþykkta um vinnu, þar á meðal grundvallarreglna um vinnu og réttinda við vinnu á svæðinu, er enn háð margvíslegum vanda, eins og fram kemur í skýrslum Sérfræðinganefndar um framkvæmd á samþykktum og tilmælum, og í niðurstöðum stofnana sem hafa umsjón með samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Eru aðildarríki hvött til að skila tímanlega fullunnum skýrslum um fulgiltar samþykktir. Alþjóðavinnumálastofnunin er hvött til að stuðla að viðræðum innan einstakra landa á svæðinu og milli þeirra til að skiptast megi á góðum starfsháttum við að ráða fram úr framkvæmdarvandamálum.
     24.      Að loknu starfi rannsóknarnefndar þeirrar sem athugað hefur tilvik um brot gegn rétti til að stofna félög og rétt til að semja sameiginlega í Hvíta-Rússlandi ber Alþjóðavinnumálastofnuninni að fylgjast náið með því hvernig tilmælum nefndarinnar er komið í framkvæmd. Skal tafarlaust fylgja tilmælunum eftir og og er skorað á ríkisstjórn Hvíta- Rússlands að veita fullt samstarf við framkvæmd þeirra.

Umræður á sviði atvinnumála, þríhliða tihögun og umbætur.



     25.      Atvinnumál, verkalýðsmál og félagsmálastefna eru kjarni mikilla umbótaviðræðna hvarvetna á svæðinu. Hnattvæðing þrýstir á efnahagslegar og félagslegar umbætur, en engar umbætur verða árangursríkar án gagngerrar félagslegrar umræðu, þar með talið frjálsum og óheftum sameiginlegum samningaumleitunum og tvíhliða og þríhliða samráði. Ráða verður fram úr sameiginlegum vandamálum innan hvers lands, með umræðum og samráði, á grundvelli meginreglna og samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sérstaklega samþykkta nr. 87, 98 og 144.
     26.      Ríkisstjórnum ber að greiða fyrir starfi samtaka atvinnurekenda og launafólks, og framkvæma af ákveðni meginreglurnar um rétt til að stofna félög og frjálsa félagsaðild, og forðast öll afskipti sem þrengt gætu að réttinum til að ganga í þau félög af frjálsum vilja. Sjálfstæði, lýðræði og fulltrúatilhögun eru nauðsynleg atriði í árangursríkri umræðu á vinnumarkaði.
     27.      Í ljósi ályktunar þeirrar sem samþykkt var svæðisráðstefnunni í Varsjá 1995 og ítrekuð var á sjötta Evrópusvæðisfundi árið 2000, eru ríkisstjórnir sem enn hafa ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir minntar á að með öllum ráðum (þar á meðal með skattafrádrætti) ber að auðvelda að fleiri gangi í frjáls og sjálfstæð samtök atvinnurekenda og launafólks.
     28.      Efnahagslegar og félagslegar umbætur og viðleitni til að allir hafi mannsæmandi vinnu heimtar gagngerar félagslegar viðræður, þannig að ná megi fram gagnlegum lausnum sem aðlagaðar eru breytilegum aðstæðum í hnattvæddu efnahagskerfi.

Jafnrétti og réttindi við vinnu.



     29.      Mismunun hvað snertir aðgang að vinnu og í starfi, hvort sem það lýtur að kynferði, þjóðernisuppruna eða stjórnmála- eða trúarskoðunum, og mismunun af öðru tagi, þar á meðal varðandi aldur, fötlun og kynhneigð, er enn vandamál á svæðinu. Skuldbindingin um að virða grundvallarreglur gegn mismunun er eindregið staðfest. Reglunni um sömu laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf verður að halda uppi. Alþjóðavinnumálastofnunin er hvött til að fylgjast vel með mismunun á vinnumarkaði, greiða fyrir því að skiptst sé á jákvæðri reynslu við að stuðla að jafnrétti og réttindum við vinnu, einkum með framkvæmd samþykkta stofnunarinnar.

Félagsleg vernd fyrir alla.



     30.      Skuldbindingin um félagslega vernd fyrir alla, frá vöggu til grafar, er staðfest að nýju. Félagsleg vernd er nauðsynlegur þáttur í að draga úr fátækt, auka öryggi fólks, og jafna út efnahagssveiflur og óstöðugleika í tekjum. Það er háð hærri atvinnuþáttökuhlutfalli almennt, þó sérstaklega kvenna og yngra og eldra fólks, hvort félagslegum verndarkerfum á svæðinu verður haldið uppi til frambúðar. Í stefnumörkun á svið félagslegrar verndar ber að styðja við hátt atvinnuþátttökuhlutfall, sérstaklega meðal kvenna. Byggja ber betur upp ráðstafanir til að samlaga vinnu og fjölskyldulíf, þar á meðal með mæðravernd og barnaumönnun. Alþjóðavinnumálastofnunin er hvött til að styrkja viðleitni innan einstakra landa og alþjóðlega með samræmi í stefnu, tæknilegri ráðgjöf og reynsluskiptum, einkum hvað snertir félagslega verndarstefnu og atvinnumálastefnu sem veitir hverri annarri gagnkvæman stuðning.

