Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 351. máls.

Þskj. 381  —  351. mál.


Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Tollabandalags Suður-Afríkuríkja.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Tollabandalags Suður-Afríkuríkja sem undirritaður var í júní og júlí 2006 á Höfn í Hornafirði, í Genf, Gabarone og Pretoríu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (European Free Trade Association, EFTA, sem Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss eru aðilar að) og Tollabandalags Suður-Afríkuríkja (South African Customs Union, SACU, sem Botsvana, Lesótó, Namibía, Suður-Afríka og Svasíland eru aðilar að) sem undirritaður var í júní og júlí 2006 á Höfn í Hornafirði, í Genf, Gabarone og Pretoríu. Meginmál samningsins í íslenskri þýðingu og frumtextinn á ensku er prentaður sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari. Viðaukar og bókanir sem fylgja samningnum munu liggja frammi á lestrarsal Alþingis.
    EFTA-ríkin hafa nú gert 16 fríverslunarsamninga sem ná til 20 ríkja/yfirráðasvæða, að samningnum við SACU-ríkin meðtöldum. Þrátt fyrir að telja samanlagt aðeins um 12 milljónir manns eru EFTA-ríkin níundi stærsti vöruútflytjandi heims. Fríverslunarsamningar EFTA ná til samtals 389 milljóna manna, auk fríverslunarstengslanna við Evrópusambandið sem telur 465 milljónir íbúa.
    Samningurinn við SACU-ríkin er sérstakur að ýmsu leyti; þetta er fyrsti fríverslunarsamningurinn sem EFTA-ríkin gera við aðra viðskiptablokk og jafnframt fyrsti samningur slíkrar tegundar sem gerður er við ríki í Afríku, sunnan Sahara. Þetta er enn fremur í fyrsta skipti sem ríki sem telst til fátækustu ríkja heims verður aðili að fríverslunarsamningi við EFTA- ríkin, en Lesótó telst til slíkra ríkja. Í samningnum er tekið tillit til mismunandi þróunarstigs samningsríkjanna. EFTA-ríkin munu lækka og fella niður tolla af sínum vörum hraðar en aðildarríki SACU og samningurinn inniheldur ákvæði um sértæka meðferð í ýmsu tilliti fyrir Botsvana, Lesótó, Namibíu og Svasíland, auk ákvæða um efnahagslega samvinnu og tækniaðstoð. Samningurinn nær til viðskipta með iðnaðarvörur, þar með talið sjávarafurðir, og unnar landbúnaðarvörur. Ísland, Noregur og Sviss hafa jafnframt undirritað tvíhliða samninga við aðildarríki SACU sem munu öðlast gildi á sama tíma og fríverslunarsamningurinn. Samningsaðilar munu enn fremur leitast við að skapa og viðhalda stöðugu og gagnsæju umhverfi fyrir fjárfestingar og hafa lagt grunn að auknu frelsi á sviði þjónustuviðskipta og opinberra útboða. Ákvæði um vernd hugverkaréttinda eru byggð á gildandi alþjóðasamningum og verða tekin til endurskoðunar innan fimm ára. Samningurinn inniheldur að auki reglur um hvernig bregðast eigi við viðskiptaháttum sem vinna gegn virkri samkeppni, stofnanaákvæði og ákvæði um samráð og lausn ágreiningsmála. Fylgiskjal.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR
MILLI
EFTA-RÍKJANNA
OG
TOLLABANDALAGS SUÐUR-AFRÍKURÍKJA


FORMÁLSORÐ


Lýðveldið Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Ríkjasambandið Sviss, aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu (hér á eftir nefnd „EFTA-ríkin“)


og

Lýðveldið Botsvana, Konungsríkið Lesótó, Lýðveldið Namibía, Lýðveldið Suður-Afríka og Konungsríkið Svasíland, sem mynda Tollabandalag Suður- Afríkuríkja (hér á eftir nefnd „SACU“ sem heild eða „SACU-ríkin“ hvert fyrir sig),


sem hér á eftir eru sameiginlega nefnd „samningsaðilarnir“,

HAFA Í HUGA að EFTA-ríkin og SACU-ríkin eiga þá ósk að efla tengsl sín á milli og koma á nánum og varanlegum samskiptum á grundvelli samstarfs og samvinnu,

VIÐURKENNA að ríkisstjórnir SACU-ríkjanna hafa gert átak til þess að efla efnahagslega og félagslega þróun með þegnum sínum og að EFTA-ríkin eru fús til þess að styðja það ferli,

MINNA Á að samningsaðilarnir leggja ríka áherslu á þær meginreglur sem gilda um milliríkjaviðskipti og nauðsyn þess að beita þeim með gagnsæjum hætti og án mismununar,

TAKA TILLIT TIL réttinda og skyldna samningsaðilanna hvað varðar aðild þeirra að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (hér eftir nefnd „WTO“) og hlutdeildar þeirra í að efla enn frekar marghliða viðskiptakerfi,

VIÐURKENNA sérstakar þarfir og hagsmuni SACU-ríkjanna, sem þróunarríkja eða landa sem eru skemmst á veg komin í þróun, og að slíkar þarfir og hagsmunir geri að verkum að um algera gagnkvæmni verði ekki að ræða að því er varðar skuldbindingar á sviði minnkunar útstreymis sem um getur í Dóha-þróunaráætluninni,

STAÐFESTA að samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að efla samvinnu milli svæða og efnahagssamvinnu milli landa sunnanverðrar Afríku og Evrópu og stuðla að auknu frelsi í viðskiptum milli samningsaðilanna,

HAFA Í HUGA að samningsaðilarnir skuldbinda sig til að tryggja að gagnkvæmt samkomulag þeirra hamli ekki svæðisbundinni samvinnu meðal EFTA- ríkjanna annars vegar og SACU-ríkjanna hins vegar,


STEFNA AÐ ÞVÍ að skapa ný atvinnutækifæri og bæta vinnuskilyrði og lífskjör á yfirráðasvæðum sínum og stuðla jafnframt að sjálfbærri þróun,


ÁRÉTTA stuðning sinn við þær meginreglur og markmið sem eru sett fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingunni, og


ERU SANNFÆRÐIR UM að þessi samningur muni skapa ákjósanlegar aðstæður fyrir tengsl samningsaðilanna á sviði efnahagsmála, viðskipta og fjárfestinga,

HAFA ÁKVEÐIÐ, í samræmi við markmið þessi, að gera með sér svohljóðandi samning (sem nefnist hér á eftir „þessi samningur“):

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI

1. gr.
Markmið.

1.     Samningsaðilarnir koma hér með á fríverslunarsvæði í samræmi við ákvæði þessa samnings sem er byggður á viðskiptasamböndum milli markaðshagkerfa.
2.     Markmið þessa samnings eru:
a)    að auka frelsi í vöruviðskiptum í samræmi við hinn almenna samning um tolla og viðskipti (hér á eftir nefndur „GATT-samningurinn frá 1994“),

b)    að fjölga svo um munar tækifærum til fjárfestinga á fríverslunarsvæðinu,
c)    að stuðla að fullnægjandi og áhrifaríkri vernd hugverkaréttinda,
d)    að leggja grundvöll að frekari þróun viðskipta og efnahagstengsla sín á milli í því skyni að færa út og auka ávinninginn af samningi þessum, og

e)    að stuðla þannig að samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum með því að ryðja viðskiptahindrunum úr vegi.

2. gr.
Viðskipta- og efnahagstengsl sem falla undir þennan samning.

    Ákvæði þessa samnings eiga við um viðskipta- og efnahagstengsl milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og einstakra SACU-ríkja hins vegar eða, þar sem sérstaklega er kveðið á um það, SACU-ríkjanna í heild í nafni SACU. Hvað varðar SACU skal skilja hugtökin „samningsaðilar“ eða „samningsaðili“ hverju sinni út frá viðeigandi ákvæðum þessa samnings og valdsvið SACU og SACU-ríkjanna í samræmi við SACU-samninginn frá 2002 með áorðnum breytingum. Þessi samningur gildir hvorki um viðskiptatengsl milli EFTA-ríkja né viðskiptatengsl milli SACU-ríkja.3. gr.
Landfræðilegt gildissvið.

1.     Þessi samningur gildir, með fyrirvara um V. viðauka, um:
a)    landsvæði, innhöf og landhelgi samningsaðila og loftrými yfir landsvæðinu í samræmi við reglur þjóðaréttar, svo og

b)    svæði utan landhelgi með tilliti til ráðstafana sem samningsaðili gerir í krafti fullveldisréttinda sinna eða lögsögu í samræmi við reglur þjóðaréttar.
2.     Ákvæði I. viðauka eiga við um Noreg.

4. gr.
Tengsl við aðra alþjóðasamninga.

1.     Samningsaðilarnir staðfesta réttindi sín og skyldur samkvæmt Marakess-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og öðrum samningum á grundvelli hans (hér á eftir nefndur „WTO-samningurinn“) sem þeir eiga aðild að og samkvæmt öðrum alþjóðasamningum sem eiga við um samskipti samningsaðila.
2.     Ekkert ákvæði þessa samnings skal túlka sem undanþágu til handa samningsaðilunum frá þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla samkvæmt öðrum alþjóðasamningum.

5. gr.
Fríðindasamningar við þriðju lönd.

    Samningur þessi útilokar ekki að tollabandalögum, fríverslunarsvæðum, samningum um landamæraviðskipti og öðrum fríðindasamningum samningsaðilanna sé við haldið, til þeirra stofnað eða þeir færðir út, svo fremi það raski ekki framkvæmd þeirra skuldbindinga sem kveðið er á um í þessum samningi. Samningsaðilarnir skulu upplýsa hverjir aðra, innan sameiginlegu nefndarinnar sem stofnuð er í samræmi við 33. gr. (hér á eftir nefnd „sameiginlega nefndin“), um slíka samninga við þriðju lönd.

II. KAFLI
VÖRUVIÐSKIPTI

6. gr.
Gildissvið.

1.     Þessi kafli gildir um:
a)    framleiðsluvörur sem heyra undir 25. til 98. kafla í samræmdri vörulýsingar- og vöruheitaskrá (ST), með fyrirvara um ákvæði II. viðauka,

b)    framleiðsluvörur, sem tilgreindar eru í III. viðauka, að teknu viðeigandi tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í þeim viðauka, og
c)    fisk og aðrar sjávarafurðir eins og kveðið er á um í IV. viðauka,
sem eru upprunnar í EFTA-ríki eða innan SACU í samræmi við upprunareglur sem kveðið er á um í V. viðauka.
2.     SACU og hvert EFTA-ríki hafa gert með sér tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þeir samningar eru hluti af gerningum um að koma á fót fríverslunarsvæði EFTA-ríkjanna og SACU.

7. gr.
Upprunareglur og samvinna stjórnvalda.

1.     Kveðið er á um upprunareglur í V. viðauka.

2.     Ákvæði um gagnkvæma stjórnsýslusamvinnu á sviði tollamála er að finna í VI. viðauka.

8. gr.
Tollar.

