Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.

Þskj. 432  —  390. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Til að standa undir kostnaði við útgáfu skírteina, starfsleyfi, heimildir, eftirlit og vottun auk annarrar starfsemi er Flugmálastjórn Íslands heimilt að innheimta gjöld, þ.m.t. árleg gjöld, vegna:
     1.      Útgáfu skírteina og heimilda einstaklinga, breytinga, endurnýjunar og endurútgáfu. Greiða skal fyrir mat og vottun á gögnum er fylgja umsókn fyrir hverja klukkustund sem matið tekur á grundvelli gjalds, sbr. 2. mgr. Einnig skal heimilt að innheimta fast gjald fyrir tiltekin skírteini og heimildir á grundvelli tímagjalds, sbr. 2. mgr.
     2.      Útgáfu starfsleyfa, heimilda og skírteina lögaðila, breytinga, endurnýjunar og endurútgáfu. Greiða skal fyrir mat og vottun á gögnum er fylgja umsókn fyrir hverja klukkustund sem matið tekur, sbr. 2. mgr. Einnig skal heimilt að innheimta fast gjald fyrir tiltekin starfsleyfi, skírteini og heimildir á grundvelli tímagjalds, sbr. 2. mgr. Heimilt skal að krefja umsækjanda um fyrirframgreiðslu vegna yfirferðar gagna og samskipta meðan á mats- og vottunarferli stendur.
     3.      Útgáfu lofthæfisskírteina og hávaða- og mengunarvottorða.
                  Gjald fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis er miðað við hámarksflugtaksmassa loftfars:
                  a.      Fyrir loftför allt að 2.700 kg     13.680 kr. + 9,36 kr./kg.
                  b.      Fyrir loftför 2.701–5.700 kg     20.400 kr. + 7,80 kr./kg.
                  c.      Fyrir loftför 5.701–50.000 kg     96.000 kr. + 8,40 kr./kg.
                  d.      Fyrir loftför yfir 50.000 kg     480.000 kr. + 4,80 kr./kg.
                  Heimilt skal að endurgreiða hlutfallslega gjald vegna fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis, ef skráning loftfars varir skemur en 12 mánuði. Endurgreiða skal 1/ 12hluta gjaldsins fyrir hvern heilan mánuð sem loftfarið er skemur á skrá en 12 mánuði, þó þannig að lágmarksgjald sé 6/ 12fulls gjalds.
                  Gjald fyrir útgáfu tímabundins lofthæfisskírteinis sem gilda skal skemur en 30 daga skal greiða 3/ 12af gjaldi fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis.
                  Fyrir útgáfu lofthæfisskírteinis til útflutnings skal greiða helming af gjaldi fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis.
                  Gjald fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis loftfars sem ekki er vélknúið er 25% af gjaldi fyrir vélknúin loftför.
                  Nú er loftfar skráð erlendis fært á flugrekandaskírteini íslensks flugrekanda og skal þá greiða fyrir útgáfu lofthæfisskírteinis eins og um fyrstu útgáfu þess væri að ræða.
                  Fyrir útgáfu vottorðs til staðfestingar á lofthæfi skal greiða samkvæmt tímagjaldi, sbr. 2. mgr.
                  Gjöld samkvæmt þessum lið falla í gjalddaga við útgáfu skírteinis eða vottorðs. Handhafar starfsleyfa útgefinna af Flugmálastjórn njóta greiðslufrests, enda séu þeir í skilum við stofnunina. Þegar greiðslufrestur er veittur er uppgjörstímabil þrír mánuðir, febrúar, maí, ágúst og nóvember. Gjalddagi er 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils.
     4.      Skráningar loftfars og breytingar á eigendaskiptum.
     5.      Árlegs eftirlits með
                  a.      loftförum í almannaflugi (einka- og kennsluflugi),
                  b.      loftförum í flutningaflugi, verkflugi og ríkisflugi,
                  c.      flugrekstri,
                  d.      viðhaldsstöðvum og verkstæðum,
                  e.      flug- og þyrluvöllum,
                  f.      lendingastöðum,
                  g.      flugstöðvum,
                  h.      flugvernd,
                  i.      flugskólum,
                  j.      þjálfunarbúnaði,
                  k.      skólum fyrir flugleiðsöguþjónustu (flugumferðarþjónustu),
                  l.      skólum fyrir flugvéltækna og viðhaldsvotta,
                  m.      flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. flugleiðsögubúnaði,
                  n.      flugprófunarþjónustu,
                  o.      fluglæknasetrum,
                  p.      flugklúbbum sem sæta eftirliti,
                  q.      námskeiðahaldi,
                  r.      útleigu loftfara í atvinnuskyni,
                  s.      handhöfum skírteina útgefinna af Flugmálastjórn Íslands.
