Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 457  —  22. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Minni hlutinn átelur harðlega að ekki skuli vera staðið við yfirlýsingu, sem gerð var í sumar í tengslum við endurskoðun kjarasamninga, um vaxtabætur. ASÍ taldi óviðunandi að hækkun fasteignamats milli áranna 2004 og 2005 mundi leiða til þess að vaxtabætur margra skertust verulega eða hyrfu með öllu.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní sl. lýsti ríkisstjórnin sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kæmi við niðurstöðu álagningar í ágúst sl. að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 mundi leiða til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.
    Í umsögn ASÍ um þetta frumvarp kemur fram að það hafi verið og sé skilningur fulltrúa ASÍ á yfirlýsingunni að á grundvelli hennar eigi að finna leið til að gera þá sem verða fyrir marktækri skerðingu nokkurn veginn jafnsetta og ef ekki hefði komið til þessi mikla hækkun á fasteignmati. Fram kemur einnig í umsögninni að leiðinni, sem valin er í þessu frumvarpi til að leiðrétta þá miklu skerðingu sem orðið hefur á vaxtabótum, hafi ASÍ hafnað í sumar. Niðurstaðan þá var að aðilar urðu ásáttir um að nýta tímann til hausts til að skoða málið og að samráð yrði haft við ASÍ.
    Í umsögn ASÍ um frumvarpið kemur fram að ekkert hafi orðið af slíku samráði. Það sem meira er, ASÍ hefur ekki einu sinni fengið umbeðin gögn til að geta lagt mat á skerðinguna og hvaða leiðir hægt væri að fara til að fólk fengi eðlilega leiðréttingu sinna mála. Svona vinnubrögð eru ekki líðandi og ekkert annað en brot á því samkomulagi sem verkalýðshreyfingin gerði við ríkisstjórnina nú í sumar. Ljóst er að stjórnvöld hafa algjörlega gengið á svig við samkomulagið, en í umsögn aðila vinnumarkaðarins segir orðrétt um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: „Aðilar urðu því ásáttir um að nýta tímann til hausts til að skoða málið og að samráð yrði haft við ASÍ. Því miður hefur ekkert orðið af slíku samráði.“ Í lok umsagnar ASÍ kemur síðan fram: „Í ljósi þess sem að framan er rakið telur ASÍ að frumvarpið eins og það er fram sett sé með öllu óásættanlegt og ekki í samræmi við þær viðræður sem áttu sér stað milli ríkisstjórnar og ASÍ í aðdraganda yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.“
    Stjórnarandstaðan krafðist þess á Alþingi sl. vor að lögum yrði þá þegar breytt þannig að komið yrði í veg fyrir þann yfirvofandi skell sem fjárhagur heimilanna mundi verða fyrir vegna skerðingar á vaxtabótum. Við því var ekki orðið með þeim afleiðingum að vaxtabætur skertust verulega hjá fjölda einstaklinga og í mörgum tilvikum þurrkuðust þær alveg út, jafnvel hjá þeim sem höfðu fengið fullar vaxtabætur árið áður. Ljóst er að margir áttuðu sig ekki á þessum skelli sem þeir urðu fyrir í ágúst sl. og gerðu ráð fyrir vaxtabótum í fjárhagsáætlunum sínum á árinu. Staðan nú er því sú að ríkistjórnin kom ekki einasta aftan að fjölda íbúðareigenda með því að leiðrétta ekki vaxtabæturnar strax í vor, m.t.t. gífurlegrar hækkunar á fasteignamati, heldur á enn og aftur að koma í bakið á fjölda heimila í landinu sem enga leiðréttingu fá með þessu frumvarpi, sem þó höfðu verið gefnar væntingar um.
    Eftir meðferð frumvarpsins í efnahags- og viðskiptanefnd liggur fyrir að meiri hlutinn hyggst afgreiða málið nánast óbreytt með þeirri leið sem ASÍ hafnaði í sumar. Það mun leiða til þess að fjöldi einstaklinga fær nú enga leiðréttingu sem þurfti í ágúst sl. að sæta verulegri skerðingu á vaxtabótum eða jafnvel að fullar vaxtabætur sem þeir fengu árið áður þurrkuðust alveg út, þótt ekkert hefði breyst í aðstæðum þessa fólks annað en hækkun fasteignmats. ASÍ telur að hér sé að verulegu leyti um að ræða fólk með lágar tekjur og meðaltekjur.
    ASÍ hefur í umsögn sinni sett fram sláandi dæmi um hvernig sú leið sem ríkisstjórnin leggur til með hækkun á eignastuðli um 25% dugi hvergi til að bæta fjölda heimila þá skerðingu sem þau hafa orðið fyrir. Í mörgum tilvikum er ekki um neina leiðréttingu að ræða hjá fólki með lágar tekjur og meðaltekjur, þrátt fyrir þessa hækkun á eignastuðlinum, sem er algjörlega óviðunandi. Skýrist það af því að skerðing vaxtabóta, sem hefst þegar eignin nær 6,2 millj. kr. en þær falla alveg út þegar hún er orðin 9,9 millj. kr., er á svo þröngu eignabili að gífurleg hækkun á fasteignamati, allt upp í 35% þar sem það hækkaði mest, kemur í veg fyrir nokkra leiðréttingu vaxtabóta, þrátt fyrir 25% hækkun á eignastuðlinum.
    Sem dæmi má nefna hjón með 440 þús. kr. í tekjur sem áttu eign upp á 25 millj. kr. en 19 millj. kr. skuld, eða 6 millj. kr. nettóeign, fengu fullar vaxtabætur við álagningu 2005. Miðað við 29% hækkun á fasteignamati milli áranna 2005 og 2006 hækkar eignin í 32.250.000 kr. en skuldin hækkar aðeins um 4,14%, fer úr 19 millj. kr. 2005 í 19.760.000 kr. Nettóeignin er því 12.490.000 kr. Vaxtabætur falla niður við 9,9 millj. kr. eign og því fengu þessi hjón engar vaxtabætur í ágúst sl. Jafnvel þótt eignastuðullinn hækki um 25% mundu efri skerðingarmörkin (þ.e. þegar hrein eign hefur skert vaxtabætur að fullu) engu að síður einungis fara í 12,4 millj. kr. með þeim afleiðingum að hjónin fá engar vaxtabætur.
    Við lokaafgreiðsu málsins í nefndinni lagði meiri hlutinn til örlitla breytingu á frumvarpinu. Í stað 25% hækkunar á eignastuðli til útreiknings vaxtabóta er nú gerð tillaga um að stuðullinn verði 30%. Þetta er óveruleg breyting sem litlu breytir um þá meginniðurstöðu sem lýst hefur verið í þessu nefndaráliti.
    Ástæða er einnig til að minna á að auk þeirrar skerðingar á vaxtabótum sem fjöldi fólks hefur orðið fyrir vegna mikillar hækkunar á fasteignamati hefur ríkisstjórnin með margvíslegum hætti skert vaxtabætur á umliðnum árum, eða um 1,4 milljarða kr. á árunum 2003–2006. Þetta hefur komið hart niður á mörgum heimilum sem byggt hafa greiðsluáætlanir sínar m.a. á greiðslu vaxtabóta.
    Minni hlutinn vísar allri ábyrgð á niðurstöðu þessa máls á ríkisstjórnina og átelur harðlega að fjöldi fólks sem vænti leiðréttinga og greiðslu vaxtabóta muni annaðhvort fá litlar eða engar vaxtabætur nú í desember, eins og lofað hafði verið.

Alþingi, 23. nóv. 2006.



Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ögmundur Jónasson.



Lúðvík Bergvinsson.