Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 429. máls.

Þskj. 517  —  429. mál.Frumvarp til laga

um ættleiðingarstyrki.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til fjárstyrkja úr ríkissjóði til kjörforeldra sem ættleitt hafa erlent barn eða börn í samræmi við lög um ættleiðingar.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.
2. gr.
Yfirstjórn.

    Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn ættleiðingarstyrkja samkvæmt lögum þessum.

3. gr.
Framkvæmdaraðili.

    Félagsmálaráðherra ákveður með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara.
    Kostnaður vegna ættleiðingarstyrkja í lögum þessum greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.

4. gr.
Kæruheimild.

    Ákvörðun um synjun ættleiðingarstyrks og leiðréttingu á greiðslum skv. 8. gr. er heimilt að kæra til félagsmálaráðherra. Um kæru gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

III. KAFLI
Greiðsla ættleiðingarstyrks.
5. gr.
Greiðsla og skilyrði styrks.

    Ættleiðingarstyrkur er eingreiðsla sem er greidd út samkvæmt umsókn kjörforeldra þegar erlend ættleiðing hefur verið staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi hefur verið gefið út hér í samræmi við ákvæði laga um ættleiðingar.
    Kjörforeldrar sem hafa fengið útgefið forsamþykki í samræmi við lög um ættleiðingar eiga einir rétt á ættleiðingarstyrk. Þessi réttur er ekki framseljanlegur.
    Ættleiðingarstyrkur er aðeins veittur vegna ættleiðinga sem fara fram fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags.

6. gr.
Umsókn um styrk.

    Kjörforeldrar skulu sækja um ættleiðingarstyrk á þar til gerðum eyðublöðum. Sækja skal um styrk innan sex mánaða frá því að erlend ættleiðing er staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi gefið út hér í samræmi við lög um ættleiðingar. Réttur til ættleiðingarstyrks fellur niður að þessum tíma liðnum.
    Ákveða skal með reglugerð sem félagsmálaráðherra setur hvaða gögn skuli fylgja með umsókn um ættleiðingarstyrk.

7. gr.
Fjárhæð styrks.

    Fjárhæð ættleiðingarstyrks nemur 480.000 kr. Fjárhæð styrksins skal endurskoðuð í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á tveggja ára fresti. Félagsmálaráðherra setur í reglugerð ákvæði um endurskoðaða fjárhæð styrksins.
    Ef kjörforeldrar hafa ættleitt fleiri en eitt barn samtímis er veittur styrkur vegna hvers barns umfram eitt sem nemur 20% af fjárhæð skv. 1. mgr.

8. gr.
Leiðrétting á greiðslum.

    Hafi styrkþegi ranglega fengið ættleiðingarstyrk skal hann endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
9. gr.
Reglugerð.

    Félagsmálaráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

10. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.
    Rétt til styrks samkvæmt lögum þessum eiga kjörforeldrar barna sem ættleidd eru eftir gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