Stjórn vinnumála.



     31.      Um gervallt svæðið þrengir minnkandi mannauður og fjárskortur sífellt meira að möguleikum til stjórnar á vinnumálum. Innan ramma landslaga eru virk stjórn vinnumála og/eða úrskurðarvaldhafar um vinnuaðbúnað, eftirlit með öryggi og heilsu á vinnustað, fylgni við kjarasamninga, vinnueftirlit, starfsnámsþjónusta og atvinnumiðlun ómissandi fyrir heilbrigð samskipti á vinnumarkaði og farsælan árangur á sviði efnahagsmála, félagsmála og vinnumála. Ríkisstjórnir eru minntar á hversu mikilvæg skilvirk stjórn á vinnumála er fyrir mannsæmandi vinnu. Þess er óskað að Alþjóðavinnumálastofnunin styrki stuðning sinn við stjórn vinnumála.

Föst vinna og verktakavinna.



     32.      Mikilvægi þess að sveigja stefnu í efnahags- og félagsmálum eins nálægt fullu atvinnustigi og unnt er, er viðurkennt. Í samræmi við markmið Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um atvinnu um allan heim (ILO Global Employment Agenda) ber að hvetja til stefnu á ýmsum sviðum, þar á meðal heilbrigðrar peningamála- og skattastefnu, fjárfestingarhvetjandi umhverfis, uppbyggingar á sviði viðskipta og fyrirtækjastofnunar, einkum hvað varðar smáfyrirtæki og samvinnufélög, mikillar framleiðni sem styðst við heilbrigða efnahagslega starfshætti fyrirtækja, hvatningu til nýsköpunar og samvinnu milli staðbundinna stofnana, þar á meðal með hvatningarlánum til að byrja atvinnu, öflugs stuðnings við byrjunarstarfsnám og framhaldsnám, fullnægjandi stjórnvaldareglna á vinnumarkaði, og félagslegar verndartilhögunar.

Fjárfestingar, vöxtur og atvinnustig.



     33.      Mismunandi framvinda á svæðinu hvað snertir fjárfestingar, efnahagslegan vöxt og atvinnustig krefst þess að mismunandi stefnu sé beitt. Alþjóðavinnumálastofnunin er hvött til að annast, þegar land óskar þess og eftir að þríhliða ákvarðanir hafa verið teknar, landsbundnar athuganir á sennilegum áhrifum viðskipta og stefnu á sviði skattamála, peningamála og verkalýðsmála á mannsæmandi vinnu. Með slíkum athugunum yrði lagður fram skerfur til að móta mætti stefnu á landsvísu, svæðisbundna stefnu og heimsstefnu á sviði mannsæmandi vinnu. Slíkar athuganir yrðu ræddar á þríhliða fundum og myndu auðvelda reynsluskipti á meðal þátttakenda á því svæði.


Áætlanir á landsvísu á sviði mannsæmandi vinnu.



     34.      Aðstoð Alþjóðavinnumálastofnunarinnar við þátttakendur í aðildarríkjunum verður í auknum mæli undirbúin og veitt innan tímasettra áætlana á sviði mannsæmandi vinnu, sem fé verður veitt til. Í þeim áætlunum verður skilgreint, innan ramma sem Sameinuðu þjóðirnar setja, hvernig stofnunin mun stuðla að mannsæmandi vinnu í samræmi við hin sérstöku einkenni og þarfir hvers lands. Alþjóðavinnumálastofnunin er hvött til að styrkja stuðning sinn við reynsluskipti og og góða starfshætti meðal landa og samtaka atvinnurekenda og launafólks á svæðinu.
     35.      Tímanlega tilbúnar og heildstæðar tölfræðilegar upplýsingar eru nauðsynlegar til stuðnings við stefnu um mannsæmandi vinnu. Alþjóðavinnumálastofnunin er hvött til að byggja upp þekkingargrunn sinn og greiða fyrir skiptum á þekkingu, reynslu og góðum starfsháttum meðal þátttakenda alls staðar á svæðinu.

Niðurstöðum fundarins fylgt eftir.



