Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 568  —  276. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og l. nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Elísabetu Guðbjörnsdóttur, Dórótheu Jóhannsdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Sigurjón Högnason frá embætti ríkisskattstjóra, Gunnlaug Júlíusson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins og Davíð Þorláksson frá Viðskiptaráði. Nefndinni hafa auk þess borist umsagnir um frumvarpið.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt og jafnframt ein breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Lagt er til að frá og með 1. janúar 2007 lækki tekjuskattur einstaklinga um 1% í stað þess að lækka um 2% eins og gert var ráð fyrir samkvæmt lögum nr. 129/2004, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og fleiri lögum. Lögð er til breyting á aldursmarki barnabóta þannig að það hækki úr 16 í 18 ár. Þá er í frumvarpinu lagt til að neðra aldursmark ívilnunar vegna útgjalda til menntunar hækki í 18 ár. Einnig er lagt til að fjárhæðir persónuafsláttar, sjómannaafsláttar og vaxtabóta hækki frá 1. janúar 2007 og sömuleiðis að fjárhæðir persónuafsláttar taki árlega hækkunum til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs. Lagt er til að greiðslur til erlendra aðila vegna leigu loftfara og skipa verði undanþegnar skattskyldu. Þá er lagt til að þær greiðslur verði undanþegnar skattskyldu sem foreldrar eða forráðamenn fá frá sveitarfélagi vegna umönnunar barns frá þeim tíma er fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskóla- eða grunnskólanám hefst. Jafnframt er lagt til að arður sem úthlutað er milli aðila sem eru samskattaðir skv. 55. gr. tekjuskattslaga verði undanþeginn staðgreiðslu í þann tíma sem samsköttun varir. Að lokum má nefna að lögð er til breyting á 9. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga, um frádrátt frá tekjum í atvinnurekstri, þannig að ákvæðið taki einnig til ríkja sem ekki eru aðilar að Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) en eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Eins og að framan greinir er með frumvarpinu lagt til að tekjuskattur einstaklinga lækki um áramótin um 1% í stað 2% lækkunar sem þegar hafði verið lögfest. Einnig er lagt til að um áramót hækki persónuafsláttur einstaklinga úr 29.029 kr. á mánuði í 32.150 kr. á mánuði. Við þetta hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr. Er jafnframt lagt til að persónuafsláttur verði endurskoðaður árlega, sbr. framangreint. Þessar breytingar, auk þeirrar breytingar að barnabætur verði greiddar til 18 ára aldurs í stað 16 ára, eiga rætur sínar að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 22. júní sl. til að greiða fyrir samkomulagi ASÍ og SA um áframhaldandi gildi kjarasamninga.
    Nefndin ræddi um ákvæði 2. gr. frumvarpsins, þ.e. um undanþágu frá skattskyldu vegna greiðslna sem foreldrar eða forráðamenn barna fá frá sveitarfélögum til að annast heima börn á tilteknum aldri. Um er að ræða hlunnindi sem flestir forráðamenn barna njóta en hafa ekki verið skattlögð sem slík vegna félagslegs eiginleika þeirra. Þegar þessi hlunnindi eru greidd út í peningum er ekki eðlilegt að þau séu skattlögð. Þau sjónarmið voru rædd hvort það sama ætti ekki að gilda um aðrar greiðslur eða ávísanir frá hinu opinbera sem ætlað er að greiða almennt fyrir opinbera þjónustu eins og tónlistarkennslu eða jafnvel grunnskólakennslu, sbr. einkaskóla. Þá var rætt um hver hugsunin almennt væri á bak við það að sumar greiðslur frá opinberum aðilum eru skattfrjálsar en aðrar ekki. Almennt er stefnan sú að hafa undanþágur skattalaga sem fæstar og skulu þær jafnframt skýrðar þröngt með tilliti til þess að jafnræði sé með borgurunum.
    Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Annars vegar er um að ræða breytingar á fjárhæðum 8. gr. frumvarpsins til samræmis við nýsamþykkt lög um breytingu á lágmarki eignaviðmiðunar til skerðingar á vaxtabótum (þskj. 465 á 133. löggjafaþingi). Hins vegar er lagt til að 4. gr. frumvarpsins falli brott þannig að áfram verði heimilt að lækka tekjuskattsstofn manns sem hefur veruleg útgjöld af menntun barna sinna 16 ára og eldri en ekki 18 ára og eldri eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Pétur H. Blöndal og Birgir Ármannsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 7. des. 2006.


Pétur H. Blöndal,

form., frsm.,

með fyrirvara.

Dagný Jónsdóttir.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.Ásta Möller.


Sæunn Stefánsdóttir.