Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 416. máls.

Þskj. 482  —  416. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við lögin:
     a.      Eftirfarandi tollskrárnúmer falla brott úr A-lið viðaukans:

0813.4001 1806.1000 1905.3030 2008.5009 2106.9022
0813.5001 1806.2001 2006.0011 2008.6001 2106.9023
0901.1100 1806.2003 2006.0012 2008.6009 2106.9025
0901.1200 1806.2004 2006.0019 2008.7001 2106.9026
0901.2101 1806.2005 2006.0021 2008.7009 2106.9031
0901.2109 1806.2006 2006.0022 2008.8001 2106.9039
0901.2201 1806.2009 2006.0023 2008.8009 2106.9041
0901.2209 1806.9011 2006.0029 2008.9100 2106.9042
0901.9000 1806.9012 2006.0030 2008.9201 2106.9048
0902.1000 1806.9019 2007.1000 2008.9209 2106.9049
0902.2000 1806.9028 2007.9100 2008.9901 2106.9061
0902.3000 1806.9029 2007.9900 2008.9909 2106.9062
0902.4000 1806.9039 2008.1101 2101.1100 3003.9001
0903.0000 1901.9011 2008.2001 2101.1201 3004.5004
0909.1001 1901.9019 2008.2009 2101.1209 3004.9004
0909.5001 1905.2000 2008.3001 2101.2001 3302.1021
1211.9001 1905.3011 2008.3009 2101.2009 3302.1030
1211.9002 1905.3019 2008.4001 2101.3001
1805.0001 1905.3021 2008.4009 2101.3009
1805.0009 1905.3029 2008.5001 2106.9021

     b.      B-liður viðaukans fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

2. gr.

    Við 5. gr. A laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú er dótturfélag í eigu sparisjóðs og gilda þá ákvæði þessarar greinar, enda sé skilyrðum hennar fullnægt.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „14%“ í 2. mgr. kemur: 7%.
     b.      8. tölul. 2. mgr. orðast svo: Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis eins og skilgreint er í viðauka við lög þessi.
     c.      Við 2. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Geisladiskar, hljómplötur, segulbönd og aðrir sambærilegir miðlar með tónlist en ekki með mynd.

4. gr.

    Í stað „skv. 1., 3. og 4. mgr.“ í lokamálslið 1. mgr. 27. gr. laganna kemur: skv. 3. og 4. mgr.

5. gr.

    1. mgr. 42. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða X við lögin:
     a.      Í stað „31. desember 2006“ kemur: 31. desember 2008.
     b.      Í stað „EURO2“ kemur: EUROIII.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Endurgreiða skal veitingahúsum, mötuneytum og öðrum hliðstæðum aðilum, sem selja tilreiddan mat, fjárhæð er nemur 112,5% af innskatti uppgjörstímabilsins janúar–febrúar 2007 vegna matvælaaðfanga sem bera 14% virðisaukaskatt. Endurgreiðsla þessi skal þó ekki vera hærri en svo að útskattur vegna sölu á tilreiddum mat að frádreginni endurgreiðslu samsvari að minnsta kosti 14% af hráefnisverði að viðbættum 19,25% af mismun söluverðs á tilreiddum mat og hráefnisverðs matvælaaðfanga.

8. gr.

    Í stað viðauka við lögin kemur nýr viðauki sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Viðauki.

