Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 364. máls.

Þskj. 396  —  364. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 42/1983,
um Landsvirkjun, með síðari breytingum.



(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og Eignarhluta ehf.
     b.      4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Á ríkissjóður 99,9% eignarhluta í fyrirtækinu og Eignarhlutir ehf. 0,1%.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Hvor eigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum.

2. gr.

    3. gr. laganna fellur brott og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist: eða með sérlögum eða samningum.
     b.      2. mgr. fellur brott.


4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. mgr. fellur brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Landsvirkjun greiðir arð af framlögum eigenda.
     c.      3. mgr. fellur brott.

5. gr.

    6. gr. laganna fellur brott og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það.

6. gr.

    7. gr. laganna fellur brott og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það.

7. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra skipar stjórn Landsvirkjunar á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn skal fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara.
    Stjórnarmenn, aðal- og varamenn, skulu vera lögráða, bú þeirra skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta, þeir skulu hafa óflekkað mannorð og skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni Landsvirkjunar. Þeir mega ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf, taka við greiðslu eða hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum orkufyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum orkustarfsemi sem leitt geta til árekstra við hagsmuni Landsvirkjunar.

8. gr.

    Í stað orðsins „reglugerð“ í lokamálsgrein 9. gr. laganna kemur: starfsreglur stjórnar Landsvirkjunar.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „ársfund“ í 1. málsl. og orðsins „ársfundi“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: aðalfund; og: aðalfundi.
     b.      Orðin „til eigenda Landsvirkjunar“ í 3. tölul. 1. mgr. falla brott.
     c.      2. mgr. orðast svo:
                  Rétt til setu á aðalfundi eiga eigendur fyrirtækisins, stjórn og forstjóri Landsvirkjunar og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins.
     d.      3. mgr. orðast svo:
                  Stjórn Landsvirkjunar er heimilt að boða til aukafunda um málefni fyrirtækisins þegar þörf þykir.

10. gr.

    11. gr. laganna fellur brott og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það.

11. gr.

    Eftirfarandi beytingar verða á 3. mgr. 12. gr. laganna.
     a.      Í stað orðsins „Ársfundur“ kemur: Aðalfundur.
     b.      Orðin „borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar“ falla brott.

12. gr.

    13. gr. laganna fellur brott og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „eignaraðila“ í lok 2. málsl. 1. mgr. kemur: fjármálaráðherra.
     b.      2. mgr. fellur brott.

14. gr.

    15.–20. gr. laganna falla brott.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Á aukafundi Landsvirkjunar, sem halda skal í desember 2006, skal fyrirtækinu frá 1. janúar 2007 kosin ný stjórn og varastjórn. Frá sama tíma skal umboð núverandi stjórnarmanna og varastjórnarmanna Landsvirkjunar falla úr gildi.

II.

    Reykjavíkurborg og Akureyrarbær bera einfalda ábyrgð með ríkissjóði á öllum skuldbindingum Landsvirkjunar sem stofnað er til fyrir árslok 2006. Skal sú ábyrgð sveitarfélaganna tveggja á skuldbindingum Landsvirkjunar haldast þar til skuldbindingarnar hafa að fullu verið efndar, en íslenska ríkið mun eftir 1. janúar 2012 tryggja Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ skaðleysi ábyrgðar á þeim skuldbindingum Landsvirkjunar sem á þau kunna að falla eftir þann tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í iðnaðarráðuneytinu að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið. Efni frumvarpsins er tvíþætt. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, í kjölfar þess að ríkissjóður hefur keypt hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Þá er lagt til að fyrirsvar vegna eignarhalds ríkisins í Landsvirkjun færist frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra. Í tengslum við það er samhliða þessu frumvarpi lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði þar sem m.a. eru lagðar til samhljóða breytingar á lögum nr. 10/2001, um stofnun hlutafélags um Hitaveitu Suðurnesja, lögum nr. 40/2001, um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða, og lögum nr. 25/2006, um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