1.     Engir nýir tollar skulu innleiddir í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og SACU, eins og kveðið er á um í 1. mgr. 6. gr., nema að því marki sem kveðið er á um í þessum samningi.
2.     EFTA-ríkin skulu, frá og með gildistöku þessa samnings, afnema alla innflutningstolla á framleiðsluvöru sem upprunnin er í SACU.
3.     SACU skal í áföngum afnema innflutningstolla á framleiðsluvöru sem upprunnin er í EFTA-ríkjunum, í samræmi við ákvæði IV. og VII. viðauka.

4.     Við gildistöku þessa samnings skulu samningsaðilarnir afnema alla tolla á útfluttar vörur til annarra samningsaðila, með fyrirvara um ákvæði þessa samnings.
5.     Til tolla teljast hvers konar tollar eða gjöld, sem eru lögð á í tengslum við inn- eða útflutning framleiðsluvöru, einnig hvers konar aukaskattar eða aukagjöld að frátöldum gjöldum sem eru lögð á, í samræmi við III., VIII. og XI. gr. GATT-samningsins frá 1994.

9. gr.
Grunntollar.

1.     Grunntollur á hverja framleiðsluvöru, sem á að fara stiglækkandi skv. IV. og VII. viðauka, skal samsvara bestukjaratollinum (hér á eftir nefndur „bestukjaratollur“) sem í gildi var 1. júlí 2003.

2.     Komi almennar tollalækkanir til framkvæmda fyrir, við eða eftir 1. júlí 2003, m.a. lækkanir í samræmi við skuldbindingar sem leiðir af marghliða samningaviðræðum á vegum WTO, skulu lækkuðu tollarnir koma í stað grunntolla, sem um getur í 1. mgr., frá þeim tíma sem lækkanirnar koma til framkvæmda eða frá og með gildistöku þessa samnings, verði hún síðar.
3.     Reikna skal lækkuðu tollana í samræmi við IV. og VII. viðauka með einum aukastaf eða, þegar um ræðir sérstaka tolla, með tveimur aukastöfum.

4.     Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um vörur, sem eru til rannsóknar hjá stjórnsýslunefnd Suður-Afríku um alþjóðaviðskipti, frá og með 1. júlí 2003, og taldar eru upp í VIII. viðauka og vörur sem taldar eru upp í töflu 1 og 2 í VII. viðauka og flokkaðar sem skrár 5 og 6.
5.     Að undanskildum þeim fríðindamörkum sem eru tilgreind „vélar hluti 1 (motors partials 1)“ og „vélar hluti 2“ í 5. mgr. VII. viðauka, gildir 2. mgr. ekki um vörur sem taldar eru upp í töflu 1 og 2 í viðauka VII, sbr. flokkun í skrá 5 og 6.

10. gr.
Takmarkanir á inn- og útflutningi.

    Ákvæði IX. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar takmarkanir á inn- og útflutningi og eru hér með felldar inn í þennan samning og eru hluti af honum.

11. gr.
Innlend meðferð.

    Samningsaðilarnir skulu, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi, beita innlendri meðferð, í samræmi við ákvæði III. gr. GATT-samningsins frá 1994, þ.á m. athugasemdum um túlkun, sem er hér með felld inn í þennan samning og eru hluti af honum.

12. gr.
Ríkisrekin viðskiptafyrirtæki.

    Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar ríkisrekin viðskiptafyrirtæki, í samræmi við ákvæði XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samkomulag um túlkun XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994, sem eru hér með felld inn í þennan samning og eru hluti af honum.

13. gr.
Tæknilegar reglur, staðlar og samræmismat.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismat, í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir (hér á eftir nefndur „WTO-samningurinn um tæknilegar viðskiptahindranir“), sem og ákvarðanir og tilmæli sem WTO-samninganefndin um tæknilegar viðskiptahindranir hefur samþykkt frá og með 1. janúar 1995.
2.     Samningsaðilarnir skulu auka samvinnu sín á milli á sviði tæknilegra reglna, staðla og samræmismats með það fyrir augum að auka gagnkvæman skilning á skipulagi sínu og auðvelda aðgang að mörkuðum sínum. Samningsaðilarnir skulu, í þessu skyni og ef þess er óskað, skiptast á upplýsingum og meta án tafar hvers kyns beiðnir um samstarf. Samstarf getur verið fólgið í því:
a)    að hvetja til þess að WTO-samningnum um tæknilegar viðskiptahindranir sé beitt,
b)    að bæta aðferðir við reglu- og staðlasetningu,

c)    að greiða fyrir samræmingu á tæknireglugerðum á alþjóðavísu,
d)    að stuðla að því að alþjóðlegir staðlar verði grunnur að tæknireglugerðum, þ.m.t. reglur um samræmismat,
e)    að skiptast á upplýsingum um ýmsar leiðir til að auðvelda samþykki á niðurstöðum samræmismats,
f)    að stuðla að faggildingu aðila, sem annast samræmismat, á grundvelli viðeigandi staðla og leiðbeininga Alþjóðlegu staðlasamtakanna (ISO)/Alþjóðaraftækninefndarinnar (IEC), og

g)    að bera kennsl á og meta hugsanlega gerninga til að auðvelda viðskipti, s.s. jafngildar tæknireglugerðir og gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum samræmismats.
3.     Samningsaðilarnir samþykkja, með fyrirvara um réttindi og skyldur sínar samkvæmt WTO-samningnum um tæknilegar viðskiptahindranir, að hafa með sér samráð innan sameiginlegu nefndarinnar um hvert það mál sem upp kann að koma vegna beitingar tiltekinna tæknilegra reglna, staðla og aðferða við samræmismat, ef slík beiting hefur eða gæti orðið hindrun í viðskiptum milli samningsaðilanna, með það að markmiði að finna viðeigandi lausn í samræmi við WTO-samninginn um tæknilegar viðskiptahindranir.

14. gr.
Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigði dýra og plantna.

1.     Ákvæði WTO-samningsins um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigði dýra og plantna (hér á eftir nefndur „WTO- samningurinn um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna“).
2.     Samningsaðilarnir skulu auka samstarf sitt á sviði hollustuhátta og heilbrigði dýra og plantna með það fyrir augum að auka gagnkvæman skilning á skipulagi sínu og auðvelda aðgang að mörkuðum sínum. Slíkt samstarf getur verið fólgið í samráði sérfræðinga.
3.     Ef samningsaðili telur að annar samningsaðili hafi gert ráðstafanir, sem líklegt má telja að hafi eða hafi haft áhrif á aðgang að markaði hans, skal boða til samráðsfunda sérfræðinga í því skyni að finna viðeigandi lausn í samræmi við WTO-samninginn um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. Slíkt samráð getur farið fram bæði innan og utan sameiginlegu nefndarinnar. Samningsaðilarnir skulu skiptast á nöfnum og heimilisföngum tengiliða með sérþekkingu á hollustuháttum og heilbrigði dýra og plantna í því skyni að auðvelda samskipti og upplýsingaskipti.
4.     Allir samningar milli samningsaðilanna skulu vera í samræmi við landslög þeirra og tryggja hollustu- og heilbrigði dýra og plantna, bæði í einstökum SACU-ríkjum og SACU-ríkjunum í heild.
5.     Samningsaðilarnir lýsa yfir fylgi við staðla, sem alþjóðastofnanir sem viðurkenndar eru samkvæmt WTO-samningnum um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna, setja, að teknu tilliti til þess að sum SACU-ríkjanna hafa ekki undirritað alþjóðasamninginn um plöntuvernd.

15. gr.
Samkeppni.

1.     Samningsaðilarnir viðurkenna að tilteknir viðskiptahættir, s.s. samningar sem fela í sér samkeppnishömlur eða samstilltar aðgerðir og misnotkun á yfirburðastöðu, geta hindrað viðskipti milli þeirra og þar með komið í veg fyrir að markmiðum þessa samnings verði náð.
2.     Samningsaðila, sem telur að einhverjir starfshættir, sem um getur í 1. mgr., hafi neikvæð áhrif á rekstur þessa samnings, er heimilt að fara fram á það við þann eða þá samningsaðila, sem eiga landsvæði þar sem slíkir starfshættir eru upprunnir, að hann eða þeir gangi til samstarfs við hann í því skyni að binda enda á umrædda starfshætti eða neikvæð áhrif þeirra. Samstarfið gengur meðal annars út á, að svo miklu leyti sem landslög heimila það, gagnkvæm skipti á upplýsingum sem samningsaðilarnir hafa aðgang að og snerta það málefni sem um ræðir.
3.     Ef samstarf þeirra samningsaðila sem málið snertir með beinum hætti, skv. 2. mgr., leiðir ekki til lausnar getur sá samningsaðili, sem verður fyrir neikvæðum áhrifum, óskað eftir að fram fari samráð innan sameiginlegu nefndarinnar í því skyni að finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við.

16. gr.
Styrkir.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna varðandi styrki og jöfnunarráðstafanir í samræmi við VI. og XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og WTO-samninginn um styrki og jöfnunarráðstafanir, nema kveðið sé á um annað í 2. mgr.

2.     Áður en EFTA-ríki eða SACU hefur rannsókn í því skyni að ákvarða hvort og að hve miklu leyti styrkir eru veittir í SACU- eða EFTA-ríki og áhrif þeirra, eins og kveðið er á um í 11. gr. samningsins um styrki og jöfnunarráðstafanir, skal samningsaðilinn, sem hyggst hefja rannsókn, senda skriflega tilkynningu um það til þess samningsaðila sem vörurnar, sem rannsókninni er beint að, tilheyra og veita 30 daga frest til að leita lausnar sem báðir aðilar geta sætt sig við. Efna skal til samráðs innan sameiginlegu nefndarinnar ef einhver samningsaðilanna fer fram á það innan 10 daga frá viðtöku tilkynningarinnar.

17. gr.
Undirboð.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, viðvíkjandi því að ráðstöfunum gegn undirboðum sé beitt, í samræmi við VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samninginn um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994.
2.     Eftir að EFTA-ríki eða SACU móttekur vel rökstutt erindi og áður en rannsókn er hafin, samkvæmt ákvæðum samningsins sem um getur í 1. mgr., skal sá samningsaðili tilkynna þeim samningsaðila sem talinn er bjóða vörur sínar á undirboðskjörum um það skriflega og bjóða honum til samráðs í því skyni að finna lausn á málinu, sem báðir aðilar geta sætt sig við, innan 30 daga. Tilkynna skal hinum samningsaðilunum um niðurstöður samráðsins. Efna skal til samráðs innan sameiginlegu nefndarinnar fari samningsaðili fram á það innan 10 daga frá viðtöku tilkynningarinnar.

18. gr.
Víðtækar verndarráðstafanir.

    Samningsaðilarnir staðfesta réttindi sín og skyldur skv. XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og WTO-samningnum um verndarráðstafanir.

19. gr.
Neyðarráðstafanir vegna innflutnings tiltekinna framleiðsluvara.

