Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 507  —  347. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

Frá félagsmálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti, Þorstein Þorsteinsson frá Lánasjóði sveitarfélaga, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ragnar Hafliðason, Guðbjörgu Bjarnadóttur og Guðmund Jónsson frá Fjármálaeftirlitinu og Guðjón Rúnarsson frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
    Aðdragandinn að þessu frumvarpi er sá að félagsmálanefnd Alþingis hvatti til þess í áliti við síðustu breytingu á lögum um Lánasjóð sveitarfélaga, sbr. lög nr. 136/2004, að eignarhlutdeild sveitarfélaga í sjóðnum yrði skilgreind.
    Lánasjóður sveitarfélaga hefur fram til þessa verið í óskiptri sameign sveitarfélaganna í landinu en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eignarhaldi sjóðsins verði skipt og að hann verði framvegis rekinn sem opinbert hlutafélag. Sjóðurinn starfar á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, en samfara því rækir hann félagslegt og byggðalegt hlutverk sem endurspeglast í þeirri skyldu að tryggja sveitarfélögum jafnan aðgang að eins hagstæðu lánsfjármagni og kostur er á hverjum tíma. Breytingarnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir miða að því að laga rekstur sjóðsins enn betur að íslensku fjármálaumhverfi og gæta þess um leið að þau sérréttindi sem sjóðurinn nýtur lögum samkvæmt fái samræmst samkeppnisreglum á Evrópska efnahagssvæðinu. Er gerð krafa um að lánveitingum sjóðsins verði einungis ráðstafað til verkefna sem hafa almenna efnahagslega þýðingu.
    Gert er ráð fyrir að hlutir geti einvörðungu verið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og fyrirtækja sem eru að fullu í eigu þeirra. Takmarkanir á meðferð hluta standa þó ekki í vegi fyrir því að sjóðurinn geti komist í eigu eins aðila en fyrirliggjandi drög að samþykktum sjóðsins gera ráð fyrir að einn einstakur hluthafi geti aldrei farið með meira en 15% af heildaratkvæðamagni í félaginu.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að hlutdeild Lánasjóðs sveitarfélaga í heildarskuldum sveitarfélaganna, að Reykjavíkurborg frátalinni, hefur aukist á undanförnum árum. Reksturinn gengur vel og sveitarfélög standa í skilum. Sjóðnum er heimilt að taka veð í tekjum sveitarfélaga sem er forsenda þess að hann geti boðið þeim hagstæðari kjör en almennir lánveitendur. Þrátt fyrir að sú tilhögun sé ekki óumdeild frá sjónarmiði samkeppnislaga réttlætist hún af hinu félagslega hlutverki sjóðsins.
    Nefndin telur rétt, að fenginni ábendingu Fjármálaeftirlitsins, að leggja til þá breytingu að hið nýja hlutafélag yfirtaki allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Lánasjóðs sveitarfélaga frá og með útgáfu starfsleyfis í stað þess að miða við stofnun eins og gert er í 3. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Einnig leggur nefndin til að við umrætt ákvæði bætist ný málsgrein sem annars vegar kveður á um að sjóðnum sé eigi skylt að gefa út innköllun til lánardrottna sinna og hins vegar að sjóðurinn skuli auglýsa greiðslustað skuldaskjala tvívegis í Lögbirtingablaðinu.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi

BREYTINGU:


    Eftirfarandi breytingar verði á ákvæði til bráðabirgða I:
     a.      Í stað orðanna „við stofnun“ í 3. málsl. 1. mgr. komi: frá útgáfu starfsleyfis.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðist svo:
             Innköllun til lánardrottna Lánasjóðs sveitarfélaga skal eigi gefin út. Greiðslustaður skuldaskjala, sem eru í eigu Lánasjóðs sveitarfélaga, verður hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. Lánasjóður sveitarfélaga skal birta tvær auglýsingar þessa efnis í Lögbirtingablaðinu.

    Magnús Þór Hafsteinsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Einar Oddur Kristjánsson og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er andvígur áliti þessu.


Alþingi, 29. nóv. 2006.


Dagný Jónsdóttir,

form., frsm.

Guðjón Hjörleifsson.

Jóhanna Sigurðardóttir,


Ellert B. Schram.

Pétur H. Blöndal.

Birkir J. Jónsson.


Magnús Þór Hafsteinsson,

með fyrirvara.