Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.

Þskj. 415  —  378. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum á sviði Neytendastofu.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um alferðir, nr. 80/1994, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 17. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

II. KAFLI
Breyting á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum.
2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      2. málsl. orðast svo: Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda að undanskildum ákvörðunum um dagsektir.

III. KAFLI
Breyting á lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, með síðari breytingum.
3. gr.

    6. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Ákvörðunum Neytendastofu má skjóta til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda að undanskildum ákvörðunum um dagsektir. Málskot frestar ekki framkvæmd ákvörðunar.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, með síðari breytingum.
4. gr.

    Við 17. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

V. KAFLI
Breyting á lögum um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, með síðari breytingum.
5. gr.

    Á eftir 4. mgr. 18. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, með síðari breytingum.
7. gr.

    Við 11. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006.
8. gr.

    Við lögin bætist ný grein er verður 38. gr. a og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Málsmeðferð.

    Um meðferð mála hjá Neytendastofu fer samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.
    Ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga þessara verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála sem starfar á grundvelli 4. gr. laga um Neytendastofu og talsmann neytenda.
    Ágreiningur um ákvarðanir Neytendastofu um dagsektir, stjórnvaldssektir og fjárhæð þeirra verður ekki borinn undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála liggur fyrir.

9. gr.

    3. mgr. 39. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

    1. málsl. 3. mgr. 40. gr. laganna fellur brott.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005.
11. gr.

    Í stað orðanna „vog, mál og faggildingu“ í 4. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

X. KAFLI
Breyting á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994.
12. gr.

    Í stað orðsins „Neytendastofa“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: faggildingarsvið Einkaleyfastofu.

XI. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er tvíþætt. Annars vegar eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laga sem Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd á og miða breytingarnar að því að unnt sé að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Hins vegar eru lagðar til breytingar á lögum sem nauðsynlegt er að gera vegna breytinga sem gerðar voru á lögum á síðasta löggjafarþingi, þegar framkvæmd faggildingar var færð frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu með lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og þegar lög um vog, mál og faggildingu voru felld úr gildi með lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.
    Áfrýjunarnefnd neytendamála var sett á stofn með lögum nr. 62/2005, um Neytendastofu og talsmann neytenda. Lögin tóku gildi 1. júlí 2005 og hóf áfrýjunarnefndin störf á sama tíma. Til áfrýjunarnefndar neytendamála er nú hægt að skjóta stjórnvaldsákvörðunum Neytendastofu sem teknar eru á grundvelli laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, nr. 57/2005, laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, nr. 134/1995, og annarra laga sem heyra undir Neytendastofu og hafa að geyma heimild til málskots. Slíka málskotsheimild er nú að finna í lögum um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, lögum um neytendalán, nr. 121/1994, og lögum um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002. Í frumvarpi þessu er lagt til að málskotsheimild til áfrýjunarnefndarinnar verði sett í önnur lög sem Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd á, þ.e. lög um alferðir, nr. 80/1994, lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, og lög um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002. Jafnframt er lagt til í frumvarpi þessu að orðalagi áfrýjunarheimilda í lögum nr. 121/1994 og 30/2002 verði breytt til samræmis við orðalag á slíkum heimildarákvæðum sem verið er að leggja til í frumvarpi þessu.
    Breyting þessi er lögð til þar sem mikilvægt er talið að unnt sé að skjóta ákvörðunum stofnunarinnar til æðra stjórnvalds, en ákvarðanir Neytendastofu geta verið íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila.
    Þá er lagt til að bætt verði við ákvæði í þá lagabálka sem ekki hafa slík ákvæði nú þess efnis að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði heimild til að skjóta ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga um alferðir, nr. 80/1994, til áfrýjunarnefndar neytendamála. Þá er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu. Um meðferð mála fyrir áfrýjunarnefnd, komi til málskots, fer jafnframt að öllu leyti eftir sömu málsmeðferðarreglum og nú gilda um meðferð mála hjá nefndinni samkvæmt lögum og reglum settum samkvæmt þeim.

Um 2. gr.

    Í gildandi lögum um neytendalán er eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta að finna heimild til að beita úrræðum sem nú er að finna í ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Í því felst að Neytendastofu er heimilt að beita þeim úrræðum sem þar er að finna og jafnframt er þar að finna heimild til áfrýjunar ákvarðana er Neytendastofa tekur á grundvelli laganna til áfrýjunarnefndar neytendamála. Rétt þykir þó að breyta gildandi ákvæði í lögum um neytendalán þannig að orðalag í þeim lögum verði sambærilegt við orðalag í öðrum lögum sem verið er að breyta samkvæmt ákvæðum þessa lagafrumvarps. Í 25. gr. gildandi laga um neytendalán er tekið fram að ekki sé unnt að skjóta ákvörðunum Neytendastofu um dagsektir til áfrýjunarnefndar neytendamála og er lagt til að ákvæðið verði óbreytt að þessu leyti. Ástæða þess er m.a. sú að dagsektir geta verið mjög virkt úrræði og með hliðsjón af markmiðum laga um neytendalán og eftirlit með þeim þá er talið nauðsynlegt að ekki sé unnt að tefja fyrir beitingu þessa úrræðis með áfrýjun ákvarðana um fjárhæð dagsekta. Hér er því ekki um neina efnislega breytingu að ræða frá því sem gildir í núgilandi lögum um neytendalán.

