Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 415. máls.

Þskj. 472  —  415. mál.



Frumvarp til laga

um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Forsætisráðherra er heimilt að afsala til sameignarfyrirtækisins Landsvirkjunar þeim réttindum sem vísað er til í 3. tölul. A-liðar 2. gr. sameignarsamnings ríkisins og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun frá 1. júlí 1965, sbr. hnit á landabréfi í viðauka við lög þessi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Viðauki.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð eigi útrætt.
    Fyrirtækið Landsvirkjun var stofnað með lögum nr. 59/1965. Stofnendur fyrirtækisins voru íslenska ríkið og Reykjavíkurborg og skyldi hvor aðili um sig eiga helmingshlut. Meðal þess sem ríkið lagði til sem stofnframlag samkvæmt sameignarsamningi voru vatnsréttindi vegna 210 MW virkjunar í Þjórsá við Búrfell ásamt landi sem til þurfti vegna virkjunarinnar.
    Forsvarsmenns ríkisins voru í góðri trú um að það væri eigandi þeirra réttinda sem lögð voru fram af þess hálfu til sameignarfélagsins enda byggðust þau á afsali frá fyrirtækinu Titan h/f frá árinu 1952. Nýlegir úrskurðir óbyggðanefndar um Gnúpverjaafrétt 21. mars 2002 og Landmannaafrétt 10. desember 2004 skýra réttarstöðuna og eignarhald varðandi vatns- og landsréttindi á svæði Búrfellsvirkjunar. Samkvæmt þeim hafði Titan h/f og þeir aðilar sem félagið leiddi rétt sinn frá ekki eignarrétt yfir því svæði sem hér um ræðir. Eignartilkalli Landsvirkjunar var hafnað og telst umrætt svæði þjóðlenda í skilningi laga og fer ríkið þar með eignarrétt.
    Þar sem eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun hefur ásamt öðru miðast við framsal vatnsréttinda og lands á þessu svæði til fyrirtækisins er það niðurstaða eigenda fyrirtækisins að nauðsyn beri til að flytja frumvarp þetta og leita með því eftir heimild Alþingis til að afsala til Landsvirkjunar beinum eignarrétti að þessum réttindum. Með því móti er tryggt að fyrirtækið verði að gengnum úrskurðum óbyggðanefndar eins sett og til var stofnað með nefndum samningi að því marki sem hann náði til ráðstöfunar þess lands og vatnsréttinda á nefndu svæði, sem ríkið taldi sig eiganda að við gerð sameignarsamningsins frá 1965.
    Í greinargerð þeirri er hér fer á eftir verður fyrst vikið að setningu þjóðlendulaga, nr. 58/1998, og stofnun óbyggðanefndar. Þá verður fjallað um stofnun Landsvirkjunar, samninga og lög sem um fyrirtækið hafa gilt og gerð ítarleg grein fyrir áðurnefndum úrskurðum óbyggðanefndar og þeim forsendum sem hún lagði niðurstöðu sinni til grundvallar. Loks verða skýrðar forsendur eigenda fyrir þeim ráðstöfunum sem frumvarp þetta felur í sér.

Þjóðlendulög og hlutverk óbyggðanefndar.
    Samkvæmt 1. gr. laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þótt einstaklingar og lögaðilar geti átt þar takmörkuð eignarréttindi. Með 2. gr. sömu laga var ríkið lýst eigandi þjóðlendna, sem og hvers konar landsréttinda og hlunninda innan þeirra sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Lög þessi réðu því þó ekki til hlítar hvaða svæði þetta væru, enda ógerningur að skera með lögum úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda og eftir atvikum um önnur réttindi innan þjóðlendna. Með sömu lögum var því komið á fót sérstakri nefnd í þessu skyni, óbyggðanefnd, og henni falið að leysa á skipulegan hátt úr þeim álitaefnum sem uppi eru um þetta hvar sem er á landinu.
    Í 7. gr. laga nr. 58/1998 er hlutverki óbyggðanefndar lýst á svofelldan hátt:
     a.      Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
     b.      Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
     c.      Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
    Fyrsta landsvæðið sem óbyggðanefnd tók til meðferðar var norðanverð Árnessýsla. Eftir að kröfum hafði verið lýst var ákveðið að skipta svæðinu upp í sjö aðskilin mál. Fjallað var um Gnúpverjaafrétt í úrskurði í máli nr. 7/2000 sem kveðinn var upp 21. mars 2002. Var þar meðal annars skorið úr um eignarrétt á Búrfellssvæðinu vestan Þjórsár.
    Þar sem Þjórsá liggur á mörkum Árnes- og Rangárvallasýslna þurfti að bíða um sinn eftir að niðurstaða óbyggðanefndar lægi fyrir um Búrfellsvirkjunarsvæðið beggja vegna árinnar. Þriðja landsvæðið sem óbyggðanefnd tók til meðferðar var Rangárvallasýsla og Vestur- Skaftafellssýsla. Var fjallað um Landmannaafrétt og þ.a.l. austurbakka Þjórsár við Búrfell í úrskurði í máli nr. 2/2003 sem kveðinn var upp 10. desember 2004.

Um stofnun Landsvirkjunar og framlög eigenda.
    Fyrirtækið Landsvirkjun var stofnað með lögum nr. 59/1965, um Landsvirkjun. Stofnendur fyrirtækisins voru skv. 1. gr. laganna ríkisstjórnin og borgarstjórn Reykjavíkur og skyldi hvor aðili um sig eiga helming fyrirtækisins. Skv. 1. mgr. 5. gr. skyldu ríkið og Reykjavíkurborg leggja Landsvirkjun til sem endurgjaldslaust stofnframlag eignir og réttindi sem tiltekin voru í 4. gr. laganna, en auk þess skyldu aðilar gera nánar grein fyrir þessum framlögum í sameignarsamningi um fyrirtækið. Í 4. gr. laganna sagði svo:

         „Landsvirkjun tekur við öllum eignum Sogsvirkjunar og eimhverfilsstöð Reykjavíkurborgar við Elliðaár ásamt áhvílandi skuldum og rekstri þessara mannvirkja með öllum réttindum og skyldum, er honum fylgja. Jafnframt tekur Landsvirkjun við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins og Reykjavíkurborgar til virkjana í Sogi og Þjórsá við Búrfell, sbr. 6. gr., svo og öllum áætlunum og undirbúningsframkvæmdum ríkisins vegna virkjunar við Búrfell.“

    Í 6. gr. laganna sagði síðan:

         „Landsvirkjun er heimilt að reisa allt að 210 MW raforkuver í Þjórsá við Búrfell ásamt aðalorkuveitum og gera nauðsynlegar ráðstafanir á vatnasvæði Þjórsár ofan virkjunarinnar til að tryggja rekstur hennar. Enn fremur er Landsvirkjun heimilt að reisa eldsneytisaflstöðvar þær, sem fyrirtækið telur rétt að koma upp.“

