Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 376. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 603  —  376. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Með lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. voru veitt fyrirheit um aukið fjármagn til sérstakra samfélagsverkefna sem brunnu mjög á fólki en höfðu verið fjársvelt. Eitt þessara verkefna voru brýnar vegaframkvæmdir bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Íbúar hvar sem er á landinu hafa miklar væntingar um að staðið verði við tímasett loforð og yfirlýsingar um einstakar vegaframkvæmdir sem Alþingi hefur samþykkt á samgönguáætlun. Fjármagn til framkvæmda samkvæmt gildandi samgönguáætlun hefur þó verið skorið niður á hverju ári sl. þrjú ár og nemur sá niðurskurður nú samtals hátt á sjöunda milljarð króna.
    Síðastliðið sumar ákvað ríkisstjórnin að fresta útboðum og nýframkvæmdum í vegamálum til að slá á þenslu í þjóðfélaginu. Samtals nam sú frestun á annan milljarð króna og bitnaði harðast á fyrirhuguðum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Sú þensla sem verið var að bregðast við er af allt öðrum orsökum en vegaframkvæmdum og er síst til staðar á Vestfjörðum og Norðausturlandi þar sem framkvæmdum var fyrst og fremst frestað.
    Með þessu frumvarpi um breytingu á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. er enn verið að fresta fjárframlögum til vegaframkvæmda sem lofað hafði verið á árinu 2007. Er hér m.a. um að ræða um 200 millj. kr. niðurskurð á vegagerð um Arnkötludal og hins vegar um 300 millj. kr. niðurskurð á vegagerð um Norðausturveg auk verkefna á höfuðborgarsvæðinu.
    Rök forsætisráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu voru þau að þessi frestun á vegaframkvæmdum væri til að bregðast við mikilli þenslu í þjóðfélaginu árið 2007. Samtímis gefa svo bæði fjármálaráðherra og samgönguráðherra yfirlýsingar og hafa áform um nýjar og brýnar vegaframkvæmdir á næsta ári sem ekki eru á núgildandi samgönguáætlun. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að ný og endurskoðuð samgönguáætlun skuli ekki hafa verið lögð fram og rædd á Alþingi áður en fjárlög fyrir árið 2007 eru afgreidd eða samþykkt ný lög sem kveða á um frestun á framkvæmdum sem lofað var á næsta ári og Alþingi hafði áður samþykkt.
    Í frumvarpinu er gerð tillaga um að flytja 500 millj. kr. fjárframlag til fjarskiptasjóðs frá árinu 2007 til 2006 og er sótt til þess heimild á fjáraukalögum 2006. Ítrekað hefur verið spurt hvaða verkefni fjarskiptasjóðs séu gjaldfallin á árinu 2006. Ekki hafa fengist nein svör við því.
    Þá fékkst frumvarpið ekki sent til umsagnar, hvorki til sveitarfélaga á þeim svæðum sem frestun á fé til vegaframkvæmda bitnar á né heldur til Vegagerðarinnar. Samgöngunefnd fékk málið ekki einu sinni til umsagnar. Minni hlutinn gagnrýnir alla meðferð þessa máls af hálfu ríkisstjórnar og meiri hluta fjárlaganefndar.
    Ljóst er því að málatilbúnaður allur um sérstaka ráðstöfun á hluta söluandvirðis Símans mörg ár fram í tímann til skilgreindra verkefna var algjör sýndarmennska af hálfu ríkisstjórnarflokkanna eins og stjórnarandstaðan benti á við afgreiðslu þess lagafrumvarps á sínum tíma.

Alþingi, 7. des. 2006.

Jón Bjarnason,

frsm.

Einar Már Sigurðarson.

Katrín Júlíusdóttir.


Helgi Hjörvar.

Guðjón A. Kristjánsson.