Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 409. máls.

Þskj. 460  —  409. mál.Frumvarp til æskulýðslaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi. Með æskulýðsstarfi er átt við skipulagða félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Í skipulögðu æskulýðsstarfi skal hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miðar að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Í öllu starfi með börnum og ungmennum skal velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Lögin miðast við æskulýðsstarf fyrir börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6–25 ára.

2. gr.

    Lög þessi gilda um:
     1.      Starfsemi félaga og félagasamtaka sem sinna æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjármögnun.
     2.      Æskulýðsstarf á vegum ríkis, sveitarfélaga og í skólum, að svo miklu leyti sem við á og önnur lög og aðrar reglur gilda ekki um.
     3.      Aðra starfsemi þar sem einkum er sinnt ófélagsbundnu æskufólki í skipulögðu æskulýðsstarfi.

3. gr.

    Ríki og sveitarfélög í samstarfi við félög og félagasamtök á sviði æskulýðsmála stuðla að því að ungt fólk eigi þess kost að starfa að æskulýðsmálum við sem fjölbreyttust skilyrði. Um framlög úr ríkissjóði til starfsemi landssamtaka æskulýðsfélaga fer eftir ákvörðun Alþingis í fjárlögum.
    Um framlög til starfsemi svæðisbundinna æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka fer eftir samþykktum í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga.

II. KAFLI
Stjórn æskulýðsmála.
4. gr.

    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn æskulýðsmála samkvæmt lögum þessum.

5. gr.

    Ráðherra skipar níu fulltrúa í Æskulýðsráð. Fimm fulltrúar skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu æskulýðssamtaka, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Tveir fulltrúar skulu tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra skipar formann og varaformann Æskulýðsráðs án tilnefningar. Skipunartími ráðsins er tvö ár.

6. gr.

    Hlutverk Æskulýðsráðs er:
     1.      Að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum.
     2.      Að gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum.
     3.      Að veita umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi.
     4.      Að leitast við að efla æskulýðsstarfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðla að samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál.
     5.      Að efna til funda og ráðstefna um æskulýðsmál.
     6.      Að taka þátt í erlendu samstarfi um æskulýðsmál eftir nánari ákvörðun ráðherra.
     7.      Að stuðla að þjálfun og menntun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða.
     8.      Að sinna öðrum þeim verkefnum sem ráðherra kann að fela því.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um starfsemi Æskulýðsráðs.
    Kostnaður við störf og verkefni Æskulýðsráðs skal greiddur úr ríkissjóði.

III. KAFLI
Æskulýðssjóður.
7. gr.

    Alþingi veitir árlega fé í Æskulýðssjóð til eflingar æskulýðsstarfi. Sjóðnum er heimilt að taka við frjálsum framlögum.

8. gr.

    Stjórn Æskulýðssjóðs skal skipuð þremur fulltrúum til tveggja ára í senn. Formaður Æskulýðsráðs er formaður sjóðsins, en ráðið tilnefnir tvo fulltrúa og jafnmarga varamenn. Ráðherra skipar varaformann Æskulýðssjóðs úr hópi aðalfulltrúa.

9. gr.

    Hlutverk Æskulýðssjóðs er að styrkja eftirtalin verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka:
     1.      Sérstök verkefni sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátttöku þeirra.
     2.      Þjálfun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða.
     3.      Nýjungar og þróunarverkefni.
     4.      Samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka.
    Ráðherra úthlutar styrkjum úr Æskulýðssjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um úthlutun úr Æskulýðssjóði.

IV. KAFLI
Starfsskilyrði í æskulýðsstarfi.
10. gr.

    Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins.
    Í skipulögðu æskulýðsstarfi og í ferðum með börnum og ungmennum er forustufólki, leiðbeinendum, sjálfboðaliðum og öðru starfsfólki óheimilt að neyta áfengis og annarra vímuefna.
    Óheimilt er að ráða til starfa hjá aðilum, sem 2. gr. tekur til og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.
    Yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem börn og ungmenni koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma, og 2. gr. tekur til, eiga rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm vegna brota sem 3. mgr. tekur til, að fengnu samþykki hans.
    Standi ríki, sveitarfélag eða aðrir aðilar fyrir starfsemi sem fellur undir lög þessi skal þess gætt að hún uppfylli lög og reglur um aðgengi, aðstöðu, hollustuhætti og öryggisþætti.

V. KAFLI
Stuðningur sveitarfélaga við æskulýðsstarf.
11. gr.

    Sveitarstjórnir setja sér reglur um á hvern hátt stuðningi við frjálst æskulýðsstarf skuli háttað. Sveitarfélög hafa starfandi æskulýðsnefndir eða sambærilegar nefndir samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
    Sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Hlutverk ungmennaráða er m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórnir setja nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.

VI. KAFLI
Æskulýðsrannsóknir.
12. gr.

    Ráðherra stuðlar að því að fram fari reglubundnar æskulýðsrannsóknir sem lagðar verði til grundvallar stefnumótun í æskulýðsmálum.
    Ráðherra skipar fimm manna ráðgjafarnefnd um æskulýðsrannsóknir. Einn fulltrúi skal skipaður samkvæmt tilnefningu Æskulýðsráðs, einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu æskulýðssamtaka og einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Skipunartími nefndarinnar er tvö ár.

