Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 385. máls.

Þskj. 427  —  385. mál.Frumvarp til laga

um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa,
skemmtibáta og annarra skipa.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra og að efla varnir gegn mengun sjávar.

2. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um áhafnir íslenskra skipa sem skráð eru hér á landi samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, annarra en farþegaskipa og flutningaskipa. Lög þessi taka jafnframt til áhafna þeirra erlendu skemmtibáta sem notaðir eru að staðaldri í íslenskri landhelgi, sbr. 4. mgr. 7. gr.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Alþjóðasamþykktin er alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar skips samkvæmt STCW eða STCW-F.
     2.      Áritun er viðurkenning skírteina erlendra ríkisborgara til starfa á íslenskum skipum samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     3.      Brúttótonn er mælieining fyrir heildarstærð skips eins og hún er ákvörðuð samkvæmt lögum um skipamælingar. Skip sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd mælast samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktar um skipamælingar frá 23. júní 1969. Skip sem eru styttri en 15 metrar að mestu lengd mælast samkvæmt ákvæðum reglugerðar um mælieiningu skipa með lengd allt að 24 metrum.
     4.      Farsvið er nánari landfræðileg skilgreining á því hafsvæði sem skipi er heimilt að sigla um að teknu tilliti til smíði, ástands og stærðar skips, búnaðar þess, mönnunar og umhverfisþátta.
     5.      Fiskiskip er hvert það skip, skrásett sem fiskiskip, sem notað er í atvinnuskyni til að veiða fisk eða aðrar lífrænar auðlindir hafsins.
     6.      Fjarskiptamaður er lögmætur handhafi skírteinis sem er gefið út eða viðurkennt af Póst- og fjarskiptastofnun samkvæmt ákvæðum alþjóðaradíóreglugerðarinnar. Með alþjóðaradíóreglugerðinni er átt við reglur um fjarskipti sem eru viðauki við, eða sem taldar eru viðauki við, alþjóðafjarskiptasamþykktina.
     7.      Fyrsti vélstjóri er sá vélstjóri sem gengur næst yfirvélstjóra og tekur við vélstjórn og ábyrgð yfirvélstjóra í forföllum hans. Fyrsti vélstjóri er sá sami og telst annar vélstjóri samkvæmt alþjóðasamþykktinni og skal uppfylla sömu kröfur og þar eru gerðar.
     8.      Innanlandssigling er sigling innan íslenskrar efnahagslögsögu.
     9.      Siglingatími er viðurkenndur starfstími um borð í skipi sem er í förum og fullnægir skilyrðum laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.
     10.      Skemmtibátur er hvert það skip, skrásett sem skemmtiskip samkvæmt lögum um skráningu skipa, sem er ekki notað í atvinnuskyni og ætlað til skemmtisiglinga, óháð þeirri orku sem knýr skipið.
     11.      Skemmtibátaskírteini er skjal sem er í gildi og er staðfesting á réttindum samkvæmt ákvæðum 7. gr. laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
     12.      Skip er hvert það skip sem skráð er samkvæmt lögum um skráningu skipa og lög þessi taka til.
     13.      Skipherra er sá sem fer með æðsta vald á varðskipi.
     14.      Skipstjóri er sá sem fer með æðsta vald á skipi, sbr. ákvæði sjómannalaga.
     15.      Skipstjórnarmaður er hver sá sem fullnægt hefur þeim skilyrðum sem lög þessi kveða á um að skuli vera fullnægt til að fá útgefið skírteini til skipstjórnar.
     16.      Skírteini ( skipstjórnarskírteini og vélstjórnarskírteini) er skjal sem er í gildi og er staðfesting á atvinnuréttindum samkvæmt ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í skírteininu skal tilgreina þá stöðu sem skírteinishafi hefur heimild til að gegna um borð í skipi miðað við gerð, stærð og vélarafl þess.
     17.      Skráningarlengd er sú lengd skips sem lögð er til grundvallar við stærðarmælingu þess samkvæmt reglum um mælingar skipa.
     18.      Smáskip eru samkvæmt lögum þessum skip sem eru 12 metrar að skráningarlengd og styttri.
     19.      Strandsigling er sigling innan 50 sjómílna frá strönd.
     20.      Stýrimaður er sá stýrimaður sem er lægra settur en yfirstýrimaður.
     21.      STCW er alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar skipa frá 1978, með síðari breytingum.
     22.      Útgerðarmaður er sá sem mannar skipið, ræður ferðum þess, ber kostnaðinn af þeim og nýtur arðsins af þeim.
     23.      Varðskip er hvert það skip, skrásett sem varðskip eða gæsluskip, sem notað er til landhelgisgæslu og björgunarstarfa undir yfirstjórn Landhelgisgæslu Íslands.
     24.      Vélarafl er bremsuafl, þ.e. heildarúttaksafl véla sem notaðar eru til að knýja skipið áfram, eins og það er tilgreint í skráningarskírteini skips.
     25.      Vélavörður er sá sem hefur lokið vélstjórnarnámi samkvæmt reglugerð.
     26.      Undirvélstjóri er sá vélstjóri sem er lægra settur en yfirvélstjóri eða fyrsti vélstjóri.
     27.      Vélstjórnarmaður er hver sá sem fullnægt hefur þeim skilyrðum sem lög þessi kveða á um að skuli vera fullnægt til að fá útgefið skírteini til vélstjórnar.
     28.      Yfirstýrimaður gengur næst skipstjóra og tekur við ábyrgð og skipstjórn í forföllum hans.
     29.      Yfirvélstjóri er æðsti vélstjóri um borð og ber ábyrgð á vélum sem knýja skipið, rekstri og viðhaldi vél- og rafbúnaðar þess.
     30.      Önnur skip eru hver þau skip sem notuð eru í atvinnuskyni og teljast ekki vera farþegaskip eða flutningaskip samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa og teljast ekki vera fiskiskip, skemmtibátar eða varðskip samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Nám og réttindi.
4. gr.

Menntun og þjálfun.

    Menntun og þjálfun áhafna skipa annast skólar sem uppfylla kröfur alþjóðasamþykktarinnar. Um inntökuskilyrði í þá skóla, námskrá, nám, námstilhögun, námsmat og námsstig til öflunar tiltekinna skírteina samkvæmt lögum þessum fer eftir lögum um framhaldsskóla og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Nám og kennsla í þeim skólum skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi.
    Starfsgreinaráð sjávarútvegs- og siglingagreina, sem starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla, gerir tillögu til menntamálaráðherra, að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands, um námskrár skólanna.
    Menntamálaráðuneytið setur reglugerð varðandi námskröfur til réttinda á smáskipum.
Siglingastofnun Íslands hefur eftirlit með að nám við þá skóla uppfylli kröfur alþjóðasamþykktarinnar.

5. gr.
Skipstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

    Sá einn sem er lögmætur handhafi skipstjórnarskírteinis skv. 8. gr. og hefur fullnægt áskilnaði reglugerðar sem samgönguráðherra setur hefur rétt til starfa við skipstjórn um borð í fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
    Lágmarksaldur til að fá útgefið skipstjórnarskírteini er 18 ár.
    Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða erlendri, vottorði frá lögskráningarstjóra eða á annan fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar. Staðfesta má siglingatíma á skipum þar sem ekki er krafist lögskráningar með vottorði tveggja trúverðugra manna.
    Skipstjórnarmenn skulu uppfylla kröfur til þess að öðlast skírteini fjarskiptamanns eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skipstjórnarmenntun til grundvallar réttindum, m.a. að teknu tilliti til stærðar skips og farsviðs þess, auk aldurs og siglingatíma skipstjórnarmanns.

6. gr.

Vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.


    Sá einn sem er lögmætur handhafi vélstjórnarskírteinis skv. 8. gr. og hefur fullnægt áskilnaði reglugerðar sem samgönguráðherra setur hefur rétt til starfa við vélstjórn um borð í fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.
    Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða útlendri, vottorði frá lögskráningarstjóra eða á annan fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar. Til staðfestingar siglingatíma á skipum þar sem ekki er krafist lögskráningar má leggja fram vottorð tveggja trúverðugra manna.
    Lágmarksaldur til að fá útgefið vélstjórnarskírteini er 18 ár.
    Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um vélgæslu- og vélstjórnarmenntun til grundvallar réttindum, m.a. að teknu tilliti til stærðar skips, vélarafls og farsviðs þess, auk aldurs, starfsreynslu og siglingatíma vélgæslu- og vélstjórnarmanns.

7. gr.

Skemmtibátar.

    Sá einn sem er lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis til stjórnunar skráningarskylds skemmtibáts hefur rétt til að annast stjórn hans að uppfylltum skilyrðum sem samgönguráðherra setur um aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn. Menntamálaráðuneytið setur reglur um menntun og þjálfun til stjórnunar skemmtibátum.
    Samgönguráðherra setur nánari reglur um skemmtibáta, þ.m.t. um útgáfu skírteina, gildistíma og endurnýjun þeirra, gerð skemmtibáta, stærð þeirra, afl og farsvið og um öryggiskröfur sem gerðar verða til skemmtibáta og stjórnenda þeirra.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja í reglugerð kröfur skv. 1. og 2. mgr. um stjórn skemmtibáta sem ekki eru skráningarskyldir en hafa vélarafl sem er meira en 50 kW.
    Þeir sem stjórna skemmtibátum sem skrásettir eru erlendis og notaðir í íslenskri landhelgi að staðaldri skulu uppfylla kröfur reglugerðar skv. 1.–3. mgr. um skírteini eða vera handhafar annars sambærilegs erlends skírteinis að mati Siglingastofnunar Íslands.