     6.      Prófgjalda, þ.e. til framkvæmdar prófa, skriflegra eða verklegra, eða yfirferðar eða eftirlits með próftöku.
     7.      Heimilda sem tengjast einstökum atburðum og afgreiðslum, svo sem flugsýningum, flugkeppnum, fallhlífarstökki, lágflugi, listflugi, flugeldasýningum, yfirflugi með takmarkað lofthæfisskírteini og yfirferð vátryggingaskilmála vegna loftferða.
     8.      Samhæfingar eða samstarfs við erlend stjórnvöld í þágu eftirlitsskylds aðila, þ.m.t. vegna samningagerðar og framsals eftirlits, samkvæmt föstu gjaldi á hverja unna klukkustund, sbr. 2. mgr.
     9.      Sérstakrar þjónustu sem óskað er vegna vottunar, viðurkenningar, prófunar eða veitingar heimilda, samkvæmt föstu gjaldi á hverja unna klukkustund, sbr. 2. mgr.
    Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu flugrekstrar auk ferða og uppihalds. Fjárhæð gjalda tekur mið af þeim kostnaði sem almennt hlýst af eftirliti og þjónustu. Útlagðan kostnað, svo sem við ferðir, uppihald og sérfræðiþjónustu í þágu eftirlitsskylds aðila, skal greiða aukalega.
    Þá er Flugmálastjórn heimilt að hafa tekjur af þjónustu- og verksamningum, svo og af rannsóknarstarfsemi og þróunarverkefnum.
    Gjöld Flugmálastjórnar skv. 1. mgr. eru aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
    Flugmálastjórn er heimilt að innheimta gjöld vegna heimildar- og leyfisveitinga og eftirlits, svo og fyrir aðra þjónustu sem veitt er á vegum stofnunarinnar, í samræmi við gjaldskrá sem staðfest skal af ráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Jafnframt falla brott 35.–38. tölul. 1. mgr. 10. gr. og 9.–11. tölul. 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Þá falla brott 4.–6. mgr. 10. gr., 7. mgr. 56. gr., 7. mgr. 57. gr. og 5. mgr. 57. gr. a og 2., 3. og 5. mgr. 71. gr. a og 2.–4. mgr. 81. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á 132. löggjafarþingi 2005–2006 voru lögð fram tvö lagafrumvörp um breytingu á starfsemi og skipulagi Flugmálastjórnar Íslands með það að markmiði að stofna sérstakt hlutafélag í eigu ríkisins um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar, en að stjórnsýslustarfsemi, þ.m.t. eftirlitsstarfi, yrði sinnt af sérstakri stofnun, Flugmálastjórn Íslands. Annars vegar var lagt fram frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands (þskj. 1523 – 708. mál) sem varð að lögum nr. 102/2006 og hins vegar frumvarp til laga um Flugmálastjórn Íslands (þskj. 1454 – 707 mál) sem varð að lögum nr. 100/2006.
    Ljóst var þegar framangreind frumvörp voru lögð fram að ekki mundi fyllilega nást að ljúka mótun gjaldaákvæðis vegna Flugmálastjórnar Íslands. Lögin voru því samþykkt með almennri gjaldaheimild í 9. gr. laganna og eldri ákvæði í lögum um loftferðir, nr. 60/1998, sem hafa að geyma ýmsar skattlagningar- og gjaldtökuheimildir látin standa óbreytt.
    Megintilgangur þessa frumvarps er að undirbyggja heimildir Flugmálastjórnar Íslands til gjaldtöku og fella niður á móti skattlagningarheimildir sem ekki er lengur þörf á í lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum. Nánar er gerð grein fyrir breytingum í athugasemdum við einstakar greinar hér á eftir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lögð er til ný skipan á gjaldtöku Flugmálastjórnar Íslands. Í 1. mgr. er lögfest heimild Flugmálastjórnar Íslands til innheimtu þjónustugjalda í níu liðum. Samhliða er kveðið á um brottfall eldri gjald- og skattlagningarheimilda úr lögum um loftferðir og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
    Að meginstefnu er í ákvæðinu miðað við innheimtu þjónustugjalda þar sem endurgjaldið er sérgreint. Í 3. tölul. 1. mgr. er að finna skattlagningarheimild vegna útgáfu lofthæfisskírteinis, en ekki var talið heppilegt að breyta því í þjónustugjald. Flest þeirra gjalda sem upp eru talin í 1. mgr. eiga sér fyrirmynd í núgildandi lögum og gjaldskrá. Til þess að gera gjaldtökuna eins skýra og gagnsæja og mögulegt er að þessu leyti er sett fram eitt ákvæði er telur upp þau gjöld sem heimilt er að innheimta.