VII. KAFLI
Önnur ákvæði.
13. gr.

    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 24/1970, um æskulýðsmál.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi (132. löggjafarþing, 434. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Er það því lagt fram að nýju með einni efnisbreytingu, sem er að finna í 10. gr. þess. Í stað þess að öll brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni leiði til þess að viðkomandi teljist ekki hæfur til að sinna æskulýðsstarfi er nú lagt til að óheimilt verði að ráða einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni á síðastliðnum fimm árum til starfa hjá aðilum sem 2. gr. frumvarpsins tekur til og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi. Ólíkt því sem gildir um þá sem brotið hafa gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga þykir ekki ástæða til að útiloka þá sem brotið hafa gegn lögum um ávana- og fíkniefni alfarið frá ráðningu í þau störf sem lög þessi taka til, heldur takmarka ákvæðið við brot á síðastliðnum fimm árum. Er þá miðað við að umsækjendur hafi snúið af braut ávana- og fíkniefna.
    Á haustmánuðum árið 2003 ákvað þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, að setja á fót nefnd til að semja drög að nýrri löggjöf um æskulýðsmál. Í nefndina voru skipuð: Ásta Möller hjúkrunarfræðingur, formaður, Erlendur Kristjánsson deildarstjóri, Karitas H. Gunnarsdóttir skrifstofustjóri, Ólafur Jóhannsson sóknarprestur og Stefán E. Bjarkason framkvæmdastjóri. Í erindisbréfi nefndarinnar er tekið fram að nefndin hafi m.a. til hliðsjónar við vinnu sína skýrslu og tillögur nefndar er vann árið 2003 úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi fyrir menntamálaráðuneytið. Nefndin skilaði menntamálaráðherra frumvarpsdrögum í febrúar 2005. Frumvarp þetta byggist að meginstefnu til á tillögum nefndarinnar og felur í sér heildarendurskoðun á gildandi löggjöf um æskulýðsmál.
    Þátttaka ungs fólks í æskulýðsstarfi er einn af hornsteinum uppbyggilegrar þátttöku þeirra í samfélaginu. Með þátttöku í félagsstarfi öðlast börn og ungmenni þjálfun í að vinna saman og taka ákvarðanir í samstarfi við aðra. Í skipulögðu æskulýðsstarfi fer m.a. fram þjálfun í framkomu og tjáningu á skoðunum sem er hverjum einstaklingi mikilvægt veganesti í lífi og starfi. Áhersla æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka á sjálfboðastarfið kennir ungu fólki að sýna ósérhlífni og umburðarlyndi gagnvart félögum í hópnum. Skipulagt félagsstarf eykur þroska og mannkosti hvers einstaklings.
    Frá árinu 1992 hefur menntamálaráðuneytið stuðlað að því að fram fari reglubundnar rannsóknir á högum ungs fólks og nefnast þær Ungt fólk. Í október 2004 var framkvæmd rannsókn í öllum framhaldsskólum á landinu, Ungt fólk 2004. Í marsmánuði 2006 var lögð fyrir nemendur rannsóknin Ungt fólk 2006 í 8., 9. og 10. bekk í öllum grunnskólum landsins. Niðurstöður úr þeirri rannsókn er varða menntun, menningu, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn íslenskra ungmenna verða kynntar á næstunni.
    Frá árinu 1999 hefur fyrirtækið Rannsóknir og greining verið samstarfsaðili ráðuneytisins og framkvæmt þessar rannsóknir. Við undirbúning og framkvæmd þeirra hefur tekist mikið og gott samstarf milli ráðuneytisins, Rannsóknar og greiningar, kennara og skólastjórnenda, enda er það forsenda að góðri framkvæmd. Fjölmargir aðilar nýta sér niðurstöður rannsóknanna og fjölmörg sveitarfélög hafa stuðst við niðurstöður þeirra við stefnumótun í skólamálum, æskulýðsmálum og ýmsum málum er varða börn og ungmenni í sveitarfélaginu. Gildi slíkra æskulýðsrannsókna er mikið og hefur framkvæmd þeirra og niðurstöður vakið mikla athygli, langt út fyrir landsteinana. Eitt af einkennum rannsóknanna Ungt fólk er að spurningalistar eru samtímis lagðir fyrir alla nemendur í 9. og 10. bekk í öllum grunnskólum landsins. Með því að leggja spurningalista fyrir í öllum grunnskólum er gætt jafnræðis nemenda og skóla. Sama gildir um framhaldsskóla, en í þessum rannsóknum eru spurningalistar lagðir samtímis fyrir alla nemendur í öllum framhaldsskólum landsins. Þessi leið er mun kostnaðarsamari og umfangsmeiri, en hins vegar fást mun nákvæmari og marktækari niðurstöður en með því að byggja á úrtakskönnunum.
    Menntamálaráðuneytið gerði nýlega samstarfssamning við Rannsóknir og greiningu um framhald á æskulýðsrannsóknunum Ungt fólk til ársins 2010. Auk þess er Háskólinn í Reykjavík aðili að þeim samningi. Í samningnum er kveðið á um rannsóknir meðal nemenda í 5., 6. og 7. bekk grunnskóla, í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla og meðal framhaldsskólanema. Rannsóknaráætlun áranna 2006–2010 gerir ráð fyrir að sama fyrirkomulag verði á rannsóknunum og verið hefur allt frá árinu 1992, að spurningalistar verði lagðir fyrir alla nemendur í þeim aldurshópum sem samkomulagið nær til, í öllum skólum landsins á sama tíma.
    Þann 31. mars 2006 gerðu menntamálaráðuneytið, sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð, Rannsóknir og greining og Háskólinn í Reykjavík með sér samstarfssamning um æskulýðsrannsóknir og úrvinnslu þeirra. Markmið samningsins er að styrkja faglegan grundvöll stefnumótunar í málefnum ungs fólks í sveitarfélaginu Fljótdalshéraði og í sveitarfélaginu Fjarðabyggð, auka virði samfélagsins gagnvart börnum og unglingum og auka virka þátttöku þeirra í samfélaginu. Ein af meginleiðunum að þessum markmiðum er úrvinnsla úr reglubundnu rannsóknunum Ungt fólk sem menntamálaráðuneytið og Rannsóknir og greining hafa unnið á högum barna og unglinga á aldrinum 10 til 20 ára. Niðurstöður úr þeim rannsóknum eru verkfæri í hendur þeirra er starfa að málefnum barna og ungmenna til að laga stefnumótun að mikilvægustu málefnum hvers tíma svo hægt sé að meta breytingar innan sveitarfélaganna.
    Rannsóknirnar hafa sýnt að þátttaka ungs fólks í æskulýðsstarfi hefur mikið forvarna- og uppeldislegt gildi. Á síðustu árum hafa ýmis vandamál meðal ungmenna vakið fólk til umhugsunar um þær ólíku hættur og freistingar sem fylgja unglingsárunum í opnu nútímasamfélagi. Má þar benda á ofbeldi, einelti, sjálfsvíg og neyslu vímugjafa. Niðurstöður rannsókna, bæði innlendra og erlendra, benda til þess að ein vænleg leið til þess að stemma stigu við frávikshegðun ungs fólks sé að efla þátttöku þess í sem fjölbreyttustu félags- og æskulýðsstarfi. Menntamálaráðuneytið er aðili að samstarfsverkefni Evrópusambandsins og Evrópuráðsins um upplýsingagjöf um stöðu ungs fólks í aðildarlöndunum, European Knowledge Center for Youth Policy. Ráðuneytið hefur falið fyrirtækinu Rannsóknir og greining að vera fulltrúi Íslands í samstarfinu.
    Þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu æskulýðsstarfi skapar aukna festu í lífi hvers einstaklings og umgjörð utan um jafningjasamskipti og jafningjamenningu. Börn og ungmenni sem taka þátt í markmiðsbundnu æskulýðsstarfi eru líklegri til þess að líta á sig sem ábyrga þátttakendur í samfélaginu. Þá gefa rannsóknirnar mjög sterka vísbendingu um að ungt fólk sem tekur þátt í skipulögðu æskulýðsstarfi hafi síður tíma og aðstæður til að falla fyrir áhættusömum freistingum.
    Í nútímasamfélagi hefur skipulagt æskulýðsstarf, þ.e. félags- og tómstundastarf, orðið stór og mikilvægur hluti af þeirri þjónustu sem boðið er upp á í flestum byggðarlögum. Kröfur um gæði og fjölbreyttari þjónustu af þessu tagi hafa aukist, eins og kröfur um ýmsa aðra þjónustu. Skipulagt félags- og tómstundastarf er í senn mikilvægur vettvangur fyrir afþreyingu og félagsleg samskipti við jafnaldra, en hvort tveggja er börnum og ungu fólki mikilvægt. Af þessum sökum er líklegt að framboð á skipulögðu félags- og tómstundastarfi hafi mikil áhrif á viðhorf fólks til þess hve áhugavert er að búa í tilteknu byggðarlagi. Þá má ætla að framboðið hafi veruleg áhrif á það hvort ungt fólk snúi aftur til heimabyggðar sinnar að námi loknu. Í þessu sambandi er félags- og tómstundastarf öflug fjárfesting til framtíðar fyrir samfélagið allt.
    Núgildandi löggjöf um æskulýðsmál er frá árinu 1970, lög nr. 24/1970. Miklar þjóðfélagslegar breytingar hafa átt sér stað á þessum rúmu þremur áratugum frá því þau lög voru samþykkt. Nýir miðlar hafa komið fram og ný tækni sem höfðar til barna og ungmenna. Margir hafa af því áhyggjur að sumir af þessum miðlum geti dregið úr áhuga barna og ungmenna á félagslegu starfi og aukið á einsemd, umkomuleysi þeirra og framtaksleysi.
    Á árinu 2002 skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, nefnd er var ætlað að gera úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi. Í nefndina voru skipuð þau Ásta Möller alþingismaður, formaður, Eiríkur Bj. Björgvinsson, þáverandi bæjarstjóri Austur-Héraðs, varaformaður, Helga Guðjónsdóttir, aðstoðarskólastjóri grunnskóla Hveragerðis og varaformaður Ungmennafélags Íslands, Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, Margrét Tómasdóttir, sviðsstjóri bráðasviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss og þáverandi aðstoðarskátahöfðingi, dr. Þórólfur Þórlindsson, prófessor í félagsfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, og Vanda Sigurgeirsdóttir, aðjunkt við Kennaraháskóla Íslands. Dr. Jón Gunnar Bernburg félagsfræðingur var ráðinn starfsmaður nefndarinnar. Tengiliður við menntamálaráðuneytið var Erlendur Kristjánsson, deildarstjóri íþrótta- og æskulýðsdeildar.
    Nefndin skilaði ráðherra viðamikilli skýrslu. Þar er m.a. gerð grein fyrir stöðu og starfsemi hjá æskulýðssamtökum og æskulýðsfélögum og starfsemi hjá sveitarfélögum. Nefndin kallaði eftir skriflegum upplýsingum frá félagasamtökum og eins fékk hún fulltrúa þeirra á sinn fund, auk annarra aðila, svo sem formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, fræðslufulltrúa Verslunarmannafélags Reykjavíkur og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Í skýrslunni er m.a. gerð grein fyrir opinberum stuðningi við félags- og tómstundastarfsemi í landinu. Nokkur stærstu landssamtök æskulýðsfélaga landsins njóta árlegs stuðnings Alþingis í fjárlögum til reksturs starfseminnar, en slíkur stuðningur er ekki tryggður nema til eins árs í senn, sem skapar ákveðna óvissu um starfsemina frá ári til árs. Önnur landssamtök æskulýðsfélaga fá lítinn eða engan opinberan stuðning frá Alþingi. Æskulýðssamtökin hafa bent á að þau hafi ekki lögbundinn tekjustofn, eins og t.d. íþróttahreyfingin hefur með lottói. Í fjárlögum ársins 2003 voru veittar 113,7 millj. kr. til landssamtaka æskulýðsfélaga og verkefna á sviði félags- og æskulýðsmála. Í fjárlögum ársins 2004 var þessi upphæð 124,5 millj. kr. Í fjárlögum ársins 2005 var hún 129,5 millj. kr. og í fjárlögum ársins 2006 er upphæðin 162,6 millj. kr.
    Í skýrslunni kemur fram að framlög sveitarfélaga til æskulýðs- og íþróttamála voru um 6 milljarðar króna árið 2001. Þar af fór um 1 milljarður króna til félags- og tómstundastarfs utan íþróttastarfs. Í þessum tölum er um að ræða heildarkostnað bæði til bygginga mannvirkja, reksturs þeirra og innra starfs hjá sveitarfélögunum.
    Flest sveitarfélög leggja áherslu á æskulýðsstarf, þ.e. félags- og tómstundastarf, og mörg þeirra starfrækja ungmennahús, frístundamiðstöðvar, félagsmiðstöðvar, leikjanámskeið, vinnuskóla o.fl. á sínum vegum með fjölbreyttri starfsemi. Þá hafa félagsmiðstöðvar með sér gott samstarf, m.a. um nokkur viðamikil verkefni. Samfés – samtök félagsmiðstöðva á Íslandi eru fagsamtök þeirra stofnana sveitarstjórna er vinna að æskulýðs- og tómstundamálum. Aðilar í samtökunum eru t.d. félags-, tómstunda- og hverfamiðstöðvar og skrifstofur æskulýðsfulltrúa. Hlutverk Samfés er m.a. að efla samskipti og einingu og miðla fræðslu milli félagsmiðstöðva á innlendum og erlendum vettvangi, að auka samskipti og samvinnu milli félagsmiðstöðva og efna til verkefna á innlendum og erlendum vettvangi, að efla fagmenntun fyrir starfsfólk félagsmiðstöðva með ráðstefnum og námskeiðum, að koma á framfæri faglegum upplýsingum um starf félagsmiðstöðva og undirstrika vægi þeirra í nútímasamfélagi. Í samtökunum eru nú milli áttatíu og níutíu félagsmiðstöðvar/æskulýðsskrifstofur af öllu landinu. Loks má geta þess að umtalsvert félags- og tómstundastarf fer fram í grunnskólum, bæði starfsemi á vegum nemenda sjálfra og á vegum sveitarfélaga.
    Á Norðurlöndum og í flestum Evrópulöndum er mikil áhersla lögð á opinberan stuðning við starfsemi æskulýðssamtaka og æskulýðsfélaga, enda er almennt litið á starfsemi þeirra sem mikilvægan þátt í lýðræðissamfélaginu. Landssamtök æskulýðsfélaga njóta þar stuðnings frá ríki bæði til reksturs starfseminnar og til einstakra verkefna. Þá njóta staðarfélögin og landshlutasamtök æskulýðsfélaga stuðnings frá sveitarstjórnum og landshlutastjórnum á viðkomandi stað og svæðum. Í október árið 2004 var stofnað hérlendis Landssamband æskulýðsfélaga – LÆF. Landssambandi æskulýðsfélaga er ætlað að vera samstarfs- og samráðsvettvangur íslenskra æskulýðssamtaka og hefur að markmiði að efla æskulýðsstarf og æskulýðsumræðu á Íslandi. Landssamband æskulýðsfélaga vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum frjálsra æskulýðsfélaga og er fulltrúi þeirra í margvíslegu erlendu samstarfi.
    Landssamband æskulýðsfélaga er aðili að evrópska æskulýðsvettvanginum, EYF European Youth Forum, sem er samstarfsvettvangur æskulýðssambanda Evrópulanda og alþjóðasamtaka ungs fólks sem starfa innan Evrópu. European Youth Forum er bæði í formlegu og óformlegu samstarfi við Evrópuráðið í Strassborg og Evrópusambandið.
