Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.

Þskj. 398  —  366. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)1. gr.

    1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo:
    Skipulag hafnarsvæðis skal miðast við þarfir hafnar. Hafnarstjórn gerir tillögu um skipulag hafnarsvæðis til skipulagsnefndar eða sveitarstjórnar að höfðu samráði við Siglingastofnun Íslands um gerð þess. Viðkomandi sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi fyrir nýjum hafnarmannvirkjum.

2. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafnir skulu birta gjaldskrár sínar með skýrum og aðgengilegum hætti, svo sem á netinu. Höfnum skv. 1. og 2. tölul. 8. gr. er heimilt að birta gjaldskrár sínar í B-deild Stjórnartíðinda.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Höfnum er heimilt samkvæmt kafla þessum að innheimta eftirtalin gjöld sem renna til hvers kyns uppbyggingar hafnar og reksturs hennar, sbr. 5. tölul. 3. gr.:
                  1.      Hafnargjald sem nánar sundurliðast á eftirfarandi hátt:
                      a.      Skipagjöld sem skiptast í bryggjugjöld og lestargjöld og eru lögð á skip og báta er nota viðkomandi höfn og miðast við stærð skipa, dvalartíma á hafnarsvæðinu og veitta aðstöðu.
                      b.      Vörugjöld, þ.m.t. aflagjald, af vörum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfn.
                      c.      Hafnsögugjöld og gjöld fyrir þjónustu hafnarbáta.
                      d.      Leigugjald fyrir svæði til lestunar og losunar á vöru.
                Hafnargjald samkvæmt þessum tölulið skal standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, hafnarbáta og hafnsögu þar sem það á við.
                  2.      Farþegagjald og gjald fyrir bifreiðar sem ekið er um borð eða frá borði í ferju og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu á aðstöðu og búnaði fyrir farþega og bíla, sem og kostnaði við rekstur og viðhald.
                  3.      Geymslugjald fyrir geymslu vöru og gáma innan húss á hafnarsvæði og skal gjald þetta standa straum af kostnaði við uppbyggingu, viðhald, endurnýjun og rekstur á geymsluaðstöðunni.
                  4.      Leigugjald fyrir afnot af mannvirkjum eða tækjum hafnarinnar, þ.m.t. upptökumannvirkjum og löndunarkrönum. Gjaldið skal standa undir kostnaði við uppbyggingu, rekstur, viðhald og endurnýjun mannvirkjanna.
                  5.      Leyfisgjald fyrir bryggjur og önnur mannvirki sem gerð hafa verið skv. 5. gr. Gjaldið skal standa straum af undirbúningskostnaði veittra leyfa.
                  6.      Lóðargjald og lóðarleigu fyrir leigu á svæðum innan hafnarinnar.
                  7.      Festargjald sem nota skal til að greiða kostnað við festarþjónustu sem höfnin veitir.
                  8.      Gjöld fyrir endursölu á vatni og rafmagni og kostnað er því fylgir.
                  9.      Sorpgjöld sem skulu standa straum af kostnaði við sorphirðu frá skipum og fyrirtækjum á hafnarsvæði, sem og eyðingu sorpsins.
                  10.      Vigtar- og skráningargjald sem skal standa straum af kostnaði við rekstur, viðhald og endurnýjun hafnarvogar.
                  11.      Umsýslugjald til þess að standa straum af kostnaði vegna umsýslu og yfirstjórnar, t.d. launum og skrifstofukostnaði. Heimilt er að láta umsýslugjaldið samkvæmt þessum tölulið vera innifalið í gjaldtöku skv. 1.–10. tölul. með sérstöku álagi á viðkomandi gjald.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Notendur hafnar geta krafið hafnarstjórn upplýsinga um kostnað sem almennt hlýst af að veita viðkomandi þjónustu og eðlilega sundurliðum gjalda.

4. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna orðast svo: Gjaldtaka hafnar samkvæmt þessum kafla skal miðuð við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar, stofnkostnaði og kostnaði við viðhald hennar, auk þess sem heimilt er að taka tillit til arðsemi á endurmetnu eigin fé.