    Vegna útgáfu starfsleyfa, skírteina, heimilda, eftirlits og vottunar, skv. 1. og 2. tölul. í 1. mgr. ákvæðisins, er miðað við tímagjald sem grundvallast á fyrir fram ákvörðuðum kostnaðarliðum sem greindir eru í 2. mgr. ákvæðisins. Jafnframt geymir ákvæðið heimild til að innheimta fast gjald fyrir tiltekin skírteini og heimildir á grundvelli tímagjalds. Er þá miðað við einfalda afgreiðslu sem ekki krefst mikillar yfirlegu af hálfu starfsmanna. Miðað er við meðaltalstíma í afgreiðslu þar sem fast gjald er ákvarðað.
    Vegna umfangsmikillar vinnu Flugmálastjórnar, svo sem við útgáfu starfsleyfis eftirlitsskylds aðila, er heimilt að krefjast fyrirframgreiðslu til yfirferðar gagna og samskipta meðan á mats- og vottunarferli stendur. Þar sem slík vinna er oft á tíðum mjög tímafrek og kann að dreifast yfir langt tímabil, án þess að tryggt sé að umsækjandi muni ljúka umsóknarferli, er talið nauðsynlegt að slík heimild sé fyrir hendi.
    Í 3. og 4. tölul. 1. mgr. er miðað við útselda tímavinnu, sbr. 2. mgr. ákvæðisins, við skráningu loftfars og breytingu á eigendaskiptum, sem og útgáfu hávaða- og mengunarvottorðs, að undanskilinni fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis. Nokkrar ástæður eru fyrir því að ekki var talið heppilegt að breyta gjaldtöku vegna útgáfu lofthæfisskírteina í þjónustugjald. Vottunin sjálf er mjög breytileg og er erfitt að áætla þá vinnu fyrir fram. Loftför sem tekin eru til skrásetningar hér á landi eru misjöfn, sum krefjast lítillar vinnu en önnur mikillar. Ástand þeirra og aldur auk fyrri skráningar hafa mikið að segja varðandi þann tíma sem tekur til að yfirfara þau. Vegna aukinna krafna á EES-svæðinu eru enn fremur gerðar frekari kröfur en áður til vottunarferlisins. Er því hér kveðið á um skattlagningarheimild vegna útgáfu lofthæfisskírteinis og annarrar vottunar er tengist lofthæfi sérstaklega.
    Vegna fyrstu útgáfu lofthæfisskírteina er farin sú leið að ákvarða fast gjald eftir þyngd loftfarsins. Þar sem vottunarvinna við útgáfu fyrsta lofthæfisskírteinis er óháð því hversu lengi loftfar verður á skrá verður ekki talið rökrétt að endurgreiða alla þá vottunarvinnu sé loftfar afskráð innan árs frá skráningu. Er því talið rétt að koma til móts við umráðendur loftfars og heimila endurgreiðslu er nemur mest hálfu ári, þ.e. 6/ 12.
    Þá er kveðið á um að gjald vegna tímabundins lofthæfisskírteinis sem gilda skuli skemur en 30 daga sé 1/ 12af gjaldi fyrir fyrstu útgáfu lofthæfisskírteinis. Er hér um að ræða tímabundna framlengingu lofthæfisskírteinis og ferjuheimildir („permit to fly“) sem hefur takmarkaðan gildistíma og er háð tilteknum skilyrðum vegna m.a. lofthæfis og reksturs loftfarsins. Þar sem viðbúið er að endurnýjun lofthæfisskírteina leggist af innan tíðar er gert ráð fyrir gjaldi vegna útgáfu vottorðs á staðfestingu lofthæfis („Airworthiness Review Certificate“). Vegna vinnu við útgáfu vottorðsins er kveðið á um greiðslu tímagjalds, sbr. 2. mgr.
