Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 431. máls.

Þskj. 519  —  431. mál.Frumvarp til laga

um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands skulu sameinast undir einu nafni, Háskóli Íslands.

2. gr.

    Nemendur, sem við gildistöku laga þessara eru í námi við Kennaraháskóla Íslands, eiga rétt á að ljúka því námi við sameinaðan háskóla, Háskóla Íslands, samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við gildistöku laga þessara, miðað við gildandi reglur um námsframvindu.

3. gr.

    Við gildistöku laga þessara tekur sameinaður háskóli, Háskóli Íslands, sbr. 1. gr., við eignum og skuldbindingum Kennaraháskóla Íslands. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir á fjárlögum fyrir árið 2008 fyrir Kennaraháskóla Íslands.
    Við gildistöku laga þessara flytjast störf ótímabundið ráðinna kennara, sem uppfylla skilyrði 18. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, og annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna Kennaraháskóla Íslands, yfir til hins sameinaða háskóla, Háskóla Íslands.
    Um flutning starfa skv. 2. mgr. fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.
    Við gildistöku laga þessara verður embætti rektors Kennaraháskóla Íslands lagt niður.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 137/1997, um Kennaraháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Á undanförnum árum hefur samstarf eða sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands verið til skoðunar. Á árinu 2002 unnu skólarnir sameiginlega athugun á nánara samstarfi eða sameiningu sem síðan var lögð til grundvallar í starfi nefndar sem menntamálaráðherra skipaði í upphafi árs 2006 til að skoða fýsileika sameiningar skólanna. Í nefndinni áttu sæti frá Kennaraháskóla Íslands þeir Ólafur Proppé rektor, Guðmundur Ragnarsson framkvæmdastjóri og Börkur Hansen prófessor og frá Háskóla Íslands þau Kristín Ingólfsdóttir rektor, Þórður Kristinsson framkvæmdastjóri og Ólafur Þ. Harðarson prófessor. Formaður nefndarinnar var Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri. Skilagrein nefndarinnar frá því í apríl 2006 var svohljóðandi:

Nefnd um fýsileika sameiningar
    Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands

    Skilagrein


    Inngangur

    
Umræða hefur farið fram undanfarin misseri um skipulag háskólastigsins og hvaða leiðir eru færar til að einfalda það og styrkja. Þessi umræða er þörf og gagnleg, ekki síst í ljósi metnaðarfullra hugmynda um framtíðarstöðu íslensks menntakerfis og með hliðsjón af fjölgun stofnana á háskólastigi og stóraukinni eftirspurn eftir háskólanámi. Um alllangt skeið hefur jafnframt verið rætt um mögulega sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Árið 2002 stóðu skólarnir saman að athugun á nánara samstarfi eða sameiningu, sem renndi frekari stoðum undir hugmyndir þar um. Um almenn atriði byggir skilagrein þessi á efnislegri umfjöllun í þeirri skýrslu.

    Í skilagrein þessari eru, í fyrsta lagi, tilgreind æskileg meginmarkmið fyrir sameiningu HÍ og KHÍ. Í öðru lagi eru tilgreind þau markmið önnur sem nefndin telur að stefna beri að við sameiningu háskólanna, verði ákvörðun um hana tekin. Í þriðja lagi eru reifuð þau viðfangsefni sem nefndin telur að sérstaklega þurfi að huga að ef hrinda eigi sameiningu í framkvæmd. Í fjórða lagi setur nefndin fram niðurstöður sínar, og forsendur og fyrirvara sem að þeim lúta. Að endingu setur nefndin fram almennar ábendingar um hvernig standa mætti að sameiningarferlinu.

     1.  Meginmarkmið

    
Við teljum að meginmarkmið með sameiningu háskólanna tveggja séu eftirfarandi:

    1.1.     Að stuðla að eflingu háskólamenntunar á Íslandi með sameiningu háskólastofnana sem verða með því sterkari heild sem byggir á sérstöðu og sérhæfingu þeirra beggja.

    1.2.     Að tryggja fjölbreyttara og sveigjanlegra námsframboð í grunn- og framhaldsnámi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum og annarra uppeldisstétta.

    1.3.     Að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt kennaranámi.

    1.4.     Að styrkja kennslu og rannsóknir í uppeldis- og menntunarfræðum og skapa forsendur fyrir samþættingu slíkra rannsókna við aðrar rannsóknir sem stundaðar eru í sameinuðum háskóla.

    1.5.     Að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk.

    1.6.     Að skapa forsendur fyrir því að sameinuð stofnun veiti menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða sem og annarra tengdra greina á Íslandi sem sé sambærileg við það sem best gerist í okkar nágrannalöndum.

     2.  Kostir og tækifæri

    
Við teljum að sameining skólanna skapi kosti og tækifæri sem mikilvægt er að nýta. Þau lúta að eftirtöldum atriðum:

    2.1.     Fjölbreytni í námi og rannsóknum, aukinn sveigjanleiki. Sameining háskólanna getur haft í för með sér aukna fræðilega breidd sem gefur færi á fleiri námsleiðum. Sameinaður háskóli verður þannig betur í stakk búinn til að auka fjölbreytni kennaramenntunar og ýmissa annarra tengdra greina. Á þann hátt má gera fyrirkomulag menntunar sveigjanlegra um leið og gefinn er kostur á aukinni sérhæfingu.

    2.2.     Samfella í kennaramenntun á öllum skólastigum. Sameinaður háskóli mun hafa með höndum starfsmenntun kennara á öllum skólastigum. Það gefur tækifæri til þess að auka samþættingu og samfellu skólastiga strax á námstíma kennara.

    2.3.     Efling framhaldsnáms á meistara- og doktorsstigi. Sameinaður háskóli fær tækifæri til að samnýta stoðkerfin sem byggð hafa verið upp í meistara- og doktorsnámi, sem ásamt aukinni fræðilegri breidd mun leiða af sér eflingu framhaldsnáms.

    2.4.     Hagkvæmni í stjórnsýslu. Með sameiningu má hugsanlega ná fram aukinni hagkvæmni í stjórnsýslu og stoðþjónustu. Stefna ber að því að svo verði, þannig að nýta megi þá fjármuni sem renna til sameinaðs háskóla með þeim hætti sem samrýmist hlutverki hans og markmiðum.

    2.5.     Sterkari heild. Til verður öflugur háskóli sem hefur á að skipa hæfustu kennurum og fræðimönnum á sviði uppeldis- og menntunarfræða í víðri merkingu og þeirra faggreina sem kenndar eru í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins.

    2.6.     Bættir kennsluhættir og efling símenntunar. Sameining háskólanna skapar tækifæri til að bæta kennsluhætti og þróa sveigjanleg námsform, svo sem dreifnám og fjarkennslu. Einnig er líklegt að sameining háskólanna efli sí- og endurmenntun.

    2.7.     Sterkari staða á alþjóðavettvangi. Sameinaður háskóli hefur færi á að ná betri árangri í alþjóðlegu samstarfi.

     3.  Viðfangsefni

    
Verði ákvörðun tekin um sameiningu skólanna þarf að fylgja þeirri ákvörðun eftir með tímasettri aðgerðaráætlun og samningum.

    3.1.     Það er forsenda þess að sameining heppnist vel að allir hlutaðeigandi leggist á eitt. Mikilvægt er að virkja starfsfólk undir forystu háskólaráða og rektora beggja skóla.

    3.2.     Sameiginleg framtíðarsýn háskólanna er nauðsynleg. Í henni þarf að felast að skólarnir deili sýn um markmið sameiningar og þann ávinning sem hún færir.

    3.3.     Ljóst þarf að vera með hvaða hætti sá styrkur sem skólarnir nú ráða yfir í sitt hvoru lagi, verði tryggður og áfram nýttur til framdráttar sameinuðum skóla. Sameiningin verði notuð til að yfirvinna veikleika þeirra þannig að nýr háskóli verði enn öflugri en háskólarnir eru nú.

    3.4.     Leggja þarf áherslu á að byggja upp traust til nýja háskólans sem stuðlar að sameiginlegri stofnanamenningu og góðum starfsanda.

    3.5.     Tryggja þarf að stjórnskipulag sameinaðs háskóla og fjármögnun kennslu og rannsókna á sviði uppeldis-, menntunar- og kennarafræða styrki fræðasviðið frá því sem nú er. Mikilvægt er að fjárveitingar til kennslu í uppeldis-, menntunar- og kennarafræðum skerðist ekki við sameiningu háskólanna. Gæta þarf að kostun innan þeirra greina þar sem skörun verður milli kennaramenntunar og annarrar menntunar háskólans. Jafnframt er mikilvægt að fjárveitingar til rannsókna verði sambærilegar á öllum fræðasviðum hins nýja háskóla.

    3.6.     Tryggja þarf frá upphafi sameiningarferlisins að allir starfsmenn beggja háskólanna fái áfram sambærileg störf og sambærileg kjör í nýjum háskóla. Sambærilegar reglur hafa gilt um ráðningar og hæfnismat í báðum háskólunum.

    3.7.     Skoða þarf sérstaklega kjaramál starfsmanna háskólanna og stéttarfélagsmál. Einnig þarf að samræma réttindi og skyldur starfsfólks í nýjum sameinuðum háskóla, s.s. aðgang að sjóðum, rannsóknamisseri, ráðningu og framgang, matskerfi vegna rannsókna og kennslu, vinnumat vegna stjórnunar o.fl.

    3.8.     Við samnýtingu og samþættingu námskeiða og námsleiða þarf að huga sérstaklega að námskröfum og inntaki náms í báðum háskólum. Mikilvægt er að virkja kennara ólíkra deilda við HÍ og kennara við KHÍ til samstarfs og samþættingar í þágu kennaramenntunar.

    3.9.     Skoða þarf sérstaklega húsnæðismál í tengslum við hugsanlega sameiningu háskólanna. Athuga þarf hvort skynsamlegt væri t.d. að byggja yfir þá starfsemi sem nú er í KHÍ á háskólavæði HÍ og nýta aðstöðu KHÍ á Rauðarárholti fyrir aðra starfsemi. Eðlilegt er að þessi mál komi til skoðunar í samvinnu stjórnvalda og háskólaráðs sameinaðs skóla.

    3.10.     Stúdentar og samtök þeirra þurfa að vera virkir þátttakendur í sameiningarferlinu. Í tengslum við sameiningu háskólanna þarf jafnframt að huga að stöðu og eignum samtaka þeirra.

    3.11.     Ljóst er að sameining háskólanna er umfangsmikið verkefni sem hefur í för með sér kostnað sem tryggja þarf fjárveitingu til.

     4.  Niðurstaða

    
Á grundvelli þess sem dregið er fram hér að ofan er það mat okkar að sameining KHÍ og HÍ sé æskileg. Sú niðurstaða er háð því að samstaða náist milli skólanna um markmið sameiningarinnar, sem eru tíunduð að framan og enn nánar í skýrslunni frá 2002. Verði það niðurstaðan að stefna beri að sameiningu skólanna, og fallist Alþingi á það, er ljóst að stjórnvöld og þó einkanlega skólarnir sjálfir eiga vandasamt verkefni fyrir höndum, sem krefst vandaðs undirbúnings.

    Sameiningin gefur möguleika á að endurskipuleggja allt nám í uppeldis- og menntunarfræðum, þ.m.t. starfsnám kennara. Jafnframt veitir hún tækifæri fyrir einstakar deildir HÍ til að efla ýmis fræðasvið sín með því að taka virkari þátt í menntun kennara og annarra uppeldis- og umönnunarstétta. Samlegðaráhrif verða í rannsóknum í uppeldis- og menntunarfræðum og skyldum fræðasviðum. Til að ná þessum markmiðum er talið farsælast að reka almennan deildaskiptan háskóla fremur en að hafa einn sérhæfðan kennaraháskóla. Það er álit nefndarinnar að sameining skólanna gæti, ef vel er að verki staðið, orðið til þess að til yrði öflug háskólastofnun sem hefði alla burði til að standast alþjóðlegan samanburð í kennslu og rannsóknum í þágu íslensks samfélags.

    Tillaga um sameiningu HÍ og KHÍ er háð þeim fyrirvara, að námi, kennslu og rannsóknum í kennslu og uppeldisfræði verði þannig fyrir komið innan sameinaðs skóla, að markmið um bætta kennaramenntun og rannsóknir geti náðst fram. Nefndin telur að í þessu sambandi skipti sköpum hver niðurstaða verði af stefnumótun þeirri sem nú fer fram innan HÍ. Álitlegur möguleiki er, að mati nefndarinnar, að nýr háskóli samanstandi af nokkrum megineiningum sem hafi áþekk hlutverk og stöðu innan háskólans. Kennslu- og uppeldisfræði yrði ein slíkra megineininga. Lögum samkvæmt ákveður háskólaráð HÍ deildaskipan skólans, það leggur niður og stofnar deildir.