III. KAFLI
Skírteini.
8. gr.
Útgáfa skírteina.

    Hver íslenskur ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum laga þessara um menntun, siglingatíma, aldur og heilsufar, á rétt á að fá útgefið skírteini og stunda samkvæmt því atvinnu sem skipstjórnarmaður og/eða vélstjórnarmaður á íslenskum skipum.
    Sama rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyingar.
    Siglingastofnun Íslands gefur út skírteini til vélstjórnar- og skipstjórnarréttinda samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Skírteinin skulu rituð á íslensku og ensku. Útgáfa skipstjórnarskírteina og vélstjórnarskírteina og áritanir þeirra skal vera samkvæmt viðurkenndu gæðastjórnunarkerfi. Umsóknum um skírteini skal skilað til Siglingastofnunar Íslands á þar til gerðu umsóknareyðublaði eða rafrænt samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar.
    Skírteini skv. 1.–3. mgr. þessarar greinar skal veita umsækjanda sem fullnægir eftirtöldum skilyrðum:
     a.      Umsækjandi skal fullnægja skilyrðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim, m.a. um menntun, þjálfun og aldur. Skal hann m.a. hafa sótt þau námskeið sem krafist er til endurnýjunar atvinnuréttinda.
     b.      Umsækjandi skal vera svo heill heilsu að hann geti rækt störf sín af öryggi. Skal hann leggja fram vottorð læknis til staðfestingar á hæfni til vaktstöðu og því að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heilbrigðiskröfur.
     c.      Umsækjandi skal hafa að baki fullnægjandi siglingatíma, sbr. 5.–6. gr. og reglugerð þar um. Hann skal færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki. Staðfesting lögskráningarstjóra eða rétt útfyllt og árituð sjóferðabók telst fullnægjandi sönnun á siglingatíma. Umsækjandi skírteinis sem kveðst hafa að baki siglingatíma á skipi sem ekki er skráð á Íslandi skal færa sönnur á þann siglingatíma á fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar.
     d.      Auk þess að uppfylla skilyrði a–c-liðar skal sá sem gegnir stöðu skipstjóra á íslensku skipi og hefur íslensku ekki að móðurmáli hafa staðist sérstakt próf um kunnáttu og færni í íslensku og þekkingu á íslenskum lögum og reglum er varða þau störf sem þeir fá réttindi til að gegna. Samgönguráðherra setur reglur um framkvæmd prófa samkvæmt ákvæði þessu.
    Frumrit skírteinis sem krafist er skal ávallt vera um borð í því skipi sem skírteinishafi er skráður eða ráðinn á samkvæmt lögskráningarkerfi sjómanna og skal hann eða skipstjóri geta framvísað því ef og þegar þess er óskað vegna eftirlits.
    Siglingastofnun Íslands heldur skrá yfir útgefin skírteini.

9. gr.
Gildistími og endurnýjun skírteina.

    Skírteini sem gefin eru út samkvæmt lögum þessum skulu gilda í allt að fimm árum frá útgáfudegi.
    Heimilt er vegna sérstakra aðstæðna að gefa út bráðabirgðaskírteini sem gildir allt að 60 dögum.
    Endurnýja skal skírteini sem gefin eru út samkvæmt alþjóðasamþykktinni til allt að fimm árum í senn. Heimilt er að endurnýja skírteini sem ekki falla undir alþjóðasamþykktina til lengri tíma eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Við endurnýjun skírteina skal umsækjandi:
     a.      fullnægja þeim heilbrigðiskröfum sem gerðar eru á hverjum tíma til að öðlast skírteini, þ.m.t. varðandi sjón og heyrn, sbr. b-lið 4. mgr. 8. gr., og
     b.      hafa að baki siglingatíma í stöðu sem skírteini veitir honum rétt til a.m.k. í eitt ár á síðustu fimm árum, sbr. c-lið 4. mgr. 8. gr. eða
     c.      hafa verið í starfi sem samsvarar viðkomandi skírteini og telst a.m.k. sambærilegt við siglingatíma sem krafist er skv. b-lið þessarar greinar eða með því að:
                  1.      hafa staðist viðurkennd próf eða lokið á fullnægjandi hátt viðurkenndu námskeiði/ endurmenntunarnámskeiði eða
                  2.      hafa a.m.k. þriggja mánaða siglingatíma í næstu lægri stöðu sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu, samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Endurmenntunarnámskeið samkvæmt þessari grein skulu samþykkt af Siglingastofnun Íslands og skulu þau m.a. taka mið af gildandi alþjóðareglum um öryggi mannslífa á sjó, alþjóðasamþykktinni og reglum um varnir gegn mengun sjávar.

10. gr.
Viðurkenning erlendra skírteina.

    Siglingastofnun Íslands er heimilt að viðurkenna og árita erlend skírteini í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Stofnuninni er heimilt að veita handhöfum erlendra skírteina leyfi í allt að þremur mánuðum til að gegna tilteknu starfi á tilteknu skipi þar sem krafist er skipstjórnar- eða vélstjórnarréttinda á meðan staðreynt er lögmæti hins erlenda skírteinis, enda:
     a.      séu lögð fram fullgild gögn um menntun sem samræmist kröfum til skip- eða vélstjórnar samkvæmt lögum þessum
     b.      geti viðkomandi skilið fyrirmæli yfirmanna skipsins og stjórnað verkum í þeirra umboði.
    Um umsóknir frá ríkisborgurum Evrópska efnahagssvæðisins um viðurkenningu á réttindum til starfa á skipum sem lög þessi taka til skal fara í samræmi við lög og reglur um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum. Hið sama gildir um umsóknir frá ríkisborgurum aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu sem og Færeyingum.
    Um umsóknir frá ríkisborgurum utan Evrópska efnahagssvæðisins um viðurkenningu á réttindum til starfa á skipum sem lög þessi taka til skal fara eftir ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur.
    Siglingastofnun Íslands heldur skrá yfir viðurkennd erlend skírteini.

11. gr.
Afturköllun skírteinis.

    Siglingastofnun Íslands er heimilt að afturkalla skírteini ef lögmætur handhafi þess fullnægir ekki lengur skilyrðum þessara laga eða reglna settra samkvæmt þeim til að öðlast slíkt skírteini eða vera skírteinishafi. Þá er stofnuninni heimilt að afturkalla skírteini, hafi það verið gefið út á röngum forsendum eða fyrir mistök.
    Nú telur Siglingastofnun að skilyrði séu fyrir hendi til sviptingar starfsréttinda og er stofnunni þá heimilt að svipta viðkomandi starfsréttindum til bráðabirgða. Skal slík svipting vera tímabundin eða ákvörðuð til þess tíma þegar endanleg ákvörðun dómstóls um sviptinguna liggur fyrir.
    Bráðabirgðasvipting samkvæmt ákvæði þessu skal dragast frá endanlegum sviptingartíma samkvæmt dómi.
    Bera má slíka ákvörðun Siglingastofnunar Íslands undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála og skal stofnunin leiðbeina viðkomandi um þann rétt.

IV. KAFLI
Mönnun og undanþágur.
12. gr.
Lágmarksfjöldi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á
fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

    Á hverju fiskiskipi og öðru skipi skal vera skipstjóri. Um fjölda stýrimanna á fiskiskipum og öðrum skipum fer sem hér segir :
     a.      Á skipi sem er styttra en 24 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður ef útivera skips fer fram úr 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili. Á skipi þar sem daglegur útivistartími er styttri en 14 klst. er heimilt að vera án stýrimanns, enda hafi skip fengið útgefna heimild þess efnis frá mönnunarnefnd. Siglingastofnun Íslands skal halda skrá yfir þau skip sem slíka heimild hafa hlotið. Brjóti skipin skilyrtan útivistartíma skal mönnunarnefnd afturkalla heimildina.
     b.      Á skipi sem er 24 metrar að skráningarlengd eða lengra en styttra en 45 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður.
     c.      Á skipi sem er 45 metrar eða lengra að skráningarlengd skulu vera tveir stýrimenn.
    Á hverju varðskipi skal vera skipherra. Um fjölda stýrimanna á varðskipum fer sem hér segir :
     a.      Á skipi sem er styttra en 24 metrar að skráningarlengd skal vera stýrimaður.
     b.      Á skipi sem er 24 metrar að skráningarlengd eða lengra en styttra en 45 metrar að skráningarlengd skulu vera tveir stýrimenn.
     c.      Á skipi sem er 45 metrar eða lengra að skráningarlengd skulu vera þrír stýrimenn.
    Um fjölda vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum fer sem hér segir:
     a.      Á skipi með vélarafl frá og með 250 kW til og með 750 kW skal vera:
                  1.      Vélavörður, sé skipið styttra en 12 metrar að mestu lengd. Vélavörður má vera hinn sami og skipstjóri, enda sé hann eini réttindamaðurinn í áhöfn og útivera skips skemmri en 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili.
                  2.      Yfirvélstjóri, sé skipið 12 metrar að mestu lengd eða lengra.
                  3.      Yfirvélstjóri og vélavörður, sé skipið 12 metrar að mestu lengd eða lengra og útivera þess fer fram úr 14 klst. á hverju 24 klst. tímabili. Á skipi þar sem daglegur útivistartími er styttri en 14 klst. er heimilt að vera án vélavarðar, enda hafi skip fengið útgefna heimild þess efnis frá mönnunarnefnd. Siglingastofnun skal halda skrá yfir þau skip sem slíka heimild hafa hlotið. Brjóti skipin skilyrtan útivistartíma skal mönnunarnefnd afturkalla heimildina.
     b.      Á skipi með vélarafl frá og með 751 kW til og með 1.800 kW skal vera yfirvélstjóri og fyrsti vélstjóri.
     c.      Á skipi með vélarafl yfir 1.800 kW skal vera yfirvélstjóri, fyrsti vélstjóri og undirvélstjóri.
    Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem kveðið er á um í reglugerð er ekki skylt að vélavörður sé í áhöfn skips 12 metrum og styttri ef gerður hefur verið samningur við þjónustuaðila um viðhald vélbúnaðar skipsins og sá samningur er staðfestur af Siglingastofnun Íslands.
    Lágmarksfjöldi skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna um borð í skipum skv. 1.–3. mgr. skal að öðru leyti taka mið af úthaldi skips og tryggja að ákvæðum 64. gr. sjómannalaga um vinnu og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum sé fullnægt ásamt ákvæðum reglugerðar um sama efni.
    Mönnunarnefnd skv. 13. gr. laga þessara ákveður undanþágur frá mönnun skipa samkvæmt þessari grein.

13. gr.
Mönnunarnefnd.

    Samgönguráðherra skipar fimm menn í mönnunarnefnd skipa, til þriggja ára í senn og jafnmarga til vara. Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af samtökum útgerðaraðila, einum tilnefndum af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einum tilnefndum af Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Samgönguráðherra skipar formann og varamann hans án tilnefningar og skal a.m.k. annar þeirra uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
    Mönnunarnefnd hefur heimild til að:
     a.      ákveða frávik frá ákvæðum 12. gr. um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum eftir því sem tilefni gefst til, svo sem vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips, hvort sem er til fjölgunar eða fækkunar, þar sem m.a. skal taka tillit til vinnuálags sem breytingin kann að hafa í för með sér,
     b.      ákveða tímabundna breytingu á mönnun skips til reynslu með skilyrðum sem nefndin seturþó ekki lengur en sex mánuði í senn,
     c.      ákveða að sjómaður sem hlotið hefur skilgreinda þjálfun undir staðfestri leiðsögn skipstjóra eða yfirvélstjóra geti fengið undanþágu til starfa sem undirstýrimaður eða undirvélstjóri á því skipi sem hann fékk þjálfunina á eða öðru sambærilegu skipi,
     d.      meta starfstíma við vélstjórn til atvinnuréttinda samkvæmt ákvæðum reglugerðar.
    Siglingastofnun Íslands ber ábyrgð á því að ákvörðun mönnunarnefndar um frávik frá 12. gr. sé skráð í lögskráningarkerfi sjómanna. Nefndin skal senda Siglingastofnun og lögskráningarstjóra í því umdæmi þar sem lögskráning skal fara fram samkvæmt lögum um lögskráningu sjómanna samrit ákvörðunar um mönnun skips.