I. Almennt.

    Á Alþingi hefur nokkrum sinnum komið til umfjöllunar sá möguleiki að taka upp ættleiðingarstyrki hér á landi. Á 117. löggjafarþingi veturinn 1993–1994 var þeirri fyrirspurn beint til dómsmálaráðherra hvort hann vildi beita sér fyrir styrkveitingum til þeirra foreldra sem ættleiða börn erlendis frá (þskj. 939 – 588. mál). Í svörum dómsmálaráðherra kom fram að ekki hefði verið tekin ákvörðun um slíkar styrkveitingar en hins vegar hefði ráðherra óskað eftir því að aflað yrði upplýsinga frá öðrum norrænum ríkjum um hvernig slíkum styrkjum væri hagað þar og að málið yrði tekið til athugunar að því loknu.
    Sambærilegri fyrirspurn var beint til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um fjárhagsaðstoð vegna ættleiðingar á 120. löggjafarþingi veturinn 1995–1996 (þskj. 18 – 18. mál). Í svari ráðherra kom fram að á öllum Norðurlöndum nema á Íslandi og í Finnlandi væru veittir styrkir úr ríkissjóði vegna ættleiðinga erlendra barna.
    Á 130. löggjafarþingi var lögð fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um styrki til foreldra er ættleiða börn frá útlöndum (þskj. 85 – 85. mál) og var hún svohljóðandi:
              „Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja reglur um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Styrkupphæðir og reglur skulu vera í samræmi við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Íslenskri ættleiðingu skal falið að meta þær umsóknir sem berast og skulu styrkir greiddir eftir að barn er komið til landsins.“
    Í umræðum um þingsályktunartillöguna kom fram sú skoðun dómsmálaráðherra að hann teldi ekki skynsamlegt að beina henni til dómsmálaráðherra. Taldi hann að ef slíkar greiðslur yrðu teknar upp ættu þær að vera hluti af greiðslum almannatrygginga. Tillögunni var vísað til allsherjarnefndar en var ekki afgreidd fyrir þinglok.
    Á 131. löggjafarþingi var að nýju flutt tillaga til þingsályktunar um ættleiðingarstyrki á Alþingi (þskj. 310 – 287. mál) og var hún svohljóðandi:
             „Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að setja reglur um styrki til foreldra sem ættleiða börn frá útlöndum. Styrkupphæðir og reglur taki mið af því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Styrkir verði greiddir eftir komu barns til landsins og verði jafnframt skattfrjálsir. Tryggingastofnun ríkisins hafi milligöngu um greiðslu styrkjanna, eins og um annan kostnað við meðgöngu og fæðingu sé að ræða, og sjái jafnframt um nánari útfærslu á styrkjum þessum.“
    Í greinargerð með tillögunni kom fram að talsverðar breytingar hefðu verið gerðar á henni frá því að fyrst var fjallað um málið á 130. löggjafarþingi. Veigamesta breytingin væri sú að fela Tryggingastofnun ríkisins að sjá um ferðastyrki vegna ættleiðinga erlendra barna en ekki dómsmálaráðuneyti eins og gert hafi verið í fyrri tillögunni. Væri þetta gert í samræmi við umsagnir sem bárust um málið á 130. löggjafarþingi og til samræmis við aðra styrki og kostnað Tryggingastofnunar ríkisins vegna meðgöngu og barnsfæðinga.
    Á 132. löggjafarþingi var tillagan flutt óbreytt að nýju á Alþingi (þskj. 213 – 213. mál). Tillögunni var vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar en var ekki afgreidd fyrir þinglok.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar í febrúar 2006 lagði félagsmálaráðherra fram minnisblað um styrki til verðandi kjörforeldra ættleiddra erlendra barna. Á grundvelli umfjöllunar ríkisstjórnarinnar um málið skipaði félagsmálaráðherra starfshóp til að útfæra í lög og/eða reglugerð reglur um styrki ríkisins til foreldra er ættleiða börn frá öðrum löndum.
    Í starfshópinn voru skipuð Guðmundur Páll Jónsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, formaður starfshópsins, Guðmundur Örvar Bergþórsson og Jóhanna Gunnarsdóttir, fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Ingibjörg Helga Helgadóttir og Elísabet Guðbjörnsdóttir, fulltrúar fjármálaráðuneytis, Karl Steinar Valsson, fulltrúi Íslenskrar ættleiðingar, og Björg Kjartansdóttir, deildarsérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, starfsmaður hópsins.
    Samkvæmt skipunarbréfi starfshópsins, dags. 10. júlí 2006, skyldi hópurinn meðal annars leggja fram tillögu um með hvaða hætti slíkar reglur verði útfærðar og kveða skýrt á um skilyrði slíkra greiðslna. Jafnframt skyldi hópurinn leggja fram tillögu um hvar framkvæmd verkefnisins yrði best fyrir komið. Jafnframt kemur fram í skipunarbréfinu að eitt af því sem til skoðunar gæti komið er hvort rétt sé að sams konar reglur gildi um stjórnsýsluna og gildir nú um fæðingarstyrki samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof.
    Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til félagsmálaráðherra í nóvember 2006 og var í skýrslunni gerð tillaga um tiltekið fyrirkomulag ættleiðingarstyrkja sem frumvarp þetta byggist á.

II. Styrkir á öðrum Norðurlöndum vegna ættleiðingar erlendra barna.

    Starfshópurinn kynnti sér hvernig greiðslum ættleiðingarstyrkja á öðrum Norðurlöndum er háttað. Síðastliðin tíu ár hafa kjörforeldrum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð verið greiddir ættleiðingarstyrkir en árið 2002 hófu Finnar að greiða slíka styrki.
    Tafla 1 sýnir fjárhæð styrkja á öðrum Norðurlöndum í febrúar og í september 2006. Upplýsingar eru fengnar af heimasíðum ættleiðingarfélaga í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og frá Íslenskri ættleiðingu.