5. gr.

    Við 1. mgr. 21. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Höfn, sem telst neyðarhöfn í samræmi við áætlun um að liðsinna nauðstöddum skipum á hafsvæðum í lögsögu Íslands, sem Siglingastofnun Íslands gerir að höfðu samráði við viðkomandi höfn, Landhelgisgæslu Íslands og Umhverfisstofnun, er skylt að taka á móti skipum í sjávarháska eftir því sem nánar er kveðið á um í áætluninni. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um áætlunina og neyðarhafnir í reglugerð.

6. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo:
    Ráðherra skal í síðasta lagi árið 2010, eða fyrr ef nauðsyn krefur, skipa sérstaka skoðunarnefnd sem hafi það hlutverk að meta hvort töluleg viðmið 24. gr. þurfi breytinga við í ljósi reynslunnar.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með núgildandi hafnalögum, nr. 61/2003, voru lögfest margvísleg nýmæli er varða rekstur hafna frá því sem áður var. Ber þar einna hæst þá breytingu að færa rekstur og umhverfi hafna nær öðrum atvinnurekstri með því að heimila fleiri rekstrarform hafna, minnka ríkisafskipti af rekstri, afnema samræmda gjaldskrá og taka upp það fyrirkomulag að hver höfn setji sér sína sérstöku gjaldskrá. Vegna þessara miklu breytinga var kveðið á um það í ákvæði til bráðabirgða IV í lögunum að skipa skyldi sérstaka endurskoðunarnefnd til að meta hvernig til hafi tekist við framkvæmd laganna og gera tillögur að nauðsynlegum breytingum.
    Önnur verkefni nefndarinnar eru samkvæmt áðurnefndu bráðabirgðaákvæði að kanna hvort og að hvaða marki raunveruleg samkeppni ríkir á milli hafna og jafnframt hvort ástæða sé til þess að skilgreina og skilja á milli hafna í samkeppni og hafna sem eru það ekki. Þá á nefndin að skoða sérstaklega hag þeirra hafna sem teljast mikilvægar í samgöngukerfi landsins og koma með tillögur til úrbóta ef þörf krefur. Jafnframt á nefndin að skoða sérstaklega stöðu skuldugustu hafnanna og koma með tillögur til úrbóta telji hún ástæðu til.
    Nefnd sú sem bráðabirgðaákvæðið kveður á um var skipuð af samgönguráðherra 12. ágúst 2005 og er frumvarp þetta samið á vegum hennar.
    Í nefndina voru skipaðir þeir Reynir Ragnarsson, löggiltur endurskoðandi, sem er formaður, Gísli Gíslason hafnarstjóri og Ragnheiður Hákonardóttir, formaður hafnarstjórnar Ísafjarðarhafnar, tilnefnd af Hafnasambandi sveitarfélaga, Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, samkvæmt tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna, Garðar Jóhannesson, framkvæmdastjóri Nesskipa, samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra kaupskipaútgerða. Með nefndinni starfar Sigríður Finsen, formaður Hafnaráðs, Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri og Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar var Jón Eðvald Malmquist, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, og tók Svanhvít Axelsdóttir, lögfræðingur í sama ráðuneyti, við af honum.
    Nefndin fjallaði þó ekki um neyðarhafnir heldur er nýmæli frumvarpsins í 5. gr. um slíkar hafnir byggt á tillögu frá Siglingastofnun Íslands.
    Helstu breytingar sem frumvarpið hefur að geyma eru eftirfarandi:

1. Samráð um skipulag.
    Hér er lögð til sú breyting að skipulag hafnar er falið hafnarstjórn en í núgildandi lögum er kveðið á um samráð við hafnarstjórn. Áfram er gert ráð fyrir samráði við Siglingastofnun og einnig að framkvæmdaleyfið sé útgefið af sveitarstjórn.
    Með tillögu þessari er í raun ekki verið að breyta fyrirkomulagi þessara mála heldur færa lagaákvæðið til samræmis við þá framkvæmd sem nú tíðkast og er hagkvæmust. Þá er rétt að hafa í huga að þetta samræmist einnig því að þar sem hafnir eru með sérstaka hafnarstjórn, fellur kostnaður við deiliskipulag á hafnarsjóð og gildir það sama um hafnir sem falla undir 3. tölul. 8. gr. laganna.

