Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 276. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 570  —  276. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/203, um tekjuskatt, og l. nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Meginbreytingar frumvarpsins fela í sér að hrundið er í framkvæmd yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. júní sl. sem tengist samkomulagi ASÍ og SA um áframhaldandi gildi kjarasamninga. Með frumvarpinu er tekjuskattur einstaklinga lækkaður um 1% í stað 2% eins og áformað var. Í stað þess er lagt til að persónuafsláttur einstaklinga hækki úr 29.029 kr. á mánuði í 32.150 kr. Við þessa breytingu hækka skattleysismörkin úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr.
    Minni hlutinn vekur líka athygli á því að í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur fram að hugmyndin á bak við breytingarnar var að fallið yrði frá lækkun annars af þeim tveimur prósentustigum tekjuskatts sem lögfest höfðu verið og að persónuafsláttur yrði hækkaður sem næmi tekjum ríkissjóðs af einni tekjuskattsprósentu. Orðrétt segir síðan: „Í því ljósi er eðlilegt að fjárhæð persónuafsláttar verði endurskoðuð til hækkunar þannig að formbreyting skattalækkunarinnar úr skatthlutfalli persónuafsláttar verði hlutlaus fyrir ríkissjóð.“ ASÍ tók í sama streng við umfjöllun nefndarinnar um málið. Minni hlutinn leggur til að ígildi 1% tekjuskattslækkunar skili sér að fullu í hækkun persónuafsláttar, en þá hækka skattleysismörkin í 91.167 kr. á mánuði. Ekki vannst tími til að skoða hvaða áhrif það hefði á einstaka tekjuhópa ef ígildi 2% tekjuskattslækkana rynni að fullu til að hækkunar á skattleysismörkum, en það hefði verið æskilegt sem fyrsti áfangi á þeirri leið að hækka þau verulega.
    Bæði ASÍ og stjórnarandstaðan hafa gert kröfu um að fallið yrði frá áformum í 4. gr. frumvarpsins. Sú grein felur í sér að heimild í 65 gr. skattalaga til að lækka tekjuskattsstofn vegna verulegra útgjalda vegna menntunar 16–21 árs barna verði breytt á þann veg að einungis verði hægt að beita þessum skattaívilnunum vegna 18–21 árs barna. Þessi áform ríkisstjórnarinnar hefðu bitnað sérstaklega á fjölskyldum á landsbyggðinni sem þurfa að senda börn sín um langan veg í framhaldsskóla, en vitaskuld hafa þessar skattaívilnanir einnig gagnast mjög fjölskyldum á höfuðborgarsvæðinu en þær geta að hámarki numið 204 þús. kr. á ári. Ástæða er til að fagna því að stjórnarliðar féllust á röksemdir ASÍ og stjórnarandstöðunnar í þessu máli, en við lokaafgreiðslu málsins í nefnd var fallið frá þessum áformum.
    Minni hlutinn leggur til úrbætur á vaxtabótum sem skertar hafa verið verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar með margvíslegum aðgerðum sem nánar verður gerð grein fyrir við 2. umræðu málsins. Hér er lögð til lágmarksleiðrétting þannig að viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta haldi raungildi sínu á árinu 2007 frá árinu 2005. Til þess þurfa viðmiðunarfjárhæðirnar að hækka um 12% í stað 6% eins og stjórnarflokkarnir leggja til.
    Minni hlutinn telur að í heimgreiðslum felist alvarleg stefnubreyting á sviði jafnréttismála og í málum ungbarnafjölskyldna. Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að greiðslur sem foreldrar eða forráðamenn barna fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima séu undanþegnar skattskyldu. Þessar greiðslur eru aðallega hugsaðar fyrir tímabilið eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið verður tveggja ára. Þær eru valkvæðar og yfirleitt er fyrirkomulagið þannig að foreldrar geta ákveðið hvort þeir fá þessar heimgreiðslur eða nýta sér leikskólapláss eða þjónustu dagmæðra. Í Noregi hafa slíkar greiðslur verið í gildi um tíma en nú íhuga Norðmenn að leggja þær af þar sem þær hafa nær eingöngu verið nýttar af mæðrum og því stuðlað að því að konur hverfi af vinnumarkaðnum sem vinnur gegn jafnrétti kynjanna.