2. Meginefni frumvarpsins.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að gera breytingar á lögum um Landsvirkjun til samræmis við þá breytingu sem orðið hefur á eignarhaldi Landsvirkjunar með kaupum íslenska ríkisins á hlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í fyrirtækinu. Lagt er til að að allar tilvísanir til sveitarfélaganna tveggja verði felldar brott. Í stað þeirra er lagt til að Eignarhlutir ehf. verði sameigandi ríkisins í Landsvirkjun með 0,1% hlut. Með þessu er sameignarfélaginu Landsvirkjun viðhaldið og ekki þarf því að gera umfangsmiklar breytingar á rekstrarformi Landsvirkjunar.
    Að öðru leyti eru eftirfarandi breytingar lagðar til á lögunum um Landsvirkjun:
          Felld eru brott ákvæði um að mál er varða framkvæmd laganna og aðild ríkisins að Landsvirkjun falli undir iðnaðarráðherra.
          Felld er niður upptalning á virkjunum sem Landsvirkjun á og rekur.
          Fækkað er í stjórn Landsvirkjunar úr sjö mönnum í fimm.
          Felld eru niður ákvæði um sérstakan samráðsfund Landsvirkjunar.
          Felld eru niður ákvæði sem heimila sveitarfélögum að gerast eignaraðilar að Landsvirkjun.
          Fjármálaráðherra skipar alla stjórnarmenn, aðal- og varamenn, á aðalfundi félagsins. Þá þarf aðeins að leita samþykkis fjármálaráðherra þegar nýjar skuldbindingar eða ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól ári hverju í stað eignaraðila eins og nú er.

3. Kaup ríkissjóðs á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.
    Í febrúar 2005 undirrituðu iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri viljayfirlýsingu um að íslenska ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Þetta var gert í ljósi nýrra raforkulaga sem fela í sér samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Eðlilegt þótti að Reykjavíkurborg og Akureyrarbær, sem eigendur annarra orkufyrirtækja, losuðu um eignarhluta sína í Landsvirkjun. Í yfirlýsingunni kom fram að greiðslur fyrir eignarhlutana yrðu inntar af hendi á löngum tíma og rynnu beint til að mæta lífeyrisskuldbindingum sveitarfélaganna hvors um sig. Gert var ráð fyrir að samningur um þetta lægi fyrir eigi síðar en 30. september 2005 og að þessar breytingar á eignarhaldi Landsvirkjunar ættu sér stað 1. janúar 2006. Þá kom fram að ríkið ráðgerði að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða hf. eftir að hafa leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Með því sameinaði ríkið eigur sínar á raforkumarkaði í eitt fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og sölu raforku. Undirbúningur að sameiningunni hófst strax en stefnt var að því að honum lyki eigi síðar en 30. september 2005 og að sameiningin tæki gildi 1. janúar 2006.
    Til að vinna að þessu var skipuð fjögurra manna samninganefnd, skipuð einum fulltrúa frá hverjum aðila. Ekki náðist samkomulag um kaupin fyrir 30. september 2005 eins og að var stefnt og í byrjun árs 2006 urðu aðilar sammála um að ekki væru forsendur fyrir frekari viðræðum að svo stöddu. Um mitt ár 2006 voru viðræður síðan teknar upp að nýju. Í lok október sl. náðist loks samkomulag milli aðila um kaup ríkisins á eignarhlutum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Var samningur þessa efnis undirritaður miðvikudaginn 1. nóvember sl. og er hann fylgiskjal með frumvarpinu (fylgiskjal I). Eignarhluti Reykjavíkurborgar er 44,525% og eignarhluti Akureyrarbæjar 5,475%. Samningurinn öðlast gildi 1. janúar nk., en var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis, borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar.
    Kaupverð eignarhlutanna nemur samtals 30,25 milljörðum kr. og skiptist þannig að Reykjavíkurborg fær um 26,9 milljarða kr. en Akureyrarbær fær um 3,3 milljarða kr. Samkvæmt samningnum greiðir ríkissjóður 1. janúar 2007 Reykjavíkurborg 3 milljarða kr. og Akureyrarbæ tæplega 370 millj. kr. Fyrir eftirstöðvum kaupverðs gefur ríkissjóður út skuldabréf til 28 ára og eru bréfin verðtryggð og bera breytilega vexti. Greiðslur af bréfunum fara annars vegar til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og hins vegar til Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar til að mæta lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna sveitarfélaganna.
    Í samningnum er kveðið á um að selji ríkissjóður eignarhlut sinn fyrir 1. janúar 2012, hvort heldur að hluta eða öllu leyti, þó að lágmarki 15%, skuli kaupverð á þeim eignarhluta sem seldur er taka leiðréttingum til hækkunar eða lækkunar, að teknu tilliti til nánar tilgreindra forsendna. Ákvæðið á einungis við selji kaupandi eignarhlut sinn beinni sölu til þriðja aðila. Eftir 1. janúar 2012 eiga hvorki kaupandi né seljendur kröfur á hendur hinum um leiðréttingu á kaupverði. Frá sama tíma falla niður ábyrgðir Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar á þeim skuldbindingum Landsvirkjunar sem stofnað hafði verið til fyrir 1. janúar 2007.

