Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 367. máls.

Þskj. 399  —  367. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, 4. tölul., svohljóðandi: að standa fyrir mælingum og rannsóknum á vatnafari landsins.
     b.      Í stað „2. og 3. tölul.“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: 2., 3. og 4. tölul.

2. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Til að sinna hlutverki sínu skv. 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun, þ.m.t. gagna um innflutning, geymslu og sölu á jarðefnaeldsneyti. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni nauðsynleg gögn innan frests sem hún tilgreinir. Í reglugerð skal kveða nánar á um tegund gagna, gæði þeirra og skilafrest.
    Sé gögnum ekki skilað innan tilgreinds frests er Orkustofnun heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki eða stofnun. Dagsektir geta numið 10–100 þús. kr. á dag. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Ákvarðanir um að leggja á dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

3. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Í reikningum og fjárveitingum til Orkustofnunar skal sérgreina það fé sem varið er til rannsókna skv. 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr. 2. gr.

4. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    a. (II.)
    Iðnaðarráðherra ákveður í samráði við Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir hvaða eignir skuli færast með vatnamælingum til Íslenskra orkurannsókna. Þó skulu allar rannsóknaniðurstöður og gagnasöfn sem unnin hafa verið á vatnamælingum Orkustofnunar og fyrir almannafé áfram tilheyra Orkustofnun og vera eign stofnunarinnar.

    b. (III.)
    Starfsmönnum vatnamælinga Orkustofnunar, skal boðið starf hjá Íslenskum orkurannsóknum. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í samvinnu iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar og að höfðu samráði við Íslenskar orkurannsóknir. Frumvarpið felur annars vegar í sér að starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar, en sú deild hefur verið rekin sem sjálfstæð eining innan stofnunarinnar, færist undir Íslenskar orkurannsóknir. Vatnafarsrannsóknir hins opinbera verða hins vegar á ábyrgð Orkustofnunar svo sem verið hefur. Hins vegar er lagt til að Orkustofnun verði veittar heimildir til að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun til að sinna lögboðnu hlutverki sínu.

2. Tilfærsla vatnamælinga.
    Með lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, og lögum nr. 86/2003, um Íslenskar orkurannsóknir, var starfsemi rannsóknasviðs Orkustofnunar skilin frá stofnuninni og stofnuð sérstök stofnun til að vinna að verkefnum og rannsóknum á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála. Við undirbúning lagasetningarinnar starfaði nefnd um skipan lögbundinna verkefna Orkustofnunar. Í áliti nefndarinnar frá 16. maí 2002 var lögð áhersla á að hagsmunaárekstrar kynnu að koma upp innan stofnunarinnar milli þeirrar starfsemi sem lýtur að rannsóknum fyrir orkufyrirtæki og stjórnsýsluhlutverksins, sem mjög var aukið með setningu raforkulaga. Ákveðið var að skilja í svipinn eingöngu rannsóknasvið Orkustofnunar frá og flytja í sérstaka stofnun en halda vatnamælingum innan Orkustofnunar um sinn.
    Iðnaðarráðuneyti hefur í undirbúningi frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 57/1998,um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðum, frumvarp til breytinga á lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, og frumvarp til hitaveitulaga þar sem lagt verður til að Orkustofnun verði falin fleiri stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni. Því þykir ástæða til að stíga til fulls það skref sem árið 2003 var tekið í átt til aðskilnaðar rannsókna og stjórnsýslu Orkustofnunar. Í því skyni er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að vatnamælingar Orkustofnunar færist til Íslenskra orkurannsókna. Áður hefur verið kannað ítarlega hvort vatnafarsrannsóknum vatnamælinga Orkustofnunar væri betur fyrir komið með öðrum hætti, svo sem með samruna einingarinnar við aðrar stofnanir á sviði náttúrufarsrannsókna. Niðurstaðan er sú með hliðsjón af mörgum atriðum að tilfærsla til Íslenskra orkurannsókna þjóni best þeim markmiðum sem að er stefnt.
    Eftir þennan samruna verður til öflug hagnýt rannsóknarstofnun á sviði orkurannsókna, en einnig í öðrum vatnafarsrannsóknum; stofnun sem getur einnig haslað sér völl á sviði ýmissa umhverfisrannsókna. Þá hefur það skipt máli að rekstrarfyrirkomulag Íslenskra orkurannsókna og jafnframt núverandi vatnamælingaeiningar Orkustofnunar er með þeim hætti að reksturinn er sjálfbær. Ekki er veitt fé beint á fjárlögum til þessarar starfsemi, en Orkustofnun gerir samninga um verkefni fyrir hönd ríkisins um viðkomandi orkurannsóknir. Fyrirkomulag þetta hefur reynst vel og ekki verður breyting á við þann samruna sem hér er lagður til. Til að ítreka að vatnafarsrannsóknir verði áfram á ábyrgð Orkustofnunar eftir að vatnamælingar hafa verið fluttar til Íslenskra orkurannsókna er lagt til að tekið verði sérstaklega fram að eitt hlutverka Orkustofnunar verði að standa fyrir mælingum og rannsóknum á vatnafari landsins.
    Við undirbúning frumvarpsins hefur verið haft samráð við Orkustofnun, vatnamælingar Orkustofnunar og Íslenskar orkurannsóknir. Um efni frumvarpsins ríkir sátt meðal stofnananna og samþykkti stjórn Íslenskra orkurannsókna það samhljóða. Gert er ráð fyrir að öllum starfsmönnum vatnamælinga Orkustofnunar verði boðið starf hjá Íslenskum orkurannsóknum. Eru því réttindi starfsmanna vatnamælinga Orkustofnunar tryggð, þrátt fyrir færslu milli stofnana. Hliðstætt ákvæði er í lögum um Íslenskar orkurannsóknir vegna flutnings starfsmanna rannsóknasviðs Orkustofnunar árið 2003.