     36.      Alþjóðavinnumálastofnunin er beðin um að kanna möguleika á þríhliða svæðishlutafundum og svæðisfundum til að fjalla um helstu álitaefni í stefnumótun. Stofnunin mun tryggja að slíkir umfjöllunarfundir samræmist þein ráðstöfunum sem þar kunna þegar að hafa verið gerðar.
     37.      Í tæknilegri aðstoð Alþjóðlegu vinnumálastofnunarinnar ber að stuðla að því að auka möguleika hinna þríhliða þátttakenda til að koma á samræmdri stefnu um atvinnumál, félagslega vernd og félagslegar viðræður og kröfur. Þess er óskað að stjórnarnefndin standi fyrir umfjöllun á miðjum framkvæmdatíma um hvernig þessum niðurstöðum hefur verið fylgt eftir.


Fylgiskjal IV.


Ræða flutt í nafni félagsmálaráðherra við almennar umræður á Evrópuþingi ILO um skýrslur forstjóra alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf.


    Ágæti þingforseti.
    Ég flyt þessa ræðu í nafni Árna Magnússonar félagsmálaráðherra Íslands þar sem hann óvænt forfallaðist vegna veikinda.
    Ég vil byrja á því að óska yður til hamingju með þann heiður að hafa verið valinn til þess ábyrgðamikila starfs að stjórna sjöunda Evrópuþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ég vil einnig færa varaforsetum þingsins sömu óskir. Á þessu þingi eru til umfjöllunar nokkur tímamótamálefni á sviði vinnumála þannig að það skiptir miklu að það njóti styrkrar stjórnar sem leiði til niðurstöðu sem verði leiðbeinandi fyrir stefnumótun í vinnu- og félagsmálum í Evrópu á næstu árum.
    Ég vil einnig færa forstjóra og starfsfólki alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf sem og ungverskum gestgjöfum þakkir fyrir þeirra frábæra undirbúning. Þetta gildir ekki síst um þær tvær skýrslu forstjórans sem liggja fyrir þinginu. Framsetning þeirra er til mikillar fyrirmyndar.
    Tími minn leyfir ekki að langar tilvitnanir í skýrslunar enda ekki til þess ætlast. Ég mun því hér á eftir einbeita mér að nokkrum völdum atriðum.
    Í skýrslu sinni „Stjórnarhættir fyrir mannsæmandi störf“ vekur forstjórinn athygli á því að evrópska velferðarkerfið er góð fyrirmynd fyrir nýjum stjórnarháttum á sviði efnahags- og félagsmála. Hann réttilega bendir á viðtækt samráð við hagsmuna aðila sem gerir stjórnvöldum kleift að móta samræmda stefnu á sviði vinnumála og að hluta til á öðrum sviðum félagsmála með nákvæmu eftirliti með framkvæmd og umræðu um árangur sem metin er með mælanlegum breytum. Á þennan hátt er hægt að fylgjast með því hvort haldið sé í rétta átt og ef nauðsyn ber til leiðrétta stefnuna þannig að viðtæk sátt sé um þau markmið sem að er stefnt.
    Það er rétt að hér er um að ræða nýmæli í Evrópu hins vegar hafa þessir stjórnarhættir um árabil verið grundvöllurinn fyrir því sem kallað er norræna kerfið.
    Á síðasta ári á formennsku tíma Íslands samþykkti norræna ráðherranefndin nýja samstarfsáætlun á sviði vinnu- og vinnuverndarmála fyrir árin 2005–2008. Mikilvægast í þessari nýju áætlun er aukin áhersla vinnuafl og framboð vinnu til að mæta breytingum á aldursskiptingu og bæta stöðu þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaðnum. Í samstarfsáætluninni er dregið fram mikilvægi þess að kynin búi við jafnrétti í atvinnulífinu og fjarlæga hindranir sem mismuna hópum sem eiga undir högg að sækja.
    Fram til árins 2008 hafa norrænir vinnumálaráðherra ákveðið að leggja höfuðáherslu á tvö aðskild viðfangsefni sem bæði snerta atvinnulífið, vinnurétt og vinnuumhverfi. Stefnu í málefnum atvinnulífsins á Norðurlöndum og hvernig hún tengist framvindunni á Evrópska efnahagssvæðinu og í öðrum alþjóðlegum stofnunum.
    Forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar gerir að umtalsefni í skýrslu sinni stöðu eldri starfsmanna á vinnumarkaðinum í Evrópu og endurbætur á lífeyrirsjóðakerfinu. Í þessu sambandi vil ég nefna að að í nóvember sl. fékk ég í hendur skýrslu nefndar sem ég skipaði í febrúar 2004. Hlutverk nefndarinar var að kanna á hvern hátt unnt er með lagasetningu að sporna við því að fólk sé látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur með uppsögnum eða mismunun í starfi. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi og fulltrúar helstu samtaka á vinnumarkaði.
    Nefndin er sammála um, að aðgerða er þörf og leggur til að stjórnvöld hefji nú þegar sérstakt fimm ára verkefni til að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Tryggt verði að málefnum þessa hóps verði sinnt sérstaklega á komandi árum, ásamt því að vekja athygli á verkefninu. Verkefninu verði sérstaklega ætlað að skapa jákvæða umræðu um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði, bæta ímynd þeirra og skapa farveg fyrir nauðsynlega viðhorfsbreytingu meðal aðila vinnumarkaðarins og í þjóðfélaginu í heild.
    Nefndin leggur til að verkefnið hefjist með skipun sjö manna verkefnisstjórnar er starfi undir forystu félagsmálaráðuneytis og að félagsmálaráðherra beri ábyrgð á framkvæmd þess og fjármögnun. Verkefnisstjórn í samstarfi við tilnefningaraðila vinni sérstaklega að fræðslustarfi, rannsóknum og áhrifum á viðhorf til miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Leitað verði eftir norrænu samstarfi á þessu sviði.
    Í þriðja kafla skýrslu sinnar fjallar forstjórinn um jafnvægið á milli stöðugleika og félagslegs öryggis á evrópskum vinnumarkaði. Ég tel að í því samhengi sé fróðlegt að nefna tvö atriði sem við gripið hefur verið til á Íslandi.
    Á árinu 2000 samþykkti Alþingi lög um fæðingar- og foreldraorlof. Lögin veita karlmönnum sjálfstæðan óframseljanlegan þriggja mánaða rétt til fæðingarorlof. Þessum rétti verður komið á í þremur áföngum á árunum 2001 til 2003. Á árinu 2001 fengu feður rétt til eins mánaðar fæðingarorlofs. Á árinu 2002 tvo mánuði og þrjá mánuði á árinu 2003 en þá komu lögin að fullu til framkvæmda.
    Litið er á lögin sem þýðingarmikið skref í átt jafnréttiskynjanna og vinna gegn misrétti í atvinnulífinu og draga úr kynbundnum launamun. Karlar og konur á Íslandi eru að kynnast efni laganna og laga sig eftir þeim en í þeim felast grundvallarbreytingar að því er varðar fæðingarorlof.
    Að síðustu, hr. forseti, langar mig að segja nokkur orð um mansal.
    Ríkisstjórn Íslands tók þátt í ætlun Norðurlandanna og ríkisstjórna Eystrasaltsríkjanna gegn mansal. Embættismannanefnd norrænu ráðherranefndarinnar samþykkti 16. janúar sl. ályktun þar sem sett eru fram markmið áætlunarinnar. Nefndin lagði til að áætlunin skyldi beinast að því að upplýsa almenning og gera hann meðvitaðan og stuðla að umræðum um vandamál sem tengjast mansali.
    Ég þakka fyrir.

