Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 296. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 473  —  296. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á upplýsingalögum, nr. 50/1996.

Frá allsherjarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Hreinsson prófessor og Pál Þórhallsson frá forsætisráðuneyti. Umsagnir bárust um málið frá Landmælingum Íslands, Persónuvernd og Samtökum atvinnulífsins. Einnig skoðaði nefndin umsagnir frá Persónuvernd og talsmanni neytenda sem bárust á 132. löggjafarþingi.
    Með frumvarpinu er lagt til að lögleidd verði ákvæði um endurnot opinberra upplýsinga. Frumvarpið er byggt á tilskipun Evrópusambandsins um endurnot opinberra upplýsinga en lagt er til að gengið verði lengra í að þrengja gjaldtökuheimildir af upplýsingum úr opinberum skrám og af höfundarrétti ríkisins á þessum upplýsingum en í tilskipuninni.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að markmið frumvarpsins væri að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og stuðla þannig að hagvexti og atvinnusköpun en miklir hagnýtingarmöguleikar geta verið fólgnir í að skapa ný verðmæti úr upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda. Þá kom einnig fram að ríkið tekur ekki gjald af höfundarrétti sínum af þessum upplýsingum til þess að auka enn frekar endurnot opinberra upplýsinga.
    Í frumvarpinu kemur skýrt fram að með hugtakinu „endurnot opinberra upplýsinga“ er vísað til þess að einkaaðili noti slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi en ætlunin var þegar þeirra var aflað af hálfu stjórnvalda. Heimild til endurnota byggist á því að aðgangur að upplýsingum sé heimill samkvæmt lögum en takmarkast við að endurnotin mega ekki brjóta í bága við lög og geta þarf uppruna upplýsinganna og hver ber ábyrgð á vinnslu þeirra. Með vísan til þess hve mikilvægt er að almennt sé byggt á réttum upplýsingum telur nefndin nauðsynlegt að opinberar upplýsingar séu uppfærðar mjög reglulega.
    Nefndin ræddi sérstaklega atriði sem snerta höfundarrétt ríkis og sveitarfélaga annars vegar og annarra rétthafa hins vegar. Á fundum nefndarinnar kom fram að frumvarpinu sé ekki ætlað að gera neinar breytingar á gildandi rétti í þeim efnum. Nefndin áréttar hins vegar mikilvægi þess að stjórnvöld fari skilyrðislaust eftir þeim reglum sem settar eru fram í frumvarpinu um að nafn rétthafa sé ávallt tilgreint þegar stjórnvöld gera upplýsingar aðgengilegar almenningi. Það er síðan á ábyrgð þess aðila sem endurvinnur upplýsingarnar að gæta að rétti þess höfundar.
    Nefndin tekur fram að með ákvæðum frumvarpsins verður almenningi tryggður aðgangur að upplýsingum á kostnaðargrundvelli. Þannig mun almenningur greiða þjónustugjald fyrir aðgang að upplýsingum sem má ekki vera hærra en sem nemur kostnaðinum við að veita aðganginn. Jafnframt bendir nefndin á að lögleiðing ákvæða frumvarpsins mun hafa kostnaðarlækkun í för með sér fyrir opinbera aðila að því marki sem þeir hafa hingað til þurft að greiða hærra gjald en sem nemur slíkum kostnaði.
    Loks telur nefndin nauðsynlegt að taka fram að frumvarpið felur ekki í sér neina breytingu á gildandi rétti um aðgang almennings að gögnum hjá stjórnvöldum heldur er einungis verið að setja reglur um hvernig aðgangur skuli veittur og skilyrði fyrir honum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Guðjón Ólafur Jónsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Björgvin G. Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ágúst Ólafur Ágústsson og Guðrún Ögmundsdóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 27. nóv. 2006.


Bjarni Benediktsson,

form., frsm.

Ágúst Ólafur Ágústsson,

með fyrirvara.

Birgir Ármannsson.


Guðrún Ögmundsdóttir,

með fyrirvara.

Kjartan Ólafsson.

Sigurjón Þórðarson.