14. gr.
Undanþágur.

    Samgönguráðherra skipar fimm menn í undanþágunefnd til þriggja ára í senn og jafnmarga til vara. Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum tilnefndum af samtökum útgerðarmanna, einum tilnefndum af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einum tilnefndum af Félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Samgönguráðherra skipar formann og varaformann nefndarinnar án tilnefningar og skal a.m.k. annar þeirra uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
    Í undantekningartilfellum og þegar menn með tilskilin réttindi vantar til starfa getur undanþágunefnd veitt tilteknum manni undanþágu til að gegna stöðu á tilteknu skipi í tiltekinn tíma hafi umsækjandi ekki tilskilin réttindi, sbr. 5. og 6. gr., enda telji hún að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu og viðkomandi hæfan til að annast starfið á öruggan hátt.
    Undanþágu má aðeins veita þeim sem hefur skírteini til að gegna næstu lægri stöðu eða uppfyllir kröfur reglugerðar um undanþágur. Ef ekki er krafist skírteinis í næstu stöðu fyrir neðan má veita þeim undanþágu sem að mati undanþágunefndar hefur næga þekkingu og reynslu.
    Undanþágu má ekki veita til að gegna stöðu skipstjóra skv. 5. gr. eða yfirvélstjóra skv. 6. gr. nema í neyðartilvikum og þá aðeins í eins skamman tíma og unnt er.
    Undanþágunefnd veitir undanþágur til starfa á skipum samkvæmt lögum þessum.
    Undanþágur samkvæmt þessari grein má ekki veita til lengri tíma en sex mánaða.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
15. gr.

Ábyrgð skipstjóra.


    Skipstjóri á íslensku skipi ber fulla ábyrgð á framkvæmd þeirra laga og reglna sem lúta að starfi hans og settar eru af þar til bærum stjórnvöldum.

16. gr.
Vafatilvik.

    Leiki vafi á því hvort skip telst fiskiskip, varðskip, skemmtibátur eða annað skip samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim sker Siglingastofnun Íslands úr um það.

17. gr.
Kærur.

    Ákvarðanir Siglingastofnunar Íslands, undanþágunefndar og mönnunarnefndar samkvæmt
lögum þessum eru kæranlegar til samgönguráðuneytisins í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

18. gr.
Gjöld.

    Greiða skal fyrir útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina og veitingu undanþágna samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands sem af því hlýst.
    Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar.

19. gr.
Reglugerð.

    Samgönguráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um próf, skírteini og skilyrði þeirra, útgáfu skírteina, viðurkenningu erlendra skírteina, vaktstöður, undanþágur, mönnun skipa og skipan og starfshætti undanþágunefndar og mönnunarnefndar.
    Ákvæði reglugerðarinnar skulu að lágmarki uppfylla skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt alþjóðasamþykktinni.

20. gr.
Refsiákvæði.

    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum enda liggi ekki þyngri refsing við þeim samkvæmt öðrum lögum. Beita skal ákvæðum almennra hegningarlaga um tilraun og hlutdeild.

21. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2007.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um framkvæmd alþjóðasamþykktar um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, nr. 47/1987, lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, lög um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum, og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þeir sem eru lögmætir handhafar skírteina samkvæmt lögum sem falla úr gildi við gildistöku laga þessara skulu halda réttindum sínum óskertum, enda fullnægi þeir öðrum kröfum laga þessara, sbr. 4. mgr. 8. gr., sbr. 3. mgr. 9. gr.
    Heimilt er að gefa út ný skírteini í stað eldri skírteina í samræmi við ákvæði reglugerðar. Nánar skal kveðið á um gildistíma eldri skírteina í reglugerð.
    Hafi skipstjórnarmaður skírteini til skipstjórnarstarfa á skipi samkvæmt brúttórúmlestaviðmiðun eldri laga, sem hann hefur ekki réttindi til að gegna samkvæmt lögum þessum, skal hann eigi að síður eiga rétt á að fá útgefin skírteini til þess að gegna sömu störfum á því skipi og skipum sem eins háttar um, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Þeir sem við gildistöku laga þessara eru lögmætir handhafar 30 brúttórúmlesta atvinnuréttinda hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt lögum þessum til að vera skipstjórar á skipum allt að 12 metrum að skráningarlengd í strandsiglingum, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum sem krafist er til að mega gegna þeirri stöðu.
    Þeir sem eru lögmætir handhafar 80 brúttórúmlesta skipstjórnarréttinda hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt lögum þessum til að vera skipstjórar á skipum allt að 24 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum sem krafist er til að mega gegna þeirri stöðu.
    Þeir sem eru lögmætir handhafar 200 brúttórúmlesta skipstjórnarréttinda hafa rétt til að fá útgefið skírteini samkvæmt lögum þessum til að vera skipstjórar á skipum allt að 45 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum, enda fullnægi þeir öðrum skilyrðum sem krafist er til að mega gegna þeirri stöðu.
    Skipa skal í nefndir samkvæmt 13. og 14. gr. að nýju, við gildistöku laga þessara.


Viðauki.


Útgáfa nýrra skírteina og yfirfærsla eldri skírteina.

    Heimilt er að gefa út ný skírteini til skipstjórnarstarfa á íslenskum fiskiskipum og öðrum skipum samkvæmt þessum lögum og reglugerð sem sett er samkvæmt þeim í stað skírteina samkvæmt lögum nr. 112/1984 og reglugerð nr. 118/1996 á þann hátt sem eftirfarandi tafla sýnir:

Skírteini samkvæmt þessum lögum og reglugerð sem sett er samkvæmt þeim. Skírteini samkvæmt lögum nr. 112/1984 og reglugerð nr. 118/1996.
Takmarkanir:
Skipstjóri/stýrimaður á fiskiskipum og öðrum skipum     < 12 metrar eða minna að skráningarlengd.
    Réttindastig sem þeir einir eiga tilkall til sem við gildistöku þessara laga höfðu öðlast réttindi til að gegna stöðu skipstjóra og stýrimanns á skipi 30 brúttórúmlestir eða minna í innanlandssiglingum.
Skipstjóri/stýrimaður á skipi 30 rúmlestir eða minna     í innanlandssiglingum.
Skipstjóri/stýrimaður á fiskiskipi og öðrum skipum     < 24 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum.
    (Skírteini Ac og Ad).
Skipstjóri/stýrimaður á fiskiskipum og öðrum     skipum, allt að 80 brl. í innanlandssiglingum (A- 2).
Yfirstýrimaður á fiskiskipi og öðrum skipum < 45     metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum. (Skírteini Ba). Yfirstýrimaður/1. stýrimaður á fiskiskipum og öðrum     skipum 200 rúmlesta og minni í innanlandssiglingum.
    (A-3 og 1. stig) .
Skipstjóri á fiskiskipi og öðrum skipum < 45 metrar     að skráningarlengd í innanlandssiglingum.
    (Skírteini Bb).
Skipstjóri á 200 rúmlesta fiskiskipum og minni í     innanlandssiglingum
    (A-4 og 1. stig).
Undirstýrimaður – engar takmarkanir.
    (Skírteini Ab).
Undirstýrimaður á 500 rúmlesta fiskiskipum og     minni í innanlandssiglingum.
    (A-4 og 1. stig).
Yfirstýrimaður – engar takmarkanir.
    (Skírteini Ca).          
Yfirstýrimaður/1. stýrimaður á fiskiskipum og öðrum     skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði.
    (A-5 og 2. stig).
Skipstjóri – engar takmarkanir.
    (Skírteini Cb).     
Skipstjóri á fiskiskipum og öðrum skipum af     ótakmarkaðri stærð og farsviði.
    (A-6 og 2. stig).

