Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 419. máls.

Þskj. 494  —  419. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. gr.

    Skilgreining á orðinu „tollmiðlari“ í 1. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    4., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     4.      Vegna ökutækja til tímabundinnar notkunar hér á landi í eftirtöldum tilvikum:
                  a.      Af bifreiðum sem eru skráðar erlendis eða keyptar nýjar og óskráðar hér á landi ef innflytjandi eða eftir atvikum kaupandi hennar hefur eða hefur haft fasta búsetu erlendis, hyggst dvelja hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Það er jafnframt skilyrði að bifreiðin sé flutt til landsins eða eftir atvikum keypt ný og óskráð hér á landi innan mánaðar frá því að viðkomandi kom til landsins til tímabundinnar dvalar. Hver sá sem ætlar að dveljast hér á landi í ár eða styttri tíma telst dvelja hér á landi tímabundið.
                  b.      Af eftirvögnum, skráðum erlendis, sem notaðir eru til flutnings vara til og frá landinu.
                  c.      Af hópbifreiðum sem ferðaskrifstofur eða aðrir sem hafa atvinnu af slíkum fólksflutningum flytja til landsins vegna hópferðalaga um landið enda verða þær fluttar úr landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin var ætluð í upphafi.
                  d.      Af tengitækjum, svo sem hjólhýsum og tjaldvögnum, eða öðrum ökutækjum sem ferðamenn flytja til landsins, enda eigi þau ekki undir a-lið, í allt að 12 mánuði. Það er skilyrði að tækin séu ætluð til eigin nota ferðamanns á ferðalagi hér á landi.
     5.      Af innfluttu eldsneyti sem rúmast í innbyggðum eldsneytisgeymum ökutækis og innfluttum varahlutum í ökutæki, uppfylli innflytjandi þess skilyrði 4. tölul.
     6.      Af stærri tækjum, þ.m.t. ökutækjum til fólks- og/eða vöruflutninga eða sérstakra nota, sem flutt eru til landsins tímabundið, þó ekki lengur en í 12 mánuði, enda séu skilyrði 4. tölul. ekki uppfyllt. Aðflutningsgjöld skulu reiknuð af leiguverði fyrir tæki í stað tollverðs. Liggi leiguverð tækis ekki fyrir skal reikna toll af áætlaðri leigu sem ákvörðuð skal sem 1/ 60 hluti tollverðs eins og það er ákveðið skv. V. kafla laga þessara fyrir hvern byrjaðan mánuð frá komu tækis til landsins.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      6. mgr. orðast svo:
                      Tollstjórinn í Reykjavík ákveður form rammaskeytis fyrir aðflutningsskýrslu og hvernig tæknilegri útfærslu SMT- og VEF-tollafgreiðslu skuli háttað að öðru leyti.
     b.      7. mgr. fellur brott.

4. gr.

    35. gr. laganna orðast svo:
    Taka skal í einu lagi til tollmeðferðar vörur sem skráðar eru í einu sendingarnúmeri, nema annað leiði af ákvæðum laga þessara.
    Ráðherra getur með reglugerð heimilað skiptingu sendinga til tollmeðferðar þegar aðstæður þykja mæla með því að slíkt sé heimilt og bundið heimildina þeim skilyrðum sem hann telur nauðsynleg til þess að tryggja að skiptingin hafi ekki áhrif á fjárhæð aðflutningsgjalda sem greiða ber af viðkomandi vörum.

5. gr.

    Við 36. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr. og orðast svo:
    Bráðabirgðatollafgreiðsla gegn fjártryggingu, sbr. 1. mgr., er enn fremur heimil þegar nauðsynlegt reynist að fresta lokaákvörðun um tollverð vöru skv. 14.–17. gr. eða um önnur atriði sem lög þessi taka til, enda þyki að mati tollstjóra ekkert því til fyrirstöðu að innflytjandi leysi vöruna til sín.

6. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. og 3. mgr. 48. gr. laganna kemur: Tollstjórinn í Reykjavík.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
     a.      2. mgr. fellur brott.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                      Tollstjórinn í Reykjavík getur afturkallað starfsleyfi til tollmiðlunar uppfylli tollmiðlari ekki lengur skilyrði fyrir starfsleyfinu eða vanræki gróflega skyldur sínar samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

    2. mgr. 88. gr. laganna orðast svo:
    Farmflytjendur sem ekki reka afgreiðslugeymslur í eigin nafni skulu eiga nægan aðgang að geymslum sem reknar eru á grundvelli leyfis skv. 1. mgr.