    Loks sagði í 18. gr. laganna að ráðherra gæti heimilað Landsvirkjun að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki og önnur réttindi, sem nauðsynleg væru til framkvæmda samkvæmt lögunum. Í samræmi við 5. gr. laga nr. 59/1965 gerðu ríki og Reykjavíkurborg sameignarsamning um Landsvirkjun sem undirritaður var hinn 1. júlí 1965. Í 2. gr. samningsins var gerð nánari grein fyrir þeim eignarréttindum sem 4. og 6. gr. laganna gerðu ráð fyrir að hvor aðili um sig legði til fyrirtækisins. Þar sagði m.a.:

         „Samningsaðilar leggja fram til stofnunar fyrirtækisins:

         A. Ríkissjóður:
         1.     Eignarhluta sinn í Sogsvirkjuninni.
         2.     Vatnsréttindi þau, sem ríkissjóður á í Soginu, ásamt lóðum, sem til þarf vegna mannvirkja, sem þegar eru fyrir hendi, eða síðar kunna að verða reist, til þess að hagnýta allt vatnsafl Sogsins, ásamt nauðsynlegum miðlunarvirkjum.
         3.     Vatnsréttindi vegna 210 MW virkjunar í Þjórsá við Búrfell, ásamt landi, sem til þarf vegna virkjunarinnar og réttindi til nauðsynlegra aðgerða ofar í ánni, vegna þessarar virkjunar.
         4.     Öll gögn varðandi undirbúning virkjunar við Búrfell, fram að 1. júlí '65, ásamt öllum mannvirkjum og framkvæmdum þar að lútandi.“

    Í 5. tölul. A-liðar var fjallað um peningagreiðslur sem ríkissjóður lagði fyrirtækinu til og í B-lið 2. gr. samningsins var framlag Reykjavíkurborgar útlistað. Byggðist sá helmingseignarhlutur sem mælt var fyrir um í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1965 að hvor aðili um sig skyldi eiga í fyrirtækinu, á þessum framlögum. Með setningu laga nr. 37/1971 voru gerðar verulegar breytingar á lögum nr. 59/1965, um Landsvirkjun. Hinar helstu voru þær að skv. 2. gr. var bætt við 4. gr. laganna svohljóðandi málsgrein:

         „Landsvirkjun tekur enn fremur við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins til virkjana í Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss, sbr. 6. gr.“

    Samkvæmt 4. gr. þessara laga kom ný grein í stað 6. gr. laganna og hljóðaði hún svo:

             „Landsvirkjun er heimilt:
        1.     Að reisa allt að 210 MW raforkuver í Þjórsá við Búrfell, ásamt aðalorkuveitum.
        2.     Að reisa allt að 170 MW raforkuver í Tungnaá við Hrauneyjafoss, ásamt aðalorkuveitum.
        3.     Að reisa allt að 170 MW raforkuver í Tungnaá við Sigöldu, ásamt aðalorkuveitum.
             Landsvirkjun er jafnframt heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna í Tungnaá og milli þeirra og Búrfellsvirkjunar, sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þessara virkjana á hverjum tíma. Nær heimildin m.a. til stíflugerðar í Þórisós og Köldukvísl og að veita Köldukvísl um skurð í Þórisvatn og þaðan um skurð í Tungnaá. Enn fremur er Landsvirkjun heimilt að reisa eldsneytisaflstöðvar þær sem fyrirtækið telur rétt að koma upp.“

    Í 2. gr. breytingalaganna er 4. gr. eldri laganna breytt þannig að kveðið er á um að Landsvirkjun taki enn fremur við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkisins til virkjana í Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss og síðan vísað nánar þar um til 6. gr. laganna í breyttri mynd. Engar breytingar urðu þó á eignarhlut aðila, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1965.
    Hinn 27. febrúar 1981 var gerður nýr sameignarsamningur vegna samkomulags eignaraðila, dags. 12. desember 1980, um sameiningu Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar. Með samningnum gerðist Akureyrarbær sameigandi ásamt ríkisstjórn og Reykjavíkurborg. Við samninginn lagði ríkissjóður fram 35% eignarhlut sinn í Laxárvirkjun og Akureyrarbær lagði fram 65% eignarhlut sinn í virkjuninni. Eftir þessa breytingu voru eignarhlutföll eigenda Landsvirkjunar þannig að ríkissjóður átti 48,40%, Reykjavíkurborg 45,95% og Akureyrarbær 5,65%. Þá var í þessum nýja sameignarsamningi ákvæði sem heimilaði ríkissjóði að auka eignarhluta sinn í 50% með því að leggja fram fjármuni eða yfirtaka skuldir að fjárhæð 70.137.000 nýkr. Fjárhæð þessi skyldi leiðrétt í réttu hlutfalli við breytingar á byggingarvísitölu frá 1. nóvember 1980 til greiðsludags.
    Samkvæmt 20. gr. laga nr. 42/1983 öðlaðist samningur þessi gildi 1. júlí 1983 og féll sameignarsamningurinn frá 1. júlí 1965 þá úr gildi. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 42/1983 kemur fram að frumvarpið hafi verið samið af nefnd skipaðri af eigendum Landsvirkjunar og að þar hafi verið samkomulag um framangreind eignarhlutföll. Í athugasemdum við 1. gr. sagði:

         „Hér er sem fyrr gert ráð fyrir að Landsvirkjun sé með heimili og varnarþing í Reykjavík, fyrirtækið sé sjálfstæður réttaraðili með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald. Ákvæði greinarinnar um eignaraðild breytast með hliðsjón af sameiningu Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar samkvæmt hinum nýja sameignarsamningi ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar um Landsvirkjun frá 27. febrúar 1981 sem tekur gildi hinn 1. júlí 1983 og kemur þá í stað sameignarsamnings ríkisstjórnar Íslands og Reykjavíkurborgar um Landsvirkjun frá 1. júlí 1965.“

    Hinn 11. ágúst 1982 var gerður samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o.fl. Með samningnum var orkusvæði Landsvirkjunar fært þannig út að það náði til allra landshluta. Skv. 1. mgr. 1. gr. samningsins tók Landsvirkjun að sér að reisa og reka sem sína eign Blönduvirkjun, Fljótsdalsvirkjun og Villinganesjavirkjun. Jafnframt yfirtók Landsvirkjun byggðalínur og aðveitustöðvar í eigu ríkisins sem getið er um í 6. og 7. gr. samningsins. Skv. 1. mgr. 3. gr. samningsins skyldi áður en rekstur hverrar virkjunar hæfist gera samkomulag um greiðslu Landsvirkjunar til ríkissjóðs vegna þeirra vatnsréttinda sem í umráðum ríkisins voru, hvort sem um væri að ræða lögbýli í eigu ríkisins, önnur eignarlönd eða vatnsréttindi á almenningum og afréttarlöndum. Landsvirkjun skyldi skv. 2. mgr. 3. gr. greiða ríkissjóði fyrir slík virkjunarréttindi endurgjald sambærilegt því sem almennt væri greitt fyrir slík réttindi. Mætti endurgjaldið samkvæmt sama ákvæði vera eingreiðsla eða í formi árlegs afgjalds. Næðu aðilar ekki samkomulagi um endurgjald fyrir virkjunarréttindin skuldbyndu þeir sig til að hlíta mati óvilhallra matsmanna, sbr. 3. mgr. 3. gr. Eignarhlutur eigenda Landsvirkjunar breyttist ekkert með samningnum.
    Hinn 28. október 1996 var gerður samningur milli eignaraðila Landsvirkjunar um breytingu á sameignarsamningnum frá 1981. Í þeim samningi er í 1. gr. svohljóðandi ákvæði um eignarhluti aðila í fyrirtækinu:

    „1. gr. samningsins orðist svo: Eignarhluti aðila í Landsvirkjun er sem hér segir:
1. Ríkissjóður Íslands 50,000%
2. Reykjavíkurborg 44,525%
3. Akureyrarbær 5,475%“

Um ráðstöfun lands- og vatnsréttinda á Gnúpverjaafrétti – úrskurður óbyggðanefndar 21. mars 2002.
Um samninga Gnúpverjahrepps og framsal þeirra.
    Um Gnúpverjaafrétt segir í úrskurði óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 í máli nr. 7/2000:

         „Hinum upprunalega Gnúpverjaafrétti má nú skipta í tvo hluta. Að norðanverðu er landsvæði sem frá fornu fari og fram á þennan dag hefur verið nýtt sem afréttur Gnúpverja. Að sunnanverðu er hins vegar landsvæði sem áður tilheyrði afréttinum en hreppsnefnd Gnúpverjahrepps seldi Einari Benediktssyni 1916, þ.e. landsvæði sem auðkennt hefur verið sem Búrfell og Skeljafell. Þetta svæði liggur í Þjórsárdal austan Fossár og afmarkast nánar tiltekið þannig: Þjórsá í Fossá og Rauðá, síðan Rauðá að Sandafelli (að Rauðárgljúfri) og þaðan beina línu í Þjórsá, neðan við graslendi Sandafells. Einar framseldi kaupsamning sinn til fossafélagsins Titans 1917 sem á árunum 1951–1952 seldi réttindi sín íslenska ríkinu. Við stofnun Landsvirkjunar 1965 lagði ríkissjóður síðan fram tiltekin lands- og vatnsréttindi til Landsvirkjunar, þ.m.t. á Búrfells- og Skeljafellssvæðinu.“

    Nánar er svo fjallað í úrskurðinum um þá kaupsamninga sem gerðir voru á fyrstu áratugum síðustu aldar um vatnsréttindi í Þjórsá. Þar segir m.a.:

        „Gnúpverjahreppur var einn þeirra hreppa í Árnessýslu sem ráðstafaði vatnsréttindum á afrétti sínum í upphafi 20. aldar. Þetta kom m.a. fram í því að 20. febrúar 1909 veitti hreppsnefnd Gnúpverjahrepps Gesti Einarssyni á Hæli „fullt og ótakmarkað einkaumboð til þess að selja, leigja eða á annan hátt koma í verð eign hreppsins: fossunum Þjófafossi, Tröllkonufossi og Gljúfurleitarfossi, öllum í Þjórsá, Hávafossi og Hjálparfossi í Fossá og Geldingaárfossi í Geldingaá ásamt vatninu í nefndum ám og árfarvegum“. Þessi ákvörðun hreppsnefndar var staðfest á aðalfundi sýslunefndar Árnessýslu 26.–30. apríl sama ár. Á fundi hreppsnefndar Gnúpverjahrepps 9. mars 1911 var samþykkt að hverjum þeim, sem keypti eða leigði fossa þá er nefndir væru í umboði Gests Einarssonar, „[væri] heimilt land eptir þörfum til útbyggingar hvers foss fyrir sig endurgjaldslaust, þar með talinn rjettur til að gjöra nauðsynlega skurði til vatnsleiðslu, land undir nauðsynleg hús og aðrar byggingar, er notaðar kunna að verða til starfrækslu fossanna sjerstaklega“. Einnig var tekið fram að væntanlegum kaupendum eða leigjendum fossanna væru heimil án endurgjalds hvers kyns byggingarefni, sem kynnu að finnast í löndum hreppsins, til bygginga í sambandi við fossana.
             Umboð þetta framseldi Gestur Einarsson Þorleifi Guðmundssyni 24. febrúar 1911. Það komst síðar í hendur Sturlu Jónssonar og 19. febrúar 1914 seldi hann, í umboði Gnúpverjahrepps, fossafélaginu Titan réttindi sem hreppurinn taldi sig eiga í fyrrnefndum fossum. Í fyrstu grein samnings er tilgreint nákvæmlega hvað selt var:

             „Hið selda er:
        a.        Eignarhluti seljanda í Gljúfurleitarfossi í Þjórsá ásamt öllu vatni og árfarvegi 200 – tvö hundruð – faðma upp ána frá fossinum og 200 – tvö hundruð – faðma niður ána frá fossinum svo og með 400 – fjögur hundruð – faðma breiðri landsspildu af landi hreppsins meðfram ánni er sje á lengd 200 – tvö hundruð – faðmar upp með ánni frá fossinum og 200 – tvö hundruð – faðmar niður með ánni frá fossinum.
        b.     Eignarhluti seljanda í Tröllkonufossi og Þjófafossi í Þjórsá ásamt öllu vatninu og árfarvegi í báðum þessum fossum og alla leið á milli þeirra og ennfremur 500 – fimm hundruð – faðma upp ána frá Tröllkonufossi og 500 – fimm hundruð – faðma niður ána frá Þjófafossi, svo og með 200 – tvö hundruð – faðma breiðri landsspildu meðfram ánni alla leið milli ofangreindra enditakmarka 500 föðmum fyrir ofan Tröllkonufoss og 500 föðmum fyrir neðan Þjófafoss.
        c.     Eignarhluti seljanda í Hávafossi í Fossá ásamt öllu vatni og árfarvegi 1000 – eitt þúsund – faðma upp ána frá fossinum og 1000 – eitt þúsund – faðma niður ána frá fossinum svo og með 300 – þrjú hundruð – faðma breiðri landsspildu úr landi hreppsins milli tjeðra enditakmarka fyrir ofan og neðan fossinn.
        d.     Eignarhluti seljanda í Hjálparfossi í Fossá ásamt öllu vatni og árfarvegi 200 – tvö hundruð – faðma upp ána frá fossinum og 200 – tvö hundruð – faðma niður ána frá fossinum svo og með 300 – þrjú hundruð – faðma breiðri landsspildu af landi hreppsins milli tjeðra endimarka fyrir ofan og neðan fossinn.
        e.     Geldingaárfoss í Geldingaá ásamt öllu vatni og árfarvegi. Kaupinu eru undan skilinn allur námarjettur hvers kyns sem er í ofannefndum landssvæðum hreppsins.“

             Samningi þessum var þinglýst án athugasemda þann 19. júní 1914. Hreppsnefnd Gnúpverjahrepps gaf síðan út fullt afsal 16. júlí sama ár, þegar gerð höfðu verið öll skil fyrir umsömdu kaupverði, og var það fyrir fram innritað 1. október 1914 til þinglýsingar í Gnúpverjahreppi 1915.“