    Eftir að framangreind fýsileikaskýrsla lá fyrir lýstu háskólaráð beggja háskólanna vilja sínum til þess að haldið yrði áfram með málið á grundvelli niðurstaðna skýrslunnar. Jafnframt bárust menntamálaráðuneytinu umsagnir og ályktanir Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands og Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands sem almennt voru jákvæðar gagnvart hugmyndum um sameiningu, en einnig voru ítrekaðar þær forsendur og fyrirvarar sem fram komu í fýsileikaskýrslunni.
    Í ágúst 2006 skipaði menntamálaráðherra starfshóp til að vinna frekar að undirbúningi sameiningarinnar og skilaði hún skýrslu í nóvembermánuði sem hefur að geyma sameiningaráætlun sem ætlað er að vinna eftir, fáist samþykki Alþingis fyrir sameiningunni með frumvarpi þessu. Í starfshópnum áttu sæti Börkur Hansen frá Kennaraháskóla Íslands, Rögnvaldur Ólafsson frá Háskóla Íslands og Eiríkur Hilmarsson fulltrúi menntamálaráðuneytis og var hann jafnframt formaður.
    Sú sameiningaráætlun sem unnin hefur verið og er að finna í fylgiskjali I með frumvarpi þessu geymir forskrift af því hvernig sameiningu þessara tveggja mikilvægu menntastofnana er ætlað að ganga eftir. Þar kemur fram að unnið er að gerð frumvarps um ríkisháskóla sem miðað er við að lagt verði fram á haustþingi 2007 og ætlað er að leysa af hólmi núgildandi sérlög um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Miðað er við að frumvarpið geymi heimild fyrir ríkisháskóla til skiptingar skóla í sérstaka fagskóla á borð við hugvísindaskóla og menntavísindaskóla. Þær hugmyndir eru nú til umfjöllunar í háskólaráði Háskóla Íslands, en auk þess er gengið út frá formlegri aðkomu Kennaraháskóla Íslands að frekari mótun hugmynda um skiptingu sameinaðs háskóla í skóla og stjórnskipulag hans. Það sama á við um aðkomu forystu Kennaraháskóla Íslands að námskipan kennaramenntunar í hinum sameinaða háskóla.
    Í samræmi við framangreint hefur verið lögð rík áhersla á eftirfarandi forsendur sameiningar:
     1.      Náið samstarf og jafnræði sé milli háskólanna við undirbúning sameiningar og mótun hugmynda um fyrirkomulag uppeldisvísinda í sameinuðum skóla.
     2.      Starfsmenn beggja skóla haldi sambærilegum starfskjörum.
     3.      Nemendur sem eru í námi við Kennaraháskóla Íslands eigi rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við sameiningu háskólanna.

    Í samræmi við framangreint er við það miðað að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands hefji sem fyrst sameiginlega undirbúning að sameiningarferlinu og er frumvarp þetta lagt fram sem grundvallarforsenda hinnar fyrirhuguðu sameiningar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Samkvæmt greininni skulu Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinast í einn skóla, Háskóla Íslands, á grundvelli þeirrar sameiningaráætlunar sem um er getið í almennum athugasemdum og er að finna í fylgiskjali I með frumvarpi þessu.

Um 2. gr.

    Samkvæmt greininni eiga nemendur, sem við gildistöku frumvarpsins, verði það að lögum, eru í námi við Kennaraháskóla Íslands, rétt á að ljúka því námi við sameinaðan háskóla, Háskóla Íslands, samkvæmt því námsskipulagi sem er í gildi nú, miðað við gildandi reglur um námsframvindu. Með því er tryggt að nemendur Kennaraháskóla Íslands eiga rétt á því að ljúka núverandi námi sínu við skólann samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er og á sömu forsendum. Þá er áréttað að réttur þessi sé bundinn við gildandi reglur um námsframvindu. Einungis er við það miðað að þessi réttur nái til náms við hinn nýja háskóla sem verður til við sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

Um 3. gr.

    Samkvæmt greininni tekur sameinaður háskóli, Háskóli Íslands, sbr. 1. gr., við eignum og skuldbindingum Kennaraháskóla Íslands frá gildistökudegi frumvarps þessa hinn 1. júlí 2008, verði það að lögum. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir á fjárlögum fyrir árið 2008 fyrir Kennaraháskóla Íslands.
    Frá sama tíma flytjast störf ótímabundið ráðinna kennara, sem uppfylla skilyrði 18. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, og annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna Kennaraháskóla Íslands, yfir til hins sameinaða háskóla, Háskóla Íslands. Með kennurum er átt við ótímabundið ráðna prófessora, dósenta og lektora við Kennaraháskóla Íslands sem hlotið hafa hæfnisdóm við ráðningu hjá Kennaraháskóla Íslands í samræmi við skilyrði háskólalaga um menntun og árangur í starfi.
    Störf annarra ótímbundið ráðinna starfsmanna flytjast jafnframt yfir til hins sameinaða háskóla, hvort sem þeir sinna kennslustörfum sem aðjunktar eða sérfræðingar, eða tilheyra stjórnsýslu skólans eða sinna öðrum störfum á vegum hans.
    Sérstaklega er áréttað í 3. mgr. að um flutning allra framangreindra starfa fari að öðru leyti eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Þannig er á því byggt að við flutninginn haldi þessir starfsmenn öllum áunnum réttindum  sínum, svo sem biðlaunarétti, lífeyrisrétti og veikindarétti.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er síðan við það miðað að við gildistöku laganna verði embætti rektors Kennaraháskóla Íslands lagt niður. Um niðurlagningu embættisins gilda framangreind lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríksins.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal I.


Áætlun um sameiningu
Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands:
Skýrsla starfshóps skipuðum af menntamálaráðherra 17. ágúst 2006.

(Reykjavík, 8. nóvember 2006.)


1  Inngangur

Með bréfi 17. ágúst 2006 skipaði menntamálaráðherra starfshóp til að vinna að undirbúningi að sameiningu Kennaraháskóla Íslands (KHÍ) og Háskóla Íslands (HÍ). Í hópnum voru Börkur Hansen prófessor við Kennaraháskóla Íslands, Rögnvaldur Ólafsson dósent við Háskóla Íslands og Eiríkur Hilmarsson aðstoðarhagstofustjóri sem var fulltrúi menntamálaráðuneytis og jafnframt formaður. Með hópnum störfuðu Margrét Harðardóttir og María Gunnlaugsdóttir starfsmenn menntamálaráðuneytis.

Starfshópurinn hélt tólf formlega fundi auk þess sem haldinn var fundur 11. október með ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytis, rektor Kennaraháskóla Íslands og rektor Háskóla Íslands. Starfshópurinn naut góðrar aðstoðar starfsmanna beggja háskóla við öflun upplýsinga. Þá voru skrif starfshópsins og tillögur bornar undir fulltrúa skólanna.

Verkefni starfshópsins var að útfæra atriði sem fjallað er um í skilagrein nefndar um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands dagsett 7. apríl 2006 og leggja fram tímasetta aðgerðaáætlun fyrir sameiningu skólanna. Jafnframt átti starfshópurinn skv. erindisbréfi að huga að athugasemdum frá háskólaráðum beggja skólanna frá júní 2006 um sameiningu þeirra.

Í erindisbréfi hópsins segir að í tímasettri aðgerðaráætlun sem hópurinn leggur fram skuli fjalla sérstaklega um eftirtalda þætti: Framtíðarsýn, stjórnskipulag, námsskipan, starfsfólk og réttindi, rekstrar- og húsnæðismál, stoðþjónustu, nemendur, kostnað og tímaáætlun.

Starfshópurinn ræddi í upphafi hvernig afmarka skyldi verkefnið. Í erindisbréfi kemur fram að starfshópnum er ætlað að vinna hratt og vænst sé að niðurstaða hópsins verði afhent menntamálaráðherra í lok október 2006. Í ljósi þessa ákvað hópurinn að leggja höfuðáherslu á eftirtalin atriði í sinni vinnu:
     *      Að kaflaskipting skýrslunnar vísi til þeirra höfuðatriða sem tilgreind eru í erindisbréfi, en auk þess ákvað starfshópurinn að bæta við einum kafla um úttekt á sameiningarferlinu.
     *      Að leggja megináherslu á að skilgreina hvaða verk þurfi að vinna í sameiningarferlinu, tilgreina hverjir beri ábyrgð á hverjum verkþætti, tilgreina tímaramma og afrakstur. Í upphafi hvers kafla er lýsinga á núverandi stöðu mála.

Starfshópurinn var sammála um að það væri ekki hlutverk hans að ræða í smáatriðum um hvern lið heldur leggja fram áætlun um í hvaða farveg umfjöllun og ákvarðanir um helstu málefnið færu.

Starfshópurinn gekk út frá eftirtölum forsendum í sinni vinnu:
     *      Að frumvarp um sameiningu skólanna verði lagt fram á Alþingi í nóvember 2006 sem er í samræmi við erindisbréf og samkomulag 11. október 2006 milli menntamálaráðuneytisins og rektora háskólanna. Tímaáætlun skýrslunnar miðast við að frumvarpið verði samþykkt á vorþingi 2007. Þá hefjist sameiningarferlið og 1. júlí 2008 verði formlegum samruna lokið og til verði sameinaður háskóli.
     *      Að sem mest jafnræði verði milli háskólanna við mótun hugmynda um stjórnskipulag sameinaðs háskóla.
     *      Að starfsmenn beggja skóla haldi sambærilegum störfum og lækki ekki í launum við sameininguna.
     *      Að nemendur sem eru í námi við Kennaraháskóla Íslands eigi rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er við sameiningu háskólanna.

2  Framtíðarsýn

2.1    Sameiginleg framtíðarsýn er forsenda farsællar sameiningar háskólanna tveggja. Háskólaráð H.Í. staðfesti 11. maí 2006 stefnu Háskóla Íslands 2006–2011 eftir ítarlega umfjöllun í deildum, stjórnsýslu, á háskólafundi og í háskólaráði. Þar kemur fram skýr yfirlýsing um hvert Háskóli Íslands stefnir, fyrir hvað hann stendur og hver eru grunngildi skólans. Mörkuð var stefna um að skólinn verði í fremstu röð og að unnið verði að því að skólinn skipi sér á bekk með 100 bestu háskólum heims. Stefna einstakra deilda háskólans byggir á heildarstefnunni og er nánari útfærsla á hinum fjölmörgu fræðasviðum.

2.2    Stefna Kennaraháskóla Íslands 2005–2010 var samþykkt í háskólaráði 21. desember 2004. Samkvæmt gildandi lögum um Kennaraháskóla Íslands er skólinn vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun og miðstöð kennara- og uppeldismenntunar á Íslandi. Í stefnuyfirlýsingu skólans kemur fram að á næstu árum hyggst Kennaraháskólinn ráðast í breytingar á skipulagi náms, bæði grunn- og framhaldsnáms, í þeim tilgangi að auka gæði þess og bregðast við breyttum samfélagsaðstæðum. Í samræmi við þessa stefnu og eftir ítarlega umfjöllun í háskólaráði og innan skólans hefur háskólaráð Kennaraháskóla Íslands samþykkt nýtt skipulag náms sem tekur gildi haustið 2007.

2.3    Í undirbúningi að sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands þarf, undir forystu rektora og háskólaráða beggja skóla, að samþætta sameiginlega framtíðarsýn fyrir nýjan skóla. Gera má ráð fyrir að byggt verði á stefnumörkun beggja skóla enda er mikill samhljómur í stefnum þeirra.

2.4    Ætla má að sú stefnumótunarvinna sem Háskóli Íslands hefur nýlega gengið í gegnum verði kjarninn í stefnu nýs háskóla. Jafnframt má búast við því að stefna Kennaraháskóla Íslands 2005–2010 muni verða kjarni í mótun nýrrar stefnu fyrir kennara- og uppeldismenntun í nýjum háskóla og byggt verði á því nýja skipulagi náms sem tekur gildi haustið 2007. Þó má ætla að endurskoða þurfi stefnu fyrir þetta svið þar sem sameining skólanna breytir forsendum og möguleikum til að stuðla að frekari samþættingu.

2.5    Í undirbúningi að sameiningu háskólanna þarf að leggja áherslu á að byggja upp traust til hins nýja háskóla, fylkja starfsfólki og nemendum um nýja framtíðarsýn skólans og leggja grunn að góðum starfsanda og sameiginlegri stofnanamenningu. Skilgreina þarf hvernig sá styrkur sem skólarnir nú ráða yfir hvor í sínu lagi verði tryggður og nýttur til framdráttar sameinuðum skóla. Í nýrri framtíðarsýn þarf að koma fram hvernig sameining muni styrkja hinn nýja háskóla. Mikilvægt er að ná samstöðu um þessa nýju sýn.

2.6    Rektorar og háskólaráð þurfa að veita forystu um að samþætta stefnu og framtíðarsýn skólanna. Þessi samþætting þarf ekki að taka langan tíma þar sem mikil vinna hefur þegar farið fram við stefnumótun í báðum skólum.

2.7    Ráðgert er að stjórnskipulag hins nýja háskóla verði með nokkuð öðru sniði en núverandi skipulag háskólanna tveggja. Gengið er út frá því að myndaðir verði skólar innan hins nýja háskóla á grundvelli samstæðra fræðasviða. Hver skóli starfar í aðgreindum deildum eftir fræðasviðum og/eða fræðigreinum og ber ábyrgð á kennslu og rannsóknum. Móta þarf framtíðarsýn fyrir hina nýju skóla.

2.8    Aðgerðir

    2.8.1    Samþætta framtíðarsýn fyrir hinn sameinaða háskóla og mynda einingu um hana.

    2.8.2    Skapa samstöðu um nýja skóla og framtíðarsýn þeirra.

2.9    Þátttaka

    2.9.1    Rektorar og háskólaráð hafa forystu um að samþætta framtíðarsýn fyrir hinn sameinaða háskóla á grundvelli þeirrar stefnumótunar sem fram hefur farið.