Tafla 1. Styrkir til kjörforeldra á öðrum Norðurlöndum samkvæmt gengi íslensku krónunnar í febrúar og september 2006.

Land
Styrkur í
gjaldmiðli lands
Styrkur samkvæmt gengi
í febrúar 2006
Styrkur samkvæmt gengi
í september 2006
Danmörk 40.215 DKR 409.229 ISK 474.537 ISK
Svíþjóð 40.000 SKR 328.280 ISK 376.000 ISK
Finnland 1.900–4.500 evrur 144.421–342.050 ISK 167.580–396.900 ISK
Færeyjar 50.000 DKR 473.930 ISK 590.000 ISK
Noregur 38.320 NKR 363.235 ISK 413.856 ISK

    Eins og sjá má í töflunni eru fjárhæðir styrkja á öðrum Norðurlöndum allt frá um 144.000 krónum til 474.000 króna miðað við gengi krónunnar í febrúar 2006. Gengi íslensku krónunnar tók talsverðum breytingum gagnvart gengi gjaldmiðla þessara landa frá því að fjallað var um málið í ríkisstjórn í febrúar 2006 þar til starfshópurinn fjallaði um það á fundi sínum í september sama ár eins og sjá má í töflunni. Í september 2006 var fjárhæð styrkja á öðrum Norðurlöndum frá rúmlega 167.000 krónum til 590.000 króna.
    Í Noregi er styrkurinn eingreiðsla sem ákveðin er á fjárlögum ár hvert. Styrkurinn nær eingöngu til erlendra barna sem ekki eru búsett í Noregi fyrir ættleiðingu. Styrkurinn nær ekki til ættleiðingar eigin barna, barna maka eða ættleiddra barna maka.
    Í Danmörku er styrkurinn einnig eingreiðsla. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að barnið sé ættleitt fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags. Ákvæði er í dönsku reglunum um að ef fleiri en eitt barn eru ættleidd á sama tíma hækki styrkurinn um tiltekna fjárhæð fyrir hvert barn umfram eitt. Ekki er hægt að fá styrk vegna stjúpættleiðinga.
    Í Finnlandi fer fjárhæð styrks eftir því hvaðan barn er ættleitt. Ef barn er ættleitt frá Eistlandi eru greiddar 1.900 evrur, ef það er ættleitt frá Kína eða Kólumbíu eru greiddar 4.500 evrur og ef það er ættleitt frá öðrum löndum nemur styrkurinn 3.000 evrum. Tekið er fram í reglunum að styrkurinn er skattfrjáls. Ef fleiri en eitt barn eru ættleidd samtímis hækkar fjárhæðin um 30% fyrir hvert barn umfram eitt.
    Í Færeyjum er veittur styrkur vegna ættleiðinga erlendra barna frá öðrum löndum en Norðurlöndum og er styrkurinn eingreiðsla fyrir hvert barn. Tekið er fram í reglunum að styrkurinn sé veittur án tillits til tekna foreldra. Skilyrði er að ættleiðing fari fram með milligöngu löggilts ættleiðingarfélags.
    Í Svíþjóð er styrkurinn eingreiðsla með hverju barni. Ekki er veittur styrkur vegna ættleiðingar eigin barns eða barns maka. Það er skilyrði að ættleiðing fari fram fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags.
    Á öllum Norðurlöndunum eru sett skilyrði um að foreldrar séu búsettir í viðkomandi landi. Greiðsla styrksins fer fram eftir að barnið er komið til landsins og ættleiðing hefur verið fullgilt af yfirvöldum heimalands foreldra.

III. Fjöldi ættleiddra erlendra barna á Íslandi.

    Árin 1996–2004 voru frumættleidd 180 erlend börn eða að meðaltali um 20 börn árlega samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Fram til ársins 2001 voru börnin flest frá Indlandi en frá og með árinu 2002 voru þau flest frá Kína.
    Leitað var eftir upplýsingum frá félaginu Íslenskri ættleiðingu, sem er eina félagið sem hefur verið löggilt af dómsmálaráðherra til að annast milligöngu um ættleiðingar á erlendum börnum, um fjölda ættleiðinga er félagið hefur haft milligöngu um á síðastliðnum árum. Árlega hafa að jafnaði verið ættleidd 20–35 börn af erlendum uppruna. Flest börn hafa komið frá Indlandi, Kína, Rúmeníu og Kólumbíu. Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu hafa hérlendis verið ættleidd um 500 börn sem fædd eru erlendis. Tafla 2 sýnir fjölda barna er ættleidd hafa verið undanfarin ár fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar.