    Sumarið 1916 var Gesti Einarssyni fengið formlegt umboð frá hreppsnefnd Gnúpverjahrepps til að selja Búrfell og Skeljafell, syðst í Gnúpverjaafrétti, að svo miklu leyti sem réttindi á því svæði höfðu ekki þegar verið seld, sbr. það sem að framan greinir um Tröllkonufoss og Þjófafoss. Þessi ákvörðun hreppsnefndar var staðfest á aukafundi sýslunefndar Árnessýslu 17. júlí sama ár. Hinn 28. júlí 1916 seldi Gestur Einari Benediktssyni Búrfell og Skeljafell með þessum landamerkjum: „Úr Þjórsá ræður merkjum Fossá að Rauðá, síðan Rauðá að Sandafelli (að Rauðárgljúfri), þaðan ræður bein lína í Þjórsá neðan við graslendi Sandafells, en þaðan ræður Þjórsá merkjum niður að Fossá.“ Undanskilið sölunni var það land, fossar, vatnsafl og réttindi sem Sturla Jónsson hafði, í umboði Gnúpverjahrepps, áður selt með fyrrgreindu afsali, 16. júlí 1916. Í 3. gr. samningsins segir á þessa leið:

        „Hreppurinn áskilur sjer rjett sinn til skógarhöggs í Búrfellshálsi óskertan og endurgjaldslaust. Þó skal þetta skilyrði ekki mega koma í bága við starfrækslu eða afnot kaupandans af því selda, en gjalda skal hann fullar bætur eftir mati dómkvaddra óvilhallra manna fyrir tjón það sem þá kann að verða á skógarhögginu.

         Sömuleiðs áskilur hreppurinn sjer rjett til uppreksturs og afrjettarnotkunar á hinni seldu landsspildu endurgjaldslaust svo lengi sem það kemur ekki í bága við starfrækslu kaupanda eða þeirra, sem hann framselur rjett sinn á landinu.“
    Samningnum var þinglýst 12. júní 1918 með athugasemdinni „Seljanda brestur þingl. eignarheimild“. Síðar hefur verið bætt við, án dagsetningar, „en verður að teljast notariskur eigandi að hinu selda“.
    Hinn 11. febrúar 1917 framseldi Einar Benediktsson réttindi sín samkvæmt framangreindum kaupsamningi til fossafélagsins Titans. Samningi Einars og Titans var þinglýst athugasemdalaust 27. júní 1919. Afsal þessara réttinda til fyrirtækisins var gefið út 2. september 1923 og fyrir fram innfært í afsals- og veðmálabók 27. nóvember sama ár. Því afsali var þinglýst athugasemdalaust 11. júlí 1924.
    Landsstjórnin gerði fyrirvara um sölu þessara og fleiri vatnsréttinda 3. apríl 1918 þegar svohljóðandi símskeyti var sent til allra sýslumanna landsins:

         „Fossnefndin hefir skýrt Stjrinu frá því, að hún hafi komist að þeirri niðurstöðu, að vatnsrjettindi sjeu ótvírætt almenningseign, þó að einstakir menn einn eða fleiri eigi beitirjett þar, og telur nefndin alla þá sölusamninga ólögmæta, sem hreppsfjelög, er eiga afrjett í óbyggðum, kynnu að hafa gjört um rjettindi, er þau telja sig eiga til vatns og vatnsafls í afrjettum sínum. Samkvæmt þessu skal yður hérmeð tjáð til leiðbeiningar og birtingar fyrir sýslunefndinni (unum) í umdæmi yðar, að landstjórnin vegna landssjóðsins gjörir tilkall til allra vatnsrjettinda á afrjettum, þar sem tveir eða fleiri eiga eða hafa átt saman sumarbeit og geldfjárhöfn.“

    Hinn 8. júní 1951 var undirritaður kaupsamningur milli landbúnaðarráðuneytisins og Titan h/f þar sem þau réttindi sem rakin hafa verið hér að framan voru, ásamt fleiri eignum, seld landbúnaðarráðuneytinu og var kaupsamningurinn síðan áritaður um afsal til landbúnaðarráðuneytisins f.h. íslenska ríkisins af skilanefnd Titan h/f 16. janúar 1952. Því afsali var að sama skapi þinglýst athugasemdalaust 29. janúar 1952.
    Í samningi þessum sagði:

        „Islands landbrugsminister på den ene side og aktieselskabet Titan med værneting i Reykjavík på den anden side har indgået sådan kontrakt:

        A/S Titan overdrager herved til den islandske stat alle vandrettigheder, som selskabet ejer i Þjórsá og bifloder og söer samt alle de rettigheder til afbenyttelse af jord, som selskabet har erhvervet i forbindelse med vandrettighederne og til brug i forbindelse med forventede elektriske anlæg, desuden sælger selskabet landbrugsministeriet gården Þjótandi i Villingaholtssogn.

        De rettigheder, som ifölge ovenskrevne bliver solgt, har selskabet erhvervet ved de nedenfor nævnte tinglæste dokumenter:

        — [Hér er sleppt úr skjölum nr. 1–24 sem varða ekki það svæði sem hér er til umfjöllunar.]

        — 25. Sköde, dateret d. 15. juli 1914, angående Háifoss og Hjálparfoss i Fossá (Skeiðahreppurs andel).

        — 26. Sköde, dateret d. 15. juli 1914, angående Gljúfurleitarfoss, Tröllkonufoss og Þjófafoss i Þjórsá, Háifoss og Hjálparfoss i Fossá og Geldingaárfoss i Geldingaá (Gnúpverjahreppurs andel).

        — 27. Sköde, dateret d. 2. september 1923, angående Búrfell og Skeljafell i Gnúpverjahreppsafréttur.

        — [Hér er sleppt úr skjölum nr. 28–35 sem varða ekki það svæði sem hér er til umfjöllunar.]

         Disse dokumenter har köberen gjort sig bekendt med og ejendommene sælges med de rettigheder, som deri nævnes, således påtager köberen sig samtidig de forpligtelser som nævnte ejendomsrettigheder pålægger ejeren.“

    Við stofnun Landsvirkjunar lagði ríkissjóður síðan fram tiltekin lands- og vatnsréttindi, þar með talin á Búrfells- og Skeljafellssvæðinu, sbr. 3. tölul. A-liðar 2. gr. sameignarsamningsins frá 1. júlí 1965. Er þar um að ræða hluta þeirra réttinda sem ríkið taldi sig komið að með framangreindum samningi við Titan h/f.