    2.9.2    Yfirstjórnir hinna nýju skóla hafa forystu um að móta framtíðarsýn og marka stefnu fyrir þá.

2.10    Tímasetningar

    2.10.1    Mótun framtíðarsýnar fyrir sameinaðan háskóla hefst í maí 2007. Vinnu þessari verði lokið í desember 2007.

    2.10.2    Mótun framtíðarsýnar fyrir skóla hefst vorið 2008 og lýkur í árslok 2008.

2.11    Afrakstur

    2.11.1    Stefna og framtíðarsýn beggja skóla samþætt.

    2.11.2    Stefna og framtíðarsýn mótuð fyrir nýja skóla hins sameinaða háskóla.

3  Stjórnskipulag í sameinuðum háskóla

3.1    Háskólaráð Háskóla Íslands og háskólaráð Kennaraháskóla Íslands gera ráð fyrir að hinum sameinaða háskóla verði skipt í skóla. Háskólaráð KHÍ gerir fyrirvara um stuðning við áætlanir um sameiningu nema stofnaðir verði skólar innan sameinaðs háskóla. Í áliti háskólaráðs Kennaraháskóla Íslands til menntamálaráðherra dags. 2. júní 2006 segir: „Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands samþykkti einróma á fundi 30. maí 2006 að haldið verði áfram undirbúningi sameiningar háskólanna. Það var þó gert með fyrirvara um að sú starfsemi sem nú er í Kennaraháskóla Íslands verði grunnur að einum af umræddum „skólum“ innan sameinaðs háskóla sem nefndir eru í stefnu Háskóla Íslands og í fyrrnefndri skilagrein um fýsileika sameiningarinnar.“ Í stefnu Háskóla Íslands 2006–2011 segir um sameiningu HÍ og KHÍ: „Komi til sameiningar verði hún undirbúin vandlega, m.a. í tengslum við skiptingu hinnar nýju stofnunar í skóla.“

3.2    Við það hefur verið miðað í stefnumótun Háskóla Íslands að markmiðið með skiptingu háskólans í skóla verði að efla starfseiningar hans, styrkja innviðina og skólann í heild. Í lögum um Háskóla Íslands er hins vegar ekki gert ráð fyrir að skólanum sé skipt upp í skóla. Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla segir að yfirstjórn háskóla sé falin háskólaráði og rektor. Í 2. mgr. 15 gr. sömu laga segir: „Að öðru leyti fer um stjórnskipan háskóla eftir sérlögum, skipulagsskrá, samþykktum eða stofnskjölum háskóla.“ Í sérlögum um Háskóla Íslands nr. 41/1999 segir í 2. grein að deildir séu grunneiningar Háskóla Íslands. Skapa þarf lagaskilyrði fyrir breytingum á skipulagi Háskóla Íslands og skiptingu hans í skóla.

3.3    Á fundi háskólaráðs Háskóla Íslands 7. september 2006 var, á grundvelli stefnu Háskóla Íslands 2006–2011, skipaður starfshópur um endurskoðun skora- og deildarskiptingar Háskólans. Verkefni starfshópsins skv. erindisbréfi er að fara yfir núverandi skora- og deildaskiptingu á faglegum forsendum og undirbúa drög að tillögu að skiptingu Háskólans í skóla á grundvelli samstæðra fræðasviða þar sem hver skóli um sig starfi í aðgreindum deildum eftir fræðisviðum og/eða fræðigreinum og beri faglega ábyrgð á kennslu og rannsóknum. Í framhaldinu verði, á grundvelli niðurstöðu um skiptingu Háskólans í skóla, undirbúin tillaga um stjórnskipulag og hlutverk deilda innan skólanna. Um þessa vinnu verði náið samráð við deildarforseta Háskóla Íslands og við Kennaraháskóla Íslands vegna mögulegrar sameininga skólanna.

3.4    Aðgerðir

    3.4.1    Frumvarp lagt fram á Alþingi um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Í frumvarpinu verði ákvæði sem kveða á um réttarstöðu starfsmanna og nemenda við sameininguna. Í greinargerð með frumvarpi til laga verði fjallað um formlega aðkomu Kennaraháskóla Íslands að mótun hugmynda um skiptingu sameinaðs háskóla í skóla og stjórnskipulag hans. Miðað er við að lög þessi verði samþykkt á yfirstandandi þingi og öðlist gildi 1. júlí 2008.

    3.4.2    Í kennslu- og rannsóknarsamningum við háskólana verði kveðið nánar á um ráðstafanir í tengslum við sameiningu þeirra og þá m.a. um hvernig beinum kostnaði vegna sameiningarinnar verði mætt.

    3.4.3    Skapa þarf lagaskilyrði fyrir breytingum á skipulagi Háskóla Íslands. Unnið er að endurskoðun sérlaga um ríkisháskóla í sérstakri stjórnskipaðri nefnd og í endurskoðuðum lögum mætti finna nauðsynlegum lagabreytingum stað. Einnig mætti setja heimildarákvæði í lög nr. 41/1999 um Háskóla Íslands um stofnun skóla innan háskólans. Leggja þarf fram á Alþingi frumvarp sem heimilar Háskóla Íslands að skipta háskólum upp í skóla og er æskilegt að það taki gildi eigi síðar en 1. janúar 2008.

    3.4.4    Rektorar HÍ og KHÍ kynna fyrir háskólaráðum tillögu um breytingar á stjórnskipulagi sameinaðs háskóla sem m.a. felur í sér að honum verði skipt upp í skóla og að uppeldisvísindaskóli verði einn þeirra. Háskólaráð beggja háskóla kynna tillögu um breytta stjórnskipun fyrir háskólafundum háskólanna þannig að færi gefist á umræðu og samráði um téðar breytingar og breytta stjórnskipun sameinaðs háskóla.

    3.4.5    Skólastjórnir skóla skipaðar og hefja störf og starfsmenn ráðnir að stjórnsýslu skólanna eftir því sem við á.

3.5    Þátttaka

    3.5.1    Menntamálaráðherra leggur fram frumvörp til laga á Alþingi um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands, og eftir atvikum um ný sérlög fyrir Háskóla Íslands eða breytingar á lögum nr. 41/1999 vegna skiptingar HÍ í skóla.

    3.5.2    Rektorar HÍ og KHÍ kynna fyrir háskólaráðum tillögu um breytingar á stjórnskipulagi sameinaðs háskóla og um skiptingu í skóla. Háskólaráð kynna fyrir háskólafundum skólanna tillögu um skiptingu sameinaðs háskóla upp í skóla og stjórnskipulag hans. Að lokinni umræðu og að höfðu samráði milli beggja háskóla, leggur rektor HÍ tillöguna fyrir háskólaráð til samþykktar.

    3.5.3    Háskólaráð HÍ ber ábyrgð á reglum um val á yfirstjórn skóla, nema annað sé ákveðið með lögum.

3.6    Tímasetningar

    3.6.1    Frumvarp lagt fram á Alþingi á haustþingi 2006 um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

    3.6.2    Frumvarp lagt fram á Alþingi á vorþingi 2007 eða í byrjun haustþings 2007 um sérlög um ríkisháskóla eða, eftir atvikum, breytingar á lögum um Háskóla Íslands til að hægt sé að breyta stjórnskipan HÍ og skipta honum í skóla. Æskileg gildistaka slíkra laga væri 1. janúar 2008.

    3.6.3    Rektorar kynna fyrir háskólaráðum og háskólafundum tillögu um skiptingu sameinaðs háskóla í skóla og stjórnskipulag skóla og hlutverk deilda fyrir 1. júlí 2007. Nýjar reglur sameinaðs háskóla um stjórnskipulag og skiptingu í skóla liggi fyrir eigi síðar en í lok október 2007.

    3.6.4    Skipun yfirstjórna skóla og val á forsetum skóla lokið fyrir 1. mars 2008.

3.7    Afrakstur.

    3.7.1    Lög um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

    3.7.2    Ný sérlög um ríkisháskóla eða lög um breytingar á lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands.

    3.7.3    Nýjar reglur sameinaðs háskóla um stjórnskipulag og skiptingu í skóla.

    3.7.4    Nýjar stjórnir hinna nýju skóla og nýir forsetar skólanna.

4  Námsskipan

4.1    Nefnd um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands frá 7. apríl 2006 bendir á að við sameiningu skapist tækifæri til að endurskipuleggja allt nám í uppeldis- og kennslufræði, þ.m.t. kennaranám. Einnig skapist möguleiki á að auka fjölbreytni kennaramenntunar, samfellu í kennaramenntun á öllum skólastigum og á eflingu framhaldsnáms á meistara- og doktorsstigi, svo og þróun sveigjanlegs námsforms. Jafnframt segir að við samnýtingu og samþættingu námsleiða þurfi að huga sérstaklega að inntaki náms í báðum háskólum og mikilvægt sé að virkja kennara ólíkra deilda við HÍ og kennara við KHÍ til samstarfs og samþættingar í þágu kennaramenntunar. Í skilagreininni segir jafnframt að ljóst þurfi að vera með hvaða hætti sá styrkur sem skólarnir nú ráða yfir hvor fyrir sig verði tryggður og áfram nýttur til framdráttar sameinuðum skóla. Í skilagreininni segir að meginmarkmið sameiningar háskólastofnananna séu m.a.:
     *      Að stuðla að eflingu háskólamenntunar á Íslandi þar sem með sameiningunni verði til sterkari heild sem byggi á sérstöðu og sérhæfingu beggja háskólastofnananna.
     *      Að tryggja fjölbreyttara og sveigjanlegra námsframboð í grunn- og framhaldsnámi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum og annarra uppeldisstétta.
     *      Að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt kennaranámi.
     *      Að styrkja kennslu og rannsóknir í uppeldis- og menntunarfræðum og skapa forsendur fyrir samþættingu slíkra rannsókna við aðrar rannsóknir sem stundaðar eru í sameinuðum skóla.
     *      Að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk.
     *      Að skapa forsendur fyrir því að sameinuð stofnun veiti menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða sem og annarra tengdra greina á Íslandi sem sé sambærileg við það sem best gerist í okkar nágrannalöndum.

4.2    Í umsögn Kennaraháskóla Íslands um skilagreinina frá 2. júní sl. er lögð áhersla á að núverandi starfsemi Kennaraháskóla Íslands verði grunnur að einum af umræddum skólum sameinaðs háskóla. Einnig kemur fram að við framtíðarskipulagningu kennaramenntunar innan sameinaðs háskóla sé mikilvægt að kennslufræði greina ásamt grunnnámi á kjörsviðum verði áfram í samþættu kennaranámi fyrir leik- og grunnskólakennara en verði ekki dreift á marga og ólíka aðila innan háskólans. Háskólaráð KHÍ telur mikilvægt að viðhalda tvenns konar líkönum fyrir kennaramenntun í sameinuðum háskóla, annars vegar samþættu líkani (concurrent model), þar sem nám í uppeldis- og kennslufræði og nám í kennslugreinum er samþætt og hins vegar raðnámslíkani (consecutive model) þar sem kennsluréttindanám kemur á eftir námi í kennslugreinum.

4.3    Í umsögn Háskóla Íslands frá 8. júní sl. vegna skilagreinar nefndar um fýsileika sameiningar háskólanna tveggja er m.a. bent á kosti sameiningarinnar með tilliti til námsskipulags. Þar eru nefnd atriði eins og bætt kennaramenntun í landinu, efling fagkennslu á ýmsum sviðum, samnýting kennslu og tækifæri til að taka upp sérhæfða námsgráðu til B.A./B.S. prófs sem tengdist námi til kennsluréttinda. Jafnframt koma fram ábendingar um að athuga þurfi tiltekin atriði, s.s. áhrif sameiningar á núverandi M.Paed. nám og á almennt meistara- og doktorsnám og að sameining vinni ekki gegn því markmiði að efla Háskóla Íslands sem rannsóknarháskóla. Í umsögninni kemur einnig fram að talið sé að sameining muni styrkja menntun kennara í landinu, auka fagþekkingu þeirra og styrkja störf einstakra deilda.

4.4    Í stefnumótun KHÍ fyrir 2005–2010 er gert ráð fyrir að grunn- og framhaldsnám verði endurskoðað bæði með tilliti til námsframboðs og innihalds námskeiða. Einnig að framhaldsnám verði í boði strax að loknu grunnnámi og verði tvenns konar; annars vegar starfstengt meistara- og doktorsnám (M.Ed. og Ed.D.) og hins vegar rannsóknartengt meistara- og doktorsnám (M.A. og Ph.D.).

4.5    Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands hefur samþykkt skipulag kennaranáms, þroskaþjálfanáms, tómstunda- og félagsfræðináms og íþróttafræðináms á bakkalárstigi sem mun taka gildi að fullu haustið 2007. Í því skipulagi er gert ráð fyrir að stúdentar geti tekið hluta af námi sínu við aðra háskóla og geti þannig öðlast meiri sérhæfingu á sínu sviði en nú er í boði við Kennaraháskóla Íslands. Fyrirhugaðar breytingar á námsskipan kennaranáms verða gerðar óháð því hvort lágmarkskröfum um nám fyrir leyfisbréf kennara verði breytt.

4.6    Í grunndeild Kennaraháskóla Íslands er núna boðið upp á 90 eininga nám til B.A., B.Ed. og B.S. gráðu fyrir grunnskólakennara, íþróttafræðinga, leikskólakennara, tómstundafræðinga og þroskaþjálfa. Jafnframt býðst í grunndeild 15 og 30 eininga kennsluréttindanám fyrir þá sem lokið hafa prófi í faggrein, s.s. meistaraprófi í iðngrein og háskólaprófi í sérgrein. Um er að ræða bæði staðnám og fjarnám. Auk þess býðst í grunndeild 45 eininga diplómanám, t.d. í tómstunda- og félagsmálafræði og fyrir aðstoðarleikskólakennara. Kennaranámi fyrir leik- og grunnskólastig og íþróttakennaranámi lýkur með B.Ed. eða B.S. gráðu og er samþætt þriggja ára nám (concurrent model).

4.7    Í framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands er boðið upp á nám til meistaraprófs (M.Ed.) og doktorsprófs (Ph.D.). Hluta meistaranáms er unnt að ljúka með diplómaprófi (Dipl.Ed.). Frá og með næsta hausti verður boðið upp á tvenns konar meistaranám; starfstengt meistaranám (M.Ed.) og rannsóknatengt meistaranám (M.A. og M.S.). Nám til M.Ed. gráðu verður í boði strax að loknu grunnnámi. Flest námskeið í framhaldsdeild eru blanda af stað- og fjarnámi.

