Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.

Þskj. 429  —  387. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    82. gr. laganna orðast svo:
    Á meðan félagið hefur ekki samþykkt að veita vátryggingu getur það óskað eftir upplýsingum sem hafa þýðingu fyrir mat þess á áhættunni. Í þeim tilgangi er félaginu heimilt að óska upplýsinga um sjúkdóma sem vátryggingartaki eða vátryggður, foreldri hans, barn eða systkini eru haldin eða hafa verið haldin. Slíkra upplýsinga skal aflað beint hjá vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, sem skal veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Sé upplýsinganna aflað frá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum skal, áður en þeirra er aflað, liggja fyrir skriflegt upplýst samþykki þess sem aflað er upplýsinga um. Vátryggingartaki, og eftir atvikum vátryggður, skal að eigin frumkvæði veita upplýsingar um sérstök atvik sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættu.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félaginu óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm. Þetta bann á þó ekki við um upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar sem staðfesta að vátryggður sé haldinn tilteknum sjúkdómi þegar upplýsinga skv. 1. mgr. er aflað.
    Synji félagið að veita persónutryggingu skal það rökstyðja synjunina sé eftir því leitað.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 82. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, sem fjallar um upplýsingaöflun við töku persónutrygginga.
    Eftir gildistöku laganna hefur við túlkun og framkvæmd 82. gr. risið vafi um hvort unnt sé að svara spurningum um heilsufar náinna skyldmenna án þess að í því felist miðlun upplýsinga um erfðaeiginleika og þar með hvort í bannreglu ákvæðisins felist að ekki megi óska upplýsinga um heilsufar þeirra.
    Ljóst er að tilgangurinn með ákvæði 2. mgr. 82. gr. laganna var ekki sá að banna notkun upplýsinga um heilsufar náinna skyldmenna þess er óskar vátryggingar. Markmiðið var að ákveða mörk upplýsingaskyldu og heimildar vátryggingafélaga til að nýta sér heilbrigðisupplýsingar. Mikilvægt er að skýrt liggi fyrir hvar þessi mörk liggja.
    Þar sem um er að ræða mikilvægt ákvæði er varðar persónutryggingar er með frumvarpi þessu lögð til breyting á ákvæðinu til að eyða þessum vafa. Vinna við frumvarp þetta var langt komin vorið 2006 og komu þá að undirbúningi þess, auk nefndarmanna efnahags- og viðskiptanefndar, sérfræðingar viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlitsins og Persónuverndar. Tíminn hefur síðan verið nýttur til að fara betur yfir greinargerð með gr. 3a í dönsku vátryggingarsamningalögunum, nr. 129/1930, sbr. breytingalög nr. 413/1997, sem er fyrirmynd íslenska ákvæðisins, til þess að tryggja að frumvarpið eyddi þeirri óvissu sem gildandi 82. gr. virðist hafa skapað. Að þeirri vinnu hafa komið, auk sérfræðinga viðskiptaráðuneytisins, sérfræðingar frá Fjármálaeftirlitinu og Sambandi íslenskra tryggingafélaga, svo og fulltrúar vátryggingamiðlara, en eins og kunnugt er hefur sú starfsstétt náð árangri hér á landi við sölu á persónutryggingum erlendra líftryggingafélaga.

II. Almennt um 82. gr.
    Persónutryggingar lúta að lífi og heilsu hins vátryggða. Upplýsingagjöf vátryggingartaka hefur mikla þýðingu, enda er það vátryggingartaki, eða hinn vátryggði, sem að jafnaði býr yfir þeim upplýsingum sem vátryggingafélag þarf á að halda.
    Með 82. gr. gildandi laga um vátryggingarsamninga var leitast við að skýra betur upplýsingaskyldu vátryggingartaka við töku persónutrygginga. Í ákvæðinu felst að vátryggingartaki eða vátryggður þarf ekki að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf heldur stendur skylda hans til að svara spurningum vátryggingafélags. Frumkvæði hvílir þó hjá vátryggingartaka eða vátryggðum í þeim tilvikum er upplýsingarnar hafa verulega þýðingu fyrir mat félagsins á áhættunni og að honum hafi verið ljós þessi sérstöku atriði og vitað um þýðingu upplýsinganna fyrir félagið. Helsta nýmæli ákvæðisins laut að takmörkun á heimild vátryggingafélaga til að óska upplýsinga um heilsufar vátryggingartaka með rannsókn á erfðaeiginleikum hans. Var þannig í 2. mgr. ákvæðisins lagt bann við hagnýtingu upplýsinga um erfðaeiginleika manna og áhættu á því að hann þróaði með sér eða fengi sjúkdóm.