Niðurstaða óbyggðanefndar um einkaeignarréttarlega ráðstöfun réttinda á Gnúpverjaafrétti.
    Um þýðingu framangreindra samninga sagði m.a. svo í niðurstöðu óbyggðanefndar:

             „Óbyggðanefnd [telur] að beinn eignarréttur jarðeigenda í Gnúpverjahreppi eða eftir atvikum Gnúpverjahrepps hafi ekki verið fyrir hendi frá öndverðu og að þau takmörkuðu not sem sýnt hefur verið fram á að höfð hafi verið af landinu, þ.e. fyrst og fremst beitarafnot, geti ekki grundvallað eignarrétt byggðan á hefð eða öðrum þeim stofnunarháttum eignarréttinda sem grein hefur verið gerð fyrir […]. Samningar og afsöl hreppsnefndar á vatnsréttindum ásamt fleiru til Titan h/f árið 1914, kaupsamningur sama aðila við Einar Benediktsson um Búrfell og Skeljafell í afréttinum árið 1916 eða afsal réttinda samkvæmt þeim samningi til Titan h/f árið 1923, fá ekki breytt þeirri eignarréttarlegu stöðu eða stöðu þeirra sem leiða rétt sinn frá afsalsgjöfum.
             Í því sambandi ræður ekki úrslitum þótt gerningum þessum hafi verið þinglýst og réttindi Titan seinna orðið hluti af kaupum íslenska ríkisins á vatnsréttindum á stærra svæði, enda gat ekki falist í þeim víðtækari eignarréttur afsalshafa til handa en sannanlega var á hendi afsalsgjafa. Verður ekki talið, að íslenska ríkið hafi með þeim kaupum viðurkennt beint eða óbeint eignarrétt hreppsins yfir afréttarlandinu. Hefur og komið fram að af hálfu ríkisvaldsins var þinglýsingu skjala um viðskipti þessi mótmælt við þinglýsingardómara á þeim grundvelli að vatnsréttindi á landsvæðum í óbyggðum, þar sem bændur eiga sumarbeit, væru almenningseign.“

    Síðan sagði:

             „Af hálfu Gnúpverjahrepps og eigenda jarða í hreppnum hefur því ekki verið sannað að sá hluti Gnúpverjaafréttar sem hér er til úrlausnar sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun afréttarlandsins hefur verið háttað, hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé um þjóðlendu að ræða.“

    Á sömu forsendum taldi nefndin að Búrfells- og Skeljafellssvæðið, sem selt var undan afréttinum með kaupsamningi, dags. 28. júlí 1916, hefði þá verið utan eignarlanda.
    Í samræmi við þessa niðurstöðu taldi nefndin að Gnúpverjahrepp hefði skort eignarheimildir til að ráðstafa vatns- og landsréttindum á Gnúpverjaafrétti. Fossafélagið Titan hefði því ekki verið réttilega komið að þeim lands- og vatnsréttindum sem skilanefnd félagsins seldi ríkissjóði hinn 8. júní 1951 og ríkissjóður lagði síðan fram sem eignarhluta við stofnun Landsvirkjunar, sbr. 3. tölul. A-liðar 2. gr. sameignarsamningsins frá 1. júlí 1965. Landsvirkjun gæti því ekki byggt rétt sinn á framsali eignarréttinda fyrir þann samning.

Réttindi Landsvirkjunar samkvæmt lögum.
    Loks tók óbyggðanefnd til almennrar skoðunar og eignarréttarlegs mats þau réttindi sem Landsvirkjun hafa verið fengin að lögum eða í samræmi við lög. Um þetta sagði m.a. svo í niðurstöðu nefndarinnar:

         „Sá háttur hefur frá upphafi verið hafður á að mælt er fyrir um heimildir Landsvirkjunar til þess að reisa og/eða reka ákveðin raforkuver, aðalorkuveitur og til þess að gera, m.a. með mannvirkjagerð, nauðsynlegar ráðstafanir á viðkomandi vatnasvæði til þess að tryggja rekstur viðkomandi raforkuvers. Sýnist hin formlega lagalega tilhögun hvað þetta varðar hafa verið sú sama frá upphafi, sbr. 6. gr. laga nr. 59/1965, um Landsvirkjun, sbr. núgildandi lög um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum, sem og samkvæmt lögum um raforkuver, nr. 60/1981, með síðari breytingum. Í annan stað hafa framkvæmdir þessarar gerðar útheimt sérstakt leyfi ráðherra og/eða ríkisstjórnar, áður en út í þær hefur verið ráðist. Þá hafa viðkomandi lög á hverjum tíma haft að geyma eignarnámsheimild til handa Landsvirkjun til þess að taka eignarnámi vatnsréttindi, lönd, mannvirki og önnur réttindi sem nauðsynleg séu til þeirra framkvæmda sem Landsvirkjun eru heimilaðar og ætlaðar lögum samkvæmt.“

    Þá kemur fram að óbyggðanefnd hafi gert ítarlega rannsókn á viðkomandi lagaheimildum og í því sambandi kannað tiltæk lögskýringargögn, lagafrumvörp, greinargerðir og athugasemdir með þeim, ásamt því að fara yfir allar umræður um viðkomandi lagafrumvörp. Síðan segir:

         „Í tilvitnuðum lögum og lögskýringargögnum er hvergi að finna áform í þá veru að stofna til hefðbundinna eignarréttarheimilda Landsvirkjun til handa að lands- og/eða vatnsréttindum. Með vísan til þeirrar rannsóknar, er það mat óbyggðanefndar að með tilvitnuðum lagaheimildum hafi ekki verið stofnað til beinna eignarréttarheimilda í einkaeignarréttarlegum og stjórnskipulegum skilningi, sbr. og orðalag c- liðar 7. gr. laga nr. 58/1998, Landsvirkjun til handa, að fasteignaréttindum þeim sem liggja utan eignarlanda í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998. Um er að ræða nokkurs konar og að öðru leyti óskilgreindan nýtingarrétt, sem stofnað er til í skjóli valdheimilda íslenska ríkisins og á grundvelli fullveldisréttar þess. Þau réttindi sem mælt er fyrir um í tilvitnuðum lögum verða eðli málsins samkvæmt túlkuð með þröngum hætti. Aðild ríkisins og framsal í formi þeirra lagaheimilda er fólgið í fullveldisrétti, yfirráða- eða umráðarétti, en ekki stofnun eignarréttar í hefðbundinni og stjórnskipulegri merkingu.
             Til frekari stuðnings þessari niðurstöðu vísast til þess að í upphaflegu lögunum um Landsvirkjun, nr. 59/1965, er beinlínis gert ráð fyrir því, sbr. t.d. 4. og 5. gr. laganna, sbr. 6. gr. þeirra, að Landsvirkjun séu lögð til ákveðin eignarréttindi, þar með talin vatnsréttindi, en það er gert með einkaeignarréttarlegri tilvísun til sameignarsamningsins, þar sem afhent eru þau réttindi sem af hálfu ríkisins höfðu verið keypt af skilanefnd a/s Titan, sbr. 3. tölul. A-liðar 2. gr. samningsins. Samanburður á 4. gr., 6. gr. og 18. gr. laga nr. 59/1965, styður eindregið þá niðurstöðu að lögbundnar heimildir til handa Landsvirkjun til þess að reisa og reka raforkuver ásamt nauðsynlegum búnaði og tilfæringum, svo sem aðalorkuveitum, verði ekki skýrðar svo að með þeim heimildum hafi verið tilætlan löggjafans að stofna til hefðbundinna einkaeignarréttarlegra heimilda í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. Hefði tilætlan löggjafans verið sú var engin þörf á því að kveða á um yfirfærslu þeirra eignarréttinda sem ríkið var komið að fyrir einkaréttarlega samninga, sbr. 4. gr. laganna né að mæla fyrir um sérstaka eignarnámsheimild skv. 18. gr. laganna. Þá má enn fremur benda á tilhögun hinna yngri lagaheimilda, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, þar sem kveðið er á um heimildir ríkisins til þess að semja við Landsvirkjun um að reisa og reka virkjanir í Blöndu í Blöndudal, Jökulsá í Fljótsdal og Héraðsvötnum við Villinganes. Allt að einu sömdu íslenska ríkið og Landsvirkjun um það, sbr. 3. gr. samningsins frá 11. ágúst 1982, að áður en rekstur hverrar virkjunar hæfist skyldi gera sérstakt samkomulag um greiðslur til handa ríkinu vegna þeirra vatnsréttinda sem væru í umráðum ríkisins, hvort sem væri vegna lögbýla í eigu ríkisins, annarra eignarlanda eða vegna vatnsréttinda á almenningum og afréttarlöndum. Var réttur ríkisins til gjaldtöku vegna þessa staðfestur með dómi Hæstaréttar frá 29. mars 2001 í málinu nr. 413/2000: Landsvirkjun gegn íslenska ríkinu.
             Af þessu má ráða að í lagaheimild til byggingar og reksturs virkjunar, aðalorkuveitu og/eða til framkvæmda og mannvirkjagerðar á viðkomandi svæði, felst ekki tilætlun um stofnun eignarréttarlegra heimilda að vatni, landi eða öðrum fasteignaréttindum. Landsvirkjun er því hvorki eigandi vatns- eða landsréttinda í skilningi 1., 2. eða 7. gr. laga nr. 58/1998, sbr. og 2. gr. og 49. gr. vatnalaga í þeim tilvikum að heimildir fyrirtækisins styðjast eingöngu við lagaheimildir og leyfum veittum á grundvelli þeirra. Íslenska ríkið er eigandi umræddra fasteignaréttinda, vatns- og landsréttinda, sbr. 1. mgr 2. gr. laga nr. 58/1998. Ótvírætt er að Landsvirkjun er eigandi þeirra mannvirkja og framkvæmda sem fyrirtækið hefur byggt og komið fyrir á umræddum svæðum. Hvað þau mannvirki varðar, þar með talið vegi, varnargarða, skurði, uppistöðulón, vatnsmiðlunarmannvirki o.fl., er það að segja að þó svo fyrirtækið sé eigandi mannvirkjanna og framkvæmdanna sem slíkra þá á það ekki beinan eignarrétt að því landi sem þær standa á né að því vatni sem nýtt er til orkuvinnslunnar.
             Eins og að framan er rakið hefur löggjafinn í skjóli valdheimilda sinna veitt Landsvirkjun með lögum, ákveðinn en þó óskilgreindan nýtingarrétt á svæði því sem um ræðir í máli þessu. Samkvæmt c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 er það hlutverk óbyggðanefndar að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Þau sérstöku réttindi sem löggjafinn hefur veitt Landsvirkjun falla í öllum meginatriðum utan þeirrar hefðbundnu eignarréttarlegu skilgreiningar sem liggur nefndu lagaákvæði til grundvallar, sbr. og skilgreiningu eignarréttinda skv. 1. gr. laga nr. 58/1998. Með lögum nr. 58/1998 hefur nú verið stofnað til eignarréttar íslenska ríkisins að öllu því landi sem við gildistöku laganna var eigendalaust og ríkið fer með viðkomandi eignarheimildir í samræmi við 2. kafla laga nr. 58/1998. Lögtaka laganna hafði þannig grundvallarbreytingu í för með sér á hefðbundinni eignarréttarlegri stöðu Landsvirkjunar á þeim landsvæðum. Það er hins vegar á færi til þess bærra handhafa ríkisvalds að mæla nú nánar fyrir um og/eða skilgreina frekar réttarstöðu Landsvirkjunar að breyttri réttarskipan.“

Niðurstöður óbyggðanefndar í samandregnu máli.
    Í úrskurði óbyggðanefndar er með ítarlegum hætti gerð grein fyrir sölu Gnúpverjahrepps á vatnsréttindum í afrétti hreppsins í upphafi síðustu aldar. Gerð er grein fyrir framsali þessara réttinda með einkaréttarlegum samningum allt til þess tíma er ríkið lagði hluta þeirra fram sem framlag sitt við stofnun Landsvirkjunar árið 1965.
    Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Gnúpverjahreppur hefði ekki átt afréttinn og því hvorki verið bær til þess að afsala landi né vatnsréttindum. Landsvirkjun gæti því ekki byggt rétt á framsali eignarréttinda fyrir þann samning. Afrétturinn er því þjóðlenda í eigu ríkisins sem og þau landsréttindi og hlunnindi sem henni tilheyra. Óbyggðanefnd taldi enn fremur að lögbundin heimild til að framselja þessi réttindi til Landsvirkjunar, þar á meðal vatnsréttindin, hefði verið gerð með einkaeignarréttarlegri tilvísun til sameignarsamningsins þar sem afhent voru að hluta þau réttindi sem af hálfu ríkisins höfðu verið keypt af skilanefnd a/s Titan. Þar sem hinir einkaréttarlegu samningar, sem raktir verða til sölu Gnúpverjahrepps á lands- og vatnsréttindunum, voru ólögmætir sökum vanheimildar hreppsins var hvorki með einkaréttarlegu framsali né lögum hægt að framselja þessi réttindi til Landsvirkjunar. Það er því niðurstaða nefndarinnar að með löggjöf um Landsvirkjun og öðrum lögum sem fyrirtækið sækir rétt sinn til hafi ekki verið stofnað til beinna eignarréttarheimilda í einkaeignarréttarlegum og stjórnskipulegum skilningi Landsvirkjun til handa.

Um ráðstöfun lands- og vatnsréttinda á Landmannaafrétti – úrskurður óbyggðanefndar 10. desember 2004.
    Svæðið austan Þjórsár sem kemur til skoðunar í sambandi við Búrfellsvirkjun var til umfjöllunar í úrskurði í máli 2/2003 Holta- og Landsveit ásamt Landmannaafrétti í Rangárþingi ytra sem kveðinn var upp 10. desember 2004. Niðurstaða varðandi réttindi Landsvirkjunar austan Þjórsár í tengslum við Búrfellsvirkjun var sams konar og verið hafði vestan árinnar í úrskurðinum um Gnúpverjaafrétt.
    Í úrskurði óbyggðanefnar er rakin tilurð þess að réttindi í Þjórsá voru seld Einari Benediktssyni og síðar íslenska ríkinu. Á aukafundi sem haldinn var í sýslunefnd Rángárvallasýslu að Efra-Hvoli 16. nóvember 1916 var fjallað um sölu vatnsréttinda. Í bókun frá fundi nefndarinnar segir svo:

         „Oddviti sýslunefndarinnar, sýslumaður Björgvin Vigfússon, setti fundinn og skýrði nefndinni frá, að hann hefði boðað til þessa fundar samkvæmt beiðni hreppsnefndanna í Landmannahreppi, Ásahreppi og Holtahreppi, er óskuðu nú þegar, að fá samþykki sýslunefndarinnar til þess, að mega selja, leigja eða yfirfæra á annan hátt til hlutafélagsins „Titan“ í Reykjavík öll þau réttindi til vatnsafls, sem nefndum hreppum tilheyra, í Þjórsá og Tungnaá og vötnum þeim, er renna í ár þessar bæði í afréttum hreppanna eða í heimalöndum þeirra er að ánum liggja og hreppsfélögin sem slík eiga sérstaklega, svo og til þess að selja, leigja eða heimili á annan hátt sama félagi allt það land og byggingarefni í nefndum afréttum, er þarf til þess, að vatnsaflið verði notað, hvort heldur væri til stíflugarða, vatnsgeyma, áveitu eða fráveitu, eða á hvern annan hátt sem með þarf til þess að vatnsaflið sjálft verði hagnýtt í félagsins þarfir.

