Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 358. máls.

Þskj. 389  —  358. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    22. tölul. 10. gr. laganna orðast svo: Leyfi til arkitekta (húsameistara), byggingafræðinga, grafískra hönnuða, húsgagna- og innanhússarkitekta (húsgagna- og innanhússhönnuða), iðnfræðinga, landslagsarkitekta (landslagshönnuða), raffræðinga, skipulagsfræðinga, tæknifræðinga, tölvunarfræðinga og verkfræðinga.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lögum nr. 84/2006 var gerð breyting á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, sem m.a. fól í sér að grafískum hönnuðum var bætt við í upptalningu starfsheita í 1. gr. laganna. Gjald hefur verið tekið fyrir leyfi til þeirra sérfræðinga sem þar eru tilgreindir á grundvelli 22. tölul. 10. gr. aukatekjulaganna. Samræmis vegna er hér því lagt til að 22. tölul. 10. gr. verði breytt þannig að unnt sé að taka gjald fyrir leyfi til grafískra hönnuða.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/1991,
um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir löggildingu starfsheitis grafískra hönnuða á sama hátt og gert er vegna starfsheita sérfræðinga í skyldum tækni- og hönnunargreinum. Lögfesting slíkrar gjaldtöku hefur óveruleg áhrif á bæði tekjur og gjöld ríkissjóðs.