Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 500  —  56. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um Ríkisútvarpið ohf.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Val Árnason skrifstofustjóra og Elvu Ýr Gylfadóttur frá menntamálaráðuneyti, Sigurbjörn Magnússon hrl., Pál Magnússon útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, Magnús Norðdahl frá ASÍ, Björgu Evu Erlendsdóttur, Þórdísi Arnljótsdóttur og Arnar Þór Stefánsson frá Félagi fréttamanna Ríkisútvarpsins, Gunnar Magnússon frá Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins, Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Þóreyju S. Þórðardóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Vilhjálm Egilsson frá Samtökum atvinnulífsins, Davíð Þorláksson frá Viðskiptaráði Íslands, Jóhönnu Margréti Einarsdóttur og Jórunni Sigurðardóttur frá Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, Pál Gunnar Pálsson forstjóra og Guðmund Sigurðsson aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins, Örnu Schram og Hjálmar Jónsson frá Blaðamannafélaginu, Ara Edwald, forstjóra 365 miðla, Magnús Ragnarsson frá Skjá einum, Arnþrúði Karlsdóttur og Pétur Guðmundsson frá Útvarpi Sögu, Ingólf Hjörleifsson frá Sambandi íslenskra auglýsingastofa, Þröst Ólafsson, framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, og Sigurð Bjarka Gunnarsson, varaformann Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einnig komu á fund nefndarinnar Sigurður Þórðarson, formaður matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings Ríkisútvarpsins ohf., og Jón Loftur Björnsson sem starfaði með matsnefndinni.
    Frumvarpið var sent til umsagnar og bárust umsagnir frá útvarpstjóra Ríkisútvarpsins, Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins, Starfsmannasamtökum Ríkisútvarpsins, Félagi fréttamanna Ríkisútvarpsins, Bandalagi háskólamanna og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, útvarpsréttarnefnd, Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins, 365 ljósvakamiðlum, Íslenska sjónvarpsfélaginu hf., Útvarpi Sögu, Blaðamannafélagi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands, Neytendasamtökunum, Reykjavíkurborg, ríkisskattstjóra, Landssambandi lögreglumanna, ríkislögreglustjóra, Kennaraháskóla Íslands, Málvísindastofnun Háskóla Íslands, íslenskuskor Háskóla Íslands, Seltjarnarneskaupstað, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samkeppniseftirlitinu, Önnu Th. Rögnvaldsdóttur, leikstjóra og handritshöfundi, Alþýðusambandi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Rithöfundasambandi Íslands, Framleiðendafélaginu SÍK og Félagi kvikmyndagerðarmanna.
    Með frumvarpinu er lagt til að ríkisstofnunin Ríkisútvarpið verði lögð niður og að opinbert hlutafélag verði stofnað um rekstur hennar. Frumvarp um Ríkisútvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn af menntamálaráðherra, en á 131. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp þess efnis að gera Ríkisútvarpið að sameignarfélagi og á síðasta löggjafarþingi var lagt fram frumvarp um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi.
    Við umfjöllun nefndarinnar var fjallað um hljóðfæri sem Ríkisútvarpið hélt eftir við rekstrarlegan aðskilnað Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar, tvær fiðlur og eina víólu. Samkvæmt skýrslu matsnefndar vegna stofnefnahagsreiknings verða framangreind hljóðfæri ekki hluti af eignum Ríkisútvarpsins ohf. og er í þessu sambandi einkum litið til Guarnerius del Gesu fiðlunnar sem er frá 1728. Framangreind hljóðfæri verða eign ríkissjóðs og verður gerður samningur milli ríkisins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands um afnot þeirra.
    Nefndin hefur litið svo á að fyrirhuguð lækkun á skuld Ríkisútvarpsins við ríkissjóð, að fjárhæð 625 millj. kr. samkvæmt breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2006 sem til meðferðar er á yfirstandandi þingi sem ætlað er að tryggja 15% eiginfjárhlutfall við stofnun Ríkisútvarpsins ohf., komi til lækkunar á skuld Ríkisútvarpsins við Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem samkvæmt árshlutareikningi nam 692,2 millj. kr. þann 30. júní 2006.
     Þónokkur umræða varð hjá nefndinni um réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins. Við með ferð málsins lýsti Páll Magnússon útvarpsstjóri því yfir að hlutafélagið tæki yfir kjara samn inga og ráðningarsamninga viðkomandi starfsmanna. Varðandi lífeyrisréttindi starfsmanna er félagsmönnum aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, aðildarfélaga Bandalags háskólamanna eða Kennarasambands Íslands heimilt að eiga aðild að A-deild sjóðsins. Jafn framt er félagsmönnum í stéttarfélögum sem eru utan fyrrgreindra bandalaga en gera kjara samning á grundvelli laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, heimilt að eiga aðild að A-deild sjóðsins. Sú heimild er háð samþykki launagreiðanda. Páll Magnússon lýsti því einnig yfir að opinbera hlutafélagið mundi samþykkja áframhaldandi aðild að A- deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Að öðru leyti fer um lífeyrisréttindi starfsmanna eftir því sem segir í ákvæði til bráðabirgða II í frumvarpinu og samkvæmt lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi leggur hann til orðalagsbreytingu við 2. málsl. 5. gr. frumvarpsins og er eingöngu um að ræða að fella brott endurtekningu í texta lagagreinarinnar.
    Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til tvær breytingar á 11. gr. frumvarpsins, sem fjallar um tekjustofna Ríkisútvarpsins ohf. Annars vegar að við 2. tölul. 1. mgr. bætist tveir málsliðir. Í fyrsta lagi að mörk verði sett á heimild Ríkisútvarpsins ohf. til að afla sér tekna með kostunarsamningum vegna einstakra dagskrárliða. Leggur meiri hlutinn til að samanlagðar tekjur Ríkisútvarpsins ohf. af kostun skuli ekki vera hærri en sem nemur hlutfalli kostunartekna af samanlögðum tekjum Ríkisútvarpsins af auglýsingum og kostun á árinu 2006. Með breytingunni er því lagt til að lögfest verði að tekjur hins nýja félags af kostunarsamningum verði ekki hlutfallslega hærri en á árinu 2006. Ætla má að þessar tekjur Ríkisútvarpsins verði um 100 millj. kr. Er breytingunni ætlað að koma í veg fyrir frekari fyrirferð Ríkisútvarpsins ohf. á kostunarmarkaði en nú er. Meiri hlutinn vill beina því til menntamálaráðherra að mælast, í þjónustusamningi milli menntamálaráðuneytisins og Ríkisútvarpsins ohf., til þess að þeim tekjum sem félagið aflar sér með kostunarsamningum verði fremur varið til kostunar á dagskrárliðum sem varða íslenska tungu, sögu og menningararfleifð, fremur en til kostunar á erlendu afþreyingarefni. Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til að sú breyting verði gerð á 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins að Ríkisútvarpinu verði gert óheimilt að selja auglýsingar til birtingar á veraldarvefnum. Á síðustu árum hafa einkareknir fjölmiðlar sótt fram á sviði nýmiðlunar á veraldarvefnum og hefur umfang auglýsinga í þeim miðlum aukist jafnt og þétt. Fram til þessa hefur Ríkisútvarpið hins vegar ekki selt auglýsingar á vefsvæði sínu www.ruv.is. Leggur meiri hlutinn til að ekki verði gerð breyting þar á og að lögfest verði ákvæði þess efnis að Ríkisútvarpinu ohf. verði óheimilt að birta auglýsingar á veraldarvefnum. Hins vegar leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. mgr. 11. gr. þess efnis að fjármálaráðuneytið skuli greiða fyrsta virka dag hvers mánaðar fyrir fram fjárhæð sem svari til 1/ 12 heildartekna af gjaldi ársins samkvæmt greininni í stað þess að greitt sé þann 15. febrúar og 15. maí fyrir fram í hvort sinn fjárhæð sem svarar til áætlaðs fjórðungs heildartekna og eftirstöðvar mundu síðan greiðast síðar á árinu í samræmi við innheimtu annarra opinberra gjalda.Talið er hentugra að greiðslurnar séu mánaðarlegar, t.d. með hliðsjón af launagreiðslum og fjármagnskostnaði.
    Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á 13. gr. frumvarpsins er fjallar um gildistöku o.fl.     Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi en samhliða gildi lög um Ríkisútvarpið, nr. 122/2000, til 1. janúar 2007. Meiri hlutinn leggur til að lög um Ríkisútvarpið falli brott 1. febrúar 2007 í stað 1. janúar 2007 svo að nægur tími verði til að kjósa menn til setu í stjórn, halda stofnfund og að því loknu skrá félagið formlega. Í samræmi við framangreinda breytingu er lögð til breytt dagsetning í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I og í ákvæði til bráðabirgða II.
    Í fjórða lagi leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæði til bráðabirgða I. Samkvæmt orðalagi 3. mgr. ákvæðsins skal annars vegar leggja fram hlutafjárhæðina á stofnfundi en hins vegar á að greiða hana hálfum mánuði eftir skráningu. Orðalagið er óheppilegt og því leggur meiri hlutinn til að fellt verði brott að hún skuli greiðast hálfum mánuði eftir skráningu. Í þessu sambandi má nefna að í stofnsamningi og samþykktum sem lagðar eru fram á stofnfundi eiga að koma fram upplýsingar um fjárhæð og greiðslu hlutafjár, sbr. lög nr. 2/1995, um hlutafélög.
    Þá er lögð til breyting á lokamálslið ákvæðis til bráðabirgða III sem fjallar um fyrstu stjórn félagsins. Þar kemur fram að þar til að skipuð hefur verið stjórn fyrir félagið sé menntamálaráðherra í fyrirsvari fyrir félagið sem eini stjórnarmaður þess. Hlutafélagið stofnast ekki fyrr en á stofnfundi, en á þeim fundi verður skipuð stjórn félagsins sem fer síðan með fyrirsvar félagsins fram að skráningu. Því ættu ekki að koma upp tilvik þar sem menntamálaráðherra væri í fyrirsvari fyrir félagið sem stjórnarmaður.
    Einnig leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæði til bráðabirgða IV sem fjallar um lok á umboði útvarpsráðs. Ósamræmis gætir á milli þessa ákvæðis og ákvæðis 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins en þar er tekið sérstaklega fram að lögin um Ríkisútvarpið falli brott 1. janúar 2007. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu fellur umboð aðalmanna og varamanna útvarpsráðs niður við gildistöku laganna. Meiri hlutinn leggur því til að umboðið falli niður um leið og hlutafélagið tekur til starfa og lög um Ríkisútvarpið falla brott, en ekki við gildistöku laganna.
    Að lokum leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæði til bráðabirgða V sem fjallar um gildistöku ákvæðis um tekjustofna. Gert er ráð fyrir að ákvæðið um megintekjustofna gildi „til og með“ 31. desember 2008 en hins vegar að tekjustofnarnir skv. 11. gr. taki gildi „eftir“ 1. janúar 2009. Meiri hlutinn leggur því til að í stað „eftir“ komi „frá og með“ svo að gildistakan eigi einnig við um 1. janúar 2009.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. nóv. 2006.


Sigurður Kári Kristjánsson,

form., frsm.

Dagný Jónsdóttir.

Sigurrós Þorgrímsdóttir.


Kjartan Ólafsson.

Sæunn Stefánsdóttir.