1.     Ef framleiðsluvara, sem er upprunnin í EFTA- ríki eða SACU, er flutt inn á yfirráðasvæði EFTA- ríkis eða SACU í það auknu magni, á grundvelli þess að tollar hafa verið lækkaðir eða afnumdir samkvæmt þessum samningi, og við slík skilyrði að það veldur eða gæti valdið alvarlegu tjóni fyrir innlenda framleiðendur sambærilegra vara eða samkeppnisvara á yfirráðasvæði samningsaðilans, er honum heimilt að grípa til neyðarráðstafana með þeim skilyrðum og í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í þessari grein.
2.     EFTA-ríki eða SACU, sem hyggst grípa til neyðarráðstafana, skal veita sameiginlegu nefndinni allar viðeigandi upplýsingar, eins fljótt og auðið er og áður en gripið er til slíkrar ráðstöfunar, í því skyni að leita lausnar sem allir aðilar geta sætt sig við.
3.     Með neyðarráðstöfunum skal ekki ganga lengra en nauðsynlegt telst til að ráða bót á þeim erfiðleikum sem upp hafa komið og í þeim skal alla jafna felast frestun á frekari lækkun gildandi tolla, sem kveðið er á um í þessum samningi, á viðkomandi framleiðsluvörum eða hækkun tolla á þeim framleiðsluvörum.
4.     Í fyrrnefndum ráðstöfunum skulu fólgnir skýrir áhrifavaldar sem ógilda þær í áföngum eigi síðar en í lok þess tímabils sem tilgreint er. Ráðstafanir skulu ekki gerðar til lengri tíma en eins árs. Við mjög óvenjulegar aðstæður er heimilt að gera ráðstafanir lengst til þriggja ára.
5.     Sameiginlega nefndin skal, innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar, rannsaka þær upplýsingar sem eru veittar skv. 2. mgr. í þeim tilgangi að greiða fyrir lausn málsins þannig að báðir aðilar geti við unað. Ef engin lausn finnst er samningsaðilanum, sem er innflytjandi, heimilt að samþykkja viðeigandi ráðstöfun skv. 1. mgr. til að ráða bót á vandanum. Tilkynna skal sameiginlegu nefndinni þegar í stað um þá neyðarráðstöfun. Neyðarráðstöfun skal velja með tilliti til þess að valda sem minnstri röskun á framkvæmd þessa samnings.
6.     Ef aðstæður eru tvísýnar og tafir myndu valda skaða, sem erfitt yrði að bæta, er viðkomandi EFTA- ríki eða SACU heimilt að grípa til tímabundinnar neyðarráðstöfunar, liggi fyrir bráðabirgðaákvörðun þess efnis að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi valdið alvarlegum skaða eða að hætta sé á því. Samningsaðili sem hyggst grípa til slíkrar ráðstöfunar skal þegar í stað tilkynna hinum samningsaðilunum um það og hefja viðeigandi málsmeðferð skv. 2. mgr.20. gr.
Verndarráðstafanir á sviði landbúnaðar.

1.     Grípa ber til verndarráðstafana á sviði landbúnaðarvara, samkvæmt skilyrðunum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 19. gr.
2.     Ráðstöfun skal ekki vara lengur en eitt ár og getur hún falist í öðru hvoru af eftirfarandi:

a)    hækkun innflutningsgjalda á þeirri vöru sem um ræðir en ekki umfram þá tolla á vöruna sem bestukjarameðferð veitir og eru í gildi þann dag þegar ráðstöfunin er gerð, eða
b)    upptöku innflutningskvóta fyrir fríðindaviðskipti, sem grundvallast á viðskiptamagni næstu fimm ár á undan, að undanskildu því innflutningsflæði sem leiddi til þess að nauðsynlegt var að grípa til verndarráðstafana.
3.     Áður en samningsaðili grípur til verndarráðstöfunar skal hann senda hinum samningsaðilunum skriflega tilkynningu um þá ráðstöfun sem til stendur að gera. Samningsaðilinn, sem sendir frá sér tilkynningu, skal, innan 60 daga frá því að tilkynning er send út, leggja fram allar upplýsingar um verndarráðstöfunina sem máli skipta. Að fenginni beiðni skal sá samningsaðili hafa samráð við þann eða þá samningsaðila sem verða fyrir neikvæðum áhrifum um þau skilyrði sem ráðstöfununum verður beitt við.

21. gr.
Sérstakar ráðstafanir ef um skipulagsbreytingar er að ræða.

1.     Ef framleiðsluvara, sem er upprunnin í EFTA- ríki, er flutt inn á yfirráðasvæði SACU-ríkis í það auknu magni og við slík skilyrði að það veldur eða gæti valdið alvarlegri röskun á nýiðju eða atvinnugrein, sem verið er að endurskipuleggja, er SACU heimilt að grípa til sérstakra tímabundinna neyðarráðstafana í formi hækkaðra tolla eða með því að innleiða tolla á ný.
2.     Innflutningstollar SACU á vörur upprunnar í EFTA-ríkjunum, sem komið er á með þessum ráðstöfunum, mega ekki vera hærri en tollar sem bestukjarameðferð veitir og skulu viðhalda fríðindum að hluta fyrir vörur sem eru upprunnar í EFTA-ríkjunum. Heildarverðmæti allra innfluttra framleiðsluvara, sem þessar ráðstafanir ná til, skal ekki vera yfir 15% af heildarverðmæti innfluttra vara frá EFTA- ríkjunum á síðasta ári sem hagtölur ná yfir.

3.     Sérstakar ráðstafanir skulu ekki vara lengur en í fjögur ár. Þær skulu falla úr gildi eigi síðar en við lok lengsta aðlögunartímabils sem er níu ár. Í undantekningartilvikum er heimilt er að framlengja þessi tímamörk með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar.

4.     Óheimilt er að gera fyrrnefndar ráðstafanir vegna framleiðsluvara ef lengri tími en þrjú ár er liðinn frá því að allir tollar voru felldir niður svo og magntakmarkanir eða gjöld eða ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif á framleiðsluvöruna.
5.     SACU ber að tilkynna sameiginlegu nefndinni um allar sérstakar ráðstafanir sem það hyggst gera og, að beiðni EFTA-ríkjanna, hafa samráð um þær áður en til þess kemur til að finna megi ásættanlega lausn. Tilkynningin skal innihalda leiðbeinandi tímaáætlun um fyrirhugaða innleiðingu tolla og afnám þeirra síðar.

6.     Liggi ekki fyrir samkomulag um fyrirhugaðar ráðstafanir, sem um getur hér að framan, innan 30 daga frá tilkynningu er SACU heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á vandanum og afhenda sameiginlegu nefndinni endanlega tímaáætlun um afnám tollanna sem lagðir eru á samkvæmt þessari grein. Í áætluninni skal gera grein fyrir afnámi tollanna í jöfnum árlegum áföngum og skal fyrsti áfangi hefjast eigi síðar en einu ári eftir að þeim er komið á. Sameiginlega nefndin getur tekið ákvörðun um annars konar áætlun.

22. gr.
Erfiðleikar vegna greiðslujafnaðar.

1.     Ákvæði XII. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar takmarkandi ráðstafanir til að tryggja greiðslujöfnuð og eru þau hér með felld inn í samning þennan sem hluti af honum.
2.     Samningsaðili, sem grípur til aðgerða samkvæmt þessari grein, skal þegar í stað tilkynna hinum samningsaðilunum og sameiginlegu nefndinni um það.

23. gr.
Almennar undantekningar.

    Ákvæði XX. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar almennar undantekningar og eru þau hér með felld inn í samning þennan sem hluti af honum.

24. gr.
Undantekningar af öryggisástæðum.

    Ákvæði XXI. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna með tilliti til undantekninga af öryggisástæðum og eru þau hér með felld inn í samning þennan sem hluti af honum.

25. gr.
Sérstök meðferð fyrir Botsvana, Lesótó, Namibíu og Svasíland.

1.     Botsvana, Lesótó, Namibíu og Svasílandi er heimilt, í samræmi við 26. gr. SACU-samningsins frá 2002, að leggja á tímabundna innflutningstolla til að vernda nýiðju. Slíkir tollar skulu lagðir jafnt á vörur, upprunnar í öðrum SACU-ríkjum, og vörur upprunnar í löndum utan SACU.
2.     Botsvana, Lesótó, Namibíu og Svasílandi er heimilt að takmarka tímabundið innflutning eða útflutning á vörum, vegna byggðaþróunar í dreifbýli, matvælaöryggis og til að draga úr fátækt, á þann hátt að ekki fari í bága við WTO-samninginn. Þá ber og að grípa til fyrrnefndra ráðstafana gagnvart öllum öðrum löndum.
3.     Samningsaðili, sem hyggst gera ráðstafanir í samræmi við 1. og 2. mgr., skal tilkynna það sameiginlegu nefndinni og vera undir það búinn að ræða málið í sameiginlegu nefndinni fari annar samningsaðili fram á það.

III. KAFLI
HUGVERK

26. gr.
Hugverkaréttur.

1.     Til „hugverka“ teljast einkum höfundarréttur, þ.m.t. tölvuforrit og söfn gagna, og skyld réttindi, vörumerki sem auðkenna vöru og þjónustu, landfræðilegar merkingar, iðnhönnun, einkaleyfi, yrki, svæðislýsingar smárása svo og óbirtar upplýsingar.


2.     Samningsaðilarnir skulu gera ráðstafanir til að veita og tryggja fullnægjandi og áhrifaríka vernd hugverkaréttar án mismununar, þ.m.t. ráðstafanir til að vernda þessi réttindi gegn brotum, einkum eftirlíkingu og ólöglegri nýtingu, í samræmi við ákvæði þessarar greinar og skuldbindingar, samkvæmt alþjóðasamningum sem þeir eiga aðild að.

3.     Samningsaðilarnir skulu ekki veita ríkisborgurum hinna samningsaðilanna lakari meðferð en þeir veita eigin ríkisborgurum. Undanþágur frá þessari skyldu skulu veittar í samræmi við efnisákvæði 3. og 5. gr. WTO-samningsins um hugverkarétt í viðskiptum (hér á eftir nefndur „samningurinn um hugverkarétt í viðskiptum“).

4.     Samningsaðilarnir skulu ekki veita ríkisborgurum annarra samningsaðila lakari meðferð en veitt er ríkisborgurum annarra ríkja. Undanþágur frá þessari skuldbindingu skulu vera í samræmi við efnisákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, einkum 4. og 5. gr.
5.     EFTA-ríkin og SACU staðfesta þá skuldbindingu sína að endurskoða þennan kafla, eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessa samnings, í því skyni að samræma í áföngum lagaramma sína um hugverkarétt.

6.     Nauðsynlegt samráð skal fara fram, að beiðni samningsaðila og í því skyni að finna lausn sem málsaðilar geta sætt sig við, til þess að unnt sé að forðast eða ráða bót á röskun í viðskiptum sem rekja má til yfirstandandi verndunar hugverkaréttar.

IV. KAFLI
ÞJÓNUSTUSTARFSEMI, FJÁRFESTINGAR OG OPINBER INNKAUP

27. gr.
Þjónustustarfsemi.