    Mikil umræða er á Norðurlöndum og víðar í Evrópu um mikilvægi lýðræðislegrar þátttöku ungs fólks í samfélaginu. Þar er litið á æskulýðssamtök og æskulýðsfélög sem mikilvæga aðila í því að virkja börn og ungmenni til þátttöku og auka lýðræðisvitund þeirra. Æskulýðssamtök og æskulýðsfélög eru frjáls félagssamtök sem sinna markmiðsbundnu starfi og hafa á að skipa fjölda sjálfboðaliða sem vinna að málum á frjálsum áhugamannagrundvelli. Stjórnvöld í viðkomandi löndum hafa mikinn áhuga á að viðhalda og efla þetta starf. Í skýrslu og tillögum framangreindrar nefndar er bent á að efla þurfi menntun og þjálfun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða. Mörg æskulýðssamtök hafa sína eigin námskrá fyrir þessa aðila. Í skýrslunni er lagt til að í grunnskólum verði lögð aukin áhersla á nám í félagsmálafræðslu og þjálfun í félagsstörfum og að komið verði upp félags- og tómstundabrautum til stúdentsprófs í framhaldsskólum. Námsbrautir í tómstundafræðum hafa verið settar upp í Háskóla Íslands og við Kennaraháskólann. Þá er í skýrslunni gerð tillaga um að þær brautir verði efldar.
    Í nóvember 2001 gaf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út hvítbókina Ný sókn í málefnum evrópskra ungmenna. Áður en bókin var gefin út hafði átt sér stað víðtækt samráð milli fulltrúa stjórnvalda í aðildarlöndum Evrópusambandsins og æskulýðssamtaka. Í hverju landi var farið yfir stöðu mála og að því loknu komu saman í París um 400 ungmenni og fulltrúar stjórnvalda landanna og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að vinna að lokaniðurstöðum. Í framhaldi voru niðurstöðurnar kynntar ungmennum og fulltrúum stjórnvalda aðildarlandanna. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggur mikla áherslu á að aðildarlöndin hafi tillögur og áherslur í hvítbókinni til hliðsjónar við stefnumótun í æskulýðsmálum. Má sjá þess merki að stjórnvöld í löndum Evrópusambandsins nota bókina við mótun æskulýðsmála hvert í sínu landi.
    Evrópuráðið í Strassborg hefur allt frá stofnun látið málefni barna og ungmenna sig miklu varða. Á vegum Evrópuráðsins er starfræktur sérstakur Æskulýðsvettvangur, European Steering Committee for Youth. Þá stendur Evrópuráðið reglulega fyrir fundum ráðherra Evrópuráðsins er fara með æskulýðsmál. Á vegum Evrópuráðsins eru starfræktar tvær æskulýðsmiðstöðvar, önnur í Strassborg og hin í Búdapest. Þá er á vegum Evrópuráðsins starfræktur Æskulýðssjóður Evrópu, European Youth Foundation. Í þann sjóð geta Landssambönd æskulýðsfélaga sótt um styrki. Í æskulýðsmiðstöðvunum er haldinn fjöldi funda, námskeiða og ráðstefna á ári hverju. Íslensk æskulýðssamtök hafa sent ungmenni á ráðstefnur og fundi í æskulýðsmiðstöðvunum. Þátttaka íslenskra æskulýðssamtaka í norrænu og evrópsku samstarfi er sífellt að aukast. Alþjóðlegt samstarf er ungu fólki mjög mikilvægt, bæði til að sækja fróðleik og reynslu og eins að miðla þekkingu og reynslu til annarra ungmenna. Með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi öðlast ungmenni mikla reynslu sem nýtist þeim vel og eykur hæfni og félagsauð þeirra. Með samþykktum Evrópuráðsins í Strassborg, ályktunum frá ráðherrafundum þess og með hvítbók framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um málefni ungs fólks er lögð mikil áhersla á að auka virkni ungs fólks í samfélaginu og stuðla að þátttöku þeirra á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Eitt af þeim atriðum sem þessir aðilar leggja mikla áherslu á er að efla æskulýðsfélög og æskulýðssamtök og stuðla að því að þau séu öflug og virk og að þau geti boðið börnum og ungmennum upp á fjölbreytt starf. Með þátttöku í skipulögðu og markmiðsbundnu æskulýðsstarfi öðlast börn og ungmenni reynslu og þekkingu. Þá er lögð áhersla á mikilvægi þess að ungmenni eigi þess kost að vera virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi og koma að þeim ákvörðunum er hafa áhrif á líf þeirra, umhverfi og framtíð. Áhersla er lögð á að þau hafi þessa möguleika í sveitarfélaginu þar sem þau búa, m.a. með því að þar sé komið á ungmennaráðum.
    Norræna ráðherranefndin lagði fram í júní árið 2001 þverfaglega framkvæmdaáætlun um samstarf að barna- og æskulýðsmálum 2001–2005 Norðurlönd inn í nýtt árþúsund. Í áætluninni var m.a. lögð áhersla á samstarf og samvinnu og að auka virkni barna og ungmenna í öllu starfi og efla lýðræðisvitund þeirra og þátttöku í samfélaginu.
    Á fundi sínum þann 1. mars sl. samþykktu norrænu samstarfsráðherrarnir stefnumótun í málefnum barna og ungmenna á Norðurlöndum og framkvæmdaáætlun norrænu barna- og æskulýðsnefndarinnar NORDBUK 2006–2009.
    Mikill samhljómur er í þessum skýrslum, þ.e. í hvítbók framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, samþykkt sjötta ráðherrafundar ráðherra Evrópuráðsins um æskulýðsmál 7.–9. nóvember 2002 í Þessalóníku í Grikklandi, framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar frá 7. júní 2001 og samþykktum norrænu samstarfsráðherrana frá 1. mars sl. Á sjöunda fundi ráðherra Evrópuráðsins sem fer með æskulýðsmál og haldinn var í Búdapest 23.–24. september 2005 var ályktað um og gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna. Ein leið til að hamla gegn vaxandi ofbeldi er þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu æskulýðsstarfi með reyndum og menntuðum leiðbeinendum. Einnig er á það bent að samstarf milli æskulýðsfélaga og stofnana og samtaka á vegum ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila sem vinna með börnum og ungmennum er mikilvægt til að árangur náist.
    Menntamálaráðuneytið hefur lagt mikla áherslu á aukna þátttöku barna og ungmenna í æskulýðsstarfi. Sýnt hefur verið fram á að með þátttöku í æskulýðsstarfi séu mun minni líkur á að viðkomandi leiðist út í óreglu, svo sem neyslu áfengis og fíkniefna. Þá hefur komið fram að minni líkur eru á að börn og ungmenni verði félagslega einangruð og minni líkur á að þau verði fyrir einelti. Menntamálaráðuneytið hefur leitast við að stuðla að þessu með sem bestu samstarfi og stuðningi við æskulýðsfélög, æskulýðssamtök, sveitarstjórnir og aðra aðila er vinna með börnum og ungmennum þessa lands. Áhersla hefur verið lögð á að þeir sem starfa með börnum og ungmennum komi að ákvarðanatöku og séu þannig virkir þátttakendur. Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að sýna þurfi börnum og ungu fólki umburðarlyndi og virðingu en einnig þurfi að stuðla að því að þau öðlist skilning á mikilvægi virkrar þátttöku og þannig auka skilning þeirra á lýðræðislegum gildum.
    Með þátttöku barna og ungmenna í æskulýðsstarfi öðlast þau víðtæka þjálfun og reynslu sem þeim er mikilvægt veganesti út í lífið. Slík þjálfun og reynsla er oft nefnd óformleg menntun eða raunfærni. Mikil umræða er um óformlega menntun um alla Evrópu, sbr. hvítbók framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og samþykktir Evrópuráðsins í Strassborg, og þá á hvern hátt hægt sé að meta hana til náms í hinu almenna menntakerfi og til þátttöku í atvinnulífinu.
    Bent skal á að í framangreindri skýrslu og tillögum nefndarinnar frá 2003 um úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks kemur fram að nefndinni hafi ekki verið ætlað að fjalla um hina umfangsmiklu íþróttastarfsemi ungs fólks sem fer fram innan fjölmargra félaga sem aðild eiga að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands og því hafi hún ekki leitað eftir upplýsingum um þá starfsemi. Hún var því ekki til umfjöllunar í skýrslunni. Þá segir í skýrslunni að eins og á Norðurlöndum og víða í Evrópu hafi starfsemi íþróttafélaga og annarra félags- og tómstundasamtaka verið aðskilin, m.a. af skipulagslegum ástæðum og eftir eðli starfseminnar. Í tillögum þeirrar nefndar sem samdi drög að frumvarpi þessu er ekki við það miðað að frumvarpið nái til starfsemi íþróttafélaga, enda er nefnd að störfum, sem skipuð var af menntamálaráðherra í janúar 2005, sem hefur það hlutverk að fara yfir íþróttamál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu. Vænta má að nefndin hafi til hliðsjónar í starfi sínu þá efnisþætti sem frumvarp þetta fjallar um.
    Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:
     1.      Skipulag æskulýðsmála er sett fram með skýrari hætti en í núgildandi lögum um æskulýðsmál, nr. 24/1970. Eins og áður fer menntamálaráðherra með yfirstjórn æskulýðsmála. Hann skipar Æskulýðsráð og úthlutar úr Æskulýðssjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Þá er lagt til það nýmæli að ráðherra stuðli að því að fram fari æskulýðsrannsóknir en sú skylda hvíldi áður á Æskulýðsráði.
     2.      Hlutverki Æskulýðsráðs er nokkuð breytt í þessu frumvarpi frá núgildandi lögum. Þannig er meiri áhersla nú lögð á stefnumarkandi og ráðgefandi hlutverk þess gagnvart málaflokknum og starfsemi þess afmörkuð betur en áður. Þannig er lagt til að í stað þess að ráðið skipuleggi og samræmi opinberan stuðning við æskulýðsstarf í landinu verði það nú stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum og geri tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum. Auk þessa er lagt til að það veiti áfram umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi og leitist við að efla starfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðli þannig að áframhaldandi samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál. Þá er lagt til að ráðið efni áfram til funda og ráðstefna um æskulýðsmál, eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum, og taki þátt í erlendu samstarfi í æskulýðsmálum eftir nánari ákvörðun menntamálaráðherra. Að lokum er lagt til að ráðið stuðli áfram að þjálfun og menntun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða og sinni öðrum verkefnum sem menntamálaráðherra kann að fela því.
     3.      Lögfest eru ákvæði um Æskulýðssjóð, en hann starfar nú samkvæmt reglum nr. 113/2004, sem ekki hafa lagastoð.
     4.      Lögfestur er sá megintilgangur laganna að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi. Þá er kveðið á um að í öllu starfi með þeim skuli velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Þá er lagt til að í skipulögðu æskulýðsstarfi skuli hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miði að því að auka mannkosti og lýðræðisvitund þátttakenda. Að lokum eru einnig lögfest ítarleg tilmæli um starfsskilyrði í æskulýðsstarfi, sbr. fyrrgreind ákvæði 10. gr. frumvarpsins, þar sem m.a. er kveðið nánar á um hæfisskilyrði þeirra sem starfa með börnum og ungmennum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. mgr. greinarinnar er kveðið á um megintilgang laganna sem er að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi. Þá er hugtakið æskulýðsstarf skýrt nánar og skilgreint sem skipulögð félags- og tómstundastarfsemi þar sem börn og ungmenni starfa saman í frístundum sínum að hugsjónum, markmiðum og áhugamálum sem þau sjálf meta að verðleikum. Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga um æskulýðsmál er tilgangur þeirra að setja reglur um opinberan stuðning við æskulýðsstarfsemi og eru þeir aðilar sem stuðning hljóta skilgreindir í lögunum. Hér er lögð til önnur nálgun á tilgangi laganna, sbr. það sem að framan greinir, þ.e. að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi jafnframt því sem slíkt starf er skilgreint.
    Fram kemur í 2. mgr. að í skipulögðu æskulýðsstarfi í skilningi laganna skuli hafa í huga félags-, forvarna-, uppeldis- og menntunarlegt gildi þess sem miði að því að auka mannauð og lýðræðisvitund þátttakenda. Í sömu málsgrein er einnig að finna nýtt ákvæði þar sem lögð er áhersla á ákveðin grundvallaratriði í starfi með börnum og ungmennum. Annars vegar er kveðið á um að í öllu starfi með börnum og ungmennum skuli velferð þeirra höfð að leiðarljósi. Ekki er þörf á að hafa mörg orð um þetta ákvæði, en það er mikilvægt í ljósi þess að lögin taka til ábyrgðar á starfi með börnum og ungmennum utan verndar heimilis þeirra. Hins vegar er lögð áhersla á virka þátttöku og frumkvæði barna og ungmenna í starfi sem þau taka þátt í og þess gætt að þau séu höfð með í ráðum við skipulagningu þess. Þetta ákvæði er í samræmi við vilja ungmennanna sjálfra og ábendingar Evrópusambandsins sem fram komu í hvítbók þess (nóvember 2001) og byggist m.a. á niðurstöðum viðhorfskönnunar um ungt fólk í Evrópu.
    Núgildandi æskulýðslög gilda um aldurshópinn 12–20 ára. Í 3. mgr. er lagt til að útvíkka þessi aldursmörk og miða við börn og ungmenni, einkum á aldrinum 6 til 25 ára, en það er í meira samræmi við það sem tíðkast hér á landi. Þannig stendur skipulagt starf íslenskra æskulýðssamtaka börnum iðulega til boða frá byrjun skólaskyldu. Efri mörkin eru í samræmi við það sem tíðkast víða í Evrópu. Þannig er í núverandi ungmennaáætlun Evrópusambandsins miðað við aldurinn 15–25 ára. Í nýrri ungmennaáætlun Evrópusambandsins Youth in action eru aldursviðmiðin 13–30 ára, en megináhersla er lögð á aðgerðir tengdar aldurshópnum 15–28 ára. Hjá Evrópuráðinu er aldursviðmiðið í þessum málaflokki að 25 ára aldri. Í skýrslu og tillögum nefndarinnar frá maí 2003 er gerð tillaga um að 6–25 ára aldursviðmiðun verði í nýjum æskulýðslögum. Nokkur æskulýðsfélög eru með hærri viðmið hvað varðar efri og neðri mörkin, en telja má að meginþorri félagsmanna sé á aldursbilinu 6–25 ára og er því er lagt til að frumvarpið miðist einkum við þann aldurshóp.


Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um gildissvið laganna. Þar er tekið fram í 1. tölul. að lög þessi gildi um starfsemi félaga og félagasamtaka sem vinna að æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjármögnun. Undir þessa skilgreiningu fellur velflest skipulögð starfsemi æskulýðssamtaka og æskulýðsfélaga í landinu, svo sem ungmennafélög, KFUM og KFUK, skátahreyfingin, unglingadeildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Kristilega skólahreyfingin og félagsstarf fyrir börn og ungmenni á vegum Þjóðkirkjunnar og annarra trúarlegra safnaða, ungmennaskiptasamtök og ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka, ungmennafélög Rauða kross Íslands, barna- og ungmennafélög fatlaðra, bindindishreyfingar og samstarfsvettvangur grunn- og framhaldsskólanema.
    Í 2. tölul. er tekið fram að lögin taki til æskulýðsstarfs á vegum ríkis, sveitarfélaga og í skólum, að svo miklu leyti sem við á og önnur lög og aðrar reglur gilda ekki þar um. Lögð er áhersla á að öll skipulögð starfsemi með börnum og ungmennum fellur undir lög þessi og er mikilvægt að þeim aðilum sem vinna með börnum og ungmennum sé það ljóst.
    Að lokum er í 3. tölul. lagt til að lögin taki til annarrar starfsemi er sinni einkum ófélagsbundnu æskufólki í skipulögðu æskulýðsstarfi. Hér er átt við starfsemi sem börn og ungmenni taka þátt í, svo sem námskeið eða dvöl t.d. í sumarbúðum, en ekki eru gerðar kröfur um að þau séu félagsbundin eða ástundi starfið með reglubundnum hætti.

