Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 374. máls.

Þskj. 408  —  374. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Við 3. mgr. 36. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú greiðir bakábyrgðaraðili lífeyrissjóðs, sem nýtur bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka, inn á skuldbindingu sína við sjóðinn með verðbréfum skv. 1. tölul. 1. mgr. sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, og skal sjóðnum þá heimilt að eiga slík verðbréf óháð takmörkunum skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lögð til viðbót við 36. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Ákvæði 36. gr. laganna fjallar um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og kemur þar fram að lífeyrissjóðum sé heimilt að ávaxta fé sitt með þeim hætti sem nánar er tilgreint í greininni. Ákvæðið varðar því fyrst og fremst hvernig lífeyrissjóðir skuli standa að fjárfestingu þeirra fjármuna sem í sjóðina renna í formi lífeyrisiðgjalda, þ.e. setur þann ramma sem lífeyrissjóðunum ber að fara eftir við myndun eignasafna sinna.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna, sbr. 3. og 4. mgr. sömu greinar, eru engar takmarkanir á því hversu stór hluti af eignasafni lífeyrissjóðs getur verið í skráðum ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs. Séu slík bréf óskráð er lífeyrissjóði hins vegar, skv. 3. mgr. 36. gr., óheimilt að fjárfesta fyrir meira en sem nemur 10% af hreinni eign sjóðsins í slíkum bréfum.
    Samkvæmt orðalagi 36. gr. laganna snýr ákvæðið í heild sinni fyrst og fremst að fjárfestingum lífeyrissjóða. Hins vegar varðar greinin að efni til samsetningu á eignasafni sjóðanna og hefur greinin því áhrif á eignir sjóðanna óháð því hvort um beinar fjárfestingar sé að ræða eða ekki, t.a.m. þegar tiltekin bréf eru afhent lífeyrissjóði vegna uppgjörs á skuldbindingum. Af þeim sökum getur lífeyrissjóði, vegna núgildandi takmörkunar 3. mgr. 36. gr., verið óheimilt að eiga ríkisskuldabréf og skuldabréf sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs en ekki eru skráð á skipulegum markaði, umfram 10% af hreinni eign sjóðsins. Með vísan til þessa er með frumvarpi þessu lagt til að bætt verði við 3. mgr. 36. gr. laganna ákvæði sem kveður á um að í þeim tilvikum þegar bakábyrgðaraðili lífeyrissjóðs, sem nýtur bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka, greiðir inn á skuldbindingu sína við sjóðinn með verðbréfum skv. 1. tölul. 1. mgr. 36. gr., sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, þá skuli sjóðnum heimilt að taka við og eiga slík verðbréf óháð takmörkunum skv. 1. málsl. 3. mgr. 36. gr. Er sú breyting almennt séð í samræmi við önnur ákvæði 36. gr. og tilgang greinarinnar, auk þess sem að með slíkri breytingu er ekki gengið gegn þeim almennu varúðarsjónarmiðum („prudent manner principle“) sem undirliggjandi eru 36. gr. laganna.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að lífeyrissjóði verði heimilt að taka við greiðslu frá bakábyrgðaraðila inn á skuldbindingu sína við sjóðinn með verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði og eiga slík verðbréf án takmarkana. Verði frumvarpið að lögum hefur það ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.