1.     Um leið og samningsaðilarnir viðurkenna að þjónustustarfsemi hefur æ meiri þýðingu fyrir efnahagsþróun þeirra leggja þeir áherslu á mikilvægi þess að ákvæði Hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (hér á eftir nefndur „samningurinn um þjónustuviðskipti“) séu að öllu leyti virt.
2.     Samningsaðilarnir skulu leitast við að rýmka gildissvið þessa samnings með það í huga að auka enn frekar frelsi í þjónustuviðskiptum sín á milli. Sameiginlega nefndin skal semja nauðsynleg tilmæli til að ná þessu markmiði eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessa samnings. Sameiginlega nefndin skal taka mið af þeirri reynslu sem hefur verið aflað við framkvæmd skuldbindinga samningsaðilanna, samkvæmt samningnum um þjónustuviðskipti þegar hún undirbýr tilmælin.
3.     Ef samningsaðili gerir samning, sem er skilgreindur í V. gr. samningsins um þjónustuviðskipti, skal hann, að beiðni annarra samningsaðila, veita þeim nægilegt tækifæri til að reyna að ná, m.a. með hugsanlegum samningaviðræðum, sambærilegum skilmálum, hlutaðeigandi aðilum til hagsbóta.

28. gr.
Fjárfestingar.

1.     Samningsaðilarnir skulu gera sér far um að semja og viðhalda traustri og gagnsærri fjárfestingaáætlun og skulu ekki skaða umsýslu, viðhald, notkun, nýtingu eða ráðstöfun fjárfestinga fjárfesta hinna samningsaðilanna með óréttlátum aðgerðum eða aðgerðum sem fela í sér mismunun. Samningsaðilarnir skulu leyfa fjárfestingar fjárfesta hinna samningsaðilanna í samræmi við lög sín og reglur.
2.     Samningsaðilarnir viðurkenna mikilvægi þess að stuðla að flæði fjárfestinga og tækni yfir landamæri sem leiðar til aukins hagvaxtar og þróunar. Slík samvinna getur m.a. falist í:

a)    að leggja til viðeigandi leiðir til að finna fjárfestingartækifæri og miðla upplýsingum um fjárfestingarreglur,
b)    að láta í té upplýsingar um ráðstafanir samningsaðilanna til að ýta undir fjárfestingar erlendis (tækniaðstoð, fjárstuðning, fjárfestingartryggingar o.s.frv.),
c)    að þróa lagaumhverfi sem hvetur til aukins flæði fjárfestinga, og
d)    að þróa fyrirkomulag sameiginlegra fjárfestinga, einkum meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

3.     Samningsaðilarnir viðurkenna að óviðeigandi er að hvetja til fjárfestinga með því að draga úr kröfum um heilsufar og öryggi eða kröfum á sviði umhverfismála.
4.     Samningsaðilarnir staðfesta þá skuldbindingu sína að endurskoða málefni varðandi fjárfestingar í sameiginlegu nefndinni eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessa samnings. Ef samningsaðili skapar, eftir gildistöku þessa samnings, aðila, sem stendur utan þessa samnings, hagstæðara fjárfestingaumhverfi en gert er ráð fyrir samkvæmt þessum samningi skal hann veita hinum samningsaðilunum nægilegt tækifæri til þess að reyna að ná, m.a. með hugsanlegum samningaviðræðum, sambærilegum skilmálum sem eru öllum aðilum til hagsbóta.

29. gr.
Opinber innkaup.

1.     Samningsaðilarnir eru sammála um mikilvægi samstarfs til þess að auka gagnkvæman skilning á lögum og reglum hvers um sig er lúta að opinberum innkaupum.
2.     Samningsaðilarnir skulu birta lög sín eða veita almenningi aðgang með öðrum hætti að lögum sínum, reglum og almennum stjórnsýsluúrskurðum sem hafa almenna skírskotun. Samningsaðilarnir eru sammála um að mikilvægt sé að svara tilteknum spurningum um lög sín og reglur og skýra hver fyrir öðrum mál af því tagi, að fenginni beiðni þar um.
3.     Samningsaðilarnir skulu, eigi síðar en fimm árum eftir gildistöku þessa samnings, hafa með sér samráð innan sameiginlegu nefndarinnar til þess að fjalla um ráðstafanir sem gera skal í því skyni að opna markaði sína fyrir opinber innkaup með gagnkvæmum hætti. Ef samningsaðili veitir, eftir gildistöku þessa samnings, aðila sem stendur utan þessa samnings, hagstæðari skilmála að því er varðar aðgang að mörkuðum sínum fyrir opinber innkaup en kveðið er á um í þessum samningi, skal hann veita hinum samningsaðilunum nægilegt tækifæri til þess að reyna að ná, m.a. með hugsanlegum samningaviðræðum, sambærilegum skilmálum hlutaðeigandi aðilum til hagsbóta.

V. KAFLI
EFNAHAGSSAMVINNA OG TÆKNIAÐSTOÐ

30. gr.
Markmið og gildissvið.

1.     Samningsaðilarnir lýsa sig reiðubúna til þess að ýta undir efnahagssamvinnu með skilyrðum sem gagnkvæmt samkomulag er um og í samræmi við innlend stefnumið.
2.     EFTA-ríkin skulu láta SACU-ríkjunum í té tækniaðstoð í því skyni:
a)    að greiða fyrir því að heildarmarkmiðum þessa samnings verði náð, einkum til þess að glæða viðskipti og fjölga fjárfestingartækifærum sem hann veitir,
b)    að styðja viðleitni SACU-ríkjanna til þess að koma á sjálfbærri, efnahagslegri og félagslegri þróun.
3.     Með aðstoð EFTA-ríkjanna skal leggja áherslu á þær atvinnugreinar, sem aukið frelsi og endurskipulagning hagkerfa SACU-ríkjanna hafa áhrif á, og þær atvinnugreinar sem líklegt má telja að færi hagkerfi EFTA-ríkjanna og SACU-ríkjanna nær hvert öðru, einkum þær sem auka hagvöxt og bæta atvinnuástand.

31. gr.
Aðferðir og leiðir.

1.     Samningsaðilarnir skulu vinna saman í því skyni að finna og beita árangursríkustu aðferðum og leiðum sem völ er á til að hrinda ákvæðum þessa kafla í framkvæmd. Með þetta að markmiði skulu þeir samræma aðgerðir sínar og viðeigandi alþjóðastofnana.
2.     Taka skal mið af umhverfisvernd þegar aðstoð við hinar ýmsu atvinnugreinar, sem málið varðar, er hrundið í framkvæmd.
3.     Aðstoð getur m.a. falist í:
a)    upplýsingaskiptum, miðlun sérþekkingar og þjálfun,
b)    sameiginlegum aðgerðum, t.d. málþingum og málstofum, og
c)    aðstoð á sviði tækni og stjórnsýslu.

32. gr.
Svið samvinnu.

1.     Samningsaðilarnir skulu, í því skyni að greiða fyrir framkvæmd þessa samnings, samþykkja viðeigandi aðferðir við að veita tækniaðstoð og það form sem skal vera á samvinnu yfirvalda eins samningsaðila við yfirvöld annars. Samningsaðilarnir skulu, í þessu skyni, samræma aðgerðir sínar og aðgerðir viðkomandi alþjóðastofnana.
2.     Aðstoð getur náð til valinna sviða, sem samningsaðilarnir hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að geti aukið getu SACU-ríkjanna til að hagnast af auknum heimsviðskiptum og alþjóðlegum fjárfestingum, einkum má nefna:
a)    viðskiptastefnu og það að greiða fyrir viðskiptum og efla þau,
b)    tolla- og upprunamál,
c)    tæknireglugerðir, staðla- og samræmismat og ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigði dýra og plantna,
d)    staðbundna fyrirtækjaþróun, og
e)    aðstoð við reglusetningu og lagaframkvæmd á sviðum á borð við þjónustustarfsemi, fjárfestingar, hugverk og opinber innkaup.
3.     Tækniaðstoð á þeim sviðum sem um getur í c-lið 2. mgr. skal meðal annars veita til þess að auka afkastagetu, þróa grunnvirki, auka þátttöku í alþjóðlegri staðlasetningu og að bæta áhættumat.

4.     Ríkisstjórn Noregs skal, sem vörsluaðili skv. 44. gr., leita eftir samvinnu við SACU-skrifstofuna í því skyni að auka hæfni SACU-skrifstofunnar á öllum sviðum sem vörsluaðili sinnir.


VI. KAFLI
STOFNANAÁKVÆÐI OG MÁLSMEÐFERÐARÁKVÆÐI

33. gr.
Sameiginlega nefndin.

1.     Sameiginleg nefnd skal hafa umsjón með og annast framkvæmd þessa samnings. Hver samningsaðili skal eiga fulltrúa í sameiginlegu nefndinni. Fulltrúi EFTA-ríkis og fulltrúi SACU-ríkis skulu gegna formennsku sameiginlega í sameiginlegu nefndinni.

2.     Samningsaðilarnir skulu, til þess að framkvæmd þessa samnings verði eins og til er ætlast, skiptast á upplýsingum og, að beiðni samningsaðila, efna til samráðs innan sameiginlegu nefndarinnar um hvers kyns efni er lýtur að túlkun og beitingu þessa samnings. Sameiginlega nefndin getur kannað þann kost að fjarlægja frekar þær hindranir sem eru í vegi fyrir viðskiptum milli samningsaðilanna.
3.     Sameiginlegu nefndinni er heimilt að taka ákvarðanir í málum sem kveðið er á um í þessum samningi. Í öðrum málum er sameiginlegu nefndinni heimilt að leggja tillögur fyrir samningsaðilana.

34. gr.
Störf sameiginlegu nefndarinnar.

1.     Halda skal fyrsta fund sameiginlegu nefndarinnar eigi síðar en einu ári eftir gildistöku þessa samnings. Til að annast framkvæmd þessa samnings, eins og til er ætlast, skal sameiginlega nefndin koma saman eins oft og nauðsyn ber til, að beiðni samningsaðila, og eigi sjaldnar en annað hvert ár.
2.     Ákvarðanir sameiginlegu nefndarinnar skulu teknar með samhljóða samþykki.
3.     Hafi fulltrúi samningsaðila í sameiginlegu nefndinni samþykkt ákvörðun með fyrirvara um að stjórnskipulegum skilyrðum verði fullnægt skal ákvörðunin taka gildi þann dag þegar tilkynningu um að nauðsynlegum stjórnskipulegum skilyrðum hafi verið fullnægt er veitt viðtaka, ef ekki er kveðið á um síðari gildistökudag í ákvörðuninni.
4.     Samkvæmt þessum samningi setur sameiginlega nefndin sér starfsreglur er kveða m.a. á um fundarboðun, tilnefningu sameiginlegra formanna og skipunartíma þeirra.

5.     Sameiginlega nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa sem hún telur þörf á sér til aðstoðar við að inna skyldur sínar af hendi.

35. gr.
Samráð.

1.     Samningsaðilarnir skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi. Komi í ljós að túlkun og beiting þessa samnings sé með mismunandi hætti skulu samningsaðilarnir, á grundvelli samvinnu og samráðs, gera sitt ýtrasta til að finna lausn sem hlutaðeigandi aðilar geta sætt sig við.
2.     Samningsaðili getur, með skriflegum hætti, farið fram á samráð við annan samningsaðila um ráðstafanir sem hafa verið gerðar eða eru fyrirhugaðar eða önnur málefni sem hann telur að geti haft áhrif á rekstur þessa samnings. Samningsaðili, sem fer fram á samráð, skal jafnframt tilkynna hinum samningsaðilunum skriflega um það og veita allar viðeigandi upplýsingar.
3.     Samráð skal fara fram innan sameiginlegu nefndarinnar, ef einhver samningsaðilanna fer fram á það, innan 20 daga frá viðtöku tilkynningarinnar, sem um getur í 2. mgr., í því skyni að finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við.