2. Skylda til að birta gjaldskrár.
    Fyrir gildistöku núgildandi hafnalaga var aðeins um að ræða eina gjaldskrá hafna sem gilti um allar hafnir landsins nema einstaka stóriðjuhafnir. Gjaldskráin var gefin út af samgönguráðuneytinu og var birt í Stjórnartíðindum. Engin ákvæði eru í núgildandi hafnalögum um birtingu gjaldskráa hafna, hvorki hafna í opinberum reksri né einkarekstri. Framkvæmdin á því hvort og þá hvernig einstakar hafnir hafa staðið að birtingu gjaldskráa hefur verið mjög mismunandi og hefur Siglingastofnun Íslands síðan lögin tóku gildi, leitast við að birta á heimasíðu sinni yfirlit um þessar gjaldskrár. Jafnframt hefur verið ágreiningur um hvort höfnum í opinberum rekstri er skylt að birta gjaldskrár í B-deild Stjórnartíðinda á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005 eða hvort um heimildarákvæði er að ræða. Vegna þessa og til að tryggja að gegnsæi ríki um gjaldtöku hafna er lagt til að kveðið verði á um það í hafnalögum að höfnum sé skylt að birta gjaldskrár sínar með skýrum og aðgengilegum hætti, svo sem á netinu. Einnig er tekið fram, til að taka af allan vafa, að höfnum í opinberri eigu er heimilt að birta gjaldskrár í B-deild Stjórnartíðinda en ekki er um skyldu að ræða.