        Oddviti lagði síðan fram skriflega beiðni hreppanna hér að lútandi frá oddvita Landmannahrepps, dags. 8. þ.m., oddvita Ásahrepps, dags. 13. þ.m. og oddvita Holtahrepps, dags. 15. þ.m.

        Nefndinn veitti e. hlj. skilyrðislaust samþykki sitt við beiðnum öllum samkvæmt framanskráðu.“

    Eins og fram kemur í úrskurðinum hafði Eyjólfur Guðmundsson, hreppsnefndaroddviti í Landmannahreppi, gert Einari Benediktssyni svohljóðandi tilboð í júní 1916:

         „Gegn 6000.00 sex þúsund krónum, skal selja nefndum hr. Einari Benediktssyni vatnsafl og rétt til notkunar þess í Þjórsá fyrir Landmannahreppsafréttarlandi, frá Tungnárósi til Merkihvolslands, og frá Galtarlækjarlandi til Skarfaneslands.“

    Tilboð þetta samþykkti Einar Benediktsson með áritun á skalið 29. nóvember 1916. Tilboðið var innritað til þinglesturs 21. september 1917 og þinglýst árið 1918. Hinn 14. febrúar 1919 var síðan gefið út svohljóðandi afsal:

         „Með því að fyrv. sýslumaður Einar Benediktsson hefir með skali, dags. 11. febrúar 1917 framselt h/f „Titan“ öll réttindi sín samkvæmt framanrituðu kauptilboði og með því að h/f „Titan“ hefir fyrir lok síðastl. árs greitt Landmannahreppi eftirstöðvar kaupverðsins kr. 4.000 -fjögur þúsund- kr., þá lýsir undirrituð hreppsnefnd Landmannahrepps í Rangárvallarsýslu hjermeð yfir, að h/f „Titan“ er rjettur eigandi allra rjettinda þeirra sem ræðir um í hinum framanritaða kauptilboði að engu undanskildu.“

    Afsalið var innritað til þinglesturs 23. maí 1919 og þinglýst sama ár. Hinn 1. desember 1916 undirritaði Eyjólfur Guðmundsson, oddviti Landmannahrepps, svohljóðandi yfirlýsingu:

         „Ég undirskrifaður oddviti hreppsnefndarinnar í Landmannahreppi í Rangárvallarsýslu lýsi hér með yfir því fyrir hönd greindrar hreppsnefndar eftir ályktun sýslunefndarinnar í Rangárvallasýslu samkvæmt fundargjörð 16. f.m., og að tilskyldu samþykki fyrrverandi sýslumanns Einars Benediktssonar, að öll þau réttindi til vatnsafls og notkunar þess, sem Ásahreppur á eða hefur heimild til yfir Þjórsá eða þeim straumum eða vötnum, er liggja til Þjórsár hvort heldur er fyrir löndum eða afréttum, og hvort heldur skuli notast til áveitu, fráveitu, vatnsgeymslu eða annarra mannvirkja, fyrirtækja eða stofnana, sem miða eða lúta að fyrirtækjum eða framkvæmdum til hagnýtingar vatns eða vatnsafls á réttarsvæði hreppsins, yfirfærast til hlutafélagsins Títan gegn því, að öllum skilyrðum í fyrri samningum við nefnt félag eða herra Einar Benediktsson verði fullnægt af félaginu, og að allur ágangur, skemmdir eða landspell, sem kunna að orsakast á löndum eða afréttum við stýflur, vegalagning, vatnsgeymslu eða önnur fyrirtæki, sem standa í sambandi við starfrækslu eða notkun ofangreindra réttinda, verði bætt hreppnum með tvöfalldri upphæð þess mats, sem tveir óvilhallir, dómkvaddir menn eiga að virða, ef samkomulag verður ekki milli eiganda réttindanna og þess eða þeirra, sem eiga að hagnýta sér þau.“

    Með yfirlýsingu 31. október 1917 samþykkti Einar Benediktsson fyrir hönd Titan h/f yfirfærslu á þessum réttindum til félagsins. Var yfirlýsing þessi innrituð til þinglesturs 11. janúar 1919 og þinglýst sama ár.

Kaup landbúnaðarráðuneytisins á réttindum Titan h/f.
    Áður hefur verið rakinn kaupsamningur sá sem undirritaður var hinn 8. júní 1951 milli landbúnaðarráðuneytisins og Titan h/f, sbr. afsal 16. janúar 1952 þar sem þau réttindi sem rakin hafa verið hér að framan voru, ásamt fleiri eignum, seld landbúnaðarráðuneytinu. Í samningi þessum segir svo:

        „De rettigheder, som ifölge ovenskrevne bliver solgt, har selskabet erhvervet ved de nedenfor nævnte tinglæste dokumenter: [Sleppt er úr skjölum sem varða ekki það svæði sem hér er til umfjöllunar.]

        —         1.     …

        …

        —          29.     Sköde, dateret d. 14. februar 1919, angående vandkraft i Þjórsá i Landmannahreppurs fjældgræsegange.

        …

                  35.     Sköde, dateret d. 31. október 1917, angående vandrettigheder i Holtaafréttur og Landmannaafréttur.“

    Niðurstaða óbyggðanefndar í úrskurðinum 10. desember 2004 varð sú að Landmannaafréttur hefði aldrei verið undirorpinn einkaeignarétti:

         „Í samræmi við þá niðurstöðu verður að telja að Landmannahrepp og Holtahrepp hafi skort eignarheimildir til þess að ráðstafa vatns- og landsréttindum á Landmannaafrétti. Hf. Titan var þannig ekki réttilega komið að þeim lands- og vatnsréttindum sem skilanefnd félagsins seldi ríkissjóði þann 8. júní 1951 og ríkissjóður lagði síðan fram sem eignarhluta við stofnun Landsvirkjunar, sbr. 3. tl. A-liðar 2. gr. sameignarsamningsins frá 1. júlí 1965. Nauðsynlegt er þó að árétta að þar er eingöngu um að ræða í þessu tilviki vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar. Getur Landsvirkjun þannig ekki byggt rétt á framsali eignarréttinda fyrir þann samning.“

    Ekki var heldur talið að Landsvirkjun gæti byggt eignarrétt á lögum eða hefð. Væri fyrirtækið því ekki eigandi landsréttinda, þ.m.t. vatnsréttinda, á svæðinu í skilningi þjóðlendulaga. Fyrirtækið færi hins vegar með eignarrétt að mannvirkjum/framkvæmdum sem það hefði reist á afréttinum og nyti lögvarins rétt til nýtingar þeirra.