9. gr.

    2. mgr. 95. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óveruleg aðvinnsla á vörum heimil í tollvörugeymslu, svo sem einföld umpökkun, merking, samsetning, prófun og þrif, enda leiði aðvinnslan ekki til breyttrar tollflokkunar vöru.

10. gr.

    Í stað orðanna „7. eða 8. gr.“ í 1. mgr. 176. gr. laganna kemur: 6. eða 7. gr.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga vegna tímabundinnar notkunar hér á landi, án greiðslu aðflutningsgjalda, á ökutækjum á erlendum eða sérstökum skráningarnúmerum. Breytingarnar eru lagðar til vegna ábendinga Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í fyrsta lagi bendir ESA á að óheimilt sé að binda tímabundinn innflutning á fyrirtækjabifreiðum því skilyrði að hluti aðflutningsgjalda sé greiddur líkt og gert er í 4. tölul. 7. gr. laganna. Í öðru lagi bendir ESA á að þeir sem hingað koma til starfa tímabundið eða í leit að atvinnu skuli eiga þess kost að hafa meðferðis bifreið til eigin nota um hæfilegan tíma án greiðslu aðflutningsgjalda, en skv. 4. og 5. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga er eingöngu heimilt að veita slíka undanþágu í einn mánuð. Að öðrum kosti sé launþegum og sjálfstætt starfandi aðilum ekki veitt raunhæft frelsi til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þriðja lagi bendir ESA á að formskilyrði tollalaga er lúta að útgáfu leyfa til tímabundins innflutnings ökutækja fari í bága við meginreglur EES-samningsins um þjónustustarfsemi. ESA vísar í því sambandi til ákvæða 28. og 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og dóma Evrópudómstólsins í málum nr. C-464/02, C-232/03 og sameinuðum málum nr. C-151/04 og C-152/04 til grundvallar ábendingunum.
    Að auki er að finna í frumvarpinu fáeinar minni háttar breytingar á ákvæðum tollalaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að skilgreining hugtaksins „tollmiðlari“ í 1. gr. falli brott þar sem hugtakið er afmarkað með skýrari hætti í 47. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Í a-lið 4. tölul. er lagt til að þeir sem hyggjast dvelja hér á landi tímabundið, hvort sem er við leik eða störf, geti annaðhvort haft með sér til landsins ökutæki sem skráð er erlendis eða fest kaup á nýju, óskráðu ökutæki hér á landi án greiðslu aðflutningsgjalda. Lagt er til að undanþágan gildi á meðan innflytjandi eða eftir atvikum sá sem kaupir nýtt og óskráð ökutæki dvelur hér á landi tímabundið en þó ekki lengur en í 12 mánuði frá því að hann kom hingað til lands til tímabundinnar dvalar. Í töluliðnum kemur fram að það skuli litið svo á að þeir sem koma hingað til lands og hyggjast dvelja á landinu í ár eða styttri tíma dveljist hér á landi tímabundið. Það þýðir að þeir sem hingað koma til varanlegrar búsetu geta ekki notið heimildarinnar. Það þýðir jafnframt að heimildin fellur niður taki sá sem hennar nýtur ákvörðun um varanlega búsetu á landinu áður en árið er liðið. Þetta á t.d. við um þá sem hingað koma til atvinnuleitar. Í tengslum við skilyrðið um tímabundna dvöl er áskilið að viðkomandi sé eða hafi verið búsettur erlendis áður en hann kemur til tímabundinnar dvalar hér á landi. Um skilgreiningu á hugtakinu búseta er vísað til laga um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum. Þá er jafnframt gert að skilyrði bifreiðin sé til eigin nota þess sem flytur hana inn eða kaupir hér á landi en það þýðir einkum að notkun hennar til flutnings á fólki eða vörum gegn gjaldi er óheimil. Þá er það gert að skilyrði að bifreiðin sé annaðhvort flutt inn eða keypt ný og óskráð hér á landi innan mánaðar frá því að viðkomandi kom til landsins.