3.. Endurskoðun á gjaldskrárákvæðum 17. gr.
    a. Í 17. gr hafnalaga er gjaldtaka hafna í opinberum rekstri lögfest. Um er að ræða þjónustugjöld sem uppfylla verða þær almennu reglur sem um slíkt gilda, þ.e. hver gjaldflokkur skal standa straum af þeim kostnaði sem honum er ætlað að standa undir.
    Frá gildistöku laganna hefur komið fram gagnrýni á 17. gr. þeirra bæði frá Hafnasambandi sveitarfélaga og einstaka höfnum. Hefur sú gagnrýni einkum beinst að því að ekki sé hægt með viðunandi hætti að skipta rekstrarkostnaði á skipa- og vörugjöld með þeim hætti sem 1. og 2. tölul. 17. gr. gera ráð fyrir, þannig að unnt sé að uppfylla það grundvallarskilyrði opinberra þjónustugjalda að þau standi undir kostnaði við veitta þjónustu. Þetta á við um kostnað við að reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn, aðstöðu við bryggju og á hafnarbakka.
    Einnig hafa verið gerðar athugasemdir við að í 9. tölul. 17. gr. er gert ráð fyrir sérstöku gjaldi, hafnsögugjaldi, sem skal standa straum af kostnaði við hafnsöguþjónustu og í 10. tölul. gjaldi fyrir þjónustu dráttarbáta sem standa skal undir kostnaði við rekstur dráttarbáta. Reyndin er hins vegar sú að erfitt er fyrir hafnir að taka full gjöld fyrir hafnsöguþjónustu annars vegar og þjónustu dráttarbáta hins vegar. Ef slík gjöld ættu að standa undir kostnaði yrði sú þjónusta allt of dýr. Þannig hefur ekki verið hjá því komist að hafa gjöld þessi lægri en nauðsynlegt er til að standa undir kostnaði og innheimta hluta af kostnaðinum vegna þessarar þjónustu með öðrum hætti. Núverandi 17. gr. gerir hins vegar ekki ráð fyrir að hafnir geti náð hluta þessa kostnaðar af öðrum gjaldstofnun og í raun er það ekki heimilt samkvæmt framangreindri meginreglu um opinber þjónustugjöld. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að oft er um hafnsöguskyldu að ræða sem bundin er í reglugerð viðkomandi hafnar. Að auki eru bátarnir einnig notaðir í neyðartilvikum, svo sem vegna björgunar á sjó og vegna mengunarvarna.
    Þá má jafnframt geta að í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4298/2004 var komist að þeirri niðurstöðu að vörugjöld sem ákveðin voru af tiltekinni höfn í opinberum rekstri hafi ekki verið í samræmi við reglur um ákvörðun og töku þjónustugjalda hjá hinu opinbera og á það bent að í 17. gr. sé að finna óskýr skil á milli kostnaðar sem mæta skal með tekjum af einstökum gjöldum. Í áliti sínu kemur umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri við samgönguráðherra að endurskoðunarnefndinni verði falið að taka til athugunar hvort þörf sé á endurskoðun ákvæða 17. gr. með það í huga að skýrar verði greint á milli þeirra kostnaðarliða sem tekjur af einstökum gjöldum eiga að standa undir.
    Með breytingum sem lagðar eru til hér er ætlunin að bæta úr framangreindum vanda sem fylgir núgildandi sundurgreiningu gjaldanna og tryggja að uppfyllt séu skilyrði gjaldtöku opinberra þjónustugjalda. Er við það farin sú leið að sameina þrjá gjaldflokka í eitt nýtt gjald sem kallað er hafnargjald. Þessu gjaldi er ætlað að standa undir þeim kostnaði sem þar er tilgreindur og skiptist í fjóra kostnaðarliði, þ.e. skipagjöld þ.m.t. bryggju- og lestargjöld, vörugjöld, hafnsögugjöld og gjöld fyrir þjónustu hafnarbáta og leigugjald fyrir svæði til lestunar og losunar á vöru. Er höfnum heimilt að nota alla þessa kostnaðarliði í því skyni að mæta þeim kostnaði sem undir hafnargjaldið fellur.
    Aðrir gjaldflokkar eru óbreyttir frá núgildandi lögum að öðru leyti en því að einstaka gjaldaliðir hafa verið skýrðir nánar og hvaða kostnaði þeir standa undir. Ætti það að vera til þess fallið að draga úr hættu á misskilningi og ágreiningi um gjaldheimildir hafna í opinberum rekstri.
    b. Hér er lögð til sú breyting að bæta við ákvæði um heimild notenda hafna til að krefja hafnarstjórn um upplýsingar um þann kostnað sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldinu er ætlað að standa undir en ekkert slíkt ákvæði er í núgildandi hafnalögum.
Ákvæði þessu er ætlað að tryggja réttindi og hagsmuni notenda hafnanna og taka af allan vafa um þennan rétt þeirra til upplýsinga og er það í samræmi við þær almennu reglur sem um þjónustugjöld opinberra aðila gilda.

Breyting á heimildum hafna sem ekki teljast til opinbers reksturs til gjaldtöku.
    Í núgildandi hafnalögum, nr. 61/2003, er kveðið á um gjaldtöku hafna sem ekki teljast til opinbers reksturs í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. og er miðað við að gjaldtakan standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt hlutdeild í sameiginlegum rekstri hafnarinnar. Eins og ákvæðið er orðað getur það valdið vafa um hvort höfn sé heimilt að taka tillit til uppbyggingar hafnarinnar og viðhalds við gjaldtökuna en ljóst er að slíkt er nauðsynlegur og eðlilegur hluti af starfsemi og rekstri hafnarinnar. Höfnum er ekki heimilt að taka tillit til arðsemiskrafna í gjaldtöku sinni og getur því vart skilað arði en gert er ráð fyrir því í 19. gr. laganna að svo sé.
    Því er lagt til að 1. málsl. 20. gr. verði breytt og kveðið á um að við gjaldtöku megi gera arðsemiskröfur með takmörkunum eins og nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum við greinina. Jafnframt verði tekið fram að heimilt sé við gjaldtökuna að miða við stofnkostnað við uppbyggingu hafnarinnar og viðhald, til að taka af allan vafa um slíka heimild.
    Áfram er tryggt í 19. gr. laganna að höfn sé ekki heimilt að greiða arð til eigenda sinna fyrr en eftir að fé hefur verið lagt til hliðar í fullnægjandi viðhald og endurnýjun hafnarinnar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð hennar sem sett er skv. 4. gr. laganna.
    Talið er að samkeppnislög og eftirlit Samkeppniseftirlitsins eigi að tryggja að höfn geti ekki gert óhóflegar arðsemiskröfur í gjaldskrár sinni.