(Ræðuna flutti Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, 15. febrúar 2005).


Fylgiskjal V.


Skýrsla um starf nefndar um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
og framkvæmd á félagsmálasáttmála Evrópu á árinu 2005.

    Árið 1981 fullgilti Ísland alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 144, um samstarf ríkisvalds og samtaka aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála. Á grundvelli tilmæla nr. 152 um framkvæmd samþykktarinnar var skipuð 16. apríl 1982 samstarfsnefnd ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins til að fjalla um samskipti Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina, venjulega nefnd ILO-nefndin. Samþykktin og tilmælin endurspegla það sem skapar Alþjóðavinnnumálastofnuninni sérstöðu meðal annarra sérstofnana Sameinuðu þjóðanna. Hún er eina stofnunin þar sem fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks er tryggð bein aðild að stjórnum, nefndum og ráðum.
    Á því tímabili sem þessi skýrsla tekur til hafa eftirtaldir skipað nefndina:
    Fulltrúi samtaka atvinnurekenda: Hrafnhildur Stefánsdóttir lögfræðingur Samtaka atvinnulífsins.
    Fulltrúar samtaka launafólks: Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands til maí 2005. Magnús Norðdal lögfræðingur ASÍ tók aftur sæti sitt í nefndinni í maí 2005.
    Fulltrúar félagsmálaráðherra og formaður nefndarinnar: Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu.
    Verkefni nefndarinnarinnar beinast fyrst og fremst að málefnum sem tengjast samskiptum Íslands við Alþjóðavinnumálastofnunina og leiða af aðildinni að stofnuninni. Nefndinni var með sérstöku erindisbréfi félagsmálaráðherra, dagsettu 5. maí 1988, falið að fjalla um framkvæmd Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu. Ástæðan er meðal annars sú að ýmis ákvæði félagsmálasáttmálans eiga uppruna að rekja til alþjóðasamþykkta ILO. Það hefur því þótt hagkvæmt að nefndin fjalli einnig um framkvæmd á sáttmálanum og skýrslur Íslands um framkvæmd hans.
    Á árinu 2005 hélt nefndin samtals 12 fundi. Helstu viðfangsefni nefndarinnar voru eftirfarandi:

Málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
a.     Skýrslur um framkvæmd alþjóðasamþykkta á svið félags- og vinnumála.
    Í 22. gr. stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er kveðið á um þá skyldu aðildarríkja að gefa stofnuninni skýrslu um framkvæmd alþjóðasamþykkta sem þau hafa fullgilt. Skýrslur skulu teknar saman á tveggja ára fresti um framkvæmd á grundvallarsamþykktunum en yfirleitt eru skýrslutímabilin fjögur ár að því er varðar aðrar samþykktir ILO. Þessu til viðbótar er ákvæði í 19. gr. stofnskrárinnar sem heimilar stjórnarnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að óska eftir því við aðildarríkin að þau gefi skýrslu um framkvæmd á samþykktum sem þau hafa ekki fullgilt. Þessari heimild er beitt reglulega og er tilgangurinn að vekja athygli á umræddri samþykkt og hvetja aðildarríkin til að taka fullgildingu hennar til athugunar. Umfang skýrslanna er mjög mismunandi. Í sumum tilvikum er nægilegt að vísa til fyrri skýrslna. Í öðrum tilvikum er um að ræða margra síðna skýrslur einkum ef sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur beint spurningum til stjórnvalda um tiltekin atriði.
    Á skýrslutímabilinu undirbjó ILO-nefndin skýrslu ríkisstjórnarinnar um framkvæmd eftirfarandi alþjóðasamþykkta sem Ísland hefur fullgilt:
          nr. 2, um ráðstafanir gegn atvinnuleysi,
          nr. 87, um félagafrelsi,
          nr. 98, um samingafrelsi,
          nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf,
          nr. 111, um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs,
          nr. 122, um stefnu í atvinnumálum,
          nr. 139, um varnir gegn og eftirlit með krabbameinsvaldandi efnum,
          nr. 144, varðandi samstarf um framkvæmd alþjóðlegra reglna á sviði vinnumála,
          nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi,
          nr. 159, um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra, og
          skýrsla um ófullgilta samþykkt.

b.     Undirbúningur fyrir og þátttaka í Alþjóðavinnumálaþinginu.

93. Alþjóðavinnumálaþingið.


    Á því tímabili sem þessi skýrsla tekur til var 93. Alþjóðavinnumálaþingið haldið dagana 31. maí til 16. júní 2005. ILO-nefndin fjallaði um þau málefni sem voru til umfjöllunar á þinginu. Nefndin samdi drög að svörum íslenskra stjórnvalda við spurningaskrám um helstu dagskrármál þingsins sem voru fyrri umræða um rammasamþykkt á sviði vinnuverndar og um drög að samþykkt um vinnuskilyrði um borð í fiskiskipum.
    Að venju hélt nefndin fund af afloknu vinnumálaþingi og bar saman bækur sínar um helstu niðurstöður. Eftirfarandi var meðal þess sem kom fram á fundi nefndarinnar:

Þingnefnd um framkvæmd alþjóðasamþykkta.


    Fram kom að nýr skrifstofustjóri Cleopatra Doumbia-Henry hefur tekið við starfi skrifstofustofustjóra skrifstofu ILO um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Hún flutti ávarp við upphaf starfs þingnefndar um framkvæmd alþjóðasamþykkta. Var gerður góður rómur af skeleggum málflutningi hennar og bundnar vonir við breytingar til batnaðar á starfi nefndarinnar. Um miðbik nefndarstarfsins voru gerðar þær breytingar að formaður nefndarinnar tók sér meiri frest til að undirbúa niðurstöður í umfjöllun nefndarinnar um framkvæmd einstakra ríka á framkvæmd alþjóðasamþykkta. Með þessum hætti er meira vandað til samningu á niðurstöðum nefndarinnar og þær ekki afgreiddar fyrr en öllum er ljóst efni þeirra. Fram kom að betur má nýta tíma nefndarinnar á fyrstu viku þingsins. Enn fremur þarf að hyggja að takmörkunum á ræðutíma, fjölda ræða um einstök málefni og ef til vill þann tíma sem varið er í umfjöllun um einstök aðildarríki. Vinnuálag nefndarinnar er ekki í samræmi við viðurkenndar reglur um vinnuvernd en kvöld-, nætur- og helgarfundir eru algengir seinni hluta þingtímans.

