Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 350. máls.

Þskj. 379  —  350. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna,
nr. 6/2001, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Til þess að standa straum af kostnaði Fasteignamats ríkisins við að halda og þróa Landskrá fasteigna skulu húseigendur greiða til þess sérstakt umsýslugjald á árunum 2007 og 2008. Skal gjald þetta nema 0,1‰ (prómilli) af brunabótamati hverrar húseignar. Skal vátryggingafélag innheimta gjaldið samhliða innheimtu brunatryggingariðgjalda og skila því til Fasteignamats ríkisins eigi síðar en 45 dögum eftir gjalddaga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þegar Landskrá fasteigna var sett á laggirnar í ársbyrjun 2001 var stigið þýðingarmikið skref í þá átt að sameina helstu skrár um fasteignir í landinu. Fyrsta skrefið í samræmingunni var myndun samhæfðs gagna- og upplýsingakerfis um allar fasteignir í landinu sem skyldi vera skrá um fasteignir, þinglýsingar fasteigna, mat fasteigna og húsaskrá Hagstofu Íslands, ásamt tengingu við þjóðskrá. Tilgangur laganna var að samræma verklag skráningaraðila við skráningu fasteigna í samhæfðri tölvuvinnslu. Í þessu tilliti var samræming réttindaskráningar sýslumanna og fasteignaskrár Fasteignamats ríkisins mikilvægust. Þar sem hvert upplýsingaatriði er aðeins fært einu sinni í Landskrána sparast sú margskráning sem áður fór fram hjá ýmsum skráarhöldurum. Það hefur leitt af sér meiri áreiðanleika upplýsinga og aukið öryggi í viðskiptum enda fasteignir mikilvæg stoð viðskipta í landinu. Jafnframt var með Landskrá fasteigna lagður grunnur að skráningu eignamarka lands á tölvutæku formi sem nýtist m.a. til rekstrar landupplýsingakerfa í framtíðinni.
    Sérstakt umsýslugjald var tekið upp í tengslum við að brunatryggingar voru gefnar frjálsar árið 1994 og að Fasteignamat ríkisins var falið að halda brunabótamatsskrá og annast framkvæmd brunabótamats að hluta. Nam gjaldið 0,025‰ (prómillum) af brunabótamati hverrar húseignar og rann til stofnunarinnar og ætlað til að standa undir kostnaði hennar við að halda skrá yfir brunabótamat húseigna. Við setningu laga um Landskrá fasteigna haustið 1999 var ákveðið að umsýslugjald til Fasteignamats ríkisins yrði hækkað úr 0,025 ‰ í 0,1 ‰ vegna hinnar nýju Landskrár fasteigna. Á því var byggt í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að gerð skrárinnar tæki um fjögur ár og kæmi það í hlut eigenda fasteigna að greiða fyrir gerð hennar. Af þessum sökum var ákveðið að gjaldið skyldi falla niður í árslok 2004 og eftir það yrðu tekjustofnar stofnunarinnar skoðaðir upp á nýtt.
    Þegar leið að framangreindri tímasetningu varð ljóst að umræddu takmarki yrði ekki náð innan fjögurra ára. Fasteignamat ríkisins taldi að þrátt fyrir að mikil vinna hefði verið lögð í að færa og bæta Landskrána hefði verkefnið reynst viðameira og tímafrekara en upphaflega var gert ráð fyrir. Þannig var í upphafi áætlað að misræmi í upplýsingum í fasteignaskrá annars vegar og upplýsingum í þinglýsingaskrá hins vegar gæti numið allt að 10% en það reyndist hins vegar liggja á bilinu 15–33% samkvæmt upplýsingum Fasteignamatsins.
    Haustið 2004 var lagt fram frumvarp fjármálaráðherra þar sem gert var ráð fyrir að innheimta umsýslugjaldsins yrði framlengd frá 2005–2008 þar sem því takmarki hefði ekki verið náð að ljúka skráningunni. Að þeim tíma liðnum yrði umræddur tekjustofn tekinn til endurskoðunar á nýjan leik. Efnahags- og viðskiptanefnd taldi að leita yrði leiða til að takmarka þann kostnað við verkið sem fasteignaeigendur bæru einir. Því lagði nefndin til að umsýslugjaldið yrði einungis innheimt með þessum hætti í tvö ár til viðbótar. Eftir það skyldi tekna aflað með öðrum hætti.
    Ljóst er að mikilvægi fasteignamats fyrir ríkið hefur breyst umtalsvert frá því gerð Landskrárinnar hófst, m.a. með því að eignarskattar hafa verið aflagðir og fasteignamat er því ekki nema að litlu leyti stofn til skattheimtu ríkisins. Að sama skapi má segja að gildi fasteignamats og Landskrár fasteigna hafi aukist til mikilla muna fyrir sveitarfélögin í landinu, enda fasteignamat gjaldstofn til innheimtu fasteignaskatta, auk þess sem þjónusta við sveitarfélög hefur verið efld á þann hátt að álagning fasteignaskatta og fasteignagjalda fer fram í Landskránni frá 1. janúar 2007 og munu sveitarfélög þá jafnframt leggja af sérstakar álagningarskrár. Varðandi brunabótamatið, sem er hinn þátturinn í hinu opinbera mati ríkisins á fasteignum, hafa þau sjónarmið komið fram hvort nægileg rök standi til að halda í skyldutryggingu vegna bruna með hliðsjón af því að hún virðist einsdæmi hérlendis og er t.a.m. ekki að finna meðal hinna Norðurlandaþjóðanna. Þrátt fyrir að talið verði rétt að viðhalda slíkri vátryggingarskyldu má hins vegar velta upp þeirri spurningu hvort haga megi mati slíkra hagsmuna í viðskiptum aðila á markaði með öðrum og haganlegri hætti en með sérstakri þátttöku opinbers aðila.
    Með hliðsjón af ofangreindu og í tengslum við nauðsynlega heildarendurskoðun á fjármögnun Landskrár fasteigna hefur fjármálaráðuneytið skipað starfshóp fulltrúa ráðuneyta og hagsmunaaðila í því skyni að fara heildstætt yfir helstu kosti og galla núverandi tilhögunar í fasteignaskráningu og fasteignamati á vegum hins opinbera og leggja mat á það hvort ástæða sé til að breyta í einhverju núverandi skipan þessara mála. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sambands íslenskra tryggingafélaga.
    Þrátt fyrir að stefnt sé að því að niðurstöður starfshópsins liggi fyrir eins fljótt og kostur er þykir rétt, með hliðsjón af umfangi starfsins og því að starfshópurinn hefur nýlega verið skipaður, að leggja til að núverandi fjármögnun Fasteignamats ríkisins verði framlengd enn um sinn til tveggja ára. Þegar niðurstöður starfshópsins liggja fyrir mun ráðuneytið gera tillögur um þær breytingar sem nauðsynlegt verður talið að gera á lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, þar á meðal varðandi heildarfjármögnun stofnunarinnar til framtíðar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gerð er tillaga um að framlengja innheimtu umsýslugjalds fyrir árið 2007 og 2008.