4.8    Að lágmarki þarf B.Ed. gráðu af viðkomandi námsbraut til þess að hafa fullgild réttindi til að starfa sem grunnskólakennari. Íþróttafræðingar öðlast réttindi til að kenna á grunn- og framhaldsskólastigi.

4.9    Kennaranám við Háskóla Íslands er 90 eininga fagnám í grein/greinum til B.A. og B.S. gráðu auk 30 eininga diplómanáms í kennslufræði til kennsluréttinda. Námið er samkvæmt raðnámslíkani (consecutive model). Þeir sem lokið hafa meira en B.A. eða B.S. gráðu í faggrein (120 eininga samfelldu námi), M.A. og M.S. gráðu (60 einingar), eða Ph.D. gráðu þurfa aðeins að ljúka 15 einingum í kennslufræði til kennsluréttinda. Í allmörgum háskólagreinum gefst nemendum kostur á framhaldsnámi með kennslufræðilegri áherslu, M.Paed. (45 einingar þar af 15 í kennslufræði). B.A. og B.S. nám að viðbættu 30 eininga námi til kennsluréttinda veitir réttindi til kennslu í grunn- og framhaldsskólum. M.A. og M.S. að viðbættum 15 einingum í kennslufræði veitir réttindi til kennslu á framhaldsskólastigi. Við skólann er einnig hægt að ljúka 60 einingum í kennslufræði til meistaraprófs (M.A.) svo og doktorsprófi.

4.10    Nám við HÍ og KHÍ er skipulagt í samræmi við Bologna samþykktina og eru báðir skólar að vinna við styrkingu gæðakerfa sinna. Þá hafa HÍ og KHÍ með sér samstarf um þróun og rekstur upplýsinga- og nemendaskráningarkerfisins UGLU.

4.11    Ljóst er að sameining HÍ og KHÍ skapar tækifæri til að nýta betur þá möguleika til sérhæfingar sem fólgnir eru í nýrri námsskipan við KHÍ. Með fullu aðgengi að fjölbreyttu námsframboði HÍ geta stúdentar KHÍ nýtt sér til fulls hið opna kerfi sem nú hefur verið samþykkt að taki gildi haustið 2007.

4.12    Við sameiningu háskólanna þarf að leggja áherslu á að byggja upp nýja samstæða heild og opna fyrir sveigjanlegt námsform og samstarf fræðasviða bæði innan grunnnáms og framhaldsnáms. Á þetta sérstaklega við um kennaranám, en einnig um þroskaþjálfanám, íþróttafræði o.fl. Ef meiriháttar breytingar verða gerðar á kennaranámi, þá gæti þurft að athuga hvort gera þurfi breytingar á lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra (lög nr. 86/1998).

4.13    Aðgerðir

    4.13.1    Endurskoða þarf skipulag fyrir kennaranám, íþróttafræðinám, þroskaþjálfanám, nám í tómstunda- og félagsmálafræði, o.s.frv. í sameinuðum skóla. Meðal þess sem fjalla þarf um er fyrirkomulag faggreinakennslu, samþætt námslíkan, raðnámslíkan, staðnám og fjarnám. Nýtt skipulag kennaranáms við KHÍ sem tekur gildi haustið 2007 ætti að auðvelda slíka endurskoðun.

    4.13.2    Kanna þarf tengingar milli náms sem er í boðið í KHÍ og HÍ s.s. milli þroskaþjálfunar og framhaldsnáms í fötlunarfræði, náms í íþróttafræðum og sjúkra- og iðjuþjálfun. Þá þarf að kanna hvaða nýir möguleikar skapast við sameiningu skólanna til að bjóða upp á nýtt nám eða nýja áfanga.

    4.13.3    Kanna þarf hvort breytingar á kennaranámi leiði til þess að breyta þurfi lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra (nr. 86/1998).

    4.13.4    Endurskoða og samræma þarf fyrirkomulag framhaldsnáms á meistara- og doktorsstigi og fjalla um nýjar námsleiðir á framhaldsstigi.

    4.13.5    Endurskoða þarf annað grunnnám m.t.t. sameiningar háskólanna.

4.14    Þátttaka

    4.14.1    Háskólaráð KHÍ og HÍ skipa starfshópa sem fjalla um námsskipan fyrir grunn- og framhaldsnám kennara og annað tengt nám innan sameinaðs skóla.

4.15    Tímasetningar

    4.15.1    Við sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands skapast tækifæri til að endurskoða námsskipan, sérstaklega á sviði kennaranáms. Ekki er nauðsynlegt að allar breytingar komi til framkvæmda við fulla gildistöku sameiningar 1. júlí 2008. Halda má áfram að þróa hugmyndir eftir að háskólarnir eru sameinaðir. Hins vegar verður að ljúka vinnu við breytingar á námsskipan í nóvember 2007 sem eiga að koma til framkvæmda haustið 2008.

4.16    Afrakstur

    4.16.1    Ný kennsluskrá sem tekur mið af sameiningu háskólanna og tekur gildi haustið 2008.

5  Starfsfólk og réttindi

5.1    Háskóli Íslands

    5.1.1    Fastráðnir starfsmenn Háskóla Íslands voru 878 í september 2006. Starfsígildi við skólann voru þá 765.

    5.1.2    Skipta má starfsmönnum Háskóla Íslands upp í sex meginhópa:
              5.1.2.1    Prófessorar sem taka laun skv. ákvörðun kjararáðs.
              5.1.2.2    Kennarar og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn sem taka laun samkvæmt kjarasamningum milli aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og fjármálaráðherra.
              5.1.2.3    Starfsmenn í öðrum stéttarfélögum háskólamanna.
              5.1.2.4    Starfsmenn í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu.
              5.1.2.5    Starfsmenn í ASÍ félögum.
              5.1.2.6    Stundakennarar.

    5.1.3    Prófessorum er raðað í launaflokka á grundvelli stigafjölda samkvæmt sérstökum matsreglum sem fylgja úrskurðum kjaranefndar. Í september 2006 tekur 181 prófessor við Háskóla Íslands laun skv. ákvörðun kjararáðs (áður kjaranefnd). Núgildandi matsreglur um störf prófessora eru skv. úrskurði kjaranefndar þann 19. desember 2002. Úrskurður þessi gildir um alla prófessora á Íslandi, þ.m.t. þá sem starfa við Kennaraháskóla Íslands.

    5.1.4    Ríkissjóður leggur sem svarar 12,5% af föstum launum prófessora, þ.e. mánaðarlaunum og einingum, í ritlauna- og rannsóknasjóð prófessora. Prófessorar geta sótt um greiðslur úr sjóðnum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum. Greitt er úr sjóðnum skv. reglum sem kjaranefnd setur. Sömu reglur gilda um prófessora við HÍ og KHÍ.

    5.1.5    Kjarasamningur Félags háskólakennara (FH) og fjármálaráðherra f.h. ríkisjóðs er frá 2001 en breytingar voru gerðar á honum í maí 2005. Þá skrifaði Bandalag háskólamanna f.h. 23 aðildarfélaga undir samning við fjármálaráðherra um breytingar á kjarasamningum sem m.a. fól í sér samræmingu á ákvæðum um launatöflur og stofnanasamninga. Félag háskólakennara og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands (KKHÍ) eru meðal 23 stéttarfélaga sem samþykktu samninginn. Félagsmenn í Félagi háskólakennara eru tæplega 500. Kjarasamningar FH og KKHÍ eru efnislega samhljóma.

    5.1.6    Með tilvísun í gildandi kjarasamninga skrifuðu Háskóli Íslands og eftirtalin stéttarfélög undir stofnanasamning 19. september 2006: Félag háskólakennara, Útgarður, félag háskólamanna, Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga, Félag lífeindafræðinga, Stéttarfélag verkfræðinga og Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands. Í stofnanasamningnum eru reglur um hvernig laun og önnur kjör kennara og sérfræðinga með hæfnisdóm og starfsmanna í stjórnsýslu-, þjónustu- og sérfræðistörfum eru ákvörðuð. Í fylgiskjali með samningnum eru reglur sem háskólaráð samþykkti 7. apríl 2006 um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands, sem fela m.a. í sér þau nýmæli að hlutfall kennsluskyldu hvers starfsmanns er tengt árangri í rannsóknum og sömuleiðis réttur til rannsóknamissera.

    5.1.7    Félagsmenn í Félagi háskólakennara sem falla undir matskerfi kennara og sérfræðinga og gegna a.m.k. hálfu starfi eiga kost á greiðslum fyrir nýsköpun og árangur í rannsóknum umfram vinnuskyldu úr sjóði sem nefndur er Vinnumatssjóður Félags háskólakennara. Háskóli Íslands leggur sem svarar 12,5% af grunnlaunum kennara, þ.e. mánaðarlaunum og einingum í Vinnumatssjóð. Matsnefnd skipuð af háskólaráði HÍ í samráði við FH metur rannsóknastörf umsækjenda til stiga skv. reglum sem háskólaráð setur í samráði við FH.

    5.1.8    Í september 2006 starfa við Háskóla Íslands 43 háskólamenntaðir starfsmenn sem eru í Félagi íslenskra náttúrufræðinga, einn sem er í Kennarasambandi Íslands, tveir í Læknafélagi Íslands, sjö í Lyfjafræðingafélagi Íslands, þrír í Félagi lífeindafræðinga, einn í Kjarafélagi Tæknifræðingafélags Íslands, níu í Stéttarfélagi verkfræðinga, sjö í Kjarafélagi viðskiptafræðinga og hagfræðinga og einn í Útgarði, félagi háskólamanna.

    5.1.9    Stjórnsýslu-, þjónustu- og sérfræðistörf starfsmanna í Félagi háskólakennara, Félagi lífeindafræðinga, Stéttarfélagi verkfræðinga, Kjarafélagi tæknifræðingafélags Íslands og Útgarði, félagi háskólamanna sem ekki eru ráðnir á grundvelli akademísks hæfis eru metin til stiga samkvæmt starfs- og hæfnismatskerfi sem nefnt er SKREF. Þessir starfsmenn geta sótt um að fá einu sinni á ári greitt úr sjóði sem nefndur er Ársmatssjóður fyrir árangur í starfi. Árangurinn er metinn út frá markmiðum sem starfsmenn setja sér árlega í samráði við næsta yfirmann sinn. Í sjóðinn er greidd upphæð sem samsvarar 5% af grunnlaunum þeirra sem rétt hafa til að fá greitt úr honum.

    5.1.10    Við Háskóla Íslands starfa 110 starfsmenn sem taka laun skv. kjarasamningi SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 9. mars 2005. Stofnanasamningur milli Háskóli Íslands og SFR var undirritaður 21. mars 2006. Um röðun starfa í launatöflu fer eftir starfsmatskerfinu SKREF.

    5.1.11    Um 25 starfsmenn HÍ taka laun skv. kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Starfsmennirnir eru í Félagi rafeindavirkja (15), Félagi iðn- og tæknigreina (2), Félagi íslenskra rafvirkja (2), Félagi járniðnaðarmanna (1), Verkstjórafélagi Reykjavíkur (1) og Trésmíðafélagi Reykjavíkur (4).

    5.1.12    Stór hópur stundakennara kennir við HÍ eða um 1800. Áætluð ársverk stundakennara eru um 135.

    5.1.13    Reglur Háskóla Íslands um rannsóknamisseri eru frá 8. mars 1995 með breytingum 5. desember 1996. Í kjarasamningi Félags háskólakennara er kveðið á um tilfærslu á vinnuskyldu í gr. 10.1.3. Þar segir: „Heimilt er háskólaráði að lækka eða fella niður kennslu- og stjórnskyldu háskólakennara 1 eða 2 misseri í senn til þess að gera honum kleift að verja samsvarandi auknum hluta vinnutíma síns til rannsóknastarfa.“ Í úrskurði kjaranefndar frá 28. júní 2005 segir að háskólaráð setji reglur um rannsóknamisseri. Reglur háskólaráðs HÍ um rannsóknamisseri eiga jafnt við um prófessora og aðra kennara. Réttur til rannsóknamisseris er ekki sjálfgefinn, hann er háður rannsóknarvirkni sbr 5. grein reglna um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við HÍ nr. 605/2006.

    5.1.14    Sáttmálasjóður veitir ferðastyrki til fastra kennara (prófessora, dósenta og lektora) í fullu starfi auk vísindamanna, fræðimanna og sérfræðinga, sem ráðnir eru til sjálfstæðra vísindastarfa með a.m.k. 40% rannsóknarskyldu, hafa hlotið hæfnisdóm og taka laun samkvæmt kjarasamningum Félags háskólakennara og fjármálaráðherra. Hægt er að sækja um styrki annað hvert ár og eigi til lengri ferða en 14 daga og fargjald að hámarki kr. 95.000, enda sé skilyrðum um vísindalegt markmið fararinnar fullnægt. Auk þess veitir Sáttmálasjóður ferðastyrki öðru starfsfólki HÍ og háskólastofnana sem hefur háskólapróf og gert hefur starfssamning við háskólann. Styrkupphæð er kr. 45.000 og hægt er að sækja um styrk annað hvert ár. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að umsækjandi hyggist afla sér færni og fróðleiks fyrir starf sitt við skólann. Undanfarin ár hefur sjóðurinn ekki getað veitt öllum styrki úr þessum hópi.

    5.1.15    Í Háskóla Íslands eru nokkrir sjóðir sem beint eða óbeint tengjast starfskjörum háskólakennara, s.s. Rannsóknarsjóður HÍ, Aðstoðarmannasjóður, Tækjakaupasjóður, Kennslumálasjóður og doktorsnemasjóður Eimskipafélagsins.