    Í 5. tölul. 1. mgr. er heimild til gjaldtöku fyrir árlegt eftirlit með þeim fjölmörgu aðilum sem sæta eftirliti Flugmálastjórnar samkvæmt lögum um loftferðir, lögum um Flugmálastjórn Íslands og öðrum lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í þeim 19 liðum sem upp eru taldir er að finna nokkur nýmæli um eftirlit. Má þar til að mynda nefna eftirlit með flugleiðsöguþjónustu, skóla fyrir flugleiðsöguþjónustu, skóla fyrir flugvéltækna og viðhaldsvotta, þjálfunarbúnaði og flugstöðvum. Almennt er eftirliti Flugmálastjórnar Íslands þannig háttað að eftirlitið fellur jafnt á alla eftirlitsskylda aðila innan ákveðins tímaramma. Úttektaráætlun með hverri eftirlitsskyldri starfsemi er byggð á alþjóðlegum viðmiðum sem innleidd hafa verið í íslensk lög og reglugerðir. Ekki er um að ræða handahófskennt úrtakseftirlit. Það sem eftirlitið með einstökum aðilum er misyfirgripsmikið er hér miðað við tímagjald vegna árlegs eftirlits, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
    Í 6. tölul. 1. mgr. er heimild til gjaldtöku fyrir verkleg og bókleg próf sem ýmist eru haldin af Flugmálastjórn Íslands eða öðrum aðilum, sem og yfirferð og eftirlit með slíkri próftöku. Er liðnum m.a. ætlað að taka til gjalds til að mæta kostnaði vegna prófdómara, verklegra prófa og eftirlitsmanna í flughermi hérlendis og erlendis.
    Flugmálastjórn annast útgáfu margs konar heimilda sem tengjast einstökum atburðum og afgreiðslum svo sem talið er upp í dæmaskyni í 7. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Almennt er við það miðað að fyrir þjónustu stofnunarinnar skuli greitt tímagjald vegna afgreiðslu á slíkum heimildum í samræmi við 2. mgr. ákvæðisins.
    Í 8. tölul. 1. mgr. er gjaldtökuheimild vegna samhæfingar og samstarfs við erlend stjórnvöld í þágu eftirlitsskylds aðila, svo sem vegna samningagerðar og framsals á eftirliti. Hér getur til að mynda verið átt við flugrekanda sem hyggst þurrleigja loftfar á flugrekandaskírteini sitt frá öðrum erlendum flugrekanda. Í slíkum tilvikum er samið um flugöryggiseftirlit með viðkomandi loftfari milli hlutaðeigandi flugmálastjórna, auk þess sem iðulega bætast við fullgildingar skírteina innlendra og erlendra flugliða eftir atvikum. Eðlilegt má telja að viðkomandi flugrekandi beri þann kostnað sem af slíkri samningagerð og eftirliti hlýst.
    Önnur sérstök þjónusta sem óskað er af eftirlitsskyldum aðila, svo sem veiting heimilda, vottun eða viðurkenning, sem ekki fellur undir aðra liði 1. mgr., er samkvæmt föstu gjaldi á hverja klukkustund, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.
    Í álitum umboðsmanns Alþingis hefur alloft verið bent á óskýrleika gjaldtökuheimilda, m.a. að óljóst sé hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi sé ætlað að standa undir. 2. mgr. ákvæðisins tilgreinir því þann kostnað sem ætlað er að standa undir með gjöldunum skv. 1. mgr. Með því eru skýrlega afmarkaðir þeir kostnaðarliðir sem staðið geta til útreiknings þeirra gjaldaliða sem heimilt er að innheimta skv. 1. mgr.
    3. og 4. mgr. ákvæðisins eru samhljóða 2. og 3. mgr. 9. mgr. núgildandi laga um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006. 5. mgr. ákvæðisins er samhljóða 1. mgr. núgildandi laga um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006.

Um 2. gr.

    Kveðið er á um gildistöku laganna samhliða gildistöku laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006. Mælt er fyrir um niðurfellingu heimilda í lögum um aukatekjur ríkissjóðs til innheimtu gjalds (skatts) vegna útgáfu skírteina og flugrekstrarleyfa. Færast gjöldin inn í gjaldaheimild 9. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands, sbr.1. gr. frumvarpsins. Einnig er mælt fyrir um brottfall annarra gjaldtökuheimilda er varða lendingargjöld sbr. 4.–6. mgr. 10. gr., gjaldtöku vegna eftirlits með flugrekstri, sbr. 81. gr., svo og flugstöðvar, flugvelli og flugleiðsöguþjónustu, sbr. 7. mgr. 56. gr., 7. mgr. 57. gr. og 5. mgr. 57. gr. a, þar sem 1. mgr. frumvarpsins tekur til sömu gjaldtöku.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2006,
um Flugmálastjórn Íslands.

    Markmiðið með frumvarpinu er að færa Flugmálastjórn Íslands heimildir til gjaldtöku og fella niður á móti skattlagningarheimildir sem ekki er lengur þörf á í viðkomandi lögum. Gjaldtakan er m.a. vegna vottunar, starfsleyfa, skírteina og eftirlits. Þessi breyting á tekjustofnum Flugmálastjórnar Íslands mun hafa í för með sér óverulegar breytingar á gjaldtöku í heild sinni.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.