4. Eignarhald.
    Eignarhald Landsvirkjunar hefur á undanförnum árum verið til skoðunar. Árið 1996 lögðu sameigendur ríkisins í Landsvirkjun til við iðnaðarráðherra að eignaraðilar að Landsvirkjun tækju upp viðræður um endurskoðun á eignarhaldi, rekstrarformi og hlutverki fyrirtækisins. Skipaði iðnaðarráðherra að tillögu sameignaraðila ríkisins að Landsvirkjun sérstaka viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun til þess að ræða eignarhald, rekstrarform og hlutverk fyrirtækisins. Viðræðunefndin ákvað að fá bandarísku fjármálastofnunina JP Morgan til að vera eignaraðilum til ráðgjafar um mat á áhrifum mismunandi rekstrarforms á stöðu Landsvirkjunar á alþjóðlegum mörkuðum og varðandi mat á verðmæti eignarhluta í fyrirtækinu.
    Viðræðunefndin skilaði tillögum sínum í lok árs 1996 og á grundvelli þeirra voru gerðar ýmsar breytingar á lögum og sameignarsamningi um Landsvirkjun, m.a. varðandi arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið auk þess sem ýmis stjórnunarleg atriði voru endurskoðuð. Nefndin fór ásamt ráðgjafa sínum, JP Morgan, yfir kosti þess og galla að minnka eða afnema eigendaábyrgð Landsvirkjunar. Niðurstaðan var sú að gera ekki breytingar á rekstrarforminu en ákveðið var að fyrir 1. janúar 2004 skyldi fara fram endurskoðun á sameignarsamningi um Landsvirkjun.
    Í júlí 2000 var, að beiðni borgarstjórans í Reykjavík, skipuð ný viðræðunefnd eignaraðila að Landsvirkjun um endurskoðun á sameignarsamningi fyrirtækisins. Í skipunarbréfi nefndarinnar var vísað til samnings frá 1996 um að fyrir 1. janúar 2004 skyldi fara fram endurskoðun á sameignarsamningi, þ.m.t. á því hvort ástæða væri til að endurskoða rekstrarform fyrirtæksins. Nefndin skilaði ekki niðurstöðum.
    Í byrjun árs 2004 varð að samkomulagi á milli eigenda Landsvirkjunar að skipa nýja eigendanefnd. Nefndinni var falið að skoða fjárhagsstöðu og fjármögnun Landsvirkjunar, stöðu fyrirtækisins í breyttu umhverfi raforkumála og gera tillögur um breytingar á sameignarsamningi um fyrirtækið, m.a. um arðsemismarkmið með hliðsjón af nýjum raforkulögum. Nefndin vann að tillögum fyrir eigendur Landsvirkjunar og lagði fyrir eigendur fyrirtækisins hugmyndir um að ríkið eignaðist Landsvirkjun að fullu. Nefndin skilaði starfi sínu til þeirrar samninganefndar sem skipuð var í kjölfar þess að eigendur Landsvirkjunar skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að íslenska ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Um starf þeirrar nefndar vísast til umfjöllunar hér að framan um kaup ríkissjóðs á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun.
    Eftir kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun er íslenska ríkið orðið 100% eigandi að fyrirtækinu. Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki og getur því ríkið ekki átt það eitt ef viðhalda á því rekstrarformi. Því þarf annar aðili að koma að félaginu sem sameigandi ríkisins í Landsvirkjun. Stofnað hefur verið eignarhaldsfélag, Eignarhlutir ehf., í fullri eigu ríkisins, sem unnt er að nota í þessu efni. Með eign slíks félags að litlum hlut, 0,1%, í Landsvirkjun, má vera ljóst að einungis er verið að fullnægja kröfum um tvo sameigendur að lágmarki í sameignarfélagi. Ríkið er eftir sem áður eigandi Landsvirkjunar að fullu, beint og óbeint, og ekki til þess ætlast að eignarhaldsfélagið hafi bein áhrif á starfsemi Landsvirkjunar í krafti síns eignarhluta. Þá er gert ráð fyrir því að gildandi sameignarfélagssamningur á milli ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar falli niður en í stað hans samþykktur nýr sameignarfélagssamningur á milli nýrra sameigenda. Fylgir hann frumvarpi þessu sem fylgiskjal II. Loks er minnt á að fyrir Alþingi er nú til meðferðar frumvarp til laga um sameignarfélög en heildarlöggjöf um það félagsform er ekki til hér á landi.
    Í frumvarpinu er ekki kveðið sérstaklega á um að óheimilt sé að selja hlut ríkisins í félaginu. Hins vegar er lagt til að kveðið verði á um að Landsvirkjun sé sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og Eignarhluta ehf. í tilteknum lögbundnum eignarhlutföllum. Því verður ekki breytt nema með lögum. Þá er og í 2. tölul. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, m.a. kveðið á um að ríkisaðilar í A-hluta skuli hverju sinni afla heimilda í lögum til að selja eignarhluta í félögum. Ekki er því þörf á að kveða sérstaklega á um að óska þurfi samþykkis Alþingis fyrir sölu á eignarhlutum í fyrirtækinu.