5.2    Kennaraháskóli Íslands

    5.2.1    Í september 2006 eru 211 fastráðnir starfsmenn við Kennaraháskóla Íslands. Föst stöðugildi við skólann eru 195,7.

    5.2.2    Nokkuð misjafnt er milli ára hve margir stundakennarar kenna við skólann en áætlað er að þeir séu í u.þ.b. 10 stöðugildum. Auk þess greiðir Kennaraháskólinn mörgum vettvangskennurum laun en allir nemar í grunnnámi við skólann fara í vettvangsnám. Heildarfjöldi greiddra stunda fyrir vettvangskennslu á ári er um 40.000. Um 23.000 stundir eru t.a.m. greiddar vettvangskennurum sem taka nema á grunnskólabraut.

    5.2.3    Skipta má starfsmönnum Kennaraháskóla Íslands í sex meginhópa:
              5.2.3.1    Prófessorar sem taka laun skv. ákvörðun kjararáðs.
              5.2.3.2    Kennarar og aðrir háskólamenntaðir starfsmenn sem taka laun samkvæmt kjarasamningi milli aðildarfélaga Bandalags háskólamanna og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.
              5.2.3.3    Starfsmenn í SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu.
              5.2.3.4    Starfsmenn í ASÍ félögum.
              5.2.3.5    Stundakennarar.

    5.2.4    Tæplega 17 prófessorar taka laun skv. ákvörðun kjararáðs (sjá liði 5.1.3 og 5.1.4).

    5.2.5    Um 170 starfsmenn KHÍ eru í fimm stéttarfélögum sem eru í BHM samflotinu en þau eru Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands (155), Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga (1), Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga (9), Útgarður, félag háskólamanna (2) og Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa (1).

    5.2.6    Kennaraháskóli Íslands og ofangreind BHM félög skrifuðu undir stofnanasamning 16. júní 2006. Í stofnanasamningnum eru reglur um ákvörðun launa hjá kennurum og sérfræðingum með hæfnisdóm, sérfræðingum í stjórnsýslu-, þjónustu- og sérfræðistörfum, félagsmönnum í Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga og Útgarði, félagi háskólamanna. Í fylgiskjali með stofnanasamningi BHM og KHÍ eru reglur um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Kennaraháskóla Íslands.

    5.2.7    Sérstakt vinnumatskerfi er notað við mat á greiðslu til kennara og sérfræðinga fyrir mikil afköst við rannsóknir eða stjórnun. Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands setti núgildandi reglur um Vinnumatssjóð KHÍ og úthlutun úr honum 11. mars 2003. Háskólaráð KHÍ ákveður framlög í Vinnumatssjóð með hliðsjón af fjárveitingum í fjárlögum. Mat á vinnu kennara til stiga er samkvæmt reglum Kennaraháskóla Íslands og Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands sem tóku gildi 1. janúar 2003.

    5.2.8    Í fylgiskjali með BHM stofnanasamningnum eru reglur um mat á hæfni þeirra sem starfa í stjórnsýslu- og þjónustustörfum við Kennaraháskóla Íslands. Störf þeirra eru metin skv. starfsmatskerfinu SKREF en einnig er metin hæfni starfsmanna umfram kröfur starfsins. Starfsmaður getur sótt um framlag úr Ársmatssjóði og skulu niðurstöður ársmats fylgja umsókninni.

    5.2.9    Alls taka 23 laun skv. kjarasamningu SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu. Núgildandi stofnanasamningur milli SFR og KHÍ var undirritaður 21. mars 2006.

    5.2.10    Um þrír starfsmenn KHÍ taka laun skv. kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og fjármálaráðherra.

    5.2.11    Prófessorar við Kennaraháskóla Íslands geta sótt um rannsóknamisseri á grundvelli úrskurðar kjaranefndar og dósentar, lektorar og aðjunktar við Kennaraháskólann geta sótt um rannsóknamisseri á grundvelli gr. 10.1.3 í kjarasamningi KKHÍ og fjármálaráðherra en ákvæðið er samhljóða gr. 10.1.3 í kjarasamningi Félags háskólakennara og fjármálaráðherra (sbr. 5.1.13).

    5.2.12    Fastráðnir kennarar Kennaraháskóla Íslands auk vísindamanna, fræðimanna og sérfræðinga með a.m.k. 40% rannsóknarskyldu og hlotið hafa hæfnisdóm, geta sótt um ferðastyrki úr ferðasjóði Kennaraháskólans. Skilyrði er að sýnt sé fram á faglegan og/eða vísindalegan tilgang fararinnar. Ráðstöfunarfé ferðasjóðs Kennaraháskólans fer eftir ákvörðun háskólaráðs við afgreiðslu fjárhagsáætlunar skólans. Almennt er miðað við að háskólakennarar geti sótt um ferðastyrki annað hvert ár að hámarki kr. 150.000. Aðrir starfsmenn skólans sem hafa háskólapróf geta sótt um ferðastyrki. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að umsækjandi hyggist afla sér færni og fróðleiks fyrir starf sitt við skólann. Hámark slíkra styrkja er kr. 100.000 annað hvert ár.

    5.2.13    Í Kennaraháskóla Íslands eru nokkrir sjóðir sem beint eða óbeint tengjast starfskjörum háskólakennara, s.s. Rannsóknarsjóður KHÍ, Aðstoðarmannasjóður og Kennsluþróunarsjóður.

5.3    Gildistími kjarasamninga fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs við eftirtalin stéttarfélög er til 30. apríl 2008: Kjarafélag Tæknifræðingafélags Íslands og Stéttarfélag verkfræðinga; tuttugu og þrjú aðildarfélög Bandalags háskólamanna; Félag íslenskra náttúrufræðinga; SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu. Gert er ráð fyrir að viðræður um nýja stofnanasamninga hefjist þegar nýir kjarasamningar hafa verið undirritaðir.

5.4    Við sameiningu háskólanna verður Kennaraháskóli Íslands lagður niður í núverandi mynd. Starfsfólki verða þá boðin sambærileg störf í nýrri stofnun og sambærileg kjör. Kanna þarf biðlaunarétt starfsmanna Kennaraháskóla Íslands við þessa breytingu.

5.5    Aðgerðir

    5.5.1    Sömu reglur gilda um kjör prófessora við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Engra aðgerða er þörf til að samræma kjör þeirra að öðru leyti en að samþykktir háskólaráða skólanna um rannsóknamisseri og ferðastyrki eru ekki eins.

    5.5.2    Starfsmenn HÍ og KHÍ sem eru í aðildarfélögum BHM eru flestir með sambærilega kjarasamninga. Flestar greinar stofnanasamninga BHM félaga í HÍ og KHÍ eru eins, en þó er munur á sumum greinum. Gera þarf nýja stofnanasamninga fyrir BHM félög til að samræma kjör.

    5.5.3    Gera þarf nýja stofnanasamninga fyrir önnur stéttarfélög háskólamanna við hinn sameinaða skóla.

    5.5.4    Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands eru með vinnumatssjóði en samræma þarf reglur um mat og úthlutun úr sjóðnum í sameinuðum skóla.

    5.5.5    HÍ og KHÍ eru með ársmatssjóði en samræma þarf reglur um mat og úthlutun úr sjóðnum.

    5.5.6    Sami kjarasamningur gildir um SFR félaga en stofnanasamningar eru um margt ólíkir. Gera þarf nýjan stofnanasamning fyrir hinn sameinaða skóla.

    5.5.7    Reglur um rannsóknamisseri eru að mestu leyti sambærilegar en þó þarf að samræma nokkur ákvæði.

    5.5.8    Reglur um ferðastyrki eru mjög líkar en þó verður að samræma ákvæði sem ekki eru eins.

    5.5.9    Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands eru með ýmsa sjóði sem úthlutað er úr í tengslum við kennslu eða rannsóknir, s.s. rannsóknasjóði, aðstoðarmannasjóði, tækjakaupasjóði, kennsluþróunarsjóði og doktorsnemasjóð. Samræma þarf reglur um mat og úthlutun úr sjóðunum.

5.6    Þátttaka

    5.6.1    Háskólaráð hins sameinaða háskóla setur reglur um rannsóknamisseri að höfðu samráði við fulltrúa stéttarfélaga.

    5.6.2    Fulltrúar hins sameinaða háskóla og fulltrúar aðildarfélaga BHM vinna að gerð nýrra stofnanasamninga.

    5.6.3    Fulltrúar hins sameinaða háskóla og fulltrúar stéttarfélaga háskólamanna utan BHM samflotsins vinna að gerð nýrra stofnanasamninga.

    5.6.4    Háskólaráð setur nýjar reglur um Vinnumatssjóð að höfðu samráði við fulltrúa Félags háskólakennara og Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands.

    5.6.5    Háskólaráð setur nýjar reglur um Ársmatssjóð að höfðu samráði við fulltrúa stéttarfélaga.

    5.6.6    Fulltrúar hins sameinaða háskóla og fulltrúar SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu vinna að gerð nýs stofnanasamnings.

    5.6.7    Háskólaráð setur reglur um rannsóknamisseri að höfðu samráði við stéttarfélög.

    5.6.8    Háskólaráð setur reglur um ferðastyrki að höfðu samráði við stéttarfélög.

    5.6.9    Háskólaráð setur reglur um sjóði er tengjast kennslu og rannsóknum.

5.7    Tímasetningar

    5.7.1    Reglur hins sameinaða háskóla um rannsóknamisseri og ferðastyrki liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

    5.7.2    Nýr stofnanasamningur sameinaðs háskóla og BHM liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

    5.7.3    Nýir stofnanasamningar sameinaðs háskóla og stéttarfélaga háskólamanna liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

    5.7.4    Nýjar reglur um Vinnumatssjóð liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

    5.7.5    Nýjar reglur um Ársmatssjóð liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

    5.7.6    Nýr stofnanasamningur sameinaðs háskóla og SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

    5.7.7    Samræmdar reglur um kennslu- og rannsóknasjóði liggi fyrir eigi síðar en 1. júlí 2008.

5.8    Afrakstur

    5.8.1    Reglur um rannsóknamisseri og ferðastyrki.

    5.8.2    Nýr stofnanasamningur sameinaðs háskóla og BHM.

    5.8.3    Nýir stofnanasamningar sameinaðs háskóla og stéttarfélaga háskólamanna.

    5.8.4    Nýjar reglur um Vinnumatssjóð.

    5.8.5    Nýjar reglur um Ársmatssjóð.

    5.8.6    Nýr stofnanasamningur sameinaðs háskóla og SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu.

    5.8.7    Samræmdar reglur um kennslu- og rannsóknasjóði.

6  Húsnæðismál

6.1    Kennaraháskóli Íslands hefur til umráða 23.700 m 2 fyrir starfsemi skólans, þ.a. 15.600 m 2 í Reykjavík og rúmlega 8.000 m 2 á Laugarvatni. Meginstarfsemi skólans er í húsnæði við Stakkahlíð, alls 9.600 m 2. Þá er kennt í húsnæði að Skipholti 37, alls 2.400 m 2. Í húsnæði að Bolholti 6 og 8 og Sjómannaskólahúsinu er vinnuaðstaða fyrir kennara, Símenntunarstofnun og Rannsóknarstofnun í alls 1.500 m 2 húsnæði. Auk þess hefur KHÍ til umráða íþróttahús við Háteigsveg sem er 2.100 m 2.

6.2    Á Laugarvatni er KHÍ með 3.300 m 2 húsnæði fyrir kennslu og heimavist, 2.400 m 2 íþróttahús og sundlaug, 1.400 m 2 húsnæði fyrir Íþróttamiðstöð Íslands og samtals 1.000 m 2 íbúðarhúsnæði í umsjá skólans.

6.3    Í Reykjavík nýtast 13.500 m 2 að fullu fyrir starfsemi skólans og um 4.000 m 2 á Laugarvatni. Til viðbótar er íþróttahús Kennaraháskóla Íslands í Reykjavík (2.100 m 2) sem nýtist að hluta. Leiguhúsnæði skólans er samtals 3.900 m 2.

6.4    Miðað við áætlaðan 4% vöxt skólans á ári næstu árin þarf að mati KHÍ að auka húsnæði sem nemur allt að 700 m 2 á ári. Nú þegar vantar skólann um 300 m 2 vegna uppsagnar á leiguhúsnæði í Sjómannaskólanum.

6.5    Fjórir kostir virðast helst koma til greina um húsnæðismál Uppeldisvísindaskóla innan sameinaðs háskóla:

    6.5.1    Uppeldisvísindaskóli verði á Rauðarárholti og fái Sjómannaskólahúsið til umráða. Húsið er um 4.500 m 2 að stærð.

    6.5.2    Sameinaður háskóli byggi viðbótarhúsnæði á Rauðarárholti undir Uppeldisvísindaskóla en skv. deiliskipulagi má byggja þar allt að 14.500 m 2. Unnt er að byggja í áföngum en fyrsti áfangi þyrfti að vera með aðstöðu fyrir þá starfsemi sem er í leiguhúsnæði í Skipholti, Bolholti og Sjómannaskólahúsinu.

    6.5.3    Uppeldisvísindaskóli verði á Rauðarárholti og viðbótarhúsnæði tekið á leigu eftir þörfum. Þessi kostur þykir ekki góður þar sem sífellt erfiðara er að finna hentugt leiguhúsnæði fyrir starfsemina og óhagræði fylgir því að dreifa henni.

    6.5.4    Uppeldisvísindaskóli verði í nýju húsnæði á lóð Háskóla Íslands. Líklega þarf um 20.000 m 2 fyrir starfsemina. Ef þessi kostur yrði fyrir valinu mætti selja núverandi húsnæði KHÍ við Stakkahlíð, tæpa 10.000 m 2 og lóðarréttindi á Rauðarárholti.

6.6    Ekki er gert ráð fyrir að það sé forsenda fyrir sameiningu HÍ og KHÍ að sú starfsemi sem nú fer fram í Reykjavík og á Laugarvatni á vegum KHÍ verði flutt á lóð Háskóla Íslands. Kanna þarf sérstaklega hvaða áhrif ákvarðanir í húsnæðismálum munu hafa á markmið um að samþætta þá starfsemi sem nú fer fram í báðum háskólunum og hvort nýta eigi húsnæði og lóðarréttindi á Rauðarárholti og Laugarvatni fyrir sameinaðan háskóla.

6.7    Aðgerðir

    6.7.1    Kanna hvort nýta eigi húsnæði og lóðarréttindi á Rauðarárholti og Laugarvatni fyrir sameinaðan háskóla eða hvort flytja eigi þá starfsemi á lóð Háskóla Íslands.

    6.7.2    Ef talin er þörf á að flytja starfsemi KHÍ á lóð HÍ, þarf að meta kostnað við flutninginn, hagræðingar- og samlegðaráhrif, meta hvernig nýta má núverandi húsnæði KHÍ og finna þeirri starfsemi sem fram fer í KHÍ stað á lóð HÍ.

6.8    Þátttaka

    6.8.1    Starfshópur skipaður af háskólaráði sameinaðs háskóla vinnur að lausn húsnæðismála í nánu samstarfi við menntamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Starfshópurinn meti valkosti og leggi fram áætlun um kostnað við valkosti.

6.9    Tímasetningar

    6.9.1    Úttekt á húsnæðismálum sameinaðs háskóla liggi fyrir í maí 2008.

6.10    Afrakstur

    6.10.1    Húsnæðisáætlun og mat á valkostum séð út frá húsnæðisþörf, kostnaði og markmiðum um að styrkja sameinaðan háskóla sem kennslu- og rannsóknarstofnun og til að efla kennaramenntun.

7  Rekstur

7.1    Fjármál Kennaraháskóla Íslands

    7.1.1    Framlög á fjárlögum til Kennaraháskóla Íslands byggja á samningi milli menntamálaráðuneytisins og Kennaraháskóla Íslands um kennslu og rannsóknir. Núgildandi samningur var undirritaður 23. mars 2004 og gildir fyrir tímabilið 2004 til 2006. Í samningnum kemur fram að við gerð tillagna um fjárveitingar til háskólans mun ráðuneytið hafa til hliðsjónar fimm ára áætlun hans og stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Í 3. gr. samningsins segir: „Fjárveiting til kennsluþáttarins í rekstri KHÍ er ákveðin fyrir hvert ár í fjárlögum. Fjárveiting byggir m.a. á áætlun um fjölda og skiptingu nemendaígilda í reikniflokka og útreikningum í samræmi við reglur um fjárveitingar til háskóla. Að árinu liðnu er útreikningurinn endurtekinn á grundvelli raunverulegs fjölda og skiptingu nemendaígilda í reikniflokka. Í framhaldi af því fer fram uppgjör.“ Í 3. gr. samningsins segir jafnframt að í frumvarpi til fjárlaga skuli birta meðalvægi reikniflokka skólans fyrir næsta fjárlagaár.

    7.1.2    Í 5. gr. samnings milli menntamálaráðuneytis og Kennaraháskóla Íslands segir að gert sé ráð fyrir að almennar fjárveitingar til rannsókna og annarra verkefna í KHÍ, þar með talinn aukakostnaður vegna skólans á Laugarvatni, verði 319,8 m.kr. árið 2004 og að árlegar fjárveitingar á samningstímanum nemi a.m.k. þeirri upphæð og taki verðlagsbreytingum skv. almennum viðmiðum fjárlaga hverju sinni.

    7.1.3    Rekstrargjöld Kennaraháskóla Íslands á árinu 2005 námu 1.541 m.kr. Heildartekjur skólans voru 1.525,7 m.kr. Fjárheimildir ársins námu 1.287,4 m.kr., sértekjur voru 233,9 m.kr. og fjármunatekjur 4,3 m.kr. Gjöld umfram tekjur ársins námu 15,3 m.kr. Uppsafnaður tekjuafgangur fyrri ára nam 55,7 m.kr. Óráðstafað eigið fé skólans í árslok 2005 nam því 40,4 m.kr. Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir skólans 63,1 m.kr. og skuldir 22,7 m.kr. í árslok 2005.

7.2    Fjárhagur Háskóla Íslands

    7.2.1    Framlög á fjárlögum til Háskóla Íslands byggja á tveimur samningum milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um kennslu og rannsóknir. Núgildandi samningar voru undirritaður 19. desember 2003 og gilda fyrir tímabilið 2004 til 2006. Samningur ráðuneytisins og HÍ um kennslu er efnislega samhljóma ákvæðum í samningi KHÍ og ráðuneytisins um kennslu, en samningur ráðuneytisins og HÍ um rannsóknir er ítarlegri en samsvarandi ákvæði í samningi ráðuneytisins og KHÍ. Í samningi ráðuneytisins og HÍ um rannsóknir segir í 4. gr. að gert sé ráð fyrir að almennar fjárveitingar til rannsókna og annarra verkefna í HÍ verði 1.269 m.kr. árið 2004 og taki verðlagsbreytingum skv. almennum viðmiðum fjárlaga hverju sinni.

    7.2.2    Rekstrargjöld Háskóla Íslands á árinu 2005 námu 7.149,4 m.kr. Heildartekjur skólans voru 7.179,2 m.kr. Fjárheimildir ársins námu 4.706,8 m.kr., sértekjur voru 2.430,1 m.kr. og fjármunatekjur 12,4 m.kr. Gjöld umfram tekjur ársins námu 29,8 m.kr. Höfuðstóll í árslok 2005 var neikvæður um 103,5 m.kr. Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir HÍ 957,5 m.kr. og skuldir 1.061 m.kr. í árslok 2005.

7.3    Árið 2000 var núgildandi aðferð tekin upp um ákvörðun fjárveitinga af fjárlögum til kennslu í HÍ og KHÍ. Aðferðin felst í því að námi við háskólana er skipt í sjö misdýra reikniflokka. Ýmsar greinar félagsvísinda sem ódýrast er talið að kenna fá stuðulinn 1,0. Styttra nám á sviði tölvufræða og stærðfræði fær stuðulinn 1,6; kennaranám og annað hliðstætt nám fær stuðulinn 1,7; hjúkrunarnám og hliðstætt nám fær stuðulinn 1,8; nám í raunvísindum, verk- og tæknifræði fær stuðulinn 2,3; læknanám stuðulinn 3,2 og nám í tannlækningum stuðulinn 5,3. Greiðsla til háskóla miðast við fjölda sem þreytir próf á hverju ári. Framlaginu er ætlað að standa undir öllum venjulegum kostnaði við kennsluþátt háskólanna, m.a. kennslu, þjónustu, húsnæði, búnað og aðra aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk.

7.4    Aðferðinni er ekki ætlað að ákvarða nákvæmlega kostnað við að kenna tilteknar greinar innan hvers skóla heldur feli hún í sér einfalda og gagnsæja aðferð við að skipta opinberum fjárframlögum milli skólanna út frá nemendafjölda og námsgreinum. Þá sé hverjum skóla í sjálfsvald sett hvernig hann skipti opinberum fjárframlögum milli deilda.

7.5    Í Háskóla Íslands er fjármunum ekki deilt út til deilda í samræmi við reiknilíkanið heldur er háskólinn með sérstaka úthlutunaraðferð (deililíkan) til að skipta fjárframlögum milli deilda.

7.6    Í fjárhagsáætlun Kennaraháskóla Íslands sem samþykkt er af háskólaráði er ákveðið hvernig ráðstöfunarfé skólans er deilt út til kennslu, rannsókna og annarra verkefna. Innan hvers þessara flokka er ráðstöfunarfé skipt milli viðfangsefna.

7.7    Nemendum í Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Í Kennaraháskólanum hefur fjölgunin nánast eingöngu orðið í fjarnámi á síðustu fimm árum en í Háskóla Íslands hefur nemendum aðallega fjölgað í dagskóla. Í Kennaraháskóla Íslands er fjöldi nýnema takmarkaður við heimildir fjárlaga en í Háskóla Íslands eru engar fjöldatakmarkanir á mörgum námsbrautum.

7.8    Í samningum HÍ / KHÍ og menntamálaráðuneytisins um kennslu segir í 3. gr. að fjárveiting byggir m.a. á áætlun um fjölda og skiptingu nemendaígilda í reikniflokka. Í tengslum við fjárlög skuli gefa upp áætlað meðalframlag á nemendaígildi. Þá segir: „Almennt er ekki gert ráð fyrir viðbótarfjárveitingum þótt útreikningur gefi hærri niðurstöðu en sem nemur fjárveitingu í fjárlögum …“ Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar (apríl 2005) kemur fram að fjölgun nemenda í Háskóla Íslands hafi á undanförnum árum verið meiri en gert hafi verið ráð fyrir í forsendum fjárlaga og skólinn hafi ekki fengið það að fullu bætt.

7.9    Aðgerðir

    7.9.1    Samningar Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir renna út í árslok 2006. Gera þarf nýja samninga sem taka mið af fullri gildistöku sameiningar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands hinn 1. júlí 2008.

    7.9.2    Samningur Kennaraháskóla Íslands og menntamálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir rennur út í árslok 2006. Gera þarf nýjan samning sem tekur mið af áformum um sameiningu HÍ og KHÍ sem mun að fullu taka gildi 1. júlí 2008.

    7.9.3    Í tengslum við ákvarðanir um stjórnskipulag og skiptingu sameinaðs háskóla í skóla verði ákveðið hvernig fjárveitingum til kennslu og rannsókna verði deilt út til skóla og deilda í sameinuðum háskóla.

7.10    Þátttaka

    7.10.1    Rektor HÍ og menntamálaráðuneyti annast gerð nýrra samninga.

    7.10.2    Rektor KHÍ og menntamálaráðuneyti annast gerð nýs samnings.

    7.10.3    Háskólaráð HÍ tekur ákvarðanir um skiptingu fjárveitinga til skóla og deilda að höfðu samráði við Kennaraháskóla Íslands og deildir innan Háskóla Íslands.

7.11    Tímasetningar

    7.11.1    Gerð nýrra samninga milli HÍ og menntamálaráðuneytis lokið fyrir árslok 2006.

    7.11.2    Gerð nýs samnings milli KHÍ og menntamálaráðuneytis lokið fyrir árslok 2006.

    7.11.3    Reglur um skiptingu fjárveitinga vegna kennslu og rannsókna liggi fyrir í árslok 2007.

7.12    Afrakstur

    7.12.1    Samningar HÍ og menntamálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir.

    7.12.2    Samningur KHÍ og menntamálaráðuneytis um kennslu og rannsóknir.

    7.12.3    Reglur um skiptingu fjárveitinga vegna kennslu og rannsókna.

8  Nemendur

8.1    Við Kennaraháskóla Íslands starfar Félag stúdenta við KHÍ. Félagið starfar samkvæmt eigin lögum og í því eru allir innritaðir nemendur við skólann. Stjórn félagsins heitir Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands (SKHÍ). Í stúdentaráði sitja sex fulltrúar kjörnir á aðalfundi og einn frá Nemendafélagi íþróttabrautar. SKHÍ rekur skrifstofu og ræður framkvæmdastjóra sem starfar skv. samningi við SKHÍ. Helstu verkefni framkvæmdastjóra eru að sjá um bókhald, innheimtu félagsgjalda, útgáfu fréttabréfa, þjónustu við stúdenta og ýmis önnur störf sem stjórnin felur honum.

8.2    Stúdentaráð KHÍ rekur bóksölu sem leitast við að bjóða námsbækur, ritföng og ljósritun á sem hagstæðustu verði fyrir stúdenta. SKHÍ er aðili að Bandalagi íslenskra sérskólanema (BÍSN) sem er hagsmunafélag nemenda sem m.a. sér um sameiginlega útgáfu. Einnig er SKHÍ aðili að Byggingafélagi námsmanna (BN) sem sér m.a. um að byggja og leigja út ódýrar íbúðir fyrir aðildarfélaga.

8.3    SKHÍ rekur styrktarsjóð SKHÍ og er hlutverk hans að styrkja menningarstarf nemenda og faglega vinnu þeirra (útgáfu eða rannsóknir). Styrkjum er úthlutað tvisvar á ári. Stúdentaráð heldur úti vef félagsins þar sem nálgast má upplýsingar um ýmis konar þjónustu s.s. einkunnir, vefpóst, stundatöflur og fréttir. Einnig er á vefnum umræðusíða.

8.4    Stúdentaráð á fulltrúa í öllum helstu ráðum og nefndum innan KHÍ. Tveir fulltrúar nemenda sitja í háskólaráði og sömuleiðis tveir í deildaráði og námsnefnd.

8.5    Stúdentaráð Háskóla Íslands er málsvari allra stúdenta við háskólann og fer með þau mál er varða hagsmuni þeirra gagnvart háskólayfirvöldum, stjórnvöldum og öðrum þeim sem áhrif hafa á stefnu háskólans. Í stúdentaráði eru 20 fulltrúar stúdenta frá þremur fylkingum, Háskólalistanum, Röskvu og Vöku.

8.6    Stúdentaráð tilnefnir þrjá fulltrúa í stjórn Félagsstofnunar stúdenta, einn í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, einn í stjórn Æskulýðssambands Íslands, auk þess sem tveir stúdentar sitja í háskólaráði. Skrifstofa stúdentaráðs er til húsa í Félagsheimili stúdenta við Hringbraut, en á skrifstofunni er að finna húsnæðismiðlun, kennslumiðlun, tungumálamiðlun, barnagæslumiðlun og réttindaskrifstofu. Stúdentaráð hefur í vörslu sinni svonefndan Stúdentasjóð sem styrkir félög og einstaklinga innan skólans til fræða og menningarstarfs. Stúdentaráð gefur út Stúdentablaðið.