    Ofangreindar breytingar er lagðar til vegna athugasemda ESA eins og fram kom í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Það er mat ESA að áskilnaður 3. mgr. 4. tölul. 7. gr. gildandi tollalaga um greiðslu aðflutningsgjalda að hluta af ökutæki sé andstæður ákvæðum 28. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem mælt er fyrir um afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum ESB og EFTA-ríkjum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Í frumvarpi þessu er lagt til að einstaklingum, sem eru eða hafa verið búsettir erlendis og koma hingað til lands til starfa tímabundið eða í atvinnuleit, annaðhvort sem launþegar eða sjálfstætt starfandi einstaklingar, verði heimilt að nota bifreið hér á landi í allt að ár án greiðslu aðflutningsgjalda. Með því er dregið úr hættu á að þeir sem íhuga að koma hingað til lands til tímabundinna starfa eða í atvinnuleit hverfi ekki frá þeim áformum vegna álaga á bifreiðar hér á landi. Með því er komið til móts við ábendingar ESA í þá átt. Þrátt fyrir að breytingarnar séu til komnar vegna ábendinga ESA er af framkvæmdalegum ástæðum lagt til að rýmkunin verði ekki látin velta á ríkisfangi þess sem hingað flyst til tímabundinna starfa heldur allra þeirra sem uppfylla áðurnefnd skilyrði.
    Öll skilyrði greinarinnar þurfa að vera uppfyllt til þess að undanþágan taki gildi og hún gildir á meðan viðkomandi uppfyllir skilyrðin. Ekki er gert ráð fyrir að sá sem uppfyllir skilyrðin þurfi að sækja um sérstakt leyfi til þess að heimildin öðlist gildi. Ákvæði greinarinnar eins og það er orðað kemur hins vegar ekki í veg fyrir að ráðherra geti ákveðið með reglugerð að innflytjandi eða eftir atvikum kaupandi bifreiðar lýsi því yfir að hann uppfylli viðeigandi skilyrði á sérstöku eyðublaði áður en bifreiðin er tekin til notkunar hér á landi. Heimildin er hins vegar ekki háð leyfi tollstjóra, uppfylli viðkomandi skilyrðin. Með því er komið til móts við ábendingar ESA um að engin höft skuli vera á frelsi ríkisborgara aðildarríkja ESB og EFTA-ríkja til að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila enda þótt þeir hafi staðfestu í öðru aðildarríki ESB eða EFTA-ríki en sá sem þjónustan er ætluð. ESA hefur metið það svo að fyrirkomulag við útgáfu akstursleyfa sé íþyngjandi fyrir þann sem hingað kemur til þess að þiggja þjónustu.
    Sá sem nýtir sér heimild greinarinnar skal á sérhverjum tíma vera viðbúinn að sýna tollyfirvöldum eða eftir atvikum lögreglu fram á að hann geti notið heimildar samkvæmt greininni. Í því felst jafnframt að honum ber að gefa sig fram um leið og hann uppfyllir ekki eitt eða fleiri áðurtalinna skilyrða. Honum ber til dæmis að gefa sig fram við tollyfirvöld undireins ákveði hann áður en ár er liðið frá komu hans til landsins að taka upp varanlega búsetu á landinu.
    Tilmæli ESA taka einvörðungu til fyrirtækjabifreiða (company cars). Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að greinin taki til bifreiða eins og þær eru skilgreindar samkvæmt umferðarlögum hverju sinni til einföldunar og hagræðis í framkvæmd.
    Við útfærslu þessa liðar frumvarpsins var höfð hliðsjón af norskum og dönskum réttarheimildum um sama efni.
    Ákvæði b-liðar 4. tölul. er efnislega samhljóða 6. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. gildandi tollalaga.
    Ákvæði c-liðar 4. tölul. kemur í stað 4. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. gildandi tollalaga. Ákvæðið er í aðalatriðum samhljóða 4. mgr. 4. gr. tollalaga en þó er gert ráð fyrir að undanþága samkvæmt ákvæðinu sé gild ef hópferðabifreið er flutt hingað til lands og frá landi með þeim ferðamannahópi sem bifreiðin er ætluð fyrir. Ef bifreið er flutt hingað til lands og er ætluð fyrir fleiri en einn hóp gilda ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna eins og hann kemur fyrir í frumvarpinu.
    Í d-lið 4. tölul. er fjallað um innfluting ferðamanna á ökutækjum sem ætluð eru til notkunar á ferðalögum. Sambærileg efnisregla er í 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. gildandi tollalaga.
    5. tölul. er efnislega samhljóða 7. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. gildandi tollalaga.
    6. tölul. er efnislega samhljóða 6. tölul. 1. mgr. 7. gr. gildanda tollalaga. Þó mun ákvæðið eiga við í færri tilvikum þegar litið er til þeirra rýmkunar sem felst í a-lið 4. tölul. þessarar greinar frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að tollstjórinn í Reykjavík beri ábyrgð tæknilegri útfærslu á SMT- og VEF-tollafgreiðslu. Sú ábyrgð er til samræmis við sérstakt hlutverk hans skv. 43. gr. tollalaga. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 4. gr.