Um 3. gr.

    Nú er kveðið á um það í 6. mgr. 11. gr. laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, að ákvörðunum og fyrirmælum Neytendastofu megi skjóta til úrskurðar ráðherra. Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað málskots til ráðherra verði lögfest heimild til að skjóta ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Eins og í gildandi ákvæði er lagt til að málskot fresti ekki framkvæmd ákvörðunar. Í lögum nr. 146/1996 er að finna ítarleg ákvæði um beitingu dagsekta sem hafa reynst mikilvæg í störfum Neytendastofu við framkvæmd eftirlits með lögunum. Samkvæmt gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir að ákvörðunum Neytendastofu um beitingu dagsekta sé unnt að áfrýja með sama hætti og unnt er að gera skv. 24. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Hér er því lagt til að sú skipan mála verði óbreytt enda geta brýnir öryggishagsmunir almennings krafist tafarlausra aðgerða og er því nauðsynlegt að hafa skjótvirk úrræði til að beita dagsektum undir slíkum kringumstæðum.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði heimild til að skjóta ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000, til áfrýjunarnefndar neytendamála. Þá er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu.

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði heimild til að skjóta ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, til áfrýjunarnefndar neytendamála. Ákvörðunum Neytendastofu um beitingu dagsekta er ekki unnt að áfrýja með sama hætti og unnt er að gera skv. 24. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, þar sem að áfrýjun með þeim hætti getur tafið fyrir úrlausn mála er varða brýna öryggishagsmuni almennings. Þá er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu.

Um 6. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að núverandi heimild til að skjóta ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, sbr. 6.–7. gr. og 9.–11. gr. laganna, standi óbreytt. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er verið að tryggja að lagaákvæði um málskot í þessum lögum séu í samræmi við önnur sambærileg ákvæði í lögum sem Neytendastofa fer með framkvæmd á, sbr. tillögur þær sem gerðar eru um breytingar á öðrum lögum í frumvarpi þessu.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði heimild til að skjóta ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga um vörur unnar úr eðalmálmum, nr. 77/2002, til áfrýjunarnefndar neytendamála. Hér er lagt til að ákvörðunum um beitingu dagsekta verði unnt að áfrýja með sama hætti og unnt er að gera varðandi ýmis mál sem falla undir gildissvið ýmissa annarra laga á sviði neytendaverndar. Ekki verður því séð að neinir brýnir hagsmunir, svo sem öryggi almennings, leiði til þess að ekki sé unnt að heimila málskot á slíkum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála telji aðili máls að þess sé þörf. Þá er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu.

Um 8. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að lögfest verði heimild til að skjóta ákvörðunum sem Neytendastofa tekur á grundvelli laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, til áfrýjunarnefndar neytendamála. Þá er lagt til að kveðið verði á um það í lögunum að um meðferð mála hjá Neytendastofu fari samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Markmið breytingarinnar er að tryggja gagnsæi og samræmi í málsmeðferð hjá Neytendastofu.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, falli brott, en þar er nú að finna ákvæði um að ákvörðun Neytendastofu um dagsektir verði ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir. Þess í stað er lagt til að kveðið verði á um þessi atriði í 3. mgr. 38. gr. a, sbr. 8. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 40. gr. laga um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, nr. 91/2006, falli brott, en þar er nú að finna ákvæði um málskot vegna ákvörðunar Neytendastofu um álagningu og fjárhæð stjórnvaldssekta og dagsekta. Þess í stað er lagt til að kveðið verði á um þessi atriði í 38. gr. a, sbr. 8. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda, nr. 62/2005. Nauðsynlegt er að gera breytinguna vegna samþykktar laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, sem samþykkt voru á 132. löggjafarþingi, en með lögunum var framkvæmd faggildingar færð frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu og lög um vog, mál og faggildingu felld úr gildi.

Um 12. gr.

    Í ákvæðinu er lögð til breyting á lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, sem nauðsynlegt er að gera vegna flutnings verkefna er snúa að faggildingu frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu, sbr. lög nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.

Um 13. gr.

    Í greininni er lagt til að lögin öðlist þegar gildi.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum á sviði Neytendastofu.

    Markmiðið með frumvarpinu er tvíþætt. Annars vegar eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laga sem Neytendastofa hefur eftirlit með framkvæmd á. Þar miða breytingarnar að því að unnt sé að skjóta öllum ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Í annan stað eru lagðar til breytingar sem varða færslu á framkvæmd faggildingar frá Neytendastofu til Einkaleyfastofu. Er þar um að ræða breytingar sem nauðsynlegar eru vegna laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og þegar lög um vog, mál og faggildingu voru felld úr gildi með lögum nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.