Endurskoðunarnefnd.

    Lagt er til að á ný verði tiltekið að endurskoðunarnefnd verði skipuð til þess að fara yfir reynsluna af þessum lögum. Í þetta sinn er miðað við að það verði gert eigi síðar en 2010 en þá ætti að vera komin nokkur reynsla á styrkjaákvæði núgildandi hafnalaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að frumkvæðið að skipulagi hafnarsvæða sé í höndum hafnarstjórnar í stað þess að stjórnin sé samráðsaðili við gerð skipulagsins eins og samkvæmt núgildandi lögum. Þessi breyting er í samræmi við þá framkvæmd sem viðhöfð er í þessum málum í dag og er í engu raskað því ferli að tillögur hafnarstjórnar fara til umfjöllunar skipulagsnefndar og síðan sveitarstjórnar sem veitir framkvæmdaleyfi.

Um 2. gr.


    Lagt er til að sú skylda verði lögð á allar hafnir að birta gjaldskrár sínar með skýrum og aðgengilegum hætti, svo sem á netinu. Gildir þetta um allar hafnir, óháð rekstrarformi þeirra og ber höfnum að birta gjaldskrár með þeim hætti að gjaldskrá sé aðgengileg öllum notendum hafnarinnar og þjónustunnar sem þar er veitt. Ekki þykir ástæða til að kveða nánar á um birtingarháttinn heldur er lagt í hendur stjórnenda hafnanna á hverjum stað að ákveða hann enda eflaust mismunandi hvað hentar hverri höfn fyrir sig. Ekki þykir ástæða til að skylda hafnir í opinberum rekstri til að birta gjaldskrár í B-deild Stjórnartíðinda og því kveðið á um heimild til þess.

Um 3. gr.