Nefnd um vinnuskilyrði fiskimanna.


    Fram kom óánægja nefndarmanna með að ekki hafi tekist samstaða um að afgreiða samþykkt um vinnuskilyrði fiskimanna. Á það var bent að ef til vill hafi gætt ákveðins misskilnings varðandi starfið að samþykktinni. Markmiðið hafi verið að ná samkomulagi um almenna samþykkt sem yrði fullgilt af sem flestum ríkjum og stuðlaði að því að bæta aðbúnað fiskimanna í þeim löndum sem eru skemmra komin en þróuð iðnríki. Mál hafi hins vegar þróast með þeim hætti að samþykktin hafi orðið of ítarleg og sveigjanleikinn hafi glatast. Það hafi mátt verða ljóst, þegar fulltrúar í Suð-Austur Asíu með Japani í broddi fylkingar lýstu því yfir að þeir gætu ekki fullgilt samþykktina vegna málamiðlunarinnar um gildissviðið, að tvísýnt yrði að samþykktin næði fram að ganga.
    Rætt var um viðbrögð við þessari niðurstöðu. Fram kom að það þjóni takmörkuðum tilgangi að þýða tilmælin á íslensku þar sem næsta ljóst er að þeim verður breytt þegar málefnið verður tekið að nýju til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu 2007. Fram kom hjá nefndarmönnum að þeir telja rétt að félagsmálaráðherra gefi Alþingi skýrslu um þetta vinnumálaþing með venjulegum hætti og í þeirri skýrslu verði greint frá umfjöllun um þetta málefni og efnislegur útdráttur úr tilmælunum sem skv. stofnskrá ILO er skylt að leggja fyrir löggjafarsamkomu hlutaðeigandi aðildarríkis.

Nefnd um vinnuvernd.


    Starf þingnefndar um vinnuvernd gekk mjög vel. Góð samvinna tókst í nefndinni og fyrir liggja tillögur að alþjóðasamþykkt og tilmælum sem verður til umfjöllunar á næsta vinnumálaþingi að ári. Um er að ræða rammasamþykkt sem felur í sér hvernig meginþáttum vinnuverndarstarfs skuli fyrir komið, þ.e. stefnumótun stjórnvalda, lagaumhverfi og vinnuverndarstarf og áætlanagerð. Í tilmælunum er lagt til að í hverju landi verði komið á fót stöðumati vinnuverndar („national profile“) sem m.a. byggir á tölfræði um vinnuslys og atvinnutengda sjúkdóma.

Nefnd um atvinnumál ungs fólks.


    Starf nefndar um atvinnumál ungs fólks gekk einnig mjög vel á þinginu. Af hálfu launfólks var lögð áhersla á að ungt fólk úr þeirra röðum tæki þátt í starfi nefndarinnar. Nefndin gekk frá tillögu að þingsályktun um þetta efni sem var samþykkt einum rómi á allsherjarþingi vinnumálaþingsins.

94. Alþjóðavinnumálaþingið í febrúar 2006.


    Nefndin fór yfir og fjallaði um undirbúning fyrir 94. Alþjóðavinnumálaþingið en á dagskrá þess voru drög að alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði skipverja á öðrum skipum en fiskiskipum. Í samþykktinni er fjallað um málefni sem fyrst og fremst heyra til verksviðs samgönguráðuneytisins, t.d. aðbúnaður og hollusta um borð í skipum en einnig fer dóms- og kirkjumálaráðuneytið með aðra þætti eins og hafnareftirlit og landgöngu skipverja.

95. Alþjóðavinnumálaþingið í júní 2006.


    Umtalsverðum tíma var varið til að fjalla um dagskrármálefni 95. Alþjóðavinnumálaþingsins. Nefndin afgreiddi m.a. svör við spurningaskrám um efnisþætti í hugsanleg drög að samþykkt eða tilmæli um ráðningarsamband atvinnurekanda og launamanns.

Evrópuþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.


