Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 489  —  189. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Atla Má Ingólfsson lögfræðing, Hákon Sigurgrímsson skrifstofustjóra, Baldur Erlingsson lögfræðing, Arnór Snæbjörnsson lögfræðing og Guðmund Helgason ráðuneytisstjóra frá landbúnaðarráðuneyti, Guðberg Rúnarsson frá Landssambandi fiskeldisstöðva og Samtökum fiskvinnslustöðva, Sigurgeir Þorgeirsson og Ernu Bjarnadóttur frá Bændasamtökum Íslands, Val Árnason skrifstofustjóra og Hellen Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti og Ólaf Hjálmarsson og Lúðvík Guðjónsson frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis. Enn fremur átti nefndin símafund með Skúla Skúlasyni, rektor Hólaskóla, og einnig með Sigríði Magnúsdóttur frá Starfsmannafélagi Hólaskóla og Söndru Björgu Stefánsdóttur frá nemendafélagi Hólaskóla.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá Hólaskóla, Hollvinasamtökum Hólaskóla, Byggðastofnun, Samtökum fiskvinnslustöðva og Landssambandi fiskeldisstöðva, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Bandalagi íslenskra námsmanna, Búfræðsluráði, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Bændasamtökum Íslands, Kennarasambandi Íslands, Þórólfi Gíslasyni, háskólaráði Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að Hólaskóli, Hólum í Hjaltadal verði formlega gerður að háskóla og mun heiti hans breytast í Hólaskóli – Háskólinn á Hólum.
    Við umfjöllun nefndarinnar hafa borist óskir um fleiri aðila til setu í háskólaráðinu. Skv. c-lið 10. gr. (31. gr.) frumvarpsins munu níu fulltrúar koma til með að eiga sæti í háskólaráði, þar af tilnefnir sjávarútvegsráðherra einn fulltrúa og samgönguráðherra einn. Nefndin telur æskilegt að sjávarútvegsráðherra tilnefni fulltrúa frá Landssambandi fiskeldisstöðva og samgönguráðherra tilnefni aðila frá Félagi ferðaþjónustubænda.
    Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að háskólaráð skuli skipað til þriggja ára í senn í stað fimm. Með því yrði skipunartími háskólaráðs sambærilegur þeim sem gildir í öðrum háskólum. Nefndin áréttar þó að það háskólaráð sem nú er skipað við Landbúnaðarháskóla Íslands mun ljúka sínum fimm ára skipunartíma og eftir þann tíma skipar landbúnaðarráðherra nýtt háskólaráð til þriggja ára.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi leggur hún til lagfæringu á því hver eigi að setja reglur um gjöld vegna endurmenntunar. Ákvæði 8. gr. frumvarpsins og 2. mgr. 19. gr. laganna skarast með þeim hætti að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að háskólaráð setji nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda en í 2. mgr. 19. gr. laganna er gert ráð fyrir að yfirstjórn hverrar stofnunar setji reglur um fjárhæð endurmenntunarnámskeiða. Nefndin leggur því til að sá hluti 2. mgr. 19. gr. laganna verði felldur brott.
    Í öðru lagi leggur nefndin til þá breytingu að Hólaskóla verði gert kleift að stofna til náms og rannsókna á öðrum fræðasviðum en þeim sem tilgreind eru í frumvarpinu að því tilskildu að starfsemin uppfylli skilyrði til viðurkenningar samkvæmt lögum nr. 63/2006, um háskóla.
    Í þriðja lagi leggur nefndin til orðalagsbreytingu þess efnis að í stað orðsins hæfni í 4. mgr. g-liðar 10. gr. (34. gr. ) komi hæfi.
    Í fjórða lagi leggur nefndin til breytingu á 36. gr. laganna þar sem vísað er til skólagjalda í a-lið en þar er einkum átt við innritunar- og kennslugjöld og er því lagt til að í stað orðsins skólagjöld komi gjöld. Skv. 3. mgr. a-liðar 10. gr. frumvarpsins (29. gr.) er gert ráð fyrir skólagjöldum vegna alþjóðlegrar deildar í hrossarækt og er þar ekki átt við skólagjöld í þeirri merkingu sem áður var í a-lið 36. gr. og er því breytingin eingöngu til að taka af alla vafa.
    Í fimmta lagi leggur nefndin til breytingu á ákvæði til bráðabirgða. Á síðasta löggjafarþingi voru sett ný lög um háskóla, nr. 63/2006 þar sem eitt af helstu nýmælunum var ákvæði um aukið gæðamat og gæðaeftirlit með kennslu og rannsóknum. Gildissvið nýrra háskólalaga nær þó eingöngu til þeirra skóla á háskólastigi sem hlotið hafa viðurkenningu skv. 3. gr. laga um háskóla. Nefndin leggur því til að tekið verði sérstaklega fram í bráðabirgðaákvæði að 2. gr. frumvarpsins komi ekki til framkvæmda fyrr en menntastofnanir landbúnaðarins hafa hlotið framangreinda viðurkenningu. Nefndinni hafa borist þær upplýsingar að menntastofnanir landbúnaðarins hyggist leita sér viðurkenningar skv. 3. gr. laga um háskóla. Í bráðabirgðaákvæðum í háskólalögunum og í frumvarpinu er enn fremur kveðið á um að endurskoða skuli lög þessi til að samræma og auka samvinnu við gæðaeftirlit og námsframboð á háskólastigi.
    Nefndin telur rétt að vekja athygli á því að athugasemdir við einstakar frumvarpsgreinar skýra ekki þær breytingar sem felast í frumvarpinu sjálfu heldur því sem felst í lagagreinunum.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Við afgreiðslu málsins voru fjarverandi Anna Kristín Gunnarsdóttir og Einar Már Sigurðarson.
    Jóhann Ársælsson og Jón Bjarnason skrifa undir álitið með fyrirvara og áskilja sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið. Fyrirvari Jóns lýtur að niðurlagningu stofnunarinnar og uppsögn starfsmanna.
    Magnús Þór Hafsteinsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 27. nóv. 2006.


Drífa Hjartardóttir,

form., frsm.

Hjálmar Árnason.

Gunnar Örlygsson.


Jóhann Ársælsson,

með fyrirvara.

Guðmundur Hallvarðsson.

Birkir J. Jónsson.


Jón Bjarnason,

með fyrirvara.