Tafla 2. Fjöldi ættleiddra barna samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu (ÍÆ) og Hagstofunni.
Ár ÍÆ Hagstofa
2000 24 22
2001 17 29
2002 19 20
2003 30 27
2004 28 27
2005 35 -
Samtals 153 125
Meðaltal 25,5 25

    Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar er meðalfjöldi ættleiddra barna erlendis um 25 börn á ári miðað við árin 2000–2005. Sömu ár hefur Íslensk ættleiðing haft milligöngu um u.þ.b. 25 börn á ári. Munur á árlegum fjölda ættleiðinga hjá Íslenskri ættleiðingu annars vegar og Hagstofunni hins vegar getur skýrst af því að félagið miðar við þann dag er barn kemur til landsins en Hagstofan byggir tölur sínar á upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu er miðar við staðfestingu eða útgáfu ættleiðingarleyfis hér á landi er getur verið gefið út einum til þremur mánuðum eftir heimkomu barns. Nefndi félagið dæmi um fimm börn er ættleidd voru í Kína um miðjan desember 2004 og í tölum félagsins voru þessi börn ættleidd á því ári. Staðfesting dómsmálaráðuneytis á ættleiðingu þeirra var gefin út í janúar 2005 og í tölum Hagstofunnar teljast þessi börn því ættleidd á árinu 2005. Tekið er fram að í staðfestingu ráðuneytisins vegna kínverskra ættleiðinga kemur fram að réttaráhrif ættleiðingarinnar miðist við þann dag er ættleiðingin fór fram í Kína, jafnvel þótt staðfesting ráðuneytisins sé gefin út nokkru síðar, eða eftir heimkomu barns.
    Starfshópurinn óskaði einnig eftir upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu um hugsanlegan fjölda ættleiddra barna fyrir milligöngu félagsins á næstu árum.
    Íslensk ættleiðing áætlar að miðað við forsendur dagsins í dag þegar biðtíminn í Kína er u.þ.b. 14 mánuðir megi búast við að á næsta ári komi um 35 börn frá Kína, um fimm börn frá Indlandi og tvö börn frá Kólumbíu. Þá hafa aðstæður í Kína breyst töluvert á undanförnum árum og nú taki lengri tíma að afgreiða umsóknir um ættleiðingar þar í landi. Ástæður eru nefndar helstar fjölgun umsókna á undanförnum árum og batnandi efnahagsástand þar í landi.
    Eins og áður segir má gera ráð fyrir að hingað til lands komi um 42 börn árið 2007 ef biðtíminn verður óbreyttur í Kína. Hins vegar er það mat Íslenskrar ættleiðingar að ef málsmeðferðartíminn í Kína lengist megi búast við færri börnum frá Kína en fjöldi barna frá öðrum löndum haldist óbreyttur. Hjá stjórnvöldum í Kína bíða nú 60 íslenskar umsóknir afgreiðslu og 13 bíða lokafrágangs hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í þessari grein er sett fram það nýmæli að kjörforeldrar sem ættleitt hafa erlent barn eða börn í samræmi við lög um ættleiðingar geti sótt um fjárstyrk úr ríkissjóði.

Um 2. gr.

    Í greininni er lagt til að félagsmálaráðherra fari með yfirstjórn ættleiðingarstyrkja samkvæmt lögum þessum. Er það í samræmi við það sjónarmið að tengja þessa styrki við umsýslu fæðingarstyrks sem greiddur er samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Um 3. gr.

    Lagt er til í 1. mgr. að félagsmálaráðherra ákveði með reglugerð hvaða aðila hann felur framkvæmd laga þessara. Með vísan til athugasemda við 2. gr. er nú gert ráð fyrir að framkvæmdaraðilinn verði Vinnumálastofnun. Ein meginástæða þess er það hagræði sem hlýst af því að hafa greiðslu styrksins hjá sama aðila og hefur umsjón með greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Getur greiðsla styrksins þannig til dæmis orðið eingreiðsla með fyrstu greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Um 4. gr.

