Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 219. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 505  —  219. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um gatnagerðargjald.

Frá félagsmálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason, Sesselju Árnadóttur og Lárus Bollason frá félagsmálaráðuneyti, Guðmund Ómar Hafsteinsson hdl., Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristbjörgu Stephensen frá Reykjavíkurborg. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Hveragerðisbæ, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins sameiginlega, frá Vegagerðinni, Skipulagsstofnun, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, ríkisskattstjóra og Viðskiptaráði Íslands. Að auki bárust nefndinni tilkynningar frá talsmanni neytenda og Lögmannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu er lagt til að gatnagerðargjald verði skilgreint sem skattur sem er almennt ætlað að standa undir gatnagerð sveitarfélaga. Í samræmi við áskilnað stjórnarskrár um gilda skattlagningarheimild er kveðið á um atriði sem lúta að skattskyldu, skattstofni, ákvörðun gjaldsins og gjalddaga. Gert er ráð fyrir að reglur um gjaldstofn gatnagerðargjalds verði einfaldaðar og að innheimta þess verði bundin við þéttbýli. Þá er að finna heimildir til handa sveitarfélögum til að ákvarða álagningarhlutfall og beita almennum og sérstökum lækkunarheimildum innan þeirra marka sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og einstakra sveitarfélaga var óskað framlengingar á bráðabirgðaákvæði núgildandi laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, sem heimilar sveitarfélögum töku sérstaks gjalds, svokallaðs B-gatnagerðargjalds, í tíu ár frá gildistöku þeirra vegna tiltekinna framkvæmda. Til stuðnings var vísað til þess að vegna fjárskorts hefði sumum sveitarfélögum ekki tekist að klára umræddar framkvæmdir og því væri nauðsynlegt að framlengja umræddan frest sem að óbreyttu rennur út um næstu áramót. Af hálfu nefndarinnar var fallist á þetta sjónarmið.
    Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til þá breytingu að við bætist bráðabirgðaákvæði sem mæli fyrir um að heimild sveitarfélaga til töku gjaldsins verði framlengd til þriggja ára. Nauðsynlegt er að það ákvæði taki gildi 1. janúar 2007 en í gildistökuákvæði frumvarpsins er ráðgert að lögin taki gildi 1. júlí 2007. Þar sem heimild til töku B-gatnagerðargjalds samkvæmt núgildandi lögum fellur úr gildi um áramót er þörf á sérstöku gildistökuákvæði sem mælir fyrir um heimild sveitarfélaga til töku B-gatnagerðargjalds frá þeim tíma.
    Nefndin leggur jafnframt til nokkrar minni háttar breytingar á ákvæðum frumvarpsins. Í fyrsta lagi þá breytingu að ákvæði 1. mgr. 3. gr. og ákvæði 1. málsl. 5. mgr. 3. gr. verði orðuð með skýrari hætti en nú er gert. Í öðru lagi að nýjum málslið verði bætt við 3. tölul. 3. mgr. 5. gr. sem mæli fyrir um að ef stækkun tiltekins íbúðarhúss eða, eftir atvikum, sameignar í fjölbýlishúsi fer umfram þá 30 fermetra sem gjaldfellingar- og lækkunarheimildir frumvarpsgreinarinnar taka til skuli gatnagerðargjald greiðast af því sem umfram er. Í þriðja lagi að orðalagi 2. og 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. verði breytt í þeim tilgangi að gjalddagi gatnagerðargjalds, sem til fellur þegar forsendur undanþágu eru ekki lengur fyrir hendi, taki mið af því hvort byggingaryfirvöld hafi átt þess kost að meta hvort skilyrði álagningar séu fyrir hendi eða ekki. Þannig skuli gjalddagi og eindagi fara eftir reglunni í 2. mgr. 7. gr. ef breytt notkun er háð samþykki byggingaryfirvalda en að öðrum kosti skuli gjalddagi vera 30 dögum eftir að forsendur breyttust og eindagi einum mánuði síðar. Í fjórða lagi er svo lagt til að 9. gr. frumvarpsins um endurgreiðslu gatnagerðargjalds vegna afturköllunar eða ógildingar á lóðarúthlutun eða skila á lóð skuli taka til hliðstæðra atvika í tengslum við samþykkt byggingarleyfi. Þó er gerður sá fyrirvari að í þeim tilvikum sé gjalddagi endurgreiðslu kominn undir því að byggingarleyfishafi hafi sannanlega krafist hennar. Að lokum vill nefndin taka fram til skýringar að með fermetrafjölda í skilningi frumvarpsins er átt við brúttófermetrafjölda gólfflatar.
    Við afgreiðslu málsins hefur athygli félagsmálanefndar verið vakin á því að hvorki er að finna í frumvarpinu ákvæði um skyldur sveitarfélaga til gatnagerðar né um eignarhald og viðhaldsskyldu á götu, en mest hefur borið á slíkum ágreiningi á Akureyri, sbr. svonefnt Meðalteigsmál sem nú er til athugunar hjá umboðsmanni Alþingis. Nefndin telur að eðlilegt sé að á þessum málum verði fremur tekið við væntanlega endurskoðun skipulags- og byggingarlaga en í lögum sem eingöngu varða álagningu og innheimtu gatnagerðargjalds.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Pétur H. Blöndal og Magnús Þór Hafsteinsson skrifa undir álitið með fyrirvara. Jóhanna tekur undir sjónarmið einstakra sveitarfélaga um að álagning gatnagerðargjalds eigi að meginstefnu til að taka til dreifbýlis jafnt sem þéttbýlis. Pétur álítur að svigrúm sveitarfélaga samkvæmt frumvarpinu til að ákveða undanþágur frá gatnagerðargjaldi séu of rúmar.
    Einar Oddur Kristjánsson og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 29. nóv. 2006.


Dagný Jónsdóttir,

form., frsm.

Guðjón Hjörleifsson.

Jóhanna Sigurðardóttir,

með fyrirvara.


Ellert B. Schram.

Pétur H. Blöndal,

með fyrirvara.

Birkir J. Jónsson.


Magnús Þór Hafsteinsson,

með fyrirvara.