Um 3. gr.

    Greinin fjallar um samstarf og stuðning ríkis og sveitarfélaga við félög og félagasamtök á sviði æskulýðsmála til að gera ungu fólki kleift að starfa að æskulýðsmálum við sem fjölbreyttust skilyrði. Í greininni er lagt til að staðfest verði sú verkaskipting sem tíðkast hefur milli ríkis og sveitarfélaga varðandi fjárhagslegan stuðning við starfandi æskulýðssamtök og æskulýðsfélög í landinu. Þannig hefur jafnan verið ákveðið á Alþingi að veita nokkrum landssamtökum æskulýðsfélaga fjárhagslegan stuðning samkvæmt ákvörðunum Alþingis hverju sinni, en starfsemi þeirra tekur til alls landsins. Hins vegar hafa sveitarfélög stutt við ýmsa frjálsa starfsemi staðbundinnar æskulýðsstarfsemi félaga og samtaka með samþykktum í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga, enda er viðkomandi sveitarstjórn best til þess fallin að meta þörf fyrir slíkt. Benda má á að víða erlendis er lögð rík skylda og fjárhagsábyrgð á sveitarfélögin í æskulýðsstarfi, bæði um að útvega húsnæði undir starfsemi félaga og félagasamtaka og eins um fjárstuðning við starfsemina.
    Í áratugi hefur æskulýðsstarf hér á landi verið borið uppi af einstaklingum sem hafa lagt fram starfskrafta sína í frítíma sínum. Þetta mikla fórnfúsa starf er ómetanlegt fyrir félög og félagasamtök og ekki síst samfélagið í heild. Þeim opinberu fjármunum sem varið er til þessara æskulýðsfélaga og samtaka er vel varið og margfaldast í meðförum þeirra. Þrátt fyrir framlög ríkisins til landssamtaka æskulýðsfélaga er það ekki nema um 10% af árlegri veltu æskulýðssamtakanna.

Um 4. gr.

    Í greininni segir að menntamálaráðherra fari með yfirstjórn æskulýðsmála samkvæmt lögum þessum.

Um 5. og 6. gr.