8.7    Félagsstofnun stúdenta (FS) er sjálfseignarstofnun með sjálfstæðri fjárhagsábyrgð. Hún var stofnuð með lögum nr. 33/1968. Stofnunin er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki fyrir stúdenta við Háskóla Íslands. Starfsmenn stofnunarinnar eru um 100. Aðalmarkmið með rekstrinum er að bjóða stúdentum við HÍ góða þjónustu á sem hagkvæmustum kjörum og tryggja öruggan rekstrargrundvöll stofnunarinnar. Auk tekna af fyrirtækjum þeim er Félagsstofnun stúdenta ræður yfir skal fjár til byggingarframkvæmda, rekstrar fyrirtækja og eflingar þeirra aflað m.a. með árlegum skrásetningargjöldum stúdenta sem renna að hluta til stofnunarinnar og með framlagi úr ríkissjóði, eftir því sem Alþingi ákveður hverju sinni. Félagsstofnun stúdenta er undanþegin tekjuskatti og útsvari.

8.8    Félagsstofnun stúdenta rekur margháttaða þjónustu svo sem Stúdentagarða, Bóksölu stúdenta, Kaffistofur stúdenta, Stúdentamiðlun og Leikskóla FS. Félagsstofnun stúdenta styrkir einnig rannsóknir stúdenta, Stúdentaráð Háskóla Íslands og félög háskólastúdenta með útgáfustyrkjum eða á annan hátt.

8.9    Við Háskóla Íslands starfa fjölmörg félög stúdenta, flest á vegum einstakra deilda skólans, en stúdentasjóður styður m.a. við menningar- og félagslíf í deildum skólans. Deildarfélög standa fyrir félagslífi fyrir nemendur allan veturinn. Auk þess starfa m.a. háskólakór, stúdentaleikhús og kvikmyndaklúbbur.

8.10    Í skýrslu nefndar um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands kemur fram að meðal meginmarkmiða sameiningarinnar sé að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt kennaranámi og jafnframt að efla stoðþjónustu og auka stuðning við nemendur og starfsfólk. Í skýrslunni er einnig lögð áhersla á að stúdentar og samtök þeirra verði virkir þátttakendur í sameiningarferlinu. Í tengslum við sameininguna þurfi jafnframt að huga að stöðu og eignum samtaka stúdenta.

8.11    Aðgerðir

    8.11.1    Ákveða þarf hvað verður um stofnanir og samtök stúdenta við sameiningu HÍ og KHÍ. Taka þarf ákvörðun um hvort stofnanir og samtök verði sameinuð og ef svo er, hvað verði um eignir og skuldbindingar samtakanna. Kanna þarf sérstaklega aðild Stúdentaráðs KHÍ að Bandalagi íslenskra sérskólanema og Byggingafélagi námsmanna.

8.12    Þátttaka    

    8.12.1    Sameiginlegur starfshópur stúdentaráða HÍ og KHÍ gerir tillögur um hvort samtök og stofnanir stúdenta í háskólunum sameinast og ef svo verður hvernig að þeirri sameiningu verður staðið og hvað verður um eignir og skuldbindingar samtakanna.

    8.12.2    Stúdentaráð HÍ og KHÍ taka ákvarðanir um hugsanlega sameiningu samtaka og stofnana stúdenta.

8.13     Tímasetningar

    8.13.1    Vinna starfshópa stúdentaráða HÍ og KHÍ hefst í janúar 2007 og tillögur liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2007.

8.14    Afrakstur

    8.14.1    Ákvarðanir um framtíð stofnana stúdenta og samtaka þeirra.

9  Stoðþjónusta

9.1    Í skýrslu nefndar um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands kemur fram að meðal markmiða sameiningarinnar sé að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk. Í bæði KHÍ og HÍ stendur kennurum og nemendum til boða margs konar stoðþjónusta vegna kennslu, náms, rannsókna og persónulegra aðstæðna. Í sumum tilvikum er stoðþjónustan sambærileg í háskólunum tveimur en í öðrum ekki. Þá er í báðum skólum stoðþjónusta sem tengist rekstri og starfsmannahaldi sem þarf að sameina eða samþætta.

9.2    Hlutverk Menntasmiðju Kennaraháskóla Íslands er að veita nemendum og starfsfólki þjónustu vegna náms, kennslu og rannsókna. Menntasmiðjan skiptist í tvær deildir, safn og smiðju. Í Menntasmiðju er veittur aðgangur að heimildum, sérhæfðum tækjakosti og hugbúnaði. Þar er einnig veitt leiðsögn og aðstoð á sviði kennslutækni, gagnagerðar, og upplýsinga- og samskiptatækni og heimildaöflun.

9.3    Hlutverk Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands er að stuðla að þróun kennsluhátta við háskólann með því að veita deildum, skorum og einstaka kennurum faglega ráðgjöf og leiðbeiningar um þróun kennslu og kennsluhátta, hvort sem er á sviði upplýsingatækni eða kennslufræði. Hún stendur fyrir vinnustofum, kynningum og námskeiðum tengdum hagnýtingu upplýsingatækni og kennslufræði í háskólakennslu. Kennslumiðstöðinni er ætlað að mæta ólíkum þörfum kennara og misjöfnu þekkingarstigi þeirra. Kennslumiðstöð HÍ sér jafnframt um tæknimál fjarkennslu.  

9.4    Hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns er m.a. að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi í Háskóla Íslands, halda uppi bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu rannsókna og gefa háskólastúdentum kost á vinnuaðstöðu og greiðum aðgangi að gögnum. Fyrir utan aðstöðu í Þjóðarbókhlöðu er víða innan HÍ aðstaða til tölvunotkunar og lesrými fyrir nemendur.

9.5    Bókasafn Kennaraháskóla Íslands er hluti af Menntasmiðju skólans. Safnið er einkum ætlað nemendum og starfsmönnum KHÍ en er jafnframt opið öðrum sem sérfræðisafn á sviði kennslu, uppeldis, umönnunar og þjálfunar. Í safninu er veitt öll almenn bókasafnsþjónusta, s.s. útlán, millisafnalán, upplýsingaþjónusta og aðstoð við heimildaleit. Þar er sérstakt kennslugagnasafn og veitt ráðgjöf um kennsluefni og kennsluaðferðir vegna vettvangsnáms. Þá stendur safnið fyrir kennslu í upplýsingaöflun sem fellur inn í ákveðin námskeið.

9.6    Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands nota samskonar hugbúnað til að skrá nemendur í námskeið og próf. Í nemendaskrám skólanna eru upplýsingar um námsferil nemenda og einkunnir. KHÍ og HÍ hafa samstarf um vef- og upplýsingakerfið Uglu. Ugla er öflugur upplýsinga-, kennslu- og þjónustuvefur nemenda og starfsfólks þessara stofnana.

9.7    Námsráðgjöf KHÍ er ætlað að veita nemendum þjónustu í málum sem tengjast námi þeirra, persónulegum högum og náms- og starfsvali. Hlutverk námsráðgjafarinnar er m.a. að stuðla að því að sem flestir nemendur nái settu marki í námi sínu, að vinna að því að persónuleg vandamál raski sem minnst námi þeirra, að hafa fyrirliggjandi aðgengilegar upplýsingar um námskröfur og námsleiðir innan skólans, auk þess að miðla upplýsingum um framhaldsnám. Hlutverk Námsráðgjafar HÍ er í meginatriðum að veita nemendum háskólans ráðgjöf og stuðning sem stuðlar að árangri og vellíðan í námi og starfi, að bera ábyrgð á stuðningskerfi fatlaðra stúdenta, auk þess að veita aðstoð vegna persónulegra vandamála.

9.8    Háskólaútgáfa HÍ sinnir útgáfu á frumsömdum og þýddum verkum er varða rannsóknir og kennslu við skólann. Á tveimur seinustu árum var fjöldi nýrra titla rúmlega 140. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands gefur út tímarit og skýrslur, en útgáfu bóka var hætt 2005. Á árunum 2004–2005 voru gefnar út fimm bækur, átta tölublöð tímarita og um þrjátíu skýrslur.

9.9    Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins veitir upplýsingar og aðstoð vegna þátttöku í fjölþjóðlegum samstarfsáætlunum í menntamálum. Skrifstofan þjónar stúdentum sem fara utan sem skiptinemar og aðstoðar þá sem hingað koma. Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins gegnir jafnframt hlutverki alþjóðaskrifstofu HÍ og annast formleg samskipti HÍ við erlendar menntastofnanir og veitir stúdentum, kennurum, skorum og deildum HÍ ýmsa þjónustu varðandi alþjóðlegt samstarf.

9.10    Reiknistofnun Háskóla Íslands (RHÍ) sér um alla tölvu- og símþjónustu á svæði Háskóla Íslands. Reiknistofnun HÍ rekur 18 tölvuver í byggingum á háskólasvæðinu. Í tölvuverum geta einstaklingar með notandanafn fengið afnot af tölvubúnaði, hugbúnaði, prentþjónustu og háhraða Internettengingu. RHÍ býður nemendum og starfsmönnum Háskóla Íslands jafnframt upp á víðtæka netþjónustu. RHÍ er rekstraraðili símkerfis Háskóla Íslands.

9.11    Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands eru aðilar að Rannsókna- og háskólaneti Íslands hf. (RHneti). Tilgangur RHnets er að annast alþjóðlega tölvunetsþjónustu byggða á Internet stöðlum fyrir rannsóknastofnanir og háskóla, að eiga hlutdeild að alþjóðlegum háskólanetum og stuðla að sem hagkvæmastri uppbyggingu tölvunets á landsvísu fyrir rannsóknastofnanir og háskóla. RHnet er jafnframt, fyrir hönd HÍ, samskiptaaðili við norræna rannsókna- og háskólanetið, NORDUnet, sem Háskólinn er hluthafi í. RHnet vinnur að því að koma á lokuðu háskóla- og rannsóknaneti um landið sem tengist gáttinni til NORDUnet í Tæknigarði, með það að markmiði að netið verði virkt net háskóla- og rannsóknastofnana á Íslandi og vettvangur til að rækta samstarf með þeim sem að því koma.

9.12    Smiðjuhluti Menntasmiðju Kennaraháskóla Íslands rekur tölvukerfi skólans og veitir margháttaða þjónustu við notkun tölva og annarra tækja. Um 430 tölvur í eigu skólans eru í notkun og um 1.500 fartölvur nemenda eru tengdar þráðlausu neti. Tölvuver eru fimm í þremur byggingum. Hljóð- og myndupptökur af kennslu og miðlun á neti til fjarnema fara fram á vegum smiðju. KHÍ er með samning við Skýrr hf. um afnot og aðgang að WeCT sem notað er vegna fjarkennslu og þjónustað af smiðju en einnig eru notuð önnur kerfi til að styðja við umfangsmikla og fjölbreytta fjarkennslu. Í smiðju er umsjón með innkaupum á tölvum, tækjum og öðrum búnaði til kennslu og rannsókna. Smiðja rekur vefkerfi KHÍ og vefstjóri starfar innan hennar.

9.13    Stjórnsýsla Kennaraháskóla Íslands:

    9.13.1    Á skrifstofu rektors Kennaraháskóla Íslands fer fram afgreiðsla ýmissa mála sem heyra undir embætti rektors, s.s. svara erindum sem rektor og skólanum berast, undirbúa háskólaráðsfundi, eiga samstarf við fjölmargar nefndir og starfshópa auk þess að þjóna sem best kennurum og öðrum starfsmönnum skólans. Skjalasafn skólans heyrir undir skrifstofu rektors. Þá annast skrifstofa rektors ýmis verkefni s.s. útgáfu Ársskýrslu Kennaraháskóla Íslands.

    9.13.2    Sameiginleg stjórnsýsla Kennaraháskóla Íslands skiptist í fjögur svið: kennslusvið, rannsóknarsvið, þjónustusvið og rekstrarsvið. Kennslusvið annast málefni sem lúta að kennslu á sviði grunnmenntunar, framhaldsmenntunar og símenntunar. Rannsóknarsvið annast málefni sem tengjast rannsóknum innan KHÍ, rannsóknasjóðum, rannsóknarstarfsemi, alþjóðlegum rannsóknar – og þróunarverkefnum, þjónusturannsóknum og starfi Rannsóknarstofnunar. Þjónustusvið annast málefni Menntasmiðju KHÍ, þ.e. þjónustu til stuðnings námi, kennslu og rannsóknum í skólum, auk þess sem tölvu- og kerfisþjónusta skólans heyrir undir þjónustusvið. Rekstrarsvið Kennaraháskóla Íslands annast málefni er lúta að rekstri, fjármálastjórn, fjárhagsáætlunum, reikningshaldi, rekstri og viðhaldi bygginga og almennum starfsmannamálum.

9.14    Stjórnsýsla Háskóla Íslands:

    9.14.1    Starfsemi skrifstofu rektors helgast fyrst og fremst af því að framfylgja lögskipuðu hlutverki háskólarektors. Í þessu felst m.a. umsjón með málefnum sameiginlegrar stjórnsýslu Háskólans, háskólafundi, fundum háskólaráðs, fundum rektors með deildarforsetum og ársfundi Háskólans. Þróunarmál og gæðamál heyra undir skrifstofu rektors.

