Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 365. máls.

Þskj. 397  —  365. mál.Frumvarp til laga

um breytingar á lögum á orkusviði.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
Breyting á lögum nr. 10 19. mars 2001, um stofnun hlutafélags
um Hitaveitu Suðurnesja, með síðari breytingum.

1. gr.

    2. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf.

Breyting á lögum nr. 40 30. maí 2001, um stofnun hlutafélags
um Orkubú Vestfjarða, með síðari breytingum.

2. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf.
    Fjármálaráðherra skal leggja eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf. inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Landsvirkjun fer eftir það með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf.
    Stjórn félagsins skal skipuð 3–5 mönnum og jafnmörgum til vara samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.

Breyting á lögum nr. 25 12. apríl 2006, um stofnun hlutafélags
um Rafmagnsveitur ríkisins.

3. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra fer með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.
    Fjármálaráðherra skal leggja eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Landsvirkjun fer eftir það með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu.
    Stjórn félagsins skal skipuð 3–5 mönnum og jafnmörgum til vara samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.

4. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi.
    Þrátt fyrir tímamark yfirtöku skv. 1. mgr. skal hlutafélagið yfirtaka skattaréttarlegar skuldbindingar og réttindi Rafmagnsveitna ríkisins frá upphafi árs 2006. Skal upphafsefnahagsreikningur hlutafélagsins í skattalegu tilliti miðast við 1. janúar 2006 að gerðu endurmati eigna og fyrninga samkvæmt II. kafla laga nr. 50/2005, um skattskyldu orkufyrirtækja, og hafi ekki í för með sér skattskyldu vegna hagnaðar af afhentum eða mótteknum eignum.

Gildistaka.


5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum. Í frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að gerð verði breyting á fyrirsvari ríkisins varðandi eignarhluti í Hitaveitu Suðurnesja hf., Orkubúi Vestfjarða hf. og Rarik hf. Í öðru lagi er lagt til að fjármálaráðherra leggi allan eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða og Rarik inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Í þriðja lagi er lagt til að gerð verði breyting á lögum um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins þannig að eytt verði óvissu um skattalega meðferð við stofnun hlutafélags um fyrirtækið.
    Samkvæmt lögum um stofnun hlutafélaga um Hitaveitu Suðurnesja, Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins fer iðnaðarráðherra ýmist einn, eða ásamt fjármálaráðherra, með eignarhlut ríkisins í fyrirtækjunum. Er það frávik frá þeirri skipan sem almennt var komið á meðferð slíkra eigna með 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu um staðfestingu hennar, nr. 3/2004, en þar segir að fjármálaráðuneytið fari með mál er varða „eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar þeirra vegna, meðal annars að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis“.
    Með hliðsjón af þessu hefur verið ákveðið að fjármálaráðherra skuli alfarið taka við eigandahlutverki ríkisins gagnvart orkufyrirtækjum í þess eigu í stað iðnaðarráðherra svo sem verið hefur, enda getur í ljósi þeirrar starfsemi, sem fyrirtækin sinna, verið óheppilegt að handhöfn þess sé hjá sama ráðherra og fer með almenna stjórnsýslu á sviði auðlinda- og orkumála, sbr. 3. og 4. tölul. 8. gr. sömu reglugerðar um Stjórnarráðið. Hvað varðar Orkubú Vestfjarða og Rarik verður þetta fyrirsvar óbeint því í frumvarpinu er lagt til að eignarhald ríkisins í fyrirtækjunum færist til Landsvirkjunar, en að fyrirsvar vegna eignarhalds ríkisins í Landsvirkjun verði hjá fjármálaráðherra.
    Í samræmi við framangreinda ákvörðun er með frumvarpi þessu leitað eftir viðeigandi breytingum á lögum nr. 10/2001, nr. 40/2001 og nr. 25/2006, en af áðurnefndum 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands og 8. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, leiðir að meðferð hlutafjár ríkisins í fyrirtækjunum færist við gildistöku laganna til fjármálaráðherra.
    Í febrúar 2005 undirrituðu iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri viljayfirlýsingu um að íslenska ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Í tengslum við yfirlýsinguna kom fram að íslenska ríkið ráðgerði að sameina Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða eftir að hafa leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun og sameina með því eigur sínar á raforkumarkaði í eitt fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og sölu raforku. Í frumvarpinu er hins vegar nú lagt til að Orkubú Vestfjarða og Rarik verði áfram rekin sem sjálfstæð hlutafélög, en að fjármálaráðherra leggi alla eignarhluti ríkisins í Orkubúi Vestfjarða og Rarik, en ríkið á og fer með alla hluti í báðum fyrirtækjunum, inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkisins. Með því verða Orkubú Vestfjarða og Rarik dótturfélög að fullu í eigu Landsvirkjunar, sem fer eftir það með hlutina í félögunum. Þar með verður því eignarhald ríkisins óbeint í félögunum tveimur. Æskilegt er að ríkið haldi utan um hagsmuni sína í rekstri raforkufyrirtækja með þessum hætti. Fyrirtækin stofnuðu fyrr á þessu ári fyrirtækið Orkusöluna ehf. til að annast raforkusmásölu og var stofnun þess fyrsti vísirinn að framtíðarsamstarfi fyrirtækjanna.
    Viðbótareigendaframlag ríkisins til Landsvirkjunar með framangreindum hætti mun einnig styrkja eiginfjárstöðu Landsvirkjunar. Ekki liggur fyrir endanlegt mat á virði þessara hluta, en eigið fé fyrirtækjanna samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2005 nemur samanlagt rúmum 17 milljörðum kr.
    