    Í samræmi við 2. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvörðun um synjun ættleiðingarstyrks og leiðréttingu á greiðslum skv. 8. gr. verði heimilt að kæra til félagsmálaráðherra. Um kæru gilda að öðru leyti ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ekki er talin þörf á að sett verði á stofn sérstök kærunefnd um þessi mál enda má ætla að ágreiningsmál vegna ættleiðingarstyrkja verði fá, ekki síst vegna þess að lagt er til að styrkveiting verði óháð fjárhagslegri stöðu kjörforeldra.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að ættleiðingarstyrkur sé eingreiðsla sem greidd verði út samkvæmt umsókn kjörforeldra þegar erlend ættleiðing hefur verið staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi hefur verið gefið út hér í samræmi við ákvæði laga um ættleiðingar.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að kjörforeldrar sem hafa fengið útgefið forsamþykki í samræmi við lög um ættleiðingar, nr. 130/1999, eigi einir rétt á ættleiðingarstyrk. Þeim sem búsettir eru hér á landi er óheimilt að ættleiða barn erlendis nema stjórnvöld samþykki það með útgáfu forsamþykkis til ættleiðingarinnar og er því eðlilegt að miða rétt til styrksins við þá sem fá slíkt forsamþykki. Er jafnframt ástæða til að taka fram að þessi réttur sé ekki framseljanlegur ef ættleiðing af einhverjum ástæðum gengur ekki eftir.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ættleiðingarstyrkur verði aðeins veittur vegna ættleiðinga sem fara fram fyrir milligöngu löggilts ættleiðingarfélags. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar um ættleiðingar, nr. 238/2005, sem sett er með stoð í 2. mgr. 35. gr. laga um ættleiðingar, er þeim sem óska eftir forsamþykki til að ættleiða erlent barn skylt að leita milligöngu um ættleiðinguna hjá félagi sem fengið hefur löggildingu dómsmálaráðherra til að annast milligöngu um ættleiðingar milli landa. Þótt undantekningar finnist frá þeirri meginreglu í 19. gr. reglugerðarinnar þykir rétt að binda greiðslu styrksins við ættleiðingar sem fara fram fyrir milligöngu löggiltra ættleiðingarfélaga. Milliganga ættleiðingarfélags tryggir að ættleiðingin fari fram í samvinnu við hið erlenda ríki sem er grundvallaratriði þegar kemur að ættleiðingum milli landa. Af þessu skilyrði leiðir að svokallaðar fjölskylduættleiðingar falla utan reglnanna, en með því er átt við ættleiðingu á barni sem býr í öðru ríki en er í fjölskyldutengslum við eða er barn annars umsækjanda. Enn fremur falla utan gildissviðs reglnanna þau tilvik þegar umsækjendur fá forsamþykki til að ættleiða ótilgreint erlent barn án milligöngu löggilts ættleiðingarfélags, en slíkar ættleiðingar eru afar fátíðar enda mjög ströng skilyrði fyrir þeim.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 7. gr.

