Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 455  —  22. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.


Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Dórótheu Jóhannsdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Ingva Má Pálsson og Sigurð Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins. Nefndinni bárust auk þess umsagnir um frumvarpið.
    Rétt til vaxtabóta eiga þeir sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota og einnig þeir sem keypt hafa eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð. Vaxtabætur greiðast út að lokinni álagningu opinberra gjalda og miðast við vaxtagjöld viðkomandi tekjuárs, skuldir vegna húsnæðislána, tekjur, sem og eignir í lok þess árs.
    Það voru einkum tekjuaukning og hækkun fasteignamats á milli ára sem leiddu til skerðingar á vaxtabótum við álagningu sl. haust. Aðrar eignir en fasteignir og jafnframt skuldir hafa einnig áhrif á það hversu háar vaxtabætur einstaklingur á rétt á. Eignir eru t.d. ökutæki, verðbréf og innstæða í banka. Verðbréf og fasteignir hafa hækkað mikið undanfarin ár en skuldir flestra í takt við verðbólgu sem hækkaði miklu minna. Þó er vitað að skuldir heimilanna hafa vaxið mjög mikið bæði vegna skuldbreytinga og hækkunar yfirdráttar. Skuldir eru t.d. húsnæðislán, yfirdráttur og námslán. Þar sem nettóeign er mismunur á eignum og skuldum viðkomandi er hún mjög næm fyrir breytingum á hvoru tveggja og getur sveiflast mikið milli ára.
    Í frumvarpinu er lagt til að lágmark eignaviðmiðunar að frádregnum skuldum til skerðingar á vaxtabótum verði hækkað afturvirkt um 25%. Þessi hækkun miðast við það að framtalin nettóeign allra framteljenda hækkaði um tæp 25% milli áranna 2004 og 2005. Þessar aðgerðir koma til framkvæmda þegar að samþykktu frumvarpinu og viðbótarvaxtabætur eiga að koma til útgreiðslu fyrir áramót.
    Frumvarpið á rætur sínar að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 22. júní sl. í tengslum við áframhaldandi gildi kjarasamninga þar sem hún lýsti sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kæmi við niðurstöðu ákvörðunar vaxtabóta að hækkun fasteignaverðs árið 2005 hefði leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.
    Við ákvörðun vaxtabóta í ágúst sl. kom í ljós skerðing á heildarfjárhæð vaxtabóta frá því sem reiknað hafði verið með samkvæmt forsendum fjárlaga fyrir árið 2006 og var auk þess um umtalsverða fækkun vaxtabótaþega að ræða. Varð niðurstaðan samkvæmt álagningartölum að ákvarðaðar vaxtabætur voru um 300 millj. kr. lægri en reiknað hafði verið með í fjárlögum. Var lækkunin minni en flestir bjuggust við, eða um 6%. Sú 25% hækkun eignamarka, sem ASÍ taldi ófullnægjandi í júní sl., reyndist í ljósi álagningar sl. haust því vera næg til að mæta meðalhækkun nettóeignar allra framteljenda eins og að framan greinir. Það var samdóma álit gesta nefndarinnar að ekki væri unnt að elta breytingar hjá ákveðnum einstaklingum. Þess vegna hlyti hækkun eignamarka að byggjast á meðaltalshækkun.
    Í umsögn ASÍ er nefnt að eignamörkin þurfi að hækka um 83% á milli ára til þess að einstaklingar í tiltekinni stöðu verði jafnsettir og fyrir hækkun fasteignamats. Nefndi fulltrúi ASÍ 80% á fundum með nefndinni. Sú hækkun mundi leiða til þess að hjón með 17 millj. kr. nettóeign ættu rétt á vaxtabótum. Í viðræðum við fulltrúa ASÍ var rætt ítarlega um áhrif frumvarpsins á einstaka hópa en ekki komu fram ákveðnar hugmyndir ASÍ um hækkun eignamarka. Samkvæmt frumvarpinu byrja vaxtabætur hjóna að skerðast þegar nettóeign þeirra fer yfir 7,7 millj. kr. og falla niður við 12 millj. kr. nettóeign.
    Eins og að framan greinir er í þessu frumvarpi lögð til afturvirk 25% hækkun á því lágmarki nettóeignar þar sem skerðing vaxtabóta hefst. Talsvert var rætt um það í nefndinni hversu mikið lágmark eignaviðmiðunar skv. 4. mgr. B-liðar 68. gr. þyrfti að hækka til að standa við þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf í júní sl.
    Ljóst er vegna jafnræðisreglu að ekki er hægt að hafa mismunandi eignamörk fyrir einstaka hópa og landshluta. Þar sem fasteignaverð hefur hækkað miklu minna úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu munu vaxtabætur til fólks úti á landi aukast en minnka til fólks á höfuðborgarsvæðinu við þessa breytingu. Hins vegar mun sú hækkun sem lögð er til með þessu frumvarpi bæta stöðu þeirra sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Nefnt hefur verið að greiðslumat byggist m.a. á vaxtabótum og það kunni að bregðast ef vaxtabætur falla niður. Því er til að svara að greiðslumatið byggist ekki síður á tekjum og þær hafa hækkað umtalsvert umfram það sem við hefði mátt búast. Þannig mun greiðslumat í flestum tilvikum standast þó að vaxtabætur skerðist.
    Meiri hlutinn leggur til að hafin verði endurskoðun á vaxtabótakerfinu þar sem það hafi augljósa agnúa. Má þar nefna, líkt og fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands, að niðurgreiðsla á lánsfé er til þess fallin að auka skuldsetningu almennings og draga úr sparnaði. Meiri hlutinn telur ekki heppilegt að hvetja fólk til skulda á þann hátt og vill að hugað sé að gjörbreytingu á þessu kerfi.
    Meiri hlutinn leggur til að eignarmörkin verði hækkuð um 30% í stað 25% hækkunar eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í því sambandi má nefna að matsverð fjölbýlishúsa í Reykjavík hækkaði um 30% á milli ára. Við þessa breytingu er áætlað að vaxtabætur hækki um 4,3% umfram fjárlög 2006.
    Sú hækkun á eignamörkum sem hér er lögð til kemur til af því óeðlilega ástandi sem stafar af mikilli hækkun fasteigna og verðbréfa og telur nefndin eðlilegt að sú hækkun á eignamörkum verði tekin til endurskoðunar ef sú staða snýst við á næstu árum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
     1.      Lagt er til að lágmark eignaviðmiðunar hækki um 30% í stað 25% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
     2.      Lögð er til breytt dagsetning í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins úr 1. desember 2006 í 31. desember 2006. Ætla má að langstærstur hluti framteljenda fái þær bætur sem þeir eiga rétt á samkvæmt frumvarpinu greiddar út á innan við viku. Hins vegar má gera ráð fyrir að það taki 2–3 vikur að endurákvarða og greiða einhverjum hluta manna.

Alþingi, 23. nóv. 2006.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson.Ásta Möller.


Hjálmar Árnason.