Breytt réttarskipan á Gnúpverja- og Landmannaafréttum.
    Ljóst er af því sem rakið hefur verið hér að framan að grundvallarbreyting hefur orðið á hefðbundinni eignarréttarlegri stöðu Landsvirkjunar við gildistöku laga nr. 58/1998 og að gengnum úrskurðum óbyggðanefndar í málum nr. 7/2000 og 2/2003. Eftir gildistöku laganna telst ríkið eigandi þeirra fasteignarréttinda, lands- og vatnsréttinda, sem fram að því voru eigendalaus, en Landsvirkjun hafði áður að hluta talið til réttinda yfir á grundvelli þeirra heimilda sem einnig eru raktar hér að framan og óumdeilt er að ætlun ríkisins var að leggja til fyrirtækisins. Ágreiningslaust er einnig að eignarhald ríkisins í Landsvirkjun hefur m.a. byggst á þessu framlagi þess við stofnun fyrirtækisins og ásamt öðru tryggt ríkinu helmingseignarhlut í því.
    Að undanförnu hefur í samráði við meðeigendur ríkisins að fyrirtækinu verið fjallað um hvernig óbreytt réttarstaða þess verði tryggð að breyttri réttarskipan á svæðinu. Hafa eigendurnir sammælst um að réttarstaða fyrirtækisins verði ekki að fullu tryggð nema ríkinu verði með lögum heimilað að framselja því þau réttindi sem samningurinn frá 1965 tók til, enda hafi framsal þeirra í ljósi niðurstöðu óbyggðanefndar byggst á vanheimild sem ekki verði bætt úr á annan hátt. Hafa bæði borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri staðfest þá afstöðu bréflega og beint því til ríkisstjórnarinnar að hún beiti sér fyrir lagasetningu í þá veru sem frumvarp þetta felur í sér.
    Þar eð ríkinu er í samræmi við 40. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, óheimilt að selja fasteignir landsins eða afnotarétt þeirra nema samkvæmt heimild í lögum er í samræmi við þessa niðurstöðu eigendanna leitað eftir heimild Alþingis til að afsala til Landsvirkjunar þeim hluta þeirra réttinda, sem ætlunin var að framselja til fyrirtækisins á grundvelli 3. tölul. A-liðar 2. gr. sameignarsamningsins frá 1. júlí 1965, sem nú telst tilheyra þjóðlendu í eigu ríkisins. Í því felst að Landsvirkjun verður að eignarrétti eigandi að þeim hluta þjóðlendunnar og réttinda innan hennar sem samningsákvæði þetta tók til. Þar er annars vegar um að ræða vatnsréttindi í Þjórsá sem ríkið taldi sig komið að með afsalinu frá Titan 1952 að því marki sem þarf til að reka 210 MW virkjun og hins vegar með sama áskilnaði viðeigandi landskiki í Búrfells- og Skeljafellslandi sem teygir sig að óverulegu leyti inn á Landmannaafrétt. Þar eð ákvæði samningsins dró því ekki skýr landfræðileg mörk hvaða land þyrfti til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt efni þess er því nánar lýst í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þessa til hvaða landsvæðis það tekur, auk þess sem landamerkin eru nákvæmlega útfærð með hnitum á landabréfi því sem fylgir frumvarpinu sem viðauki. Aðrir hlutar svæðisins verða eftir sem áður þjóðlenda í eigu ríkisins í samræmi við úrskurði óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 og 10. desember 2004. Innan þeirra nýtur Landsvirkjun áfram þeirra sérstöku réttinda sem fyrirtækinu hafa á hverjum tíma verið veitt að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Heimild þessi er byggð á 3. tölul. A-liðar 2. gr. sameignarsamnings ríkisins og Reykjavíkurborgar frá 1. júlí 1965 en tekur þó einvörðungu til þess hluta þeirra réttinda, sem það ákvæði vísar til, sem skilanefnd Titan h/f afsalaði til ríkisins 16. janúar 1952. Þar er annars vegar um að ræða 25 km² landskika sem er einkum í Búrfells- og Skeljafellslandi en teygir sig einnig austur yfir ána yfir á Landmannaafrétt. Hins vegar er um að ræða vatnsréttindi í Þjórsá sem fylgja þessu landi og að því marki sem þarf til að virkja allt að 210 MW afl. Að þessu athuguðu eru landamerki svæðisins sem afsalsheimildin tekur til dregin sem hér segir, sbr. jafnframt viðauka sem fylgir frumvarpinu (tölur innan sviga vísa til tölusettra punkta á landabréfinu): Frá mörkum frárennslisskurðar Búrfellsvirkjunar og Fossár liggja mörkin upp með Fossá að hornpunkti (16) um 1200 m ofan brúar á Fossá, þaðan liggja mörkin um 800 m til suðausturs að hornpunkti (17) sunnan í Skeljafelli. Þaðan eru mörkin um 3,5 km til austurs að hornpunkti (18) 400 m vestan við inntaksmannvirki virkjunarinnar. Þaðan liggja mörkin um 2 km til norðausturs að punkti (19) um 400 m vestan Klofaeyjar, á Sprengisandsvegi og markalínan fylgir veginum að punkti (20) við rætur Sandafells og þaðan að punkti (21) sem er rétt austan Þjórsár og ofan Þjórsárbrúar. Frá þeim punkti liggur markalínan til suðurs um 300 m austan og samsíða Þjórsá í hornpunkt 22 austan Klofaeyjar. Þaðan liggja mörkin tæpan 1,5 km til suðvesturs (23) rétt sunnan Klofaeyjar og sveigja þaðan 2,5 km til suðausturs, austur yfir Landveg og í Leirdal, austur fyrir enda flóðvarnargarðs Búrfellsvirkjunar (24 og 25). Þaðan liggur markalínan um 4 km til vesturs, sunnan varnargarðs, vestur fyrir Landveg og yfir farveg Þjórsár að hornpunkti 26, um 400 m sunnan við botnrás Bjarnalækjarstíflu við norðurenda Skálarfells og þaðan að hornpunkti (27) við ósa Fossár við Þjórsárfarveg og þaðan liggur markalínan upp eftir farvegi Fossár að útrennsli frárennslisskurðar virkjunarinnar.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

    Tilgangur frumvarpsins er öflun lagaheimildar fyrir forsætisráðherra til að afsala tilteknum réttindum til Landsvirkjunar sem ætlun ríkisins var að leggja til fyrirtækisins við stofnun þess árið 1965, en samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar um eignarréttindi á Gnúpverjaafrétti og Landmannaafrétti var framsal þessara réttinda þá byggt á vanheimild.
    Ekki verður séð að samþykkt frumvarpsins hafi áhrif á kostnað eða tekjur ríkissjóðs.