    Af vörum til manneldis í eftirgreindum tollskrárnúmerum skal greiða 7% virðisaukaskatt:
     a.      Vörur í 2. til og með 4. kafla, þó ekki vörur í tollskrárnúmerum 0301.1000–0301.9990.
     b.      Vörur í tollskrárnúmerum 0504.0001–0504.0009 og 0511.9119, 0511.9125, 0511.9901 og 0511.9902.
     c.      Vörur í 7. til og með 13. kafla, þó ekki vörur í tollskrárnúmerum 1001.1001, 1001.9001, 1002.0001, 1003.0001, 1004.0001, 1005.9001, 1106.2001, 1007.0001, 1008.1001, 1008.2001, 1008.3001, 1008.9001, 1101.0021, 1102.2001, 1102.9011, 1102.9021, 1103.1101, 1103.1311, 1103.1321, 1103.1901, 1103.2001, 1104.1221, 1104.1901, 1104.2221, 1104.2301, 1104.2901, 1104.3001, 1203.0000, 1209.1001–1209.9909, 1211.3000, 1211.4000, 1211.9009, 1213.0011–1213.0029, 1214.1000, 1214.9000, 1301.1000, 1301.9000, 1301.9009, 1302.1100, 1302.1400, og 1302.1909.
     d.      Vörur í tollskrárnúmerum 1501.0011, 1501.0021, 1502.0011, 1502.0021, 1503.0001, 1504.1001–1504.3009, 1506.0001, 1507.1001, 1507.9001, 1508.1001, 1508.9001, 1509.1001, 1509.9001, 1510.0001, 1511.1001, 1511.9001, 1512.1101, 1512.1901, 1512.2101, 1512.2901, 1513.1101, 1513.1901, 1513.2101, 1513.2901, 1514.1101, 1514.1901, 1514.9101, 1514.9901, 1515.2101, 1515.2901, 1515.5001, 1515.9001 og 1516.1001–1517.9009.
     e.      Vörur í 16. til og með 22. kafla, þó ekki vörur í tollskrárnúmeri 2207.2000.
     f.      Vörur í tollskrárnúmerum 2501.0001, 2836.1001, 2836.3001, 2836.4001, 2836.9902, 2918.1200, 2918.1300, 2922.4201, 2925.1101, 3203.0001, 3302.1010, 3501.9001, 3502.1101, 3502.1901, 3502.2001, 3502.9001, 3503.0011, 3503.0021, 3824.9008 og 3917.1000.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.
9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „58,70 kr.“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: 92,70 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „52,80 kr.“ í 2. tölul. 1. mgr. kemur: 83,40 kr.
     c.      Í stað fjárhæðarinnar „70,78 kr.“ í 3. tölul. 1. mgr. kemur: 111,80 kr.

10. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. mars 2007, nema 2. og 6. gr. sem öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. laga þessara taka til allra vara sem eru ótollafgreiddar við gildistöku þeirra, svo og til allra innlendra framleiðsluvara sem ekki hafa verið seldar eða afhentar þann dag.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar frá 9. október 2006 um aðgerðir til að lækka matvælaverð o.fl. Í tillögunum kom eftirfarandi fram varðandi fyrirhugaðar breytingar á álagningu virðisaukaskatts og vörugjalda:
       „      1.    Vörugjöld af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum, verða felld niður að fullu 1. mars 2007.
                  2.      Virðisaukaskattur af matvælum verður lækkaður úr 14% í 7% frá 1. mars 2007.
                  3.      Virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum í 14% þrepi (bækur, tímarit, blöð, húshitun, hótelgisting) verður lækkaður í 7%.
                  4.      Virðisaukaskattur af öðrum matvælum sem hefur verið 24,5% verður lækkaður í 7% frá sama tíma.
                  5.      Virðisaukaskattur af veitingaþjónustu verður lækkaður úr 24,5% í 7% frá sama tíma.“
    Með frumvarpi þessu eru þessar tillögur útfærðar auk þess sem lagðar eru til örfáar breytingar til viðbótar.
    Í fyrsta lagi er lagt til að vörugjöld verði felld niður af innlendum og innfluttum matvælum, öðrum en sykri og sætindum. Með sykri og sætindum er fyrst og fremst átt við vörur sem er að finna í 17. kafla tollskrárinnar, sem ber heitið „Sykur og sætindi“. Eins og nafnið gefur til kynna hefur sá kafli að geyma ýmiss konar sykur og sætuefni, eins og strásykur, púðursykur, flórsykur og síróp. Þá er að finna í þessum kafla ýmiss konar sælgæti sem inniheldur ekki kakó, eins og t.d. lakkrís, karamellur og brjóstsykur. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að vörugjöld muni hvíla áfram á ýmiss konar súkkulaði sem er að finna í 18. kafla tollskrárinnar og sírópi í 21. kafla. Hins vegar er lagt til að vörugjöld verði felld niður af öllum öðrum matvælum.
    Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Meginbreytingin felst í því að gert er ráð fyrir að lægra skattþrepið í virðisaukaskatti fari úr 14% niður í 7% og að öll matvara og önnur vara til manneldis verði í lægra skattþrepinu. Eins og staðan er nú er eingöngu ákveðinn hluti matvöru sem ber 14% virðisaukaskatt en önnur matvara ber 24,5% virðisaukaskatt. Verði frumvarp þetta að lögum mun öll vara til manneldis bera 7% virðisaukaskatt. Breyting þessi hefur einnig í för með sér að virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum í 14% þrepi, svo sem bókum, tímaritum, blöðum, húshitun, afnotagjöldum útvarpsstöðva og hótelgistingu, verður lækkaður í 7%. Lagt er og til að virðisaukaskattur af veitingaþjónustu verði lækkaður úr 24,5% niður í 7%. Fyrir utan augljósan ávinning fyrir almenning af því að virðisaukaskatturinn sé lækkaður mun þetta einnig verða til mikils hagræðis fyrir aðila í veitingarekstri. Endurgreiðslukerfi á virðisaukaskatti hefur verið við lýði fyrir þá sem selja tilreiddan mat sem hefur skapað talsverða vinnu og umsýslu fyrir þá. Með þessari breytingu verður þetta kerfi óþarft og hefur hún því mikla einföldun í för með sér. Þá er lagt til að virðisaukaskattur af geisladiskum, hljómplötum og segulböndum með tónlist verði 7%, en það er gert til að jafna samkeppnisstöðu tónlistarútgefenda við bókaútgefendur.
    Með frumvarpinu eru einnig lagðar til tvær aðrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Lagt er til að heimild skv. 5. gr. A til samskráningar á virðisaukaskattsskrá nái einnig til sparisjóða og dótturfélaga þeirra. Hlutafélög og einkahlutafélög hafa heimild samkvæmt ákvæðinu til samskráningar. Bent hefur verið á að sparisjóðir geti haft hagsmuni af því að njóta samskráningar eins og hlutafélög og einkahlutafélög. Ekki verður séð að nein rök standi gegn því að sparisjóðir njóti sama réttar til samskráningar og er því lögð til þessi breyting. Að lokum er lagt til að heimild í lögum um virðisaukaskatt um endurgreiðslu 2/ 3hluta virðisaukaskatts af nýjum hópferðabifreiðum verði framlengd til 31. desember 2008. Er það gert í samræmi við tillögu starfshóps sem samgönguráðherra skipaði til þess að fjalla um rekstraraðstæður þeirra sem reka hópferðabifreiðar með hliðsjón af hlutverki þeirra í almenningssamgöngukerfinu.
    Samræmis vegna og til einföldunar í framkvæmd er í frumvarpinu gert ráð fyrir að lækkun á virðisaukaskatti af matvöru nái einnig til áfengis, en samkvæmt núgildandi lögum er áfengi í efra þrepi virðisaukaskatts. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar um lækkun matvælaverðs miðuðu hins vegar ekki að því að lækka verð á áfengi. Af þeim sökum er með frumvarpi þessu lagt til að áfengisgjald verði hækkað til mótvægis við þá verðlækkun sem verður vegna lækkunar virðisaukaskatts af áfengi, eða sem nemur 58%. Ekki er gert ráð fyrir að þessi breyting leiði til breytingar á tekjum ríkissjóðs af áfengi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í a-lið greinarinnar eru lagðar til breytingar á A-lið viðauka I við lögin um vörugjald. Í A- lið viðaukans er kveðið á um vörugjöld á kg og er lagt til að þau verði felld niður af öllum matvælum nema þeim sem er að finna í 17. kafla tollskrárinnar (sykur og sætindi), nokkrum tollskrárnúmerum úr 18. kafla (ýmiss konar súkkulaði) og einu númeri úr 21. kafla, sem er sérstök tegund af sírópi.
    Í b-lið greinarinnar er lagt til að B-liður viðaukans, sem kveður á um vörugjöld á lítra, verði felldur niður, en þar er m.a. að finna rjómaís, ávaxtasafa, sódavatn og gosdrykki.

Um 2. gr.