3. Heimildir vegna gagnaöflunar.
    Orkustofnun hefur samkvæmt 2. gr. laga um stofnunina, sem og öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir, það hlutverk að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna. Auk þess ber stofnuninni að safna ýmsum gögnum vegna þess eftirlits með framkvæmd leyfa sem henni hefur verið falið að annast. Stofnuninni hefur gengið misvel að afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að sinna hlutverkum hennar, m.a. upplýsinga sem þörf er á vegna nýrra laga um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 107/2006, en samkvæmt þeim ber Orkustofnun að taka saman og skila upplýsingum um orkumál sem krafist er vegna bókhalds um losun gróðurhúsalofttegunda. Á síðustu misserum hefur gengið æ verr að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna undirbúnings orkuspáa orkuspárnefndar og samantektar um orkunotkun. Er það ekki síst vegna þess að ýmis fyrirtæki hafa orðið æ tregari til að láta slík gögn af hendi og Orkustofnun hefur ekki haft úrræði til að krefjast gagnanna. Því eru gerðar tillögur um auknar heimildir stofnunarinnar og úrræði sem Orkustofnun verður heimilt að grípa til ef nauðsynleg gögn eru ekki látin af hendi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið er mælt sérstaklega fyrir um að Orkustofnun beri að standa fyrir mælingum og rannsóknum á vatnafari. Er það gert til að undirstrika að ábyrgð á vatnamælingum og vatnafarsrannsóknum verður áfram á Orkustofnun þótt framkvæmdin færist út af stofnuninni.
    Í b-lið er vísun í 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. bætt við ákvæðið svo Orkustofnun verði heimilt að gera samninga við fyrirtæki eða stofnanir um framkvæmd vatnamælinga og rannsókna á vatnafari eins og um verkefni skv. 2. og 3. tölul. sömu málsgreinar.

Um 2. gr.

    Lagt er til að núverandi 3. gr. laganna um starfsemi vatnamælinga innan Orkustofnunar falli brott og í stað hennar komi ný grein sem fjallar um heimildir Orkustofnunar til að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun, þ.m.t. gagna um innflutning, geymslu og sölu á jarðefnaeldsneyti. Í almennum athugasemdum er nánar fjallað um ástæður þess að nauðsynlegt sé að stofnunin hafi slíkar heimildir. Lagt er til að nánar verði kveðið á um heimildir til gagnaöflunar, form og gæði gagna o.fl. í reglugerð.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um að í reikningum og fjárveitingum til Orkustofnunar skuli sérgreina það fé sem varið er til rannsókna skv. 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. Samhljóða ákvæði er nú að finna í 2. mgr. 3. gr. laganna hvað varðar 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. gildandi laga.

Um 4. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða. Annars vegar kemur fram að iðnaðarráðuneytið skuli, í samráði við Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir, ákvarða hvaða eignir og skuldir skuli fylgja vatnamælingum til Íslenskra orkurannsókna og hvað skuli verða eftir á Orkustofnun. Þó er mælt fyrir um að þau gagnasöfn og rannsóknir sem kostaðar hafa verið af opinberu fé tilheyri Orkustofnun. Eins og við færslu rannsóknasviðs Orkustofnunar til Íslenskra orkurannsóknar þykir réttara að gagnasöfnin tilheyri Orkustofnun því að þannig verður best tryggður til frambúðar opinn aðgangur að þeim grunnupplýsingum sem þar er að finna.
    Hins vegar er talið nauðsynlegt að bæta ákvæði til bráðabirgða við lögin til að tryggja réttindi þeirra starfsmanna sem færast af Orkustofnun til Íslenskra orkurannsókna. Gert er ráð fyrir að réttindi og allar skyldur starfsmanna samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, haldist óbreytt, enda sé aðeins um tilflutning starfa að ræða. Hliðstætt bráðabirgðaákvæði er í lögum um Íslenskar orkurannsóknir vegna flutnings starfsmanna rannsóknasviðs Orkustofnunar til Íslenskra orkurannsókna árið 2003.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu
á lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun.

    Með frumvarpinu er lagt til að vatnamælingar Orkustofnunar verði færðar undir Íslenskar orkurannsóknir en Orkustofnun mun þó áfram bera ábyrgð á vatnamælingum. Jafnframt er lagt til að Orkustofnun verði veittar heimildir til að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun til að sinna lögboðnu hlutverki sínu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.