36. gr.
Bráðabirgðaráðstafanir.

    Telji samningsaðili að annar samningsaðili hafi ekki uppfyllt skuldbindingu, samkvæmt þessum samningi, og hafi sameiginlega nefndin ekki fundið lausn, sem báðir aðilar geta sætt sig við, innan 90 daga frá því að tekið er á móti beiðni um samráð innan sameiginlegu nefndarinnar, er hlutaðeigandi samningsaðila heimilt að gera þær bráðabirgðaráðstafanir til endurskipulagningar sem teljast viðeigandi og alveg nauðsynlegar til að jafnvægi komist aftur á. Gera skal þær ráðstafanir helst sem valda sem minnstri röskun á framkvæmd samnings þessa. Tilkynna skal samningsaðilunum og sameiginlegu nefndinni þegar í stað um þær ráðstafanirnar sem gerðar hafa verið og skal nefndin halda reglulega samráðsfundi í því skyni að afnema þær. Ráðstöfunum skal hætt þegar aðstæður réttlæta þær ekki lengur eða, ef deilan er lögð í gerð, þegar úrskurður gerðardóms liggur fyrir og honum hefur verið framfylgt.

37. gr.
Gerðardómsmeðferð.

1.     Einum deiluaðila eða fleirum er heimilt, með skriflegri tilkynningu til þess samningsaðila sem kvörtun beinist gegn, að leggja deilur í gerð sem lúta að túlkun á réttindum og skyldum samningsaðilanna, samkvæmt þessum samningi, og ekki hefur tekist að leysa, skv. 35. gr., í beinum viðræðum eða innan sameiginlegu nefndarinnar innan 90 daga frá viðtökudegi skriflegrar beiðni um samráð. Senda ber öllum samningsaðilum afrit af tilkynningunni.


2.     Heimilt er að leysa deilur vegna máls, er varðar bæði þennan samning og WTO-samninginn, á vettvangi annars hvors þeirra að vali kæranda. Sá vettvangur sem þannig er valinn skal notaður eingöngu. Áður en samningsaðili hefur málsmeðferð til lausnar deilumáli samkvæmt WTO-samningnum gegn einum samningsaðila eða fleirum skal hann tilkynna öllum öðrum samningsaðilum um fyrirætlan sína.

3.     Gerðardómurinn skal skipaður þremur gerðarmönnum. Hver deiluaðili um sig skal tilnefna gerðarmann, innan 30 daga frá þeim degi þegar tilkynningu er veitt viðtaka, og skulu gerðarmennirnir tveir, innan 30 daga frá þeim degi þegar síðari tilnefningin fer fram, skipa þriðja gerðarmanninn sem skal sitja í forsæti gerðardómsins. Forseti gerðardómsins skal hvorki vera ríkisborgari deiluaðila né hafa fasta búsetu á yfirráðasvæði hvorugs þeirra. Ef fleiri en eitt EFTA-ríki eða fleiri en eitt SACU-ríki eiga aðild að deilunni skulu þeir aðilar tilnefna einn gerðarmann í sameiningu.
4.     Ef annar hvor deiluaðilinn tilnefnir ekki gerðarmann sinn eða komi tilnefndir gerðarmenn sér ekki saman um þriðja gerðarmanninn innan þess frests, sem er tilgreindur í 3. mgr., er hvorum deiluaðila um sig heimilt að fara þess á leit við forseta Alþjóðadómstólsins í Haag að hann annist þá skipun sem nauðsynleg er.
5.     Gerðardómurinn skal setja niður deiluna í samræmi við ákvæði þessa samnings og hefðbundnar reglur um túlkun þjóðaréttar.

6.     Valkvæðar reglur Alþjóðagerðardómsins í Haag um gerðardómsmeðferð deilna milli tveggja ríkja, sem öðluðust gildi 20. október 1992, gilda, nema annað sé tekið fram í þessum samningi eða deiluaðilar komi sér saman um annað.
7.     Samningsaðili, sem á ekki aðild að deilunni, skal, þegar deiluaðilar fá í hendur skriflega tilkynningu, eiga rétt á að fá skriflegar greinargerðir deiluaðila afhentar og vera viðstaddur þinghald sem áheyrnarfulltrúi.
8.     Ákvarðanir gerðardómsins skulu teknar með einföldum meirihluta atkvæða.
9.     Deiluaðilar skulu, að öllu jöfnu, skipta kostnaði vegna gerðardóms jafnt, þ.m.t. þóknunum til gerðarmanna. Gerðardómurinn getur engu að síður ákveðið að kostnaðarhluti annars deiluaðilans skuli vera hærri, m.a. með hliðsjón af fjárhagsstöðu hlutaðeigandi samningsaðila.


10.     Þessi grein gildir ekki um 15. gr. og III. og IV. kafla.

VII. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI

38. gr.
Þróunarákvæði.

1.     Samningsaðilar skuldbinda sig til að endurskoða þennan samning í ljósi frekari þróunar efnahagslegra samskipta á alþjóðavettvangi, m.a. á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, og kanna tækifæri til að þróa og styrkja enn frekar það samstarf sem þessi samningur kveður á um og fella undir hann málefni sem liggja utan við gildissvið hans. Samningsaðilarnir geta falið sameiginlegu nefndinni að kanna þennan kost og leggja tillögur fyrir þá, eftir því sem við á, einkum í því skyni að hefja samningsviðræður.
2.     Endurskoðun þessa samnings, viðbætur við hann og breytingar á honum, sem leiðir af málsmeðferðinni sem um getur í 1. gr., skulu vera í samræmi við ákvæði 40. gr.

39. gr.
Viðaukar.

    Viðaukarnir við samning þennan eru óaðskiljanlegur hluti hans. Sameiginlegu nefndinni er heimilt, með fyrirvara um stjórnskipuleg skilyrði hvers samningsaðila, að ákveða að breyta viðaukunum.

40. gr.
Breytingar.

1.     Sérhverjum samningsaðila er heimilt að gera tillögur um breytingar á þessum samningi til sameiginlegu nefndarinnar til umfjöllunar og samþykktar.
2.     Þegar sameiginlega nefndin hefur samþykkt breytingar á þessum samningi skulu þær lagðar fyrir samningsaðila til fullgildingar, staðfestingar eða samþykkis, samkvæmt stjórnskipulegum skilyrðum hvers samningsaðila.
3.     Breytingarnar öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu, nema samningsaðilarnir ákveði annað.
4.     Texta breytinga skal afhenda vörsluaðila til vörslu.
5.     Meðferðin við breytingar, sem um getur í þessari grein, gildir ekki um breytingu á viðaukunum sem um getur í 39. gr.

41. gr.
Aðild.

1.     Sérhvert ríki, sem verður aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu eða Tollabandalagi Suður-Afríkuríkja, getur gerst aðili að samningi þessum, með þeim kjörum og skilyrðum sem samningsaðilarnir koma sér saman um. Skjal um aðild skal afhenda vörsluaðila til vörslu.

2.     Að því er varðar inngönguríki skal samningurinn öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjal þess hefur verið afhent til vörslu eða þeir samningsaðilar sem fyrir eru hafa samþykkt aðildarskilmála, hvort sem síðar verður.

42. gr.
Uppsögn og samningsslit.

1.     Samningsaðili getur sagt upp samningi þessum með því að tilkynna vörsluaðila það skriflega. Uppsögnin tekur gildi sex mánuðum eftir að vörsluaðili veitir tilkynningunni viðtöku.

2.     Ef EFTA-ríki segir upp samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu fellur aðild þess að samningi þessum af þeim sökum niður sama dag og uppsögnin tekur gildi.

3.     Ef SACU-ríki segir upp SACU-samningnum fellur aðild þess að samningi þessum af þeim sökum niður sama dag og uppsögnin tekur gildi.

4.     Ef öll EFTA-ríkin draga aðild sína til baka eða ef SACU dregur aðild sína til baka í samræmi við 1. mgr. fellur samningur þessi úr gildi.

43. gr.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers samningsaðila. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila til vörslu.
2.     EFTA-ríki eða SACU-ríki er heimilt, ef stjórnskipuleg skilyrði þess heimila það, að beita samningi þessum til bráðabirgða. Vörsluaðila skal tilkynnt um bráðabirgðabeitingu samnings þessa samkvæmt þessari grein.
3.     Samningur þessi öðlast gildi 1. júlí 2006, að því tilskildu að allir samningsaðilar hafi afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu, eða tilkynnt honum um beitingu samningsins til bráðabirgða, að minnsta kosti einum mánuði fyrir fyrrnefnda dagsetningu.
4.     Ef samningur þessi öðlast ekki gildi 1. júlí 2006 skal hann öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir að síðasti samningsaðilinn hefur afhent skjal sitt til vörslu eða tilkynnt um beitingu til bráðabirgða.


44. gr.
Vörsluaðili.

1.     Ríkisstjórn Noregs skal vera vörsluaðili.

2.     Frumriti af samningi þessum skal komið í geymslu hjá SACU-skrifstofunni.
3.     SACU-skrifstofan skal samræma aðgerðir SACU-ríkjanna sem miða að því að fullnægja skilmálum 40. til 43. greinar.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.


Gert í tveimur frumritum á ensku, og skal annað þeirra afhent ríkisstjórn Noregs til vörslu en hitt geymt hjá SACU-skrifstofunni. Vörsluaðili skal senda öllum samningsaðilunum staðfest endurrit.