5. Fyrirsvar vegna eignarhalds.
    Samkvæmt 19. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, falla mál er varða framkvæmd laganna og aðild ríkisins að Landsvirkjun undir ráðherra þann er fer með orkumál. Er það frávik frá þeirri skipan sem almennt var komið á meðferð slíkra eigna með 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu um staðfestingu hennar nr. 3/2004, en þar segir að fjármálaráðuneytið fari með mál er varða „eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar þeirra vegna, meðal annars að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis“. Með hliðsjón af þessu hefur verið ákveðið að fjármálaráðherra skuli taka við eigandahlutverki ríkisins í stað iðnaðarráðherra svo sem verið hefur, enda getur í ljósi þeirrar starfsemi, sem fyrirtækið sinnir, verið óheppilegt að handhöfn þess sé hjá sama ráðherra og fer með almenna stjórnsýslu á sviði auðlinda- og orkumála, sbr. 3. og 4. tölul. 8. gr. sömu reglugerðar um stjórnarráðið.
    Í samræmi við framangreinda ákvörðun er með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum nr. 42/1983, en af áðurnefndum 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands og 8. gr. samnefndra laga nr. 73/1969 leiðir að meðferð eignar ríkisins í fyrirtækinu færist við gildistöku laganna til fjármálaráðherra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um að í stað Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar komi Eignarhlutir ehf. sem sameigandi ríkisins í Landsvirkjun með 0,1% hlut. Hvað varðar nánari umfjöllun um þetta vísast til almennra athugasemda með frumvarpinu. Í c-lið er tekið fram að hvor eigenda sé í einfaldri ábyrgð fyrir skuldbindingum með sama hætti og í gildandi lögum.

Um 2.–4. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að 6. gr. laganna falli brott en í henni er að finna upptalningu á þeim raforkuverum sem Landsvirkjun rekur. Um virkjunarleyfi er nú fjallað í raforkulögum, nr. 65/2003.
    Í 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um að Landsvirkjun sé heimilt, að fengu samþykki iðnaðarráðherra, að gera ráðstafanir til að tryggja rekstur orkuvera á Þjórsársvæðinu, m.a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga. Að uppfylltum ákvæðum annarra laga hefur ráðherra heimild til að veita leyfi fyrir slíkum framkvæmdum og því ekki þörf á að kveða sérstaklega á um þetta í lögum um Landsvirkjun.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að í stað gildandi 8. gr. laga um stjórn Landsvirkjunar komi ný grein sem felur í sér nokkrar breytingar á skipan stjórnar. Lagt er til að kveðið verði á um að fjármálaráðherra skipi alla aðal- og varamenn í stjórn Landsvirkjunar. Þá er lagt til að stjórnarmönnum verði fækkað úr sjö í fimm.
    Hvað varðar 2. mgr. greinarinnar er í raun um hæfisreglu að ræða sem tengd er almennum neikvæðum hæfisreglum hvað varðar stjórnarsetu. Þannig verður almennt að telja að einstaklingar, sem beint eða óbeint inna af hendi störf, taka við greiðslum eða hafa hagsmuna að gæta í öðrum orkufyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum orkustarfsemi en Landsvirkjun, geti ekki gætt hagsmuna félagsins í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á skipulagi raforkumála.

