Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.

Þskj. 516  —  428. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnunar.

2. gr.

    Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ í 5. mgr. 6. gr. laganna kemur: Vinnumálastofnun.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í 1. mgr. kemur: Vinnumálastofnunar.
     b.      Í stað orðsins „Tryggingastofnun“ í 1. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.
     c.      Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ hvarvetna í 3., 4. og 5. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.
     d.      Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í fyrirsögn kemur: Vinnumálastofnunar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ í 1. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.
     b.      Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í 2. mgr. kemur: Vinnumálastofnunar.
     c.      Í stað orðanna „Tryggingastofnun ríkisins“ í 5. mgr. kemur: Vinnumálastofnun.

5. gr.

    2. og 3. málsl. 5. mgr. 17. gr. laganna orðast svo: Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðila um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæði þessu. Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu fæðingarorlofs er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.

6. gr.

    2. og 3. málsl. 4. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðila um hvort lenging á rétti til fæðingarstyrks sé nauðsynleg samkvæmt ákvæði þessu. Synjun Vinnumálastofnunar um lengingu á rétti til fæðingarstyrks er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í 1. mgr. kemur: Vinnumálastofnunar.
     b.      Í stað orðsins „Tryggingastofnunar“ í 3. mgr. kemur: Vinnumálastofnunar.
     c.      Í stað orðanna „Tryggingastofnunar ríkisins“ í fyrirsögn kemur: Vinnumálastofnunar.

8. gr.

    
    2. mgr. 33. gr. laganna orðast svo:
    Foreldri sem nýtur greiðslna í fæðingarorlofi á ekki rétt til sjúkradagpeninga og lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar vegna sama barns.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Á Alþingi hafa að undanförnu komið fram fyrirspurnir um samræmingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum, annars vegar og umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, með síðari breytingum, hins vegar. Fram til þessa hafa greiðslur í fæðingarorlofi og réttur til umönnunargreiðslna ekki farið saman, þ.e. foreldrar sem átt hafa rétt til greiðslna í fæðingarorlofi hafa ekki á sama tíma átt rétt til umönnunargreiðslna.
    Félagsmálaráðherra upplýsti í fyrirspurnatíma á Alþingi að hann hygðist beita sér fyrir breytingu á þessu og er frumvarp þetta samið í framhaldi af því.
    Að auki er nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum þar sem félagsmálaráðherra hefur ákveðið í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 1. gr. laga nr. 90/2004, að fela Vinnumálastofnun vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Fram að þessu hefur varsla sjóðsins verið hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1.–4. gr.

    Breytingar á þessum greinum varða eingöngu þá breytingu sem gerð hefur verið á vörslu Fæðingarorlofssjóðs.

Um 5. gr.

    Lagt er til að fellt verði brott ákvæði um skyldu tryggingayfirlæknis til að meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg. Er sú tillaga í samræmi við þá breytingu sem gerð hefur verið á vörslu Fæðingarorlofssjóðs. Í stað þess er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum aðila um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt þessu ákvæði. Er það því lagt í hendur framkvæmdaraðilans að meta hvort þörf sé á endurmati á vottorði læknis umsækjanda. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006.

Um 6. gr.

    Um skýringu vísast við athugasemda við 5. gr.

Um 7. gr.

    Breytingar á þessari grein varða eingöngu þá breytingu sem gerð hefur verið á vörslu Fæðingarorlofssjóðs.

Um 8. gr.

    Lögð er til breyting á 2. mgr. 33. gr. laganna í samræmi við þann tilgang sem lýst er í almennum athugasemdum. Er litið svo á að tilgangur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og umönnunargreiðslna á grundvelli 4. gr. laga um félagslega aðstoð sé ekki sá sami. Greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er ætlað að mæta tekjumissi foreldra er þeir annast barn sitt í fæðingarorlofi, en umönnunargreiðslunum er ætlað að mæta útgjöldum fjölskyldna sem rekja má til veikinda eða fötlunar barna.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að aðgreina greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og umönnunargreiðslur. Í öðru lagi er lagt til að Vinnumálastofnun sjái um vörslu fæðingarorlofssjóðs sem hefur verið í höndum Tryggingastofnunar.
    Áætlað er að kostnaður vegna umönnunargreiðslna hækki um 16 m.kr. þar sem hægt verður að fá þær um leið og fæðingarorlofsgreiðslur. Tímabundin kostnaður vegna undirbúnings á yfirtöku Vinnumálastofnunar á starfsemi fæðingarorlofssjóðs er áætlaður 37,5 m.kr. Hanna þarf nýjan hugbúnað, kaupa búnað og tæki og ráða starfsfólk og þjálfa svo verkefnið gangi eftir. Gert er ráð fyrir útgjöldunum í frumvarpinu til fjáraukalaga 2006. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2007 er gert ráð fyrir 52 m.kr. í umsýslukostnað fyrir sjóðinn og er ekki gert ráð fyrir að sá kostnaður aukist.