Gjört í
hinn                            2006
Fyrir hönd lýðveldisins Íslands
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtensteins
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Lýðveldisins Botsvana
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Konungsríkisins Lesótó
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Lýðveldisins Namibíu
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Lýðveldisins Suður-Afríku
    

Gjört í
hinn                             2006
Fyrir hönd Konungsríkisins Svasílands
    


FREE TRADE AGREEMENT
BETWEEN
THE EFTA STATES
AND
THE SACU STATES


PREAMBLE


The Republic of Iceland, the Principality of Liechtenstein, the Kingdom of Norway and the Swiss Confederation, Members of the European Free Trade Association (hereinafter referred to as “the EFTA States”),

and

the Republic of Botswana, the Kingdom of Lesotho, the Republic of Namibia, the Republic of South Africa and the Kingdom of Swaziland, together forming the Southern African Customs Union (hereinafter referred to jointly as “SACU” or severally as “the SACU States”),

hereinafter collectively referred to as “the Parties”,


CONSIDERING that the EFTA States and the SACU States wish to further strengthen their links and to establish close and lasting relations based on partnership and co-operation;

RECOGNISING the efforts by the governments of the SACU States to further economic and social development for their people and the willingness of the EFTA States to support this process;

RECALLING the importance attached by the Parties to the principles and rules which govern international trade and to the need to apply them in a transparent and non-discriminatory manner;

TAKING ACCOUNT of the Parties' rights and obligations in terms of their membership of the World Trade Organisation (hereinafter referred to as “the WTO”) and their contribution to the further strengthening of the multilateral trading system;

RECOGNISING the special needs and interests of the SACU States as developing or least-developed countries and that such needs and interests be taken care of by less than full reciprocity in reduction commitments as referred to in the Doha Development Agenda;


CONFIRMING the commitment of the Parties to promote regional co-operation and economic integration between the countries of Southern Africa and Europe and to encourage the liberalization of trade between the Parties;

BEARING IN MIND the Parties' commitment to ensure that their mutual arrangements do not impede the process of regional integration among the EFTA States on the one hand and the SACU States on the other;

DESIRING to create new employment opportunities and to improve working conditions and living standards in their respective territories while promoting sustainable development;

REAFFIRMING their commitment to the principles and objectives set out in the United Nations Charter and the Universal Declaration of Human Rights; and

CONVINCED that this Agreement will create conditions encouraging economic, trade and investment relations between the Parties;


HAVE AGREED, in pursuit of the above, to conclude the present Agreement (hereinafter referred to as “this Agreement”):

CHAPTER I
GENERAL PROVISIONS

ARTICLE 1
Objectives

1.     The Parties hereby establish a free trade area in accordance with the provisions of this Agreement, which is based on trade relations between market economies.
2.     The objectives of this Agreement are to:
(a)    achieve the liberalisation of trade in goods in conformity with the General Agreement on Tariffs and Trade (hereinafter referred to as “the GATT 1994”);
(b)    substantially increase investment opportunities in the free trade area;
(c)    promote adequate and effective protection of intellectual property rights;
(d)    establish a framework for the further develop ment of their trade and economic relations with a view to expanding and enhancing the benefits of this Agreement; and
(e)    contribute in this way to the harmonious development and expansion of world trade by the removal of barriers to trade.

ARTICLE 2
Trade and Economic Relations Governed by this Agreement

    The provisions of this Agreement apply to the trade and economic relations between, on the one side, the individual EFTA States and, on the other side, the individual SACU States or, where specifically provided for, the SACU States acting jointly as SACU. In relation to SACU, the meaning to be attributed to “Parties” or “Party” in each case is to be deduced from the relevant provisions of this Agreement and from the respective competencies of SACU and the SACU States as they follow from the SACU Agreement 2002, as amended from time to time. This Agreement applies neither to the trade relations amongst the EFTA States, nor to the trade relations amongst the SACU States.

ARTICLE 3
Geographical Scope

1.     Without prejudice to Annex V, this Agreement shall apply:
(a)    to the land territory, internal waters, and the territorial sea of a Party, and the air-space above the territory in accordance with international law; as well as
(b)    beyond the territorial sea, with respect to measures taken by a Party in the exercise of its sovereign rights or jurisdiction in accordance with international law.
2.     Annex I applies with respect to Norway.

ARTICLE 4
Relation to Other International Agreements

1.     The Parties confirm their rights and obligations under the Marrakesh Agreement Establishing the World Trade Organization and the other agreements negotiated thereunder (hereinafter referred to as “the WTO Agreement”) to which they are parties and any other international agreement applicable between them.
2.     No provision of this Agreement shall be interpreted as exempting the Parties from the obligations which are incumbent on them under other international agreements.

ARTICLE 5
Preferential Agreements with Third Countries

    This Agreement shall not preclude the maintenance, establishment or enlargement of customs unions, free trade areas, arrangements for frontier trade and other preferential agreements of the Parties to the extent that these do not interfere with the fulfillment of obligations under this Agreement. The Parties shall inform each other in the Joint Committee established in accordance with Article 33 (hereinafter referred to as “the Joint Committee”) about such agreements with third countries.

CHAPTER II
TRADE IN GOODS

ARTICLE 6
Scope

1.     This Chapter shall apply to:
(a)    products falling within Chapters 25 to 98 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (HS), except as provided for in Annex II;
(b)    products specified in Annex III, with due regard to the arrangements provided for in that Annex; and
(c)    fish and other marine products as provided for in Annex IV,
originating in an EFTA State or in SACU in accordance with the rules of origin set out in Annex V.

2.     SACU and each EFTA State have concluded agreements on trade in agricultural products on a bilateral basis. These agreements form part of the instruments establishing the free trade area between the EFTA States and SACU.

ARTICLE 7
Rules of Origin and Administrative Co-operation

1.     The provisions on rules of origin are set out in Annex V.
2.     The provisions on mutual administrative co-operation in customs matters are set out in Annex VI.

ARTICLE 8
Customs Duties

1.     No new customs duties shall be introduced in trade between the EFTA States and SACU, covered by paragraph 1 of Article 6, except as provided for in this Agreement.
2.     The EFTA States shall, on entry into force of this Agreement, abolish all customs duties on imports of originating products from SACU.
3.     SACU shall progressively reduce its customs duties on imports of originating products from the EFTA States as provided for in Annexes IV and VII.
4.     The Parties shall, on entry into force of this Agreement, eliminate all customs duties on exports to the other Parties, except as provided for in this Agreement.
5.     A customs duty includes any duty or charge of any kind imposed in connection with the importation or exportation of a product, including any form of surtax or surcharge, but does not include any charge imposed in conformity with Articles III, VIII and XI of the GATT 1994.

ARTICLE 9
Basic Duties

1.     For each product the basic duty, to which the successive reductions set out in Annexes IV and VII are to be applied, shall be the most-favoured- nation (hereinafter referred to as “MFN”) rate of duty applied on 1 July 2003.
2.     If before, by or after 1 July 2003 any tariff reduction is applied on an erga omnes basis, in particular reductions in accordance with commitments resulting from multilateral negotiations under the WTO, such reduced duties shall replace the basic duties referred to in paragraph 1 as from the date when such reductions are applied, or from the entry into force of this Agreement if this is later.
3.     The reduced duties calculated in accordance with Annexes IV and VII shall be applied rounded to the first decimal place or, in case of specific duties, to the second decimal place.
4.     Paragraph 1 shall not apply to the products that are under investigation by the International Trade Administration Commission of South Africa as at 1 July 2003, as listed in Annex VIII, and the products listed in Tables 1 and 2 of Annex VII, categorized as Lists 5 and 6.
5.     With the exception of the margin of preference categorized as “motors partial 1” and “motors partial 2” in paragraph 5 of Annex VII, paragraph 2 shall not apply to the products listed in Tables 1 and 2 of Annex VII, categorized as List 5 and 6.

ARTICLE 10
Import and Export Restrictions

    The rights and obligations of the Parties in respect of export and import restrictions shall be governed by Article XI of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.

ARTICLE 11
National Treatment

    Except as otherwise provided for in this Agreement, the Parties shall apply national treatment in accordance with Article III of the GATT 1994, including its interpretative notes, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.


ARTICLE 12
State Trading Enterprises

    The rights and obligations of the Parties in respect of state trading enterprises shall be governed by Article XVII of the GATT 1994 and the Understanding on the Interpretation of Article XVII of the GATT 1994, which are hereby incorporated into and made part of this Agreement.

ARTICLE 13
Technical Regulations, Standards and Conformity Assessment

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of technical regulations, standards and conformity assessment shall be governed by the WTO Agreement on Technical Barriers to Trade (hereinafter referred to as “the WTO TBT Agreement”) as well as the decisions and recommendations adopted by the WTO TBT Committee since 1 January 1995.


2.     The Parties shall strengthen their co-operation in the field of technical regulations, standards and conformity assessment with a view to increasing the mutual understanding of their systems and facilitating access to their respective markets. To this end, the Parties shall, upon request, exchange information and consider expeditiously any request for co- operation. Co-operation may consist of:
(a)    encouraging the application of the WTO TBT Agreement;
(b)    enhancing regulatory and standard setting practices;
(c)    promoting international harmonization of technical regulations;
(d)    reinforcing the role of international standards as a basis for technical regulations including conformity assessment procedures;
(e)    exchanging information on the variety of mechanisms to facilitate the acceptance of conformity assessment results;
(f)    promoting the accreditation of conformity assessment bodies on the basis of relevant Standards and Guides of the International Standards Organisation (ISO)/International Electrotechnical Commission (IEC); and
(g)    identifying and assessing possible instruments for trade facilitation, such as equivalence of technical regulations and mutual recognition of conformity assessment results.
3.     Without prejudice to the rights and obligations of the Parties under the WTO TBT Agreement, the Parties agree to hold consultations in the framework of the Joint Committee to address any matter that may arise from the application of specific technical regulations, standards and conformity assessment procedures if such application has created or is likely to create an obstacle to trade between the Parties, with a view to finding an appropriate solution in conformity with the WTO TBT Agreement.


ARTICLE 14
Sanitary and Phytosanitary Measures

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of sanitary and phytosanitary measures shall be governed by the WTO Agreement on the Application of Sanitary and Phytosanitary Measures (hereinafter referred to as “the WTO SPS Agreement”).

2.     The Parties shall strengthen their co-operation in sanitary and phytosanitary matters with a view to increasing the mutual understanding of their systems and improving access to their markets. Such co-operation may include expert consultations.

3.     If a Party considers that another Party has taken measures which are likely to affect, or have affected, access to its market, expert consultations shall be convened with a view to finding an appropriate solution in conformity with the WTO SPS Agreement. Such consultations can be held both within and outside the framework of the Joint Committee. The Parties shall exchange names and addresses of contact points with sanitary and phytosanitary expertise in order to facilitate communication and the exchange of information.

4.     Any agreement between the Parties shall be commensurate with the domestic legislation of the Parties and safeguard the SACU States' individual and collective sanitary and phytosanitary status.
5.     The Parties affirm their support of the standards set by the international bodies that the WTO SPS Agreement recognizes, taking into consideration that not all the SACU States are signatories to the International Plant Protection Convention.


ARTICLE 15
Competition

1.     The Parties recognise that certain business practices, such as anti-competitive agreements or concerted practices and abuses of dominant positions, may restrict trade between the Parties and thereby hinder the fulfilment of the objectives of this Agreement.
2.     A Party which considers that the operation of this Agreement is adversely affected by a practice referred to in paragraph 1 may request the Party or Parties in whose territory such practice originates to co-operate with a view to putting an end to the practice concerned or its adverse effects. Co-operation shall include, to the extent permitted by domestic law, the exchange of information that is available to the Parties in relation to the matter in question.

3.     In the event that co-operation between the Parties directly involved according to paragraph 2 does not lead to a solution, the affected Party may request consultations in the Joint Committee with a view to reaching a mutually satisfactory solution.


ARTICLE 16
Subsidies

1.     The rights and obligations of the Parties relating to subsidies and countervailing measures shall be governed by Articles VI and XVI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, except as provided for in paragraph 2.
2.     Before an EFTA State or SACU initiates an investigation to determine the existence, degree and effect of any alleged subsidy in a SACU State, or in an EFTA State, as provided for in Article 11 of the Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, the Party considering initiating an investigation shall notify in writing the Party whose goods are subject to investigation with a view to finding a mutually acceptable solution within 30 days. Consultations shall take place in the Joint Committee if a Party so requests within ten days from the date of receipt of the notification.