Um 8. gr.

    Með gildistöku raforkulaga og setningu almennra reglugerða á grundvelli þeirra er heimild til setningar reglugerðar um Landsvirkjun óþörf. Þess í stað er lagt til að í lögunum verði kveðið á um að stjórn Landsvirkjunar setji starfsreglur um starfssvið, starfsskyldur og starfshætti stjórnar og forstjóra auk annarra atriða sem stjórn fyrirtækisins telur nauðsynlegt að setja sér reglur um.

Um 9. gr.

    Í greininni eru lagðar til smávægilegar breytingar á 10. gr. laganna um ársfundi Landsvirkjunar. Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði upp orðið aðalfundur í stað ársfundar, svo sem nú er. Í öðru lagi er lagt til að fellt verði niður ákvæði um að ráðherra orkumála tilnefni fulltrúa ríkissjóðs. Við breytingar á fyrirsvari mun fjármálaráðherra taka við þessu hlutverki. Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði á um að stjórn Landsvirkjunar verði heimilt að boða til aukafunda um málefni fyrirtækisins þegar þörf þykir. Þá fellur niður ákvæði um að heimilt sé að kveða nánar á um fundarsköp og starfssvið ársfundar í reglugerð.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að 11. gr. gildandi laga falli brott en greinin fjallar um samráðsfund Landsvirkjunar. Í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á skyldum Landsvirkjunar með raforkulögum og eignarhaldi er nægjanlegt að haldinn verði einn aðalfundur í stað ársfundar og samráðsfundar.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að orðin „borgarendurskoðunar Reykjavíkur og endurskoðanda Akureyrarbæjar“ í 3. mgr. 12. gr. falli brott. Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, er m.a. kveðið á um að eigi ríkissjóður helmings hlut eða meira í sameignarfélagi, þar sem endurskoðandi er kosinn á aðalfundi, skuli gera tillögu um að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga þess aðila.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að einungis þurfi samþykki fjármálaráðherra fyrir nýjum skuldbindingum og ábyrgðum sem fara fram úr 5% af höfuðstól á hverju ári.

Um 14. gr.

    Í greininni er lagt til að 15.–20. gr. laganna verði felldar brott. Í 15. gr. laganna er að finna heimild um að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af efni, vélum og tækjum til virkjana og stofnlína þeim tilheyrandi.
    Í 17. gr. er fjallað um heimildir og skilyrði þess að sveitarfélög, samtök þeirra og sameignarfélög gerist eignaraðilar að Landsvirkjun. Í ljósi þess að ríkissjóður hefur keypt hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í fyrirtækinu er eðlilegt að þessi ákvæði falli niður.

Um 15. gr.

    Rétt þykir vegna ýmiss konar undirbúnings að lögin öðlist gildi strax en komi þó ekki til fullra framkvæmda fyrr en 1. janúar 2007. Til glöggvunar fylgja með frumvarpi þessu sem fylgiskjal III lög Landsvirkjunar eins og þau líta út eftir þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Þar sem fækkað er í stjórn Landsvirkjunar úr sjö í fimm er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að í desember 2006 verði kosin ný stjórn sem taki til starfa þegar lögin koma til framkvæmda 1. janúar 2007. Jafnframt þykir rétt að taka fram í lögunum að umboð núverandi aðalmanna og varamanna falli þá brott.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Í samningi um kaup íslenska ríkisins á eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun er kveðið á um að einföld ábyrgð Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar á öllum skuldbindingum Landsvirkjunar sem stofnað er til fyrir árslok 2006 skuli haldast þar til skuldbindingarnar hafa að fullu verið efndar. Íslenska ríkið mun eftir 1. janúar 2012 tryggja Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ skaðleysi ábyrgðar á þeim skuldbindingum Landsvirkjunar sem sveitarfélögin eru í ábyrgð fyrir og kunna að falla á þau eftir þann tíma.