    Sjöunda Evrópuþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar var haldið dagana 14.–8. febrúar 2005 í Búdapest í Ungverjalandi. Á dagskrá þess var starfsemi ILO í Evrópu. Enn fremur var fjallað um afmarkaða þætti alþjóðavæðingarinnar, t.d. starfsemi alþjóðastofnana, gildi stöðugrar endurmenntunar, jafnvægið á milli sveigjanleika, stöðugleika og félagslegs öryggis á evrópskum vinnumarkaði, setning reglna um um réttindi og skyldur innflytjenda, öldrun samfélaga Vesturlanda, þátttaka í atvinnulífinu og endurbætur á lífeyrissjóðakerfum. Að afloknu þinginu fór nefndin yfir helstu niðurstöður og skiptist á skoðunum um framvindu þess. Nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að margt hafi tekist vel á þinginu. Þannig hafi hringborðs- og pallborðsumræður verið mjög áhugaverðar og stuðlað að gagnkvæmum skoðanaskiptum á milli þátttakenda. Þeir voru hins vegar þeirrar skoðunar að almennar umræður með fyrirfram undirbúnum ræðum hafi mátt missa sín og ekki verið sérlega frjóar. Einnig eigi að stytta þingið og takmarka við þrjá daga. Lögð var áhersla á að lokayfirlýsing þingsins verði þýdd á íslensku og kynnt hérlendis.

c.     Fullgilding alþjóðasamþykkta.

Alþjóðasamþykkt nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda.


    Að ósk Alþýðusambands Íslands hóf nefndin í nóvember 2004 umfjöllun um hugsanlega fullgildingu alþjóðasamþykktar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Nefndin hafði á árinu 1994 tekið til umræðu spurninguna um fullgildingu samþykktarinnar. Við það tækifæri tókst ekki samstaða um að mæla með því að samþykktin yrði fullgilt. Á árinu 2005 fjallaði nefndin ítarlega um þetta málefni. Niðurstaðan varð sú að ekki tókst frekar en árið 1994 að ná samstöðu um að mæla með fullgildingu samþykktarinnar. Félagsmálaráðherra var gerð grein fyrir afstöðu heildarsamtakannna í sérstöku minnisblaði dags. 18. október 2005. Í niðurlagi minnisblaðsins er afstaða heildarsamtakanna dregin saman. Þar kemur fram að Alþýðusamband Íslands telur málið fyrst og fremst snúast um rétt starfsmanna til að fá upplýsingar um ástæður uppsagnar og hvort þær byggi á málefnalegum ástæðum. Það fjalli ekki um rétt atvinnurekanda til að segja upp starfsmanni. Fullgilding hafi því hverfandi áhrif á sveigjanleika á íslenskum vinnumarkaði. Alþýðusamband Íslands leggur til að ILO-samþykkt nr. 158 verði fullgilt og kallar eftir afstöðu stjórnvalda til þess. Samtök atvinnulífsins eru öndverðrar skoðunar. Samtök atvinnulífsins telja að samþykkt ILO nr. 158 feli í sér bann við uppsögnum af hálfu atvinnurekenda nema að hann geti sýnt fram á að ástæða uppsagnarinnar sé samdráttur í rekstri eða að fyrir þeim séu gildar ástæður sem varða hæfni eða háttsemi starfsmannsins. Fullgilding drægi því verulega úr sveigjanleika í íslensku atvinnulífi og viðbragðsflýti og snerpu fyrirtækja. Vilji fyrirtækja til nýráðningar yrði einnig minni. Samtök atvinnulífsins eru því andvíg fullgildingu samþykktarinnar.

Alþjóðasamþykktir nr. 81 og 12, um vinnuvernd.


    Í tengslum við samantekt á skýrslu um framkvæmd samþykkta nr. 81 og 129 um vinnuvernd ræddi nefndin um hugsanlega fullgildingu Íslands á þeim. Óskað var eftir umsögn Vinnueftirlits ríkisins um þetta atriði. Í bréfi Vinnueftirlitsins frá 25. nóvember 2005 kemur fram að aðstæður á Íslandi séu að flestu leyti í samræmi við ákvæði samþykktarinnar að undanskildu einu atriði. Í 3. gr. samþykktar nr. 81 og 6. gr. samþykktar nr. 129 er tekið fram að meðal verkefna vinnueftirlits sé að hafa eftirlit með því að laun séu greidd í samræmi við samninga. Á Íslandi er þetta verkefni í höndum samtaka launafólks en ekki Vinnueftirlitsins. Niðurstaða ILO-nefndarinnar var sú að samþykkja að leita nánari skýringar starfsmanna alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf á umræddum ákvæðum.

Bókun við samþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði


við vinnu og starfsumhverfi.