    Í greinunum er fjallað um Æskulýðsráð og hlutverk þess. Samkvæmt núgildandi lögum er starfandi Æskulýðsráð sem er skipað þremur fulltrúum æskulýðssamtaka, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk formanns sem menntamálaráðherra skipar án tilnefningar. Sömu reglur gilda um varamenn. Hér er lagt til í 5. gr. að Æskulýðsráð verði skipað níu mönnum. Lagt er til að fimm fulltrúar verði valdir af fulltrúum æskulýðssamtaka. Þá verði tveir fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Loks er lagt til að ráðherra skipi formann og varaformann Æskulýðsráðs án tilnefningar. Lagt er til að skipunartími Æskulýðsráðs verði áfram tvö ár í senn. Gert er ráð fyrir að í reglum skuli nánar kveðið á um val fulltrúa æskulýðssamtaka. Með þessari skipan í Æskulýðsráð er lagður sterkur grunnur að samstarfsvettvangi mikilvægra hagsmunaaðila í málaflokknum þar sem fulltrúar æskulýðssamtaka og sveitarfélaga mynda ásamt fulltrúum menntamálaráðuneytis mikilvægt upplýsinga-, stjórn- og stuðningstæki í málaflokknum.
    Hlutverk Æskulýðsráðs er nokkuð breytt í þessu frumvarpi frá núgildandi lögum og meiri áhersla lögð á stefnumarkandi og ráðgefandi hlutverk þess gagnvart málaflokknum og er starfsemi þess afmörkuð betur en áður. Lagt er til að rannsóknarhlutverk ráðsins samkvæmt núgildandi lögum verði á ábyrgð menntamálaráðherra, sbr. 12. gr. frumvarpsins um æskulýðsrannsóknir, en lagt er til að einn fulltrúi úr Æskulýðsráði verði meðal þeirra fimm fulltrúa sem ráðherra skipar í ráðgjafarnefnd um æskulýðsrannsóknir. Lagt er til í frumvarpinu að ráðið verði stjórnvöldum til ráðgjafar í æskulýðsmálum og geri tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum. Auk þessa er lagt til að það veiti áfram umsagnir um mál er varða æskulýðsstarfsemi og leitist við að efla starfsemi félaga, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga og stuðli þannig að áframhaldandi samvinnu þessara aðila um æskulýðsmál. Þá er lagt til að ráðið efni áfram til funda og ráðstefna um æskulýðsmál, eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum, og taki þátt í erlendu samstarfi í æskulýðsmálum eftir nánari ákvörðun menntamálaráðherra. Að lokum er lagt til að ráðið stuðli áfram að þjálfun og menntun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða og sinni öðrum þeim verkefnum sem menntamálaráðherra kann að fela því.
    Á undanförnum árum hefur Æskulýðsráð fengið 2 millj. kr. í fjárlögum. Í fjárlögum ársins 2005 voru veittar 3 millj. kr. til Æskulýðsráðs. Æskulýðsráð hefur staðið að árlegum fundum og ráðstefnum með félögum, félagasamtökum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einstaka sveitarfélögum, menntamálaráðuneyti og fleiri aðilum. Æskulýðsráð hefur einnig unnið að margvíslegum verkefnum og útgáfu með og fyrir æskulýðssamtök. Sem dæmi má nefna útgáfu á upplýsingabók um félög er starfa með börnum og unglingum og er bókin á íslensku og ensku. Þá stóð ráðið að útgáfu á námsefni gegn sjálfsvígsatferli ungs fólks í samstarfi við Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Í framhaldi af þeirri útgáfu voru haldin mörg námskeið víða um land í samstarfi við heimamenn. Ráðið stóð að útgáfu á námsefni í félagsstörfum fyrir skóla og félög og leikjabók o.fl. í samstarfi við Námsgagnastofnun. Að lokum má nefna að Æskulýðsráð hafði frumkvæði að því að nýlega var gefin út handbók um ofbeldi gegn börnum og ungmennum í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Ljóst er að Æskulýðsráð hefur sinnt mikilvægu starfi til framdráttar æskulýð landsins og gert er ráð fyrir að það góða starf haldi áfram.
    Þá er lagt til í 6. gr. að menntamálaráðherra verði heimilt að setja nánari reglur um starfsemi Æskulýðsráðs og að lokum er lagt til að kostnaður við störf og verkefni Æskulýðsráðs skuli greiddur úr ríkissjóði og er það ákvæði óbreytt frá núgildandi lögum.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að Alþingi veiti árlega fé í sérstakan sjóð, Æskulýðssjóð, til eflingar æskulýðsstarfi í landinu. Lagt er til að sjóðnum sé heimilt að taka við frjálsum framlögum. Æskulýðssjóður starfar nú samkvæmt reglum nr. 113/2004, sem ekki hafa lagastoð. Með frumvarpi þessu er því lagt til að lögfest verði ákvæði um sjóðinn. Verði frumvarp þetta að lögum munu framangreindar reglur falla úr gildi.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um að stjórn Æskulýðssjóðs skuli skipuð þremur fulltrúum til tveggja ára í senn. Lagt er til að formaður Æskulýðsráðs verði formaður sjóðsins, en Æskulýðsráð tilnefni tvo fulltrúa og tvo til vara. Þá er lagt til að ráðherra skipi varaformann Æskulýðssjóðs úr hópi aðalfulltrúa.

Um 9. gr.

    Í greininni er fjallað um hlutverk Æskulýðssjóðs sem er að styrkja verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka. Lagt er til að verkefni sjóðsins verði eftirfarandi: í fyrsta lagi sérstök verkefni sem unnin eru fyrir börn og ungmenni; í öðru lagi er lagt til að hlutverk ráðsins verði þjálfun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða; í þriðja lagi er lagt til að ráðið sinni nýjungum og þróunarverkefnum; og að lokum er lagt til að ráðið sinni samstarfsverkefnum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka.
    Lagt er til að menntamálaráðherra úthluti styrkjum úr Æskulýðssjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins. Þá verði ráðherra heimilt að setja nánari reglur um úthlutun úr Æskulýðssjóði.
    Það er starfsemi æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka mikilvægt að eiga möguleika á að fá stuðning við einstök verkefni og þar með að efla starfsemina. Það á ekki síst við um stuðning til að standa að þjálfun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða til að efla starfið og gera það enn betra.
    Á Norðurlöndum og í flestum öðrum Evrópulöndum leggja stjórnvöld mikla áherslu á að styðja fjárhagslega við starfsemi æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka bæði til reksturs viðkomandi félaga og félagasamtaka og eins til einstakra verkefna til lengri eða skemmri tíma. Víðast hvar eiga stjórnvöld náið samstarf og samráð við viðkomandi samtök og fá þau oft til samstarfs, svo sem við framkvæmd og lausn ýmissa samfélagslegra verkefna. Þar má t.d. nefna verkefni til eflingar félagsstarfi og lausn ýmissa vandamála í dreifbýli jafnt sem þéttbýli, verkefni með fötluðum ungmennum, með innflytjendum og ýmsum öðrum minnihlutahópum. Þá hafa stjórnvöld stutt við verkefni á vegum æskulýðssamtaka þar sem unnið er gegn félagslegri einangrun, kynþáttafordómum, sérstök verkefni með atvinnulausum ungmennum, m.a. til að styrkja sjálfsmynd þeirra og auðvelda þeim að komast út á vinnumarkaðinn. Samstarf stjórnvalda og viðkomandi félagasamtaka byggist á því að sjálfstæði og sjálfsforræði viðkomandi samtaka sé að fullu virt og verkefnin framkvæmd á þeirra forsendum. Æskulýðssamtökin þurfa að sækja um rekstrarstyrki og verkefnastyrki og gera ítarlega grein fyrir framkvæmd og fjárhagsáætlun. Samtökin þurfa að skila inn skýrslum með endurskoðuðu fjárhagsuppgjöri. Það sama á við hér á landi, þau æskulýðssamtök sem hafa fengið rekstrarstyrki frá Alþingi hafa þurft að leggja inn ítarlegar áætlanir um starfið og fjárhagsáætlun hverju sinni. Þá þurfa þau að skila inn endurskoðuðum reikningum til ráðuneytisins.

Um 10. gr.