    Fram kom í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/2004 að tilefni bannreglunnar væri ekki hættan á misnotkun slíkra upplýsinga heldur sú staðreynd „að hægt sé að spá fyrir um það með erfðafræðilegum rannsóknum, að ekki sé talað um rannsóknir á lífsýnum úr fólki, hvernig því muni farnast heilsufarslega í framtíðinni“.
    Unnt er að ákveðnu leyti að fá upplýst hvort viðkomandi einstaklingur er líklegur til að þróa með sér eða fá tiltekinn sjúkdóm í framtíðinni með rannsóknum sem gefa upplýsingar um erfðaefni heilbrigðs einstaklings. Niðurstöður slíkra erfðafræðilegra rannsókna geta haft þýðingu fyrir viðkomandi einstakling og nánustu ættingja. Síðustu ár hafa jafnframt þróast rannsóknaraðferðir sem gera mönnum kleift að rannsaka og kortleggja erfðaefni einstaklinga í áður óþekktum mæli. Í greinargerð með dönsku lögunum, sem notuð voru sem fyrirmynd við samningu frumvarps þess er varð að lögum nr. 30/2004, kemur fram að með rannsókn á erfðaeiginleika sé átt við DNA-próf, RNA-greiningar eða aðrar rannsóknir, t.d. vefja- og blóðrannsóknir, sem gerðar eru í því skyni að leggja mat á erfðafræðilega áhættu þess er óskar vátryggingar.
    Bannregla 2. mgr. 82. gr. gildandi laga um vátryggingarsamninga tekur ekki til upplýsinga um sjúkdóma, sem einstaklingur annaðhvort er haldinn eða hefur haft einkenni um, þrátt fyrir að slíkar upplýsingar geti falið í sér upplýsingar um hættu viðkomandi á að þróa með sér eða fá sjúkdóma í framtíðinni. Bannið tekur þannig, sem dæmi, ekki til upplýsinga um hvernig sjúkdómur, sem einstaklingur hefur þegar fengið, muni þróast í framtíðinni. Bannið tekur heldur ekki til upplýsinga um breytingar, sem þurfa ekki að lúta beint að sjúkdómum, en geta veitt vísbendingu um hættu á sjúkdómum síðar, svo sem eins og magn kólesteróls í blóði eða of hár blóðþrýstingur. Þá tekur bannið ekki til upplýsinga um hvort einstaklingur hafi greinst HIV-jákvæður þar sem slíkar upplýsingar lýsa ekki erfðaeiginleikum.
    Bannið gegn því að óska eftir erfðafræðilegum upplýsingum þýðir því m.a. að vátryggingafélaginu er ekki heimilt að byggja iðgjaldaákvörðun eða veitingu vátryggingar á kröfu um að erfðarannsókn fari fram. Félaginu er ekki heldur heimilt að spyrja hvort slík rannsókn hafi farið fram.
    Í lokamálslið 2. mgr. 82. gr. gildandi laga kemur fram að heimilt sé að óska upplýsinga um núverandi eða fyrra heilsufar vátryggingartaka eða annarra einstaklinga. Tilgangur vátryggingafélags með því að óska upplýsinga um fjölskyldusögu vátryggingartaka eða vátryggðs er að meta þá áhættu sem felst í því að veita umsækjanda vátryggingarvernd hjá félaginu. Geta upplýsingar þessar meðal annars leitt til þess að vátryggingafélag óski þess að heilsufar vátryggðs verði rannsakað frekar. Hefur þetta verið framkvæmt með þeim hætti að á umsóknareyðublaði líftryggingarfélaga er spurt hvort foreldrar eða systkini hafi eða hafi haft tiltekna sjúkdóma. Þannig getur jákvætt svar við slíkri spurningu gefið tilefni til frekari rannsókna á þeim er óskar vátryggingar þar sem tilteknir sjúkdómar sem foreldrar og systkini hafa borið geta aukið áhættu annarra skyldmenna. Er þetta viðurkennd leið sem íslensk jafnt og erlend vátryggingafélög beita við áhættumat við töku vátrygginga. Með frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að breyting verði á þessari framkvæmd.

