Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 590  —  428. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum.

Frá félagsmálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sesselju Árnadóttur frá félagsmálaráðuneyti, Sigurð P. Sigmundsson frá Vinnumálastofnun, Karl Steinar Guðnason og Hallveigu Thordarson frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Meginmarkmið frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að laga ýmis ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, að því breytta fyrirkomulagi sem felst í yfirtöku Vinnumálastofnunar á rekstri fæðingarorlofssjóðs sem fram til þessa hefur verið í höndum Tryggingastofnunar. Í öðru lagi að fellt verði úr sömu lögum ákvæði sem girðir fyrir rétt foreldris til umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, hafi það notið greiðslna í fæðingarorlofi vegna sama barns eða sömu fæðingar. Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að leita umsagnar ótilgreinds aðila við mat á nauðsyn á lengingu fæðingarorlofs og nauðsyn á lengingu á rétti til fæðingarstyrks í stað þess að fela tryggingayfirlækni ákvörðunarvald um þessi efni.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að Vinnumálastofnun hefur að undanförnu unnið að undirbúningi hinnar nýju starfsemi sem til stendur að verði að mestu rekin á Hvammstanga. Þar munu starfa níu manns en auk þess verða tvö stöðugildi í Reykjavík. Stofnkostnaðurinn er áætlaður 37 millj. kr. en umsýslukostnaður samkvæmt fjárlögum næsta árs er 52 millj. kr. Var það gagnrýnt að síðarnefnda fjárhæðin hefur haldist nær óbreytt frá árinu 2001 þrátt fyrir að í raun sé rekstrarkostnaður meiri sem nemur tugum milljónum. Ítrekað hafi verið bætt úr með heimild í fjáraukalögum.
    Nefndin álítur að gætt hafi tregðu hjá fjárveitingavaldinu að viðurkenna aukin umsvif fæðingarorlofssjóðs og mælist til þess að við næstu fjárlagagerð verði tekið meira tillit til raunverulegs kostnaðar Vinnumálastofnunar af rekstri sjóðsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Pétur H. Blöndal skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Einar Oddur Kristjánsson og Magnús Þór Hafsteinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 7. des. 2006.


Dagný Jónsdóttir,

form., frsm.

Guðjón Hjörleifsson.

Jóhanna Sigurðardóttir.


Össur Skarphéðinsson.

Helgi Hjörvar.

Pétur H. Blöndal,

með fyrirvara.


Birkir J. Jónsson.