Fylgiskjal I.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Sameignarfélagssamningur fyrir Landsvirkjun.

1. gr.
    

    Félagið er sameignarfélag ríkissjóðs og Eignarhluta ehf. og er nafn þess Landsvirkjun. Á ríkissjóður 99,9% eignarhluta í félaginu og Eignarhlutir ehf. 0,1%. Félagið er sjálfstæður skattaðili.

2. gr.

    Hvor sameigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum félagsins en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum.
    Samkvæmt kaupsamningi dags. 1. nóvember 2006 milli fyrri sameigenda félagsins, ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Akureyrabæjar, bera þeir fram til 1. janúar 2012 sameiginlega ábyrgð á skuldbindingum Landsvirkjunar sem stofnað hefur verið til 1. janúar 2007.

3. gr.

    Heimilisfang félagsins og varnarþing er að Háaleitisbraut 68, 103 Reykjavík.

4. gr.

    Tilgangur félagsins er að stunda starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

5. gr.

    Stofnfé félagsins er [xx.xxx.xxx.xxx kr.]

6. gr.

    Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra félagsfunda.

7. gr.

    Aðalfundur skal haldinn fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Félagsfundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu fjármálaráðherra. Skal krafan gerð skriflega, fundarefni tilgreint og fundur þá boðaður innan þriggja daga.

8. gr.

    Stjórn félagsins skal boða til félagsfunda með tilkynningu til eigenda sameignarfélagsins í ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða á annan jafnsannanlegan hátt. Aðalfund og félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara. Fundarefnis skal getið í fundarboði.
    Aðalfundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður og hann sækja eigendur sameignarfélagsins. Verði fundur ólögmætur vegna annmarka að þessu leyti skal boðað til nýs fundar innan hálfs mánaðar með þriggja daga fyrirvara og verður sá fundur lögmætur til að ræða þau mál sem ræða átti á fyrri fundinum ef hann sækir annar eigandi sameignarfélagsins eða umboðsmaður hans.
    Félagsfundur kýs fundarstjóra og fundarritara.

9. gr.

    Eigandi getur með skriflegu umboði veitt umboðsmanni heimild til að sækja félagsfundi og koma þar fram fyrir sína hönd.
    Tillögur að breytingum á sameignarfélagssamningi þessum má ekki taka til meðferðar á fundum þess nema þess hafi verið getið í fundarboði.
    Ákvörðun um sölu fyrirtækisins, umtalsverðra eigna þess, svo sem virkjana og virkjanaréttinda, dótturfélaga þess sem starfa samkvæmt lögum, sameiningu eða samruna félagsins við önnur félög eða fyrirtæki eða slit félagsins er óheimil nema að fengnu samþykki Alþingis.

10. gr.

    Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
     1.      Ársskýrsla stjórnar félagsins um hag félagsins og rekstur þess á liðnu starfsári.
     2.      Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár ásamt skýrslu endurskoðanda félagsins lagðir fram til staðfestingar.
     3.      Ákvörðun um hvernig fara skuli með hagnað eða tap.
     4.      Ákvörðun um greiðslu arðs.
     5.      Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
     6.      Tilnefning stjórnar félagsins.
     7.      Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
     8.      Umræður um önnur málefni sem löglega eru upp borin.
    Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á félagsfundum.

11. gr.

    Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og fimm til vara, sem skulu allir tilnefndir af fjármálaráðherra á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður stjórnar félagsins skal tilnefndur sérstaklega á aðalfundi. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.
    Stjórnarmenn, aðal- og varamenn, skulu vera lögráða, bú þeirra skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta, þeir skulu hafa óflekkað mannorð og skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni félagsins. Þeir mega ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf, taka við greiðslu eða hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum orkufyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum orkustarfsemi sem leitt geta til árekstra við hagsmuni félagsins.

12. gr.

    Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskriftir þriggja stjórnarmanna skuldbinda félagið. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum. Stjórnarfundir eru lögmætir ef þrír stjórnarmenn sækja fund. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Halda skal fundargerð um stjórnarfundi.

13. gr.

    Formaður félagsstjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfundar. Sama rétt á forstjóri.
    Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar og forstjóra.

14. gr.