Um 1. gr.


    Breytingin felur í sér að fjármálaráðherra er falið að fara einn með eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf., en ekki með iðnaðarráðherra, svo sem nú er kveðið á um í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 10/2001.

Um 2. gr.


    Greinin felur í sér að fjármálaráðherra er falið að fara einn með eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða hf., en ekki með iðnaðarráðherra, svo sem nú er kveðið á um í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 40/2001. Þá er lagt til að fjármálaráðherra skuli leggja eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun. Með því verður Orkubú Vestfjarða dótturfélag Landsvirkjunar og í 100% eigu Landsvirkjunar.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að stjórnarmenn Orkubús Vestfjarða geti verið 3–5 samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Stjórnin er nú skipuð fimm mönnum en þyki ástæða til þess að fækka stjórnarmönnum í fjóra eða þrjá þarf ekki að koma til sérstök breyting á lögum félagsins af því tilefni. Eðlilegt er að slík ákvörðun liggi hjá eiganda félagsins.

Um 3. gr.


    Greinin felur í sér að fjármálaráðherra er falið að fara með eignarhlut ríkisins í Rarik hf. í stað iðnaðarráðherra.
    Þá er lagt til í 2. mgr. að fjármálaráðherra skuli leggja allan eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu inn til Landsvirkjunar sem viðbótareigendaframlag ríkisins í Landsvirkjun. Með því verður Rarik dótturfélag Landsvirkjunar og í 100% eigu Landsvirkjunar.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir því að stjórnarmenn félagsins geti verið 3–5 samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Um þetta atriði vísast til athugasemda við 3. mgr. 2. gr.

Um 4. gr.


    Lög um skattskyldu orkufyrirtækja, nr. 50/2005, tóku gildi 30. maí 2005 og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2007 vegna tekna ársins 2006. Rafmagnsveitur ríkisins hafa samkvæmt þeim lögum verið skattskyldar frá upphafi þessa ársins 2006 óháð stofnun hlutafélags um rekstur þeirra, en hlutafélagið yfirtók öll réttindi og skyldur Rafmagnsveitna ríkisins 1. ágúst sl. Lögð er til sú breyting að hlutafélagið taki yfir allar skattaréttarlegar skyldur og öll skattaréttarleg réttindi sem að öðrum kosti hefðu fallið á Rafmagnsveitur ríkisins vegna rekstrar þeirra á tímabilinu 1. janúar til 1. ágúst 2006. Er þeirri yfirtöku ætlað að taka til allra skatta, þ.m.t. tekjuskatts, virðisaukaskatts og tryggingagjalds. Tillaga þessi er til samræmis við það tímamark yfirtöku sem lagt var til í frumvarpi því til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, er lagt var fram á þingskjali nr. 474 í 392. máli 132. löggjafarþings. Jafnframt er lagt til að áréttað verði að yfirfærsla eigna skuli í skattalegu tilliti miðast við verðmæti eigna að gerðu endurmati samkvæmt ákvæðum 3. gr. laga nr. 50/2005.

Um 5. gr.


    Rétt þykir vegna ýmiss konar undirbúnings að lögin öðlist gildi strax en komi þó ekki til fullra framkvæmda fyrr en 1. janúar 2007.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum á orkusviði.

    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að gerð verði breyting á meðferð eignarhluta ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf., Orkubúi Vestfjarða hf. og Rarik hf. þannig að ábyrgð á eignarhlutunum verði færð frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra. Í öðru lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á skipun stjórnar Orkubús Vestfjarða og Rarik hf. Í þriðja lagi er lagt til að fjármálaráðherra leggi allan eignarhlut ríkisins í Rarik hf. og Orkubúi Vestfjarða hf. inn í Landsvirkjun sem viðbótareigendaframlag ríkisins. Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði á um að Rarik hf. taki yfir allar skattarétttarlegar skyldur og réttindi sem að öðrum kosti hefðu fallið á Rafmagnsveitur ríkisins vegna rekstrar þeirra á tímabilinu 1. janúar til 1. ágúst 2006 auk þess að nánar er kveðið á um yfirfærslu eigna. Samhliða þessu framvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.