    Starfshópurinn sem samdi þær tillögur sem frumvarp þetta byggist á óskaði eftir sundurliðuðum upplýsingum frá Íslenskri ættleiðingu um heildarkostnað við að ættleiða erlend börn. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu nemur heildarkostnaður við að ættleiða barn frá Kína um 1,2 millj. kr., frá Indlandi um 1,1 millj. kr. og frá Kólumbíu um 1,4 millj. kr.
    Lagt er til í 1. mgr. að fjárhæð ættleiðingarstyrks nemi 480.000 kr. og er gert ráð fyrir að fjárhæð styrksins verði endurskoðuð í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á tveggja ára fresti. Við slíka endurskoðun er meðal annars unnt að líta til gagna um ferðakostnað og kostnað vegna ættleiðingar í ættleiðingarlandi frá félagi er dómsmálaráðherra hefur löggilt til að hafa milligöngu um ættleiðingar barna erlendis. Í dag er Íslensk ættleiðing eina félagið hér á landi er fengið hefur slíka löggildingu. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra setji í reglugerð, sbr. 9. gr., ákvæði um endurskoðaða fjárhæð styrksins.
    Forsendur við ákvörðun fjárhæðarinnar voru þær að ætlunin væri að veita styrk sem kæmi til móts við heildarkostnað kjörforeldra vegna ættleiðinga en ekki að greiða þann kostnað að fullu. Við ákvörðun fjárhæðarinnar var í fyrsta lagi litið til ferðakostnaðar frá Íslandi til ættleiðingarlands. Í öðru lagi var litið til kostnaðar vegna ættleiðingarinnar í viðkomandi landi eða kostnaðar vegna opinberrar umsýslu í ættleiðingarlandi, auk kostnaðar vegna greiðslu til barnaheimilis erlendis, stimpilgjalda vegna ættleiðingar, þýðingar erlendis og útgáfu vegabréfs barns erlendis. Að lokum var í þriðja lagi litið til kostnaðar vegna uppihalds í ættleiðingarlandi.
    Dæmi eru um að kjörforeldrar ættleiði erlendis fleiri en eitt barn samtímis. Er í 2. mgr. 7. gr. gert ráð fyrir að ef kjörforeldrar hafa ættleitt fleiri en eitt barn samtímis verði veittur styrkur vegna hvers barns umfram eitt sem nemur 20% af fjárhæð skv. 1. mgr. Við undirbúning frumvarps þessa var gengið út frá því að megintilgangur ættleiðingarstyrks væri að mæta kostnaði kjörforeldra vegna ferða og greiðslna til erlendra stjórnvalda auk uppihalds í ættleiðingarlandi. Gera megi ráð fyrir að slíkar greiðslur geti hækkað ef foreldrar ættleiða fleiri en eitt barn og því þykir rétt að fjárhæð styrksins taki mið af því.
    Ástæða er til að taka fram að gert er ráð fyrir að ættleiðingarstyrkir verði veittir kjörforeldrum án tillits til fjárhagsstöðu þeirra. Mun það meðal annars einfalda til muna alla umsýslu vegna umsókna um slíka styrki sem hefur í för með sér að kostnaður vegna umsýslunnar verður lítill og líkur á ágreinings- og kærumálum eru hverfandi.
    Í starfshópnum sem samdi tillögur þær sem frumvarp þetta byggist á var einnig fjallað um skattaumhverfi ættleiðingarstyrks. Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til starfshópsins vegna ættleiðingarstyrkja, dags. 3. október 2006, er fallist á þá tillögu að styrkirnir verði undanþegnir staðgreiðslu en tekið fram að slíkt kalli á breytingu á reglugerð um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, nr. 591/1987. Þá er fallist á að breyta þurfi A-lið 30. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, þannig að leyfður verði frádráttur frá tekjum sem byggist á sannanlegum kostnaði sem fólk þarf að standa undir við ættleiðingu barns. Skilyrði fyrir frádrættinum er að fullnægjandi reikningar liggi þar að baki. Aldrei verður leyfð hærri fjárhæð til frádráttar en talin verður til tekna sem ættleiðingarstyrkur. Ef fjárhæð frádráttar verður lægri en styrkurinn ber að greiða tekjuskatt af mismuninum.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.

    Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Má um þau atriði sem koma þurfa fram í reglugerðinni meðal annars vísa til athugasemda við 3., 6. og 7. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.

    Í greininni er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2007. Rétt til styrks samkvæmt lögunum eigi kjörforeldrar barna sem ættleidd verða eftir gildistöku laganna. Við undirbúning frumvarps þessa var rætt um það hvort aðeins ætti að greiða ættleiðingarstyrki vegna þeirra ættleiðingarmála er hefjast eftir gildistöku laga um ættleiðingarstyrki. Þótti það ekki æskilegt viðmiðunarmark enda gæti þá orðið langur tími þar til að útgreiðslu styrkja kæmi. Var því niðurstaðan sú að leggja til að miða við börn sem ættleidd væru eftir gildistöku laganna.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um ættleiðingarstyrki.

    Með frumvarpinu er lagt til að greiddur verði fjárstyrkur úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni til kjörforeldra sem ættleiða erlent barn eða börn í samræmi við lög um ættleiðingar. Er gert ráð fyrir að fjárhæð ættleiðingarstyrks nemi 480.000 kr. og verður fjárhæðin endurskoðuð í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á tveggja ára fresti. Ef kjörforeldrar ættleiða fleiri en eitt barn samtímis er veittur 20% styrkur vegna hvers barns umfram eitt. Undanfarinn áratug hafa um 25 erlend börn verið ættleidd hér á landi á ári og miðað við þann fjölda og framangreinda fjárhæð yrðu útgjöld ríkisins um 12 m.kr. á ári. Kostnaður ríkissjóðs af 40 ættleiðingarstyrkjum næmi tæpum 20 m.kr.