Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 414. máls.

Þskj. 471  —  414. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu,
með síðari breytingum (eigendasaga myndverka o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Á eftir 1. mgr. 10. gr. laganna kemur ný málsgrein sem orðast svo:
    Sá sem rekur verslun með myndverk í atvinnuskyni skal krefjast eigendasögu myndverks af seljanda enda sé myndlistarmaðurinn á skrá Listasafns Íslands. Þar skal koma fram hver sé eigandi verksins og, eftir því sem unnt er, hverjir hafi verið eigendur þess. Skal verslunaraðilinn vekja athygli á tilvist eigendasögunnar við líklega kaupendur og afhenda hana formlegum kaupanda. Seljandi og verslunaraðili bera ábyrgð skv. 3. mgr. 23. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætast tveir málsliðir sem orðast svo: Uppboðsstjóri skal krefjast eigendasögu myndverks skv. 2. mgr. 10. gr. Auk þess skal uppboðsstjóri vekja athygli á tilvist eigendasögunnar í uppboðsskilmálum.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Kaupandi uppboðsmunar getur ekki borið fyrir sig galla á honum, nema hann svari ekki til þess heitis er hann var auðkenndur með við söluna, seljandi eða uppboðsstjóri hafi haft svik í frammi eða almennt sé talið óheiðarlegt að skjóta sér undan ábyrgð. Séu myndverk seld á opnum eða lokuðum frjálsum uppboðum, svo og í verslun með myndverk í atvinnuskyni, skal uppboðsstjóri eða listaverkasali, svo og seljandi, gæta sérstakrar varúðar varðandi ranga eignaraðild að og hættu á fölsun verkanna og þá sinna leiðbeiningarskyldu, m.a. um vöntun á eigendasögu framangreindra myndverka, að jafnaði með sannanlegum hætti. Uppboðsstjóri og listaverkasali skulu, ef ástæða þykir til, benda á að leita megi til sérfróðs álitsgjafa um myndverk. Þeir skulu afhenda formlegum kaupanda eigendasögu myndverkanna en jafnframt varðveita hana og síðan senda hana Listasafni Íslands þegar starfsemi fyrirtækis lýkur.
     c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Vakin skal þar athygli á tilvist eigendasögu myndverks, sbr. 2. mgr.
     d.      Við 5. mgr. bætast þrír málsliðir sem orðast svo: Uppboðsstjóri skal krefjast eigendasögu myndverks skv. 2. mgr. 10. gr. Auk þess skal uppboðsstjóri vekja athygli á tilvist eigendasögunnar í uppboðsskilmálum og afhenda hana formlegum kaupanda. Seljandi og uppboðsstjóri bera ábyrgð skv. 3. mgr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagafrumvarp þetta, sem samið er í viðskiptaráðuneytinu, tekur mið af tillögum starfshóps sem menntamálaráðherra skipaði í maí 2004 til að fjalla um fölsun listaverka og gera tillögur um hvernig unnt væri að bregðast við þeim vanda sem af þeim hlytist. Í skilagrein starfshóps gegn listaverkafölsunum, dags. 23. júní 2005, sem Tryggvi Þór Herbertsson hagfræðingur var formaður fyrir, voru m.a. tillögur um þær breytingar á lögum um verslunaratvinnu að skylt yrði að leggja fram eigendasögu listaverks sem boðið væri til sölu í atvinnuskyni. Tillögurnar, sem fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis fóru síðan yfir, hefur viðskiptaráðuneytið útfært í frumvarpi þessu. Gildissvið ákvæða frumvarpsins er með tilliti til forsögu málsins og umsagna um frumvarpið takmarkað við tiltekin myndverk.