Um 2. gr.

    Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2007 þegar núgildandi bráðabirgðaákvæði fellur úr gildi.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum.

    Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, skulu húseigendur greiða umsýslugjald sem nemur 0,1‰ (prómilli) af brunabótamati hverrar húseignar á árunum 2005 og 2006. Umsýslugjaldinu hefur verið varið til að standa straum af hluta kostnaðar Fasteignamats ríkisins við að byggja upp og halda Landskrá fasteigna. Umsýslugjaldið var upphaflega lagt á tímabundið á árunum 2000–2004 til að fjármagna uppbyggingu Landskrárinnar sem áformað var að tæki fjögur ár. Að þeim tíma liðnum var ennþá talsvert óunnið af verkefninu og með lögum sem sett voru undir lok ársins 2004 var gjaldtakan því framlengd í tvö ár í viðbót. Samkvæmt núgildandi bráðabirgðaákvæði fellur umsýslugjaldið því niður í lok yfirstandandi árs. Skipaður hefur verið starfshópur með fulltrúum ráðuneyta og hagsmunaaðila sem ætlað er að fara heildstætt yfir fjármögnun og fyrirkomulag fasteignaskráningar, fasteignamats og brunabótamats á vegum hins opinbera. Í tengslum við það er í þessu frumvarpi lagt til að þessi þáttur í fjármögnun Landskrárinnar hjá Fasteignamati ríkisins verði framlengdur enn um sinn til tveggja ára. Eftir að niðurstöður starfshópsins liggja fyrir er gert ráð fyrir að lagðar verði fram tillögur um fjármögnun þessa verkefnis og stofnunarinnar í heild til lengri tíma litið. Á tímabilinu 2000–2006 voru tekjur af umsýslugjaldinu til uppbyggingar á Landskránni um 1,6 milljarðar króna. Árlegar tekjur hafa vaxið nokkuð ört enda hefur stofn brunbótamats í landinu stækkað mjög á undanförnum árum og eru tekjurnar áætlaðar 325 m.kr. í fjárlögum þessa árs. Ef reiknað er með því að tekjurnar verði óbreyttar næstu tvö árin ættu þær þá að skila um 650 m.kr. til viðbótar þannig að alls hafi þá um 2,3 milljarðar króna runnið til verkefnisins.
    Fjárreiður Fasteignamats ríkisins eru settar fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 miðað við að umsýslugjaldið falli á brott í samræmi við núgildandi lög. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að við 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins verði lagðar fram tillögur um að auka fjárheimildir stofnunarinnar um 152,5 m.kr. til að ráðstafa tekjunum af umsýslugjaldinu til að halda og þróa Landskrána. Þær fjárheimildir eru þær sömu og felldar voru niður við undirbúning fjárlagafrumvarpsins og verða fjárveitingar til stofnunarinnar þá óbreyttar að þessu leyti. Munu útgjöld ríkissjóðs þá aukast sem því nemur miðað við núgildandi lagaákvæði.