Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 390. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 580  —  390. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt á l. um Flugmálastjórn Íslands, nr. 100/2006.

Frá samgöngunefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Karl Alvarsson og Kristrúnu Lind Birgisdóttur frá samgönguráðuneytinu, Árna Gunnarsson frá Icelandair Group og Lárus Atlason frá Air Atlanta.
    Í frumvarpinu er lagt til að breyta gjaldaákvæðum laganna og undirbyggja heimildir Flugmálastjórnar Íslands til gjaldtöku en fella niður á móti skattlagningarheimildir sem ekki er lengur þörf á í lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, og lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, með síðari breytingum. Gjaldtakan er m.a. vegna vottunar, starfsleyfa, skírteina og eftirlits.
    Flest þeirra gjalda sem upp eru talin í frumvarpinu eiga sér fyrirmynd í núgildandi lögum og gjaldskrá. Til þess að gera gjaldtökuna eins skýra og og gagnsæja og mögulegt er að þessu leyti er sett fram eitt ákvæði er telur upp þau gjöld sem heimilt er að innheimta.
    Fram kom í máli fulltrúa flugrekenda sem komu á fund nefndarinnar að ákveðinn ótti er á meðal þeirra um að gjöld muni hækka og álögur aukast á flugrekendur eftir að frumvarpið verður að lögum. Þótt það hafi ekki komið beint fram í máli þeirra má alltaf gera ráð fyrir að slíkar hækkanir leiði til fækkunar skráninga á flugvélum. Nefndin tekur undir með flugrekendum hvað þetta varðar og leggur jafnframt mikla áherslu á að hækkunum á gjöldum og auknum álögum á flugrekendur þurfi að stilla í hóf. Þá leggur nefndin áherslu á að við kynningu á gjaldskrá verði haft gott samstarf og samráð við flugrekendur.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir og Guðjón A. Kristjánsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Kristján L. Möller og Anna Kristín Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 29. nóv. 2006.


Guðmundur Hallvarðsson,

form., frsm.

Hjálmar Árnason.

Guðjón Hjörleifsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,

með fyrirvara.

Sigurrós Þorgrímsdóttir.

Jón Kristjánsson.


Guðjón A. Kristjánsson,

með fyrirvara.