    Lagt er til að heimild skv. 5. gr. A til samskráningar á virðisaukaskattsskrá nái einnig til sparisjóða og dótturfélaga þeirra. Hlutafélög og einkahlutafélög hafa heimild til samskráningar samkvæmt ákvæðinu. Bent hefur verið á að sparisjóðir geti haft hagsmuni af því að njóta samskráningar eins og hlutafélög og einkahlutafélög. Réttaráhrif samskráningar félaga á virðisaukaskattsskrá eru þau að með tilliti til virðisaukaskatts skoðast starfsemi hinna samskráðu sem ein starfsemi og viðskipti milli samskráðra bera ekki virðisaukaskatt umfram það sem væri ef starfsemi samskráðra félaga væri öll á einni hendi. Því ber að innheimta virðisaukaskatt í viðskiptum milli samskráðra félaga í tilvikum sambærilegum við skattskyldar úttektir skráðra aðila skv. 1. mgr. 11. gr. laga um virðisaukaskatt. Hvert hinna samskráðu félaga um sig ber fulla ábyrgð á greiðslu virðisaukaskatts af samskráðri starfsemi. Með lögum nr. 77/2004, um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, var sparisjóðum veitt heimild til samsköttunar með dótturfélögum sínum skv. 5. mgr. 55. gr. laganna. Eftir því sem fram kemur í athugasemdum í greinargerð með lögum nr. 77/2004 var þessi breyting gerð vegna þess að óvissa hafði ríkt um hvort sparisjóðum væri heimil samsköttun með dótturfélögum sínum, en með breytingunni varð heimild sparisjóðanna til samsköttunar í tekjuskatti afdráttarlaus. Þegar litið er til ákvæða 5. gr. A laga um virðisaukaskatt virðist tilgangur greinarinnar vera sá sami og 55. gr. laga um tekjuskatt. Þykir því eðlilegt að sparisjóðirnir fái sams konar heimild til samskráningar á virðisaukaskattsskrá.

Um 3. gr.

    Í a-lið ákvæðisins er lagt til að neðra skattþrepið í virðisaukaskatti fari úr 14% niður í 7%.
    Í b-lið ákvæðisins er lagt til að öll matvara og önnur vara til manneldis eins og nánar er tilgreint í viðauka við lögin beri 7% virðisaukaskatt. Með því að hafa viðauka við lögin þar sem fram koma öll þau tollskrárnúmer sem teljast til matvöru og annarrar vöru til manneldis er ekki verið að undanskilja neina slíka vöru heldur er þetta fyrst og fremst til hægðarauka fyrir innflytjendur, tollayfirvöld og skattayfirvöld þannig að skýrt sé hvaða vörur teljist til manneldisvara.
    Í c-lið ákvæðisins er lagt til að virðisaukaskattur á geisladiska, hljómplötur og segulbönd með tónlist verði 7%. Er það gert til að jafna samkeppnisstöðu tónlistarútgefenda við bóka- og tímaritaútgefendur en bent hefur verið á að geisladiskar með tónlist séu staðkvæmdarvara við bækur og tímarit og því óeðlilegt að önnur varan beri 24,5% virðisaukaskatt en hin 7%.

Um 4. og 5. gr.

    Hér er lagt til að 1. mgr. 42. gr. laganna og tilvísun í það ákvæði falli brott. Samfara því að virðisaukaskattur á tilreiddum mat er lækkaður í 7% verður endurgreiðslukerfið sem þar er kveðið á um óþarft. Nánar er vísað til umfjöllunar um 7. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Með vísan til almennra athugasemda er lagt til að heimild í lögunum um endurgreiðslu 2/ 3hluta virðisaukaskatts af nýjum hópferðabifreiðum verði framlengd til 31. desember 2008. Þá er einnig lögð til sú breyting að gert verði að skilyrði að hópferðabifreiðar sem njóta endurgreiðslunnar séu búnar vélum sem uppfylla staðla EUROIII í stað EURO2 eins og hingað til hefur verið miðað við. Bifreið með þessa merkingu uppfyllir ákveðinn staðal um nýtingu eldsneytis og þar með umhverfisáhrif. Bifreiðar sem framleiddar eru á þessu ári eru einkenndar með merkinu EUROIII og þykir eðlilegt að gera skilyrði fyrir endurgreiðslu að hópferðabifreiðarnar séu búnar slíkum vélum.

Um 7. gr.