    Stjórn félagsins ræður forstjóra og ákveður starfskjör hans. Hún veitir og prókúruumboð fyrir félagið.
    Forstjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald og ráðningu starfsliðs og er heimilt að fela það öðrum starfsmönnum Landsvirkjunar í sínu umboði. Forstjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

15. gr.

    Á aðalfundi félagsins skal kjósa einn löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til eins árs í senn. Skal hann rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Endurskoðanda má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

16. gr.

    Starfsár og reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórnin skal hafa lokið gerð ársreikninga og lagt fyrir endurskoðendur eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund.

17. gr.

    Sameignarfélagssamningi þessum má breyta á lögmætum aðalfundi með samþykki eigenda sameignarfélagsins enda samræmist breytingin lögum Landsvirkjunar og dótturfélaga.

18. gr.

    Með tillögur um slit og skipti á félaginu skal fara með sem breytingar á sameignarfélagssamningi þessum. Aðalfundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun eigna og greiðslu skulda.

19. gr.

    Þar sem ákvæði sameignarfélagssamnings þessa segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta almennum reglum sem gilda um sameignarfélög, svo og lagaákvæðum er við geta átt hverju sinni.

20. gr.

    Stangist ákvæði sameignarfélagssamnings þessa að einhverju marki á við lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum, skulu ákvæði samningsins víkja.

21. gr.

    Sameignarfélagssamningur þessi, sem samþykktur er á félagsfundi hinn [xx] desembermánaðar 2006, kemur í stað sameignarfélagssamnings um Landsvirkjun, dags. 27. febrúar 1981 með breytingum gerðum 28. október 1996, og fellur sá samningur úr gildi samhliða gildistöku samnings þessa.


Reykjavík, desember 2006.




Fylgiskjal III.



Lög um Landsvirkjun
eftir fyrirhugaðar breytingar.

1. gr.

    Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og Eignarhluta ehf. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Fyrirtækið er sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Á ríkissjóður 99,9% eignarhluta í fyrirtækinu og Eignarhlutir ehf. 0,1%.
    Hvor eigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir öllum skuldbindingum fyrirtækisins en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum.

2. gr.

    Tilgangur Landsvirkjunar er að stunda starfsemi á orkusviði ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.

3. gr.

    Landsvirkjun er eigandi raforkuvera, annarra mannvirkja, vatnsréttinda og búnaðar sem fyrirtækið hefur eignast fyrir setningu laga þessara eða með sérlögum eða samningum

4. gr.

    Landsvirkjun greiðir arð af framlögum eigenda.
    Arðgreiðslan skal ákveðin með hliðsjón af afkomu fyrirtækisins og yfirfærðum hagnaði frá fyrri árum.

5. gr.

    Fjármálaráðherra skipar stjórn Landsvirkjunar á aðalfundi fyrirtækisins sem haldinn skal fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara.
    Stjórnarmenn, aðal- og varamenn, skulu vera lögráða, bú þeirra skal ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta, þeir skulu hafa óflekkað mannorð og skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni Landsvirkjunar. Þeir mega ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf, taka við greiðslu eða hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum orkufyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum orkustarfsemi sem leitt geta til árekstra við hagsmuni Landsvirkjunar.

6. gr.

    Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.
    Stjórn Landsvirkjunar fer með málefni fyrirtækisins og skal annast um að skipulag fyrirtækisins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórn og forstjóri fara með stjórn fyrirtækisins.
    Forstjóri annast daglegan rekstur fyrirtækisins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin hefur gefið. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur forstjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi fyrirtækisins. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.
    Stjórn Landsvirkjunar skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna fyrirtækisins. Forstjóri skal sjá um að bókhald fyrirtækisins sé fært í samræmi við lög og venjur og meðferð eigna fyrirtækisins sé með tryggilegum hætti.
    Einungis stjórn Landsvirkjunar getur veitt prókúruumboð.
    Stjórnarmenn og fastráðnir starfsmenn Landsvirkjunar hafa réttindi og skyldur opinberra sýslunarmanna.
    Nánari ákvæði um starfssvið stjórnar og forstjóra skulu sett í starfsreglur stjórnar Landsvirkjunar.

7. gr.