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið þetta er í meginatriðum byggt á sömu sjónarmiðum og fram komu í frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002. Frumvarpið er samið í samgönguráðuneytinu og hjá Siglingastofnun Íslands, að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Megintilgangur þess er að viðhalda og efla öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra. Því er jafnframt ætlað að stuðla að vörnum gegn mengun hafs og stranda. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun tvennra núgildandi laga, þ.e. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum, hér eftir nefnd atvinnuréttindalög.
    Hvað varðar atvinnuréttindi til starfa á farþegaskipum og flutningaskipum hefur slík endurskoðun þegar farið fram með lögum nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa. Með þeim lögum voru m.a. tekin í íslenska löggjöf endurskoðuð ákvæði alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW 1978, International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978), með síðari breytingum. Sú alþjóðasamþykkt fjallar um lágmarkskröfur sem gera skal til áhafna farþegaskipa og flutningaskipa og nær því ekki til þeirra sem starfa á fiskiskipum og skipum sem hvorki teljast farþegaskip né flutningaskip, í frumvarpi þessu nefnd „önnur skip“. Við þá heildarendurskoðun sem nú hefur verið gerð á gildandi lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjórnarmanna á íslenskum skipum var því ákveðið að fjalla sérstaklega um áhafnir fiskiskipa og „annarra skipa“. Með frumvarpi þessu er markmiðið að gera hliðstæðar breytingar hvað þessi skip varðar og setja heildarlög um áhafnir íslenskra skipa annarra en farþega- og flutningaskipa.
    Í framhaldi af endurskoðun STCW-samþykktarinnar frá 1978 ákvað Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) að semja drög að alþjóðasamþykkt um menntun, þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna á fiskiskipum. Sú samþykkt, Alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips, svonefnd STCW-F samþykkt, í frumvarpi þessu nefnd „alþjóðasamþykktin“, var afgreidd og samþykkt á fundi IMO árið 1995 („International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Fishing Vessel Personnel“, 1995). Í þeirri samþykkt er kveðið á um menntunar- og þjálfunarkröfur, auk skírteinisútgáfu til handa þeim sem gegna störfum skipstjóra, stýrimanna, vélstjóra og fjarskiptamanna um borð í fiskiskipum sem eru 24 metrar að skráningarlengd og lengri. STCW-F samþykktin hefur ekki enn fengið þann stuðning aðildarríkja IMO sem þarf til að hún öðlist gildi alþjóðlega en Ísland er eitt sjö ríkja sem fullgilt hefur samþykktina. Hin eru Danmörk, Rússland, Sýrland, Færeyjar, Úkraína og Noregur. Með staðfestingu á aðild að STCW-F samþykktinni hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að fara að ákvæðum hennar að því er varðar þá sem starfa á fiskiskipum sem eru 24 metrar eða lengri að skráningarlengd. Með STCW-F alþjóðasamþykktinni er stuðlað að samræmingu bindandi lágmarksviðmiðana um menntun og þjálfun áhafna fiskiskipa 24 metra að skráningarlengd og lengri. Frumvarpið miðar m.a. að því að taka í íslenska löggjöf ákvæði alþjóðasamþykktarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna fiskiskipa (STCW-F) frá 1995.
    Samhliða lagasetningu um vinnutíma aðila á vinnumarkaði hefur Evrópusambandið nýlega sett reglur um vinnutíma sjómanna á kaupskipum og fiskiskipum. Með gildistöku þessara reglna hafa verið sett viðmið um vinnu- og hvíldartíma þeirra sem starfa um borð í skipum. Reglur þessar setja skorður við því hve lengi sjómönnum er heimilt að sinna störfum án hvíldar, og hafa þar með m.a. áhrif á ákvæði gildandi laga um mönnun fiskiskipa. Í frumvarpi þessu hafa ákvæði um fjölda manna í áhöfn skipa verið færð til samræmis við ákvæði um lágmarks vinnu- og hvíldartíma sjómanna á fiskiskipum.
    Helstu breytingar samkvæmt frumvarpinu eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að skírteini skipstjórnarmanna miðist við lengd skipa í metrum talið í stað brúttórúmlestatölu þeirra samkvæmt gildandi lögum. Sú aðferð að mæla stærð skips í brúttórúmlestum er byggð á alþjóðasamþykkt sem nú hefur verið felld úr gildi og er hvergi í notkun nema hér á landi. Breyting sú sem lögð er til í frumvarpinu er til samræmis við þau viðmið sem notuð eru í alþjóðasamþykktinni frá 1995. Með breytingu á viðmiðum varðandi atvinnuréttindi skipstjórnarmanna gefst að lokum færi á að leggja endanlega af mælingu skipa í brúttórúmlestum.
     2.      Gildandi lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum kveða nokkuð skýrt á um lágmarksfjölda skipstjórnarmanna háð brúttórúmlestatölu skipsins. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að lágmarksfjöldi skipstjórnarmanna á fiskiskipum taki annars vegar mið af skráningarlengd skipsins og hins vegar af ákvæðum um vinnu- og hvíldartíma skipverja á fiskiskipum.
     3.      Lagt er til að smábátanám komi í stað náms til svonefndra 30-brúttórúmlesta réttinda, eða pungaprófs, eins og þau réttindi hafa gjarnan verið nefnd.
     4.      Þá er gert ráð fyrir að atvinnuréttindi kennd við fyrsta stig skipstjórnarnáms, sem hafa veitt réttindi til starfa sem skipstjóri á skipum allt að 200 brúttórúmlestum, veiti réttindi til starfa á skipum allt að 45 metrum að lengd. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir nýju réttindastigi til starfa á skipum sem eru allt að 24 metrum að skráningarlengd. Með þessu fyrirkomulagi eru atvinnuréttindi aðlöguð að ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar auk þess sem komið er til móts við óskir um mögulega styttingu náms til lægri atvinnuréttinda skipstjórnarmanna.
     5.      Samkvæmt frumvarpinu munu atvinnuréttindi vélstjóra miðast áfram við afl aðalvélar í kW á svipaðan hátt og í gildandi lögum, að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á ákvæðum um vinnu- og hvíldartíma skipverja á fiskiskipum. Gerðar eru breytingar á réttindaflokkum vegna starfa á skipum með vélarafl undir 750 kW í þeim tilgangi að einfalda menntunarkröfur og skírteinisútgáfu vegna vélstjórnarréttinda. Breytingarnar taka m.a. mið af þróun í skipagerð og sjósókn undanfarinna ára.
     6.      Með frumvarpinu er lagt til að Siglingastofnun Íslands verði falin útgáfa atvinnuskírteina til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Samkvæmt gildandi lögum hefur útgáfa atvinnuskírteina verið hjá sýslumönnum og tollstjóranum í Reykjavík. Til einföldunar og aukins samræmis og til að tryggja sérfræðiþekkingu við útgáfu skírteina er talið heppilegra að útgáfa þeirra sé á einni hendi, þ.e. hjá Siglingastofnun. Siglingastofnun fer samkvæmt lögum nr. 76/2001, um áhafnir farþegaskipa og flutningaskipa, með útgáfu alþjóðlegra STCW-skírteina og hefur m.a. sett upp gæðakerfi sem tekur til útgáfu slíkra skírteina. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að gæðakerfið verði jafnframt notað við útgáfu skírteina samkvæmt því.
     7.      Engar kröfur hafa fram til þessa verið gerðar til þeirra sem stjórna skemmtibátum hér við land. Í ljósi þess að skemmtibátum hefur fjölgað mikið, þeir stækkað og vélarafl þeirra aukist, og þar sem erlendis eru víða gerðar kröfur um lágmarksþekkingu og færni við stjórnun skemmtibáta, er í frumvarpinu lagt til það nýmæli að stjórnendum skemmtibáta verði gert skylt að afla sér grunnþekkingar á öryggisþáttum sem tengjast siglingum og skipstjórn og að þeir þurfi að hafa gilt skipstjórnarskírteini (skemmtibátaskírteini). Með skemmtibátum er í frumvarpinu átt við þau skip sem skrásett eru sem skemmtiskip samkvæmt lögum um skráningu skipa. Gert er ráð fyrir að kröfur um menntun og þjálfun til að mega stjórna skemmtibát af tiltekinni stærð og með tiltekið vélarafl verði tilgreindar í reglugerð.
    Framangreindar breytingar á skipulagi skipstjórnarnáms hafa þær afleiðingar að taka þarf námskrá til skipstjórnarnáms til endurskoðunar. Sama gildir um námskrá til vélstjórnarnáms vegna breytinga á skipulagi vélstjórnarnáms að því er varðar lægri vélstjórnarréttindi, auk minni breytinga á kröfum um æðri vélstjórnarréttindi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Grein þessi fjallar um markmið laganna, sem er að tryggja að þeir sem gegna störfum skipstjórnar- og vélstjórnarmanna hafi fullnægjandi menntun og þjálfun sem og önnur skilyrði til þeirra starfa.

Um 2. gr.


    Ákvæðið markar gildissvið laganna. Lögum þessum er ætlað að taka til áhafna allra íslenskra skipa sem skráð eru á skipaskrá samkvæmt lögum um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum, nema farþega- og flutningaskipa. Þau nýmæli eru í lögum þessum að þau taka einnig til stjórnenda íslenskra skemmtibáta og til stjórnenda þeirra erlendu skemmtibáta sem notaðir eru að staðaldri í íslenskri landhelgi, sbr. 4. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Er hér átt við skemmtibáta sem skrásettir eru erlendis en notaðir í íslenskri landhelgi að staðaldri. Skulu stjórnendur slíkra báta eingöngu fullnægja ákvæðum 7. gr. um skemmtibátaskírteini eða vera handhafar annars sambærilegs erlends skírteinis. Um nánari umfjöllun vísast til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Í greininni eru einstök hugtök sem notuð eru í frumvarpinu skilgreind. Byggt er á sambærilegum skilgreiningum og í alþjóðasamþykktinni. Nokkur ný hugtök eru skilgreind sem ekki hafa áður verið skilgreind eða notuð í íslenskri löggjöf.

Um 4. gr.


    Greinin er að mestu leyti efnislega samhljóða 3. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa. Tekið er tillit til þess að menntun, að því er varðar lægri atvinnuréttindi, tekur mið af ákvæðum STCW-F alþjóðasamþykktarinnar. Gerð er krafa um viðurkennt gæðastjórnunarkerfi gagnvart námi til atvinnuréttinda.
    Í greininni eru ekki lagðar til breytingar á fyrirkomulagi kennslu samkvæmt gildandi lögum, þ.m.t. kennslu til lægri réttinda, heldur eru með ákvæðinu settar fram hóflegar kröfur á þá aðila sem sinna umræddri kennslu á grundvelli gæðastjórnunarkerfis, t.d. í formi gæðahandbókar, sem skólar útbúa í samræmi við ákvæði reglugerðar.
    Samkvæmt lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996, er miðað við að starfsgreinaráð sjávarútvegs- og siglingagreina geri tillögur til menntamálaráðherra um námskrár framhaldsskóla, þ.m.t. um menntun og þjálfun áhafna skipa. Miðað er við að starfsgreinaráð leiti umsagnar Siglingastofnunar Íslands um efni slíkra námskráa, enda ber Siglingastofnun Íslands ábyrgð á framkvæmd alþjóðasamþykktanna gagnvart Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) sem setur reglur um menntun og þjálfun áhafna skipa á alþjóðavettvangi.

Um 5. gr.