    Á 90. Alþjóðavinnumálaþinginu árið 2002 var afgreidd bókun við alþjóðasamþykkt nr. 155, um öryggi og heilbrigði við vinnu og starfsumhverfi sem Ísland fullgilti árið 1991. Nefndin samþykkti að leita umsagnar Vinnueftirlits ríkisins á því hvort ákvæði laga og reglugerða á Íslandi væru í samræmi við efni bókunarinnar. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins, dags. 9. febrúar 2005, kemur fram að sú skýring hugtaka í íslenskum lagatexta sé í samræmi við hliðstæðar skýringar í bókuninni. Hins vegar séu ekki í íslenskum lögum ákvæði sem fullnægi skyldum sem fram koma í 5.–7. gr. samþykktarinnar. Í þeim greinum koma fram kröfur um form á tilkynningum um vinnuslys og árlega útgáfu hagtalna um atvinnutengd slys, atvinnutengda sjúkdóma og eftir því sem við á, hættuleg atvik og slys á leið í og úr vinnu.

d.     Skýrsla félagsmálaráðherra um Alþjóðavinnumálaþingið í Genf.
    Aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni fylgir sú skylda að kynna löggjafarsamkomu þær samþykktir sem Alþjóðavinnumálaþingin afgreiða. Á Íslandi er þetta ákvæði uppfyllt með þeim hætti að félagsmálaráðherra gefur Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin. Í skýrslunum eru britar í íslenskri þýðingu þær samþykktir, tilmæli og ályktanir sem þingin afgreiða. Á árinu 2005 var haft samráð við ILO-nefndina um skýrslu félagsmálaráðherra um Alþjóðavinnumálaþingin sem haldin voru á árunum 2001–2004. Í skýrslunni er birt samþykkt nr. 184 og tilmæli nr. 192, um öryggi og hollustu í landbúnaði sem samþykkt voru á 89. Alþjóðavinnumálaþinginu 2001. Einnig samþykkt nr. 185, um persónuskírteini sjómanna, en hún var afgreidd á 91. þinginu árið 2002. Á því þingi voru einnig afgreidd tilmæli nr. 193, um eflingu samvinnufélaga. Í skýrslunni er enn fremur að finna tilmæli nr. 194, um skrá yfir atvinnutengda sjúkdóma og tilmæli nr. 195, um þróun mannauðs. Þá eru í skýrslunni birt greinargerð ríkisstjórnar Íslands til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar varðandi kæru Alþýðusambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands vegna setningar laga nr. 8/2001 og 34/2001. Niðurstaða nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi í kærumálinu er einnig birt í skýrslunni.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Fyrir skip sem falla undir bráðarbirgðaáætlun um mælingar sem samþykkt var af Alþjóðasiglingamálastofnuninni er brúttótonnatalan sú sem er að finna í athugasemdadálki alþjóðamælibréfsins (1969). Sjá c-lið 1. mgr. II. gr. samþykktarinnar.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Útgerðarmaður er eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri, umboðsmaður eða skipamiðlari þurrleiguskipa (skipa án áhafna), sem hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins úr höndum eiganda, og sem hefur með því að takast þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem eru lagðar á útgerðarmenn í samræmi við þessa samþykkt burtséð frá því hvort einhverjar aðrar stofnanir eða einstaklingar uppfylli tilteknar skyldur eða ábyrgð fyrir hönd útgerðarmannsins. Sjá j-lið II. gr. samþykktarinnar.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Útgerðarmaður er eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri, umboðsmaður eða skipamiðlari þurrleiguskipa (skipa án áhafna), sem hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins úr höndum eiganda, og sem hefur með því að takast þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem eru lagðar á útgerðarmenn í samræmi við þessa samþykkt burtséð frá því hvort einhverjar aðrar stofnanir eða einstaklingar uppfylli tilteknar skyldur eða ábyrgð fyrir hönd útgerðarmannsins. Sjá j-lið II. gr. samþykktarinnar.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Brúttótonnatala fyrir skip sem bráðarbirgðaáætlun um mælingar sem samþykkt af Alþjóðasiglingamálastofnuninni tekur til verður brúttótonnatalan sem er að finna í athugasemdadálki alþjóðamælibréfsins (1969).
Neðanmálsgrein: 5
    5 Útgerðarmaður er eigandi skips eða hver sú stofnun eða einstaklingur, t.d. framkvæmdastjóri, umboðsmaður eða skipamiðlari þurrleiguskipa (skipa án áhafna), sem hefur tekið á sig ábyrgð á rekstri skipsins úr höndum eiganda, og sem hefur með því að takast þessa ábyrgð á hendur gengist við öllum skyldum og þeirri ábyrgð sem eru lagðar á útgerðarmenn í samræmi við þessa samþykkt burtséð frá því hvort einhverjar aðrar stofnanir eða einstaklingar uppfylli tilteknar skyldur eða ábyrgð fyrir hönd útgerðarmannsins. Sjá j-lið II. gr. samþykktarinnar.
Neðanmálsgrein: 6
    6 Í samræmi við ákvarðanir stjórnarnefndar.