    Í frumvarpinu er í stuttu máli gerð krafa til þess að seljandi leggi fram eigendasögu myndverks, enda sé myndlistarmaðurinn á skrá Listasafns Íslands, hvort sem það er 1) selt í atvinnuskyni hjá listaverkasala, 2) selt á opnu listmunauppboði eða 3) selt á lokuðu listmunauppboði. Bera annars vegar seljandi og hins vegar verslunaraðili (listaverkasali eða uppboðsstjóri) nánar tilteknar skyldur hér að lútandi. Ákvæði um ábyrgð eru hert með breytingu á 3. mgr. 23. gr. laganna, þ.e. ákvæðunum um svik sem ná ekki aðeins til seljanda heldur einnig verslunaraðila. Jafnframt er þar kveðið á um að gæta skuli sérstakrar varúðar varðandi ranga eignaraðild að og hættu á fölsun verkanna. Skulu aðilar þá sinna leiðbeiningarskyldu. Verslunaraðilar skulu jafnframt, ef ástæða þykir til, benda á að leita megi til sérfróðs álitsgjafa um myndverk. Áskilnaður um eigendasögu við sölu myndverka hinna tilteknu myndlistarmanna hjá listaverkasala, á opnu listmunauppboði eða á lokuðu listmunauppboði getur dregið úr hættu á fölsunum myndverka með tjóni fyrir ýmsa aðila og myndlistarmarkaðinn í landinu og stuðlað að betri neytendavernd. Geta slíkar upplýsingar að sögn Listasafns Íslands verið mikilvægar um sögu og feril myndverks og haft margvíslegt menningarsögulegt gildi. Kveðið er á um að listaverkasalar og uppboðsstjórar skuli senda Listasafni Íslands handbærar upplýsingar um eigendasögu viðkomandi myndverka þegar starfsemi fyrirtækis lýkur.
    Eigendasaga kemur einkum að gagni þegar um er að ræða eldri myndverk og mjög dýr myndverk. Gildir þetta einnig erlendis þar sem sérstaklega þarf að huga að ólöglega fengnum verkum, jafnvel frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar grunur leikur á fölsun er unnt að leita til innlendra eða erlendra aðila sem geta rannsakað verk vísindalega. Einnig geta listfræðingar komið við sögu þá, t.d. þegar verk eru ómerkt.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sá sem rekur verslun með myndverk í atvinnuskyni skuli gera kröfu til þess að seljandi leggi fram eigendasögu myndverks ákveðins myndlistamanns á sérstakri skrá Listasafns Íslands. Jafnframt mundi uppboðsstjóri gera slíka kröfu samkvæmt öðrum ákvæðum frumvarpsins um opið eða lokað uppboð. Þá er gert ráð fyrir að verslunaraðilinn veki athygli á tilvist eigendasögunnar við líklega kaupendur. Í öðrum ákvæðum frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að uppboðsstjóri veki athygli á tilvist eigendasögunnar í uppboðsskilmálum sem einnig höfða til líklegra kaupenda. Sé hún lögð fram má ætla að sumir seljendur hafi ekkert við það að athuga að hún sé kynnt hverjum þeim sem eftir því óskar. Aðrir seljendur kunna hins vegar að vilja takmarka aðgang að henni við líklega kaupendur eða jafnvel formlega kaupendur. Þótt eðlilegt virðist að fallast á slíka takmörkun af hálfu seljandans skal þó gera kröfu til að hann leggi eigendasöguna fram þannig að listaverkasali eða uppboðshaldari geti kynnt sér hana og veitt formlegum kaupanda aðgang að henni, svo og Listasafni Íslands er starfsemi fyrirtækis lýkur. Ekki er þó með kröfugerðinni unnt að tryggja að seljandi leggi eigendasöguna fram. Skortur á eigendasögu eða hnökrar á henni geta leitt til þess að viðkomandi myndverk verði ekki tekið til sölu, það seljist á lægra verði eða seljist jafnvel ekki.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998,
um verslunaratvinnu, með síðari breytingum (eigendasaga myndverka o.fl.).

    Með frumvarpinu er gerð krafa um að seljandi myndverka leggi fram eigendasögu myndverks. Þetta á við um sölu í atvinnuskyni hjá listverksala, opnu listmunauppboði eða sölu á lokuðu listmunauppboði.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.