    9.14.2    Sameiginleg stjórnsýsla Háskóla Íslands skiptist í sex svið: Framkvæmda- og tæknisvið sem sér um viðhald bygginga og lóða, húsbúnaðarkaup, leigusamninga og tryggingar, rekstur bygginga, öryggismál o.fl., fjármálasvið sem annast fjárhagsáætlanir, reikningshald, innkaup, launamál, ferðaheimildir o.fl., starfsmannasvið sem ber ábyrgð á framkvæmd starfsmannastefnu, starfs- og árangursmati, starfsauglýsingum, starfsfræðslu, starfsmannaskrá, starfsmannahandbókum o.fl., kennslusvið sem sér um stjórnsýsluleg málefni, lög og reglur, jafnréttismál, kennsluskrá, prófaumsýslu, nemendaskrá, námsráðgjöf, kennslumiðstöð, og tungumálamiðstöð, vísindasvið sem hefur umsjón með rannsóknasjóðum, dómnefndum, mat á störfum, rannsóknamisseri, staðtölum, Rannsóknaþjónustu o.fl. og markaðs- og samskiptasvið sem ber ábyrgð á fjölmiðlatengslum, kynningarefni, skipulagningu viðburða, styrktarsjóðum, vef, hollvinastarfi o.fl.. Hlutverk sameiginlegrar stjórnsýslu Háskóla Íslands er að skapa deildum, stofnunum og starfsfólki skilyrði til að vinna störf sín í samræmi við stefnu skólans sem og lög og reglur skólans. Rektor ræður stjórnendur og aðra starfsmenn sameiginlegrar stjórnsýslu.

9.15    Aðgerðir

    9.15.1    Skipaður verði starfshópur til fjalla um tilhögun bókasafns og upplýsingaþjónustu í sameinuðum háskóla.

    9.15.2    Skipaður verði starfshópur til að fjalla um námsráðgjöf, nemendaskrá og kennslumiðstöð í sameinuðum háskóla.

    9.15.3    Skipaður verði starfshópur til að fjalla um útgáfumál í sameinuðum háskóla.

    9.15.4    Skipaður verði starfshópur til að fjalla um fjármál, rekstur og starfsmannahald í sameinuðum háskóla.

    9.15.5    Skipaður verði starfshópur til að fjalla um stoðkerfi rannsókna og rannsóknasjóði í sameinuðum háskóla.

    9.15.6    Skipaður verði starfshópur til að fjalla um rekstur tölvukerfa, vefþjónustu, tæknilega tilhögun fjarkennslu, símamál o.fl.

    9.15.7    Skipaður verði starfshópur til að fjalla um þjónustu við þróun kennsluhátta við sameinaðan háskóla hvort sem er á sviði upplýsingatækni eða kennslufræði.

9.16    Þátttaka

    9.16.1    Rektorar beggja háskóla skipa fulltrúa í starfshópa um stoðþjónustu.

9.17    Tímasetningar

    9.17.1    Vinnu starfshópa verði lokið fyrir árslok 2007.

9.18    Afrakstur

    9.18.1    Skýrslur starfshópa um stoðþjónustu í sameinuðum háskóla.

10  Tímaáætlun

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.11  Kostnaður

11.1    Kostnaður við sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands er tvíþættur; annars vegar kostnaður við sameiningarferlið og hins vegar kostnaður vegna sameiningar skólanna. Í umfjöllun um kostnað verður fjallað um hvorttveggja, en ekki tekin afstaða til þess hver ber kostnaðinn. Hægt er að áætla gróflega kostnað við sameiningarferlið sem er aðallega launakostnaður vegna vinnu starfshópa við undirbúning sameiningar og kostnaður við formlega úttekt. Hins vegar er ekki hægt að meta kostnað við sameiningu á þessu stigi máls þar sem of mörgum spurningum er enn ósvarað.

11.2    Vinna sem tengist beint eða óbeint sameiningu háskólana verður umtalsverð. Samkvæmt aðgerðaráætlun er gert ráð fyrir miklu samráði og að margir starfshópar verði skipaðir til að fjalla um og gera tillögur um tilgreind málefni. Ekki liggur fyrir hversu margir starfshópar verða skipaðir. Lauslega áætlað munu vinnustundir vegna sameiningar háskólanna verða á bilinu 2.500 til 3.000 stundir. Áætlaður kostnaður er tólf til fimmtán milljónir króna.

11.3    Lagt er til að gerð verði úttekt á sameiningarferlinu og mat lagt á árangur af sameiningu. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við slíkt mat verði þrjár til fjórar milljónir króna.

11.4    Sameining háskólanna er mikið verk og margir munu koma að því. Lagt er til að ráðinn verði verkefnisstjóri til að halda utan um sameiningarferlið og verði rektorum til aðstoðar við framkvæmdina. Gera má ráð fyrir einu stöðugildi sérfræðings í tuttugu og fjóra mánuði og að kostnaður verði um tólf milljónir króna.

11.5    Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við sameiningarferlið verði því 27 til 31 milljón króna.

11.6    Stefnt að því að sameinuðum háskóla verði skipt upp í skóla. Hvorki liggur fyrir hversu margir skólarnir verða né aðrar ákvarðanir um breytt stjórnskipulag. Ekki er hægt að áætla breytingar á kostnaði við stjórnsýslu sameinaðs háskóla nema frekari upplýsingar liggi fyrir um nýtt skipulag stjórnsýslunnar.

11.7    Við sameiningu verður hægt að sameina eða samþætta einhverja þætti í stoðþjónustu, s.s. umsýslu fjármála, starfsmannahald, tölvuþjónustu og fleira. Með slíkri samþættingu ætti að verða hægt að lækka fastan kostnað. Hins vegar má búast við að slíkur sparnaður verði óverulegur þar sem breytilegur kostnaður vegur þungt í stoðþjónustu og hann mun ekki minnka.

11.8    Ákvæði kjarasamninga og stofnanasamninga eru annað hvort samhljóma eða mjög lík. Þá eru starfsreglur háskólanna er tengjast kjörum starfsmanna mjög sambærilegar. Samræma þarf ákvæði samninga og reglur um rannsóknamisseri, ferðastyrki o.fl. Óljóst er hversu mikið þetta mun kosta.

11.9    Mögulega leiðir sameining háskólanna til þess að biðlaunaréttur myndist, enda þótt það sé yfirlýst stefna að allir starfsmenn haldi sambærilegum störfum og launakjör rýrni ekki. Kostnað er ekki hægt að meta á þessu stigi.

11.10    Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands eru með stoðkerfi og stofnanir sem styðja fjárhagslega við rannsóknarstarfsemi í skólunum. Ekki er hægt að meta kostnað við breytta skipun þessara mála fyrr en settar hafa verið samræmdar reglur um rannsóknasjóði og rannsóknastofnanir.

11.11    Skipa þarf starfshóp til að kanna valkosti í húsnæðismálum og ekki verður hægt að fjalla um kostnaðaráhrif fyrr en niðurstöður liggja fyrir. Ljóst er að það mun kosta mikið að flytja þá starfsemi sem nú er á Rauðarárholti á lóð Háskóla Íslands. Á móti kemur að mikil verðmæti eru í húseignum og lóðarréttindum á Rauðarárholti.

12  Úttekt á sameiningarferlinu

12.1    Starfshópurinn telur mikilvægt að gerð verði úttekt á sameiningarferlinu. Slík úttekt ætti að snúa að þremur meginþáttum; undirbúningi sameiningar, sameiningarferlinu og hvort sameiningin hafi leitt til þeirrar útkomu sem stefnt var að og fram kemur í skilagrein um fýsileika sameiningar og samþykktum háskólaráða Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

12.2    Sameining tveggja stærstu háskóla landsins er stór ákvörðun. Að baki henni liggur mikill undirbúningur, m.a. tvær skýrslur – Háskóli Íslands: Aukið samstarf, verkaskipting eða sameining (2002) og Skilagrein nefndar um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands (2006). Þá hafa háskólaráð beggja skóla lýst stuðningi við fyrirhugaða sameiningu en sett skilyrði fyrir stuðningi við áform um sameiningu skólanna. Í skilagrein um fýsileika sameiningar koma fram forsendur og markmið sameiningar skólanna. Í yfirlýsingum háskólaráðs Háskóla Íslands og háskólaráðs Kennaraháskóla Íslands koma fram hvers vænst sé með sameiningu skólanna.

12.3    Starfshópurinn sem vann að þessari áætlun er sammála um mikilvægi þess að fram fari úttekt á sameiningarferlinu að lokinni sameiningu skólanna. Markmið með úttekt er að meta hversu vel hafi tekist til að ná markmiðum sameiningar og meta hvort sameining hafi leitt til þeirrar niðurstöðu sem að var stefnt. Þá telur starfshópurinn að leggja þurfi mat á aðferðir og vinnubrögð við sameiningu háskólanna og með því megi draga lærdóm af svo umfangsmikilli sameiningu sem sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands er.

12.4    Í ljósi þessa er lagt til að úttekinni verði skipt í tvo hluta. Í fyrri hluta úttektar verði sameiningarferlið skoðað. Lagt verði mat á undirbúning sameiningar, tíma- og aðgerðaráætlun og framkvæmd sameiningar. Í seinni hluta úttektar yrði lagt mat á afrakstur sameiningar, þ.e. hversu vel hafi gengið að ná helstu markmiðum sameiningar sem tilgreind eru í sameiginlegri skilagrein háskólanna og samþykktum háskólaráða Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Að auki er æskilegt að metin verði önnur áhrif sameiningar, æskileg sem óæskileg. Starfshópurinn leggur til að fyrri hluti úttektar fari fram á seinni hluta ársins 2008, en seinni hluti úttektar fari fram 3–5 árum eftir sameiningu. Lagt er til að mat á árangri byggi bæði á sjálfsmati og mati óháðs aðila.

12.5    Nánar tiltekið er í fyrri hluta úttektar leitast við að svara spurningum um hversu vel var staðið að undirbúningi sameiningar, hvernig var staðið að gerð áætlunar um sameininguna, hversu raunhæf hún var og metið hvort nægt svigrúm var í henni til aðlögunar að breyttum aðstæðum. Þá ætti fyrri hluti úttektar að beina athyglinni að því hvernig staðið var að ákvörðunartöku um sameiningu, s.s. hvort aðrir valkostir voru skoðaðir, hvernig staðið var að kynningu á áformum um sameiningu og hvernig staðið var að opinni umræðu um málið.


12.6    Í síðari hluta úttektar ætti athyglin að beinast að árangri af sameiningu háskólanna. Spyrja ætti hversu vel hafi tekist til við að ná meginmarkmiðum með sameiningu skólanna, en í skilagreininni eru þau skilgreind:
     *      Að stuðla að eflingu háskólamenntunar á Íslandi með sameiningu háskólastofnana sem verða með því sterkari heild sem byggir á sérstöðu og sérhæfingu þeirra beggja.
     *      Að tryggja fjölbreyttara og sveigjanlegra námsframboð í grunn- og framhaldsnámi kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum og annarra uppeldisstétta.
     *      Að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt kennaranámi.
     *      Að styrkja kennslu og rannsóknir í uppeldis- og menntunarfræðum og skapa forsendur fyrir samþættingu slíkra rannsókna við aðrar rannsóknir sem stundaðar eru í sameinuðum háskóla.
     *      Að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk.
     *      Að skapa forsendur fyrir því að sameinuð stofnun veiti menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræða sem og annarra tengdra greina á Íslandi sem sé sambærilegt við það sem best gerist í okkar nágrannalöndum.

12.7    Þá ætti úttekin einnig að meta hvernig tækifæri voru nýtt til að:
     *      Auka fjölbreytni í námi og rannsóknum, auka sveigjanleika og fræðilega breidd.
     *      Auka samfellu og samþættingu í kennaramenntun fyrir öll skólastig.
     *      Efla framhaldsnám á meistara- og doktorsstigi.
     *      Auka hagkvæmni í stjórnsýslu og stoðþjónustu.
     *      Skapa sterkari heild.
     *      Bæta kennsluhætti, þróa sveigjanlegt námsform og efla símenntun.
     *      Skapa sterkari stöðu sameinaðs háskóla á alþjóðavettvangi.

12.8    Að auki ætti úttekin að leita svara við því hvernig tekist hafi til við að:
     *      Nýta styrk beggja háskóla sameinuðum háskóla til framdráttar.
     *      Stuðla að sameiginlegri stofnanamenningu og góðum starfsanda.
     *      Móta nýtt stjórnskipulag og fjármögnun kennslu og rannsókna.
     *      Tryggja öllum starfsmönnum sambærileg störf og sambærileg kjör.
     *      Virkja stúdenta og samtök þeirra í sameiningarferlinu.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um sameiningu Kennaraháskóla Íslands
og Háskóla Íslands.

    Í frumvarpinu er lagt til að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands sameinist undir nafni Háskóla Íslands frá og með 1. júlí 2008. Við gildistöku laganna tekur sameinaður háskóli, Háskóli Íslands, við eignum og skuldbindingum Kennaraháskóla Íslands. Sama gildir um ónýttar fjárheimildir Kennaraháskóla Íslands í fjárlögum 2008. Við gildistöku laganna flytjast störf ótímabundið ráðinna kennara og annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna skólans yfir til hins sameinaða háskóla en embætti rektors Kennaraháskóla Íslands verður lagt niður. Gera má ráð fyrir greiðslu einhverra biðlauna en óvíst er um fjárhæðir.
    Að óbreyttu er gert ráð fyrir að varanlegur kostnaður við samþykkt frumvarpsins verði ekki umfram fjárheimildir Kennaraháskólans sem samkvæmt frumvarpinu flytjast yfir til hins nýja sameinaða skóla. Tímabundinn kostnaður við sameininguna má áætla að verði 16 m.kr. á árinu 2007 og 14 m.kr. á árinu 2008, eða um það bil 30 m.kr. samtals sem rúmast innan fjárheimilda menntamálaráðuneytis.