Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 232. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 539  —  232. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (viðurlagaákvæði).

Frá sjávarútvegsnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson og Árna Múla Jónasson frá sjávarútvegsráðuneytinu, Hrefnu Gísladóttur frá Fiskistofu, Jóhann Baldursson og Halldór B. Nellet frá Landhelgisgæslunni, Óskar Þór Karlsson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Bjarna Áskelsson frá Samtökum fiskmarkaða, Guðberg Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Guðjón Ármann Einarsson og Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda. Einnig hafa nefndinni borist umsagnir frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Íslandsmarkaði, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi smábátaeigenda, ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar og Samtökum fiskvinnslustöðva. Þá hafa nefndinni borist tilkynningar frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík og Lögmannafélagi Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á viðurlagaákvæðum í ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar. Þar má helst nefna þau sem varða sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa, lágmarkssektir og upptöku afla og/eða veiðarfæra.
    Nefndin telur að almennt ríki ánægja með breytingarnar, einkum þá tilhögun frumvarpsins að afnema lögbundin sektarlágmörk vegna tiltekinna brota og kveða á um að veita skuli skriflega áminningu vegna tiltekinna fyrstu minni háttar brota sem að öðrum kosti mundu varða veiðileyfissviptingu eða afturköllun vigtunarleyfis. Þau sjónarmið hafa þó komið fram á fundum nefndarinnar að það fyrirkomulag að lögbinda lágmarkstíma veiðileyfissviptinga og afturkallana á vigtunarleyfum séu verulega íþyngjandi og að beiting slíkra viðurlaga þurfi að vera komin undir heildstæðu mati hlutaðeigandi stjórnvalds á öllum aðstæðum.
    Nefndin tekur undir þetta sjónarmið að vissu marki en álítur jafnframt að ekki sé ástæða til að gefa hlutaðeigandi stjórnvöldum of frjálsar hendur við ákvörðun viðurlaganna. Er því lagt til að ákvæðum 2. efnismgr. 2. gr., 2. efnismgr. 3. gr. og 2. efnismgr. 12. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að lögbundinn lágmarkstími sviptingar og afturköllunar verði styttur.
    Einnig leggur nefndin til þá breytingu á 1. málsl. 1. efnismgr. 8. gr. og 1. málsl. 1. efnismgr. 13. gr. frumvarpsins að upptöku afla og/eða veiðarfæra í þeim tilvikum sem þar er fjallað um skuli einvörðungu beitt þegar um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot er að ræða. Þar af leiðandi verða ákvæði 3. málsl. 1. efnismgr. 8. gr. og ákvæði 2. málsl. 1. efnismgr. 13. gr. óþörf og falla brott.
    Megintilgangurinn með fyrrgreindum tillögum er að gefa stjórnvöldum og dómstólum aukið svigrúm til að taka vægilegar á minni háttar brotum en þó þannig að fælniáhrif umræddra ákvæða haldist.
    Að lokum er lagt til að orðalag 1. málsl. 1. efnismgr. 8. gr. og 1. málsl. 1. efnismgr. 13. gr. verði einfaldað þannig að skýrt komi fram að ólögmætur afli skuli sæta upptöku undir þeim kringumstæðum sem þar er fjallað um. Í frumvarpsgreininni er gert ráð fyrir að það sé hlutverk dómstóla að meta hvort sennilegt sé að heildarafli, eða eftir atvikum hluti hans, sé fenginn með ólögmætum hætti. Tillagan felur ekki í sér neina efnisbreytingu.
    Nefndin mælir með að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Magnús Þór Hafsteinsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Jón Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

    Alþingi, 4. des. 2006.

Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Jóhann Ársælsson.Jón Gunnarsson.


Þórdís Sigurðardóttir.


Kjartan Ólafsson.