    Ef sveitarfélögin innleiða heimgreiðslur og þær festast í sessi er full ástæða til að óttast að það geti leitt til bakslags í jafnréttisbaráttunni. Þær geta líka seinkað því að framþróun verði á fæðingarorlofslögunum eða uppbyggingu leikskólaplássa fyrir yngri börn sem nú hafa ekki aðgang að leikskóla. Auk þess tryggja þessar greiðslur sem eru um 30 þús. kr. á mánuði engan veginn að því markmiði sé náð sem sett er fram með þessum greiðslum, þ.e. að styðja við foreldra sem leggja áherslu á að vera með börnum sínum eftir að fæðingarorlofi lýkur. Minni hlutinn telur að fremur eigi að vinna að því að lengja fæðingarorlof t.d. í 15 mánuði og að börn komist á leikskóla við 15 mánaða aldur. Fyrir Alþingi liggur nú tillaga um að fara þá leið. Félagsmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga yrði samkvæmt henni falið að kanna hvernig auka megi þjónustu við ungbarnafjölskyldur frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn kemst á leikskóla.
    Einnig er ástæða til að benda á að með því að opna fyrir skattfrelsi heimgreiðslna er verið að hola skattkerfið með undanþágu sem ekki er séð hvert leiðir. Einsýnt er að fleiri sambærilegar greiðslur ættu þá líka að vera undanþegnar skatti. Nærtækasta dæmið eru greiðslur til foreldra sem ekki geta verið á vinnumarkaði vegna langveikra barna sinna. Nái þessi áform meiri hlutans fram að ganga við 2. umræðu málsins er einboðið að minni hlutinn mun við 3. umræðu flytja tillögu um sambærilegt skattfrelsi greiðslna til foreldra langveikra barna. Auk þess er rétt að benda á að í umsögn ríkisskattstjóra er vakin athygli á að ekki eru undanþegnar skattskyldu bætur til maka eða annars er heldur heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega, sem greiddar eru á grundvelli 5. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, en slíkar bætur ráðast meðal annars af umönnunarþörf lífeyrisþega. Einnig má benda á að fjárhagsstyrkir sveitarfélaga eru af þeim toga að þeir ættu að vera undanþegnir skattskyldu ef verið er að opna þessa leið eins og lagt er til af hálfu meiri hlutans.
    Minni hlutinn flytur einnig breytingartillögu um að arður frá einu hlutafélagi til annars verði undanþeginn staðgreiðslu enda er arður milli hlutafélaga undanþeginn tekjuskatti skv. 9 tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Á það var bent af umsagnaraðila að telja verði óeðlilegt að haldið sé eftir staðgreiðsluskatti af arðstekjum hlutafélaga. Tekjur þessar má draga frá tekjuskattsstofni slíkra félaga og því er haldið eftir skatti af tekjum sem í raun eru ekki skattskyldar. Í frumvarpinu er einungis gert ráð fyrir að ekki verði þörf á að halda eftir fjármagnstekjuskatti af arði sem úthlutað er milli þeirra félaga sem samsköttuð eru en minni hlutinn leggur til að þetta ákvæði nái einnig til arðgreiðslna milli hlutafélaga sem eru hvort sem er undanþegin skattskyldu en haldið eftir í staðgreiðslunni.
    Minni hlutinn flytur nokkrar breytingartillögur í samræmi við þau sjónarmið sem sett hafa verið fram í þessu áliti, og ítrekar hversu alvarleg stefnubreyting felst í 2. gr. frumvarpsins.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. des. 2006.


Jóhanna Sigurðardóttir,

frsm.

Ágúst Ólafur Ágústsson.

Ögmundur Jónasson.


Lúðvík Bergvinsson.