ARTICLE 17
Anti-Dumping

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of the application of anti-dumping measures shall be governed by Article VI of the GATT 1994 and the Agreement on Implementation of Article VI of the GATT 1994.
2.     After an EFTA State or SACU receives a properly documented application and before initiation of an investigation under the provisions of the Agreement referred to in paragraph 1, that Party shall notify in writing the Party whose goods are allegedly being dumped and invite such Party to consultations with a view to finding a mutually acceptable solution within 30 days. The outcome of the consultations shall be communicated to the other Parties. Consultations shall take place in the Joint Committee if a Party so requests within ten days from the date of receipt of the notification.

ARTICLE 18
Global Safeguard Measures

    The Parties confirm their rights and obligations under Article XIX of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Safeguards.

ARTICLE 19
Emergency Action on Imports of Particular Products

1.     Where, as a result of the reduction or elimination of a customs duty under this Agreement, any product originating in an EFTA State or in SACU is being imported into the territory of an EFTA State or SACU, in such increased quantities and under such conditions as to cause serious injury or threat therof to the domestic industry of like or directly competitive products in the territory of that Party, such Party may take emergency measures under the conditions and in accordance with the procedures laid down in this Article.
2.     An EFTA State or SACU intending to take emergency measures shall, as soon as possible and in any case before taking a measure, supply the Joint Committee with all relevant information, with a view to seeking a solution acceptable to all Parties concerned.
3.     Emergency measures shall not exceed what is necessary to remedy the difficulties which have arisen and should normally consist of the suspension of the further reduction of any applicable rate of duty provided for under this Agreement for the product concerned or the increase of the rate of duty for that product.
4.     Such measures shall contain clear elements progressively leading to their elimination at the end of the set period, at the latest. Measures shall not be taken for a period exceeding one year. In very exceptional circumstances, measures may be taken up to a total maximum period of three years.
5.     The Joint Committee shall, within 30 days from the date of notification, examine the information provided under paragraph 2 in order to facilitate a mutually acceptable resolution to the matter. In the absence of such resolution, the importing Party may adopt a measure pursuant to paragraph 1 to remedy the problem. The emergency measure shall be immediately notified to the Joint Committee. In the selection of the emergency measure, priority must be given to the measure that least disturbs the functioning of this Agreement.
6.     In critical circumstances where delay would cause damage which would be difficult to repair, the EFTA State concerned or SACU may take a provisional emergency measure pursuant to a preliminary determination that there is clear evidence that increased imports have caused, or are threatening to cause, serious injury. The Party intending to take such a measure shall immediately inform the other Parties and the Joint Committee thereof and set into motion the procedure according to paragraph 2. The provisional measure shall be terminated within six months, at the latest.

ARTICLE 20
Agricultural Safeguard Measures

1.     Safeguard measures on agricultural products shall be taken pursuant to the conditions laid down in paragraph 1 of Article 19.
2.     A measure shall not be taken for a period exceeding one year and may consist in either of the following:
(a)    an increase of the import duty on the product in question to a level not higher than the MFN applied rate of duty on the product in effect at the time the measure is taken; or
(b)    the introduction of a tariff quota for preferential trade, based on historical trade volumes for the five preceding years, excluding the import surge volumes that necessitated the introduction of the safeguard measure.
3.     Before taking a safeguard measure, a Party shall notify the other Parties in writing of the measure to be taken. Within 60 days after notification, the notifying Party shall provide all relevant information concerning the safeguard measure. On request, that Party shall consult with the affected Party or Parties with respect of the conditions of application of the measure.ARTICLE 21
Exceptional Measures in Case of Structural Adjustment

1.     Where any product originating in an EFTA State is being imported into the territory of a SACU State in such increased quantities and under such condi tions as to cause or threaten to cause serious disturbances to a particular infant industry or any sector undergoing restructuring, SACU may take exceptional measures of limited duration in the form of an increase or reintroduction of customs duties.
2.     Customs duties on imports applicable in SACU to products originating in the EFTA States introduced by these measures may not exceed the level of the applied MFN rates of duty and shall maintain an element of preference for products originating in the EFTA States. The total value of all imports of the products, which are subject to these measures, may not exceed 15 per cent of total imports from the EFTA States during the last year for which statistics are available.
3.     Exceptional measures shall be applied for a period not exceeding four years. They shall cease to apply at the latest on the expiry of the maximum transitional period of nine years. These time limits may exceptionally be extended by decision of the Joint Committee.
4.     No such measure can be introduced in respect of a product if more than three years have elapsed since the elimination of all duties and quantitative restrictions or charges or measures having an equivalent effect concerning that product.
5.     SACU shall notify the Joint Committee of the exceptional measures it intends to take and, at the request of an EFTA State, consultations shall be held on such measures before they are applied in order to reach a satisfactory solution. The notification shall include an indicative schedule for the introduction and subsequent elimination of the customs duties to be imposed.
6.     If no agreement on the proposed measures referred to above has been reached within 30 days of the notification, SACU may take appropriate measures to remedy the problem and shall provide the Joint Committee with the definite schedule for the elimination of the customs duties introduced under this Article. This schedule shall provide for a phasing out of these duties at equal annual rates starting at the latest one year after their introduction. The Joint Committee may decide on a different schedule.

ARTICLE 22
Balance of Payments Difficulties

1.     The rights and obligations of the Parties with regard to restrictions to safeguard the balance of payments shall be governed by Article XII of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.
2.     The Party introducing a measure under this Article shall promptly notify the other Parties and the Joint Committee of such measure.

ARTICLE 23
General Exceptions

    The rights and obligations of the Parties in respect of general exceptions shall be governed by Article XX of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.

ARTICLE 24
Security Exceptions

    The rights and obligations of the Parties in respect of security exceptions shall be governed by Article XXI of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.


ARTICLE 25
Special Treatment for Botswana, Lesotho, Namibia and Swaziland

1.     Botswana, Lesotho, Namibia and Swaziland may, in accordance with Article 26 of the SACU Agreement 2002, temporarily levy duties on imports to protect infant industries. Such duties shall be equally levied on goods originating in other SACU States and in countries outside SACU.
2.     Botswana, Lesotho, Namibia and Swaziland may temporarily restrict the importation or exportation of goods for purposes of rural development, food security and poverty alleviation in a manner not inconsistent with the WTO Agreement. Such measures shall also be taken in respect of all other countries.
3.     The Party intending to take a measure in accordance with paragraph 1 or 2 shall inform the Joint Committee, and shall be prepared, at the request of another Party, to discuss the matter in the Joint Committee.

CHAPTER III
INTELLECTUAL PROPERTY

ARTICLE 26
Intellectual Property Rights

1.     “Intellectual property” comprises in particular copyright, including computer programmes and compilations of data, as well as neighbouring rights, trademarks for goods and services, geographical indications, industrial designs, patents, plant varieties, topographies of integrated circuits, as well as undisclosed information.
2.     The Parties shall grant and ensure adequate, effective and non-discriminatory protection of intellectual property rights, and provide for measures for the enforcement of such rights against infringement thereof, counterfeiting and piracy, in accordance with the provisions of this Article and the obligations set out in the international agreements to which they are parties.
3.     The Parties shall accord to each others' nationals treatment no less favourable than that they accord to their own nationals. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provision of Articles 3 and 5 of the WTO Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights (hereinafter referred to as “the TRIPS Agreement”).
4.     The Parties shall grant to each other's nationals treatment no less favourable than that accorded to nationals of any other State. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of the TRIPS Agreement, in particular Articles 4 and 5 thereof.
5.     With the objective of progressively harmonizing their legal framework on intellectual property rights, the EFTA States and the SACU States affirm their commitment to review this Chapter not later than five years after the entry into force of this Agreement.
6.     In order to avoid or to remedy trade distortions caused by actual levels of protection of intellectual property rights, at the request of a Party, urgent consultations shall take place with a view to reaching a mutually satisfactory solution.

CHAPTER IV
SERVICES, INVESTMENT, PUBLIC PROCUREMENT

ARTICLE 27
Services

1.     In recognition of the growing importance of services for the development of their economies, the Parties underline the importance of strict observance of the General Agreement on Trade in Services (hereinafter referred to as “the GATS”).

2.     The Parties shall endeavour to extend the scope of this Agreement with a view to further liberalising trade in services between the Parties. The Joint Committee shall make the necessary recommendations for the implementation of this objective not later than five years after the entry into force of this Agreement. When formulating these recommendations, it shall take into account the experience gained by the implementation of the obligations of the Parties under the GATS.
3.     If a Party enters into an agreement defined in Article V of the GATS, it shall upon request from the other Parties afford adequate opportunity to them to seek to obtain, including through possible negotiations, comparable conditions, on a mutually beneficial basis.

ARTICLE 28
Investment

1.     The Parties shall endeavour to create and maintain a stable and transparent investment framework and shall not impair by unreasonable or discriminatory measures the management, maintenance, use, enjoyment or disposal of investments by investors of the other Parties. Parties shall admit investments by investors of the other Parties in accordance with their laws and regulations.
2.     The Parties recognise the importance of promoting cross-border investment and technology flows as a means for achieving economic growth and development. Co-operation in this respect may include:
(a)    appropriate means of identifying investment opportunities and information channels on investment regulations;
(b)    the provision of information on the Parties' measures to promote investment abroad (technical assistance, financial support, investment insurance, etc.);
(c)    the furthering of a legal environment conducive to increased investment flows; and
(d)    the development of mechanisms for joint investments, in particular with small and medium enterprises.
3.     The Parties recognise that it is inappropriate to encourage investment by relaxing health, safety or environmental standards.

4.     The Parties affirm their commitment to review issues related to investment in the Joint Committee no later than five years after the entry into force of this Agreement. If a Party grants to a non-Party, after the entry into force of this Agreement, a more favourable investment framework than under this Agreement, it shall afford adequate opportunity to the other Parties to seek to obtain, including through possible negotiations, comparable conditions, on a mutually beneficial basis.


ARTICLE 29
Government Procurement

1.     The Parties agree on the importance of co-operation to enhance the mutual understanding of their respective government procurement laws and regulations.
2.     The Parties shall publish their laws, or otherwise make publicly available their laws, regulations and administrative rulings of general application. The Parties agree that it is important to respond to specific questions on their laws and regulations and to provide, upon request, clarification to each other on such matters.
3.     The Parties shall, no later than five years after the entry into force of this Agreement, hold consultations in the Joint Committee to consider possible steps to be taken with a view to mutually liberalizing their procurement markets. If a Party grants to a non-Party, after the entry into force of this Agreement, better conditions than under this Agreement with regard to access to its procurement markets, it shall afford adequate opportunity to the other Parties to seek to obtain, including through possible negotiations, comparable conditions, on a reciprocal basis.CHAPTER V
ECONOMIC CO-OPERATION AND TECHNICAL ASSISTANCE

ARTICLE 30
Objectives and Scope

1.     The Parties declare their readiness to foster economic co-operation on mutually agreed terms and in accordance with their national policy objectives.

2.     The EFTA States shall provide technical assistance to the SACU States in order to:
(a)    facilitate the implementation of the overall objectives of this Agreement, in particular to enhance trading and investment opportunities arising from this Agreement;
(b)    support the SACU States' own efforts to achieve sustainable economic and social development.