    Starf með börnum og ungmennum er ábyrgðarmikið og krefst reynslu og þekkingar. Því er í greininni kveðið á um ýmis starfsskilyrði í æskulýðsstarfi sem lög þessi taka til. Í 1. mgr. er kveðið á um að miða skuli við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi skuli vera lögráða og hafa þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins. Til verndar börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi þykir eðlilegt að gera kröfu um ákveðna siðferðislega vitund og siðlega hegðun forustumanna, leiðbeinenda, sjálfboðaliða og annars starfsfólks og því er lagt til í 2. mgr. að þeim sé óheimilt að neyta áfengis og annarra vímuefna meðan æskulýðsstarf með börnum og ungmennum fer fram. Á það ekki síst við í tilvikum eins og ferðalögum með eða án fylgdar foreldra eða forráðamanna barna.
    Í 3. mgr. er lagt til að óheimilt verði að ráða til starfa hjá aðilum sem 2. gr. frumvarpsins tekur til, og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í æskulýðsstarfi, einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sá kafli laganna fjallar um kynferðisbrot. Skv. 3. mgr. gildir það sama um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkinefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs. Í öllum tilvikum er hér miðað við þá sem ráðast til starfa eða starfa sem sjálfboðaliðar með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri og eru þau aldursmörk í samræmi við sambærilegt verndarákvæði sem finna má í 36. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Fyrirmynd 1. málsl. 3. mgr. greinarinnar er að finna í 2. mgr. 36. gr. barnaverndarlaga, en samkvæmt því ákvæði er óheimilt að ráða til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum eða heimilum eða stofnunum samkvæmt barnaverndarlögum, hvort sem þau eru rekin af einkaaðilum, ríki eða sveitarfélögum, menn sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. þeirrar greinar, þ.e. þegar brot beinist gegn einstaklingi sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Bent er á í athugasemdum við 36. gr. frumvarps þess sem varð að barnaverndarlögum, nr. 80/2002, að bannið taki eingöngu til barnaverndaryfirvalda og stofnana sem sinna barnaverndarstarfi, hvort sem þær eru einkareknar eða reknar af ríki eða sveitarfélögum. Áfram segir í athugasemdunum að það komi að sjálfsögðu til athugunar hvort samsvarandi bann skuli gilda um skóla, leikskóla og dagvistarheimili fyrir börn og aðra staði þar sem börn koma saman og dveljast um lengri eða skemmri tíma, svo sem íþrótta- og tómstundamiðstöðvar o.s.frv. Ekki hafi þótt fært að mæla fyrir um slíkt alhliða bann í barnaverndarlögum, heldur þótti eðlilegra að það væri gert í sérlögum um einstakar stofnanir ef vilji væri til þess. Með hliðsjón af þessu er lagt til fyrrgreint bann í 3. mgr. frumvarpsins. Þó er hér lagt til að refsinæmi verknaðar í 3. mgr. einskorðist ekki við það að brot hafi beinst gegn einstaklingi yngri en 18 ára, eins og miðað er við í barnaverndarlögum, heldur er lagt til að öll brot gegn XXII. kafla laganna valdi því að viðkomandi teljist ekki hæfur til að sinna æskulýðsstarfi, hvort sem brotaþoli hefur verið yngri eða eldri en 18 ára. Ekki verður séð að ástæða sé til hér að gera greinarmun á því hvort brotið hafi beinst gegn einstaklingi yngri eða eldri en 18 ára, sérstaklega í því ljósi að frumvarp þetta nær til barna og ungmenna á aldinum 6–25 ára. Þá nær ákvæðið til allra þeirra sem brotið hafa gegn umræddum kafla almennra hegningarlaga, án tillits til þess hversu langt er liðið frá því að dómur gekk. Rannsóknir hafa sýnt að nokkur hluti kynferðisbrotamanna er líklegur til að endurtaka brot sín. Af þessum sökum þykir óhjákvæmilegt og réttmætt, vegna hagsmuna barna og ungmenna, að komið sé í veg fyrir að slíkir einstaklingar sinni störfum sem fela í sér umgengni, umsjón og ábyrgð á þeim.
    Auk framangreinds nær 3. mgr. einnig til þeirra sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkinefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Í starfi nefndarinnar sem vann drög að frumvarpi þessu kom fram að ljóst væri að börn og ungmenni væru ákveðinn markhópur fíkniefnasala. Jafnframt kom fram vilji nefndarmanna til að sporna gegn því að einstaklingar sem nýlega hefðu brotið gegn lögum um ávana- og fíkniefni, sinntu æskulýðsstarfi. Ólíkt því sem gildir um þá sem brotið hafa gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga þykir ekki ástæða til að útiloka þá sem brotið hafa gegn lögum um ávana- og fíkniefni alfarið frá ráðningu í þau störf sem lög þessi taka til, heldur takmarka ákvæðið við brot á síðastliðnum fimm árum. Er þá miðað við þá sem snúið hafa af braut ávana- og fíkniefna.
    Samkvæmt 4. mgr. eiga yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem börn og ungmenni koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma og 2. gr. frumvarpsins nær til rétt til upplýsinga úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm vegna brota sem 3. mgr. tekur til, að fengnu samþykki hans. Fyrirmynd þessa ákvæðis er að finna í 3. mgr. 36. gr. barnaverndarlaga, hvað varðar upplýsingarétt nánar tilgreindra aðila úr sakaskrá vegna brota gegn almennum hegningarlögum, og er hún tekin hér upp nær orðrétt. Fram kemur í athugasemdum við 36. gr. frumvarps þess sem varð að barnaverndarlögum að í 3. mgr. þeirrar greinar væri farin sú leið að nánar tilgreindir aðilar gætu fengið upplýsingar úr sakaskrá um það hvort tiltekinn einstaklingur sem sótt hefði um störf á þeirra vegum hefði gerst sekur um brot sem varðaði við 1., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar. Ekki væri gert ráð fyrir að þessir aðilar gætu fengið upplýsingar um alla sem gerst hefðu sekir um slík brot, heldur aðeins hvort það ætti við um tiltekinn einstakling og þá aðeins að gefnu tilefni. Með hliðsjón af framangreindu er í 4. mgr. lögð til fyrrgreind heimild fyrir nánar tiltekna aðila til upplýsinga úr sakaskrá að uppfylltum þeim skilyrðum sem 3. mgr. greinarinnar tekur til og að fengnu samþykki viðkomandi umsækjanda.
    Að lokum er lagt til í 5. mgr. að standi ríki, sveitarfélag eða aðrir aðilar fyrir starfsemi sem fellur undir lög þessi skuli þess gætt að hún uppfylli lög og reglur um aðgengi, aðstöðu, hollustuhætti og öryggisþætti. Hér getur t.d. verið um að ræða starfsemi á vegum frístundamiðstöðva, frístundaheimila, ungmennahúsa, félagsmiðstöðva og félagsheimila og aðra sambærilega starfsemi, æfingar og námskeiðahald.
    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir sérstöku eftirliti með því að skilyrði greinarinnar séu uppfyllt. Ljóst er hins vegar að það er á ábyrgð þeirra er reka starfsemi sem fellur undir lög þessi að framfylgja ákvæðum laganna.

Um 11. gr.