    Lagt er til að 1. mgr. 17. gr. breytist þannig að í 1. tölul. eru skipagjöld, bryggju- og lestargjöld, vörugjöld, hafnsögugjöld og gjöld fyrir þjónustu hafnarbáta og leigugjald fyrir svæði til lestunar og losunar á vöru sameinuð í einn gjaldflokk, hafnargjald sem samanstendur af fjórum kostnaðarliðum. Hafnargjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við að byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn, aðstöðu við bryggju og á hafnarbakka, hafnarbáta og hafnsögu þar sem það á við. Gjaldtakan skal því standa straum af þeim kostnaði sem fellur til vegna þessara þátta og er heimilt að nota hvaða kostnaðarlið sem undir hafnargjaldið fellur í því skyni.
    Önnur þjónustugjöld sem höfnum er heimilt að taka eru síðan talin upp í 2.–11. tölul. og kemur þar jafnframt fram hvaða kostnaði gjöldin skuli standa straum af. Ekki eru lagðar til efnislega breytingar á því hvaða gjöld höfnum er heimilt að taka, heldur er eingöngu um að ræða breytingar sem eru til nánari skýringar og útfærslu á þeim kostnaði sem hverjum gjaldalið er ætlað að standa undir.
    Í 2. tölul. er áréttað að gjaldið eigi einnig að standa undir uppbyggingu aðstöðunnar.
    Sama er í 3. tölul. auk þess sem tekið er fram að gjaldinu sé einnig ætlað að taka til geymslu á gámum.
    Gjald skv. 4. tölul. skal jafnframt standa undir uppbyggingu mannvirkja sem undir þennan lið falla.
    Engar breytingar eru á leyfisgjaldi skv. 5. tölul. og í 6. tölul. er áréttað að gjaldið varði svæði innan hafnarinnar.
    Engar breytingar eru á 7. tölul. um festargjald. Í 8. tölul. er bætt við skýringu á því að um endursölu hafnarinnar sé að ræða og að gjaldið eigi einnig að standa undir kostnaði við framkvæmd sölunnar.
    Bætt er við í 9. tölul. að gjaldið taki einnig til förgunar á sorpinu.
    Engar breytingar eru gerðar á vigtar- og skráningargjaldi skv. 10. tölul.
    Í 11. tölul. er áfram veitt heimilt til að taka gjald til að standa straum af kostnaði vegna umsýslu og yfirstjórnar, t.d. launum og skrifstofukostnaði. Ekki eru lagðar til breytingar á því hvaða kostnaði þetta gjald á að standa undir. Hins vegar er nýmæli í 2. málsl.11. tölul. þar sem segir að gjaldtaka samkvæmt þessum lið geti verið innifalin í gjaldtöku annarra þjónustugjalda samkvæmt ákvæðinu og þá með sérstöku álagi. Hér er höfnum veitt heimild til að reikna út sérstakt álag fyrir hvern gjaldflokk fyrir sig og bæta því við gjöld skv. 1.–10. tölul.
    Lagt er til að á eftir 4. mgr. komi ný málgrein sem kveður á um heimild notenda hafnar til að krefja hafnarstjórn um upplýsingar um þann kostnað sem almennt hlýst af þeirri þjónustu sem veitt er og gjaldi er ætlað að standa undir.
    Með þessu er greiðanda þó ekki veitt heimild til að krefjast sundurliðaðs útreiknings á nákvæmlega því gjaldi sem hann greiddi heldur er kveðið á um heimild hans til að fá upplýsingar um þann meðaltalskostnað sem almennt hlýst af viðkomandi þjónustu.

Um 4. gr.


     Lögð er til breyting á 1. málsl. 2. mgr. 20. gr., er kveður á um við hvað gjaldataka hafna sem ekki teljast til opinbers reksturs skuli miðuð, þannig að tekið er fram að heimilt er að miða gjaldtöku við stofnkostnað og kostnað við viðhald hafnarinnar. Jafnframt að þeim höfnum verði veitt heimild til að taka mið af arðsemiskröfum við ákvörðun gjalda. Með arðsemiskröfum er átt við að hafnarsjóðir miði arðsemiskröfur sínar við meðaltal arðsemiskrafna lífeyrissjóða í landinu, nú reiknað 3,5%, sem reiknaðar séu af endurmetnu eigin fé hafnarsjóðanna að frádregnum opinberum styrkjum. Hafnarsjóðir gætu því endurmetið eigin framlög að viðbættum hagnaði hvers árs með breytingu á byggingarvísitölu hvers árs, við mat á því hvort rekstrarárangur ársins standi undir almennri arðsemiskröfu samkvæmt lögunum.

Um 5. gr.