    Í greininni er kveðið á um að þeir einir sem eru handhafar viðeigandi atvinnuskírteina hafi rétt til að gegna starfi skipstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Með tilvísun í 8. gr. frumvarpsins er m.a. settur fram áskilnaður um að viðkomandi þurfi að fullnægja skilyrðum um menntun, þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn til að geta öðlast réttindi skv. 5. gr. Þessi skilyrði eru nánar útfærð í reglugerð sem samgönguráðherra setur. Í 5. gr. eru sett fram ófrávíkjanleg skilyrði um lágmarksaldur skipstjórnarmanns.
    Lagt er til að samgönguráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um samspil náms og réttinda til skipstjórnar að teknu tilliti til siglingatíma skipstjórnarmanns auk stærðar og farsviðs skips. Gert er ráð fyrir að sú reglugerð verði lögð fram samhliða frumvarpinu og að gildistaka hennar miðist við gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum. Þar verði m.a. gert ráð fyrir að í stað þeirra 30-rúmlesta skipstjórnarréttinda sem núgildandi lög um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum kveða á um komi smáskiparéttindi til skipstjórnar á skipum sem eru 12 metrar að mestu lengd og minni í strandsiglingum. Framangreind skipstjórnarréttindi, og það nám sem krafist hefur verið til þess að öðlast þau, hafa um árabil verið mjög umdeild, sérstaklega fyrir þá mismunun sem af þeim leiðir gagnvart þeim menntunarkröfum sem gerðar eru til þess að mega gegna stöðu skipstjórnarmanns á skipum undir og yfir 30 brúttórúmlestum. Tilurð 30-rúmlesta atvinnuréttindanna má væntanlega rekja til þess að á árum áður hafi ekki þótt tilefni til þess að gera sömu kröfur um menntun og þjálfun til skipstjórnarstarfa á bátum sem eingöngu voru gerðir út á grunnslóð og til starfa á bátum og skipum sem gerðir voru út til veiða á úthafinu. Þau mörk sem þessi atvinnuréttindi miðuðust upprunalega við, hafa í tímans rás stöðugt færst ofar. Samfara þessu hefur sú þróun orðið í skipahönnun að skip sem nú mælast 30 brúttórúmlestir eru mun stærri og öflugri en þau sem mældust 30 rúmlestir þegar núgildandi lög voru sett. Nú er svo komið að skip sem mælast vel undir 30 brúttórúmlestum eru að veiðum á sömu miðum og mun stærri fiskiskip. Þrátt fyrir það eru kröfur til menntunar og þjálfunar skipstjórnarmanna til starfa á skipum undir og yfir 30 brúttórúmlestum mjög ólíkar. Til þess að koma til móts við þá gagnrýni sem beinst hefur að 30-rúmlesta skipstjórnarréttindunum og til þess að færa þau réttindi meira til samræmis við þær hugmyndir sem lágu að baki þeim þegar núgildandi lög voru sett hefur náðst samstaða um að í reglugerð verði gert ráð fyrir smáskiparéttindum sem miðist við 12 metra mestu lengd skips og að farsvið takmarkist við strandsiglingar sem eru 50 sjómílur frá landi. Þessi afmörkun farsviðs miðast við hafsvæðið sem sjálfvirka tilkynningakerfið STK nær til.
    Samkvæmt gildandi lögum eru tvö réttindastig til skipstjórnar á íslenskum fiskiskipum stærri en 30 brúttórúmlestir, þ.e. fyrsta stig skipstjórnarréttinda sem m.a. veitir rétt til að gegna stöðu skipstjóra á fiskiskipi allt að 200 brúttórúmlestum og annað stig sem veitir ótakmörkuð réttindi.
    Í reglugerð er gert ráð fyrir að réttindastig til starfa á fiskiskipum stærri en 12 metrar að lengd verði skilgreind þrjú, þ.e. atvinnuréttindi til starfa á skipum undir 24 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum, atvinnuréttindi til starfa á skipum undir 45 metrum að skráningarlengd í innanlandssiglingum og atvinnuréttindi án takmarkana. Þetta á sér skýringar í því að skip sem nú mælast um 200 brúttórúmlestir eru um og yfir 30 metrar að skráningarlengd og þá um og yfir 35 metrar að mestu lengd. Þar sem STCW-F alþjóðasamþykktin gildir um fiskiskip sem eru 24 metrar og lengri að skráningarlengd þótti rétt að í stað 200- rúmlesta viðmiðunar kæmu annars vegar 45 metra skráningarlengd og hins vegar 24 metra skráningarlengd sem réttindaviðmið. Með þessu er talið að mögulegt geti verið að stytta nám til 24 metra skipstjórnarréttinda, samanborið við núverandi nám til fyrsta stigs skipstjórnarnáms, og þá jafnframt opna leið til þess að öðlast megi réttindi til starfa á skipum undir 45 metrum án þess að þurfa að ljúka námi til ótakmarkaðra skipstjórnarréttinda. Hafa m.a. verið færð þau rök fyrir þessu fyrirkomulagi að með því sé skipstjórnarnámið gert áhugaverðara sem framhaldsskólanám í samkeppni við annað framhaldsskólanám. Lagt er til að réttindi til þess að mega gegna stöðu stýrimanns á skipum undir 24 metrum veiti jafnframt heimild til þess að gegna stöðu skipstjóra á skipum sem eru 12 metrar og styttri að skráningarlengd.
    Allir skipstjórnarmenn skulu uppfylla kröfur til þess að öðlast skírteini fjarskiptamanns, eins og nánar er skilgreint í reglugerð.
    Gerð verður frekari grein fyrir samspili siglingatíma, takmarkana og réttinda í reglugerð sem samgönguráðherra setur.

Um 6. gr.


    Hér er kveðið á um að þeir einir sem eru handhafar viðeigandi atvinnuskírteina hafi rétt til að gegna starfi vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Með tilvísun í 8. gr. frumvarpsins er m.a. settur fram áskilnaður um að viðkomandi þurfi að fullnægja skilyrðum um menntun, þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn til að geta öðlast réttindi skv. 6. gr. Þessi skilyrði eru nánar útfærð í reglugerð sem samgönguráðherra setur.
    Lagt er til í frumvarpinu að samgönguráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um samspil náms og réttinda til vélstjórnar að teknu tilliti til siglingatíma og/eða starfsreynslu vélstjórnarmanns auk vélarafls, stærðar og farsviðs skips. Gert er ráð fyrir að sú reglugerð verði lögð fram samhliða frumvarpinu og að gildistaka hennar miðist við gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum. Í reglugerðinni verði ekki gerðar tillögur um verulegar breytingar á skipulagi atvinnuréttinda vélstjórnarmanna, aðeins minni háttar lagfæringar til samræmingar.
    Við mat á siglingatíma þykir rétt að áfram verði heimilt að taka tillit til starfsreynslu og starfstíma við vélstjórn í landi og við aðrar stærðir véla eins og nánar verður útfært í reglugerð til samræmis við samsvarandi ákvæði í 3. gr. laga nr. 113/1984, um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða.
    Samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar skulu þeir sem gegna stöðu yfirvélstjóra og fyrsta vélstjóra á skipum með vélarafl 750 kW og meira hafa a.m.k. 12 mánaða siglingatíma við störf í vélarrúmi skipa sem hluta verklegrar þjálfunar samkvæmt alþjóðasamþykktinni. Þeir sem gegna starfi yfirvélstjóra á skipum með vélarafl 750 kW og meira skulu hafa að baki a.m.k. 24 mánaða siglingatíma við störf í vélarrúmi, þar af a.m.k. 12 mánaða siglingatíma sem fyrsti vélstjóri.
    Gerð verður frekari grein fyrir samspili siglingatíma, takmarkana og réttinda í reglugerð sem samgönguráðherra setur

Um 7. gr.


    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir nýju ákvæði um menntun og þjálfun þeirra sem stjórna skemmtibátum. Jafnframt er lagt til að skilyrði þess að mega stjórna skemmtibát sé að viðkomandi hafi lokið viðeigandi námi og geti framvísað skírteini stjórnanda skemmtibáts.
    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins telst skemmtibátur hvert það skip sem ekki er notað í atvinnuskyni og ætlað er til skemmtisiglinga óháð þeirri orku sem knýr skipið. Í greininni er að finna heimild til samgönguráðherra til að setja reglugerð um menntun, þjálfun og skírteinisútgáfu til þeirra sem öðlast vilja rétt til að stjórna skemmtibátum. Gert er ráð fyrir að krafa um menntun og þjálfun nái til skipa og báta sem eru skráningarskyldir samkvæmt lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa, þ.e. sem eru 6 metrar eða lengri stafna á milli. Jafnframt er gert ráð fyrir heimild samgönguráðherra til að setja reglur um þá skemmtibáta sem ekki eru skráningarskyldir en hafa vélarafl sem er meira en 50 kW. Með vísan til öryggissjónarmiða og vegna talsverðrar aukningar aflmikilla báta af þessu tagi (minni en 6 metrar að lengd stafna á milli) er talið að þörf geti skapast til að gera kröfur til stjórnenda slíkra báta.
    Þar sem talsverð brögð hafa verið að því að skemmtibátar sem notaðir eru við strendur Íslands séu skráðir erlendis er gert ráð fyrir heimild til að setja reglur um erlenda skemmtibáta sem eru í notkun innan íslenskrar landhelgi að staðaldri.
    Núna eru á íslenskri skipaskrá um 400 skemmtibátar og eru flestir þeirra um 5–30 brúttótonn en allir undir 65 brúttótonnum. Verði frumvarpið að lögum er þetta í fyrsta sinn sem fjallað er sérstaklega um skemmtibáta í lögum og krafist skírteinis til að stjórna slíkum bátum. Erlendis eru víða í gildi ítarleg ákvæði um menntun og þjálfun þeirra sem stjórna skemmtibátum. Margir þeirra sem eiga skemmtibát við strendur landsins hafa aflað sér menntunar á þessu sviði.
    Það krefst kunnáttu og þekkingar að stjórna skemmtibát eins og öðrum bátum. Því er nauðsynlegt að þeir sem stjórna slíkum bátum hafi til þess þá lágmarksþekkingu sem krafist er af öðrum sem um svæðið sigla og nauðsynleg er til að fyllsta öryggis sé gætt. Stjórnendur skemmtibáta þurfa að geta sannað þekkingu sína með einhverjum hætti og er því í frumvarpinu gert ráð fyrir heimild til að setja reglugerð þar sem gerðar yrðu kröfur til stjórnenda slíkra báta. Stjórnendur skemmtibáta verða að þekkja siglingareglur á umferðarleiðum til að tryggja öryggi bátsins og manna um borð og annarra sem á sjó sigla. Þeir þurfa einnig að geta staðsett bátinn og komist aftur til lands þótt aðstæður séu erfiðar. Einnig verða þeir að geta brugðist rétt við hættum á neyðarstundu. Auknar líkur eru á mistökum ef kunnáttan er lítil. Mistök og vanþekking geta haft alvarlegar afleiðingar, svo sem valdið tjóni, jafnt á skemmtibátnum sjálfum sem öðrum skipum og umhverfi, auk meiðsla á fólki eða jafnvel banaslysum í alvarlegustu tilvikunum. Sé tjónið bætanlegt fellur það á tryggingafélag bátsins sem á endanum getur þurft að bera skaðann af mistökum eða vanþekkingu skipstjórnarmanns.
    Með hliðsjón af framangreindu er eðlilegt að gerðar séu kröfur til stjórnenda skemmtibáta á sama hátt og gert er um önnur farartæki. Í reglugerð verður nánar kveðið á um þær námskröfur sem gerðar eru til þeirra sem óska eftir að fá skírteini til stjórnunar skemmtibáts. Ætlast er til þess að nám til stjórnunar skemmtibáts feli í sér fullnægjandi fræðslu á skipstjórn skemmtibáts og vélbúnaði hans svo að fyllsta öryggis sé gætt.