    Í greininni er fjallað um stuðning sveitarfélaga við æskulýðsstarf. Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að fjölbreyttu framboði af æskulýðsstarfi fyrir börn og ungmenni. Í 1. mgr. er lagt til að sveitarstjórnir setji sér reglur um það hvernig stuðningi við frjálst æskulýðsstarf í sveitarfélaginu skuli háttað. Þá er lagt til að í sveitarfélögum séu starfandi æskulýðsnefndir eða sambærilegar nefndir samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.
    Í 2. mgr. er lagt til að sveitarstjórnir hlutist til um að stofnuð séu ungmennaráð í sveitarfélögum. Lagt er til að hlutverk ungmennaráða verði m.a. að vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi. Þá er lagt til að sveitarstjórnir setji sér nánari reglur um hlutverk og val í ungmennaráð.
    Í mörgum sveitarfélögum eru starfræktar frístundamiðstöðvar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, félagsheimili, ungmennahús, námskeið og vinnuskólar fyrir börn á vegum sveitarfélagsins. Á þessum stöðum fer fram mikið starf með börnum og hafa t.d. félagsmiðstöðvar með sér gott samstarf. Þá eru í nokkrum sveitarfélögum starfrækt Ungmennahús fyrir aldurshópinn 16 ára og eldri. Á nokkrum þeim stöðum hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun slíkra húsa í samstarfi við sveitarfélög, samtök og stofnanir. Mörg sveitarfélög verja umtalsverðum fjármunum í þessa starfsemi. Þá hafa mörg sveitarfélög starfandi sérstakan starfsmann, æskulýðs-, tómstunda- og/eða forvarnafulltrúa sem sinnir ýmsum málum er varða málaflokkinn á vegum sveitarfélagsins. Í skýrslu nefndarinnar frá maí 2003 og á fundum og ráðstefnum hefur komið fram hjá ýmsum aðilum er standa að frjálsu félagsstarfi að þeir telja að ójafnt sé skipt fjármunum sveitarfélagsins sem varið er til starfsins og fái starf þeirra oft litla fjármuni eða aðstoð frá sveitarfélaginu. Víða í nágrannalöndum okkar og víða í Evrópu eru settar ríkar skyldur á herðar sveitarfélaga að standa fyrir og leggja fram fjármuni og aðstöðu til starfsemi fyrir börn og unglinga í viðkomandi byggðarlagi. Mikilvægt er að stutt sé við bakið á þeim einstaklingum og félögum er vinna með og fyrir börn og ungmenni í viðkomandi sveitarfélagi og þannig stuðlað að því að sem fjölbreyttast starf sé í boði á viðkomandi stað.
    Í greininni er einnig fjallað um hversu mikilvæg aðkoma ungmenna að ákvarðanatöku er, sbr. einnig 1. gr., en þar segir að í öllu starfi með börnum og ungmennum skuli velferð þeirra höfð að leiðarljósi og þau hvött til frumkvæðis og virkrar þátttöku. Þá er í hvítbók Evrópusambandsins lögð áhersla á hlutverk og skyldur sveitarfélaga í málaflokknum. Á vettvangi Evrópuráðsins í Strassborg er starfandi sveitar- og héraðsstjórnarþing Evrópuráðsins CLARIS. Á fundum þingsins er fjallað um ýmis málefni sem er flestum sveitarfélögum sameiginlegt, þar á meðal um málefni barna og ungmenna. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá aðalfulltrúa og þrjá til vara til setu á þinginu.
    Mikilvægi aðkomu ungmenna að ákvarðanatöku er einnig áhersluatriði í samþykktum Norrænu ráðherranefndarinnar Norðurlönd á leið inn í nýtt árþúsund. Þar er lögð áhersla á mikilvægi þess að sveitarstjórnir hlúi að og stuðli að fjölbreyttri þátttöku barna og ungmenna í frjálsu æskulýðsstarfi og að þeim séu gefin tækifæri til að hafa virk áhrif á nærumhverfi sitt. Umræðan um að ungt fólk komi meira að ákvarðanatöku um málefni er þau varða er vaxandi hér á landi eins og víða um lönd. Lögð er áhersla á að auka þátttöku ungs fólks á sem flestum sviðum þjóðlífsins og ekki síst í nærumhverfinu. Liður í því er að koma á ungmennaráðum þar sem ungmennin geta komið á framfæri sjónarmiðum og hugðarefnum sínum.
    Með því að sveitarstjórnir setji á laggirnar ungmennaráð er komið til móts við óskir um lýðræðislega aðkomu ungs fólks. Með þátttöku í ungmennaráðum hafa þau möguleika á því að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri við kjörna fulltrúa sveitarfélaga. Mikilvægt er að val í ungmennaráð sé lýðræðislegt og þess gætt að fulltrúar sem flestra félaga og hópa eigi aðild að þeim. Þar er átt við að ungmenni úr t.d. æskulýðsfélögum, nemendafélögum grunn- og framhaldsskóla, félagsmiðstöðvum, ungmennahúsum og öðrum hópum eigi fulltrúa í ungmennaráðum. Einungis þannig fæst fram sú fjölbreytni og þau sjónarmið sem gera lýðræðislega þátttöku ungmenna svo mikilvæga og eftirsóknarverða.
    Ekki eru sett fram aldursviðmið í frumvarpið um ungmennaráð, en þar sem slík ungmennaráð eru starfandi er oft miðað við aldurshópinn 13–17 ára. Átján ára eru ungmennin komin með kosningarétt og geta þá með atkvæði sínu haft áhrif á val kjörinna fulltrúa.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um æskulýðsrannsóknir. Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að menntamálaráðherra stuðli að því að fram fari reglubundnar æskulýðsrannsóknir, sem lagðar verði til grundvallar stefnumótun í æskulýðsmálum. Samkvæmt núgildandi lögum er það hlutverk Æskulýðsráðs að hlutast til um að fram fari fræðilegar rannsóknir á sviði æskulýðsmála. Eðlilegt þykir að ábyrgð þessi hvíli á menntamálaráðherra sem fer með yfirstjórn æskulýðsmála í landinu og því er lögð til framangreind breyting. Í samræmi við það er lagt til í 2. mgr. að menntamálaráðherra skipi fimm manna ráðgjafarnefnd um æskulýðsrannsóknir. Lagt er til að einn fulltrúi verði skipaður samkvæmt tilnefningu Æskulýðsráðs, einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu æskulýðssamtaka og einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þá er lagt til að menntamálaráðherra skipi tvo fulltrúa án tilnefningar. Jafnframt er lagt til að ráðherra skipi formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Skipunartími nefndarinnar er tvö ár.
    Frá árinu 1992 hefur menntamálaráðuneytið stuðlað að gerð æskulýðsrannsókna með nokkuð reglulegu millibili undir yfirskriftinni Ungt fólk. Sú fyrsta var gerð 1992, síðan 1997, 2000, 2003 og síðast í október 2004. Spurningalistar hafa verið lagðir fyrir nemendur í 9. og 10. bekk í öllum grunnskólum landsins. Eins hafa verið gerðar kannanir í framhaldsskólunum, nú síðast í október 2004, Ungt fólk 2004, þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir alla nemendur í öllum framhaldsskólum landsins. Æskulýðsrannsóknir eru viðurkenndar sem mikilvægt tæki til að fylgjast með stöðu og líðan barna og ungmenna og áhugasviðum þeirra, bæði fyrir stjórnvöld og ekki síður þá aðila er vinna með börnum og ungmennum. Þessar rannsóknir hafa m.a. reynst sveitarfélögunum notadrjúgar við stefnumótun í málaflokknum. Benda má á að Evrópuráðið og Evrópusambandið hafa lagt áherslu á æskulýðsrannsóknir og tekist hefur samstarf milli æskulýðsvettvangs Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í æskulýðsrannsóknum. Liður í því er að koma upp evrópskum gagnagrunni um stöðu ungmenna, European Knowledge Center for Youth Policy, sbr. það sem fyrr greinir í almennum athugasemdum. Ísland er aðili að þessu samstarfi í gegnum Evrópuráðið. Menntamálaráðuneytið hefur falið fyrirtækinu Rannsóknum og greiningu að vera fulltrúar Íslands í því samstarfi.

Um 13. og 14. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til æskulýðslaga.

    Í frumvarpinu er lagt til að sett verði lög í þeim tilgangi að styðja börn og ungmenni til þátttöku í æskulýðsstarfi. Áætlað er fyrir 162,6 m.kr. fjárveitingu til æskulýðsmála á lið 02- 988 Æskulýðsmál i fjárlögum 2006.
    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins er lagt til að ríkissjóður leggi starfsemi landssamtaka æskulýðsfélaga til fé eftir ákvörðun Alþingis í fjárlögum. Fjármálaráðuneytið telur að tillagan feli ekki í sér skuldbindingar um fjárveitingar og hafi því ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Þá eru lagðar til ýmsar breytingar á stjórnsýslu ríkisins vegna æskulýðsmála. Þannig er lagt til í 5. gr. að fjölgað verði úr fimm í níu fulltrúa í Æskulýðsráði sem leggi skv. 6. gr. meiri áherslu á stefnumarkandi og ráðgefandi hlutverk gagnvart stjórnvöldum. Frá ráðinu færist ábyrgð á reglulegum æskulýðsrannsóknum til menntamálaráðherra skv. 12. gr. sem gert er ráð fyrir að skipi fimm manna ráðgjafarnefnd. Einnig er lagt til að í stað þess að þeir fimm einstaklingar sem setið hafa í Æskulýðsráði skipi jafnframt ráðgefandi stjórn Æskulýðssjóðs, sem ekki hefur haft sérstaka lagastoð, verði kveðið á um sjóðinn í III. kafla laganna og þar á meðal þriggja manna ráðgefandi stjórn hans skv. 8. gr. Á árinu 2005 voru 234 þús. kr. greiddar fyrir setu í Æskulýðsráði í samræmi við fjölda funda og gætu breytingarnar sem lagðar eru til hugsanlega aukið kostnað eitthvað þannig að minna yrði varið í önnur útgjöld. Í fjárlögum 2006 er 3 m.kr. veitt til ráðsins og þarf hugsanlega að færa hluta af þeirri fjárhæð til annarra aðila í samræmi við breytta skipan. Fjármálaráðuneytið telur að tillaga um að lögbinda Æskulýðssjóð hafi ekki áhrif á útgjöld ríkisins sem í fjárlögum 2006 eru ætluð 10 m.kr. og sama gildir um tillögu um æskulýðsrannsóknir sem fá 3 m.kr. fjárveitingu.
    Á grundvelli framangreindra forsendna telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið hafi ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.