III. Efni frumvarpsins.
    Við töku persónutrygginga er mikilvægt að vátryggingafélag láti fara fram áhættumat. Liður í áhættumati vátryggingafélags við gerð vátryggingarsamninga í persónutryggingum er að afla upplýsinga um heilsufar þess sem vátryggja á og kanna hvort vátrygging skuli veitt samkvæmt almennum skilmálum og venjulegu iðgjaldi. Er upplýsingagjöf vátryggingartaka grundvöllur slíks áhættumats. Mat á áhættu hefur áhrif á iðgjaldaákvörðun vátryggingafélags, enda er það grundvallaratriði að iðgjöld taki mið af þeirri áhættu sem fyrir hendi er þannig að vátryggingafélag eigi jafnan fyrir fjárhagslegum skuldbindingum sínum.
    Lögð er til breyting á 1. mgr. þannig að nýr málsliður, 2. málsl., bætist við málsgreinina. Samkvæmt honum er vátryggingafélagi heimilt að afla upplýsinga um þá sjúkdóma sem vátryggingartaki, eða vátryggður, svo og foreldrar, systkini og börn vátryggðs eru haldin eða hafa haft og félagið telur nauðsynlegt að fá vitneskju um til að geta lagt mat á hina væntanlegu vátryggðu áhættu. Í gildandi lögum er vísað til heilsufars en frumvarpið gerir ráð fyrir að umsækjandi gefi upplýsingar um sjúkdóma. Breyting þessi er lögð til þar sem ekki er hægt að ætlast til að umsækjandi sem ekki býr yfir þekkingu á læknisfræði geti lagt almennt mat á heilsufar sitt eða nákominna ættingja. Með sanngirni er hins vegar hægt að gera þá kröfu til viðkomandi að hann viti um þá sjúkdóma sem máli kunna að skipta við áhættumatið. Heimild vátryggingafélags til upplýsingaöflunar er þó takmörkuð af bannreglu 2. mgr. Efnislega svarar hinn nýi málsliður til lokamálsliðar gildandi 2. mgr. 82. gr. sem fellur niður.
    Þótt ekki sé lögð til breyting á efni 4. málsl., um upplýsingaöflun frá öðrum en vátryggingartaka eða vátryggðum, þykir rétt að hnykkja á því að ákvæði þetta vísar fyrst og fremst til upplýsinga sem aflað er hjá læknum og öðrum heilbrigðisstéttum og koma úr sjúkraskrám eða öðrum sambærilegum skrám sem kunna að vera haldnar á sjúkra- eða heilbrigðisstofnunum. Er áfram gert ráð fyrir því að heimild vátryggingafélags til þess að afla upplýsinga úr slíkum skrám sé bundin við upplýst samþykki viðkomandi. Er efni málsgreinarinnar í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga um persónvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000
    Lögð er til breyting á 2. mgr. ákvæðisins sem felur í sér að vátryggingafélagi er óheimilt að nýta sér niðurstöður erfðarannsókna. Með erfðarannsókn er einkum átt við DNA-rannsókn, RNA-greiningu og vefja- og blóðrannsókn sem gerð er í þeim tilgangi að meta áhættu einstaklings á því að verða síðar veikur. Hafi á hinn bóginn sjúkdómur verið greindur með erfðarannsókn, t.d. DNA-rannsókn, er félaginu heimilt að nýta þær upplýsingar í áhættumati sínu, en ekki aðrar upplýsingar. Jafnframt væri vátryggingartaka, eða vátryggðum, skylt að upplýsa um sjálfa sjúkdómsgreininguna, sem hefði fengist við erfðarannsóknina, sbr. greinargerð með gr. 3a í dönsku vátryggingarsamningalögunum, nr. 129/1930, sbr. breytingalög nr. 413/1997, sem er fyrirmynd ákvæðisins í 82. gr. Með breytingu þessari er leitast við að eyða vafa um hvers konar upplýsingar það eru sem vátryggingafélagi sé óheimilt að nota í áhættumati sínu. Í orðalagi málsgreinarinnar felst jafnframt að reglur um vanrækta upplýsingagjöf eiga ekki við í þeim tilfellum er vátryggingartaki eða vátryggður upplýsir ekki um erfðafræðilegar upplýsingar, enda væri vátryggingafélagi ekki heimilt að taka við slíkum upplýsingum, að öðru leyti en því sem að framan greinir um sjúkdómsgreiningar sem slíkar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

    Með frumvarpinu eru gerðar breytingar er varða upplýsingaöflun vátryggingafélaga. Lagt er m.a. til að vátryggingafélagi verði heimilt að afla upplýsinga um þá sjúkdóma sem vátryggingartaki, eða vátryggður, svo og foreldrar, systkini og börn vátryggðs eru eða hafa haft.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.