Um 8. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum eru skírteini til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna gefin út af sýslumönnum úti á landi og tollstjóranum í Reykjavík, sbr. 13. gr. laga nr. 112/1984, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, og 9. gr. laga nr. 113/1984, um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Í 3. mgr. er lögð til sú breyting að öll útgáfa atvinnuskírteina verði í höndum Siglingastofnunar Íslands. Með því er leitast við að tryggja að samræmi verði í útgáfu atvinnuskírteina. Gert er ráð fyrir því að sækja þurfi skriflega um skírteini til staðfestingar á atvinnuréttindum á þar til gerðu umsóknareyðublaði sem Siglingastofnun Íslands ákveður eða rafrænt. Í 4. mgr. er kveðið á um skilyrði þess að umsækjandi geti fengið útgefið skírteini skv. 3. mgr. Umsækjendur þurfa að fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
    Í fyrsta lagi er sett það skilyrði fyrir útgáfu skírteinis að umsækjandi sé íslenskur ríkisborgari eða ríkisborgari annars ríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (þ.m.t. Svisslendingur) eða Færeyingur. Ríkisborgarar annarra ríkja eiga því ekki rétt á að fá útgefin skírteini á grundvelli ákvæðisins.
    Í öðru lagi er gerð krafa um að umsækjandi fullnægi skilyrðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim um menntun og þjálfun og aldur. Með þessu er gerð krafa um að viðkomandi hafi undirgengist þau próf sem áskilin eru og búi yfir þeirri hæfni sem til þarf til að geta öðlast viðeigandi réttindi.
    Í þriðja lagi er þess krafist að umsækjandi sé svo heill heilsu að hann geti rækt störf sín af öryggi. Er hér m.a. vísað til þess að viðkomandi hafi fullnægjandi sjón og heyrn til samræmis við áskilnað í reglugerð sem ráðherra setur. Umsækjanda ber að leggja fram vottorð læknis til staðfestingar á því að hann uppfylli þær heilsufarskröfur sem áskildar eru í reglugerð.
    Í fjórða lagi skal umsækjandi uppfylla kröfur um siglingatíma eins og hann er skilgreindur í 5. og 6. gr. og reglugerð þar um. Áskilið er að umsækjandi færi sönnur á siglingatíma með staðfestingu lögskráningarstjóra, rétt útfylltri sjóferðabók eða öðrum fullnægjandi hætti að mati Siglingastofnunar Íslands eftir atvikum.
    Í fimmta lagi er gerð sérstök viðbótarkrafa til umsækjanda sem hyggst sækja um réttindi til að gegna stöðu skipstjóra á íslensku skipi, umfram framangreindar kröfur. Krafan varðar tungumálakunnáttu umsækjanda sem ekki hefur íslensku að móðurmáli sem og þekkingu hans á íslenskum lögum og reglum sem varða störf skipstjóra. Erlendir ríkisborgarar sem sækja um réttindi til að vera skipstjórar og ekki hafa íslensku að móðurmáli skulu hafa nauðsynlega þekkingu í íslensku tal- og ritmáli svo og íslenskum lögum og reglum sem varða störf þeirra og geta tjáð sig á sama tungumáli um starfssvið sitt. Reglan er í samræmi við reglur annarra EES-ríkja.
    Í 5. mgr. er gerð krafa um að frumrit skírteinis skuli ávallt vera um borð í skipi því sem skírteinishafi starfar á. Ákvæði þetta er í samræmi við alþjóðasamþykktina og gildandi atvinnuréttindalög. Framangreind krafa er nauðsynleg vegna eftirlits, t.d. Landhelgisgæslunnar. Í 6. mgr. er kveðið á um að Siglingastofnun Íslands haldi skrá yfir öll útgefin skírteini.

Um 9. gr.


    Í samræmi við 8. gr frumvarpsins er lagt til að Siglingastofnun Íslands sjái um endurútgáfu skírteina.
    Gildandi lög hafa ekki heimilað útgáfu bráðabirgðaskírteinis í þeim tilvikum er skírteini t.d. glatast eða er útrunnið og viðkomandi þarf að framvísa skírteini eða meðan umsókn um endurnýjun skírteinis er til umfjöllunar. Í frumvarpinu er það nýmæli að heimild verður veitt til þess að gefa út bráðabirgðaskírteini vegna sérstakra aðstæðna til allt að 60 dögum. Siglingastofnun metur hvenær aðstæður eru með þeim sérstaka hætti að ástæða sé til útgáfu bráðabirgðaskírteinis samkvæmt ákvæðinu.
    Í frumvarpinu er til samræmis við ákvæði alþjóðasamþykktarinnar gert ráð fyrir að skírteini sem gefin eru út samkvæmt ákvæðum gildandi alþjóðasamþykkta gildi til fimm ára. Þar er hins vegar heimild til þess að endurnýja skírteini sem ekki eru gefin út samkvæmt gildandi alþjóðasamþykktum til lengri tíma eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Gert er ráð fyrir að skírteinishafi viðhaldi þekkingu sinni og er þess krafist við endurnýjun skírteina að hann hafi siglingatíma í þeirri stöðu sem skírteinið veitir honum rétt til sem nemur að lágmarki tólf mánuðum á síðustu fimm árum. Hafi hann það ekki er gerð krafa um að hann hafi verið í starfi sem teljist sambærilegt. Ef það á ekki við verður umsækjandi að standast viðurkennt próf eða ljúka eða hafa lokið viðurkenndu námskeiði/endurmenntunarnámskeiði eða hafa siglingatíma sem yfirmaður í a.m.k. þrjá mánuði í næstu lægri stöðu sem hann á tilkall til samkvæmt skírteini sínu.
    Áskilið er að umsækjandi fullnægi þeim heilbrigðiskröfum sem gerðar eru á hverjum tíma til að öðlast skírteini, þ.m.t. varðandi sjón og heyrn. Skilyrðið hefur það í för með sér að breytingar á heilsufari umsækjanda frá því að hann fékk útgefið skírteini síðast fram til þess er hann sækir um endurnýjun þess geta valdið því að umsókn um endurnýjun verði hafnað. Hið sama gildir ef gerðar eru breytingar á lögum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim þannig að heilbrigðiskröfur eru auknar með tilliti til öryggissjónarmiða. Þau réttindi sem þá eru í gildi halda gildi sínu áfram til samræmis við gildandi meginreglur atvinnuréttinda en við umsókn um endurnýjun skírteina er óumflýjanlegt annað en taka tillit til aukinna heilbrigðiskrafna.

Um 10. gr.


    Í greininni er fjallað um viðurkenningu erlendra skírteina. Megintilgangur með alþjóðasamþykktinni er að samræma kröfur um menntun og þjálfun sjómanna.
    Á grundvelli alþjóðasamþykktarinnar er Siglingastofnun Íslands heimilt að viðurkenna skírteini frá ríkjum sem eru aðilar að alþjóðasamþykktinni. Er lagt til að gerðar verði sömu menntunarkröfur til erlendra ríkisborgara og innlendra. Í viðurkenningu á erlendum skírteinum felst jafnframt heimild til að gefa út nýtt íslenskt skírteini á grundvelli hins erlenda.
    Tilskipun ráðsins 89/48/EBE fjallar um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur a.m.k. í þrjú ár. Tilskipun ráðsins 92/51/EBE, sem vísað er til í lagagreininni, fjallar hins vegar um viðurkenningu á starfsmenntun og starfsþjálfun sem fyrrnefnda tilskipunin tekur ekki til og ekki er fjallað um í öðrum tilskipunum. Í tilskipuninni er gerð grein fyrir því hvernig farið skuli með umsóknir um viðurkenningu á starfsmenntun og starfsþjálfun. Almennt er miðað við að hafi umsækjandi fengið útgefið prófskírteini í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins sé ekki unnt að synja honum um heimild til að starfa í viðkomandi starfsgrein með sömu skilyrðum og ríkisborgurum viðkomandi ríkis. Þrátt fyrir þetta getur gistiríkið gert vissar ráðstafanir ef verulegur munur er á menntun umsækjanda og þeirri menntun sem gerð er krafa um í gistiríkinu. Hér má nefna að gistiríkið getur gert kröfu um að umsækjandinn ljúki tilteknum aðlögunartíma eða taki hæfnispróf, sbr. t.d. d-lið. 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins um kunnáttu og færni í íslensku og þekkingu á íslenskum lögum og reglum.
    Í tilskipun Evrópusambandsins, sem jafnframt gildir á Evrópska efnahagssvæðinu, um lágmarksþjálfun sjómanna 94/58/EB, sbr. breytingu 98/35/EB, er fjallað um hvernig standa eigi að viðurkenningu á skírteinum ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að Siglingastofnun Íslands haldi skrá yfir viðurkennd erlend skírteini með sama hætti og innlend.

Um 11. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eiga sér fyrirmynd í 15. gr laga nr 76/2001, um áhafnir farþegaskipa og flutningaskipa, og í 15. gr. laga nr 112/1984, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, með síðari breytingum. Um er að ræða sviptingu lögvarinna atvinnuréttinda, fullnægi lögmætur handhafi þeirra ekki lengur skilyrðum laganna eða reglna settra samkvæmt þeim. Þá er í frumvarpinu að finna heimild til að afturkalla skírteini sem kann að hafa verið gefið út á röngum forsendum. Ákvörðun Siglingastofnunar um sviptingu starfsréttinda verður borin undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála.

Um 12. gr.


    Greinin miðar að mestu leyti við sömu reglur og eru í gildandi lögum. Í stað brúttórúmlesta miðast fjöldi skipstjórnarmanna við lengd skips, útiveru og ákvæði sjómannalaga um vinnu- og hvíldartíma. Fjöldi vélstjórnarmanna tekur mið af vélarafli skipsins og ákvæði sjómannalaga um vinnu- og hvíldartíma. Ákvæði um 14 klst. útiveru að hámarki á hverju 24 klst. tímabili taka mið af ákvæðum sjómannalaga um vinnu- og hvíldartíma. Þau fela í sér takmarkanir á því hve lengi einn maður hefur heimild til að vera samfellt eini vakthafandi skipstjórnar- eða vélstjórnarmaðurinn um borð. Með þessu er gætt samræmis við ákvæði sjómannalaga um vinnu- og hvíldartíma skipverja.
    Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir lögbundnum lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á varðskipum.

Um 13. gr.