3.     Assistance by the EFTA States shall focus on sectors affected by the process of liberalisation and restructuring of the economy of the SACU States as well as on sectors likely to bring the economies of the EFTA States and the SACU States closer together, particularly those generating growth and employment.

ARTICLE 31
Methods and Means

1.     The Parties shall co-operate with the objective of identifying and employing the most effective methods and means for the implementation of this Chapter. To this end, they shall co-ordinate efforts with relevant international organisations.

2.     Conservation of the environment shall be taken into account in the implementation of assistance in the various sectors to which it is relevant.
3.     Means of assistance may include:
(a)    exchange of information, transfer of expertise and training;
(b)    implementation of joint actions such as seminars and workshops; and
(c)    technical and administrative assistance.

ARTICLE 32
Fields of Co-operation

1.     In order to facilitate the implementation of this Agreement the Parties shall agree on appropriate modalities for technical assistance and co-operation between their respective authorities. To this end, they shall co-ordinate efforts with relevant international organisations.

2.     Assistance may cover targeted fields jointly identified by the Parties that may serve to enhance the SACU States' capacities to benefit from increased international trade and investment, including in particular:
(a)    trade policy, trade facilitation and trade promotion;
(b)    customs and origin matters;
(c)    technical regulations, standards and conformity assessment as well as sanitary and phytosanitary measures;
(d)    local enterprise development; and
(e)    regulatory assistance and implementation of laws in areas such as services, investment, intellectual property and public procurement.
3.     Technical assistance in the fields referred to in paragraph 2(c) shall be provided on such matters as capacity building, infrastructure development, enhanced participation in international standards setting activities and improvement of risk assessment.
4.     The Government of Norway, as the Depositary by virtue of Article 44, shall seek to co-operate with the SACU Secretariat in order to build capacity in the SACU Secretariat relating to all the functions of a depositary.

CHAPTER VI
INSTITUTIONAL AND PROCEDURAL PROVISIONS

ARTICLE 33
The Joint Committee

1.     The implementation of this Agreement shall be supervised and administered by a Joint Committee. Each Party shall be represented in the Joint Com mittee. The Joint Committee shall be jointly chaired by a representative of an EFTA State and a representative of a SACU State.
2.     For the purpose of the proper implementation of this Agreement, the Parties shall exchange information and, at the request of a Party, shall hold consultations within the Joint Committee on any matter concerning the interpretation or application of this Agreement. The Joint Committee may review the possibility of further removing obstacles to trade between the Parties.
3.     The Joint Committee may take decisions in the cases provided for in this Agreement. On other matters, the Joint Committee may make recommendations to the Parties.

ARTICLE 34
Procedures of the Joint Committee

1.     The first meeting of the Joint Committee shall be held not later than one year after the entry into force of this Agreement. For the proper implementation of this Agreement, the Joint Committee shall, upon request of a Party, thereafter meet whenever necessary, but at least once every two years.
2.     The Joint Committee shall act by consensus.

3.     If a representative of a Party in the Joint Committee has accepted a decision subject to the fulfillment of constitutional requirements, the decision shall enter into force, if no later date is contained therein, on the date of receipt of the notification of the fulfillment of the necessary constitutional requirements.
4.     For the purpose of this Agreement, the Joint Committee shall adopt its rules of procedure which shall, inter alia, contain provisions for convening meetings and for the designation of the Joint Chairpersons and their term of office.
5.     The Joint Committee may decide to set up such sub-committees and working parties as it considers necessary to assist it in accomplishing its tasks.

ARTICLE 35
Consultations

1.     The Parties shall take all necessary measures to ensure the fulfillment of their obligations under this Agreement. Should any divergence with respect to the interpretation and application of this Agreement arise, the Parties shall make every attempt through co-operation and consultations to arrive at a mutually satisfactory resolution.
2.     A Party may request in writing consultations with another Party regarding any actual or proposed measure or any other matter that it considers might affect the operation of this Agreement. The Party requesting consultations shall at the same time notify the other Parties in writing thereof and supply all relevant information.

3.     The consultations shall take place in the Joint Committee, if a Party so requests, within 20 days from the receipt of the notification referred to in paragraph 2, with a view to finding a mutually satisfactory solution.

ARTICLE 36
Provisional Measures

    If a Party considers that another Party has failed to fulfil an obligation under this Agreement and the Joint Committee has failed to arrive at a mutually satisfactory solution within 90 days from the date of receipt of the request for consultations in the Joint Committee, the Party concerned may take such provisional rebalancing measures as are appropriate and strictly necessary to remedy the imbalance. Priority shall be given to such measures that will least disturb the functioning of this Agreement. The measures taken shall be notified immediately to the other Parties and to the Joint Committee, which shall hold regular consultations with a view to their abolition. The measures shall be abolished when conditions no longer justify their maintenance, or, if the dispute is submitted to arbitration, when an arbitral award has been rendered and complied with.


ARTICLE 37
Arbitration

1.     Disputes between Parties, relating to the interpretation of rights and obligations of the Parties under this Agreement, which have not been settled, pursuant to Article 35, through direct consultations or in the Joint Committee within 90 days from the date of the receipt of the written request for consultations, may be referred to arbitration by one or more parties to the dispute by means of a written notification addressed to the Party complained against. A copy of this notification shall be communicated to all Parties.
2.     Disputes on the same matter arising under both this Agreement and the WTO Agreement may be settled in either forum at the discretion of the complaining Party. The forum thus selected shall be used to the exclusion of the other. Before a Party initiates dispute settlement proceedings under the WTO Agreement against another Party or Parties, that Party shall notify all other Parties of its intention to do so.
3.     The arbitral tribunal shall comprise three members. Each party to the dispute shall, within 30 days from the date of receipt of notification, nominate an arbitrator and the two arbitrators shall, within 30 days from the date of the last nomination, appoint a third arbitrator who will be the Chairperson of the arbitral tribunal. The Chairperson shall not be a national of either party to the dispute, nor permanently reside in the territory of either party to the dispute. If more than one EFTA State or more than one SACU State are parties to a dispute, these parties shall jointly nominate one arbitrator.
4.     In case either party to the dispute fails to nominate its arbitrator or the nominated arbitrators fail to agree on a third member within the period specified in paragraph 3, each party to the dispute may request the President of the International Court of Justice to make the necessary appointment.

5.     The arbitral tribunal shall settle the dispute in accordance with the provisions of this Agreement and the customary rules of interpretation of public international law.
6.     Unless otherwise specified in this Agreement or agreed between the parties to the dispute, the Optional Rules for Arbitrating Disputes between Two States of the Permanent Court of Arbitration, effective 20 October 1992, shall apply.
7.     A Party that is not a party to the dispute, on delivery of a written notice to the disputing parties, shall be entitled to receive written submissions of the disputing parties and attend all hearings as observer.
8.     The arbitral tribunal shall take its decisions by majority vote.
9.     The expenses of the arbitral tribunal, including the remuneration of its members, shall normally be borne by the parties to the dispute in equal shares. The arbitral tribunal may, however, at its discretion decide that a higher proportion of the expenses be paid by one of the parties to the dispute, taking into account, inter alia, the financial situations of the Parties involved.
10.     This Article shall not apply to Article 15 and Chapters III and IV.

CHAPTER VII
FINAL PROVISIONS

ARTICLE 38
Evolutionary Clause

1.     The Parties undertake to review this Agreement in light of further developments in international economic relations, inter alia in the framework of the WTO, and to examine the possibility of further developing and deepening the co-operation under this Agreement and to extend it to areas not covered therein. The Parties may instruct the Joint Commit tee to examine this possibility and, where appropriate, to make recommendations to them, particularly with a view to opening up negotiations.
2.     Revisions, additions or amendments to this Agreement resulting from the procedure referred to in paragraph 1 shall be done in accordance with the provisions of Article 40.

ARTICLE 39
Annexes

    The Annexes to this Agreement are an integral part of it. The Joint Committee may, subject to the respective constitutional requirements of the Parties, decide to amend the Annexes.

ARTICLE 40
Amendments

1.     Any Party may submit proposals for amendments to this Agreement to the Joint Committee for consideration and approval.
2.     Amendments to this Agreement shall, after approval by the Joint Committee, be submitted to the Parties for ratification, acceptance or approval in accordance with their respective constitutional requirements.
3.     Unless otherwise agreed by the Parties, amendments shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of the last instrument of ratification, acceptance or approval.
4.     The text of the amendments shall be deposited with the Depositary.
5.     The amendment procedure provided for in this Article shall not apply to the amendment of Annexes referred to in Article 39.

ARTICLE 41
Accession

1.     Any State, becoming a Member of the European Free Trade Association, or any State, becoming a Member of the Southern African Customs Union, may accede to this Agreement, on terms and conditions to be agreed upon by the Parties. The instrument of accession shall be deposited with the Depositary.
2.     In relation to an acceding State, this Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument of accession, or the approval of the terms of accession by the existing Parties, whichever is later.

ARTICLE 42
Withdrawal and Termination

1.     A Party may withdraw from this Agreement by means of a written notification to the Depositary. The withdrawal shall take effect six months after the date on which the notification is received by the Depositary.
2.     Any EFTA State which withdraws from the Convention Establishing the European Free Trade Association shall ipso facto on the same day as the withdrawal takes effect cease to be a Party to this Agreement.
3.     Any SACU State which withdraws from the SACU Agreement shall ipso facto on the same day as the withdrawal takes effect cease to be a Party to this Agreement.
4.     If all the EFTA States withdraw or if SACU withdraws in accordance with paragraph 1, this Agreement shall be terminated.

ARTICLE 43
Entry into Force

1.     This Agreement is subject to ratification, acceptance or approval in accordance with the respective constitutional requirements of the Parties. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.
2.     If its constitutional requirements permit, any EFTA State or SACU State may apply this Agreement provisionally. Provisional application of this Agreement under this paragraph shall be notified to the Depositary.
3.     This Agreement shall enter into force on 1 July 2006, provided all the Parties have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval with, or notified provisional application to, the Depositary at least one month before this date.

4.     In case this Agreement does not enter into force on 1 July 2006 it shall enter into force on the first day of the second month following the date on which the last Party has deposited its instrument or notified provisional application.

ARTICLE 44
Depositary

1.     The Government of Norway shall act as Depositary.
2.     An original copy of this Agreement shall be lodged with the SACU Secretariat.
3.     The SACU Secretariat shall co-ordinate the actions of the SACU States in fulfilment of the terms of Articles 40 to 43.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done in two originals in the English language, one of which shall be deposited with the Government of Norway and the other shall be lodged with the SACU Secretariat. The Depositary shall transmit certified copies to all the Parties.

Done at
This                     day of     2006
For the Republic of Iceland
    

Done at
This                     day of     2006
For the Principality of Liechtenstein
    

Done at
This                     day of     2006
For the Kingdom of Norway
    

Done at
This                     day of     2006
For the Swiss Confederation
    

Done at
This                     day of     2006
For the Republic of Botswana
    

Done at
This                     day of     2006
For the Kingdom of Lesotho
    

Done at
This                     day of     2006
For the Republic of Namibia
    

Done at
This                     day of     2006
For the Republic of South Africa
    

Done at
This                     day of     2006
For the Kingdom of Swaziland