    Ákvæðið er efnislega samhljóða 4. mgr. 103. gr. tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum. Greinin var ekki tekin upp í frumvarp sem varð að tollalögum, nr. 88/2005, en rétt þykir að sú meginregla sem felst í ákvæðinu komi fram með skýrum hætti í tollalögum. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 5. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um að efnisregla gildandi 35. gr. tollalaga verði 2. mgr. 36. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Í greininni er lagt til að tollstjórinn í Reykjavík veiti starfsleyfi til tollmiðlunar í stað ráðherra. Tollstjórinn í Reykjavík veitir eintaklingum og lögaðilum leyfi til rafrænna samskipta við tollyfirvöld, þ.e. leyfi til SMT- og VEF-tollafgreiðslu, sbr. 24. gr. tollalaga, og því þykir rétt að hann annist jafnframt leyfisveitingar til þeirra sem óska eftir leyfum til að annast rafræn samskipti við tollyfirvöld fyrir hönd inn- og útflytjenda.

Um 7. gr.

    Í greininni er lagt til að tollstjórinn í Reykjavík beri alfarið ábyrgð á eftirliti með starfsemi tollmiðlara með vísan til þess að í 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að tollstjórinn veiti starfsleyfi til tollmiðlunar. Því er jafnframt gert ráð fyrir að tollstjórinn fari með afturköllunarvaldið. Greinin þarfnast ekki skýringar að öðru leyti.

Um 8. gr.

    Í greininni er lagt til að í stað tilvísunar til þeirra sem um getur í 1. mgr. 88. gr. gildandi tollalaga komi farmflytjendur. Greinin byggist á þeirri forsendu að þeir sem flytji vörur til landsins verði að geta komið henni á viðurkennt geymslusvæði samkvæmt lögunum reki þeir ekki slíkt geymslusvæði sjálfir. Tollmiðlarar flytja ekki vörur til landsins og því er lagt til að vísun til þeirra í málsgreininni falli brott.

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að orðin „skipting sendinga“ í 2. mgr. 95. gr. gildandi tollalaga falli brott. Aðgerðin „skipting sendinga“ telst felast í öðrum þeim aðgerðum sem teljast til óverulegrar aðvinnslu og eru taldar í 95. gr. gildandi tollalaga og í þessari grein frumvarpsins. Tillagan er m.a. gerð vegna þess að rétt þykir að hugtakið skipting sendinga í tollalögum taki einvörðungu yfir þær uppskiptingar sendinga sem mælt er fyrir um í 3. gr. frumvarpsins. Í greininni er jafnframt lagt til að áskilnaður verði gerður um að sú einfalda aðvinnsla sem þar er tilgreind breyti ekki tollflokkun vöru. Þessi áskilnaður er gerður í því augnamiði að tryggja óbreytta álagningu aðflutningsgjalda þrátt fyrir að óveruleg aðvinnsla sé framkvæmd á vöru.

Um 10. gr.

    Frumvarpið sem varð að tollalögum, nr. 88/2005, byggðist í meginatriðum á frumvarpi til tollalaga sem lagt var fram til kynningar á 130. löggjafarþingi 2003–2004. Að lokinni kynningu á Alþingi var frumvarpið sent til umsagnar fjölmargra aðila. Í kjölfarið voru þó nokkrar breytingar gerðar á frumvarpinu sem lagt var fram til kynningar og við meðferð frumvarpsins á Alþingi. Við þær breytingar hefur láðst að breyta tilvísun til viðeigandi ákvæða tollalaga um leyfi, ívilnanir eða tollfríðindi og því er lagt til að í ákvæðinu verði réttilega vísað til 6. og 7. gr. tollalaga en þar er mælt fyrir um þær undanþágur sem vísað er til.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum,
nr. 88/2005, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum tollalaga vegna tímabundinnar notkunar ökutækja á erlendum eða sérstökum skráningarnúmerum hér á landi, án greiðslu aðflutningsgjalda. Meginefnisatriði frumvarpsins lúta að því að lengja þann tíma sem slík ökutæki mega vera hér á landi úr einum mánuði í eitt ár áður en af þeim þarf að greiða toll.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs. Áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs eru óveruleg og felast einungis í frestun á greiðslu aðflutningsgjalda.