Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 220. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 537  —  220. mál.
Viðbót.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Sesselju Árnadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Skúla Guðmundsson frá Þjóðskrá, Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristbjörgu Stephensen frá Reykjavíkurborg. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Akraneskaupstað, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Hveragerðisbæ, Ísafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Skipulagsstofnun, Sveitarfélaginu Árborg og talsmanni neytenda. Að auki hefur nefndinni borist tilkynning frá Lögmannafélagi Íslands.
    Tilurð þessa frumvarps er sú að í nýlegum dómi Hæstaréttar Íslands var synjun sveitarfélags á skráningu lögheimilis í frístundabyggð talin fela í sér frávik frá stjórnarskrárvörðum rétti einstaklings til að ráða búsetu sinni, sbr. 4. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Landið allt er samkvæmt lögum skipulagsskylt og þrátt fyrir að sveitarfélög hafi með höndum gerð skipulags virðist mega ráða af dómnum að þau hafi ekki heimild til að setja þessu frelsi einstaklinganna skorður nema á grundvelli skýrrar lagaheimildar og í þágu almannaheilla. Þar sem sveitarfélög inna af hendi margs konar þjónustu mun ótakmarkaður réttur til lögheimilisskráningar vera til þess fallinn að raska áætlunum og fjárhag þeirra og því gerir frumvarpið ráð fyrir að dvöl í skipulagðri frístundabyggð skuli ekki jafnað til lögheimilis eftir 1. janúar 2007.
    Á fundum nefndarinnar hafa komið fram þau sjónarmið að gildissvið frumvarpsins sé of takmarkað og að það skilji eftir önnur álitaefni tengd lögheimilisskráningu sem sum hver hafa risið eftir fyrrgreindan dóm. Í frumvarpinu er til að mynda tekið fram að því sé ekki ætlað að útiloka skráningu lögheimilis í sumarhúsum sem standa utan skipulagðrar frístundabyggðar ef viðkomandi einstaklingur á þar fasta búsetu. Annað álitaefni varðar það hvort réttur einstaklinga standi til þess að fá lögheimili skráð í atvinnuhúsnæði en um þetta ber sveitarfélögum ekki saman. Tvíþætt eðli lögheimilisskráningar, sem annars vegar felst í þeirri áherslu að hún fari saman við raunverulega búsetu og hins vegar í því að hún færi einstaklingum ýmis réttindi, gerir það að verkum að afstaða sveitarfélaga til hennar er á reiki. Af þessu leiðir að halda má fram sams konar röksemdum gegn skráningu lögheimilis í atvinnuhúsnæði og eiga við um skráningu í skipulagðri frístundabyggð óháð því hvar umsækjandinn er raunverulega með fasta búsetu. Sjónarmið um öryggi borgaranna kunna aftur á móti að standa til þess að skráning fari fram í því augnamiði að opinberir aðilar, eins og þeir sem hafa með höndum brunaeftirlit og heilbrigðiseftirlit, hafi vitneskju um hvar fólk raunverulega býr.
    Skráning lögheimilis hefur áhrif á framkvæmd ýmissa laga og þess vegna leggur nefndin áherslu á að allir hlutaðeigandi aðilar komi saman til að ná sátt um heildarstefnumótun og útfærslu lögheimilisskráningar að teknu tilliti til þeirra réttinda sem henni eru samfara. Nefndin fagnar nýlegri ákvörðun félagsmálaráðherra um að koma á fót starfshópi til að fjalla um vandamál sem tengjast fastri búsetu í atvinnuhúsnæði. Væntir nefndin þess að tillögur starfshópsins liggi fyrir nægilega fljótt til að hægt verði að gera nauðsynlegar og varanlegar lagabreytingar fyrir lok vorþings. Þá bendir nefndin á að þar sem dómsmálaráðherra fer með stjórn Þjóðskrár sé eðlilegt að breytingar á lögheimilislögum muni í framtíðinni heyra undir hans verkefnasvið.
    Nefndin leggur til þá breytingartillögu að skráning lögheimilis í frístundabyggð sem framkvæmd hefur verið fyrir 1. janúar 2007 verði bundin við persónu rétthafa og þá sem eru nákomnir honum en falli niður við flutning þeirra úr viðkomandi húseign. Frumvarpið gerir ráð fyrir að réttur til lögheimilis sé bundinn við viðkomandi húseign en með breytingunni er ætlunin að stuðla að auknu jafnvægi milli hagsmuna einstakra fasteignareigenda í sömu frístundabyggð.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndri breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali

Alþingi, 4. des. 2006.


Dagný Jónsdóttir,

form., frsm.

Kjartan Ólafsson.

Guðjón Hjörleifsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.

Lúðvík Bergvinsson.

Helgi Hjörvar.


Pétur H. Blöndal.

Birkir J. Jónsson.

Magnús Þór Hafsteinsson.