    Halda skal í aprílmánuði ár hvert aðalfund Landsvirkjunar. Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
     1.      Skýrsla stjórnar um starfsemi Landsvirkjunar síðastliðið starfsár.
     2.      Ársreikningur Landsvirkjunar fyrir liðið reikningsár ásamt skýrslu endurskoðanda fyrirtækisins lagður fram til staðfestingar.
     3.      Ákvörðun um arðgreiðslur og um aðra meðferð hagnaðar eða taps Landsvirkjunar á reikningsárinu.
     4.      Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna fyrir liðið kjörtímabil.
     5.      Lýst kjöri stjórnar.
     6.      Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
     7.      Umræður um önnur mál.
    Rétt til setu á aðalfundi eiga eigendur fyrirtækisins, stjórn og forstjóri Landsvirkjunar og löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins.
    Stjórn Landsvirkjunar er heimilt að boða til aukafunda um málefni fyrirtækisins þegar þörf þykir.

8. gr.

    Starfsár Landsvirkjunar og reikningsár er almanaksárið.
    Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár og skal hann gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju og skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar.
    Aðalfundur Landsvirkjunar kýs löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til að endurskoða reikninga fyrirtækisins samkvæmt tillögu Ríkisendurskoðunar.
    Endurskoðandi skal endurskoða ársreikning Landsvirkjunar í samræmi við lög og góða endurskoðunarvenju og í því sambandi kanna bókhaldsgögn fyrirtækisins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Endurskoðandi skal að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn og skal áritunin fylgja ársreikningnum sem skýrsla hans.

9. gr.

    Landsvirkjun er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og að taka ábyrgð á greiðslum og öðrum skuldbindingum í sama skyni. Að því leyti sem nýjar skuldbindingar og ábyrgðir fara fram úr 5% af höfuðstól (bókfærðu eigin fé í lok næstliðins árs) á ári hverju, þarf Landsvirkjun að leita samþykkis fjármálaráðherra.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2007.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Á aukafundi Landsvirkjunar, sem halda skal í desember 2006, skal fyrirtækinu frá sama tíma kosin ný stjórn og varastjórn. Frá sama tíma skal umboð núverandi stjórnarmanna og varastjórnarmanna Landsvirkjunar falla úr gildi.

II.


    Reykjavíkurborg og Akureyrarbær bera einfalda ábyrgð með ríkissjóði á öllum skuldbindingum Landsvirkjunar sem stofnað er til fyrir árslok 2006. Skal sú ábyrgð sveitarfélaganna tveggja á skuldbindingum Landsvirkjunar haldast þar til skuldbindingarnar hafa að fullu verið efndar, en íslenska ríkið mun eftir 1. janúar 2012 tryggja Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ skaðleysi ábyrgðar á þeim skuldbindingum Landsvirkjunar sem á þau kunna að falla eftir þann tíma.



Fylgiskjal IV.

Fjármálaráðuneyti
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983,
um Landsvirkjun, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi eru gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 42/1983, um Landvirkjun, vegna kaupa ríkissjóðs á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í fyrirtækinu. Stofnað hefur verið eignarhaldsfélag sem er í fullri eigu ríkisins til að fullnægja sameignarfélagsforminu. Í öðru lagi er lagt til að önnur orkufyrirtæki sem eru að fullu í eigu ríkisins verði tengd Landsvirkjun þannig að þau verði dótturfélög Landsvirkjunar. Í þriðja lagi er lagt til að eignarhald orkufyrirtækja færist alfarið frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði. Heimild til að kaupa eignarhlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun hefur verið lögð fram í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006 og verður sótt um lánsfjárheimildir vegna kaupanna og viðeigandi greiðsluheimildir í fjárlögum. Kaupverðið er samkvæmt samningi 30,3 milljarðar króna og þar af verða 3,4 milljarðar greiddir um áramótin en afgangurinn, eða 26,9 milljarðar, verða á skuldabréfi til 28 ára. Áætlað er að gjaldfærð vaxtagjöld ríkissjóðs á næsta ári verði um 1.195 m.kr. vegna skuldabréfsins. Á móti kemur að arðgreiðslur frá Landsvirkjun munu í framtíðinni renna að fullu til ríkissjóðs og er áætlað að þær verði 200 m.kr. hærri á næsta ári af þeim sökum. Önnur efnisatriði frumvarpsins hafa ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.