    Með þessari grein er bætt inn í hafnalögin ákvæði um neyðarhafnir. Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB frá 27. júní 2002 um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins fyrir umferð á sjó og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 93/75/EBE er aðildarríkjum EES skylt að gera áætlun um hvernig liðsinna megi nauðstöddum skipum á hafsvæðum í lögsögu sinni, m.a. til að tryggja að skip í sjávarháska geti tafarlaust leitað neyðarhafnar með fyrirvara um að heimild fáist hjá viðkomandi hafnaryfirvöldum eða öðrum sem hagsmuna hafa að gæta. Siglingastofnun Íslands vinnur nú að undirbúningi þessarar áætlunar. Þetta ákvæði tilskipunarinnar hefur verið tekið upp í 20. gr. reglugerðar um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, nr. 672/2000, og er ákvæðið eftirfarandi:
    „Að höfðu samráði við Landhelgisgæslu Íslands og Umhverfisstofnun skal Siglingastofnun Íslands gera áætlun með hliðsjón af viðeigandi leiðbeiningum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, um að liðsinna nauðstöddum skipum á hafsvæðum í lögsögu Íslands. Slík áætlun skal fela í sér ákvörðun um hlutverk og ábyrgð einstakra aðila, nauðsynlega tilhögun og málsmeðferð, með hliðsjón af takmörkunum tengdum rekstri og umhverfi, til að tryggja að skip í sjávarháska geti tafarlaust leitað neyðarhafnar eða skipaafdreps með fyrirvara um að heimild fáist hjá viðkomandi hafnaryfirvöldum eða landeigendum eða öðrum sem hagsmuna hafa að gæta. Telji Siglingastofnun Íslands, að höfðu samráði við Landhelgisgæslu Íslands og Umhverfisstofnun það nauðsynlegt og gerlegt, þarf áætlunin að fela í sér tilhögun um að séð sé fyrir nægilegum úrræðum og aðstöðu til hjálpar, björgunar og viðbragða við mengun.
    Áætlun um liðsinni við skip í sjávarháska skal vera aðgengileg sé þess óskað og birt á íslensku og ensku á heimasíðu vaktstöðvar siglinga og Siglingastofnunar Íslands.“
    Á næstu árum munu siglingar aukast um íslensku efnahagslögsögu í kjölfar þess að farið er að flytja olíu og gas frá Rússlandi og Noregi til austurstrandar Bandaríkjanna. Ísland er þannig í einni svipan lent í þjóðbraut siglinga stórra olíu- og gasflutningaskipa. Góð umgengni um hafsvæðið innan íslensku efnahagslögsögunar er undirstaða fiskveiða og byggðar í landinu. Mengunarslys gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki bæði við strönd landsins og á hafsvæðinu umhverfis það. Fylgjast þarf skipulega með allri skipaumferð innan efnahagslögsögunnar, koma á skipulagi skipaumferðar, t.d. með afmörkun sérstakra siglingaleiða fyrir skip sem flytja hættulegan farm eins og olíu. En málið snýst ekki einungis um að geta fylgst vel með allri umferð skipa innan íslensku efnahagslögsögunnar heldur einnig að hafa viðbúnað til reiðu ef eitthvað ber útaf eða slys eða óhapp verður hjá þessum skipum. Til slíks viðbúnaðar teljast t.d. neyðarhafnir og neyðarafdrep fyrir skip sem eiga í vanda, aðgengi að dráttarbátum o.fl. Sú áætlun sem vísað er til í greininni er liður í því að bregðast við þessum breyttu aðstæðum.

Um 6. gr.


     Í núgildandi hafnalögum er í ákvæði til bráðabirgða IV áskilið að skipa skuli sérstaka endurskoðunarnefnd með nokkuð víðtæk verkefni til þess að fara yfir reynsluna af lögunum. Lagt er til að á ný verði tiltekið að endurskoðunarnefnd verði skipuð til þess að fara yfir reynsluna af lögunum. Í þetta sinn er miðað við að það verði gert eigi síðar en 2010 en þá ætti að vera komin nokkur reynsla á styrkjaákvæði laganna. Verksvið þessarar nýju endurskoðunarnefndar er þó takmarkað við að meta hvort töluleg viðmið 24. gr. þurfi breytinga við í ljósi reynslunnar.

Um 7. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003.


    Með frumvarpinu eru annars vegar gerðar breytingar á gjaldskrárákvæðum í 17. gr. laganna og hins vegar er lögð til breyting vegna neyðarhafna. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem endurskoðun á gjaldskrárákvæðum er í samræmi við reynslu af framkvæmd laganna og ákvæði um neyðarhafnir hefur þegar verið tekið upp í 20. gr. reglugerðar um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, nr. 672/2000.