    Gert er ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi mönnunarnefndar samkvæmt gildandi atvinnuréttindalöggjöf að því undanskildu að ekki er lengur skylt að leita umsagnar Siglingastofnunar áður en ákvörðun um mönnun er tekin. Siglingastofnun ber áfram ábyrgð á því að ákvörðun nefndarinnar um lágmarksfjölda og skírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna sé skráð í lögskráningarkerfi sjómanna. Mönnunarnefnd skal senda Siglingastofnun samrit ákvörðunar um mönnun fiskiskips.
    Ráðherra setur nánari reglur um lágmarksmönnun skipa og skipan og starfshætti mönnunarnefndar, sbr. 19. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.


    Í greininni er kveðið á um hvernig með skuli fara ef veita á undanþágu til að gegna tilteknu starfi um borð í skipi. Miðað er við óbreytt fyrirkomulag frá gildandi atvinnuréttindalöggjöf.
    Lagt er til að óheimilt verði að veita undanþágu til að gegna stöðu skipstjóra, sbr. 5. gr., og yfirvélstjóra, sbr. 6. gr., sem og reglugerð þar um, nema í algerum neyðartilvikum og þá aðeins í mjög skamman tíma. Gert er ráð fyrir að undanþágunefnd meti hvaða tilvik teljist til neyðartilvika í hvert sinn.
    Gert er ráð fyrir að undanþágunefnd fjalli um og veiti undanþágur til að gegna stöðu á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum. Almennt er ekki gert ráð fyrir að undanþágur séu veittar til stjórnunar skemmtibáta.
    Ráðherra setur nánari reglur um undanþágur og skipan og starfshætti undanþágunefndar, sbr. 19. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 112/1984, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1995, og varðar ábyrgð skipstjóra á framkvæmd laga þessara, sem og annarra laga og reglna sem fjalla um starfsskyldur hans.

Um 16. gr.


    Greinin kveður á um heimild Siglingastofnunar Íslands til að skera úr um það í vafatilvikum hvort skip teljist vera fiskiskip, varðskip, skemmtibátur eða flokkist undir önnur skip samkvæmt ákvæðum laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

Um 17. gr.


    Lagt er til að ákvarðanir Siglingastofnunar Íslands, undanþágunefndar og mönnunarnefndar verði kæranlegar til samgönguráðuneytis. Um kærur fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

Um 18. gr.


    Hér er kveðið á um að Siglingastofnun Íslands sé heimilt að taka gjöld fyrir veitta þjónustu til að standa undir beinum kostnaði stofnunarinnar við útgáfu skírteina samkvæmt frumvarpinu. Lagt er til að gjöldin verði ákveðin í gjaldskrá Siglingastofnunar Íslands.

Um 19. gr.


    Miðað er við að samgönguráðherra setji nánari reglur um útfærslu laganna.

Um 20. gr.


    Ekki er gert ráð fyrir breytingum á gildandi atvinnuréttindalöggjöf hvað varðar refsiheimildir.

Um 21. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að frumvarp þetta, verði það að lögum, taki gildi 1. maí 2007. Er það gert til að gefa viðkomandi aðilum tiltekið svigrúm til að afla sér þeirrar menntunar, þjálfunar og skipstjórnarskírteinis sem 7. gr. gerir kröfu um og svo að mögulegt sé að endurskoða námskrá skipstjórnarnáms og vélstjórnarnáms til samræmis við þær breytingar sem í frumvarpi þessu felast.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið segir til um með hvaða hætti skuli farið um þau atvinnuréttindi sem kunna að taka breytingum samfara gildistöku þessa frumvarps, verði það að lögum.
    Gert er ráð fyrir að þeir sem eru rétthafar skírteinis fyrir gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum, haldi réttindum sínum sem næst óskertum, enda fullnægi þeir öðrum kröfum frumvarpsins, t.d. um endurnýjun og viðhald skírteina. Við gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum, verður heimilt að fá gefin út ný skírteini til samræmis við ákvæði þess þó að gildistími eldri skírteina sé ekki runninn út.
    Í 2. mgr. er miðað við að breyttar mælingarreglur skuli ekki leiða til þess að skírteinishafi missi réttindi til að starfa á skipi sem hann hefur þegar öðlast. Hafi skírteinishafi öðlast réttindi samkvæmt eldri eða gildandi lögum þar sem miðað var við stærð skips í brúttórúmlestum telst hann eftir breytinguna halda sambærilegum réttindum til að starfa á því skipi eða samsvarandi skipi sem hann áður hafði réttindi til að starfa á samkvæmt brúttórúmlestastærð skips sem mælist nú stærra í brúttótonnum eða metrum. Skilyrði þessa eru að stærð skipsins hafi verið mæld í brúttórúmlestum, án tillits til þess hver stærð þess er í brúttótonnum eða metrum, og að skipinu hafi ekki verið breytt frá því það var mælt þannig að brúttórúmlestamæling skipsins sé úr gildi fallin. Um yfirfærslu eldri skírteina í skírteinaflokka samkvæmt frumvarpi þessu er tekið mið af viðauka.
    Að lokum er kveðið á um að við gildistöku laganna skuli skipa á ný í mönnunarnefnd og undanþágunefnd skv. 13. og 14. gr.Fylgiskjal I.


Samgönguráðuneytið:


Drög að reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi
á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum


1. gr.
Markmið.

    Markmið þessarar reglugerðar er að mæla fyrir um skilyrði þess að fá útgefið skipstjórnarskírteini og vélstjórnarskírteini á fiskiskip, varðskip og önnur skip til samræmis við ákvæði laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

2. gr.
Gildissvið.

    Reglugerð þessi og viðaukar hennar taka til áhafna íslenskra fiskiskipa, varðskipa og annarra skipa, sem ekki falla undir ákvæði alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978 með síðari breytingum, þ.e. svonefndrar STCW-samþykktar og sem þar af leiðandi falla ekki undir ákvæði reglugerðar nr 416/2003 um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa á grundvelli laga nr. 76/2001, með síðari breytingum.

3. gr.
Skipstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

    Sá einn sem er lögmætur handhafi skipstjórnarskírteinis samkvæmt 8. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa og hefur fullnægt áskilnaði um menntun, þjálfun, siglingatíma og heilbrigði samkvæmt reglugerð um útgáfu skírteina, hefur rétt til starfa við skipstjórn um borð í fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum með þeim takmörkunum sem ráðast af gildistíma skírteinis og neðangreindum kröfum:
    Skipstjórnarnám:
         Smáskipanám
samkvæmt reglugerð þar um veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
                  Skipstjóri/stýrimaður á skipum 12 metrar eða styttri að skráningarlengd í strandsiglingum, eftir 8 mánaða siglingatíma sem háseti.
         Smáskipaskírteini.
              Eftirtalin stig skipstjórnarnáms við skóla skv. 4. gr. eru grundvöllur skírteina skipstjórnarmanna sem hér segir:
         Skipstjórnarnám A veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
       a.      Skipstjóri/stýrimaður á skipum 12 metra eða styttri að skráningarlengd í strandsiglingum, eftir 8 mánaða siglingatíma sem háseti.
             Smáskipaskírteini.
       b.      Undirstýrimaður, ótakmörkuð stærð og farsvið eftir 18 mánaða siglingatíma.
             Skírteini: Ab.
       c.      Stýrimaður á skipum styttri en 24 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 12 mánaða siglingatíma sem háseti.
            Skírteini: Ac.
       d.      Skipstjóri á skipum styttri en 24 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 8 mánaða siglingatíma sem stýrimaður eða a.m.k. 8 mánaða siglingatíma sem skipstjóri á skipum styttri en 12 metrar að skráningarlengd.
             Skírteini: Ad.
         Skipstjórnarnám B veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
          a.      Stýrimaður á skipum styttri en 45 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 12 mánaða siglingatíma sem háseti eða 8 mánaða siglingatíma sem skipstjóri á skipum styttri en 24 metrar að skráningarlengd.
             Skírteini: Ba.
          b.      Skipstjóri á skipum styttri en 45 metrar að skráningarlengd í innanlandssiglingum eftir 8 mánaða siglingatíma sem stýrimaður á skipum styttri en 45 metrar eða 8 mánaða siglingatíma sem skipstjóri á skipum styttra en 24 metrar að skráningarlengd.
             Skírteini: Bb.
                  Bóklegt nám til skipstjórnarnáms B skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW II/3 (500 BT) samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW 1978). Skírteini STCW II/3 veitir réttindi til þess að starfa sem skipstjóri og stýrimaður á farþegaskipum og flutningaskipum undir 500 brúttótonnum að stærð í innanlandssiglingum að uppfylltum skilyrðum um siglingatíma.
         Skipstjórnarnám C veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
       a.      Yfirstýrimaður á skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 8 mánaða siglingatíma sem stýrimaður eða skipstjóri á skipum 24 metrar og lengra að skráningalengd eða 8 mánaða siglingatíma sem skipstjóri á skipum styttra en 24 metrar að skráningarlengd.
             Skírteini: Ca.
       b.      Skipstjóri á skipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 12 mánaða siglingatíma sem yfirstýrimaður á skipum lengra en 45 metrar að skráningalengd eða 8 mánuði sem skipstjóri á skipum lengra en 24 metrar að skráningalengd.
             Skírteini: Cb.
                  Bóklegt nám til skipstjórnarnáms C skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW II/2 (3000 BT) samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW 1978). Skírteini STCW II/2 (3000 BT) veitir réttindi til þess að starfa sem skipstjóri og stýrimaður á farþegaskipum og flutningaskipum undir 3000 brúttótonnum án takmarkana í farsviði að uppfylltum skilyrðum um siglingatíma.
         Skipstjórnarnám D veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
            Yfirstýrimaður á varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 8 mánaða siglingatíma á skipum sem eru 500 BT eða stærri.
             Skírteini: D.
                  Bóklegt nám til skipstjórnarnáms D skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW II/2 samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW 1978). Skírteini STCW II/2 veitir ótakmörkuð réttindi til þess að starfa sem skipstjóri og stýrimaður á farþegaskipum og flutningaskipum
         Skipstjórnarnám E veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
            Skipherra á varðskipum af ótakmarkaðri stærð og farsviði eftir 24 mánuði sem stýrimaður á skipum sem eru lengri en 24 metrar að skráningarlengd og þar af a.m.k. 4 mánuði sem yfirstýrimaður á varðskipi.
             Skírteini: E.
    Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða erlendri, vottorði frá lögskráningarstjóra eða á annan fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar.
    Skipstjórnarmenn skulu uppfylla kröfur til þess að öðlast skírteini fjarskiptamanns eins og nánar er kveðið á um í 7. gr reglugerðar þessarar.