    Ákvæði þetta er samhljóða 1. mgr. 42. gr. gildandi laga um virðisaukaskatt sem skv. 5. gr. frumvarpsins fellur niður 1. mars 2007. Hér eru tekin af öll tvímæli um að endurgreiða skuli virðisaukaskatt til veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila sem selja tilreiddan mat, eins og gert hefur verið, vegna uppgjörstímabilsins janúar–febrúar 2007.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að viðauki verði við lögin þar sem skilgreint sé hvaða vörur teljist til matvara og annarra vara til manneldis. Er þetta fyrst og fremst til hægðarauka fyrir innflytjendur, tollayfirvöld og skattayfirvöld þannig að það sé ótvírætt hvaða vörur teljist til manneldis. Skýrt skal tekið fram að ekki er verið að undanskilja neinar vörur sem ætlaðar eru til manneldis.

Um 9. gr.

    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur á áfengi verði lækkaður úr 24,5% í 7%. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af áfengi haldist óbreyttar og því er lagt til að áfengisgjald verði hækkað um 58% til að vega upp á móti lækkun tekna ríkissjóðs vegna lækkunar virðisaukaskatts af áfengi. Áfengisgjald reiknast á hvern sentilítra af vínanda í hverjum lítra af hinum áfenga drykk en virðisaukaskattur er lagður á heildarverð vörunnar. Miðað er við að áhrif á ríkissjóð vegna lækkunar virðisaukaskatts af áfengi verði engin.

Um 10. gr.

    Í 1. málsl. greinarinnar er kveðið á um gildistöku laganna. Í 2. málsl. er kveðið á um að ákvæði 1. gr. frumvarpsins taki til allra vara sem ótollafgreiddar eru við gildistöku þeirra svo og til allra innlendra framleiðsluvara sem ekki hafa verið seldar eða afhentar þann dag.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og lögum nr. 96/1995,
um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

    Megintilgangur frumvarpsins er að lögfesta ákvæði sem nauðsynleg eru til að áform um aðgerðir til að lækka matvælaverð o.fl. nái fram að ganga í samræmi við tillögur ríkisstjórnarinnar frá 9. október 2006. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á lögum um vörugjald sem miðar að því að frá og með 1. mars 2007 falli niður að fullu vörugjöld af matvælum, öðrum en sykri og sætindum. Í öðru lagi er lögð til breyting á lögum um virðisaukaskatt sem miðar að því að lægra skattþrep í virðisaukaskatti fari úr 14% niður í 7% og að öll matvara og önnur vara til manneldis verði í lægra skattþrepinu. Breytingin hefur einnig í för með sér að virðisaukaskattur af annarri þjónustu og vörum sem nú eru í 14% þrepi lækkar í 7%, ásamt því að virðisaukaskattur af veitingaþjónustu, geisladiskum, hljómplötum og segulböndum og öðrum sambærilegum miðlum lækkar úr 24,5% í 7%. Í þriðja lagi er lögð til hækkun á áfengisgjaldi til að vega upp tekjumissi af lækkun virðisaukaskatts á áfengi úr 24,5% í 7%. Hækkun áfengisgjaldsins er 58% og miðar að því að tekjur ríkissjóðs af áfengi verði sem næst óbreyttar. Til viðbótar því sem hér hefur verið rakið eru í frumvarpinu lagðar til tvær breytingar á lögum um virðisaukaskatt, sem ekki snúa að tillögum ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að lækka matvælaverð o.fl. Annars vegar að heimild til samskráningar á virðisaukaskattsskrá nái einnig til sparisjóða og dótturfélaga þeirra, og hins vegar að heimild til endurgreiðslu á 2/ 3hluta virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu á hópferðabifreiðum framlengist um tvö ár, eða til ársloka 2008.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er áætlað að á árinu 2007 lækki tekjur ríkissjóðs af vörugjöldum um 465 m.kr. og tekjur af virðisaukaskatti um 12.000 m.kr. Á móti kemur hækkun áfengisgjalds um 3.700 m.kr. Heildarlækkun ríkissjóðstekna á árinu 2007 er þannig áætluð 8.765 m.kr., og á heilsársgrundvelli nemur tekjulækkunin rúmlega 10.500 m.kr. Niðurfelling vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts leiðir og til lækkunar á verðlagsspá, þannig að nú er reiknað með 3% almennri hækkun verðlags í stað 4,5% eins og reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu. Þessi lækkun á verðlagsspá er talin hafa í för með sér 1.000 m.kr. lækkun á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs.