Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 437. máls.
2. uppprentun.

Þskj. 548  —  437. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til vegalaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að setja reglur um vegi og veghald sem stuðla að greiðum og öruggum samgöngum.

2. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði laganna gilda um vegi sem ætlaðir eru til umferðar ökutækja og veghald þeirra. Ákvæði laganna gilda einnig eftir því sem við getur átt um vegi og stíga sem ætlaðir eru til annarrar umferðar.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Býli: Íbúðarhúsnæði þar sem föst búseta er og skráð lögheimili.
     2.      Notkunargjald: Gjald sem greitt er fyrir notkun vega, t.d. mælt eftir eknum km, tíma dagsins, stærð ökutækis eða umhverfisáhrifum.
     3.      Umferðaröryggisstjórnun vega: Aðferðir til að auka umferðaröryggi, svo sem umferðaröryggismat, umferðaröryggisrýni, lagfæring slysastaða og umferðaröryggisúttekt.
     4.      Veggjald: Gjald sem greitt er fyrir rétt til að nota tiltekinn veg eða vegarkafla, á tilteknum tíma í tiltekin skipti.
     5.      Veghald: Forræði yfir vegi og vegsvæði, þ.m.t. vegagerð, þjónusta og viðhald vega.
     6.      Veghaldari: Sá aðili sem hefur veghald vegar.
     7.      Vegtengigjald: Gjald sem veghaldari getur lagt á fasteignareiganda vegna lagningar héraðsvegar að býli eða atvinnustarfsemi.
     8.      Vegur: Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og vegsvæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.
     9.      Þéttbýli: Svæði sem fellur undir skilgreiningu þéttbýlis samkvæmt skipulagslögum.

II. KAFLI
Stjórn vegamála.
4. gr.
Yfirstjórn vegamála.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn vegamála. Vegagerðin annast þátt ríkisins samkvæmt lögum þessum og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra, nema annað sé ákveðið í lögunum. Til að stjórna framkvæmdum í vegamálum skipar ráðherra vegamálastjóra til fimm ára í senn og veitir hann Vegagerðinni forstöðu.
    Vegagerðin skal við framkvæmd vegamála leitast við að bjóða út alla hönnun, nýbyggingar, viðhald, þjónustu og eftirlit.

5. gr.
Vegagerðin.

    Helstu verkefni Vegagerðarinnar eru sem hér segir:
     a.      Veghald þjóðvega.
     b.      Aðstoð við ráðherra við mótun og framkvæmd stefnu stjórnvalda í samgöngumálum.
     c.      Vinna í samræmi við markmið samgönguáætlunar hverju sinni.
     d.      Skipting fjárveitinga til annarra vega en þjóðvega sem ætlaðir eru til almennrar umferðar og kostaðir eru af fé ríkisins, allt eftir nánari staðfestingu ráðherra.
     e.      Umsjón með rannsóknum og þróun á sviði vegamála.
     f.      Rekstur ferja og flóabáta sem koma í stað þjóðvegasambands.
     g.      Umsjón og eftirlit með útboðum á almenningssamgöngum sem njóta ríkisstyrkja.
     h.      Umsjón með leyfisskyldri starfsemi samkvæmt öðrum lögum.
    Vegagerðinni er heimilt, með samþykki samgönguráðherra, að stofna félag eða félög sem hafa það hlutverk að sinna framkvæmda- og þjónustuverkefnum stofnunarinnar.
    Vegagerðin fer með önnur verkefni sem leiða af lögum þessum og öðrum lögum.
    Ráðherra skal kveða nánar á um verkefni og verksvið Vegagerðarinnar með reglugerð.

III. KAFLI
Flokkun vega.
6. gr.
Vegakerfi.

    Vegakerfi landsins skiptist í þjóðvegi, sveitarfélagsvegi, almenna stíga og einkavegi. Þjóðvegir og sveitarfélagsvegir skulu mynda eðlilegt, samfellt vegakerfi til tengingar byggða landsins.

7. gr.
Vegaskrá.

    Vegagerðin sér um gerð vegaskrár, sem er skrá yfir þjóðvegi.
    Vegagerðinni er heimilt, telji hún ástæðu til, að halda skrá yfir aðra vegi í náttúru Íslands þar sem umferð er takmörkuð eða árstíðabundin. Slík skrá skal gerð í samráði við Umhverfisstofnun og sveitarfélög. Engar skyldur hvíla á ríkissjóði vegna vega samkvæmt þessari málsgrein.

8. gr.
Þjóðvegir.

    Þjóðvegir eru þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá.
    Þjóðvegum skal skipað í flokka eftir eftirfarandi reglum:
     a.      Stofnvegir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til stofnvega teljast vegir sem tengja saman byggðir landsins. Við það vegakerfi sem þannig fæst skal tengja þéttbýlisstaði með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Til stofnvega teljast einnig umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vegir á hálendinu sem mikilvægir eru fyrir flutninga og ferðaþjónustu. Þar sem stofnvegur endar í þéttbýli skal hann ná að fyrstu þvergötu sem tilheyrir gatnakerfi þéttbýlisins og enda þar. Þó er heimilt að láta stofnveg ná til flugvallar og hafnar sem mikilvæg eru fyrir ferðaþjónustu og flutninga.
     b.      Tengivegir eru vegir utan þéttbýlis sem liggja af stofnvegi á stofnveg eða af stofnvegi á tengiveg og eru a.m.k. 10 km langir, vegir sem tengja landsvegi við stofnvegi, vegir sem ná til þéttbýlisstaða með færri en 100 íbúa og tengja þá við stofnvegakerfið, vegir að helstu flugvöllum og höfnum sem mikilvægar eru fyrir flutninga og ferðaþjónustu, og vegir að ferjuhöfnum ef þeir eru ekki stofnvegir, vegir að þjóðgörðum og innan þeirra og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum utan þéttbýlis. Þar sem tengivegur endar í þéttbýli skal tengja hann fyrstu þvergötu sem tilheyrir vegakerfi þéttbýlisins og enda þar.
     c.      Héraðsvegir eru vegir sem liggja að býlum, atvinnustarfsemi, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis sem ákveðnir eru á staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Héraðsvegur skal aldrei ná nær framangreindum stöðum en 50 m ef hann endar þar. Jafnframt er heimilt að taka í tölu héraðsvega vegi að sumarbústaðahverfum sem tengja að minnsta kosti 30 bústaði við þjóðveg.
     d.      Landsvegir eru vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki tilheyra neinum af framangreindum vegflokkum og aflagðir byggðavegir á eyðilendum. Á vegum þessum skal yfirleitt einungis gera ráð fyrir árstíðabundinni umferð og minna eftirliti og minni þjónustu en á öðrum þjóðvegum.

9. gr.
Sveitarfélagsvegir.

    Sveitarfélagsvegir eru vegir innan þéttbýlis sem ekki teljast þjóðvegir skv. 8. gr., eru í umsjá sveitarfélaga og ætlaðir almenningi til frjálsrar umferðar.

10. gr.
Almennir stígar.

    Almennir stígar eru reiðstígar, göngu- og hjólreiðastígar sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og haldið er við af fé ríkis eða sveitarfélaga.
    Ákvæði laganna um vegi gilda einnig um almenna stíga eftir því sem við á.

11. gr.
Einkavegir.

    Einkavegir eru vegir sem hvorki teljast þjóðvegir né sveitarfélagsvegir og eru í eigu einstaklinga, fyrirtækja eða opinberra aðila.

IV. KAFLI
Veghald.
12. gr.
Almennt.

    Veghaldari ber ábyrgð á veghaldi vegar. Við veghaldið skal gæta umferðaröryggis og að umferð eigi greiða og góða leið um vegi að teknu tilliti til umhverfis-, náttúru- og minjaverndar í samræmi við kröfur sem leiða af gildandi lögum á hverjum tíma.

13. gr.
Veghaldarar.

    Vegagerðin er veghaldari þjóðvega. Sveitarfélög eru veghaldarar sveitarfélagsvega.
    Eigendur einkavega hafa veghald þeirra.

14. gr.
Framsal veghalds þjóðvega.

    Vegamálastjóra er heimilt að fela sveitarstjórn veghald héraðsvega innan sveitarfélagsins, óski viðkomandi sveitarfélag eftir því. Fjárveitingar sem ráðstafa skal til þessara vega skv. 19. gr. renna óskertar til sveitarfélags sem tekur að sér veghald samkvæmt þessu ákvæði.
    Vegamálastjóra er jafnframt heimilt að fela einstaklingi, fyrirtæki, sveitarstjórn, stofnun eða samtökum þessara aðila veghald einstakra vegarkafla þjóðvega að nokkru eða öllu leyti.
    Um veghald skv. 1. og 2. mgr. skal gerður þjónustusamningur þar sem nánar skal kveðið á um skyldur veghaldara, þjónustustig, rétt til endurgjalds og annað sem málið varðar.

15. gr.
Eftirlit með veghaldi.

    Vegagerðin hefur eftirlit með því að veghaldi allra vega sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og kostaðir eru af fé ríkisins sé sinnt í samræmi við ákvæði laga þessara og skal hlutast til um úrbætur ef út af bregður. Telji Vegagerðin að umferð stafi hætta af skal gera lögreglu viðvart.
    Nú er gerður þjónustusamningur um veghald skv. 3. mgr. 14. gr. og skal þá Vegagerðin hafa eftirlit með að veghald vega sem um er að ræða sé framkvæmt í samræmi við samninginn. Sé um vanrækslu að ræða að mati Vegagerðarinnar skal hún gefa veghaldara fyrirmæli um að framkvæma nauðsynlegar umbætur innan hæfilegs frests. Ef umbætur eru ekki gerðar í samræmi við fyrirmæli getur Vegagerðin látið framkvæma þær á kostnað veghaldara og/eða rift samningi við hann.
    Innan Vegagerðarinnar skal vera starfrækt óháð deild sem heyrir beint undir vegamálastjóra og skal sjá um innra eftirlit með veghaldi stofnunarinnar, þ.m.t. umferðaröryggi vega.
    Ef viðkomandi lögreglustjóri telur vegi, viðhaldi eða merkingu vegar, sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar, svo áfátt að hætta geti stafað af getur hann gefið veghaldara fyrirmæli um að gera úrbætur á veginum og stöðvað vegagerð eða bannað umferð um veginn þar til úrbætur hafa verið gerðar.

V. KAFLI
Vegáætlun og fjármögnun vega.
16. gr.
Vegáætlun.

    Með vegáætlun samkvæmt lögum þessum er átt við vegáætlunarkafla samgönguáætlunar samkvæmt lögum um samgönguáætlun.
    Í vegáætlun skal gerð grein fyrir fjáröflun til vegamála og útgjöld sundurliðuð á einstakar framkvæmdir, rekstur, þjónustu og viðhald eftir því sem við á í samræmi við uppsetningu samgönguáætlunar.
    Við skiptingu fjárveitinga skal höfð hliðsjón af gerð vega, ástandi þeirra, notkun eða lengd eftir því sem við getur átt hverju sinni.
    Sé fé veitt til þjóðvegagerðar eftir öðrum leiðum en getið er um í vegáætlun, svo sem í landshlutaáætlunum, með sérstakri fjáröflun eða á annan slíkan hátt, skal fjalla um skiptingu þess innan ramma samgönguáætlunar á sama hátt og að framan getur.

17. gr.
Gjaldtaka af umferð.

    Heimilt er að ákveða í samgönguáætlun að veghald einstakra vegarkafla þjóðvega skuli kostað að hluta eða öllu leyti með veggjaldi af umferð eða með notkunargjaldi.     
    Gjaldtaka af umferð skal miðast við að standa straum af byggingarkostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri af fjárfestingu vega.
    Heimilt er einnig að byggja gjaldtöku á sjónarmiðum um vernd umhverfis, umferðaröryggi og stýringu umferðar, svo sem til að jafna álagi á einstök vegamannvirki til að greiða fyrir umferð eða til að draga úr sliti vega.
    Gjaldtöku má ekki haga með þeim hætti að raski jafnræði þeirra sem nota mannvirkin.
    Óheimilt er að leggja á samtímis veggjald og notkunargjald fyrir notkun tiltekins mannvirkis. Heimilt er þó að leggja á gjald fyrir notkun jarðganga og brúa samhliða notkunargjaldi á aðlæga vegi. Gjaldtaka samkvæmt ákvæði þessu skal vera samkvæmt gjaldskrá sem samþykkt skal af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Ráðherra setur nánari reglur um gjaldtöku af umferð samkvæmt ákvæði þessu, þar á meðal reglur um starfsemi og búnað sem notaður er við rafræna gjaldtöku. Ráðherra setur jafnframt reglur um hvernig upplýsingaöflun um útgjöld vegna samgöngumannvirkja skuli háttað.

18. gr.
Kostnaður vegna þjóðvega í þéttbýli.

    Þar sem þjóðvegur liggur um þéttbýli skal við það miðað við gerð vegarins að til vegagerðarkostnaðar teljist aðeins sá kostnaður sem til fellur vegarins vegna, en þann kostnað sem sérstaklega er til kominn vegna þéttbýlisins, svo sem við holræsi, færslur á lögnum, almenna stíga skv. 10. gr. og annað því tengt, greiði viðkomandi sveitarfélag.
    Kostnaði við mannvirki sem nauðsynlegt er að setja við veg til að skýla byggð fyrir umferðarhávaða skal skipta sem hér segir:
     a.      ef um er að ræða lagningu nýs þjóðvegar um svæði þar sem byggð hefur þegar verið skipulögð og vegi er valinn staður að ósk Vegagerðarinnar ber stofnunin allan kostnað,
     b.      ef byggð er skipulögð að þjóðvegi, sem fyrir er eða ákveðinn hefur verið á staðfestu skipulagi samtímis eða áður en byggð er skipulögð, og þegar vegi er valinn staður við byggð sem fyrir er að ósk sveitarfélags ber sveitarfélag allan kostnað,
     c.      ef umferð um veg hefur aukist verulega umfram það sem gert var ráð fyrir þegar skipulag var staðfest eða þegar af öðrum ástæðum mátti ekki reikna með að umferðarhávaði yrði yfir leyfilegu hámarki bera Vegagerðin og sveitarfélög kostnaðinn að jöfnu,
     d.      í öðrum tilvikum geta Vegagerðin og sveitarfélög sameiginlega ákveðið skiptingu kostnaðar.
    Þegar umferð um tiltekinn veg eykst verulega frá því sem var er heimilt að skipta kostnaði vegna bætts umferðaröryggis milli viðkomandi sveitarfélags og Vegagerðarinnar.

19. gr.
Fjárveitingar til héraðsvega.

    Heildarfjárveitingar til héraðsvega skulu ákveðnar í vegáætlun. Vegagerðin skiptir fjárveitingum milli sveitarfélaga í samræmi við reglur sem ráðherra setur.

20. gr.
Vegtengigjald.

    Til að standa straum af lagningu nýs héraðsvegar að íbúðar- eða atvinnuhúsnæði er veghaldara heimilt að leggja á vegtengigjald til að standa straum af kostnaði við lagningu vegarins.
    Um fjárhæð, álagningu og innheimtu vegtengigjaldsins fer samkvæmt lögum um gatnagerðargjald.

21. gr.
Fjárveitingar til landsvega.

    Ráðherra ákveður skiptingu framlags til landsvega að fengnum tillögum vegamálastjóra.

22. gr.
Ferjur sem kostaðar eru af fjárveitingum til vegamála.

    Í samgönguáætlun er heimilt að ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg að minnsta kosti hluta úr ári. Á sama hátt er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.
    Einnig er heimilt að greiða hluta kostnaðar við bryggjur fyrir slíkar ferjur að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands.
    Vegagerðinni er heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum sem reknir eru til samgöngubóta, sbr. 1. mgr., svo og eiga aðild að félögum sem hafa eignarhald á þeim.
    Í samgönguáætlun skulu ferjuleiðir taldar upp og gerð grein fyrir rekstrar- og stofnframlögum til einstakra ferja.

23. gr.
Rannsóknir og þróun við vega- og gatnagerð.

    Ár hvert skal að minnsta kosti einum og hálfum hundraðshluta af mörkuðum tekjustofnum til vegagerðar varið til rannsókna og þróunar við vegagerð undir stjórn Vegagerðarinnar.

24. gr.
Ófyrirsjáanleg atvik.

    Ráðherra er heimilt að ákveða, að fengnum meðmælum vegamálastjóra, að ráðist skuli í framkvæmdir sem ekki er gert ráð fyrir í vegáætlun ef til hefur komið tjón á vegum, t.d. vegna vatnavaxta, eldgosa eða annarra ófyrirsjáanlegra atvika.

25. gr.
Styrkir til samgönguleiða.

    Í vegáætlun er heimilt að ákveða fjárveitingu til að styrkja tilteknar samgönguleiðir sem ekki falla undir skilgreiningar vega samkvæmt lögum þessum.
    Heimilt er að binda styrkveitingu samkvæmt þessari grein skilyrði um afnot vegar og merkingu hans.
    Umsókn um styrk skal beint til Vegagerðarinnar sem gerir tillögu til ráðherra um styrkveitingu til umsækjanda.
    Engar skyldur hvíla á ríkissjóði vegna samgönguleiða samkvæmt þessari grein.
    Ráðherra setur nánari reglur um hvaða samgönguleiðir skulu styrktar samkvæmt ákvæði þessu og framkvæmd styrkveitinga.

26. gr.
Reiðstígar.

    Í samgönguáætlun er heimilt að veita fé til almennra reiðstíga samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við samtök hestamanna og sveitarfélög.

27. gr.
Hjólreiða- og göngustígar.

    Í samgönguáætlun er heimilt að veita fé til almennra hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við sveitarfélög.

VI. KAFLI
Skipulag og veghelgunarsvæði.
28. gr.
Vegir og skipulag.

    Vegir skulu lagðir í samræmi við gildandi skipulagsáætlun eins og nánar er kveðið á um í lögum um skipulag og í lögum þessum.
    Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar og með samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarstjórn ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal hún rökstyðja það sérstaklega. Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt lögum um skipulag.
    Ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur betri með tilliti til kostnaðar, tæknilegrar útfærslu og umferðaröryggis og það leiðir til aukins kostnaðar er heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélag um kostnaðarmun. Rísi ágreiningur um réttmæti slíkrar kröfu eða um fjárhæð skal málinu skotið til ráðherra til úrskurðar.
    Við gerð skipulags skal að öðru leyti haft samráð við Vegagerðina um legu vega eftir því sem þörf krefur. Ávallt skal leita umsagnar Vegagerðarinnar þegar líkur eru á að breytingar á skipulagi hafi áhrif á umferð um þjóðvegi svo sem með auknum umferðarþunga.

29. gr.
Tengingar við þjóðvegi.

    Óheimilt er að tengja vegi þjóðvegum nema í samræmi við skipulag og að fenginni heimild Vegagerðarinnar.
    Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um lágmarksfjarlægð milli tenginga við þjóðvegi og sett nánari ákvæði um gerð og frágang tenginga. Skal kveðið á um mismunandi reglur eftir vegflokkum og umferðarþunga og skal ávallt taka mið af umferðaröryggi.
    Þegar ný tenging eða breyting á tengingu við þjóðveg er heimiluð skal eigandi tengingar bera allan kostnað við gerð hennar, sbr. þó 31. gr.

30. gr.
Byggingarbann á fyrirhuguðu vegarstæði.

    Ef skipulag er ekki fyrir hendi er Vegagerðinni heimilt að banna að hús verði reist eða önnur mannvirki gerð innan marka fyrirhugaðs þjóðvegar sem mælt hefur verið fyrir og markað. Má slíkt bann vera í gildi allt að þremur árum hverju sinni. Einnig er Vegagerðinni heimilt að óska eftir því við sveitarstjórn að fyrirhugað vegarstæði sé auglýst sem skipulag.

31. gr.
Réttur til vegtengingar.

    Nú er lagður vegur gegnum land manns og á hann þá rétt á að fá óhindraðan aðgang að veginum að jafnaði á einum stað frá landareign sinni sér að kostnaðarlausu. Kostnaður við vegtengingu telst til kostnaðar við veghald.
    Veghaldari skal tilkynna landeiganda um fyrirhugaða staðsetningu tengingar og gefa honum í það minnsta þriggja vikna frest til að koma að athugasemdum og setja fram kröfu um aðra vegtengingu fallist hann ekki á tillögu veghaldara.
    Telji veghaldari ekki unnt að verða við kröfu landeiganda um vegtengingu, t.d. vegna kostnaðar eða með tilliti til umferðaröryggis, skal það tilkynnt skriflega og skal synjun vera rökstudd. Sama gildir ef veghaldari telur að vegtengingu verði ekki við komið.
    Landeigandi getur krafist bóta fyrir fjárhagslegt tjón vegna þess að vegtengingu verður ekki við komið og fer um ákvörðun bóta og bótarétt samkvæmt ákvæðum VII. kafla eftir því sem við á.

32. gr.
Fjarlægð mannvirkja frá vegi.

    Byggingar, leiðslur, auglýsingaspjöld, skurði eða önnur mannvirki, föst eða laus, má ekki staðsetja nær vegi en 30 m frá miðlínu stofnvega og 15 m frá miðlínu annarra þjóðvega nema leyfi veghaldara komi til.
    Óheimilt er að reisa mannvirki nema með leyfi veghaldara við vegamót vega skv. 1. mgr. á svæði sem takmarkast af beinum línum milli punkta á miðlínu vega 40 m frá skurðpunkti þeirra. Veghaldari getur ef sérstaklega stendur á fært út mörk þessi, allt að 150 m.
    Veghaldari getur ákveðið að fjarlægð mannvirkja frá vegi skv. 1. mgr. skuli aukin. Enn fremur getur veghaldari leyft að fjarlægð verði minnkuð á tilteknum köflum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

33. gr.
Lágmarkshæð undir mannvirki yfir vegi.

    Loftlínur má ekki strengja yfir veg nema lægsti hluti línu sé að minnsta kosti 5 m frá yfirborði vegar nema með heimild veghaldara.
    Ekki er heimilt að gera brýr yfir þjóðvegi nema að fengnu leyfi Vegagerðarinnar sem ákveður hvert lágmarksrými skuli vera undir þeim.
    Ekki er heimilt að hengja á loftlínur eða brýr merki eða auglýsingar sem ekki eru leyfð annars staðar á vegsvæði þjóðvegar.

VII. KAFLI
Eignarnám og bráðabirgðaafnot lands.
34. gr.
Bráðabirgðaafnot lands.

    Vegagerðinni er heimilt að framkvæma rannsóknir og byrjunarathuganir sem nauðsynlegar eru við undirbúning vegagerðar á hvaða landi sem er. Landeiganda og umráðamanni lands er skylt að veita Vegagerðinni nauðsynlegan aðgang að landi sínu vegna undirbúnings vegagerðar, svo sem heimila umferð bifreiða og léttra vinnuvéla.
    Merki, hæla, vörður eða þvíumlíkt sem Vegagerðin hefur sett til að marka mælda veglínu má ekki nema burt án leyfis hennar. Leit að efni til vegagerðar má Vegagerðin gera hvar sem vera skal.
    Vegagerðinni eru heimil afnot lands fyrir geymslu efnis og fyrir bækistöðvar vinnuflokka við lagningu eða viðhald vegar.
    Skylt er landeiganda að leyfa að vatni sem veita þarf frá vegi sé gerð framrás um land hans ef brýna nauðsyn ber til.
    Til framkvæmdar vetrarþjónustu má Vegagerðin ryðja snjó af vegi út fyrir vegsvæði ef með þarf.

35. gr.
Tilkynning um bráðabirgðaafnot lands.

    Vegagerðin skal eftir því sem við verður komið hafa samráð við landeiganda um bráðabirgðaafnot lands og skal tilkynna landeiganda um þau með hæfilegum fyrirvara. Vegagerðin getur þó í neyðartilvikum gripið til bráðabirgðaráðstafana án fyrirvara ef bjarga þarf verðmætum eða tryggja öryggi samgangna.
    Vegagerðin skal gæta meðalhófs og þess að valda ekki meira raski við bráðabirgðaafnot lands en brýna nauðsyn ber til.

36. gr.
Bætur vegna bráðabirgðaafnota lands.

    Vegagerðin skal greiða landeiganda bætur vegna tjóns og óhagræðis sem sannanlega hlýst af bráðabirgðaafnotum lands. Um ákvörðun bóta fer eftir ákvæðum þessa kafla eftir því sem við á.
    Heimilt er að ákvarða bætur fyrir bráðabirgðaafnot lands samhliða bótum vegna eignarnáms.

37. gr.
Eignarnámsheimild.

    Landeiganda er skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, svo sem breytinga, breikkunar eða viðhalds, enda komi fullar bætur fyrir. Landeiganda ber jafnframt að leyfa efnistöku í landi sínu til vegagerðar hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni, enda bætist það að fullu. Framangreind skylda til að láta eignarréttindi af hendi nær einnig eftir atvikum til annarra rétthafa sem eiga réttindi á landi.
    Vegagerðin skal tilkynna landeigendum og eftir atvikum öðrum rétthöfum þegar áformað er að ráðast í framkvæmdir skv. 1. mgr. sem hafa í för með sér skerðingu á eignarréttindum. Tilkynning skal vera skrifleg og skal fylgja greinargóð lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd eða ráðstöfun.
    Gefa skal landeiganda og öðrum rétthöfum ef við á í það minnsta fjögurra vikna frest til að koma að athugasemdum við tilhögun framkvæmda.
    Að liðnum fresti skv. 3. mgr. skal tekin ákvörðun um hvort og þá í hvaða mæli skerða þarf eignarréttindi vegna fyrirhugaðra framkvæmda, að teknu tilliti til framkominna athugasemda. Þó skal heimilt að taka ákvörðun innan frestsins ef um minni háttar framkvæmdir er að ræða eða samkomulag hefur náðst við alla rétthafa.
    Ákvörðun um skerðingu eignarréttindanna skal tilkynnt landeiganda og eftir atvikum öðrum rétthöfum skriflega og skal jafnframt gerð grein fyrir því hvort og með hvaða hætti tekið verður tillit til framkominna athugasemda þeirra.
    Ráðherra getur að fengnum tillögum vegamálastjóra heimilað eignarnám lands til lagningar almennra stíga og einkavega, skv. 10. og 11. gr., enda komi fullar bætur fyrir. Ráðherra getur bundið slíka heimild vissum skilyrðum, svo sem um gerð og frágang vegarins, umferðarrétt um hann, viðhald og tengingar við aðra vegi.

38. gr.
Samningar um eignarnámsbætur.

    Þegar ákvörðun um eignarnám eða aðrar eignaskerðingar liggur fyrir skal leita samninga við landeiganda, og eftir atvikum aðra rétthafa, um bætur fyrir land undir veg, jarðefni til vegagerðar, jarðrask og átroðning og eftir atvikum aðra hagsmuni sem landeiganda er skylt að láta af hendi vegna vegagerðar skv. 34. og 37. gr.
    Eignarnemi skal senda landeiganda og öðrum rétthöfum skriflega tillögu að bótum þar sem skal sundurliðað fyrir hvaða hagsmuni boðnar eru bætur. Jafnframt skal þar koma fram að náist ekki samkomulag um bætur innan tiltekins frests, sem ekki skal styttri en fjórar vikur, fari um ákvörðun bóta í samræmi við ákvæði laga um ákvörðun eignarnámsbóta.

39. gr.
Ákvörðun eignarnámsbóta með mati.

    Þegar meta á bætur vegna eignarnáms á landi undir veg fer um það eftir ákvæðum þessarar greinar og almennum reglum um ákvörðun eignarnámsbóta.
    Mat á bótum fyrir land skal fara fram á vettvangi þegar jörð er snjólaus ef því verður við komið. Við matið skal taka tillit til árlegs afraksturs af landinu, svo og til þess hvort girðingar þurfi að flytja eða nýjar að setja og athuga vandlega allt það er getur haft áhrif á verðmæti þess er meta skal.
    Við matið skal meta sérstaklega þá hagsbót sem eiganda hlotnast við eignarnámið, umfram aðra landeigendur og rétthafa, svo sem ef eign hækkar í verði umfram aðrar eignir vegna framkvæmda, og skal slík hagsbót koma til frádráttar eignarnámsbótum.
    Nú leggst eldri vegur niður við lagningu nýs vegar og fellur til landeiganda og skal þá við matsgerðina meta sérstaklega hið gamla vegsvæði og draga frá upphæð þeirri er landeiganda er metin fyrir eignarnám lands fyrir hinn nýja veg eða jarðrask er leiðir af lagningu hans. Bætur fyrir átroðning skal eigi meta í slíkum tilfellum nema sannað verði að meiri átroðningur stafi af hinum nýja vegi en af hinum eldri.

40. gr.
Ýmis ákvæði um eignarnámsbætur.

    Landeigandi á bætur allar fyrir eignarnám og jarðrask vegna vegagerðar. Ábúandi og aðrir rétthafar eiga þó bætur fyrir átroðning, mannvirki og aðra hagsmuni sem eru þeirra eign, og skal meta það sérstaklega.
    Krefjast skal bóta fyrir tjón sem af veghaldi leiðir innan árs frá því að verki lauk eða frá því að skaði kom í ljós, ella fellur réttur til skaðabóta niður. Slíkar kröfur fyrnast þó í síðasta lagi á tíu árum frá því að verki lauk.
    Eignarheimild að vegsvæði verður þinglýst og skráð í samræmi við ákvæði þinglýsingarlaga og laga um skráningu og mat fasteigna með sama hætti og eignarheimildir að öðrum fasteignum.

VIII. KAFLI
Hönnun, lagning og viðhald vega.
41. gr.
Almennt.

    Við lagningu og viðhald vega skal þess gætt að ekki sé valdið meiri áhrifum á umhverfi en nauðsynlegt er til að unnt sé að ná markmiðum vegalagningarinnar á sem hagkvæmastan hátt og þannig að öryggi umferðar verði sem mest.

42. gr.
Lágmarkskröfur um vegi.

    Ráðherra er heimilt að setja almennar reglur um hönnun vega sem opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar og eftirlit með gerð þeirra. Veghaldari ber ábyrgð á að kröfur þessar séu uppfylltar.

43. gr.
Viðhald vega. Vegskemmdir.

    Veghaldari ber ábyrgð á því að vegi, sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar, sé við haldið með eðlilegum hætti miðað við þá umferð sem um veginn fer.
    Veghaldari skal svo fljótt sem við verður komið eftir að hann hefur fengið vitneskju um skemmdir á vegi, sem hættulegar eru umferð, láta gera við þær eða merkja hina hættulegu staði þar til viðgerð hefur farið fram og skulu merkingar vera í samræmi við ákvæði umferðarlaga.
    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari kröfur um viðhald vega.

44. gr.
Vetrarþjónusta.

    Vegagerðin gefur út reglur um vetrarþjónustu á þjóðvegum sem staðfestar skulu af ráðherra.
    Heimilt er Vegagerðinni að binda vetrarþjónustu á einstökum vegarköflum því skilyrði að allur kostnaður við hana eða hluti hans verði greiddur með framlagi sveitarstjórnar eða hagsmunaaðila.

45. gr.
Upplýsingagjöf til vegfarenda.

    Ráðherra er heimilt að setja reglur um upplýsingagjöf til vegfarenda og reglur um söfnun og veitingu upplýsinga til vegfarenda sem hafa þýðingu vegna umferðaröryggis og þróunar umferðar.

IX. KAFLI
Ákvæði um öryggi vega og umferðar.
46. gr.
Almennt.

    Vegir sem opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru með tilliti til öryggis umferðar, ástands vega, merkinga og annarra þátta sem kveðið er á um í lögum þessum og ber veghaldari ábyrgð á því.
    Ráðherra er heimilt að setja reglur um umferðaröryggisstjórnun vega.

47. gr.
Bann við því að raska öryggi umferðar.

    Óheimilt er að aðhafast nokkuð það sem getur raskað öryggi umferðar svo sem að valda skemmdum á vegi og mannvirkjum hans eða skilja eftir muni á eða við vegsvæði sem valdið geta hættu á slysum.
    Veghaldara er heimilt að fjarlægja óviðkomandi hluti eða muni af vegi eða vegsvæði á kostnað eigenda.
    Skemmist eitthvert mannvirki sem til vegarins telst við árekstur ökutækis er ökumanni skylt að tilkynna það þegar í stað til lögreglu.

48. gr.
Reglur fyrir umferð.

    Veghaldari getur sett þær reglur fyrir umferð sem nauðsynlegar eru til þess að girða fyrir skemmdir á vegum eða til þess að greiða fyrir umferð svo sem um hámarksþunga bifreiða er fara mega um ákveðna vegarkafla.
    Veghaldari getur enn fremur bannað umferð ökutækja um veg þann tíma árs sem hættast er við skemmdum á vegum. Einnig getur veghaldari bannað alla umferð ökutækja um vegi sem hættulegir eru vegna skemmda eða af öðrum slíkum orsökum þar til viðgerð er lokið.

49. gr.
Veiting vatns.

    Óheimilt er að gera skurði eða önnur mannvirki sem aukið geta vatnsrennsli í vegskurðum án leyfis veghaldara.
    Enginn má stífla skurði meðfram vegi eða ræsi gegnum veg, eða gera neitt það er hindrað getur eða aukið eðlilegt vatnsrennsli gegnum veg eða frá vegi, eða veita vatni á veg.

50. gr.
Lausaganga búfjár.

    Lausaganga búfjár á stofnvegum og tengivegum þar sem girt er báðum megin vegar og lokað er fyrir ágangi búfjár, t.d. með ristarhliði, er bönnuð. Veghaldara er heimilt að fjarlægja búfé af lokuðum vegsvæðum á kostnað eigenda.

X. KAFLI
Girðingar og göng fyrir búfé.
51. gr.
Girðingar meðfram vegum.

    Veghaldari skal girða báðum megin vegar sem lagður er gegnum tún, ræktarland, engjar eða girt beitiland eða leggja til ristarhlið ásamt grindarhliði telji hann það hentugra.
    Veghaldara er heimilt að girða meðfram vegum sínum, m.a. til að tryggja öryggi umferðar, og er þá skylt að setja hlið að minnsta kosti á einum stað á slíka girðingu ef þörf er á til að tryggja aðgengi að landareign.
    Vegagerðinni er heimilt að taka þátt í stofnkostnaði girðinga sem reistar eru til að friða svæði og er skilyrði fyrir slíkri þátttöku að viðkomandi sveitarfélag banni lausagöngu búfjár á friðuðu svæði.

52. gr.
Framkvæmd viðhalds og kostnaðarskipting.

    Landeigandi skal annast viðhald girðinga með vegum í landi sínu.
    Sveitarstjórn hefur eftirlit með viðhaldi girðinga í sveitarfélaginu og er heimilt að gera endurbætur á girðingu eða fjarlægja á kostnað landeiganda ef viðhaldi er ábótavant eða girðing bersýnilega óþörf.
    Viðhaldskostnaður girðinga með stofnvegum og tengivegum greiðist að jöfnu af veghaldara og landeiganda.
    Viðhaldskostnaður girðinga með öðrum vegum greiðist af landeiganda.
    Vegagerðin getur að höfðu samráði við viðkomandi sveitarfélag og landeiganda ákveðið að annast og kosta viðhald girðinga með einstökum köflum stofn- og tengivega, enda sé lausaganga búfjár á viðkomandi vegarkafla bönnuð.
    Þó skal veghaldari greiða allan viðhaldskostnað ef girðingin er reist eingöngu til þess að fría vegsvæði frá búfé, svo sem á afréttum og öðrum sameiginlegum sumarbeitilöndum búfjár.
    Viðkomandi sveitarfélag annast viðhald girðinga sem reistar eru skv. 3. mgr. 51. gr. og er heimilt að semja við veghaldara um viðhaldið.
    Heimilt er að kveða nánar á um girðingar meðfram vegum, viðhald, kostnaðarskiptingu og annað því tengt með reglugerð.

53. gr.
Girðingar og hlið yfir vegi.

    Enginn má gera girðingu yfir veg með hliði á vegi án leyfis veghaldara nema um einkaveg sé að ræða. Sama bann gildir þar sem mælt og markað hefur verið fyrir vegi, enda hafi veghaldari tilkynnt eiganda eða viðeigandi rétthöfum hvar mælt hefur verið.

54. gr.
Göng fyrir búfé.

    Vegagerðinni er heimilt að taka þátt í kostnaði við gerð ganga undir vegi fyrir búfé þar sem það telst nauðsynlegt með tilliti til umferðaröryggis.

55. gr.
Vegir sem ekki tilheyra vegflokki.

    Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegflokks samkvæmt lögum þessum og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi.
    Ákvörðun sveitarstjórnar skv. 1. mgr. má leggja undir úrskurð ráðherra.

XI. KAFLI
Ýmis ákvæði.
56. gr.
Bótaábyrgð veghaldara.

    Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.

57. gr.
Kæruheimild.

    Stjórnsýsluákvörðunum Vegagerðarinnar má skjóta til ráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.

58. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.

59. gr.
Viðurlög.

    Brot gegn lögum þessum og þeim reglugerðum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Bæta skal einnig á kostnað hins seka tjón það sem hann hefur unnið.
    Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

XII. KAFLI
Gildistaka og brottfallin lög.
60. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2008. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 45/1994, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var af samgönguráðherra með skipunarbréfi dagsettu 17. janúar 2006. Í nefndinni sátu Gunnar Gunnarsson aðstoðarvegamálastjóri, formaður, Guðmundur Hallvarðsson alþingismaður, Hjálmar Árnason alþingismaður, Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður, Einar Már Sigurðsson alþingismaður, Halldór Halldórsson bæjarstjóri og Karl Ragnars forstjóri Umferðarstofu, skipuð án tilnefningar. Þá áttu sæti í nefndinni Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi og Elín R. Líndal sveitarstjórnarmaður, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Jón Rúnar Pálsson lögfræðingur og Árni Jóhannsson viðskiptafræðingur, tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Með nefndinni störfuðu einnig Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri og Svanhvít Axelsdóttir lögfræðingur frá samgönguráðuneytinu og Eymundur Runólfsson, forstöðumaður áætlanadeildar Vegagerðarinnar. Ritari nefndarinnar var Stefán Erlendsson, forstöðumaður lögfræðideildar Vegagerðarinnar.
    Samkvæmt skipunarbréfi átti nefndin að ljúka störfum 1. nóvember 2006 og var stefnt að framlagningu frumvarps til nýrra vegalaga á vorþingi 2007.
    Nokkru lengri aðdragandi er að endurskoðun laganna. Á árinu 2003 skipaði samgönguráðuneytið vinnuhóp til að fara yfir gildandi vegalög. Skilaði vinnuhópurinn áfangaskýrslu í nóvember sama ár. Í skýrslunni komu fram ýmis sjónarmið um breytingar á gildandi vegalögum og voru raktir þættir sem taka mætti til skoðunar við endurskoðun laganna. Jafnframt var fjallað stuttlega um hvernig löggjöf um vegamál er háttað í nágrannalöndum okkar í samanburði við íslensk vegalög. Í áfangaskýrslu vinnuhóps um vegalög var lagt til að ráðist yrði í heildarendurskoðun gildandi vegalaga fremur en breytingar á einstökum ákvæðum þeirra.
    Við samningu frumvarps þessa var horft til framangreindrar áfangaskýrslu. Jafnframt var lögð áhersla á að skoða eftirfarandi þætti:
     1.      Stjórnskipulag og verkaskiptingu með hliðsjón af kröfum um aðskilnað stjórnsýslu og þjónustu, umferðaröryggismálum og öðrum verkefnum og hvort ástæða sé til að gera breytingar í átt að hagkvæmari verkaskiptingu, m.a. milli Vegagerðarinnar og Umferðarstofu.
     2.      Uppbyggingu laganna, m.a. betri lagalegan aðskilnað milli ákvæða um Vegagerðina og ákvæða um veghald.
     3.      Gildissvið laganna, m.a. hvað varðar vegi í þéttbýli.
     4.      Flokkun vega bæði innan og utan þéttbýlis.
     5.      Skipulagsmál og samskipti Vegagerðarinnar og sveitarfélaga. Sérstaklega skal huga að umferðaröryggismálum og umhverfismálum, svo sem hljóðvist í þéttbýli, með hliðsjón af kostnaðar- og verkaskiptingu.
     6.      Hvort rétt væri að semja sérstök lög um ferjur.
     7.      Hvort ástæða væri til að setja sérstök lagaákvæði um leyfis- og styrkveitingar Vegagerðarinnar vegna almenningssamgangna.
    Samkvæmt skipunarbréfi átti að stefna að því að tillögur að lagabreytingum fælu í sér einföldun þar sem því yrði við komið.
    Vegalaganefnd hélt sex fundi, auk þess sem haldnir voru margir fundir milli nefndarfunda af sérstökum fjögurra manna vinnuhópi innan nefndarinnar sem hafði það verkefni að undirbúa hvern nefndarfund. Niðurstaða vinnu nefndarinnar er tillaga að frumvarpi til nýrra vegalaga sem nefndin skilaði með bréfi til samgönguráðherra dagsettu 11. október 2006. Nefndin fjallaði þó ekki um athugasemdir við einstakar greinar en þær voru samdar af starfsmönnum Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins. Talsverðar breytingar urðu á frumvarpinu í höndum ráðuneytisins, þar á meðal var horfið frá því að færa héraðsvegi til sveitarfélaga.
    Tveir fulltrúar sambands íslenskra sveitarfélaga, þau Árni Þór Sigurðsson og Elín R. Líndal, ásamt Halldóri Halldórssyni, skrifuðu undir nefndarálitið með fyrirvara og skiluðu séráliti sem er að finna í fylgiskjali með frumvarpinu.
    Hér á eftir verða kynnt helstu nýmæli frumvarpsins.

Hlutverk Vegagerðarinnar.
    Í gildandi vegalögum er kveðið á um að Vegagerðin sé veghaldari þjóðvega. Að öðru leyti er ekki skilgreint sérstaklega í lögunum hvert sé hlutverk stofnunarinnar. Dæmi eru um að sett séu sérstök lög um einstakar stofnanir og hlutverk þeirra en einnig er algengt að kveðið sé á um þessi atriði í almennum lögum sem stofnun starfar eftir. Niðurstaða vegalaganefndar var að fara seinni leiðina og kveða sérstaklega á um hlutverk Vegagerðarinnar í vegalögum.
    Almennt er ekki stefnt að róttækri breytingu á því hlutverki sem Vegagerðin hefur gegnt í tengslum við veghald þjóðvega og framkvæmd vegamála í umboði samgönguráðherra. Réttara væri sennilega að nota orðið þróun í þessu sambandi. Verði frumvarp þetta að lögum verður hraðað þeirri þróun að þjónustu og framkvæmdaverkefni eru unnin af verktökum á almennum markaði. Hins vegar er lögð meiri áhersla á umferðaröryggi og hlutverk Vegagerðarinnar við að stuðla að því.

Flokkun vega.
    Flokkun þjóðvega breytist nokkuð verði frumvarp þetta að lögum. Breyting þessi miðar að því að gera flokkun þessa skýrari og í takt við eðlilega skiptingu í vegflokka eins og þarfirnar eru nú. Jafnframt er kveðið á um stöðu almennra stíga sem eru reið-, hjólreiða- og göngustígar sem ætlaðir eru til almennrar umferðar. Rétt er að hafa í huga að tilgangur þess að kveða skýrar á um stöðu þessara stíga er meðal annars að stuðla að auknu öryggi óvarinnar umferðar.

Veghald.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem skýra eiga ábyrgð og forræði á veghaldi. Skýrt er kveðið á um það hver er veghaldari viðkomandi vegflokks og hverjar eru skyldur veghaldara. Lögð er til fortakslaus heimild til handa vegamálastjóra til að framselja veghald til þriðja aðila. Þetta getur m.a. þýtt að sveitarstjórn getur tekið að sér veghald héraðsvega innan síns sveitarfélags eða þá að fyrirtæki tekur að sér veghald, þ.m.t. byggingu og rekstur vegamannvirkja, t.d. í einkaframkvæmd
    Jafnframt er kveðið á um eftirlitshlutverk Vegagerðarinnar með veghaldi annarra vega en þjóðvega sem njóta framlaga af ríkisfé.

Gjaldtaka af umferð.
    Í núgildandi vegalögum er ekki að finna ákvæði um heimild til töku gjalds af umferð. Með frumvarpi þessu er lögð til almenn heimild til gjaldtöku af umferð til að standa straum af byggingu og rekstri samgöngumannvirkja í stað þess að sérstaka lagasetningu þurfi fyrir slíkri gjaldtöku vegna einstakra framkvæmda eins og nú. Í frumvarpinu er nánar skilgreint hvaða takmörkunum slík gjaldtaka er háð. Er þar horft til ákvæða tilskipunar 1999/62/EB frá 17. júní 1999 um álagningu gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum grunnvirkjum og er ætlunin að innleiða ákvæði þar að lútandi í íslenskan rétt. Rétt er að leggja áherslu á að hér er ekki á neinn hátt verið að veita veghaldara opna heimild til að leggja gjald á umferð heldur er kveðið á um að ákvörðun um slíka gjaldtöku skuli taka í samgönguáætlun sem háð er samþykki Alþingis hverju sinni. Hér er því eingöngu verið að setja fram almennan ramma um gjaldtökuna sem tekur mið af samsvarandi löggjöf á EES-svæðinu.

Kostnaðarskipting vegna hljóðvarna.
    Umferðarhávaði er vaxandi vandamál einkum í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu. Erfið álitaefni hafa risið varðandi ábyrgð á aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur laga og reglugerða um umferðarhávaða. Í frumvarpi þessu eru lögð til nýmæli sem ætlað er að vera málamiðlun milli mismunandi sjónarmiða varðandi kostnaðarskiptingu vegna þessara mannvirkja. Tilgangur þeirra er að stuðla að betri sátt um kostnaðarskiptingu vegna hljóðvarna milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga.

Heimild til að veita fé til almennra stíga af fjárveitingum til vegagerðar.
    Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að veita fé til reiðstíga af vegáætlun. Í frumvarpi þessu er lagt til að þessi heimild taki ekki aðeins til reiðstíga heldur einnig til annarra almennra stíga, þ.e. göngu- og hjólreiðastíga sem opnir eru almennri umferð.

Umsagnir og tillögur um skipulagsáætlanir sem hafa áhrif á legu vega og umferð um þá.
    Samkvæmt núgildandi vegalögum ber að hafa samráð við Vegagerðina við ákvörðun um legu veglína á skipulagi. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir þátttöku Vegagerðarinnar í ákvörðun um legu vega. Í reynd er algengara en hitt að frumkvæði við ákvörðun um legu vega komi frá Vegagerðinni. Þar er unnið að þróun og endurbótum á vegakerfinu með gerð áætlana um nýjar framkvæmdir eftir því sem almannahagsmunir og þarfir samfélagsins krefjast. Eðlilegt er að gera ráð fyrir því við skipulagsgerð að Vegagerðin sé reiðubúin að leggja fram tillögur að legu vega og tenginga við þá þegar skipulag er unnið af sveitarfélagi. Af þeim sökum er lögð til áherslubreyting hvað snertir málsmeðferð sem felur í sér ríkari skyldur Vegagerðarinnar til beinnar þátttöku í gerð skipulags.
    Í gildandi skipulagslögum er gert ráð fyrir þátttöku umsagnaraðila í gerð skipulags hverju sinni. Ekki er nánar kveðið á um hverjir þeir eru en væntanlega er miðað við að önnur lög skýri nánar hverjir geti verið umsagnaraðilar. Lagt er til með frumvarpi þessu að hlutverk Vegagerðarinnar sem umsagnaraðila hvað snertir áhrif skipulags á umferð um þjóðvegi verði skýrt nánar þannig að ekki leiki vafi á því til hvers er ætlast af stofnuninni að þessu leyti. Vegakerfi sveitarfélaga og þjóðvegakerfið tengjast og hafa breytingar á öðru oft áhrif á hitt með beinum eða óbeinum hætti. Frumvarpinu er að þessu leyti ætlað að stuðla að enn betra samstarfi Vegagerðarinnar og sveitarfélaga við að tryggja greiða og örugga umferð.

Ákvæði um eignarnám og bráðabirgðaafnot lands aðlöguð réttarþróun.
    Eignarnámsheimild Vegagerðarinnar er gömul að stofni til og hafa ákvæði er að henni lúta verið lítt eða ekki breytt um áratugaskeið. Í millitíðinni hafa fallið dómar og verið gerðar breytingar á löggjöf sem kalla á endurskoðun ákvæða um málsmeðferð við undirbúning eignarnáms. Þær breytingar sem nú eru lagðar til auka réttaröryggi borgaranna og árétta skyldur Vegagerðarinnar til að vanda sérstaklega til undirbúnings ákvörðunar um eignarnám. Með breytingum þeim sem hér eru lagðar til er að því stefnt að skýra réttarstöðu Vegagerðarinnar og landeigenda með hliðsjón af réttarþróun undanfarinna ára.

Ákvæði um lagningu og viðhald vega.
    Undanfarna áratugi hafa orðið stórstígar framfarir á þjóðvegakerfinu og er óhætt að tala um byltingu í því sambandi. Samhliða hafa kröfur um ástand þess, flutningsgetu, öryggi umferðar og tillitsemi gagnvart umhverfi og samfélagi farið sívaxandi. Ákvæði núgildandi laga eru fáorð um þetta efni. Í ljósi framangreindrar þróunar er lagt til í frumvarpi þessu að stigið verði skref í þá átt að kveða á um hvernig auknum kröfum til veghaldara verði fundinn lagalegur rammi. Er að því stefnt að með því megi auka öryggi vegfarenda og gæði vegamannvirkja.

Ákvæði um öryggi umferðar.
    Ákvæði núgildandi laga er varða öryggi umferðar þarfnast endurskoðunar í samræmi við þá áherslu sem lögð er á mikilvægi aukins öryggis. Auk framangreindra breytinga, sem að einhverju leyti er ætlað að stuðla beint eða óbeint að auknu öryggi umferðar, eru lagðar til breytingar sem stuðla að aukinni áherslu á umferðaröryggismál við framkvæmd vegamála. Má þar sérstaklega nefna heimild til ráðherra að setja reglur um svokallaða umferðaröryggisstjórnun.

Reglur um girðingar með vegum einfaldaðar og skýrðar. Heimild til að kosta göng fyrir búfé.
    Með frumvarpi þessu er lögð til einfaldari og skýrari framsetning reglna um girðingar meðfram vegum. Það er gert án þess að í því felist í sjálfu sér efnisbreyting frá því sem gildandi lög kveða á um. Með því að skipa reglum um girðingar í ríkari mæli í reglugerð skapast nokkur sveigjanleiki til áherslubreytinga sem einkum munu miða að auknu umferðaröryggi.
    Það markmið að auka umferðaröryggi er einnig lagt til grundvallar því nýmæli frumvarpsins að kveðið er skýrt á um heimild fyrir Vegagerðina að taka þátt í kostnaði við gerð ganga fyrir búfé. Víða háttar svo til að reka þarf búfé yfir vegi þar sem umferð er mikil og umferðarhraði einnig. Verði frumvarpið að lögum verður Vegagerðinni heimilt að bregðast við með því að taka þátt í kostnaði við gerð undirganga undir viðkomandi veg í samstarfi við landeigendur hverju sinni. Gerð ganga af þessu tagi hefur verið reynd og má ætla að ágæt reynsla sé af þeim þar sem á hefur reynt til þessa. Ekki er vafi á að auka má öryggi með gerð undirganga undir veg en allnokkur kostnaður getur verið af því og má ætla að frumvarpið geti stuðlað að fjölgun slíkra ganga undir umferðarmestu vegi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í I. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um markmið og gildissvið þess. Það er nýmæli að kveða á um þessi atriði í sérstökum kafla í frumvarpinu og jafnframt er það nýmæli að fjallað er um skýringar hugtaka í sérstakri grein.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um markmið með setningu vegalaga. Í gildandi vegalögum er ekki að finna sérstakt ákvæði um markmið laganna en í frumvarpinu er lagt til að svo verði.
    Tillaga frumvarpsins er á þá leið að markmiðið verði að setja reglur um vegi og veghald sem stuðla að greiðum og öruggum samgöngum. Verður að telja þá framsetningu í samræmi við inntak gildandi vegalaga en með frumvarpinu er að því stefnt að enn frekari áhersla verði á það meginmarkmið að stuðla að auknu öryggi umferðar.

Um 2. gr.

    Nýmæli er að kveða sérstaklega á um gildissvið frumvarpsins þó svo ekki sé um efnislegar breytingar að ræða frá gildandi lögum. Frumvarpið gildir um vegi sem ætlaðir eru til umferðar ökutækja og veghald þeirra ásamt því sem við getur átt um vegi og stíga sem ætlaðir eru til annarrar umferðar en umferðar ökutækja. Með hugtakinu ökutæki er miðað við skilgreiningu þess eins og það er í umferðarlögum og tekur það því til fleiri tækja en bifreiða.

Um 3. gr.

    Í 3. gr. frumvarpsins er leitast við að skilgreina hugtök sem talin eru þurfa sérstakrar skýringar við. Þar má nefna hugtök er snúa að nýmælum í frumvarpi þessu og varða atriði sem ekki er að finna í gildandi lögum en nánari grein er gerð fyrir þeim í athugasemdum við viðeigandi ákvæði.
    Hugtakið umferðaröryggisstjórnun vega er nýmæli og lýtur að aðferðum sem notaðar eru til að auka umferðaröryggi á vegum. Enn fremur eru skilgreind hugtökin notkunargjald og veggjald sem eru heiti yfir mismunandi form og aðferðir við gjaldtöku af umferð og taka mið af tilskipun 1999/62/EB, sbr. breytingar með tilskipun 2006/38/EB, um gjaldtöku af þungaflutningabifreiðum.
    Auk þess að skilgreina ný hugtök er jafnframt safnað á einn stað skilgreiningum sem finna má í núgildandi lögum en ekki hefur verið skipað í sérstaka skýringargrein, svo sem skilgreining hugtakanna vegur, veghald og býli. Skilgreiningar hugtaka er varða flokkun þjóðvega sérstaklega, svo sem skilgreining einstakra vegflokka, er að finna í III. kafla frumvarpsins um vegflokkun en rétt þykir að skilgreina þau hugtök í samhengi við önnur atriði sem fjallað er um í vegflokkunarkaflanum.

Um II. kafla.

    Kafli þessi fjallar um hvernig stjórn vegamála er háttað og hvert er hlutverk Vegagerðarinnar. Um þetta eru ákvæði í II. kafla gildandi laga og er sá kafli er einnig um veghaldið en í frumvarpi þessu er fjallað um veghaldið í sérstökum kafla.

Um 4. gr.

    Í ákvæði þessu er fjallað um yfirstjórn vegamála og er ekki um breytingu að ræða frá gildandi lögum heldur fer samgönguráðherra áfram með yfirstjórn þessa málaflokks. Jafnframt er kveðið á um þátt Vegagerðarinnar sem framkvæmdaraðila vegamála en ekki er um breytingu á hlutverki Vegagerðarinnar hvað það varðar að ræða frá gildandi lögum. Ekki eru gerðar breytingar á því að ráðherra skipar vegamálstjóra og er hlutverk hans óbreytt frá gildandi lögum. Nýmæli er hins vegar að lagt er til að ráðherra hafi ekki afskipti af ráðningu aðstoðarvegamálastjóra heldur er ráðning hans alfarið í höndum vegamálastjóra með sama hætti og ráðning annarra stjórnenda og starfsmanna. Einnig er lagt til að fellt verði niður ákvæði um að vegamálastjóri ráði starfsmenn Vegagerðarinnar, enda þykir það leiða af starfssviði hans og óþarfi að tilgreina það í lögum.
    Þá er nýmæli að lagt er til að Vegagerðin skuli leitast við að bjóða út sem flestar framkvæmdir og þjónustuverkefni sem stofnuninni eru falin, en það mun vera í takt við þróun og þykir rétt að um slíka framtíðarsýn sé kveðið á í lögum.

Um 5. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli og er hér kveðið á um hlutverk Vegagerðarinnar. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum var niðurstaða vegalaganefndarinnar að leggja ekki til að sett yrðu sérlög um stofnunina heldur að kveðið yrði á um störf hennar í vegalögum.
    Núgildandi vegalög kveða eingöngu á um það hlutverk Vegagerðarinnar að vera veghaldari þjóðvega, að öðru leyti er hlutverk hennar ekki skilgreint sérstaklega heldur er það að finna í einstökum ákvæðum á víð og dreif í löggjöfinni.
    Hlutverk Vegagerðarinnar verður áfram framkvæmd vegamála og veghald og að aðstoða við mótun stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, umsjón og eftirlit með útboðum almenningssamgangna sem njóta ríkisstyrkja og leyfisskyldri starfsemi sem stofnuninni er falin lögum samkvæmt. Breytingar á hlutverki Vegagerðarinnar endurspeglast í ákvæðum frumvarpsins og vegur þar þyngst áhersla á sjónarmið er varða umferðaröryggi og er Vegagerðinni falið ákveðið hlutverk er það varðar, enda falla umferðaröryggismál undir samgöngumál.
    Í ákvæðinu eru talin upp helstu verkefni Vegagerðarinnar en talningin er ekki tæmandi heldur er gert ráð fyrir að nánar sé kveðið á um hlutverk og verksvið hennar með reglugerð. Jafnframt er gert ráð fyrir að önnur lög geti kveðið á um hlutverk stofnunarinnar, eins og í gildandi lögum.
    Nýmæli er að Vegagerðinni er, að undangengnu samþykki ráðherra, fengin heimild til að stofna félag til að sinna verkefnum stofnunarinnar, hvort sem er á sviði framkvæmda eða þjónustu. Rétt þykir að stofnuninni sé þetta mögulegt enda er það í takt við þróun að verkefni opinberra stofnanna flytjist í ríkara mæli í hendur þriðja aðila þar sem það er talið hagkvæmt. Í vissum tilvikum getur reynst eðlilegt að slíkt gerist á aðlögunartíma. Þannig gæti Vegagerðin falið félagi í sinni eigu umsjón tiltekna framkvæmd og þjónustuverkefni sem áfanga í því að þau verði síðan boðin út. Þetta er aðferð sem nýtt hefur verið víða í nágrannalöndum okkar.

Um III. kafla.

    Í þessum kafla frumvarpsins eru ákvæði um vegakerfi landsins og flokkun vega í undirflokka. Í núgildandi lögum er ákvæði um þetta að finna í tveimur aðskildum köflum. Flokkun vega og vegakerfa er þannig einfaldari og heildstæðari þar sem megináhersla er lögð á samfellt vegakerfi landsins.

Um 6. gr.

    Í gildandi vegalögum eru meginflokkar vega einungis tveir, þ.e. þjóðvegir og aðrir vegir. Þjóðvegir skiptast síðan í fjóra undirflokka, stofn-, tengi-, safn- og landsvegi en aðrir vegir eru almennir vegir, einkavegir, reiðvegir og hjólreiða- og göngustígar.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til þær breytingar á núverandi vegflokkun að vegakerfi landsins er skipt í fjóra meginflokka, þ.e. þjóðvegi, sveitarfélagsvegi, einkavegi og almenna stíga, og er hverjum flokk skipt í viðeigandi undirflokka.
    Þjóðvegum er skipt í fjóra undirflokka: stofnvegi, tengivegi, héraðsvegi og landsvegi. Sveitarfélagsvegir eru vegir innan þéttbýlis sem ekki teljast þjóðvegir. Almennum stígum er skipt í tvo flokka, annars vegar reiðstíga og hins vegar göngu- og hjólreiðastíga.
    Eftirfarandi skýringarmynd sýnir nánar hvernig flokkun vega í aðal- og undirflokka er samkvæmt frumvarpinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Breytingarnar á vegflokkum sem lagðar eru til í frumvarpinu eiga að endurspegla breytingar sem frumvarp þetta leggur til. Jafnframt er kveðið á um almenna stíga sem eru reið-, hjólreiða- og göngustígar sem ætlaðir eru til almennrar umferðar. Rétt er að hafa í huga að tilgangur þess að kveða skýrar á um stöðu þessara stíga er meðal annars aukið mikilvægi þeirra til að stuðla að auknu öryggi óvarinnar umferðar og eru lagðar til nýjar heimildir fyrir þátttöku ríkisins í gerð þeirra.
    Með þessu móti verður til samfellt flokkað vegakerfi sem nær til allra þéttbýlisstaða og byggðra bóla utan þéttbýlis, auk þeirra flugvalla og hafna sem mikilvægar eru fyrir flutninga og ferðaþjónustu. Jafnframt verður heimilt að tengja stór sumarbústaðahverfi við vegakerfið.

Um 7. gr.

    Hér er kveðið á um það hlutverk Vegagerðarinnar að gera vegaskrá yfir þjóðvegi. Engin ákvæði eru um gerð vegaskrár í gildandi vegalögum en allt að einu hefur Vegagerðin haldið slíka skrá undanfarna áratugi. Því er lagt til í frumvarpi þessu að það verði lögbundið hlutverk Vegagerðarinnar að halda slíka skrá.
    Einnig er Vegagerðinni heimilað að halda skrá yfir aðra vegi en ekki þykir rétt að gera gerð þeirrar skrár að skyldu.

Um 8. gr.

    Í ákvæði þessu er fjallað um vegi sem eru þjóðvegir og þá undirflokka sem til þess vegflokks teljast, en í núgildandi lögum er um þá vegi fjallað í III. kafla.
    Eins og fram kemur í skýringum með 6. gr. er með frumvarpi þessu lögð til breyting á flokkun þjóðvega frá núgildandi lögum og verða undirflokkar þjóðvega fjórir samkvæmt frumvarpinu: stofnvegir, tengivegir, héraðsvegir og landsvegir.
    Samkvæmt frumvarpinu verða stofnvegir allir vegir í grunnneti sem svo eru skilgreindir í lögum um samgönguáætlun. Stofnvegum fjölgar við þessa breytingu með því að við bætast nokkrir umferðarmiklir tengivegir auk þeirra fjögurra hálendisleiða sem teljast til grunnnetsins samkvæmt núgildandi samgönguáætlun.
    Tengivegum samkvæmt núgildandi lögum fækkar verði frumvarp þetta að lögum. Auk þeirra sem færast í flokk stofnvega verða margir þeirra héraðsvegir. Einnig munu teljast til tengivega vegir innan þjóðgarða og vegir að fjölsóttum ferðamannastöðum, sem samkvæmt núgildandi lögum eru landsvegir.
    Héraðsvegir verða m.a. vegir sem liggja að býlum þar sem er föst búseta eða atvinnustarfsemi, kirkjustöðum, opinberum skólum og öðrum opinberum stofnunum utan þéttbýlis, sem ákveðnir eru á staðfestu skipulagi og taldir upp í vegaskrá. Til héraðsvega munu teljast safnvegir og hluti af núverandi tengivegum. Jafnframt er heimilt að taka í tölu héraðsvega vegi að sumarbústaðahverfum sem tengja a.m.k. 30 bústaði við þjóðveg
    Landsvegum fækkar því að sama skapi og er með þeirri breytingu að því stefnt að til landsvega teljist eingöngu vegir sem að jafnaði fá litla og árstíðabundna þjónustu og viðhald. Landsvegir verða einkum vegir um hálendið. Lagt er til að auk hálendisvega teljist til landsvega byggðavegir um eyðilendur. Hér er einkum horft til vega sem liggja um byggðir sem farið hafa í eyði en rétt þykir að halda opnum með lágmarksþjónustu, t.d. í þágu ferðaþjónustu, landnýtingar eða í öryggisskyni.

Um 9. gr.

    Hér er kveðið á um að vegir í þéttbýli sem samkvæmt gildandi lögum nefnast almennir vegir og eru í umsjá sveitarfélaga skuli kallast sveitarfélagsvegir.
    Sveitarfélagsvegir eru allir vegir innan þéttbýlis, aðrir en gegnumliggjandi stofnvegir. Auk þess munu nokkrir vegir í þéttbýli, sem eru stofn- eða tengivegir samkvæmt gildandi lögum, teljast til sveitarfélagsvega, verði frumvarp þetta að lögum.

Um 10. gr.


    Nýmæli er í frumvarpinu að kveða á um almenna stíga og að þeir séu hluti af vegakerfi landsins. Samkvæmt frumvarpinu eru almennir stígar reiðstígar og göngu- og hjólreiðastígar sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar og haldið er við af fé ríkis eða sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins gildi um þessa stíga eftir því sem við getur átt.

Um 11. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um einkavegi og er ekki gert ráð fyrir í frumvarpinu að miklar breytingar verði frá núgildandi ákvæðum um þá. Slíkir vegir tilheyra sérstökum vegflokki og eru hluti af vegakerfi landsins. Nýmæli er þó að kveðið er á um eignarhald slíkra vega og þannig ekki útilokað að einkavegur geti verið í eigu opinbers aðila. Jafnframt getur einkavegur verið opinn almennri umferð ef honum er ekki lokað með viðeigandi merkingum.
    Ákvæði frumvarpsins um einkavegi eru nokkuð stytt frá því sem er í núgildandi lögum. Ekki er talin þörf á þeim sérreglum sem þar má finna um samskipti meðeigenda og rétthafa einkavegar. Er gert ráð fyrir því að um það fari alfarið eftir almennum reglum eignarréttarins um réttarstöðu sameigenda að eign og nánar eftir því hvernig þeir skipa réttindum sínum innbyrðis með löggerningum. Telja verður að lítið sem ekkert hafi reynt á þessi ákvæði í framkvæmd.
    Eigandi einkavegar hefur heimild til að loka honum fyrir almennri umferð. Geri hann það ekki má búast við því að almenn umferð kunni að fara um veginn og kemur þá til álita að ákvæði frumvarpsins um vegi sem opnir eru fyrir almennri umferð gildi í því tilviki. Má þar nefna kröfur um öryggi umferðar, merkingar og reglur er lúta að ábyrgð veghaldara á ástandi vegar.
    Loks má geta þess að eigandi einkavegar getur þurft að sæta því að aðrir hafi umferðarrétt um veginn samkvæmt venju, hefð eða löggerningum.

Um IV. kafla.

    Ákvæði núgildandi laga sem almennt kveða á um veghald eru í þeim köflum laganna sem fjalla um stjórn vegamála og vegflokkun. Rétt þykir að skipa þessum ákvæðum í sérstakan kafla um veghald og gera þau fyllri þannig að skýrt sé kveðið á um veghald og skyldur veghaldara áréttaðar. Jafnframt þykir rétt að í sama kafla sé fjallað um með hvaða hætti haft er eftirlit með veghaldi og úrræði ef út af því er brugðið.
    Í kafla þessum er fjallað um veghald vega landsins og er ekki um verulegar efnisbreytingar að ræða frá gildandi lögum nema þær sem endurspegla breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu. Sú meginregla gildir áfram að veghald er í höndum þess sem telst eigandi eða umsjónaraðili vegar og miða allar breytingar frá gildandi lögum að því að kveða skýrar á um veghald einstakra vega og skyldur veghaldara.

Um 12. gr.

    Hér er almennt kveðið á um að veghaldari beri ábyrgð á veghaldi vega, hlutverk veghaldara og skyldur, en ekkert sambærilegt ákvæði er í núgildandi lögum.
    Eitt meginmarkmið veghalds er að umferð sé greið og góð en jafnframt skal gæta umferðaröryggis og umhverfissjónarmiða eins og mögulegt er og í samræmi við gildandi lög. Því er lagt til í frumvarpinu að kveðið verði á um ábyrgð veghaldara hvað það varðar og er það í samræmi við aðrar áherslur í frumvarpinu. Gildir þetta um veghaldara allra vegflokka en Vegagerðin ber ábyrgð á rekstri þjóðvegakerfisins og fer með umferðaröryggismál á þeim vegum. Jafnframt er áréttað að gæta skuli að skyldum sem hvíla á veghaldara eftir reglum annarra laga er lúta að náttúru- og minjavernd og koma þar einkum til álita ákvæði viðeigandi laga um náttúruvernd og löggjafar um þjóðminjavernd. Sama ábyrgð er lögð á aðra veghaldara sem hafa með höndum veghald annarra vega.

Um 13. gr.

    Hér er kveðið á um það hver hefur veghald, en það ræðst af flokkun vega. Er það í samræmi við gildandi lög, en í 5. gr. er kveðið á um veghald Vegagerðarinnar á þjóðvegum og í 10. gr. um veghald eigenda á almennum vegum og einkavegum.
    Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu á því hverjir hafa veghald ráðast af þeim breytingum sem gerðar eru á vegflokkuninni í frumvarpinu og vísast um það til athugasemda með III. kafla frumvarpsins.
    Veghald þjóðvega verður áfram hjá Vegagerðinni og veghald einkavega hjá eigendum eða umráðaaðilum þeirra sem geta verið hvort sem er einstaklingar, lögaðilar eða opinberir aðilar. Nýmæli í frumvarpinu eru sveitarfélagsvegir og er veghald þeirra hjá sveitarfélögum.

Um 14. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um heimild vegamálastjóra til að framselja veghald einstakra kafla þjóðvega og er efnislega samhljóða 5. gr. gildandi vegalaga. Telja verður að ákvæði þetta feli jafnframt í sér að vegamálastjóra sé heimilt að gera samninga um einkaframkvæmd tiltekinna vegamannvirkja, eins og nánar er ákveðið í samgönguáætlun.
    Í 1. mgr. er lagt til að vegamálastjóri geti falið sveitarstjórn veghald allra héraðsvega innan sveitarfélagsins, óski viðkomandi sveitarstjórn sérstaklega eftir því. Er þetta í takt við óskir nokkurra sveitarfélaga sem vilja hafa forræði á slíku, m.a. til að skapa betri samfellu í framkvæmdum og þjónustu.
    Nýmæli er í 3. mgr. að um framsal veghalds skv. 1. og 2. mgr. skuli gera þjónustusamning sem er í samræmi við reglur sem gilda um úthýsingu verkefna ríkisins. Um slíka þjónustusamninga gilda almennar reglur sem í gildi eru á hverjum tíma og miðar frumvarpið við að í einu og öllu sé farið að þeim reglum.

Um 15. gr.

    Þetta ákvæði felur í sér nokkur nýmæli sem lúta að því að tryggja eftirlit með því að veghald sé í viðunandi horfi.
    Með þessu er kveðið á um eftirlit Vegagerðarinnar með veghaldi allra vega sem kostaðir eru af fé ríkisins og ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar.
    Nýmæli er einnig að kveðið sé á um eftirlit með veghaldi Vegagerðarinnar. Er við það miðað að innan stofnunarinnar skuli vera starfandi eftirlitsdeild sem sjái um innra eftirlit með veghaldinu. Með þessu er verið að lögfesta skipulag sem í raun er í gildi innan Vegagerðarinnar en rétt þykir að kveðið sé skýrt á um það í lögum. Deildinni er fengið sjálfstæði með því að hún heyrir beint undir vegamálastjóra og er eftirlitið þannig aðskilið frá öðrum þáttum í starfsemi stofnunarinnar í samræmi við kröfur um innra eftirlit í nútímastjórnsýslu.
    Í 4. mgr. er kveðið á um heimild lögreglu til að gefa fyrirmæli um úrbætur á veghaldinu og bann við umferð ef ástæða þykir til. Ákvæði þessa efnis er í 10. gr. gildandi laga og getur lögreglustjóri haft afskipti af veghaldi einkavega sem opnir eru almennri umferð ef hætta stafar af. Eðlilegt þykir að sama gildi um alla vegi sem opnir eru almennri umferð þannig að heimild lögreglu til afskipta af veghaldi og ástandi vega þessara sé ótvíræð, óháð því hvaða vegflokk um er að ræða. Má ætla að í ljósi almenns hlutverks lögreglu við að stuðla að öryggi umferðar sé í raun ekki gerð efnisbreyting en einungis skýrðar heimildir lögreglu hvað þetta varðar.

Um V. kafla.

    Ákvæði V. kafla frumvarpsins samsvara að nokkru V. kafla og 16. og 17. gr. núgildandi laga. Almennt er ekki horft til verulegra breytinga á ákvæðum núgildandi vegalaga um vegáætlun og ekki hróflað við meginatriðum þess fyrirkomulags sem verið hefur á skiptingu markaðra tekjustofna til vegagerðar, ef undan er skilið ákvæði 19. gr frumvarpsins um fjárveitingar til héraðsvega.

Um 16. gr.

    Hér er fjallað um vegáætlun og er um að ræða samsvarandi ákvæði og 18. gr. núgildandi laga. Ekki er um efnislegar breytingar að ræða heldur snúa breytingar einungis að orðalagi og framsetningu ákvæðisins.

Um 17. gr.

    Í þessu ákvæði frumvarpsins er að finna mikilvæg nýmæli sem lúta að heimild til gjaldtöku af umferð en sambærileg ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum.
    Tvö dæmi eru um að vegaframkvæmdir og viðhald vega hér á landi hafi verið kostað af vegfarendum með greiðslu gjalds fyrir notkun mannvirkis. Annars vegar var gerð skammvinn tilraun til gjaldtöku af umferð um Reykjanesbraut á sjöunda áratug síðustu aldar. Hins vegar er bygging og rekstur Hvalfjarðarganga kostaður með gjaldi af umferð.
    Gjaldtaka af umferð um Hvalfjarðargöng er byggð á sérstakri lagaheimild, lögum nr. 45/1990, um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð. Skv. 3. gr. laganna er hlutafélagi, sem stofnað yrði í því skyni að byggja og reka vegtengingu, heimilt að taka gjald af umferð enda liggi fyrir samningur um verkefnið við samgönguráðherra.
    Í greininni er lagt til að kveðið verði á um almenna heimild til gjaldtöku af umferð um þjóðvegi þannig að ekki sé þörf á að afla sérstakrar lagaheimildar hverju sinni til einstakra framkvæmda eins og nú er. Hér er þó ekki verið að setja fram tillögu um opna gjaldtökuheimild til handa veghaldara til að ákveða að framkvæmd skuli fjármögnuð með gjaldi af umferð heldur þarf að gera tillögu um slíkt í samgönguáætlun hverju sinni og fá þannig samþykki Alþingis fyrir hverri gjaldtöku. Er með þessu gert ráð fyrir að fjallað verði um alla þætti fjármögnunar þjóðvega innan ramma samgönguáætlunar.
    Enn fremur er lögð til innleiðing ákvæða tilskipunar nr. 1999/62 EB eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 2006/38 EB.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimilt sé að ákveða í samgönguáætlun að veghald einstakra vegarkafla þjóðvega skuli kostað að hluta eða öllu leyti með veggjaldi af umferð eða notkunargjaldi. Skilyrði gjaldtökunnar er að heimild sé til þess í samgönguáætlun, en þar er fjallað um fjárveitingar til þjóðvega.
    Í frumvarpinu er lagt til að heimild til gjaldtöku af umferð um þjóðvegi verði tvenns konar. Annars vegar að heimilt verði að taka veggjald af umferð og hins vegar notkunargjald.
    Með veggjaldi er átt við gjald sem greitt er fyrir rétt til að nota tiltekinn veg eða vegarkafla á tilteknum tíma í tiltekin skipti. Hér er um að ræða samsvarandi gjaldtöku og það sem nefnt er „toll“ skv. b-lið 2. gr. tilskipunarinnar. Sem dæmi um veggjald má nefna gjald sem greitt er fyrir akstur um Hvalfjarðargöng.
    Með notkunargjaldi er í frumvarpi þessu átt við gjald sem greitt er fyrir notkun vega, t.d. mælt eftir eknum km, tíma dagsins, stærð ökutækis eða umhverfisáhrifum. Er hér átt við það sem kallað er „user charge“ í c-lið 2. gr. tilskipunar 1999/62 EB, eins og henni var breytt með tilskipun 2006/38 EB. Með tækninýjungum undanfarin ár hafa skapast nýir möguleikar til töku notkunargjalda af umferð, mældri eftir ekinni vegalengd. Með GPS-staðsetningartæki er unnt að skrá akstur ökutækis og safna upplýsingum um hann jafnóðum í gegnum gervihnattasamband. Þessi tækni er fyrir hendi og hefur verið tekin í notkun erlendis en dæmi er um sambærilegan búnað hér á landi án þess að það tengist gjaldtöku. Þykir rétt að gera ráð fyrir þessari gjaldtöku í vegalögum en ekki liggur fyrir hvort né heldur hvenær búast má við beitingu hennar. Lagaumhverfi þarf að þessu leyti að taka mið af löggjöf Evrópusambandsins og eru þessi ákvæði frumvarpsins sniðin að henni. Lagt er til að gjaldtaka af umferð miðist við að hún standi straum af byggingarkostnaði, rekstri, þróun og eðlilegum afrakstri fjárfestingar í vegamannvirkjum. Jafnframt að heimilt sé í samræmi við 10. mgr. 7. gr. tilskipunar 1999/62 EB, eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 2006/38 EB, að byggja gjaldtöku á sjónarmiðum um vernd umhverfis, umferðaröryggi og stýringu umferðar, t.d. til að jafna álagi á umferðarmannvirki til að greiða fyrir umferð eða til að draga úr sliti vega.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. ákvæðisins eru sniðin að meginreglum tilskipunarinnar og er þar fjallað um það á hvaða sjónarmiðum heimilt er að byggja gjaldtökuna. Sama má segja um 4. mgr. þar sem fram kemur sú meginregla að óheimilt sé að haga gjaldtöku með þeim hætti að raski jafnræði þeirra sem nota vegamannvirki.
    Loks ber að nefna ákvæði 5. mgr. sem samsvarar 3. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar og kveður á um þá meginreglu að óheimilt er að innheimta samhliða veggjald og notkunargjald af sama vegarkaflanum. Undantekning er frá þessu er varðar gjaldtöku af notkun jarðganga og brúa en áfram verður heimilt að innheimta veggjald sérstaklega af notkun þeirra samhliða notkunargjaldi aðliggjandi vega sem miðast við ekna vegalengd.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um gjaldtöku af umferð sem taki mið af ákvæðum ofangreindrar tilskipunar, með síðari breytingum, og er heimild til setningar reglna ráðgerð í lokamálsgrein ákvæðisins. Er ráðherra m.a. heimilað að kveða sérstaklega á um kröfur um búnað sem notaður er við rafræna gjaldtöku og upplýsingasöfnun um útgjöld vegna samgöngumannvirkja. Hér er eingöngu verið að setja fram almennan ramma um gjaldtökuna sem tekur mið af samsvarandi löggjöf á EES-svæðinu, svo sem eins og tilskipun 2004/52/EC um rafræna vegatolla og reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1108/70 um að koma á bókhaldsyfirliti yfir útgjöld vegna samgöngumannvirkja til flutninga m.a. á vegum, með síðari breytingum.

Um 18. gr.

    Í 18. gr. frumvarpsins eru ákvæði um skiptingu kostnaðar milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga vegna þjóðvega í þéttbýli. Sérstök sjónarmið eiga við um vegagerð í þéttbýli þar sem návígi við byggð, lagnir, gönguleiðir o.fl. gerir að verkum að skilin milli þeirra kostnaðarþátta sem eru vegarins vegna og þeirra sem til eru komnir sérstaklega vegna þéttbýlis þurfa að vera skilgreind. Miðað er við að kostnaður vegna þéttbýlis skuli borinn af viðkomandi sveitarfélagi en kostnaður sem til er kominn vegarins vegna sé borinn af Vegagerðinni. Þetta er í samræmi við ákvæði 20. gr. núgildandi laga og er 1. mgr. 18. gr. frumvarpsins efnislega samhljóða henni.
    Nýmæli er að finna í 2. mgr. ákvæðisins sem lúta að því álitaefni hver bera eigi kostnað af aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að draga úr áhrifum umferðarhávaða á næsta nágrenni þjóðvega. Þessi ákvæði eru sett að gefnu tilefni þar sem nauðsynlegt þykir að eyða óvissu um þetta efni og fyrirbyggja ágreining sem ítrekað hefur komið upp milli viðkomandi sveitarfélaga og Vegagerðarinnar. Í stórum dráttum má segja að ákvæði þetta sé byggt á framangreindri meginreglu um kostnaðarskiptingu milli Vegagerðarinnar og sveitarfélags og er þá horft til þess hvort nauðsyn hávaðavarna verður rakin til aðgerða við veg eða skipulags byggðar.
    Þegar lagður er nýr vegur um byggð sem fyrir er má segja að nauðsyn hávaðavarna verði rakin beinlínis til vegarins og þar með er eðlilegt að veghaldari kosti hávaðavarnir sem nauðsynlegar eru hans vegna. Í samræmi við þetta er lagt til að Vegagerðin kosti aðgerðir til varnar hávaða þegar svona háttar til við þjóðveg.
    Þegar nauðsynlegt er að grípa til aðgerða gegn umferðarhávaða vegna byggðar sem skipulögð er að vegi sem fyrir er er eðlilegt að sveitarfélag sem ber ábyrgð á skipulaginu kosti jafnframt hávaðavarnir meðfram veginum. Í samræmi við það er lagt til að sveitarfélag kosti hávaðavarnir í þeim tilvikum þegar byggð er skipulögð að vegi sem fyrir er á skipulagi og enn fremur ef vegi er að ósk sveitarfélags valinn staður um byggð.
    Frumvarpið gerir ráð yfir þeirri meginreglu að saman fari ábyrgð á kostnaði og forræði á skipulagi. Skipulagsforsendur gera ráð fyrir tiltekinni aukningu umferðar og er eðlilegt að skipulag byggðar og umferðar taki mið af áreiðanlegustu umferðarspám sem völ er á hverju sinni. Aukist umferð umfram það sem gert er ráð fyrir í slíkum spám er eðlilegt að sveitarfélag og veghaldari beri saman áhættuna af því og þar með kostnað af hávaðavörnum sem nauðsynlegar reynast vegna þess að umferð eykst umfram það sem spáð var. Í samræmi við það er lagt til að Vegagerðin og sveitarfélag beri að jöfnu kostnað af hljóðvörnum þegar svona háttar til en jafnframt er gert ráð fyrir að í sérstökum tilvikum megi ákveða aðra skiptingu með samkomulagi aðila.
    Aukin umferð á tilteknum þjóðvegum samhliða skipulagi byggðar getur valdið því að grípa þarf til sérstakra aðgerða til að tryggja umferðaröryggi í samræmi við aukna umferð. Af þeim sökum er kveðið á um í 3. mgr. að heimilt sé að skipta kostnaði af slíkum aðgerðum milli sveitarfélags og Vegagerðarinnar.

Um 19. gr.

    Eins og áður hefur komið fram er með frumvarpinu lagður til nýr undirflokkur þjóðvega, héraðsvegir, og hefur Vegagerðin veghald þeirra, en gert er ráð fyrir að sveitarfélag geti óskað eftir að yfirtaka veghald þeirra héraðsvega sem eru innan viðkomandi sveitarfélags. Í því tilviki er gert ráð fyrir því að sveitarfélagið fái með samningi fjárveitingar til að standa straum af veghaldinu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að skipting fjárveitinga til héraðsvega verði ákveðin af Vegagerðinni í samræmi við reglur sem ráðherra setur. Gera má ráð fyrir að svipuð sjónarmið muni ráða skiptingunni og til þessa hafa ráðið skiptingu fjárveitinga til safnvega.

Um 20. gr.

    Hér er kveðið á um það nýmæli að veghaldara verði heimilt að leggja á vegtengigjald til að standa straum af kostnaði við lagningu nýs héraðsvegar.
    Meðal helstu raka fyrir því nýmæli er að forræði og ákvörðunarvald í skipulagsmálum og búsetuþróun innan sveitarfélags er í höndum viðkomandi sveitarfélags en veghald oftast í höndum annarra. Eðlilegt þykir að réttarstaða íbúanna sé sambærileg hvað snertir vegtengingu og kostnað vegna hennar, hvort sem búseta er ákveðin í dreifðri eða þéttri byggð, og er með frumvarpinu stefnt í þá átt.
    Eftir núgildandi lögum er sveitarfélagi heimilað að leggja á gatnagerðargjald til að standa straum af gatnagerð í þéttbýli. Lagt er til með frumvarpi þessu að veghaldari hafi sams konar heimild til álagningar gjalds þegar kemur að lagningu vegar í dreifðri byggð og tíðkast við uppbyggingu innan þéttbýlis. Þannig er veghaldara heimilað að leggja á vegtengigjald til að standa straum af lagningu nýs héraðsvegar. Lagt er til að sömu reglur, að breyttu breytanda, geti eftir því sem við á gilt um fjárhæð, álagningu og innheimtu vegtengigjalds og gilda um gatnagerðargjald.

Um 21. gr.

    Í ákvæði þessu er fjallað um skiptingu framlags ríkisins til landsvega og er samsvarandi 22. gr. núgildandi laga.

Um 22. gr.

    Greinin samsvarar 23. gr. núgildandi laga og eru engar efnislegar breytingar gerðar að því frátöldu að áskilin er umsögn Siglingastofnunar ef veita á fé af vegáætlun til greiðslu hluta kostnaðar við ferjubryggjur og það nýmæli að heimilt er að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustuna.

Um 23. gr.

    Í gildandi vegalögum er kveðið á um að a.m.k. einum hundraðshluta af mörkuðum tekjum til vegagerðar skuli varið til rannsókna á sviði vega- og gatnagerðar. Mikilvægi þess að unnið sé að rannsóknum og framþróun á þessu sviði er síst minna nú en var við gildistöku þeirra laga. Er því lagt til að þessi starfsemi verði efld enn frekar með því að hækka framlagið í 1,5% af mörkuðum tekjustofnum. Jafnframt er lagt til að felld verði niður bein tilvísun í áðurgildandi lög um fjáröflun til vegagerðar.

Um 24. gr.

    Hér er fjallað um heimildir til framkvæmda vegna ófyrirsjáanlegra atvika og er um að ræða framkvæmdir sem ekki var gert ráð fyrir í vegáætlun. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 25. gr. núgildandi laga.

Um 25. gr.

    Samkvæmt 16. gr. núgildandi laga er heimilt að veita fé af vegáætlun til tiltekinna samgönguleiða sem taldar eru upp í greininni. Rétt þykir að skipa ákvæði þessu í kafla um vegáætlun og fjármögnun vega og er það því í þessari grein. Jafnframt er lögð til sú breyting að ráðherra setji nánari reglur um hvaða samgönguleiðir skuli styrktar á grundvelli reglna sem settar yrðu um framkvæmd styrkveitinga.
    Í 16. gr. laganna skortir alfarið ákvæði um málsmeðferð við styrkveitingar. Lagt er til að umsóknum um styrk skuli beint til Vegagerðarinnar og er þar um að ræða lögfestingu á þeirri tilhögun sem verið hefur við lýði. Auk þess er gert ráð fyrir, eins og áður sagði, að ráðherra setji nánari reglur um málsmeðferð við úthlutun. Loks má ætla að reglur stjórnsýslulaga gildi um úthlutunina.

Um 26. gr.

    Ákvæðið samsvarar 17. gr. núgildandi laga. Rétt þykir að skipa þessu ákvæði í kafla um vegáætlun og fjármögnun vega en að öðru leyti er ekki gerð tillaga að breytingum. Tekið skal fram að engar efnislegar breytingar felast í því að rætt er um reiðstíga í stað reiðvega eins og í núgildandi lögum. Einungis er um orðalagsbreytingu að ræða, til samræmis við 27. gr. sem fjallar um annars konar stíga.

Um 27. gr.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði í samgönguáætlun að veita fé til almennra hjólreiða- og göngustíga meðfram umferðarmestu þjóðvegum, samkvæmt sérstakri áætlun sem gerð skal að höfðu samráði við sveitarfélög. Hér er um nýmæli að ræða þar sem hingað til hefur ekki verið heimilt að veita fé til hjólreiða- og göngustíga í tengslum við fjárveitingar til vegamála.
    Megintilgangur þessa ákvæðis er að stuðla að auknu öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda sem leið eiga meðfram umferðarmestu þjóðvegum utan þéttbýlis. Brýnt er að umferð hjólandi og gangandi vegfarenda blandist ekki umferð ökutækja þar sem umferðarhraði er að jafnaði mikill.
    Með ákvæði þessu er ekki ætlunin að hrófla við fyrirkomulagi skv.18. gr. frumvarpsins um skiptingu kostnaðar í tengslum við lagningu þjóðvega innan þéttbýlis. Frumvarpið felur í sér að viðkomandi sveitarfélag kosti hjólreiða- og göngustíga meðfram þjóðvegum innan þéttbýlis svo sem verið hefur almenna reglan til þessa. Þetta heimildarákvæði opnar hins vegar þann möguleika að vikið verði frá þessu í undantekningartilfellum þegar ástæða þykir til, svo sem til að tryggja umferðaröryggi.
    Eðlilegt er að heimilt sé að kosta gerð stíga fyrir hjólandi og gangandi umferð og má í því sambandi benda á að gerð reiðvega fær eftir núgildandi lögum framlag af vegáætlun.

Um VI. kafla.

    VI. kafli frumvarpsins samsvarar efnislega VI. kafla núgildandi laga. Nokkrar breytingar eru gerðar á framsetningu og orðalagi þeirra ákvæða sem varða t.d. skipulag og vegi, tengingar og fjarlægð mannvirkja frá vegum. Í stórum dráttum má segja að ekki sé haggað við meginreglum núgildandi laga en ákvæði er snúa að málsmeðferð eru skýrð og gerð ítarlegri.

Um 28. gr.

    Þetta ákvæði samsvarar 29. gr. núgildandi laga þar sem kveðið er á um þá meginreglu að vegi skuli leggja í samræmi við skipulag hverju sinni. Jafnframt er kveðið á um þátttöku Vegagerðarinnar í ákvörðun um legu þjóðvega. Eru með frumvarpinu lögð til fyllri ákvæði þar að lútandi í 1., 2. og 4. mgr., enda um mikilvæg ákvæði að ræða.
    Náið samstarf og samráð er nauðsynlegt milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga þegar kemur að ákvörðun um legu þjóðvega við gerð skipulagsáætlana. Lega þjóðvega og tengingar við þá er ein af mikilvægustu forsendum skipulagsgerðarinnar. Má ætla að eitt af fyrstu skrefunum við mótun stefnu um skipulag í sveitarfélagi hljóti að felast í því að leita tillagna og upplýsinga um vegakerfi og fyrirætlanir um breytingar á því.
    Ætla má að samráð Vegagerðar og sveitarfélaga sé í flestum tilvikum náið og farsælt og má því segja að lögfesting reglna sem kveða á um samráðsskyldu feli fyrst og fremst í sér staðfestingu á viðurkenndu og vönduðu vinnulagi við skipulagsgerð. Með frumvarpi þessu er gengið skrefi lengra en í gildandi lögum og áskilið að sveitarfélag viðhafi þá sjálfsögðu vinnureglu að afla upplýsinga og tillagna um legu vega og áform um breytingu á vegum hjá Vegagerðinni. Við skipulagsgerðina kann að koma upp sú staða að ekki verði fallist á tillögur og ábendingar Vegagerðarinnar. Sveitarstjórn fer með skipulagsvaldið og hefur í slíkum tilvikum heimild til að ganga gegn tillögum Vegagerðarinnar. Þá er áskilið að sveitarstjórn færi skýr rök fyrir afstöðu sinni en telja verður að það styðji enn frekar það meginmarkmið með breytingartillögu frumvarpsins að stuðla að vandaðri ákvarðanatöku um legu vega.
    Misbrestur á því að gætt sé samráðs og leitað tillagna þar til bærra aðila getur almennt valdið því að markmið skipulagsgerðarinnar náist ekki að öllu leyti. Þar af leiðandi er eðlilegt að samráð og tillögugerð Vegagerðarinnar varðandi legu vega og tenginga við þá, og eftir atvikum rökstudd afgreiðsla sveitarstjórnar, sé lögbundið formskilyrði við vinnslu skipulags.
    Ákvæði 3. mgr. eiga sér samsvörun í 29. gr. núgildandi laga nema að segja má að heimild Vegagerðarinnar til að krefja sveitarfélag um kostnaðarmun sé að einhverju leyti þrengd frá núgildandi lögum. Felst það í því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir ákveðnum sjónarmiðum sem Vegagerðin verður að taka tillit til við ákvörðun um hvort vegstæðið er betra, svo sem eins og umferðaröryggis, en í núgildandi lögum eru engin slík ákvæði.
    Lagt er til í 4. mgr. að Vegagerðin verði ávallt lögbundinn umsagnar- og samráðsaðili þegar líkur eru á að breytingar á skipulagi hafi áhrif á umferð um þjóðvegi. Skýra ber ákvæði þetta með þeim hætti að í vafatilvikum skuli leita umsagnar og hafa samráð þar sem með því er dregið eins og hægt er úr því að upp komi árekstrar milli áætlana um þjóðvegagerð og skipulagsáætlanir sveitarfélaga og fyrir fram unnt að taka á vandamálum sem upp kunna að koma í stað þess að taka á þeim eftir á, þegar erfiðara er um vik með lausnir.

Um 29. gr.

    Ákvæði 1. og 3. mgr. 29. gr. frumvarpsins samsvara 30. gr. núgildandi laga.
    Í 2. mgr. er nýmæli sem kveður á um heimild ráðherra til setningar reglna um lágmarksfjarlægð milli tenginga við þjóðvegi. Þessa heimild vantar í núgildandi lög en telja verður mikilvægt út frá sjónarmiðum umferðaröryggis að skýrt sé kveðið á um þetta atriði í reglugerð. Vegamót geta aukið hættu á umferðarslysum og því mikilvægt að til séu skýrar reglur sem kveða með bindandi hætti á um lágmarkskröfur að þessu leyti við tilteknar aðstæður, t.d. eftir því hvaða vegflokkar eiga í hlut og hver umferðarþungi er á viðkomandi vegi. Umferðarhraði er einnig dæmi um sjónarmið sem litið verður til við setningu reglna samkvæmt þessu ákvæði.

Um 30. gr.

    Hér er kveðið á um byggingarbann á fyrirhuguðu vegsvæði og er samhljóða 31. gr. núgildandi laga.

Um 31. gr.

    Ákvæði er lúta að rétti til tenginga við veg er að finna í 32. gr. núgildandi laga. Ekki er lögð til efnisleg breyting á réttarstöðu landeiganda hvað þetta varðar, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Þó er lögð til sú mikilvæga undantekning, sem telst nýmæli, að landeigandi getur þurft að sæta því að veghaldari synji ósk hans um tengingu við veg. Þá er lagt til það nýmæli í 4. mgr. að landeigandi geti krafist bóta vegna synjunar um vegtengingu. Loks eru lögð til ítarlegri ákvæði um málsmeðferð í 2. og 3. mgr., sem um margt teljast nýmæli.
    Í núgildandi lögum er landeiganda veittur tiltekinn frestur til að birta fyrir veghaldara kröfu sína um tengingu við veg. Í samræmi við nútímalega stjórnsýsluhætti er lögð til sú breyting í 2. mgr. að veghaldari hafi frumkvæði að tilkynningu til landeiganda um fyrirhugaða staðsetningu tengingar og gefi honum tiltekinn frest, sem skal vera a.m.k. þrjár vikur, til að koma að athugsemdum og eftir atvikum kröfu um aðra vegtengingu fallist hann ekki á tillögu veghaldara. Með þessu er réttarstaða landeiganda skýrð til muna frá því sem er í gildandi lögum jafnframt því að breytingin samræmist vel kröfum sem gerðar eru varðandi samskipti og samráð við landeigendur um framkvæmdir við vegagerð.
    Í samræmi við aukna áherslu á umferðaröryggi er lagt til í 3. mgr. að veghaldari geti synjað landeiganda um vegtengingu. Vegamót geta skapað hættu á umferðaróhöppum og gerir frumvarpið ráð fyrir að heimilt verði að herða kröfur um öryggi á þeim. Ekki er hægt að útiloka að hertar kröfur leiði til þess að synjað verði um vegtengingu í einhverjum tilvikum. Enn fremur verður að gera ráð fyrir að í framtíðinni fjölgi þeim vegum sem vegna umferðarþunga og hraða leyfa ekki þann fjölda tenginga sem heimilaður hefur verið til þessa. Fækkun tenginga getur valdið því að ekki verður unnt að tengja allar eignir eða kostnaður vegna þess verður óásættanlegur. Kveðið er á um málsmeðferð við synjun vegtengingar en auk þess gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
    Synjun um vegtengingu getur valdið því að landareign verður ekki nýtt áfram sem sjálfstæð eign með þeim hætti sem gera mátti ráð fyrir og verið hefur. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt, með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um vernd eignarréttinda, að heimila landeiganda að krefjast eignarnámsbóta fyrir þá eignaskerðingu sem hann kann að verða fyrir vegna þessa. Krafa landeiganda þar að lútandi fæli í sér að litið yrði svo á að synjun veghaldara um vegtengingu leiddi til þess að viðkomandi landareign yrði í raun ónýtanleg vegna þess að vegtengingu verði ekki við komið. Bótaréttur einskorðast við fjárhagslegt tjón og er fyrst og fremst um að ræða bætur sem nema andvirði viðkomandi eignar sem ónýtist en gert er ráð fyrir að um ákvörðun bóta og bótafjárhæð fari eftir reglum um ákvörðun eignarnámsbóta.
    Rétt er að taka fram að í því tilviki þegar ekki er unnt að tengja landareign beint við veg getur veghaldari átt kost á, að uppfylltum skilyrðum, að tengja viðkomandi eign annars staðar frá með lengri vegtengingu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að landeigandi verði að una slíkri ráðstöfun. Getur landeigandi ekki synjað um þá lausn eða aðra sem veghaldari býður fram og krafist auk þess bóta samkvæmt þessari grein frumvarpsins.

Um 32. gr.

    Í ákvæði þessu er fjallað um fjarlægð mannvirkja frá vegi. Ekki er um að ræða breytingar frá núgildandi lögum en um þetta eru ákvæði í 1. mgr. 33., 34. og 35. gr. gildandi vegalaga.

Um 33. gr.

    Hér er kveðið á um lágmarkshæð undir mannvirki við vegi og er um samhljóða ákvæði og 2.–4. mgr. 33. gr. núgildandi laga. Ekki er lögð til efnisleg breyting er þetta varðar.

Um VII. kafla.

    Í kafla þessum er fjallað um eignarnámsheimild Vegagerðarinnar vegna þjóðvegagerðar og veghalds. Kaflinn tekur bæði til bráðabirgðaafnota lands og eignarnáms sem í núgildandi lögum er fjallað um í tveimur aðskildum köflum.
    Ekki er um efnislegar breytingar að ræða frá núgildandi lögum á heimildum til að taka land undir þjóðvegi eignarnámi eða fá afnot lands til bráðabirgða né heldur er lögð til breyting á því að Vegagerðinni sé falin þessi heimild. Breytingar varða fyrst og fremst meðferð og undirbúning eignarnáms í því skyni að auka réttaröryggi eignarnámsþola og skýra réttarstöðu aðila. Einnig er um orðalagsbreytingar að ræða, enda núgildandi ákvæði áratugagömul að stofni til og hafa staðið lítt breytt frá því þau komu fyrst í löggjöfina.
    Um bráðabirgðaafnot lands er fjallað í VIII. kafla núgildandi laga en í frumvarpi þessu í 34.–36. gr. Ákvæðin eru að mestu leyti samhljóða og er ekki um sérstakar efnislegar breytingar að ræða nema kveðið er skýrar á um skyldur Vegagerðarinnar til samráðs við landeiganda.
    Í núgildandi lögum er kveðið á um eignarnám, bætur vegna jarðrasks, átroðnings o.fl. í IX. kafla laganna en í frumvarpinu er um það fjallað í 37.–40. gr. Efnislega eru ákvæðin samhljóða hvað varðar eignarnámsheimild og skyldu til að láta land af hendi. Gerðar eru orðalagsbreytingar og nánar kveðið á um framkvæmd við eignarnámið.

Um 34. gr.

    Ákvæði þetta er meginheimildin um tiltekin bráðabirgðaafnot lands og skyldu landeiganda til að veita aðgang að landi. Ákvæðið er efnislega samhljóða 42. og 43. gr. núgildandi laga. Ekki eru gerðar breytingar á heimildum Vegagerðarinnar til notkunar lands í þessu skyni frá gildandi lögum en nýmæli er að kveðið sé á um skyldu landeiganda og umráðamanns lands til að veita aðgang að landinu. Sú skylda er þegar fyrir hendi og eðli málsins samkvæmt þykir rétt að kveðið sé á um hana í lögum.

Um 35. gr.

    Eins og í 1. mgr. 44. gr. núgildandi laga er í þessari grein kveðið á um skyldu Vegagerðarinnar til að hafa samráð við landeiganda um afnot lands. Nýmæli er að kveðið sé á um tilkynningarskyldu Vegagerðarinnar, enda verður að telja það eðlilega framkvæmd og nauðsynlegan þátt í að samkomulag takist um þau. Jafnframt er nýmæli að á Vegagerðina er lögð sú skylda að gæta meðalhófs og raska ekki meiru en nauðsynlegt er hverju sinni. Með þessu er verið að tryggja réttaröryggi landeiganda sem fyrir þessu verður og er eðlilegt að hagsmuna hans sé gætt í hvívetna.
    Hins vegar kann að vera nauðsynlegt að fá afnot lands til bráðabirgða þegar í stað og er Vegagerðinni fengin heimild til slíks þegar um neyðartilvik er að ræða, í þeim tilgangi sem ákvæðið segir til um. Þykir óhjákvæmilegt að hafa slíka heimild þegar brýna nauðsyn ber til og skjótra aðgerða er þörf og enginn tími gefst til samráðs. Er það lagt í hendur Vegagerðarinnar að meta hvenær slík þörf er fyrir hendi og er stofnunin bundin af sömu sjónarmiðum um meðalhóf og áður er getið.

Um 36. gr.

    Hér er kveðið á um bætur til landeiganda vegna bráðabirgðaafnota lands og er um sambærilegt ákvæði að ræða og í 2. mgr. 44. gr. gildandi laga. Áfram er gert ráð fyrir að bætur ákveðist eftir ákvæðum um eignarnámsbætur eftir því sem við á. Nýmæli er að bætur má ákveða um leið og eignarnámsbætur fyrir land og er það til hagræðingar svo að hægt sé að fjalla um það saman.

Um 37. gr.

    Ákvæði þetta er eignarnámsheimildin sem Vegagerðinni er fengin vegna lands sem þarf til þjóðvegagerðar og veghalds þeirra. Í 1. mgr. er kveðið á um skyldu landeiganda til að láta land, jarðefni og önnur réttindi af hendi og er ákvæðið samhljóða núgildandi 1. mgr. 45. gr., enda ekki ætlunin með frumvarpinu að breyta neinu um eignarnámsheimildir Vegagerðarinnar. Rétt þykir að árétta að skylda til að láta réttindi af hendi nær jafnframt til þeirra sem eiga önnur réttindi en bein eignarréttindi yfir landi, svo sem ítaksréttindi ýmiss konar.
    Ekki eru gerðar breytingar á því að Vegagerðin ákveði hvort þörf sé á eignarnámi og verður framkvæmdin öll hjá stofnuninni. Nýmæli er hins vegar að kveðið er á um þá framkvæmd sem Vegagerðin skal viðhafa þegar eignarnám er áformað og eru þær breytingar allar í þá veru að vernda hagsmuni eignarnámsþola og gefa honum færi á að gera athugasemdir við eignarnámið. Er gert ráð fyrir að Vegagerðin tilkynni viðkomandi um áformin skriflega þar sem gerð er grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir innan ákveðins frests. Gildir þetta bæði um alla sem eiga réttindi yfir landi, bæði bein og óbein, þó með þeim eðlilega fyrirvara að vitað sé um rétthafa. Gert er ráð fyrir að Vegagerðin taki endanlega ákvörðun um eignarnámið eftir að fresturinn er liðinn og er það sett í hendur Vegagerðarinnar að ákveða hvort og þá í hvaða mæli tekið skuli tillit til athugasemda, engin skylda er lögð á stofnunina í því sambandi. Kveðið er á um tilkynningarskyldu Vegagerðarinnar til viðkomandi um eignarnámið og að þar skuli gerð grein fyrir afdrifum athugasemdanna.
    Ákvæði 6. mgr. er samhljóða 11. gr. gildandi laga um heimild til að taka land eignarnámi undir einkavegi og almenna stíga og eru ekki lagðar til breytingar hvað það varðar í frumvarpinu.

Um 38. gr.

    Í núgildandi lögum er í 46. gr. kveðið á um að heimilt sé að leita samninga um eignarnámsbætur. Verði frumvarp þetta að lögum er lagt til að Vegagerðinni verði skylt að leita samninga við landeiganda, og eftir atvikum aðra rétthafa, um bætur eins og kostur er. Þykir rétt að samningaleiðin sé fyrst fullreynd áður en mál eru lögð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, enda hagkvæmara fyrir alla aðila að samkomulag náist. Hér er jafnframt áréttað að bætur fyrir bráðabirgðaafnot lands sé hægt að ákveða samhliða eignarnámsbótum.
    Nýmæli er að kveða á um þá framkvæmd sem viðhöfð skal og er lagt til að Vegagerðin geri eignarnámsþolum skriflega tillögu að bótum þar sem sundurliðað er fyrir hvað boðnar eru bætur. Þetta er hugsað sem upphaf samningaviðræðna milli aðila, sem skal ljúka innan tiltekins frests sem Vegagerðin ákveður annars skal leggja mál fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Með þessu er sú framkvæmd sem að verulegu leyti er viðhöfð í þessum málum lögfest og þykir eðlilegt að fyrir liggi með skýrum hætti hver hún er svo tryggt sé að sömu reglum sé fylgt í hverju tilviki og allir eignarnámsþolar eigi sama rétt.

Um 39. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um ákvörðun bóta með mati og er þá miðað við að mál sé lagt fyrir matsnefnd eignarnámsbóta á grundvelli laga sem um það gilda. Rétt þykir því í upphafi ákvæðisins að taka það fram, en það kemur ekki sérstaklega fram í núgildandi lögum.
    2., 3. og 4. mgr. ákvæðisins eru að mestu samhljóða 47. gr. núgildandi laga um hvað skuli hafa í huga við matið. Hins vegar er kveðið skýrar á um áhrif annarra hagsbóta sem eiganda hlotnast við eignarnámið umfram aðra, svo sem ef eign hækkar í verði, og að slík hagsbót komi til frádráttar bótum. Þetta er í samræmi við dómaframkvæmd.

Um 40. gr.

    Í 1. mgr., sem er samhljóða 48. gr. núgildandi laga, er kveðið á um hver á eignarnámsbætur og er ekki um breytingu frá gildandi lögum að ræða heldur er það áfram landeigandi og eftir atvikum ábúandi. Hins vegar er nýmæli að kveðið sé á um að aðrir rétthafar en ábúendur geti átt rétt til bóta ef það liggur fyrir með óyggjandi hætti að réttindi þeirra hafi verið tekin eignarnámi og um einhver verðmæti sé að ræða.
    2. mgr. kveður á um fyrningarfrest bótakrafna sem af veghaldi leiða. Fyrningarfresturinn er eitt ár frá því verkinu lauk eða skaði kom í ljós en þó þannig að tíu árum frá verklokum er bótarétturinn fallinn niður. Krafa vegna skaða sem kemur í ljós meira en tíu árum frá verklokum er því fallin niður fyrir fyrningu. Ákvæði um þetta eru í 49. gr. núgildandi laga að mestu. Hefur það verið talið ná til bóta vegna lands undir vegi, jarðrasks, átroðnings vegna vegagerðar og annars slíks. Verði frumvarp þetta að lögum nær ákvæðið til bótakrafna almennt, hvort sem er vegna vegagerðarinnar, viðhalds eða þjónustu, svo sem ef skemmdir verða vegna snjómoksturs eða aðgerða við viðhald vega.
    Eignarnámsheimild Vegagerðarinnar leiðir til þess að þegar henni er beitt flyst eignarréttur að landi, sem eignarnám beinist að, að fullu til Vegagerðarinnar. Gildir einu hvort lands er aflað með samkomulagi eða eignarnámsúrskurði. Nauðsynlegt er að unnt sé að þinglýsa slíkum rétti og þykir rétt að kveða sérstaklega á um það til að taka af öll tvímæli. Er enn fremur rétt að kveða á um heimild til skráningar vegsvæðis í Landskrá fasteigna í samræmi við gildandi reglur þar um. Rétt er að geta þess að litið hefur verið svo á að þetta sé heimilt og eru mörg dæmi um að þessum réttindum hafi verið þinglýst. Aukin viðskipti með lönd og jarðir undanfarið með tilheyrandi áhrifum á verðmæti þeirra gera enn mikilvægara en áður að mörk vegsvæða og nærliggjandi lands séu skráð og þinglýst.

Um VIII. kafla.

    Þessi kafli frumvarpsins felur í sér allnokkur nýmæli frá gildandi lögum. Í X. kafla núgildandi laga eru ákvæði sem að nokkru eiga sér samsvörun í 43. og 44. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti er hér um að ræða ný ákvæði sem ekki eiga sér hliðstæðu í gildandi lögum. Megintilgangur þeirra er að skapa skýra lagalega umgjörð um þær kröfur sem gera verður til lagningar, viðhalds og þjónustu vega.

Um 41. gr.

    Hér er lögð til almenn regla um þau meginatriði sem horfa skal til við lagningu og viðhald vega. Þar vegast á annars vegar þau markmið sem stefnt er að með vegarlagningunni, hagkvæmni og öryggi, og hins vegar áhrif sem hún að öðru leyti kann að hafa á samfélagið og umhverfið í heild sinni. Þessari grein er ætlað að hafa almennt leiðsagnargildi um þau meginsjónarmið og hagsmuni sem veghaldara ber að líta til við framkvæmd veghalds.

Um 42. gr.

    Í gildandi lögum er ekki að finna sérstaka heimild til setningar reglna um lágmarkskröfur sem gera verður um vegi sem opnir eru almennri umferð. Kveðið er á um heimild ráðherra til að setja reglur um hvaða kröfur gera verður til hönnunar vega og eftirlits með gerð þeirra.
    Með lágmarkskröfum um vegi er átt við þær tæknilegu kröfur sem gerðar eru um vegamannvirki, svo sem vegi, brýr og jarðgöng. Þessi mannvirki eru byggð í samræmi við fyrirliggjandi staðla og faglegar kröfur sem gilda á hverjum tíma. Jafnframt er heimilt samkvæmt þessari grein að kveða nánar á um kröfur sem gerðar eru um hönnun og faglega hæfni hönnuða vegamannvirkja, þ.m.t. brúa og jarðganga. Loks geta reglurnar kveðið á um skilyrði um eftirlit með mannvirkjagerð, þar á meðal lágmarkskröfur um faglega hæfni þeirra sem annast eftirlitið.
    Kveðið er á um ábyrgð veghaldara á því að vegir sem opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar uppfylli þessar kröfur. Feli veghaldari öðrum að annast lagningu vegar, brúargerð eða jarðgangagerð ber hann allt að einu ábyrgð á því að lágmarkskröfur um hönnun mannvirkis séu uppfylltar. Jafnframt skal veghaldari gera kröfu um að þeir sem annast hönnun og eftirlit með mannvirkjagerðinni uppfylli skilyrði um faglega hæfni og ganga úr skugga um að það, til að mynda með því að krefjast viðeigandi staðfestingar eða vottorðs.

Um 43. gr.

    Hér er í 1. mgr. kveðið á um það nýmæli að veghaldari beri ábyrgð á því að vegi sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar sé við haldið með eðlilegum hætti miðað við þá umferð sem um veginn fer. Rétt þykir að taka sérstaklega fram í frumvarpinu að viðhaldsskyldan hvíli á veghaldara en ákvæði sama efnis er ekki að finna í núgildandi lögum. Ákvæði 1. mgr. getur leitt til þess að gerðar verið meiri kröfur til veghaldara um viðhaldið en samkvæmt núgildandi lögum með tilliti til þeirrar umferðar sem um veginn fer. Skyldur veghaldara eru ekki í öllum tilvikum þær sömu og fara m.a. eftir því hve mikil umferð er um viðkomandi veg. Þannig verða meiri kröfur gerðar ef um er að ræða veg með mikilli umferð en að sama skapi minni kröfur gerðar ef umferð um veg er lítil. Jafnframt yrðu minni kröfur gerðar ef einungis væri um að ræða árstíðabundna umferð. Óþarft er að taka fram að vegfarandi verður ávallt að taka mið af aðstæðum og gera t.d. ráð fyrir því að yfirborð malarvega geti verið óslétt og laust í sér og haga akstri í samræmi við það.
    Ákvæði 2. mgr. er að mestu samhljóða 1. mgr. 50. gr. núgildandi laga. Í lokamálslið 2. mgr. er áréttað að merkingar skuli vera í samræmi við ákvæði umferðarlaga.
    Samkvæmt 3. mgr. er ráðherra heimilað að setja nánari reglur um viðhald vega.

Um 44. gr.

    Samkvæmt 51. gr. gildandi vegalaga er heimilt að telja kostnað við vetrarþjónustu með öðrum viðhaldskostnaði vega. Ekki þykir nauðsynlegt að kveða sérstaklega á um þetta þar sem hefðbundið er við framsetningu vegáætlunar að greina á milli kostnaðar við vetrarþjónustu og viðhald vega. Vegagerðin hefur árum saman unnið eftir reglum um framkvæmd vetrarþjónustu á þjóðvegum. Gert er ráð fyrir að svo verði áfram og með svipuðu sniði og verið hefur. Rétt þykir að ráðherra staðfesti þær reglur sem í gildi eru hverju sinni og gefi þeim þannig formlegt gildi.
    2. mgr. 44. gr. frumvarpsins er efnislega samhljóða seinni málslið 51. gr. gildandi laga.

Um 45. gr.

    Samkvæmt þessari grein er lagt til að ráðherra fái heimild til að setja nánari reglur um upplýsingagjöf („telematik“) til vegfarenda og reglur um söfnun og veitingu upplýsinga til vegfarenda sem hafa þýðingu vegna umferðaröryggis og þróunar umferðar.
    Upplýsingar af þessu tagi, sem á ensku eru nefndar „telematik“, er hægt að nota í ýmsum tilgangi, t.d. til innheimtu veggjalda, til öryggismála, staðsetningu ökutækja og til miðlunar upplýsingar til vefarenda um færð og umferð svo eitthvað sé nefnt.
    Söfnun og miðlun upplýsinga um vegakerfið hefur verið vaxandi þáttur í starfsemi Vegagerðarinnar. Aukin áhersla er lögð á að vegfarendur hafi aðgang að nýjum og réttum upplýsingum um færð og ástand vega hverju sinni. Jafnframt er mikil áhersla lögð á söfnun upplýsinga um umferð og ástand vega til notkunar við ákvarðanatöku og áætlanagerð.

Um IX. kafla.

    Í kafla þessum er sameinað í einn kafla efni sem í núgildandi lögum er að finna annars vegar í X. kafla um viðhald þjóðvega og reglur fyrir umferð og hins vegar í XI. kafla um skemmdir á mannvirkjum o.fl. Í kaflanum er að finna ákvæði er snerta sérstaklega öryggi vega og umferðar. Rétt er að hafa í huga að víðar í frumvarpinu er að finna ákvæði þar sem aukin áhersla er á umferðaröryggi.
    Þau nýmæli eru í kaflanum að umferðaröryggi er gert hátt undir höfði og kveðið á um að allir vegir sem opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar skuli uppfylla ákveðnar kröfur í því tilliti.
    Um nánari skýringar um þetta vísast til almennrar umfjöllunar í greinargerð með frumvarpinu.

Um 46. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli og tekur til þess að vegir sem opnir eru almenningi skuli uppfylla tilteknar kröfur sem gerðar eru til umferðaröryggis. Er í greininni einnig miðað við að formfesta umferðaröryggisstjórnun vega sem ráðherra er heimilt að setja reglur um. Í umferðaröryggisstjórnun felst helst að fara skuli fram eftirfarandi:
          umferðaröryggismat á öryggisþáttum nýrra vega,
          umferðaröryggisrýni, sem felst í rýni hönnunargagna á mismunandi stigum hönnunar, lagfæring slysastaða eða svokallaðra svartbletta, sem eru staðir þar sem á sér stað mikil uppsöfnun óhappa oft af líkum toga, og
          umferðaröryggisúttekt, sem felst í því að gera reglubundnar úttektir á vegakerfinu eftir nánar útfærðum gátlistum.
    Margt af þessu er þegar unnið hjá Vegagerðinni en nú þykir nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um þetta sem skyldu í lögum þar sem öryggismál hvers konar eru mikilvægur þáttur í vegakerfi landsins.
    Ábyrgð á því að umferðaröryggis, eins og kveðið er á um í greininni, sé gætt er hjá veghaldara hvers vegflokks, eins og nánar er kveðið á um í frumvarpinu.

Um 47. gr.

    Ákvæði þetta er samhljóða 55. og 57. gr. núgildandi laga, þó með þeirri breytingu að í stað þess að ákvæðið einskorðist við Vegagerðina er lagt til að það gildi um heimild veghaldara almennt til að fjarlægja óviðkomandi hluti af vegi. Tilgangur þessa ákvæðis er að tryggja að veghaldari hafi heimildir til að fjarlægja af vegi og vegsvæði hvers kyns hluti sem þar eru skildir eftir í óleyfi til að halda vegum og vegsvæðum hreinum. Ákvörðun um nauðsyn þess að grípa til þessarar heimildar er lögð í hendur veghaldara hverju sinni.

Um 48. gr.

    Hér er kveðið á um reglur fyrir umferð og er að miklu leyti í samræmi við 52. gr. nema að í stað Vegagerðarinnar kemur veghaldari. Eðlilegt þykir að sömu heimildir séu í höndum Vegagerðarinnar og annarra veghaldara.

Um 49. gr.

    Ákvæði þetta sameinar 1. málsl. 53. gr. og 54. gr. núgildandi laga með þeirri breytingu að samræmdar eru reglur um Vegagerðina og aðra veghaldara eins og í fyrri ákvæðum. Hluti efnisatriða núgildandi ákvæða er þó felldur niður enda þar að finna atriði sem telja verður óþarft að kveða á um í vegalögum með tilliti til þess að ítarleg ákvæði annarra laga, einkum ákvæða um heilbrigðismál og umhverfisvernd, gilda um þetta efni.

Um 50. gr.

    Þetta ákvæði fjallar um lausagöngubann á lokuðum vegsvæðum og heimild til að fjarlægja búfé af þeim og er að mestu sama efnis og 56. gr. núgildandi laga. Tvær breytingar eru þó gerðar. Annars vegar er lausagöngubann ótvírætt bundið við vegsvæði sem lokuð eru fyrir ágangi búfjár, t.d. með ristarhliði. Hins vegar er heimild til að fjarlægja búfé af lokuðu vegsvæði einnig veitt öðrum veghöldurum en Vegagerðinni.

Um X. kafla.

    Í þessum kafla er fjallað um girðingar meðfram vegum landsins og er ekki um neinar verulegar efnislegar breytingar að ræða frá gildandi lögum. Ákvæðin eru nokkuð einfölduð og gerð skýrari og leitast við að hafa hér meginreglur um skyldu til að girða og um kostnaðarskiptingu en gert ráð fyrir nánari útfærslu í reglugerð.
    Nýmæli er að fjalla um undirgöng fyrir búfé og heimild Vegagerðarinnar til að taka þátt í kostnaði við þau, en slík undirgöng eru til þess fallin að bæta umferðaröryggi um þjóðvegi landsins.

Um 51. gr.

    Ákvæðið er að mestu leyti efnislega samhljóða 37. gr. núgildandi laga og er aðallega um orðalagsbreytingar að ræða.
    1. mgr. ákvæðisins er samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 37. gr. um skyldu veghaldara til að girða af vegi um tiltekið landsvæði. 2. mgr. er samhljóða 2. málsl. 1. mgr. 37. gr. um heimild veghaldara til að girða af vegi en nýmæli er að tekið sé fram að slíka heimild skuli nota m.a. til að tryggja umferðaröryggi.
    Í 3. mgr. er fjallað um heimild Vegagerðarinnar til að taka þátt í stofnkostnaði girðinga sem settar eru í ákveðnum tilgangi og er það ákvæði samhljóða 2. mgr. 37. gr. laganna.

Um 52. gr.

    Hér er fjallað um framkvæmd viðhalds og skiptingu kostnaðar við viðhald girðinga. Í ákvæðið eru teknar upp meginreglur 39. gr. núgildandi laga um það hver skuli sjá um viðhaldið og hvernig kostnaður skiptist og er ekki gert ráð fyrir að breytingar verði þar á.
    Í 8. mgr. er lagt til það nýmæli að kveða megi á um nánari útfærslu við framkvæmd á þessu í reglugerð.

Um 53. gr.

    Hér er kveðið á um bann við því að gera girðingu yfir vegi og er ákvæðið að mestu samhljóða 1. mgr. 38. gr. núgildandi laga, þó með þeirri breytingu að í stað Vegagerðarinnar kemur veghaldari. Að öðru leyti eru ekki lagðar til neinar efnislegar breytingar hvað þetta varðar.

Um 54. gr.

    Ákvæði þetta er nýmæli og fjallar um heimild Vegagerðarinnar til að taka þátt í kostnaði við gerð undirganga fyrir búfé. Áherslan er á umferðaröryggi eins og annars staðar í frumvarpinu. Augljóst er að rekstur búfjár yfir vegi landsins, og þá sérstaklega þjóðvegi, skapar mikla hættu fyrir umferð. Undirgöng geta dregið úr slysahættu af þessum völdum og því sjálfsagt að landeigendum verði gert mögulegt að gera slík undirgöng þar sem það er mögulegt og nauðsynlegt vegna umferðaröryggis. Gerð slíkra undirganga er kostnaðarsöm og því eðlilegt að Vegagerðinni verði heimilað að taka þátt í kostnaði við gerð þeirra.

Um 55. gr.

    Hér er kveðið á um heimild landeiganda til að gera girðingu yfir veg á eigin landi, þó með þeirri skyldu að hafa hlið á girðingu sem ekki má læsa eða hindra umferð á annan hátt nema með leyfi sveitarstjórnar. Ákvæði þetta er að mestu samhljóða 40. gr. núgildandi laga sem er gamalt að stofni til. Eins og áður er vikið að getur ákvæði þetta haft þýðingu varðandi heimild veghaldara einkavegar til að tálma umferð um veg.
    Sú breyting er gerð að ráðherra í stað vegamálastjóra úrskurðar um ágreining vegna ákvörðunar sveitarstjórnar samkvæmt þessu ákvæði.

Um XI. kafla.

    Kafli þessi hefur að geyma ýmis ákvæði sem ekki rúmast innan annarra kafla frumvarpsins, svo sem um bótaábyrgð og viðurlög.

Um 56. gr.

    Þetta ákvæði frumvarpsins leysir af hólmi ákvæði 2. mgr. 50. gr. núgildandi laga sem fjallar um bótaskyldu Vegagerðarinnar vegna slysa á þjóðvegum. Lagt er til að ábyrgð veghaldara verði sú sama hvort sem um er að ræða Vegagerðina, sveitarfélag eða annan aðila.
    Bótaábyrgð er samkvæmt ákvæðinu byggð á sama grundvelli og bótaskylda samkvæmt almennum bótareglum, þ.e. að gáleysi er huglægt skilyrði bótaskyldu. Hins vegar er gerð sú krafa að ökumaður hafi sýnt eðlilega varkárni við akstur umrætt sinn og er það skilyrði bótaskyldu veghaldara. Mikilvægt er með tilliti til varnaðaráhrifa bótareglunnar að gera ríkar kröfur til veghaldara jafnt sem ökumanna.
    Verði þetta ákvæði frumvarpsins að lögum leiðir það til þess að bótaskylda Vegagerðarinnar sem og annarra veghaldara verður ríkari en samkvæmt gildandi lögum. Eðlilegt verður að telja að veghaldari beri ábyrgð á mistökum starfsmanna sinna óháð því hvort um einfalt eða stórkostlegt gáleysi sé að ræða. Er því lagt til að bótaábyrgð veghaldara verði ekki takmörkuð við að tjón verði rakið til stórkostlegs gáleysis starfsmanna hans eins og í gildandi lögum. Verður að telja að sjónarmið sem áður voru viðurkennd um að takmarka eigi ábyrgð aðila sem sinna opinberri þjónustu eigi ekki lengur hljómgrunn.
    Ákvæði umferðarlaga einkennir að rík krafa er til ökumanns bifreiðar að hann hagi akstri ávallt í samræmi við aðstæður, þar á meðal ökuhraða. Mikilvægt er til að stuðla að meira öryggi í umferðinni að draga úr gáleysislegum akstri og hraðakstri. Frumvarpið miðar að því að bótareglur vegalaga endurspegli ríka ábyrgð ökumanns og eiganda ökutækis. Af þeim sökum er haldið sérreglu núgildandi laga um ríka aðgæsluskyldu ökumanns. Það skilyrði bótaábyrgðar að ökumaður hafi sýnt eðlilega aðgæslu leiðir í raun til þess að bótaskylda veghaldara fellur niður verði tjón að einhverju leyti rakið til gáleysis ökumanns.

Um 57. gr.

    Hér er kveðið á um kæruheimild og málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum.

Um 58. gr.

    Ákvæði þetta hefur að geyma almenna reglugerðarheimild, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.

Um 59. gr.

    Þessi grein samsvarar 59. og 60. gr. gildandi laga.

Um XII. kafla.

    Í þessum kafla er kveðið á um gildistöku frumvarpsins og óhjákvæmilegt brottfall laga.

Um 60. gr.

    Lagt er til að frumvarpið öðlist gildi 1. janúar 2008 og að frá sama tíma falla úr gildi núgildandi vegalög, nr. 45/1994, með síðari breytingum.Fylgiskjal I.


Sérálit þriggja fulltrúa í nefnd um endurskoðun vegalaga.

    Við undirrituð getum ekki staðið að áliti nefndarinnar að óbreyttu.
    Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var þann 27. september sl., var vinna í nefnd um endurskoðun vegalaga kynnt stjórninni og var eftirfarandi bókað:

    „Samband íslenskra sveitarfélaga er reiðubúið til að taka áfram þátt í vinnu við endurskoðun á vegalögum, m.a. að því er varðar hljóðvistarmál, almenningssamgöngur, stígagerð, fjármögnun og tekjustofna.
    Sambandið telur hins vegar alls ótímabært að færa verkefni á sviði vegamála frá ríki til sveitarfélaga, eins og drög að frumvarpi til nýrra vegalaga gera ráð fyrir, enda er það mál algerlega órætt á vettvangi sveitarfélaganna.
    Stjórnin felur fulltrúum sambandsins í vegalaganefnd að koma þessum sjónarmiðum á framfæri.“

    Eins og fram kemur í bókuninni telur stjórnin ótímabært að færa ábyrgð á safnvegum og hluta tengivega yfir til sveitarfélag þar sem málið hafi ekki fengið umfjöllun á vettvangi sveitarstjórnarmanna og tökum við undir það sjónarmið. Við leggjumst hins vegar ekki fyrir fram gegn þeirri hugmynd að færa verkefnið yfir til sveitarfélaga en til þess að svo megi verða verður fyrst að kynna það fyrir sveitarstjórnarmönnum og gefa þeim tíma og tækifæri til að ræða málið. Áður en slík kynning og umræða fer fram verður fjármögnun að liggja ljós fyrir og vera betur tryggð en gert er ráð fyrir í frumvarpsdrögunum. Til að sveitarstjórnarmenn geti tekið afstöðu til málsins er jafnframt nauðsynlegt að fyrir liggi nákvæm útfærsla á því með hvaða hætti sveitarfélögunum verður tryggt fjármagn til verksins og hvernig þeir fjármunir muni dreifast milli sveitarfélaga.
    Jafnframt gera undirritaðir nefndarmenn athugasemd við 18. og 28. gr. frumvarpsdraganna. Í 2. mgr. 18. gr. kemur fram að Vegagerðin skuli bera kostnað af mannvirkjum, sem nauðsynlegt er að setja við veg til að skýla byggð fyrir umferðarhávaða, ef um er að ræða lagningu nýs þjóðvegar um svæði þar sem byggð hefur þegar verið skipulögð og vegi er valinn staður að ósk Vegagerðarinnar. Þá kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að sveitarfélög skuli bera kostnað af mannvirkjum skv. 2. mgr. þegar byggð er skipulög að þjóðvegi, sem fyrir er eða ákveðinn hefur verið á staðfestu skipulagi samtímis eða áður en byggð er skipulögð, og þegar vegi er valinn staður við byggð sem fyrir er að ósk sveitarfélags.
    Einnig gerum við athugasemd við 28. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að ef þjóðvegi er að ósk sveitarstjórnar valinn annar staður en Vegagerðin telur æskilegt og það leiðir til aukins kostnaðar sé heimilt að krefja viðkomandi sveitarfélaga um kostnaðarmun.
    Í báðum þessum greinum er gert ráð fyrir því að sveitarfélög verði að greiða fyrir þjóðveg sé ekki farið að óskum Vegagerðarinnar. Vegagerðin, og ríkið þar með, er með þessu fyrirkomulagi algjörlega leyst undan því að taka tillit til aðstæðna og hagsmuna þess samfélags sem vegir eiga að þjóna og fara í gegnum. Vegagerðinni er falið algjört vald til að ákveða staðsetningu og legu vega án þess að Vegagerðinni sé á nokkurn hátt skylt að taka tillit til annarra hagsmuna en þröngra fjárhagslegra eigin hagsmuna sinna.
    Slíkt fyrirkomulag er með öllu óviðunandi fyrir sveitarfélögin í landinu.
    Hafa verður í huga að samkvæmt íslenskri stjórnskipan eru það sveitarstjórnir sem hafa það hlutverk að lögum að gæta hagsmuna þeirra sem í viðkomandi sveitarfélagi búa. Það er bæði nauðsynlegt og eðlilegt að ríkið taki fullt tillit til sjónarmiða sveitarstjórna þegar kemur að vegamálum enda búi málefnaleg sjónarmið þar að baki. Við teljum því rétt að Vegagerðin standi straum af kostnaði sem fjallað er um í 18. og 28. gr. frumvarpsdraganna.

Reykjavík, 20. október 2006

_______________________
Halldór Halldórsson
sign.

_______________________
Elín R. Líndal
sign.

_______________________
Árni Þór Sigurðsson
sign.
Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til vegalaga.

    Markmiðið með frumvarpinu er að skilgreina nánar ábyrgð í veghaldi og stuðla að öruggum samgöngum. Helstu atriði sem koma fram í frumvarpinu eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi er lögð til breytt flokkun vega þar sem m.a. er kveðið á um stöðu almennra stíga. Í öðru lagi er lagt til að Vegamálastjóri hafi skýra heimild til að framselja veghald til þriðja aðila. Í þriðja lagi er lagt til að heimild til gjaldtöku vegna byggingar og rekstur samgöngumannvirkja verði almenn í stað sérstakrar lagasetningar fyrir slíka gjaldtöku vegna einstaka verkefna. Í fjórða lagi er lagt til að heimilt verði að veita fé til almennra stíga af fjárveitingum til vegagerðar. Í fimmta lagi er lagt til að hlutverk Vegagerðarinnar sem umsagnaraðila um áhrif skipalags á umferð um þjóðvegi verði skýrt nánar. Í sjötta lagi eru skyldur vegagerðarinnar vegna eignarnáms áréttað. Í sjöunda lagi eru reglur um girðingar með vegum einfaldaðar og skýrðar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.