4. gr.
Vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum.

    Sá einn sem er lögmætur handhafi vélstjórnarskírteinis samkvæmt 8. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa og hefur fullnægt áskilnaði um menntun, þjálfun, heilbrigði, siglingatíma og/eða starfsreynslu samkvæmt reglugerð um útgáfu skírteina, hefur rétt til starfa við vélstjórn um borð í fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum með þeim takmörkunum sem ráðast af gildistími skírteinis og neðangreindum kröfum:
     Vélgæslunám:
    Vélavörður.

              Nám samkvæmt reglugerð settri af menntamálaráðuneyti, veitir rétt til að vera vélavörður á skipum 12 metrar og styttri að skráningarlengd með vélarafl 750 kW eða minna.
     Skírteini: Vélavörður (SSV).
     Vélstjórnarnám:
     Vélstjórnarnám A veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
          a.      Vélavörður á skipi með vélarafl 750 kW og minna.
             Skírteini: Vélavörður (VV).
          b.      Yfirvélstjóri á skipi með vélarafl 750 kW og minna að loknum 4 mánaða siglingatíma sem vélavörður.
             Skírteini: Vélstjóri III (VSIII).
     Vélstjórnarnám B veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
       a.      Vélavörður.
             Skírteini: Vélavörður (VV).
       b.      Yfirvélstjóri á skipi með vélarafl 750 kW og minna að loknum 4 mánaða siglingatíma sem vélavörður.
             Skírteini: Vélstjóri III (VSIII).
       c.      1. vélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna og undirvélstjóri á skipi með 3000 kW vélarafli og minna, að loknum 6 mánaða siglingatíma sem vélavörður eða vélstjóri á skipi, þar af a.m.k. 2 mánuði sem undirvélstjóri.
             Skírteini: Vélstjóri II (VS II).
       d.      Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW. vélarafl og minna að loknum 8 mánaða siglingatíma sem vélstjóri eða vélavörður á skipi, þar af 4 mánuði sem vélstjóri.
             Skírteini: Vélstjóri I (VS I).
     Vélstjórnarnám C veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
          a.      Vélavörður.
             Skírteini: Vélavörður (VV).
          b.      1. vélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna.
             Skírteini: Vélstjóri II (VS II).
          c.      Yfirvélstjóri á skipi með 750 kW vélarafl og minna að loknum 2 mánaða siglingatíma sem vélstjóri.
             Skírteini vélstjóri (VSIII).
          d.      Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna og undirvélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð að loknum 4 mánaða siglingatíma sem vélstjóri.
             Skírteini: Vélstjóri I (VS I) og STCW regla III/1.
          e.      1. vélstjóri á skipi með 2999 kW vélarafl og minna að loknum 8 mánaða siglingatíma sem vélstjóri.
             Skírteini: STCW regla III/3.
          f.      Yfirvélstjóri á skipi með 2999 kW vélarafl og minna að loknum 8 mánaða siglingatíma sem vélstjóri, eftir að hafa öðlast rétt til að vera 1. vélstjóri á skipi með 2999 kW vélarafl og minna.
             Skírteini: STCW regla III/3.
                 Til þess að fá útgefið atvinnuskírteini C-lið e–f skulu viðkomandi jafnframt hafa lokið:
                   i.      viðurkenndri verkstæðisþjálfun í landi og um borð í skipi og tíminn vera skráður í þjálfunarbók, eða
                   ii.      sveinsprófi í viðurkenndri málmiðnaðargrein.
                  Bóklegt nám til vélstjórnarnáms C skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW III/3 samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW 1978). Skírteini STCW III/3 veitir réttindi til þess að starfa sem yfirvélstjóri og 1. vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með vélarafl allt að 3000 kW án takmarkana í farsviði að uppfylltum skilyrðum um siglingatíma.
     Vélstjórnarnám D – vélfræðingur, veitir rétt til að fá útgefið skírteini sem:
          a.      Yfirvélstjóri á skipi með 750 kW vélarafl og minna.
             Skírteini: Vélstjóri (VSIII).
          b.      1. vélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna.
             Skírteini vélstjóri II (VS II).
          c.      Yfirvélstjóri á skipi með 1500 kW vélarafl og minna, að loknum 4 mánaða siglingatíma sem vélstjóri.
             Skírteini: Vélstjóri I (VS I).
          d.      Undirvélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl, að loknum 4 mánaða siglingatíma sem vélstjóri.
             Skírteini: Vélstjóri II(VSII).
          e.      1. vélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl og yfirvélstjóri á skipi með 2999 kW vélarafl og minna, að loknum 8 mánaða siglingatíma sem vélstjóri.
             Skírteini: Vélstjóri III(VSIII).
          f.      Yfirvélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl, að loknum 18 mánaða siglingatíma sem vélstjóri/vélstjórnarmaður, eftir að hafa öðlast rétt til að vera 1. vélstjóri á skipi með ótakmarkað vélarafl.
             Skírteini: Vélstjóri IV(VSIV).
                 Til þess að fá útgefið atvinnuskírteini D e–f skulu viðkomandi jafnframt hafa lokið:
                  i.      viðurkenndri verkstæðisþjálfun í landi og um borð í skipi og tíminn vera skráður í þjálfunarbók, eða
                  ii.      sveinsprófi í viðurkenndri málmiðnaðargrein.
                  Bóklegt nám til vélstjórnarnáms D skal fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til bóknáms til að öðlast skírteini STCW III/2 samkvæmt alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna (STCW 1978). Skírteini STCW III/2 veitir réttindi til þess að starfa sem yfirvélstjóri og 1. vélstjóri á farþegaskipum og flutningaskipum með vélarafl án takmarkana að uppfylltum skilyrðum um siglingatíma.
    Við mat á siglingatíma til vélstjórnarréttinda er heimilt að taka tillit til starfsreynslu við vélstjórn við aðrar stærðir véla en að framan greinir.
    Siglingatími vélstjóra telst sá tími sem hann er lögskráður á skip og vinnur við það, að meðtöldum lögskráningardegi og afskráningardegi. Til siglingatíma má einnig telja störf við vélarupptekt um borð í skipi, í vélsmiðju eða í annarri sambærilegri málmiðnaðargrein og önnur lögskráð störf í vélarrúmi skipa. Þessi tími skal þó aldrei verða lengri en sem nemur 1/ 4hluta tilskilins siglingatíma til vélstjórnarréttinda.
    Siglingatíma skal sanna með sjóferðabók innlendri eða útlendri, vottorði frá lögskráningarstjóra eða á annan fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar.

5. gr.
Siglingatími.

    Siglingatími er viðurkenndur starfstími um borð í skipi, sem er í förum. Umsækjanda skírteinis er skylt að færa sönnur á siglingatíma sem hann telur sig hafa að baki. Unnt er að færa sönnur á siglingatíma með staðfestingu lögskráningarstjóra eða rétt útfylltri sjóferðabók.
    Umsækjandi skírteinis sem kveðst hafa að baki siglingatíma á skipi sem ekki er skráð á Íslandi skal færa sönnur á þann siglingatíma með sjóferðabók eða á annan fullnægjandi hátt að mati Siglingastofnunar Íslands. Ef vafi leikur á um réttmæti þeirrar sönnunar skal Siglingastofnun Íslands í því tilviki skera úr um siglingatíma.

6. gr.
Fjarskiptastörf.

    Sá sem fullnægir ákvæðum alþjóðasamþykktar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna frá 1978 með síðari breytingum hefur rétt á að fá útgefið skírteini fjarskiptamanns.
    Á hafsvæði STK og A1 skal sá sem er ábyrgur fyrir GMDSS-fjarskiptum vera handhafi takmarkaðs skírteinis fjarskiptamanns (ROC, Restricted Operator's Certificate).
    Á hafsvæðum A2, A3 og A4 skal sá sem er ábyrgur fyrir fjarskiptum vera handhafi almenns skírteinis fjarskiptamanns (GOC, General Operator's Certificate).
    Menntunarkröfur til þeirra sem annast fjarskipti skulu vera í samræmi við ályktun IMO A 703 (17), grein S47 í alþjóðaradíóreglugerðinni og ákvæði alþjóðasamþykktarinnar um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978, með síðari breytingum.

7. gr.
Skírteini og undanþágur.

    Siglingastofnun Íslands gefur út skírteini skv. 4. og 5. gr. í samræmi við 8. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa og reglugerðar um útgáfu skírteina samkvæmt sömu lögum.
    Siglingastofnun Íslands, eða Póst- og fjarskiptastofnun í hennar umboði, gefur út skírteini sem krafist er til fjarskiptamanna skv. 6. gr. í samræmi við alþjóðasamþykktina og alþjóðaradíóreglugerðina og reglugerð um fjarskiptastörf á skipum og fjarskiptabúnað skipa, sbr. 15. gr. reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa nr. 53/2000.
    Um undanþágur frá reglum þessum fer skv. 14. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

8. gr
Kærur.

    Ákvarðanir Siglingastofnunar Íslands og undanþágunefndar samkvæmt reglum þessum eru kæranlegar til samgönguráðuneytis í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

9. gr.
Gjöld.

    Greiða skal gjald fyrir útgáfu skírteina og veitingu undanþágna samkvæmt gjaldskrá Siglingastofnunar Íslands. Gjöldin skulu standa undir kostnaði stofnunarinnar sem af því hlýst.

10. gr.
Refsiákvæði.

    Um brot á reglugerð þessari fer eftir ákvæðum 20. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

11. gr.
Gildistaka.

    Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 5. og 6. gr. laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, staðfestist hér með til að öðlast gildi 1. maí 2007 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt falla úr gildi ákvæði 4. og 8. gr. reglugerðar nr. 118/1996, með síðari breytingum um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa,
skemmtibáta og annarra skipa.

    Markmiðið með frumvarpinu er að efla öryggi íslenskra skipa og áhafna þeirra og efla varnir gegn mengun sjávar. Í fumvarpinu er meðal annars kveðið á um að útgáfa skírteina til skipstjórnar- og vélstjórnarmanna verði í höndum Siglingastofnunar Íslands en samkvæmt gildandi lögum hefur útgáfan verið í höndum sýslumanna úti á landi og tollstjóranum í Reykjavík. Jafnframt er kveðið um að gjald sem greiða á fyrir útgáfu og endurnýjun skírteina skuli standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands vegna afgreiðslu þeirra. Árlega er áætlað að gefin verið út um 100 skírteini og um 300 skírteini endurnýjuð.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það óverulegan kostnað í för með sér sem mun ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.